Hæstiréttur íslands
Mál nr. 439/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Samlagsaðild
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Gjafsókn
|
|
Föstudaginn 21. október 2005. |
|
Nr. 439/2005. |
Sveinn Skúlason og Erna Valsdóttir (Hilmar Magnússon hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Kærumál. Samlagsaðild. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur. Gjafsókn.
S og E kröfðu Í um bætur vegna húsleitar sem þau töldu ólögmæta. Í málinu settu þau fram óskipta fjárkröfu og héldu fram í greinargerð sinni til Hæstaréttar að þeim væri heimilt að ráðstafa kröfuréttindum sínum með þeim hætti. Talið var að hefðu þau S og E viljað nýta sér heimild til að viðhafa aðilasamlag samkvæmt 1. mgr.19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefði þeim borið að setja fram hvort sína fjárkröfu. Eins og kröfugerð þeirra var háttað þótti krafa þeirra ekki dómtæk og var málinu vísað frá dómi af sjálfsdáðum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 30. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. október 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2005 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefjast þau þess að hrundið verði ákvörðun héraðsdóms um að þeim verði gert að greiða varnaraðila málskostnað og að ákvörðun héraðsdóms um gjafsóknarkostnað þeirra verði breytt til hækkunar. Að auki krefjast þau kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir nánar krefjast sóknaraðilar í málinu miskabóta og skaðabóta vegna útlagðs kostnaðar og vinnutaps í tengslum við húsleit ríkislögreglustjóra, sem framkvæmd var samkvæmt dómsúrskurði á jörðinni Hnjúki, Dalabyggð, 26. júní 2003. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að þau séu í hjúskap og sé jörðin Hnjúkur þeirra annað heimili.
Sóknaraðilar gera í málinu óskipta fjárkröfu á hendur varnaraðila. Er krafan sundurliðuð í stefnu þannig að um sé að ræða miskabætur til hvors þeirra um sig, ásamt nánar tilgreindum fjárhæðum vegna vinnutaps, kostnaðar við akstur og annars útlagðs kostnaðar, sem þau hafi orðið fyrir, vegna þess að þau hafi þurft með stuttum fyrirvara að aka að Hnjúki til að gæta þar hagsmuna sinna við umrædda húsleit. Í stefnu er sameiginleg aðild þeirra að fjárkröfu þessari ekki rökstudd með neinum hætti og ekki vísað til lagaheimildar. Kemur fyrst fram í greinargerð þeirra til Hæstaréttar að þau telji skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 uppfyllt í málinu til samlagsaðildar. Kveðast þau hafa ráðstafað kröfuréttindum sínum þannig að krafa þeirra sé óskipt og það sé þeim heimilt. Þá byggja þau á því að varnaraðili hafi ekki krafist frávísunar á þeim grunni að skilyrði nefndrar lagagreinar væru ekki uppfyllt og því verði málinu ekki vísað frá á þeim forsendum eins og héraðsdómari hafi gert.
Eins og ráða má af dómi Hæstaréttar 6. september 2005 í máli nr. 294/2005 bar sóknaraðilum, vildu þau nýta sér heimild til að viðhafa aðilasamlag samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, að gera hvort um sig sjálfstæða kröfu á hendur varnaraðila. Eins og að framan greinir hafa sóknaraðilar í greinargerð sinni til Hæstaréttar ekki leitast við að leiðrétta þann annmarka, sem samkvæmt framansögðu er á kröfugerð þeirra, heldur þvert á móti haldið því fram að kröfuréttindi þeirra séu óskipt. Í þessu horfi er krafa þeirra ódómtæk og verður, þegar af þeirri ástæðu, að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Eins og málatilbúnaði sóknaraðila er háttað er ekki ástæða til að hrófla við ákvörðunum héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað.
Eftir þessum málsúrslitum verða sóknaraðilar dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila vegna kærumáls þessa greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sveinn Skúlason og Erna Valsdóttir, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, óskipt 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti, þar með talin þóknun lögmanns þeirra 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2005.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 11. mars 2005 og tekið til úrskurðar 9. september sl. Stefnendur eru Sveinn Skúlason og Erna Valsdóttir, bæði til heimilis að Flókagötu 67, Reykjavík. Stefndi er fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík.
Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess að málinu verði vísað frá dómi og stefnendur dæmdir til greiðslu málskostnaðar. Stefnendur krefjast þess að kröfu stefnda um frávísun verði hrundið og hann dæmdur til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Við flutning um frávísunarkröfu stefnda óskaði dómari einnig eftir því að lögmenn tjáðu sig sérstaklega um hugsanlega annmarka á sóknaraðild stefnanda Ernu svo og þann hátt á kröfugerð stefnenda að gera sameiginlega óskipta fjárkröfu í málinu.
I.
Efnislegur ágreiningur málsaðila lýtur að bótaskyldu stefnda vegna leitar sem fram fór á jörðinni Hnúki, Dalabyggð, hinn 26. júní 2003 af ríkislögreglustjóra, en jörðin er þinglýst eign stefnanda Sveins og „annað heimili“ stefnenda eftir því sem segir í stefnu. Í efnisþætti málsins gera stefnendur kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim skaðabætur vegna leitarinnar að fjárhæð 2.355.082 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 26. júní 2003 til greiðsludags, en stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda.
Atvik málsins eru nánar tiltekið þau að 16. júní 2003 var í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp úrskurður þar sem ríkislögreglustjóra var heimiluð leit á jörðinni Hnúki, Skarðströnd í Dalasýslu. Í úrskurði héraðsdóms er krafa ríkislögreglustjóra um húsleit rakin. Kemur þar fram að Kristján Ólafsson hrl., skiptastjóri þrotabús Kraftvaka ehf. og þrotabús Kvarða Afls ehf., hafi óskað eftir opinberri rannsókn lögreglu á ætluðu undanskoti eigna. Þá er rakin rannsókn skiptastjóra á eignum umræddra þrotabúa, m.a. um grunsemdir um að forsvarsmaður hinna gjaldþrota fyrirtækja hafi komið undan eignum, svo sem verkfærum, vinnuvélum og skrifstofu- og tölvubúnaði, meðal annars að Hnúki í Dalasýslu. Þá kemur fram að framvísað hafi verið tilkynningu um eigendaskipti vinnuvélar sem hafi verið í eigu Kraftvaka ehf. og sé kaupandi skráður Hnúkur, skógræktarfélag, en það félag er jafnframt sagt vera eigandi jarðarinnar Hnúks. Þá segir í úrskurði héraðsdóms að verið sé að rannsaka ætluð brot gegn 247. gr. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og sé vísað til 89. gr. sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til stuðnings beiðni um leit. Héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu með vísan til greinargerðar lögreglunnar og framlagðra rannsóknargagna að fyrir lægi rökstuddur grunur um að framangreindur fyrirsvarsmaður hefði komið undan eignum í eigu framangreindra hlutafélaga og þar með gerst sekur um brot gegn fyrrgreindum hegningarlagaákvæðum. Féllst héraðsdómur því á kröfu um leit með vísan til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 19/1991.
Í stefnu er því lýst að haft hafi verið samband við stefnendur 26. júní 2003 af lögreglumönnum ríkislögreglustjóra og þau beðin um að koma að Hnúki og opna þar húsnæði og byggingar. Í stefnu er því ítarlega lýst hvernig stefnendur brugðust við þessari beiðni, undirbúningi þeirra í Reykjavík og ferð vestur í Dali þá um eftirmiðdaginn. Fór umkrafin leit fram um kl. 18.00 þegar stefnendur komu á staðinn og segir í stefnu að lögreglumenn hafi ekki fundið neina þá muni sem þeir leituðu að.
Í málsástæðnalýsingu í stefnu kemur fram að stefnukrafan sé byggð á því að málatilbúnaður ríkislögreglustjóra sem leiddi til úrskurðar héraðsdóms 16. júní 2003 hafi verið ófullnægjandi og byggður á „kjaftasögum“. Þá hafi héraðsdómari farið ranglega með staðhæfingar um eignarréttindi að jörðinni Hnúk og hún verið sögð tilheyra öðrum aðila en stefnanda Sveini. Telja stefnendur að þarna hafi verið um að ræða fullkomna vanrækslu dómarans um að gæta að réttum forsendum fyrir úrskurði sínum. Sé dómurinn kveðinn upp gegn betri vitund eða a.m.k. án nægjanlegra aðgæslu dómarans og án þess að hagsmuna stefnenda hafi með nokkrum hætti verið gætt. Segir í stefnu að af þessum sökum hafi leit lögreglunnar verið ólögmæt. Telja stefnendur jafnframt að þeir hafi með þessu og ásökunum um að geyma þýfi sætt ólögmætri meingerð af hálfu lögreglu og dómara. Þeir vísa einnig til þess að þeir hafi orðið persónulegum álitshnekki og óþægindum vegna frétta af þessum atburðum í sveitarfélaginu. Að lokum vísa stefnendur til þess að ríkislögreglustjóri hafi dregið úr hófi að ljúka málinu formlega gegn stefnendum.
Bótakrafa stefnenda er þannig fram sett að vinnutap stefnanda Sveins er talið nema 138.000 krónum miðað við 12 klst., en vinnutap stefnanda Ernu 90.000 miðað við 12 klst. Er umræddur tímafjöldi stefnenda sundurliðaður í undirbúning, ferðir og dvöl að Hnúk. Þá gera stefnendur kröfu um greiðslu vegna aksturs, gjalds í Hvalfjarðargöng, gistingar og fæðis og virðisaukaskatts á vinnutap. Samtals telja þeir því fjártjón sitt nema 355.082 krónum. Þá gera þeir kröfu um miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna hvort um sig eða samtals 2.000.000 krónur. Er stefnufjárhæð samanlögð fjárhæð miskabótakröfu beggja stefnenda og bóta beggja fyrir fjártjón.
II.
Stefndi reisir frávísunarkröfu sína á því að málið sé vanreifað af hálfu stefnenda. Þannig sé ekki sýnt fram hvert hið bótaskylda atvik hafi verið. Ekki sé reifað hvaða þýðingu formlegt eignarhald að jörðinni Hnúk hafi. Ekki sé leitast við að sýna fram á tjón í málinu. Ekki sé reifað hvers vegna stefnendur hafi báðir þurft að fara vestur með hliðsjón af því að viðvera annars þeirra hefði átt að vera nægileg við umrædda húsleit. Engin grein sé gerð fyrir vinnutapi stefnenda en draga megi í efa að þeir hefðu selt vinnu sína á umræddan hátt á þeim tíma sem hér um ræði, þ.e. um hásumar. Þá er vísað til að þess að engin grein hafi verið gerð fyrir því hvaða ráðstafanir stefnendur þurftu að gera vegna dóttur sinnar sem rætt sé um í stefnu. Stefndi telur einnig sundurliðun á kröfu stefnenda annmörkum háða. Bendir hann á að ekki séu færð rök að því að stefnendur eigi rétt á bótum fyrir gistingu og fæði eða hvers vegna þeir óku Hvalfjarðargöng í stað þess að fara fyrir fjörðinn. Þá sé ekki sýnt fram á miska eða mannorðskerðingu tengda því máli sem hér var til meðferðar. Að lokum telur stefndi ekki að sýnt hafi verið fram á tengsl milli tjóns stefnenda og háttsemi starfsmanna stefnda. Í munnlegum málflutningi kom fram sú skoðun hjá lögmanni stefnda á að hann teldi sóknaraðild Ernu Valsdóttur óljósa og einnig óskýrt hvernig kröfugerð væri fram sett fyrir hönd beggja stefnenda.
Stefnendur telja að skýrt komi fram í stefnu hver hin bótaskyldu atvik séu, en þar sé annars vegar um að ræða atvik sem lúti að kröfu ríkislögreglustjóra um leit og hins vegar úrskurði héraðsdómarans sjálfs. Þá sé einnig á því byggt að sá dráttur sem hafi orðið á lyktum málsins hjá ríkislögreglustjóra leiði til skaðabótaskyldu. Að því er varðar sóknaraðild Ernu Valsdóttur var bent á að umrædd leit hefði farið fram á heimili hennar. Auk þess væri hún forsvarsmaður Hnúks, skógræktarfélags, sem borið hefði verið sökum í málinu. Væri því eðlilegt að hún væri sóknaraðili málsins. Þá væri hlutur hvors stefnanda í kröfunni skýrður í sundurliðun kröfunnar í stefnu. Að öðru leyti hafnaði lögmaður stefnenda sjónarmiðum stefnda um frávísun sem haldlausum og taldi ekkert fram komið sem leiða ætti til frávísunar málsins. Væru sjónarmið stefnda þess eðlis að þau kæmu til skoðunar við efnislega úrlausn málsins.
III.
Niðurstaða
Líkt og áður greinir reisa stefnendur kröfur sínar á því að leit sem gerð var á jörðinni Hnúk 26. júní 2006 hafi verið ólögmæt og verði auk þess rakin til saknæmrar háttsemi starfsmanna ríkislögreglustjóra og þess héraðsdómara sem fór með málið. Einnig byggja stefnendur á því að sá dráttur sem varð á því að ríkislögreglustjóri tilkynnti um að umrætt mál hefði verið fellt niður leiði til skaðabótaskyldu stefnda.
Samkvæmt þinglýsingarvottorði sem stefnendur hafa lagt fram er stefnandi Sveinn einn eigandi að jörðinni Hnúk í Dalabyggð. Í stefnu er hins vegar fullyrt að umrædd eign sé „persónuleg eign stefnenda“ án þess að það sé útskýrt með hliðsjón af umræddu vottorði. Verður þannig ekki séð af gögnum málsins að Erna Valsdóttir hafi verið þolandi umræddrar leitar með einum eða öðrum hætti, en að mati dómara nægir ekki í þessu efni að vísa til þess að jörðin Hnúkur hafi verið „annað heimili“ nefndrar Ernu. Þá er ekki að finna neinar útskýringar í stefnu á því hvers vegna nauðsyn bar til að nefnd Erla væri viðstödd umrædda leit og kostaði til þess tíma og fjármunum. Er það því álit dómara að í málatilbúnaði stefnenda komi engar viðhlítandi skýringar fram á aðild Ernu Valsdóttur að þeirri bótakröfu sem stefnendur beina sameiginlega gegn stefnda með málsókn sinni. Í þessu sambandi athugast einnig að í málatilbúnaði stefnenda er engin grein gerð fyrir því að nefnd Erna hafi verið grunuð um hylmingu af lögreglu þannig að hún hafi beðið tjón vegna ætlaðs óeðlilegs dráttar á því að tilkynna um lok þess máls sem hér var um að ræða.
Líkt og fyrr greinir gera stefnendur sameiginlega kröfu að fjárhæð 2.355.082 krónur gegn stefnda en í þeirri kröfu felast miskabætur til hvors aðilar um sig auk bóta fyrir vinnutap, ferðakostnað o.fl. Í stefnu er ekki að neinu vikið að sameiginlegri sóknaraðild stefnenda að umræddu máli. Þá er ekki með neinum hætti útskýrt með hvaða hætti stefnendur geta átt óskipta kröfu vegna vinnutaps síns og miska. Þegar haft er í huga það sem áður segir um vanreifun stefnenda á aðild Ernu Valsdóttur á málinu þykir kröfugerð stefnanda í heild svo óljós að varði sjálfkrafa frávísun málsins.
Samkvæmt framangreindu verður máli þessu vísað sjálfkrafa frá dómi. Eftir úrslitum málsins verða stefnendur dæmdir sameiginlega til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst hæfilegur 150.000 krónur. Stefnendur fengu útgefið leyfi til gjafsóknar 20. apríl 2005. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Hilmars Magnússonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu á málflutningsþóknun.
Af hálfu stefnanda flutti málið Hilmar Magnússon hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Sigurður Gísli Gíslason hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Sveinn Skúlason og Erna Valsdóttir, greiði stefnda, íslenska ríkinu, sameiginlega 150.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda, þar með talin þóknun lögmanns þeirra Hilmars Magnússonar hrl. að fjárhæð 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.