Hæstiréttur íslands

Mál nr. 460/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Mánudaginn 7. september 2015.

Nr. 460/2015.

Ingvi Steinn Jóhannsson

(Kristján B. Thorlacius hrl.)

gegn

íslenska ríkinu og

tollstjóra

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

I höfðaði mál gegn Í og T og krafðist viðurkenningar á svonefndum frítökurétti, sem hann taldi sig hafa áunnið sér á tímabilinu 2001 til 2005 í starfi sínu hjá T. Með hinum kærða úrskurði var máli I vísað frá dómi þar sem héraðsdómur taldi að málatilbúnaður I í stefnu væri í andstöðu við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ótvírætt kæmi fram í stefnu á hvaða málsástæðum I reisti kröfu sína. Þá kæmi fram á skjali, sem I lagði fram við þingfestingu málsins, á hvaða dögum og á grundvelli hvaða kjara­samnings­ákvæða frítökurétturinn hefði stofnast hverju sinni að mati I. Var einnig tekið fram að ágallar á málatilbúnaði I hefðu ekki leitt til þess að Í og T hefðu átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu. Þá myndi I eiga þess kost undir rekstri málsins í héraði að leggja fram frekari gögn um ætlaðan rétt sinn og leiða vitni. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2015 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar en til vara að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði látinn niður falla.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta til viðurkenningar á svonefndum frítökurétti, sem hann telur að sig hafa áunnið sér á tímabilinu 16. júní 2001 til 11. desember 2005. Kröfuna reisir hann á tilgreindum ákvæðum í kjarasamningum, sem giltu á tímabilinu, en í hinum kærða úrskurði er gerð skilmerkilega grein fyrir því á hvaða grundvelli frítökuréttur geti stofnast. Var aðalkrafa sóknaraðila um viðurkenningu á áunnum frítökurétti, sem nam 495,6 vinnustundum, en varakrafan um að hann hefði á hinu tilgreinda tímabili áunnið sér frítökurétt, án þess að tilgreindur væri nokkur vinnustundafjöldi.

Í stefnu reifaði sóknaraðili með hvaða hætti frítökuréttur gæti stofnast samkvæmt þeim kjarasamningum sem giltu um starf hans á tímabilinu. Hann reifaði einnig með almennum hætti hvernig frítökuréttur hans stofnaðist án þess þó að tilgreina þann vinnustundafjölda sem stofnast hefði á grundvelli hvers hinna tilgreindu kjarasamningsákvæða. Við þingfestingu málsins lagði hann fram skjal þar sem fram kom útreikningur hans á uppsöfnuðum frítökurétti á því tímabili sem um ræðir. Í því er að finna mat hans á því á grundvelli hvaða kjarasamningsákvæða frítökurétturinn hafi stofnast hverju sinni.

Þótt fallast megi á með héraðsdómi að heppilegra hefði verið að sóknaraðili sundurliðaði í stefnu hvernig frítökuréttur hans hefði stofnast og vísaði um það til viðeigandi ákvæða kjarasamninga verður ekki framhjá því litið að ótvírætt kemur fram í stefnu á hvaða málsástæðum hann reisir kröfu sína. Þá kemur fram á framangreindu skjali á hvaða dögum og á grundvelli hvaða kjarasamningsákvæða frítökurétturinn hafi að hans mati stofnast hverju sinni. Þeir ágallar sem í héraðsdómi eru réttilega taldir vera á málatilbúnaði sóknaraðila hafa ekki leitt til þess að varnaraðili hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu. Þá mun sóknaraðili eiga þess kost undir rekstri málsins í héraði að leggja fram frekari skjalleg gögn um ætlaðan rétt sinn og leiða vitni. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Í ljósi þessara málsúrslita verða varnaraðilar dæmdir óskipt til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði í þessum þætti málsins og kærumálskostnað, sem ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Varnaraðilar, íslenska ríkið og tollstjóri, greiði óskipt sóknaraðila, Ingva Steini Jóhannssyni, 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2015.

                Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar, 5. maí 2015, um þá kröfu stefndu að kröfum stefn­anda verði vísað frá dómi, er höfðað af Ingva Steini Jóhannssyni, kt. 080279-3619, Tunguvegi 6, Reykjanesbæ, með stefnu birtri 22. maí 2014 á hendur íslenska ríkinu, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík og Tollstjóra, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að hann hafi áunnið sér frítökurétt, alls 495,6 vinnustundir, samkvæmt grein 2.4.5 í kjarasamningi Toll­varða­félags Íslands og stefnda ríkissjóðs vegna starfa sinna hjá embætti Sýslu­manns­ins á Keflavíkurflugvelli og embætti Tollstjóra á tímabilinu 16. júní 2001 til og með 11. des­em­ber 2005.

                Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að hann hafi áunnið sér frítökurétt samkvæmt grein 2.4.5 í kjarasamningi Tollvarðafélags Íslands og stefnda ríkissjóðs vegna starfa sinna hjá embætti Sýslumannsins á Kefla­víkur­flug­velli og embætti Tollstjóra á tímabilinu 16. júní 2001 til og með 11. desember 2005.

                Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu auk virðis­auka­skatts af málflutnings­þóknun.

                Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og þeim dæmdur máls­kostnaður úr hendi stefnanda.

                Þeir krefjast til vara sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og máls­kostnaðar úr hendi hans.

                Til þrautavara krefjast þeir þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og máls­kostnaður verði látinn falla niður.

                Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að kröfu stefndu um vísun málsins frá dómi verði hafnað.

                Hann krefst málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins sérstaklega.

Málsatvik

                Stefnandi er tollvörður og hefur gegnt því starfi frá maímánuði 2001, með starfs­stöð á Kefla­víkurflugvelli.

                Með lögum nr. 46/2006, sem öðluðust gildi 1. janúar 2007, voru lögreglu­embættin í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli sameinuð undir einni stjórn Lögreglu­stjór­ans á Suðurnesjum sem jafnframt varð Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Með lögum nr. 34/2008 um Varnarmálastofnun, sem tóku gildi 31. maí 2008, var embætti Sýslu­mannsins á Keflavíkurflugvelli lagt niður. Með lögum nr. 147/2008, sem gengu í gildi 1. janúar 2009, varð landið eitt tollumdæmi.

                Upphaflega starfaði stefnandi hjá embætti Sýslumannsins á Kefla­víkur­flug­velli en varð starfsmaður embættis Tollstjóra þegar því var falin yfirstjórn starfa allra toll­varða með lögum nr. 147/2008. Við lagabreytinguna tók embætti Tollstjóra við rétt­indum og skyldum gagnvart öllum tollvörðum og er því stefnt í þessu máli þótt dóm­krafan taki til tímabils sem var liðið þegar embættið var stofnað.

                Stefndu taka fram að sam­kvæmt gögnum úr tímaskráningarkerfinu Tíma­meist­ar­anum hafi stefnandi í fyrstu starfað í sumarafleysingum sem toll­vörður hjá Sýslu­mann­inum á Kefla­vík­ur­flug­velli. Árið 2001 hafi hann starfað frá maí til ágúst­loka og árið 2002 á tíma­bilinu maí til septemberloka. Það hafi ekki verið fyrr en 27. maí 2003 að hann var ráðinn í fullt, fast starf.

                Á því tímabili sem krafa stefnanda tekur til, 16. júní 2001 til og með 11. des­em­ber 2005, fóru launakjör hans eftir kjara­samn­ingi Tollvarðafélags Íslands og stefnda, ríkisins, sem var undir­rit­aður 31. maí 2001 og gilti frá 1. maí 2001 til 30. nóv­em­ber 2005 og kjara­samn­ingi sömu aðila undirrituðum 6. júní 2005 sem gilti frá 1. maí 2005 til 31. okt­óber 2008.

                Hvíldar- og frítökuréttarákvæði eru í undirkafla 2.4 í báðum kjarasamningum. Þar er nánar tiltekið að tollverðir skuli á hverjum sólarhring fá 11 tíma sam­fellda hvíld. Komi til þess að vinnuveitandi óski eftir því að vikið verði frá þessum hvíld­ar­tíma stofn­ast frítökuréttur samkvæmt grein 2.4.5 sem nemur 1,5 klukkustundum fyrir hverja klukku­stund sem hvíldin skerðist. Sömuleiðis er samið um að vinni tollvörður það lengi á undan frídegi eða helgi að hann fái ekki 11 tíma hvíld, miðað við venju­bundið upp­haf vinnu­dags, stofnist einnig frítökuréttur. Jafnframt er skylt að tilgreina á launa­seðli hversu mikill frítökuréttur hafi safnast upp. Enn fremur segir að frí­töku­réttur fyrn­ist ekki. Í kjara­samn­ingnum er einnig tekið fram að frítökuréttur skuli veittur í sam­ráði við starfs­mann og að leitast skuli við að veita frí svo fljótt sem auðið er eða á reglu­bund­inn hátt til þess að koma í veg fyrir að frí safnist upp.

                Að sögn stefnanda bað vinnuveitandi hans hann ítrekað, frá gildistöku frí­töku­rétt­ar­ákvæðisins, að koma til vinnu áður en fullri 11 klukkustunda hvíld var náð. Jafn­framt hafi hann komið til vinnu áður en honum bar samkvæmt vaktskrá, unnið meira en 16 klukku­stundir á sólarhring og unnið lengur þannig að hann næði ekki 11 klukku­stunda lágmarkshvíld fyrir venju­bundið upphaf næsta vinnudags eða frídags. Með hlið­sjón af þessu telji stefn­andi ótví­rætt að hann hafi eignast töluverðan frí­töku­rétt á tíma­bilinu 16. júní 2001 til 11. des­em­ber 2005. Samkvæmt útreikn­ingum stefn­anda, sem bygg­ist á gögnum úr launa­kerfum Sýslumannsins á Kefla­víkur­flugvelli og Toll­stjóra, nemi uppsafnaður frí­töku­réttur hans á þessu tímabili 495,6 klukku­stundum.

                Að sögn stefnanda virtu stefndu, Tollstjóri og Sýslumaðurinn á Kefla­víkur­flug­velli og starfs­mannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins, ekki þetta hvíldar­tíma­ákvæði. Frí­töku­rétturinn hafi fyrst verið tilgreindur á launaseðlum félags­manna Toll­varða­félags Íslands í maí 2010, eftir ítrekaðar áskoranir félagsins, en þá ein­vörð­ungu frí­töku­réttur sem stofnast hafði frá og með 1. janúar 2009. Upp­safn­aður frí­töku­réttur fyrir þann tíma, á tímabilinu frá 1. september 1997 til 31. des­ember 2008, hafi hins vegar ekki verið tilgreindur á launaseðli stefnanda.

                Stefndu árétta að samkvæmt upplýsingum Tollstjóra hafi yfirtollvörður á Kefla­víkur­flug­velli, Kári Gunnlaugsson, reiknað upp frítökurétt tollvarða á þeirri starfs­stöð frá þeim tíma sem tímaskráningarkerfið Vinnustund var tekið í notkun á Kefla­víkur­flugvelli, 12. des­em­ber 2005, og hafi uppsafnaður frítökuréttur allt frá þeim degi komið fram á launaseðlum starfsmanna frá og með launaseðlum í maí 2010. Því sé ekki rétt hjá stefnanda að ekki hafi verið gerð grein fyrir frítökurétti tollvarða á launa­seðlum þeirra fyrr en 1. janúar 2009 eins og stefnandi haldi fram.

                Stefnandi víkur að því að lögmaður Tollvarðafélags Íslands hafi fyrir hönd félags­manna ritað stefnda, íslenska ríkinu, bréf, 11. október 2010, og farið fram á að stefndi veitti upp­lýsingar um hvíld­ar­tíma þeirra tollvarða sem leitað hefðu til félags­ins. Hafi stefnda verið gefinn frestur til 30. októ­ber 2010 í þessu skyni. Stefndi hafi ritað lög­manni félagsins bréf, 26. októ­ber 2010, og tilkynnt að hann hefði vísað erindi félags­ins til með­stefnda, Toll­stjóra. Með bréfi, 8. nóvem­ber 2010, hafi meðstefndi upp­lýst að hann hefði spurst fyrir um málið hjá Lögreglu­stjór­anum á Suðurnesjum. Toll­varða­félagið hafi ítrekað erindi sitt til meðstefnda með bréfum lögmanns félagins, 10. desember 2010, og 18. janúar og 10. febrúar 2011. Stefnandi segi einu við­brögð með­stefnda hafa verið að ítreka fyrirspurn sína til Lögreglustjórans á Suður­nesjum.

                Lögmaður Tollvarðafélagsins ritaði stefnda bréf, 18. nóvember 2011, og gerði alvar­legar athugasemdir við aðgerðarleysi stefnda og meðstefnda við að gangast við rétt­indum félagsmanna og yfirhöfuð svara bréfum félagsins. Stefndi hafi vísað erind­inu áfram til meðstefnda með bréfi, 2. desember 2011, og upp­lýst að þetta mál væri alfarið á forræði hans. Lögmaður Tollvarðafélagsins hafi enn á ný ítrekað erindi sitt til meðstefnda með bréfi, 7. desember 2011 og jafn­framt gert alv­ar­legar athugasemdir við málsmeðferð stefnda og meðstefnda. Í kjöl­farið hafi  lög­manni félagsins borist svar meðstefnda í tölvupósti, þ.e. afrit af bréfi dags. 1. des­em­ber 2011.

                Í bréfinu hafi erindi Tollvarðafélagsins verið hafnað á forsendum sem komi fram í minnisblaði Kára Gunnlaugssonar, 27. október 2010. Forsendur meðstefnda og þar með stefnda fyrir synjun á erindi stefnanda, hafi verið þær að félags­menn Toll­varða­félags­ins hafi sjálfir óskað eftir því að vinna á umræddum tímum og þannig brotið gegn hvíldarákvæði. Af þeim sökum væri stefnda ekki skylt að „greiða“ frí­töku­rétt samkvæmt ákvæðum greinar 2.4.5 í kjarasamningi aðila. Með­stefndi hafi jafn­framt vísað til þess að krafa félagsins lyti að tímabili sem liðið hefði verið fyrir sam­ein­ingu toll­um­dæma og þegar félagsmenn þess hafi heyrt undir „embætti toll­stjór­ans á Suður­nesjum“.

                Í kjölfar þessa hafi Tollvarðafélagið fengið afrit af fyrrnefndu minnisblaði Kára Gunnlaugssonar yfirtollvarðar, dags. 27 október 2010. Stefnandi telur þetta sýna að afstaða meðstefnda, Tollstjóra, hafi legið fyrir þegar undir lok ársins 2010. Engu að síður hafi meðstefndi dregið stefnanda á svari í heilt ár án nokkurrar sjá­an­legrar ástæðu.

                Í kjölfar þessara samskipta höfðaði Tollvarðafélagið mál fyrir hönd félags­manna sinna fyrir Félagsdómi meðal annars til viðurkenningar á frítökurétti stefnanda frá 1. maí 2001. Fyrir Félagsdómi krafðist lögmaður stefndu frávísunar málsins á þeim grunni að ágreiningur aðila snerist ekki um túlkun kjarasamnings, heldur stæði ágrein­ing­ur­inn um það hvort félagsmenn gætu sannað að þeir hefðu í raun áunnið sér umræddan frí­töku­rétt. Félagsdómur vísaði málinu frá með úrskurði, 12. júlí 2012. Dóm­ur­inn byggði á því að ágreiningur aðila snerist ekki eingöngu um túlkun kjara­samn­ings heldur kæmu til skoð­unar önnur atriði sem almennum dómstólum bæri með réttu að dæma um.

                Í kjölfar dóms Félagsdóms aflaði stefnandi ítarlegra gagna um vinnustundir sínar á tímabilinu 16. júní 2001 til 11. desember 2005.

                Lögmaður Tollvarðafélagsins ítrekaði kröfu félagsins um viðurkenningu á frí­töku­rétti stefnanda í bréfi sínu til meðstefnda, Tollstjóra, 29. apríl 2014, þar sem óskað var eftir við­ræðum við embættið um uppgjör á frítökuréttinum. Krafan var meðal ann­ars byggð á þeim gögnum sem stefnandi hefði aflað eftir dóm Félagsdóms. Með­stefndi svar­aði bréf­inu 2. júní 2014. Í svarbréfinu hafnaði hann kröfu stefnanda um upp­gjör frí­töku­rétt­ar­ins og taldi rétt stefnanda hafa fallið niður sökum tómlætis, þar sem svo langur tími hefði liðið frá því að tilefni var til að halda umræddum rétti fram og þar til það var gert, en krafa stefnanda hafi fyrst verið sett fram í bréfi til fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins 11. október 2010.

                Stefnandi segist ekki geta unað þessari afstöðu og málsmeðferð stefnda og með­stefnda. Sé stefnandi því nauðbeygður til að höfða dómsmál til þess að fá rétt sinn sam­kvæmt kjarasamningi viðurkenndan.

Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir því að fallast eigi á fjárkröfur hans

                Þar sem stefndu byggja kröfu sína um frávísun meðal annars á því að kröfur stefn­anda séu vanreifaðar þykir rétt að greina málsástæður hans fyrir viður­kenn­ing­ar­kröf­unni nokkuð ítarlega.

                Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eigi starfsmenn rétt á launum fyrir störf sín eftir atvikum samkvæmt ákvörðun Kjaradóms, Kjaranefndar eða sam­kvæmt kjarasamningum. Stefndu beri því að greiða stefnanda laun og önnur hlunnindi sam­kvæmt gildandi kjarasamningi.

                Þá styðji stefnandi kröfur sínar við meginreglur samningaréttar um skuld­bind­ingar­gildi samninga og efndir in natura. Stefnandi vísi einnig til grundvallarreglna vinnu­markaðs- og vinnuréttar um skyldur vinnuveitenda við efndir kjarasamninga og almenna framkvæmd og túlkun kjarasamninga.

                Stefnandi byggi á því að um kjör hans, á tímabilinu sem krafan taki til, gildi kjara­samn­ingur Tollvarðafélags Íslands og stefnda, íslenska ríkisins, frá 31. maí 2001 sem gilti frá 1. maí 2001 til 30. nóvember 2005 og kjarasamningur sömu aðila frá 6. júní 2005 sem gilt hafi frá 1. maí 2005 til 31. október 2008. Frí­töku­rétt­ar­ákvæði í grein 2.4.5 í kjara­samn­ingunum hafi í grundvallaratriðum verið óbreytt frá kjara­samn­ingi dags. 1. októ­ber 1997, sem gilti frá 1. september 1997 þótt bætt hafi verið við frí­töku­réttinn árið 2001 og ákvæðið endurnýjað með ofan­greindum samn­ingum.

                Í kjarasamningnum frá 1. október 1997, hafi verið kveðið á um 11 klst. sam­fellda hvíld. Jafnframt hafi verið tekið fram að væru toll­verðir sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld væri náð væri heimilt að fresta hvíldinni þannig að 1½ klst. frítökuréttur safnaðist upp fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skertist. Einnig hafi verið kveðið á um að ynni toll­vörður það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki næðist 11 klst. samfelld hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags stofn­að­ist sams konar frítökuréttur. Að lokum hafi verið kveðið á um að frítökurétt skyldi til­greina á launaseðli og ónýttur frí­töku­réttur skyldi gerður upp við starfslok.

                Kjarasamningur aðila, eins og honum hafi verið breytt með samkomulagi dags. 31. maí 2001, kveði á um hvíldartíma í undirkafla 2.4. Samn­ingurinn mæli fyrir um rétt tollvarða til 11 klst. samfelldrar hvíldar í grein 2.4.2 sem hljóði svo:

Vinnutíma skal haga þannig að á 24 stunda tímabili, reiknað frá skipulögðu/venju­bundnu upphafi vinnudags starfsmanns, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. sam­fellda hvíld. Verði því við komið, skal dagleg hvíld ná til tímabilsins frá kl. 23:00 til 06:00.

Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími á 24 klst. tímabili fari umfram 13 klst.

                Jafnframt sé kveðið á um hvíldartíma starfsmanna í 53. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 68/2003.

                Komi til þess að vinnuveitandi óski eftir því að vikið sé frá þessum hvíldartíma stofn­ist frítökuréttur á eftirfarandi hátt samkvæmt kjarasamningnum:

                Í undirgrein 2.4.5.1 segi að meti stjórnandi það svo að brýn nauðsyn sé til að starfs­maður mæti til vinnu áður en 11 klst. lágmarkshvíld er náð og óski eftir því við starfs­mann að hann mæti undir þessum kringumstæðum, skap­ist frí­töku­réttur 1½ klst. (í dag­vinnu) fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skerðist.

                Undirgrein 2.4.5.2 mæli fyrir um að sé samfelld hvíld rofin með útkalli einu sinni eða oftar, innan 24 stunda tímabils miðað við skipulagt/­venjubundið upphaf vinnu­dags starfs­manns, skuli bæta það sem vantar upp á að 11 klst. hvíld náist, miðað við lengsta hlé innan vinnulotu, með frítökurétti, 1½ klst. (dagvinnu) fyrir hverja klukku­stund sem 11 klst. hvíld skerðist.

                Samkvæmt undirgrein 2.4.5.3 skuli starfsmaður sem vinni meira en 16 klst. öðl­ast frí­töku­rétt sem nemi 1½ klst. (dagvinna) fyrir hverja klukkustund sem unnin var umfram 16 klst. Samkvæmt undirgrein 2.4.5.4 stofnist 1,8% við­bótar­frí­töku­réttur fyrir vinnu­stundir sem unnar séu umfram 24 klst. samfelldan vinnu­tíma.

                Í undirgrein 2.4.5.5 segi enn fremur að vinni starfsmaður skv. ákvörðun yfir­manns það lengi á undan hvíldardegi að ekki náist 11 klst. samfelld hvíld miðað við venju­bundið upphaf vinnudags eða frídags, safnist upp frítökuréttur 1½ klst. í dag­vinnu fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skerðist.

                Samkvæmt undirgrein 2.4.5.6 skuli frí­töku­réttur tilgreindur á launa­seðli og skuli veittur í hálfum eða heilum dögum. Sömuleiðis kemur fram í undirgrein 2.4.5.9 að frí­töku­réttur skuli gerður upp við starfslok og að hann fyrn­ist ekki.

                Stefnandi telur sannað að honum hafi margoft verið gert að haga vinnu sinni þannig að hann hafi fengið styttri hvíldartíma en mælt sé fyrir um í ofangreindum kjara­samn­ingsákvæðum. Hvort tveggja eigi við að hann hafi verið beðinn um að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíldartíma hafi verið náð sem og að hann hafi lokið vinnu innan við 11 klst. fyrir upphaf næsta vinnudags. Þá sé sömuleiðis ljóst að stefn­andi hafi unnið lengri vinnudaga en 16 tíma. Stefnandi telur framlögð gögn, meðal annars vinnu­tíma­yfirlit hans, sanna þetta. Jafnframt liggi fyrir yfirlýsing yfirtollvarðar Kára Gunn­laugs­sonar í minnisblaði, 27. október 2010, um að félagsmenn stefnanda hafi unnið umfram 16 tíma á sólarhring. Telur stefnandi því fullyrðingar sínar varð­andi vinnu umfram 16 tíma á sólarhring óumdeildar.

                Með hliðsjón af framangreindu, og skýru og ótvíræðu orðalagi kjara­samn­ings­ins, telur stefnandi að umtalsverður frítökuréttur hans hafi stofnast vegna skerð­ingar á hvíld­ar­tíma hans. Þrátt fyrir það hafi stefndi ekki virt frítökurétt hans og ekki tilgreint umfang réttarins á launaseðli eins og skylt sé samkvæmt undirgrein 2.4.5.6 í kjara­samn­ingi aðila. Telur stefnandi að stefnda beri að virða og efna umrædd samn­ings­ákvæði.

                Stefnandi bendi á að frítökuréttur samkvæmt kjarasamningi aðila fyrn­ist ekki. Hann eigi því inni frítökurétt frá þeim tíma sem frítökuréttur hans stofnað­ist fyrst vegna skerts hvíldartíma eftir gildistöku frí­töku­réttar­ákvæða kjarasamnings, 1. sept­em­ber 1997 og 31. maí 2001.

                Stefnandi hafni alfarið mótbárum og málatilbúnaði stefnda sem komi fram í minn­is­blaði Kára Gunnlaugssonar, yfirtollvarðar, dags. 27. október 2010, og í bréfi með­stefnda, 1. desember 2011, þess efnis að félagsmenn Tollvarðafélagsins hafi „sam­þykkt að vinna á umræddum tímum og þannig brjóta hvíldarákvæði“. Stefn­andi telji þennan málatilbúnað meðstefnda ekki standast. Samkvæmt grunnreglum vinnu­réttar og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks séu samningar einstakra launa­manna og atvinnurekenda um lakari kjör en almennir kjarasamningar kveði á um ógildir. Þegar af þessari ástæðu telji stefnandi ljóst að meint samþykki sitt við því að vinna í kjarasamningsbundnum hvíldartíma, hafi ekki falið í sér afsal á rétti hans til frí­töku. Slíkt sé beinlínis óheimilt samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði. Þá byggi stefn­andi á því að fullyrðingar stefnda í þessa veru séu með öllu ósannaðar. Að lokum bendi stefn­andi á að þótt hann hefði sam­þykkt að vinna í hvíldartíma sínum, verði ekki af því ályktað að hann hafi þar með samþykkt að falla frá kjara­samn­ings­bundnum frí­töku­rétti.

                Stefnandi byggi einnig á því að það sé stefnda, meðstefnda og Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli að halda utan um og skrá umfang frítökuréttar stefnanda. Stefnda sé skylt að tilgreina frítökuréttinn í launaseðli sbr. undirgrein 2.4.5.6 í kjara­samningi aðila. Sömuleiðis vísi stefnandi til þeirrar lög­festu grund­vallar­reglu vinnu­réttar að vinnu­veitanda beri að greiða starfsmönnum laun og önnur hlunn­indi sam­kvæmt kjara­samn­ingum, sbr. meðal annars 9. gr. laga nr. 70/1996 um rétt­indi og skyldur starfs­manna ríkisins. Í þessari reglu telji stefnandi felast skyldu til þess að sjá um launa­bók­hald. Stefnandi vísar jafnframt til réttarvenju í þessu sam­bandi. Að öllu þessu virtu telur stefnandi stefndu skylt að reikna út og skrá frítökurétt og birta umfang hans á launa­seðlum hans.

                Stefnandi mótmæli því eindregið að frítökuréttur hans hafi fallið niður sökum tóm­lætis, eins og meðstefndi haldi fram í bréfi 4. júlí 2014. Frí­töku­rétturinn eigi að tryggja starfsmönnum þann lágmarkshvíldartíma sem mælt sé fyrir um í kjara­samn­ingum og uppgjör á ónýttum frítökurétti eigi, skv. undirgrein 2.4.5.9 í kjara­samn­ingnum, að fara fram við starfslok starfsmanns og sérstaklega sé tekið fram að frí­töku­réttur fyrnist ekki. Þá segi í undirgrein 2.4.5.6 að frí­töku­réttur skuli veittur í sam­ráði við starfs­mann og leit­ast skuli við að veita frí svo fljótt sem auðið sé til að koma í veg fyrir að frí safn­ist upp. Ljóst sé af ákvæðum kjara­samn­ingsins að ábyrgðin á því að halda utan um upp­safn­aðan frítökurétt hvíli á herðum vinnu­veitanda og leggi ákvæðið þá skyldu á hann að sjá til þess að ónýttur frí­töku­réttur safnist ekki upp, sbr. ofan­greint ákvæði kjara­samn­ingsins. Sama regla sé í grein 5.4 í leiðbeiningum sam­ráðs­nefndar um vinnu­tíma. Hún hafi starfað á grund­velli 14. gr. samnings um ákveðna þætti er varði skipu­lag vinnu­tíma frá 23. janúar 1997 sem gerður hafi verið milli ríkis­ins, Reykja­víkur­borgar og Launa­nefndar sveitarfélaga ann­ars vegar og ASÍ, BHM, BSRB og KÍ hins vegar. Sam­komu­lagið frá 23. janúar 1997 hafi verið byggt á til­skipun Evrópuráðsins nr. 93/104/EB þar sem mælt var fyrir um lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd í tengslum við skipu­legan vinnu­tíma starfsmanna. Í sam­komu­lag­inu sé tekið fram að það skyldi skoðað sem hluti af kjarasamningum aðildar­sam­tak­anna og/eða ein­stakra aðild­ar­félaga þeirra. Van­ræki vinnuveitandi þær skyldur, sem séu lagðar á hann með kjara­samn­ingnum og upplýsi starfsmann hvorki um upp­safn­aðan frítökurétt né sjái til þess að sá réttur sé nýttur, geti hann ekki byggt á því að réttur starfsmanns sé fall­inn niður sökum tóm­lætis, enda eigi vinnuveitandi þá að stærstum hluta sök á því að starfs­maður­inn hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir rétti sínum. Þar sem sér­stak­lega sé tekið fram í ákvæðum kjarasamningsins að frítökuréttur fyrn­ist ekki, og að gera eigi upp ónýttan frí­töku­rétt starfsmanns við starfslok hans, hafi starfs­menn rétt­mætar væntingar til þess að umræddur réttur tapist ekki á starfs­tíma þeirra. Stefnandi leggi enn fremur áherslu á að vinnuveitandi beri samkvæmt viður­kenndum megin­reglum vinnuréttar ábyrgð á upp­gjöri launa. Jafnframt beri honum að sjá til þess að upp­lýs­ingum um launa­greiðslur til starfsmanna sé haldið réttilega til haga.

                Stefnandi telji það liggja fyrir í málinu að stefndu hafi skráð og haldið utan um tíma­skráningar og uppsafnaðan frítökurétt í tímaskráningarkerfunum Vinnustund og Tíma­meistaranum, sbr. minnisblað Kára Gunnlaugssonar, yfir­toll­varðar, dags. 27. októ­ber 2010. Stefnandi hafi hins vegar ekki fengið aðgang að þessum gögnum.

                Stefnandi hafi, eftir því sem honum frekast var kostur, aflað sér gagna um vinnu­stundir sínar hjá stefndu á því tímabili sem krafan nái til og hafi reiknað út upp­safn­aðan frítökurétt út frá þeim gögnum sem hann aflaði með því að prenta út yfir­lit um vinnutíma sinn úr kerfum embættisins. Samkvæmt þeirri skráningu hafi stefn­andi áunnið sér 495,6 vinnustundir í frítökurétt. Með því að leggja fram þau gögn telji stefndi sig hafa fært nægjanlegar sönnur á að hann hafi í raun unnið til frítökuréttar, sam­kvæmt kjarasamningi aðila, og beri stefnda að sýna fram á hið gagnstæða.

                Að öllu framangreindu virtu telur stefnandi að fallast beri á þá kröfu hans að frí­töku­réttur hans samkvæmt kjarasamningi verði viðurkenndur.

                Viðurkenningarkröfur stefnanda byggi á ofangreindum forsendum, meðal ann­ars fyrr­nefndum ákvæðum kjarasamnings Tollvarðafélagsins og ríkissjóðs, sem telja verði skýr og ótvíræð, og lögboðinni skyldu stefndu til að efna kjarasamninginn fyrir sitt leyti. Í ljósi þess að stefndu hafi ekki efnt umrædd samningsákvæði og þar með brotið gegn kjarasamningi sé stefnanda nauðsynlegt að fá viðurkenningardóm fyrir kröfum sínum.

                Stefnandi styður kröfu sína um málskostnað við 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Honum sé nauðsynlegt að fá dæmda þóknun sem sam­svari virðisaukaskatti þar sem hann hafi ekki frádráttarrétt vegna kostnaðar af virð­is­auka­skatti af aðkeyptri lögmannsþjónustu.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, einkum 9. gr. Hann vísar einnig til 53. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks. Aðild stefndu styðjist við III. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála. Um heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfu vísast til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Val á varnarþingi byggist á 3. mgr. 33. gr. og 42. gr. laga um með­ferð einkamála og um málskostnað til 129. og 130. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefndu fyrir því að málinu verði vísað frá dómi

                Stefndu telja kröfur stefnanda óljósar og ekki í samræmi við meginreglur rétt­ar­fars um skýran og glöggan málatilbúnað. Stefndu benda á að 2. kafli kjarasamnings Tollvarðafélags Íslands beri yfir­skrift­ina Vinnutími. Undirkafli 2.4 heiti Hvíldartími. Hann skipt­ist í greinar 2.41 til 2.4.6. Grein 2.4.5 nefnist Frítöku­réttur. Hún sundur­lið­ist í undirgreinar 2.4.5.1 til 2.4.5.9.

                Í dómkröfum sé ekki tiltekið á grundvelli hvaða undirgreina í undirkafla 2.4 eða sam­kvæmt hvaða undirgrein í grein 2.4.5 stefnandi telji sig hafa áunnið sér frí­töku­rétt allar götur frá 16. júní 2001. Af stefnu og gögnum máls­ins sé ekki heldur ljóst hvenær eða á grund­velli hvers stefnandi eigi að hafa áunnið sér frítökurétt sem sé van­tal­inn, né í vara­kröfu hverju hann eigi að nema. Eins og stefnandi setji kröfur sínar fram, þar sem hann krefjist viðurkenningar á því að hann hafi áunnið sér frí­töku­rétt á til­teknu tíma­bili, sé krafa hans um almenna viðurkenningu bæði of víðtæk og ekki svo skýr sem skyldi og ekki fallin til að leysa úr þeim ágrein­ingi sem uppi er í mál­inu.

                Jafnframt skorti verulega á að stefnandi styðji kröfur sínar og málatilbúnað full­nægjandi sönnunargögnum. Í stefnu sé ekki gerð nein tilraun til þess að útlista og sund­ur­liða kröfur stefnanda. Enn fremur sé ágreiningsefnið hreint ekki afmarkað á skýran og glöggan hátt og kröfur stefnanda séu óskýrar. Af þeim sökum verði að vísa mál­inu frá dómi, sbr. 1. mgr. 25. gr. og d-, e- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn kröfu stefndu um frávísun

                Stefnandi mótmælir öllum málsástæðum stefnda fyrir frávísun. Hann vísar sér­stak­lega til þess að í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sé tekið fram að honum sé heimilt að leita viður­kenn­ing­ar­dóms um kröfur sínar. Það ákvæði sé komið til vegna ágrein­ings um réttarstöðu sem erfitt eða flókið sé að njörva niður í krónur og aura. Réttar­staða hans sé dæmi um þetta. Stefnandi hafi ítrekað óskað eftir því að stefndu viður­kenndu frítökurétt hans samkvæmt grein 2.4.5 í kjara­samn­ingi Toll­varða­félags Íslands og ríkisins. Þeir hafi ávallt hafnað þessum kröfum og að auki ekki viljað afhenda honum upplýsingar um hverju frítöku­réttur hans nemi.

                Í þeim tilgangi að afmarka ágreininginn hafi stefnandi, eins og greini í lýsingu mála­vaxta, ítrekað óskað þessara upp­lýsinga frá stefndu. Þótt þeim sé skylt sam­kvæmt kjara­samningi að halda til haga upplýsingum um þennan frítökurétt og gögnin eigi því að vera til hafi þeir ekki sinnt óskum stefnanda í aðdraganda þessara málaferla.

                Stefnanda hafi því verið þröngar skorður settar við undirbúning málsins og hafi hann ekki átt annarra kosta völ en nálgast það á þann hátt að setja fram viður­kenn­ing­ar­kröfu. Þá kröfu byggi hann á gögnum og upplýsingum sem hann hafi sjálfur getað aflað með því að prenta út úr tíma­skrán­ingarkerfi á vinnustað sínum.

                Stefnandi leggi fram ítarleg gögn úr dagbók tollgæslunnar frá 31. maí 2001 til 14. september 2003 og vaktakerfi tollgæslunnar frá 13. september 2003 til 17. nóv­em­ber 2005. Í þessa gríðarlegu vinnu hefði hann ekki þurft að ráðast hefði vinnuveitandi hans innt þessar upplýsingar af hendi.

                Aðstaða stefnanda við undirbúning málsins hafi því verið erfið. Því sé alls ekki eðli­legt að stefndu krefjist þess að hann, til viðbótar við þessa samantekt, leggist í það verk­efni að sundurgreina hvert tilefni frítökuréttarins sé og heimfæra það undir til­tekin frí­töku­réttarákvæði kjarasamningsins.

                Stefnandi mótmæli því að skilyrði þess að hægt sé að taka málið til efnislegrar með­ferðar sé að slík sundurgreining sé í dómkröfu. Málið yrði ekki efnislega skýr­ara við það og verði stefndu ekki fyrir neinum réttar­spjöllum þótt slík greining sé ekki þar.

                Ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé ætlað að vernda stefnda í þeim tilvikum þegar málatilbúnaður stefnanda sé svo óskýr að honum veitist erfitt að taka til varna. Þau sjónarmið eigi ekki við hér. Ekki skipti neinu máli á hvaða grund­velli og sam­kvæmt hvaða undirlið greinar 2.4.5 í kjarasamningnum stefnandi hafi áunnið sér frí­töku­réttinn.

                Í undirliðum greinar 2.4.5 um frítökurétt séu tilgreind þau atvik og aðstæður sem geti leitt til þess að starfsmaður öðlist frítökurétt. Það geti gerst komi hann til vinnu áður en fullri 11 klst. hvíld sé náð, komi hann til vinnu áður en hann eigi að koma til starfa samkvæmt vaktskrá, vinni meira en 16 klst. á sól­ar­hring og í fjórða lagi væri hann við vinnu á undan hvíldardegi þannig að ekki næð­ist 11 klst. hvíld miðað við venjubundið upphaf næsta vinnudags eða vaktar.

                Þetta sé skýrt og afmarkað og í samræmi við einstaka liði greinar 2.4.5. Þessum fjórum tilefnum þess að frítökuréttur stofnist fylgi nákvæmlega sami réttur launa­manns­ins, alltaf 1,5 klst. í dagvinnu fyrir hvert tilvik, þ.e. fyrir hverja klst. sem 11 klst. hvíld­ar­tími skerð­ist, hverja klst. sem hann komi fyrir venjubundna vakt, fyrir hverja klst. sem sé unnin umfram 16 klst. og hverja klst. sem gengið sé á 11 klst. hvíld­ar­tíma fyrir hvíldardag. Það skipti því engu máli undir hvaða ákvæði fella beri hverja áunna klst. fyrir sig.

                Samkvæmt kjarasamningnum eigi vinnuveitandinn að tilgreina frítökuréttinn í einni tölu á launseðli en þurfi ekki að sundurliða hann eftir því hvernig hann sé til­kom­inn. Hafi aðilar kjarasamningsins ekki séð tilefni til að sundurgreina á launaseðli eftir hvaða undirgrein rétturinn sé til orðinn séu ekki neinar forsendur til þess að stefn­anda verði gert að sundurgreina tímafjöldann í dómkröfum eða annars staðar í stefnu.

                Hæstiréttur hafi í framkvæmd játað stefnendum nokkurt svigrúm til mótunar dóm­krafna þegar þeir krefjist viðurkenningar réttinda. Lykilatriðið sé þó að ekki verði séð að málatilbúnaður stefnanda hafi valdið stefndu neinum erfiðleikum við að taka til varna.

                Stefndu vísi að auki til þess að stefnandi styðji kröfu sína ekki nægi­legum sönn­un­ar­gögnum og útlisti kröfu sína ekki í stefnu. Þessu mótmæli stefnandi þar sem hann hafi lagt fram ítarleg gögn og sundurliðanir þar sem áunninn frítökuréttur sé færður undir undirliði. Auk þess varði það ekki frávísun máls frá dómi þótt nægileg gögn séu ekki komin fram og geti það ekki komið í veg fyrir efnislega meðferð þess.

                Með hliðsjón af þessu telur stefnandi að hafna verði kröfu stefndu um vísun máls hans frá dómi.

Niðurstaða

                Stefnandi sem er tollvörður lítur svo á að vinnuveitandi hans, Sýslu­mað­ur­inn á Keflavíkurflugvelli, hafi ekki gætt að ákvæðum kjara­samn­ings Tollvarðafélags Íslands og ríkis­ins um frítökurétt á tímabilinu 16. júní 2001 til og með 11. desember 2005. Vegna þessa aðgæsluleysis eigi hann ótekinn, áunninn frí­tíma sem samsvari 495 klukku­stundum og höfðar þetta mál til viðurkenningar á þeim rétti.

                Stefndu, ríkið og Tollstjóri, sem gegnir nú þeim skyldum sem Sýslumaðurinn á Kefla­víkurflugvelli gerði áður, telja stefnanda ekki hafa lagt nægilega skýran grund­völl að kröfu sinni og því verði að vísa málinu frá.

                Dómurinn fellst ekki á það með stefndu að aðalkrafa stefnanda sé ekki nægi­lega skýr. Heildarfjöldi frítökutíma er tilgreindur, svo og að sá meinti réttur sæki stoð í grein 2.4.5 í kjarasamningnum. Jafnframt er tekið fram á hvaða tímabili þessi frí­töku­réttur á að hafa stofnast.

                Þar sem krafa stefnanda varðar ekki fjárhæð sem hækkar um hver mánaðamót og ber drátt­ar­vexti telur dómurinn ekki þörf á því að stefnandi sundurliði aðal­dóm­kröfu sína frekar.

                Stefnandi hefur lagt fram allítarlegt skjal þar sem hann reiknar út uppsafnaðan frí­töku­rétt sinn. Samkvæmt því hefur svo háttað til, á hér um bil 80-90 vöktum á til­greindu tímabili, að hann hafi átt rétt til frítöku á grundvelli ákvæða, 2.4.5.1, 2,4.5.2, 2.4.5.3 eða 2.4.5.5 í þeim kjara­samningi sem um störf hans gilda.

                Af þessum vöktum verður ekki betur séð en að stefnandi líti svo á að í 11 skipti hið minnsta hafi frítökuréttur stofnast bæði á grundvelli ákvæðis 2.4.5.2 og 2.4.5.5 á sömu vakt. Það þýðir annars vegar að samfelld hvíld hafi verið rofin með útkalli innan 24 stunda miðað við venjubundið upp­haf vinnudags og hins vegar að hann hafi unnið það lengi á undan hvíld­ar­degi að hann næði ekki samfelldri hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnu­dags eða vaktar og hafi jafnframt verið beðinn að koma á réttum tíma á næstu vakt eftir hvíldardag þrátt fyrir skerta hvíld á undan hvíld­ar­degi.

                Í skjalinu eru einvörðungu tölur svo sem dagsetningar og tímasetningar: hvenær stefn­andi á að hafa komið á vakt eða í útkall og hvenær vinnutíma hans lauk. Einnig eru til­greind ákvæði kjarasamningsins sem stefnandi telur eiga við í hvert sinn og sá tíma­fjöldi sem hann telur sig hafa áunnið sér við hverja vakt. Í skjalinu er hins vegar ekki neinn texti sem getur hjálpað lesandanum að átta sig á því hvaða hluti frí­töku­réttar til­tek­innar vaktar verður rak­inn til ákvæðis 2.4.5.2 og hvaða hluti til ákvæðis 2.4.5.5. Til þess að geta áttað sig á þessu sjálfur þarf lesandinn að vita hvert var venjubundið upp­haf vinnudags eða vaktar en stefnandi mætti ýmist til vinnu kl. 5.30, 6.00, 7.00, 14.00, 18.00, 19.00, og jafnvel á öðrum tímum sólarhringsins.

                Skjalið, eins og það er, veitir talsverðar upplýsingar en kostar þann lesanda sem er ekki sérfróður um vaktir tollvarða og samspil þeirra við kjarasamninginn heil­mikla yfir­legu og útreikning til þess að reyna að átta sig á rökunum fyrir þeim tímum sem stefn­andi telur sig hafa áunnið sér vegna hverrar þessara 80-90 vakta þannig að stað­reyna megi hvort skilyrði hvers frítökuréttarákvæðis séu uppfyllt.

                Þar að auki er óljóst hvaða tíma stefnandi telur með þegar hann kemst að nið­ur­stöðu sinni um heildarfjölda áunninna en ótekinna frítíma. Dóminum hefur ekki enn tek­ist að leggja tölurnar þannig saman að hann fái sömu niðurstöðu um heildarfjölda frí­tíma og stefnandi. Það kann þó að skýr­ast af því að stefnandi gerir ekki alltaf grein­ar­mun á mínútum og klukkustundum í yfir­lit­inu og tilgreinir mínúturnar ekki sem hundr­aðs­hluta af klukkustund.

                Framlagt skjal stefndu um meintan frítökurétt stefnanda veitir nokkrar upp­lýs­ingar sem koma hefðu mátt fram hjá stefnanda svo sem hvenær hver vakt átti að hefj­ast og hvenær henni átti að ljúka, hver viðmiðunarsólarhringurinn sé og hversu löng hvíld náðist á hverjum sólarhring þannig að sjá megi hvort hvíldartími hafi náð 11 klst. eða ekki, svo og hvort vinnulota hafi verið lengri en 16 klst. Það skjal er þó ekki heldur nægilega glöggt því að þar er aðeins tilgreint hversu löng lengsta hvíld á sólar­hringnum er en þá þarf að reikna út hver skerðingin sé til þess að komast megi að því hversu langur frítökuréttur skapist.

                Þótt skjal stefndu veiti fyllri upplýsingar nær það ekki fyllilega að lappa upp á yfir­lit stefnanda yfir frí­töku­réttinn.

                Í stefnu fer stefnandi einungis almennum orðum um grundvöll réttinda sinna. Þar tilgreinir hann hins vegar ekki neinar vaktir þar sem hann lengd vinnutíma hans eigi að hafa upp­fyllt skil­yrði ofangreindra ákvæða kjarasamningsins. Hann tilgreinir ekki heldur hvaða atvik eða aðstæður á hverri vakt um sig hafi leitt til þess að skil­yrði við­kom­andi ákvæðis kjarasamningsins væru uppfyllt.

                Ekki er hægt að fallast á það með stefnanda að ekki skipti máli á grundvelli hvaða undirliðar frítökurétturinn hafi stofnast. Í hverjum undirlið í grein 2.4.5 eru afmörkuð þau skil­yrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að frítökurétturinn stofnist. Sam­kvæmt ákvæði 2.4.5.1 eru skilyrðin þau að stjórnandi hafi talið brýnt að starf­maður kæmi til vinnu áður en 11 klst. lágmarkshvíld væri náð. Í ákvæði 2.4.5.2 er það skil­yrði að hvíld hafi verið rofin einu sinni eða oftar innan 24 stunda tímabils miðað við skipulagt upphaf vinnudags starfsmanns. Samkvæmt ákvæði 2.4.5.3 þarf starfs­maður að hafa unnið meira en 16 klst. á sólarhring, þ.e. hverjum 24 klst., miðað við skipu­lagt upphaf vinnudags síns, án þess að ná 8 klst. samfelldri hvíld og samkvæmt ákvæði 2.4.5.5 getur starfsmaður áunnið sér frítökurétt skerðist 11 klst. hvíld­ar­tími hans á undan hvíldardegi.

                Fallist dómurinn ekki á helstu rök stefndu fyrir sýknu þannig að skoða þurfi hversu marga frítíma stefnandi hafi áunnið sér þurfa stefndu að geta tekið afstöðu til þess hvort upp­fyllt séu skilyrði hverrar þeirrar greinar kjara­samn­ings­ins sem stefnandi styður frí­töku­rétt vegna tiltekinnar vaktar við.

                Almennt er miðað við það að stefnan ein eigi að nægja til þess að gefa stefnda við­un­andi mynd af því máli sem höfðað er gegn honum.

                Þar sem þessar mikilvægu upplýsingar vantar í málsástæðukafla í stefnu gerir stefn­andi, að mati dóms­ins, ekki nægi­lega grein fyrir atvikum að baki kröfu sinni og máls­ástæðum fyrir henni í stefnu þannig að lesandi hennar geti áttað sig á því hvernig heild­ar­krafa stefn­anda myndast. Stefnandi hefur því ekki uppfyllt skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum er fallist á þá kröfu stefndu að aðalkröfu hans verði vísað frá dómi.

                Þegar horft er til þess að stefnandi hefur þegar tekið þessar upplýsingar saman í sérstöku skjali ætti honum ekki að vera neitt að vanbúnaði að tilgreina þær einnig í stefn­unni ásamt með þeim upplýsingum sem enn vantar um það af hverju hann eigi, á hverri vakt um sig, rétt á frítíma vegna skerts hvíldartíma eða of langrar vinnulotu.

                Fallist er á það með stefndu að varakrafa stefnanda sé of óljós til þess að unnt sé að taka sérstaka afstöðu til hennar og er henni því einnig vísað frá dómi.

                Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr., sbr. 2. mgr. 132. gr., laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefndu málskostnað. Hæfilegt þykir að hann greiði hvorum stefnda um sig 50.000 krónur.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Þessu máli stefnanda, Ingva Steins Jóhannssonar, á hendur stefndu, íslenska ríkinu og Tollstjóra, er vísað frá dómi.

                Stefnandi greiði hvorum stefnda um sig 50.000 krónur í málskostnað.