Hæstiréttur íslands

Mál nr. 318/2001


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Uppsögn
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002.

Nr. 318/2001.

Gylfi Ingason

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

Ingimundi hf.

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

og gagnsök

 

Sjómenn. Uppsögn. Tómlæti.

Deilt var um hvort G, sem var matsveinn á rækjuskipi I, hefði fengið leyfi skipstjóra til að fara ekki í veiðiferð sem hófst 19. nóvember og lauk 23. desember 1998, eða hvort líta skyldi á það sem uppsögn af hans hálfu að hann mætti ekki til skips 19. nóvember, en þá mun hann hafa verið farinn til Thaílands. Þegar G kom aftur til landsins í byrjun árs 1999 og hafði samband við framkvæmdsstjóra I, kvað framkvæmdastjórinn hann ekki lengur vera í áhöfn skipsins, þar sem hann hefði sjálfur sagt upp með háttalagi sínu í nóvember 1998. Talið var, með vísan til framburðar skipstjóra og háseta á viðkomandi skipi auk annarra gagna málsins, að G hefði tekist að sanna að hann hefði fengið leyfi skipstjóra til fjarvista á þessum tíma en hann var talinn hafa haft stöðuumboð til að veita G leyfi, sbr. 3. mgr. 6. gr. sjómannalaga. Yrði að líta svo á að G hefði verið vísað úr skiprúmi fyrirvaralaust þegar honum var tilkynnt að hann væri ekki lengur í áhöfn skipsins, og sú uppsögn væri ólögmæt. Ekki var á það fallist með héraðsdómi að G hefði glatað bótakröfu sinni vegna tómlætis. Var talið að um bætur til handa G vegna ólögmætrar uppsagnar færi samkvæmt 25. gr. sjómannalaga og náði því aðalkrafa G um bætur eftir almennum reglum skaðabótaréttar ekki fram að ganga. Þá var ekki talið að G hefði sýnt fram á að hann ætti að njóta lögkjara yfirmanns við uppsögn og var því varakröfu hans hafnað. Fallist var á þrautavarakröfu G og honum dæmd laun í 14 daga uppsagnarfresti samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sjómannalaga og ákvæði í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og LÍÚ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2001. Hann krefst þess aðallega, að gagnáfrýjandi greiði sér 1.352.692 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júní 1999 til 1. júlí 2001 en III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist, að gagnáfrýjandi greiði 1.019.019 krónur með dráttarvöxtum frá 1. maí 1999 til greiðsludags eftir sömu lagaákvæðum og í aðalkröfu. Til þrautavara er krafist 224.280 króna með dráttarvöxtum samkvæmt framangreindum ákvæðum frá 1. mars 1999 til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málinu var gagnáfrýjað 29. október 2001. Gagnáfrýjandi krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit vitnamáls í Héraðsdómi Reykjavíkur frá 7. nóvember 2001. Þar var að nýju tekin skýrsla af Viðari Benediktssyni skipstjóra, en hann hafði undir meðferð málsins verið yfirheyrður í síma, þar sem hann var staddur um borð í fiskiskipi. Fór þessi síðari skýrslutaka fram að tillögu lögmanns aðaláfrýjanda og með samþykki lögmanns gagnáfrýjanda.

I.

Haustið 1996 var aðaláfrýjandi ráðinn matsveinn á rækjuskip gagnáfrýjanda, Helgu RE 49, sem var 1.800 brúttórúmlesta skip með 22 manna áhöfn. Veiðiferðir þess tóku að jafnaði 30 til 45 daga og fór aðaláfrýjandi aðra hvora veiðiferð. Fyrir þær fékk hann greiddan aflahlut, sem nam 1,25. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við aðaláfrýjanda, eins og gagnáfrýjanda bar að gera samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir veikindum aðaláfrýjanda sumarið 1998. Ágreiningur þessa máls lýtur hins vegar að því, hvort aðaláfrýjandi hafi fengið leyfi skipstjóra til að fara ekki í veiðiferð, sem hófst 19. nóvember og lauk 23. desember 1998, eða hvort litið verði á það sem uppsögn af hans hálfu, að hann mætti ekki til skips 19. nóvember, en hann mun þá hafa verið farinn til Thaílands. Þegar aðaláfrýjandi kom aftur til landsins í byrjun árs 1999 og hafði samband við framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda um mánaðamót janúar – febrúar í því skyni að hefja störf að nýju, kvað framkvæmdastjórinn hann ekki lengur vera í áhöfn skipsins, þar sem hann hefði sjálfur sagt upp með háttalagi sínu í nóvember 1998.

Í yfirlýsingu Viðars Benediktssonar, sem var skipstjóri á Helgu RE 49 á þessum tíma, segir meðal annars: „Gylfi hafði verið í veikindaleyfi þá veiðiferð sem farin var í desember 1998. Hann hafði síðan fengið launalaust leyfi frá störfum skv. samkomulagi við mig en átti að koma til starfa í febrúar 1999.“ Yfirlýsingu þessa undirritaði skipstjórinn í október 2000, en hann mun hafa látið af störfum hjá gagnáfrýjanda á fyrri hluta ársins 2001. Fyrir héraðsdómi lýsti skipstjóri þessu svo, að hann hefði veitt aðaláfrýjanda launalaust leyfi í umræddri veiðiferð en ekki veikindaleyfi og væri það ranglega orðað svo í yfirlýsingunni. Hann kvaðst jafnframt hafa greint framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda frá leyfinu, en fyrir héraðsdómi vísaði framkvæmdastjórinn því algjörlega á bug. Af framburði Ágústar Kárasonar háseta fyrir héraðsdómi verður ráðið, að Viðar Benediktsson hafi haft samband við skipið í lok næstu veiðiferðar á undan þeirra erinda að fá hann til að hlaupa í skarðið fyrir aðaláfrýjanda sem matsveinn í veiðiferðinni, sem hófst 19. nóvember 1998.

II.

Framangreind yfirlýsing Viðars Benediktssonar skipstjóra er að vísu nokkuð óljós um það, hvort um veikindaleyfi eða launalaust leyfi hafi verið að ræða í hinni umdeildu veiðiferð. Þegar framburður skipstjóra fyrir héraðsdómi, bæði í fyrra og síðara skipti, framburður Ágústar Kárasonar og önnur gögn málsins eru virt verður hins vegar að telja, að aðaláfrýjanda hafi tekist að sanna, að hann hafi fengið leyfi skipstjóra til fjarvista á þessum tíma, hvernig sem samskiptum skipstjóra og framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda um þetta hefur verið háttað. Skipstjóri hafði stöðuumboð til að veita aðaláfrýjanda leyfi, sbr. 3. mgr. 6. gr. sjómannalaga. Verður því að líta svo á, að aðaláfrýjanda hafi verið vísað úr skiprúmi fyrirvaralaust, þegar framkvæmdastjóri gagnáfrýjanda tjáði honum í byrjun febrúar 1999, að hann væri ekki lengur í áhöfn skipsins, og var sú uppsögn ólögmæt. Verður ekki á það fallist með héraðsdómi, að aðaláfrýjandi hafi glatað bótakröfu sinni vegna tómlætis.

Um bætur til handa aðaláfrýjanda vegna ólögmætrar uppsagnar fer samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga, sbr. 9. gr., en ekki almennum skaðabótareglum. Nær aðalkrafa aðaláfrýjanda því ekki fram að ganga.

Í 9. gr. sjómannalaga er mælt fyrir um lengd uppsagnarfrests, sem vera skal þrír mánuðir hjá yfirmönnum en sjö dagar hjá öðrum skipverjum á íslenskum fiskiskipum. Aðaláfrýjandi heldur því fram, að starf sitt sem matsveinn um borð í Helgu RE 49 hafi verið sérhæft og sambærilegt starfi bryta í skilningi 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga, sbr. 54. gr., og hann eigi því að njóta lögkjara yfirmanns við uppsögn, enda hafi aflahlutur hans verið 1,25. Þetta fái jafnframt stuðning af því, að í framburði sínum fyrir héraðsdómi hafi framkvæmdastjóri gagnáfrýjanda talið matsvein til yfirmanna. Enginn bar starfsheitið bryti um borð í skipinu fremur en tíðkað mun vera í íslenskum fiskiskipum. Aðaláfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að starfi hans hafi mátt jafna til stöðu bryta eða aflahlutur hans hafi verið til marks um, að hann teldist til yfirmanna í skilningi 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga, sbr. 2. mgr. 9. gr. Getur uppsagnarfrestur hans því ekki ráðist af framngreindum lagaákvæðum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 12. júní 1997, bls. 1905 í dómasafni. Verður því ekki fallist á varakröfu aðaláfrýjanda.

Þrautavarakrafa aðaláfrýjanda lýtur að því, að bætur til hans nemi launum í 14 daga uppsagnarfresti samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sjómannalaga og 2. mgr. í gr. 1.11 í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hefur fjárhæð þrautavarakröfunnar ekki verið andmælt og verður hún lögð til grundvallar dómi í málinu. Rétt þykir, að dráttarvextir verði reiknaðir frá 25. október 2000, en þá var liðinn mánuður frá fyrsta kröfubréfi lögmanns aðaláfrýjanda.

Gagnáfrýjandi skal greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Ingimundur hf., greiði aðaláfrýjanda, Gylfa Ingasyni, 224.280 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. október 2000 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 400.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2001.

I

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 6. febrúar 2001 og dómtekið 28. f.m.

Stefnandi er Gylfi Ingason, kt. 160549-3359, Álfhólsvegi 32, Kópavogi.

Stefndi er Ingimundur hf., kt. 660149-4159, Fiskislóð 137a, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 1.358.692 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júní 1999 til greiðsludags, en til vara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 1.019.019 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1999 til greiðsludags, en til þrautavara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 224.280 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. mars til greiðsludags.  Hann krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

II

Stefnandi réðst sem matsveinn á rækjuskip stefnda, Helgu RE-49, í ágúst – september 1996.  Að sögn Ármanns Ármannssonar, framkvæmdastjóra stefnda og eiganda, er skipið 1800 brúttórúmlestir og voru tuttugu og tveir menn í áhöfn.  Það mun hafa verið skráð sem skuttogari.  Veiðiferðir taka 30 – 45 daga.  Stefnandi fór aðra hvora veiðiferð og fékk greiddan aflahlut (1,25 hlut) fyrir þær veiðiferðir sem hann vann, eingöngu.  Verksviði sínu lýsir stefnandi þannig að hann hafi séð um matargerð um borð, innkaup á mat og öðrum kosti í samráði við útgerð, haft yfirumsjón með vistum um borð og séð um þrif á eldhúsi, matsal og búri.  Fram hefur verið lögð skilagrein stefnda sem sýnir að gerð voru skil á stéttarfélagsgjöldum stefnanda til Matsveinafélagsins/Sjómannasambands Íslands.

Fram hefur verið lagt læknisvottorð Egils Á. Jacobsen yfirlæknis, dags. 25. janúar 2001, varðandi stefnanda.  Þar segir að hann hafi verið lagður inn á þvagfæra­skurðdeild Landspítalans 3. júní 1998 vegna blóðs í þvagi sem talið hafi verið eftir rannsókn að stafaði af blöðruhálskirtilsbólgu.  Hann hafi verið útskrifaður 9. júní 1998 með lyfjameðferð og eftirliti á stofu en verið innlagður að nýju 16. júlí 1998 og verið útskrifaður að nýju 23. s.m.  Hann hafi síðan komið á stofu þ. 5. nóvember 1998 vegna óþæginda og bólgu í blöðruhálskirtlinum.  Hann hafi virst jafna sig nokkuð vel en komið næst á stofu 28. janúar 1999.  Þá hafi hann verið kominn aftur með óþægindi eftir að hafa verið í Thaílandi en talið hafi verið að lyfjameðferð og ráðleggingar sem hann hafi fengið eftir það mundu nægja til þess að óþægindin hyrfu.  Einnig liggur frammi í málinu læknisvottorð Guðmundar Vikars Einarssonar, dags. 23. júlí 1998, um að stefnandi sé með öllu óvinnufær tímabilið frá 16. júlí 1998 til 23. ágúst s.á. vegna sjúkdóms.

Stefnandi fékk greidd veikindalaun í veiðiferð sem stóð frá 12. júní  til 18. júlí 1998.  Hann fór veiðiferð sem stóð frá 31. ágúst til 8. október  1998.  Stefnandi átti samkvæmt áætlun að fara veiðiferð sem hófst að kvöldi 19. nóvember 1998 og stóð til 23. desember en af því varð ekki.  Grundvallarágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnandi hafi fengið leyfi skipstjóra til að fara ekki þessa síðasttöldu ferð og verður það, sem fram er komið um það, rakið í niðurstöðukafla dómsins.  Stefnandi fór til Thaílands og kom aftur til Íslands undir lok janúarmánaðar 1999.  Starfslok stefnanda hjá stefnda urðu með þeim hætti að hann hafði samband við Ármann Ármannsson, framkvæmdastjóra og eiganda stefnda, um mánaðamótin janúar – febrúar skömmu áður en skipið fór í veiðiferð.  Stefnandi lýsti vilja sínum til að fara þá ferð en það hefði hann átt að gera samkvæmt áætlun væri hann ennþá matsveinn á Helgu RE-49.  Stefnandi bar fyrir dóminum að Ármann hefði sagt að allir hefðu reiknað með  að hann væri hættur og hefði hann fyrirgert rétti sínum.  Ámann bar að hann hefði tjáð stefnanda að þannig væri litið á að hann hafi ákveðið að hætta störfum um borð í skipinu með því að mæta ekki til skips í brottför sem hann hafi verið ráðinn til.  Ekki er fram komið um það að stefnandi hafi borið því við að hann hafi fengið leyfi skipstjóra.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 8. desember 1999 og krafði hann f.h. stefnanda um staðgengilslaun vegna veiðiferðar 19. júlí 1998 til 30. ágúst s.á.  Í svarbréfi lögmanns stefnda, dags. 17. desember 1999, kemur fram höfnun kröfunnar en þó er óskað eftir ítarlegri læknisvottorðum en þegar hafi verið lögð fram.  Í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 25. september 2000 segir að í lok ársins 1998 hafi verið samið um að stefnandi kæmi aftur til starfa í febrúar 1999.  Þegar hann hafi síðan haft samband hafi honum verið sagt að hann væri ekki lengur í áhöfn skipsins.  Stefnandi telji að hann eigi inni hjá stefnda uppsagnarfrest í 14 daga.  Af því tilefni var óskað upplýsinga um laun sem hafi verið greidd matsveini í febrúar 1999 og jafnframt gerður áskilnaður um rétt til  þess að setja fram frekari bótakröfur.  Krafa stefnanda var ítrekuð með bréfi lögmanns hans 12. október 2000 og fylgdi því yfirlýsing, undir­rituð í október 2000, Viðars Benediktssonar, annars tveggja skipstjóra Helgu RE – 49 á þeim tíma sem um ræðir í málinu,  um að stefnandi hafi verið í veikindaleyfi þá veiðiferð, sem hafi verið farin í desember 1998, síðan fengið launalaust leyfi  frá störfum samkvæmt samkomulagi við sig en átt að koma til starfa í febrúar 1999 er Ármann Ármannsson hafi sagt honum að hann væri ekki lengur í áhöfn skipsins.  Í svarbréfi lögmanns stefnda, dags. 25. október 2000, segir að stefnandi hafi farið fyrirvaralaust úr starfi með því að mæta ekki til skips í umrædda veiðiferð og hafi ekkert legið fyrir frá skipstjóranum Viðari Benediktssyni á þeim tíma um að hann hafi veitt stefnanda leyfi.  Þá er haldið fram umboðsskorti skipstjórans til að veita slíkt leyfi og vakin athygli á að það að hann telji stefnanda hafa verið í veikindaleyfi í veiðiferðinni bendi til að stefnandi hafi gefið honum rangar upplýsingar.  Kröfugerð stefnanda var ítrekuð með bréfi lögmanns hans 15. desember 2000.  Í svarbréfi lögmanns stefnda 15. janúar 2001 segir að sé málum þannig háttað að honum hafi verið vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans hafi verið liðinn eigi hann rétt til kaups í fjórtán daga.

III

Kröfugerð stefnanda er reist á því að honum hafi verið sagt upp á ólögmætan hátt.  Hann hafi fengið leyfi skipstjórans, Viðars Benediktssonar, frá störfum umrædda veiðiferð sökum veikinda og hafi Viðar haft stöðuumboð til þess að veita slíkt leyfi, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Stefnandi eigi rétt á launum og/eða skaðabótum vegna hinnar ólögmætu uppsagnar.

Kröfugerðin miðast  við það að laun stefnanda í 26 mánuði í þjónustu stefnda hafi numið samtals 8.831.497 krónum og meðallaun á mánuði því 339.673 krónur.

Í aðalkröfu er krafa gerð um laun og skaðabætur sem jafngildi launum frá febrúar út maí 1999, þ.e. í fjóra mánuði, eða 1.358.692 krónur.  Á því er byggt að hin ólögmæta uppsögn hafi valdið stefnanda tjóni þar sem hann hafi verið atvinnulaus allt frá því í byrjun febrúar 1999 og út maí sama ár er hann hafi hafið eigin atvinnurekstur.  Ákvæði sjómannalaga nr. 35/1985, einkum 1. mgr. 25. gr., eigi einungis við um laun í uppsagnarfresti en upphefji ekki bótarétt stefnanda vegna bótaskyldra athafna stefnda sem vinnuveitanda og sé tjón stefnanda all miklu meira en laun í uppsagnarfresti.

Í varakröfu er krafa gerð um laun í uppsagnarfresti í þrjá mánuði eða 1.019.019 krónur.  Á því er byggt að stefnandi hafi verið einn af yfirmönnum skipsins í skilningi 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga.  Starf brytans sé í raun ekki lengur til nema á einstaka vöruflutningaskipi.  Matsveinar á hinum stærri fiskiskipum hafi í raun sama hlutverki að gegna og brytinn forðum og teljist störf þeirra til “sambærilegra og/eða sérhæfðra starfa” um borð í skilningi greinds lagaákvæðis.  Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga eigi stefnandi þannig rétt á þriggja mánaða staðgengilslaunum.

Samkvæmt þrautavarakröfu er krafið um laun í uppsagnarfresti í fjórtán daga en samkvæmt upplýsingum lögmanns stefnda hafi laun matsveins þá daga, sem hér um ræðir, numið 280.350 krónum.  Kröfugerðin er studd við ákvæði í 2. mgr. 1.11 í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna, sbr. og 1. mgr. 25. gr. og 9. gr. sjómannalaga.

IV

Stefndi byggir kröfu sína á því að stefnandi hafi sjálfur hætt störfum hjá stefnda með því að mæta ekki til skips að kvöldi 19. nóvember 1998 þrátt fyrir að hafa tilkynt framkvæmdastjóra stefnda það nokkrum dögum áður að hann væri í áhöfn Helgu RE – 49 er héldi til veiða 19. nóvember 1998.  Stefnandi hafi ekki minnst á það þegar hann hafi haft samband við framkvæmdastjóra stefnda í byrjun febrúar 1999 að hann hafi verið í veikindaleyfi með leyfi skipstjóra eða haft samband við skipstjórann og beðið hann að upplýsa framkvæmdastjóra stefnda um það.

Stefndi krefst einnig sýknu vegna tómlætis stefnanda við framlagningu kröfu um laun vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar.  Hann hafi ekki haft þá kröfu uppi fyrr en með bréfi lögmanns síns 25. september 2000 og í bréfi 8. desember 1999 hafi ekki verið minnst á þann skilning að honum hafi verið vikið úr starfi í febrúar 1999.

Yrði fallist á kröfu stefnanda kveður stefndi það ætti að vera á grundvelli þrautavarakröfu hans.

V

Stefnandi og Ármann Ármannsson báru það báðir að stefnandi hefði komið heim til Ármanns um miðjan nóvember 1998 eða laust fyrir veiðiferðina 19. s.m.  Stefnandi kvað ekkert hafa verið rætt um næstu ferð skipsins en Ármann kvaðst hafa spurt stefnanda hvort hann færi ekki út á sjó sem hann hafi ítrekað svarað játandi.  Stefnandi kvaðst hafa hringt í skipstjórann, Viðar Benediktsson, tveimur – þremur dögum seinna og beðið um og fengið launalaust leyfi í desembertúrnum (sem hófst 19. nóvember –innskot dómara) vegna þess að hann hafi viljað fá sig góðan af veikindum sínum.  Hann kvaðst síðan hafa farið til Thaílands.  Ármann kvaðst hafa frétt tveimur – þremur dögum fyrir brottför skipsins  að stefnandi ætlaði að fara til Thaílands og hafi hann litið á það sem uppsögn af hans hálfu.  Hann kvaðst ekki hafa haft vitneskju um að stefnandi hafi fengið leyfi og Viðar Benediktsson hafi aldrei minnst á það.

Viðar Benediktsson bar að hann hefði orðið við beiðni stefnanda um launalaust frí í veiðiferðinni sem hófst 19. nóvember 1998 sem hafi verið ætlað til að hann jafnaði sig á veikindum.  Hann kvaðst hafa sagt Ármanni Ármannssyni frá því að stefnandi hefði fengið launalaust leyfi umrædda veiðiferð.  Í janúarveiðiferðinni hafi stefnandi hins vegar átt frítúr þannig að ekki sé rétt að hann hafi þá verið í launalausu leyfi, sbr. áðurgreinda yfirlýsingu Viðars dags. október 2000.

Vitnið Ágúst Karlsson hafði verið háseti á umræddu skipi en kvaðst hafa verið skráður matsveinn í ferðinni sem hófst 19. nóvember 1998 vegna þess að stefnandi hafi ekki komið.  Hann kvað Viðar Benediktsson, sem hafi átt að vera skipstjóri í þeirri ferð, hafa hringt um borð í næstu ferð á undan og beðið um skilaboð þessa efnis.  Þetta gæti hafa verið allt að viku fyrir lok veiðiferðarinnar en eftir hana hafi verið höfð fjögurra – fimm daga viðdvöl í landi.

   Samkvæmt framangreindu, svo og því að umrædd leyfisveiting skipstjórans verður talin falla undir stöðuumboð hans, hafa ekki verið leidd í ljós nein atvik sem réttlættu fyrirvaralausa uppsögn stefnanda og var hún því ólögmæt. 

Stefnandi hafði ekki uppi kröfu á hendur stefnda vegna þess atviks, sem um ræðir í málinu, fyrr en 25. september 2000 eða eftir um tuttugu mánuði.  Í ljósi þessa og ekki síður þess að í kröfubréfi lögmanns stefnanda 8. desember 1999 er ekkert vikið að þessu ágreiningsefni er niðurstaða dómsins sú að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum vegna verulegs tómlætis.

 Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Ingimundur hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Gylfa Ingasonar.

Málskostnaður fellur niður.