Hæstiréttur íslands

Mál nr. 11/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Dómstóll
  • Lögsaga
  • Varnarþing


                                     

Þriðjudaginn 3. febrúar 2009.

Nr. 11/2009.

K

(Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl.)

gegn

M

(enginn)

 

Kærumál. Hjón. Forsjá. Dómstólar. Lögsaga. Varnarþing.

K höfðaði mál gegn M og krafðist þess fyrir dómi að sér yrði veittur skilnaður að borði og sæng frá M og að henni yrði dæmd forsjá barna þeirra. M og K sem voru albanskir ríkisborgarar höfðu verið hælisleitendur á Íslandi síðan í júlí 2007. Með úrskurði héraðsdóms var málinu vísað frá dómi af sjálfsdáðum þar sem héraðsdómur taldi málið ekki heyra undir lögsögu íslenskra dómstóla. Hæstiréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi þar sem talið var að uppfyllt væru skilyrði 1. töluliðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 31/1993 til þess að hjúskaparmál gegn M yrði höfðað hér á landi. Þá var talið að K hefði, samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 31/1993 og 4. mgr. 36. gr. laga nr. 76/2003, sbr. 2. málslið 2. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991, verið heimilt að höfða málið gegn M fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2008, sem barst réttinum 9. janúar 2009. Kærumálsgögn bárust Hæstarétti þann dag og 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað á ný til héraðsdóms til löglegrar meðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Málsaðilar eru albanskir ríkisborgarar, sem munu hafa komið hingað til lands á miðju ári 2007 ásamt tveimur börnum sínum. Þau sóttu um hæli hér á landi sem pólitískir flóttamenn, en sóknaraðili ber að þau hafi yfirgefið Albaníu á árinu 2000 og dvalið annars staðar á Norðurlöndum síðustu fimm árin og óskað einnig eftir hæli í ríkjum þar. Sóknaraðili kveður þeim hafa verið útveguð leiguíbúð í Reykjanesbæ, þar sem þau hafi búið til september 2008, en þá hafi hún flutt með börnum sínum í Kvennaathvarfið í Reykjavík til tímabundinnar dvalar vegna ótta við varnaraðila. Hann mun hafa fengið inni á Gistiheimili Hjálpræðishersins í Reykjavík, þar sem honum var birt stefna í málinu 7. nóvember 2008. Af hálfu sóknaraðila hafa gögn verið lögð fyrir Hæstarétt þar sem fram kemur að hún og börnin hafi flutt að nýju í Reykjanesbæ um miðjan desember 2008. Með málsókn sinni leitar sóknaraðili eftir því að henni verði veittur skilnaður að borði og sæng frá varnaraðila, fengin forsjá barnanna og varnaraðili dæmdur til að greiða einfalt meðlag með hvoru barni frá 1. nóvember 2008 til 18 ára aldurs þeirra.

Varnaraðili sótti þing þegar málið var þingfest 13. nóvember 2008 og fékk frest til að leggja fram greinargerð. Hann fékk enn frest í sama skyni í þinghaldi 20. sama mánaðar, en 27. nóvember sótti hann þing og lagði fram greinargerð. Við næstu fyrirtöku málsins 18. desember 2008 var fært í þingbók að reynt hafi verið að boða varnaraðila til þinghaldsins en það ekki tekist þar sem hann dvelji ekki lengur á Gistiheimili Hjálpræðishersins og óvíst hvar hann haldi sig. Í greinargerð varnaraðila til héraðsdóms segir meðal annars að hann sé skilríkjalaus og hafi „engin gögn að framvísa.“ Þá sé hann félaus með öllu.

Stjórnvöld munu ekki hafa afgreitt umsókn málsaðila um hæli hér á landi, en samkvæmt bréfi Útlendingastofnunar 5. desember 2008 verður umsókn sóknaraðila og barna hennar um dvalarleyfi af mannúðarástæðum ekki afgreidd fyrr en niðurstaða í þessu máli liggur fyrir.

II

Í 1. mgr. 114. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 segir að hjúskaparmál megi höfða hér á landi í tilvikum, sem talin eru upp í fimm töluliðum. Samkvæmt hinum fyrsta þeirra má höfða slíkt mál ef stefndi er búsettur hér á landi. Í ákvæðinu er þess ekki krafist að hann hafi verið búsettur á Íslandi tiltekinn lágmarkstíma. Eins og aðstæðum varnaraðila er háttað og lýst var að framan verður að líta svo á að hann sé búsettur á Íslandi eins og sakir standa, en ekki felst í lagaákvæðinu áskilnaður þess efnis að um fasta búsetu þurfi að vera að ræða. Engin atvik eru heldur fyrir hendi sem leitt geta til þess samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 að varnaraðili sé undanþeginn lögsögu íslenskra dómstóla. Skilyrði samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 114. gr. hjúskaparlaga eru því uppfyllt til þess að hjúskaparmál verði höfðað gegn varnaraðila hér á landi.

Sóknaraðili leitar dóms í máli þessu gegn varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Henni er það heimilt samkvæmt 1. mgr. 115. gr. hjúskaparlaga og 4. mgr. 36. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 2. málslið 2. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt öllu framanröktu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2008.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. desember sl., er höfðað af K,

fæddri [...] 1956, Kvennaathvarfinu í Reykjavík gegn M, fæddum [...] 1950, Gistiheimili Hjálpræðishersins, Kirkjustræti 2, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1. Að stefnanda verði með dómi veittur skilnaður að borði og sæng frá stefnda.

2. Að stefnanda verði dæmd forsjá barna aðila, A, fæddrar [...] 1993, og B, fæddrar [...] 1994.

3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda einfalt meðlag með hvoru barni frá 1. nóvember 2008 til 18 ára aldurs þeirra.

Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur.

Jafnframt er gerð krafa um að málið sæti flýtimeðferð fyrir dóminum m.t.t. hagsmuna stefnanda og barna hennar og með vísan til atvika málsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að málinu verði vísað frá dómi.

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum á þá leið að aðilar hafi gengið í hjónaband í heimalandi sínu Albaníu, en hafi verið hælisleitendur á Íslandi síðan í júlí 2007, þegar þau sóttu um hæli sem flóttamenn ásamt tveimur dætrum sínum. Við komuna til landsins og síðar í skýrslutökum á vegum útlendingastofnunar hafi aðilar rökstutt umsókn sína þannig að fjölskyldan væri í hættu í heimalandinu vegna þess að stefndi hefði að öllum líkindum lent í deilu við samtök atvinnubrotamanna í heimalandinu, sem hefðu m.a. rænt eldri dóttur aðila og haldið henni í mánaðartíma vorið 2007. Vegna þessa væru þau ekki óhult ef þau yrðu að snúa til baka til Albaníu. Hafi íslensk yfirvöld samþykkt að fara með mál aðila sem hælisleitenda frá og með júlí 2007. Vegna þessa hafi fjölskyldan fengið íbúð í Reykjanesbæ og framfærslueyri frá ríkinu auk þess sem þau hafi fengið aðstoð við að koma stúlkunum í skóla og aðra nauðsynlega aðstoð til þess að aðlagast íslensku samfélagi. Við rannsókn máls aðila hjá útlendingastofnun hafi síðar komið í ljós að þau höfðu sótt um hæli á öllum Norðurlöndunum á síðustu árum og að þau hefðu dvalarleyfi í Grikklandi. Þá þóttu ýmis atriði í frásögn þeirra ekki geta staðist. Í húsleit hjá nokkrum hælisleitendum, sem framkvæmd var af Útlendingastofnun þann 11. september s1. í Reykjanesbæ, fundust verulegir fjármunir á heimili aðila og voru teknar af þeim frekari skýrslur vegna þess. Hafi stefndi þá ákveðið að draga hælisumsókn til baka og vildi fara strax af landinu ásamt fjölskyldu sinni, gegn því að fá féð sem haldlagt var í leitinni, afhent aftur til sín. Stefnandi hafi aftur á móti ekki viljað fara af landinu og þá ekki dætur aðila og hafi komið upp alvarleg deila milli þeirra vegna þess. Stefndi hafi brugðist mjög illa við þessari afstöðu stefnanda og hafi hótað stefnanda og börnunum öllu illu í viðurvist starfsmanna félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ og fulltrúa Rauða krossins sem annast aðstoð við hælisleitendur. Hafi stefnandi þá leitað eftir aðstoð þessara aðila til að leita skilnaðar við stefnda og kvað þær mæðgur vera í mikilli hættu ef þær þyrftu að yfirgefa landið með honum. Að beiðni þeirra hafi þær verið fluttar í Kvennaathvarfið þar sem þær búi enn. Síðan þá hafi lögmaður stefnanda leitað eftir samkomulagi um skilnað við stefnda, með milligöngu prests þeirra hjóna og fulltrúa Rauða krossins, án þess að það hafi borið árangur. Sé ljóst að stefndi hafi ekki hug á því að veita stefnanda skilnað. Þá samþykki hann ekki að stefnandi fari með forsjá barnanna.

Að sögn stefnanda hefur hún búið við alvarlegt og ítrekað ofbeldi og ofríki af hálfu stefnda í hjúskap þeirra og kveðst hún aldrei áður hafa lagt í að segja frá því, auk þess sem það myndi ekki hafa nein áhrif ef hún gerði það í heimalandi aðila, en hún kveður yfirvöld þar ekki viðurkenna rétt kvenna til verndar gegn ofbeldi á heimilinu.

Þegar aðilar hafi sótt um hæli kveðst stefnandi ávallt hafa þurft að fylgja strangri fyrirsögn stefnda um hvað hún segði í skýrslutökum og hafi ávallt sagt það sem hann sagði henni að segja. Telur stefnandi að hún hefði ella orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu og jafnvel lent í lífshættu. Núna vilji stefnandi alls ekki halda áfram hjúskap við stefnda eða yfirgefa landið og telur að hún sé í hættu af hálfu stefnda ef hjónaband þeirra haldi áfram. Það sé því nauðsynlegt fyrir stefnanda að fá skilnað frá stefnda sem fyrst, en þar sem ekki njóti neinna skriflegra sönnunargagna í málinu enn sem komið er um ofbeldi stefnda gegn stefnanda, þá sé aðeins gerð krafa um skilnað að borði og sæng.

Stefnandi kveðst ekki treysta sér til að fara úr Kvennaathvarfinu á meðan ekki hafi verið gengið frá skilnaði aðila og telur sig og börnin ekki vera örugg vegna afstöðu og óstöðuglyndis stefnda. Hún telur að hún muni, að öllum líkindum, fá íbúð hjá Reykjanesbæ fyrir sig og börnin um leið og skilnaðarmál aðila sé í höfn og þá muni börnin halda þar áfram í skóla.

Stefnandi kveður dætur þeirra einnig hafa búið við ofríki af hálfu föður síns og þær vilji aðeins lúta forsjá móður og búa áfram á Íslandi. Þar sem þær hafi farið með móður af heimili aðila í september og stutt hennar ákvarðanir með heim hætti. Þá sé stefndi mjög reiður út í þær og sé viðbúið að þær þurfi að svara fyrir það ef ekki sé gengið frá forsjárskipan þeirra fyrir dómi. Það sé því brýnt fyrir börnin að kveðið verði á um forsjá fyrir dómi hið fyrsta.

Þar sem aðilar séu hælisleitendur á Íslandi hafi þau eingöngu heimilisfesti hér, en geti ekki skráð lögheimili sitt á Íslandi þar sem umsókn þeirra um hæli eða dvalarleyfi sé enn óafgreidd. Málinu sé því stefnt fyrir dóminn í Reykjavík þar sem báðir aðilar séu dvalfastir í umdæmi dómsins.

Stefnandi hafi óskað bréflega eftir skilnaði hjá sýslumanni þann 9. október 2008 en það erindi sé enn óafgreitt þar sem embættið hafi vísað málinu til ráðuneytis vegna óvissu um hvort það heyrði undir íslensk yfirvöld.

Þar sem atvik málsins eru með þeim hætti, að sættir séu ekki líklegar milli aðila, þá sé máli þessu stefnt fyrir dóminn.

Málsástæður stefnanda

Krafa stefnanda um skilnað byggist á því að aðilar hafi slitið sambúð og að stefnandi telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap með stefnda. Þá sé byggt á því að öll skilyrði fyrir leyfi til skilnaðar að borði og sæng séu uppfyllt, þar sem bú aðila sé eignalaust, hvorugt geri kröfu um makalífeyri úr hendi hins þar sem þau séu tekjulaus, og að skorið verði úr öðrum atriðum sem skilnaðinn varða í máli þessu.

Krafa stefnanda um forsjá byggist á því að það sé börnunum fyrir bestu að hún fari með óskipta forsjá. Stefnandi hafi annast börnin frá fæðingu og sameiginlegt heimili aðila, en stefndi hafi verið langdvölum utan heimilis svo til alla daga vikunnar og lítið sinnt börnunum þegar hann var heima. Börnin séu því háð umönnun stefnanda og þarfnast hennar, auk þess sem börnin tengist móður sinni meira en föður sínum vegna atvika málsins.

Krafa stefnanda um óskipta forsjá byggist á því að vegna ósamkomulags aðila og skapbresta stefnda geti hún ekki átt eðlileg samskipti við hann, svo sem þörf krefji í sameiginlegri forsjá. Þau hafi ekki getað rætt saman um málefni barnanna og henni hafi ekki tekist að ná samkomulagi við stefnda um atriði sem varði helstu hagsmuni þeirra, s.s. forsjárskipan, umgengni og skiptingu framfærslukostnaðar. Það sé því engin leið að láta hagsmuni barnanna ráðast af sameiginlegri forsjá.

Krafa stefnanda um forsjá byggist jafnframt á því að hún geti boðið börnunum upp á traust og öruggt heimili, hún geti vel annast framfærslu sína og þeirra með vinnu eða eftir atvikum tímabundinni aðstoð sveitarfélagsins og standi vel að umönnun barnanna þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Auk þess njóti stefnandi góðs stuðnings þeirra sem hún hafi leitað til og þeirra fagaðila sem hafi komið að málum aðila, svo sem hjá velferðarsviði, Alþjóðahúsi og Rauða krossinum. Stefnandi geti þannig vel tryggt bæði félagslega og fjárhagslega velferð barnanna.

Að lokum byggist krafa stefnanda um forsjá á því að dæturnar vilji búa hjá henni frekar en stefnda og þar sem þær séu nú 14 og 15 ára gamlar þá eigi þær að fá að ráða því sjálfar, enda hafi þær bæði aldur og þroska til þess.

Krafa stefnanda um greiðslu stefnda á meðlagi með börnunum byggist á lögbundinni framfærsluskyldu stefnda samkvæmt ákvæðum barnalaga.

Stefnandi byggir kröfu sína á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003, sérstaklega VI. kafla laganna svo og ákvæðum hjúskaparlaga nr. 31/1993 og er vísað til 114. gr. þeirra laga um varnarþing og lögsögu dómsins. Krafa um málskostnað sé byggð á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91 frá 1991 um meðferð einkamála.

Með vísan til 42. gr. barnalaga sé áskilinn réttur til að koma að síðar frekari sönnunargögnum í málinu, verði tekið til varna, svo og að gera kröfu um að aflað verði gagna um hagi og aðstæður barns og foreldra sem málið getur varðað

Málsástæður stefnda

Í greinargerð stefnda kemur fram að hann sé albanskur ríkisborgari, eins og kona hans og börnin tvö, A (15 ára) og B (14 ára). Hafi málsaðilar gift sig í Albaníu árið 1992. Stefndi kveðst ekki vera búsettur á Íslandi. Kona hans og börnin ekki heldur. Þá séu þau ekki með neina kennitölu.

Stefndi kveðst vera ski1ríkjalaus. Hann hafi á sínum tíma sótt um pólitískt  hæli á Íslandi. Hann hafi engin gögn undir höndum sem hann geti framvísað og geti því hvorki  sannað né afsannað nokkurn skapaðan hlut. Það sama gildi um konu hans. Hann kveðst vera mállaus í þessu landi. Hann tali enga íslensku og lélega ensku. Greinargerð í máli þessu hafi hann skrifað með aðstoð séra Jakobs Rolland, kaþólsks prests í Reykjavik. Hann sé peningalaus og það litla, sem hann eigi eftir dugi ekki einu sinni til þess að afla sér vista eða húsnæðis.

Stefndi kveðst vera að verða 60 ára. Hann sé illa farinn heilsufarslega og með gervifót. Guðmundur Pálsson, læknir á Suðurnesjum, hafi fylgst með honum og fjölskyldu hans. Hann hafi ekki tök á því að útvega sé túlk eða lögfræðing. Hann skorti fjármuni, heilsu og kunnáttu til þess að átta sig í þeim efnum.

Vegna ofangreinda aðstæðna telji hann augljóst að Héraðsdómur Reykjavikur sé vanhæfur til þess að taka þetta einkamál til meðferðar. Hann óski því eftir að máli þessu  verði vísað frá dómi.

Niðurstaða

Stefndi skilaði greinargerð í málinu. Þar sem dómari taldi að vafi kynni að leika á því að mál þetta ætti undir lögsögu íslenskra dómstóla var boðað til þinghalds í dag til þess að gefa aðilum kost á að tjá sig um það atriði. Reynt var að boða stefnda til þinghaldsins en það tókst ekki og er ekki vitað hvar hann dvelur.

Í kröfugerð sinni gerir stefnandi kröfu um að málið sæti flýtimeðferð, en ekki liggur fyrir að stefnandi hafi óskað eftir slíkri meðferð í samræmi við 2. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 3. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 76/2003 skal flýta meðferð forsjármáls.

Mál þetta var þingfest 13. nóvember sl. Greinargerð stefnda var lögð fram 22. nóvember. Undirritaður dómari fékk málið til meðferðar í byrjun desembermánaðar. Með vísan til framanritaðs verður að telja að meðferð málsins hafi verið í samræmi við fyrrnefnda 3. mgr. 38. gr. barnalaga.

Stefnandi gerir þær dómkröfur í málinu að henni verði veittur skilnaður að borði og sæng frá stefnda. Að henni verði dæmd forsjá dætra þeirra og að stefndi verði dæmdur til þess að greiða meðlag með dætrunum.

Samkvæmt 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 getur hver sá sem getur átt réttindi eða borið skyldur að landslögum verið aðili að dómsmáli.

Stefnandi vísar til 114. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um varnarþing og lögsögu dómsins. Í 1. mgr. 114. gr. segir að hjúskaparmál megi höfða hér á landi í eftirfarandi tilvikum:

1.                    Ef stefndi er búsettur hér á landi.

2.                    Ef stefnandi er hér búsettur og hefur verið það sl. tvö ár eða hér áður svo langan tíma.

3.                    Ef stefnandi er íslenskur ríkisborgari og leitt er í ljós að hann geti ekki vegna ríkisfangs síns höfðað mál í því landi sem hann er búsettur í.

4.                    Ef bæði eru íslenskir ríkisborgarar og stefndi lýsir eigi andstöðu sinni

Í 3. mgr. 114. gr. segir síðan að ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland sé aðili að, skuli þó ganga framar ákvæðum þessarar greinar.

Í 4. mgr. 36. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir: Nú er gerð krafa um forsjá barns í hjúskaparmáli og gilda þá reglur hjúskaparlaga um lögsögu og varnarþing.

Í 2. mgr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er skilgreint hvað felist í því að hafa fasta búsetu, en þar segir að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Í 3. mgr. greinarinnar segir m.a. að dvöl á gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna má til þessa, sé ekki ígildi fastrar búsetu.

Fram er komið að málsaðilar eru albanskir ríkisborgarar. Þau komu til landsins sem flóttamenn og sóttu um hæli hér á landi í júlímánuði 2007. Hefur umsókn þeirra ekki hlotið afgreiðslu yfirvalda. Þau hafa verið á framfæri íslenska ríkisins. Stefnandi dvelur nú í Kvennaathvarfinu ásamt dætrum sínum en stefndi dvelur á Gistiheimili Hjálpræðishersins. Samkvæmt framangreindu er ekki fallist á að málsaðilar séu búsettir á Íslandi.

Af því sem rakið hefur verið þykir ljóst að málsaðilar uppfylla hvorki skilyrði 16. gr. laga nr. 91/1991 né 1. mgr. 114. gr. laga nr. 31/1993 til þess að vera aðilar að dómsmáli sem rekið verður fyrir íslenskum dómstólum. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að í gildi sé milliríkjasamningur milli Albaníu og íslenska ríkisins er heimili slíkt, sbr. 3. mgr. 114. gr. laga nr. 31/1993. Mál þetta heyrir ekki undir lögsögu íslenskra dómstóla og ber þegar af þeim sökum að vísa málinu frá dómi af sjálfsdáðum.

Málskostnaður dæmist ekki.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan

Úrskurðarorð

Máli þessu er vísað frá dómi af sjálfsdáðum.

Málskostnaður dæmist ekki.