Hæstiréttur íslands
Mál nr. 150/2001
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Ítrekun
- Svipting ökuréttar
- Áfrýjun
- Kröfugerð
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2001. |
|
Nr. 150/2001.
|
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Lawrence Joseph Muscat (Kristján Stefánsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Ítrekun. Svipting ökuréttar. Áfrýjun. Kröfugerð.
L gekkst við að hafa ekið ölvaður. Var hann sakfelldur fyrir það brot í héraði og sviptur ökurétti ævilangt. L fór fram á að ákæruvaldið áfrýjaði dóminum þar sem mistök héraðsdómara hefðu leitt til þyngri refsingar og viðurlaga en lög hefðu staðið til. Áfrýjaði ákæruvaldið dóminum og kom fram í áfrýjunarstefnu að honum væri áfrýjað L til hagsbóta. Í greinargerð til Hæstaréttar krafðist ákæruvaldið hins vegar staðfestingar héraðsdóms. Hæstiréttur taldi að í héraði hefði L réttilega verið sviptur ökurétti ævilangt. Hins vegar hefði ákæruvaldinu ekki verið heimilt að auka við kröfur sínar í greinargerð fyrir Hæstarétti frá því sem fram kom í áfrýjunarstefnu. Var því fallist á varakröfu ákæruvaldsins og L dæmdur til að sæta ökuleyfissviptingu í tvö ár, auk þess sem honum var gert að sæta fangelsi í 30 daga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2001 ákærða til hagsbóta. Endanlega krafa ákæruvalds er aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, þó þannig að ákærði verði sviptur ökurétti frá og með 7. júní 2000 að telja, en til vara að ökuréttarsvipting verði tímabundin og eigi skemur en til tveggja ára.
Ákærði krefst þess að refsing samkvæmt héraðsdómi verði milduð og ökuréttarsvipting tímabundin og markaður eins skammur tími og lög leyfa.
I.
Ákærði hefur játað það ölvunarakstursbrot, sem honum er gefið að sök að hafa framið. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu staðfest.
Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann undir sátt fyrir Sakadómi Reykjavíkur 5. júní 1989 vegna ölvunaraksturs. Viðurlög fyrir brotið voru ákveðin sekt og svipting ökuréttar í þrjá mánuði frá 21. febrúar á sama ári. Ákærði gerðist aftur sekur um ölvunarakstur 5. apríl 1994 og var dæmdur fyrir það brot í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. nóvember sama árs til að greiða sekt og jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár. Þegar hann framdi það brot voru ekki liðin full fimm ár frá því sáttin var gerð 5. júní 1989 vegna fyrra brotsins. Hafði það brot því með réttu ítrekunaráhrif við ákvörðun á sviptingu ökuréttar 21. nóvember 1994, sbr. 1. málslið 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Brotið, sem ákærða er nú gefið að sök, framdi hann 15. júlí 1999. Þá voru ekki liðin full fimm ár frá því dómur gekk um sams konar brot hans 21. nóvember 1994. Hefur ákærði samkvæmt því nú í þriðja sinn gerst sekur um ölvunarakstur. Er fyrir hendi sú aðstaða, sem kveðið er á um í 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga, að svipting ökuréttar skuli vera ævilöng ef brot er ítrekað öðru sinni, sbr. einnig 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga.
II.
Ákærði sendi ríkissaksóknara bréf 2. apríl 2001 eftir að liðinn var frestur hins fyrrnefnda til að áfrýja héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eins og henni var breytt með 11. gr. laga nr. 37/1994. Fór hann þess á leit að ríkissaksóknari áfrýjaði dómnum honum til hagsbóta þar eð mistök héraðsdómara sýnist hafa leitt til þyngri refsingar og viðurlaga en lög hafi staðið til, eins og þar var komist að orði. Í áfrýjunarstefnu, sem gefin var út degi síðar, segir að rétt þyki að áfrýja dómnum af hálfu ákæruvalds „dómfellda til hagsbóta að því er varðar sviptingu ökuréttar, sem ákvörðuð verði tímamörkuð ...“. Í greinargerð til Hæstaréttar krefst ákæruvaldið þess hins vegar aðallega að niðurstaða héraðsdóms um ævilanga sviptingu ökuréttar ákærða verði staðfest. Getur ákæruvaldið ekki aukið kröfur sínar með þessum hætti frá áfrýjunarstefnu. Í ljósi þess hvernig málið er lagt fyrir verður ákærða gert að sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár í samræmi við varakröfu ákæruvalds.
Í þinghaldi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 7. febrúar 2001 var fært í þingbók að sækjandi og verjandi væru sammála um að fram kæmi í gögnum málsins að lögregla hafi tekið ökuskírteini ákærða 15. júlí 1999. Sú krafa ákæruvalds nú að ákærði verði sviptur ökurétti frá og með 7. júní 2000 að telja styðst ekki við ný gögn og fæst hvorki samrýmd áðurnefndri bókun málflytjenda né yfirlýsingu í áfrýjunarstefnu um að héraðsdómi sé áfrýjað dómfellda til hagsbóta. Kemur þessi nýja krafa ekki til álita í málinu.
Að virtum sakaferli ákærða verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu hans staðfest, svo og ákvæði dómsins um sakarkostnað.
Fella verður allan áfrýjunarkostnað málsins á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Lawrence Joseph Muscat, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í 2 ár frá 15. júlí 1999 að telja.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2001.
Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík 26. október 2000 á hendur Lawrence Joseph Muscat, kt. 260356-2169, Barmahlíð 8 Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni IM-564, aðfaranótt fimmtudagsins 15. júlí 1999, undir áhrifum áfengis frá húsi við Ármúla í Reykjavík að mótum Suðurlandsbrautar og Vegmúla, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Þetta telst varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.“
Með skýlausri játningu ákærða og niðurstöðu alkóhólrannsóknar, en í blóði ákærða mældist 0,51, að teknu tilliti til 0,10% frávika sem allt er í samræmi við gögn málsins, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um það brot sem honum er að sök gefið í ákæru.
Ákærði gekkst undir sátt 5. júní 1989 með greiðslu 17.000 krónu sektar og sviptingu ökuréttar í 3 mánuði fyrir ölvun við akstur. Þá var hann dæmdur 21. nóvember sl. til að greiða 60.000 krónu sekt og sviptur ökuréttui í 2 ár fyrir sams konar brot. Ákærði hefur nú í annað sinn ítrekað ölvunarakstursbrot sitt. Með hliðsjón af því þykir refsing hans hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi.
Með vísan til þeirra lagaákvæða sem í ákæru greinir skal svipta ákærða ökurétti ævilangt frá 15. júlí 1999 að telja, en þá lagði lögregla hald á ökuskírteini hans.
Ákærði er dæmdur til að greiða allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.
Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Lawrence Joseph Muscat, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá 15. júlí 1999 að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.