Hæstiréttur íslands

Mál nr. 132/2007


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Tekjuskattur
  • Bókhald
  • Fyrning
  • Skilorð
  • Sekt
  • Verjandi


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. apríl 2008.

Nr. 132/2007.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen, saksóknari)

gegn

Hrafni Sturlusyni

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Virðisaukaskattur. Tekjuskattur. Bókhald. Fyrning. Skilorð. Sekt. Verjandi.

H var sakfelldur fyrir brot á lögum um virðisaukaskatt, lögum um tekjuskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga með því að hafa ekki tilkynnt skattstjóra um virðisaukaskattskylda starfsemi og hafa vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskattskyldri sölu og þannig komið sér hjá því að greiða 3.393.304 krónur og með því að hafa ekki talið tekjur fram til skatts og þannig komið sér undan greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð 4.309.339 krónur, eða samtals 7.702.643. Þá var ákærði einnig sakfelldur fyrir bókhaldsbrot. Áttu brotin sér fyrst stað í sjálfstæðri starfsemi ákærða en síðan í rekstri einkahlutafélagsins B. Voru brotin talin samkynja og eðlislík og framin samfellt á tímabili frá upphafi árs 1999 til loka árs 2000. Töldust brot ákærða í heild stórfelld og því réttilega heimfærð til 1.mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða var þó ekki gerð refsing eftir þeirri grein vegna brota hans í sjálfstæðum rekstri þar sem ákæruvaldið undi við niðurstöðu héraðsdóms um að þau brot hafi ekki talist meiri háttar. Talið var að vegna heimfærslu brotanna til framangreinds ákvæðis almennra hegningarlaga ætti við 10 ára fyrningarfrestur 3. tl. 1. mgr. 81. gr. laganna og væru brot ákærða ófyrnd. Var H dæmdur til að sæta fangelsi í átta mánuði skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var hann dæmdur til greiðslu 16.000.000 króna sektar en sæta ella átta mánaða fangelsi. Ekki voru skilyrði til að beita heimildum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt til að fara niður úr fésektarlágmarki.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. febrúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæruliðum A.I, A.II, B.I og B.II og að refsing fyrir brot samkvæmt liðum A. III og B. III verði svo væg sem lög leyfa. Til vara krefst hann mildunar refsingar.

I.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Með vísan til forsenda hans þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem hann er þar sakfelldur fyrir. Ákærði tilkynnti ekki skattstjóra um virðisaukaskattskylda starfsemi sína í sjálfstæðri atvinnustarfsemi og vanrækti að gera grein fyrir virðisaukaskattskyldri sölu á nokkrum bifreiðum þau uppgjörstímabil ársins 1999, sem rakin eru í lið A. I í ákæru, og kom sér þannig undan að standa tollstjóranum í Reykjavík skil á 521.950 krónum. Á sama hátt tilkynnti ákærði ekki skattstjóra um virðisaukaskattskylda starfsemi einkahlutafélagsins Bílastíls árin 1999 og 2000, og vanrækti að gera grein fyrir virðisaukaskattskyldri sölu sinni á miklum fjölda bifreiða tiltekin uppgjörstímabil, svo sem nánar er rakið í lið B. I í ákæru, og kom sér þannig undan að standa tollstjóra skil á 2.871.354 krónum. Ákærði taldi ekki fram til skatts gjaldárið 2000 tekjur sínar árið 1999 af sjálfstæðu atvinnustarfseminni og kom sér þannig hjá að greiða tekjuskatt og útsvar að fjárhæð samtals 758.523 krónur. Hann skilaði heldur ekki skattframtölum gjaldárin 2000 og 2001 vegna starfsemi Bílastíls ehf. á árunum 1999 og 2000 og kom með því félaginu undan að greiða samtals 3.550.816 krónur, allt eins og nánar er rakið í liðum A. II og B. II í ákæru. Samtals nam því sá virðisaukaskattur, tekjuskattur og útsvar í sjálfstæðri atvinnustarfsemi ákærða og rekstri einkahlutafélagsins Bílastíls, sem hann kom sér hjá að greiða, 7.702.643 krónum. Þá lét hann undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækti að varðveita bókhaldsgögn, eins og nánar er rakið í liðum A. III og B. III. í ákæru. Eru brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru, en ákvæði 3. gr. laga nr. 134/2005 um breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og fleiri lögum, sem breytti 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á hér ekki við þar sem skilyrði ákvæðisins er ekki uppfyllt.

II.

Brot ákærða gegn lögum nr. 50/1988 sem framin voru í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans stóðu yfir frá uppgjörstímabilinu janúar-febrúar 1999 til september-október sama ár að undanskildu einu tímabili, en í rekstri einkahlutafélagsins samfellt frá uppgjörstímabilinu maí-júní 1999 til nóvember- desember 2000. Þá voru brotin samkynja og eðlislík. Samkvæmt þessu verður fyrningarfrestur brotanna miðaður við 5. febrúar 2001, sem var sá dagur sem síðasta brot hans gat talist fullframið, en þá bar ákærða í síðasta lagi að skila skýrslu vegna virðisaukaskattskyldrar sölu einkahlutafélagsins fyrir síðasta uppgjörstímabilið nóvember-desember 2000.

Ákærði var fyrst yfirheyrður sem sakborningur hjá ríkislögreglustjóra 19. september 2004 vegna ætlaðra brota. Var fyrningarfrestur þá rofinn, sbr. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Nokkrar tafir urðu á rannsókn málsins hjá ríkislögreglustjóra, þó ekki slíkar að með þeim hafi fyrningarfrestur ekki rofnað eftir 5. mgr. sömu greinar, enda ber til þess að líta að rannsókn málsins var umfangsmikil og gagnaöflun tafsöm meðal annars vegna afstöðu ákærða. Brot ákærða teljast meiri háttar og falla því undir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Er fyrningarfrestur þeirra samkvæmt því 10 ár, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Eru brot ákærða þar af leiðandi ófyrnd. Ákærða verður hins vegar ekki gerð refsing eftir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga vegna brota hans í einkarekstri þar sem ákæruvaldið unir við þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að þau brot hafi ein og sér ekki talist meiri háttar í skilningi 3. mgr. ákvæðisins. Ákærða verður samkvæmt málsatvikum öllum gert að sæta fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um fésektarrefsingu ákærða staðfest. Vararefsing hennar er ákveðin fangelsi í 8 mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.

Sigurður Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður var samkvæmt ósk ákærða skipaður verjandi hans fyrir Hæstarétti 6. mars 2007. Skömmu fyrir ráðgerðan munnlegan málflutning kom í ljós að verjandinn hafði verið yfirheyrður í málinu sem vitni. Mátti því ekki skipa hann til starfans, sbr. 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum. Var ákærða því skipaður nýr verjandi. Laun vegna vinnu fyrrnefnds verjanda við undirbúning málsvarnar ákærða skulu greiðast úr ríkissjóði og verða ákveðin eins og í dómsorði greinir. Við þá ákvörðun hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði verður dæmdur til að greiða annan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun síðar skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Hrafn Sturluson, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 16.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 8 mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði samtals 496.347 krónur af áfrýjunarkostnaði málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur, en málsvarnarlaun áður skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 23. nóvember sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 3. júlí 2006 á hendur Hrafni Sturlusyni, Norðurbrún 30, Reykjavík, fyrir eftirtalin skatta-, bókhalds- og hegningarlagabrot, í sjálfstæðri atvinnustarfsemi og sem framkvæmdastjóri og eini stjórnarmaður einkahlutafélagsins Bílastíls, kt. 651187-1689.

A. Fyrir brot í sjálfstæðri atvinnustarfsemi.

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og almennum hegningarlögum.

Með því að hafa ekki tilkynnt skattstjóra virðisaukaskattskylda starfsemi sína frá og með janúar til og með október 1999 og hafa vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskattskyldri sölu sinni á því tímabili og þannig komið sér undan að standa Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð kr. 521.950,- og sundurliðast sem hér greinir: °

Uppgjörstímabil:

Vantalin skattskyld velta

Vangoldinn VSK

 

 

 

Janúar – febrúar

kr.        1.405.623

kr.     -203.012

Mars – apríl

kr.        2.088.354

kr.         63.367

Maí – júní

kr.       3.574.298

kr.        113.082

September – október

kr.       4.377.511

kr.        548.513

 

kr.    11.445.786

kr.      521.950

Telst þetta varða við 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, 191. gr. laga nr. 82/1998 og 3. gr. laga nr. 134/2005 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um tekjuskatt, lögum um tekjustofna sveitarfélaga og almennum hegningarlögum.

Með því að hafa ekki talið fram til skatts tekjur sínar af sjálfstæðri atvinnustarfsemi gjaldaárið 2000, vegna tekna árið 1999, og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts og útsvars samtals að fjárhæð kr. 758.523,- sem sundurliðast sem hér greinir:

             Rekstrartekjur:

 

kr.    11.445.786

Rekstrargjöld:

 

kr.     -9.470.464

Tekjuskattsstofn:

 

kr.       1.975.322

Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 26,41%

 

kr.           521.682

Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 11,99%

 

kr.           236.841

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:

 

kr.         758.523

Telst þetta varða við 2. og 6. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður 2. og 6. mgr. 107. gr. eldri laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

III. Fyrir bókhaldsbrot.

Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar árið 1999.

Telst þetta varða við 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995 um breyting á þeim lögum, sbr. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995.

B. Fyrir brot framin í rekstri einkahlutafélagsins Bílastíls.

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og almennum hegningarlögum.

Með því að hafa ekki tilkynnt skattstjóra virðisaukaskattskylda starfsemi félagsins árin 1999 og 2000, og hafa vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskattskyldri sölu þess á því tímabili og þannig komið félaginu undan að standa Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð kr. 2.871.354,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Vantalin skattskyld velta

Vangoldinn VSK

Árið 1999

 

 

Maí – júní

kr.                      0

kr.      -612.534

Júlí – ágúst

kr.                      0

kr.      -554.357

September - október

kr.        7.285.142

kr.        467.963

Nóvember - desember

kr.                      0

kr.        -26.817

 

kr.       7.285.142

kr.     -725.745

 

 

 

 

 

 

Árið 2000

 

 

Janúar – febrúar

kr.                      0

kr.        -29.525

Mars - apríl

kr.        5.656.899

kr.        -67.587

Maí – júní

kr.      19.934.702

kr.     1.697.440

Júlí – ágúst

kr.      15.343.143

kr.        710.020

September - október

kr.        6.321.286

kr.        620.000

Nóvember - desember

kr.        3.775.101

kr.        666.751

 

kr.     51.031.131

kr.    3.597.099

 

                                  Samtals:

kr.    2.871.354

Telst þetta varða við 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, 191. gr. laga nr. 82/1998 og 3. gr. laga nr. 134/2005 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um tekjuskatt og almennum hegningarlögum.

Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að skila skattframtölum vegna starfsemi félagsins á árunum 1999 og 2000, gjaldaárin 2000 og 2001, og hafa með því komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts gjaldaárið 2001, samtals að fjárhæð kr. 3.550.816,- og sundurliðast sem hér greinir:

Vangreiddur tekjuskattur gjaldaárið 2001:

Rekstrartekjur:

kr.      51.031.131

Rekstargjöld:

kr.    -38.850.078

Tekjuskattsstofn:

kr.     12.181.053

 

 

Áætlaður tekjuskattsstofn ásamt álagi:

kr.         -345.000

Vantalinn tekjuskattsstofn:

kr.      11.836.053

Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 30%

kr.       3.550.816

Telst þetta varða við 2. og 6. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. áður 2. og 6. mgr. 107. gr. eldri laga nr. 75/1981 um tekjuskatt- og eignarskatt, og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

III. Fyrir bókhaldsbrot.

Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna rekstrar félagsins árin 1999 og 2000.

Telst þetta varða við 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995 um breyting á þeim lögum, sbr. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdir til refsingar.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara krefst hann þess að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins og að þau verði alfarið eða að hluta greidd úr ríkissjóði.

Málavextir.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til ríkislögreglustjóra, dags. 23. september 2003, var vísað til opinberrar rannsóknar á máli vegna meintra brota tengdum skattskilum og bókhaldi Hrafns Sturlusonar og Bílastíls ehf., sem úrskurðað var gjaldþrota 2. júlí 2003. Samkvæmt gögnum málsins var ákærði stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í greindu félagi á þeim tíma sem ákæran tekur til. Er ákærða gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að skila virðisaukaskattskýrslum vegna virðisaukaskattskyldrar atvinnustarfsemi hans í eigin nafni og vegna Bílastíls ehf. við innflutning og sölu á bifreiðum á árunum 1999 og 2000 og hafa með því komið sér hjá því að standa skil á virðisaukaskatti svo sem í ákæru greinir. Þá er honum gefið að sök að hafa látið hjá líða að telja fram til skatts tekjur af áður greindri starfsemi og hafa þannig komið sér hjá greiðslu tekjuskatts og útsvars. Jafnframt er hann sakaður um að hafa ekki haldið tilskilið bókhald vegna umræddrar starfsemi, í samræmi við það sem lög áskilja.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst þann 9. nóvember 2001 og lauk 6. janúar 2003. Ákærði var yfirheyrður hjá skattrannsóknarstjóra 24. janúar, 20. febrúar og 2. september 2002. Kvaðst ákærði ekki hafa stundað neinn sjálfstæðan atvinnurekstur á árunum 1999 og 2000, en hafa verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Bílastíls ehf. Kvaðst hann ekki hafa haldið neitt bókhald um sjálfstæða atvinnustarfsemi, enda hafi hún engin verið og fyrir Bílastíl ehf. hafi hann einungis flokkað gögn að hluta til og fært að einhverju leyti í Excel. Kvaðst hann ekki hafa tilkynnt um virðisaukaskattskylda starfsemi þar sem hann hafi greitt virðisaukaskatt til tollstjóra og talið það duga. Var ákærði spurður um innflutning einstakra bifreiða og söluverð. Staðfesti hann verð flestra bifreiðanna, en gerði athugasemdir við aðrar.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 19. september 2004. Aðspurður um skipan stjórnar og framkvæmdastjórnar Bílastíls ehf. kvaðst ákærði ekki muna hvernig því hafi verið háttað. Hann kvaðst hafa borið alla ábyrgð á fjármálastjórn félagsins, bókhaldi og skattskilum vegna rekstraráranna 1999 og 2000. Aðspurður hvers vegna skattframtölum Bílastíls ehf. vegna þessa tíma var ekki skilað kvaðst ákærði ekki muna það. Spurður um hvort bókhald hafi verið fært vegna innflutnings og sölu á 54 bifreiðum, sem ákærði og Bílastíll ehf. fluttu inn á árunum 1999 og 2000, kvaðst hann kjósa að tjá sig ekki um það. Þá kaus hann að tjá sig ekki um það hvers vegna hann og félagið voru ekki á virðisaukaskattskrá og skiluðu ekki virðisaukaskattskýrslum. Farið var yfir upplýsingar um innflutning og sölu þeirra 54 bifreiða sem um ræðir með ákærða. Hann kvaðst ekki muna eftir þessu, en ekki andmæla því að hafa flutt inn umræddar bifreiðar ef gögn segðu til um það. Þá kvaðst ákærði vilja taka fram almennt að söluverð bifreiðanna hafi iðulega verið skráð hærra í gögnum en raunin hafi verið, til að kaupandi gæti fengið hærra lán en ella. Söluverð innfluttra bíla væri ívið lægra en annarra bifreiða á markaði hér á landi, en þegar hafi komið að lánamöguleikum hafi iðulega verið skráð íslenskt markaðsverð á pappírana, að beiðni kaupanda, til að viðkomandi fengi hærra lán. Kvaðst hann ekki muna hvert söluverð þessara tilteknu bíla var og því ekkert geta tjáð sig um það. Vildi hann ekki tjá sig um tölulegar niðurstöður ríkislögreglustjórans.

Framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði skýrði svo frá að hann hafi á árunum 1999 og 2000 flutt inn bíla fyrir aðra. Bílarnir hafi verið fyrir fram seldir og honum ætluð einhver smá þóknun fyrir vikið. Hann hafi sjálfur flutt inn einn og einn bíl til endursölu. Kvaðst hann hafa gert þetta til að afla sér tekna. Hann hafi fengið fyrir fram greitt til kaupanna og hafi áætlað aðflutningsgjöld og annað slíkt. Ákærði kvaðst alltaf hafa greitt virðisaukaskatt við útleysingu bíla, annað væri óhjákvæmilegt. Hann hafi því talið sig hafa gengið frá virðisaukaskatti á sínum stað. Ákærði kvað raunina vera þá að hann hafi ekki haft tekjur af þessum innflutningi, þó það hafi verið ætlunin. Bæði fyrirtækið og hann sjálfur hafi orðið gjaldþrota. Ástæðan hafi verið sú að ef bílarnir hafi ekki staðist þær kröfur sem til þeirra hafi verið gerðar hafi hann setið uppi með skaðann.

Ákærði kvaðst hafa átt hlut í einkahlutafélaginu Bílastíl. Hann kvað rekstur félagsins hafa verið alfarið í hans höndum og að hann bæri einn ábyrgð á honum. Í upphafi hafi verið fleiri eigendur að félaginu, en hann hafi síðar eignast það. Á meðan það hafi ekki verið fyrir hendi hafi bílarnir komið til landsins á hans nafni. Eftir það hafi þetta færst yfir á nafn Bílastíls ehf. og hafi félagið verið hugsað sem innflytjandi og endurseljandi. Hins vegar hafi orðið framhald á svokallaðri umboðsmennsku. Kvaðst ákærði hafa talið að ef slíkar þóknanagreiðslur myndu skila hagnaði myndi hann greiða af þeim tilskilda skatta. Kvaðst hann hafa skilað öllum opinberum gjöldum af sér á sinn stað. Þannig hafi hann greitt virðisaukaskatt hjá sýslumanni. Önnur aðflutningsgjöld, eða bifreiðagjöld, hafi verið greidd við skráningu. Ákveðið hagræði hafi verið í að fresta því þar sem bílalánakerfið hafi í flestum tilvikum verið notað. Slíkt lán hafi ekki fengist afgreitt fyrr en eftir skráningu. Ákærði kvaðst sjálfur hafa leyst bifreiðirnar út úr tollinum og hafa fengið fjármuni til þess. Ákærði kvaðst ekki muna kostnaðartölur vegna bifreiðanna enda væru um sex ár síðan þetta hafi átt sér stað. Hann kvaðst ekki geta staðfest framburð sinn hjá skattrannsóknarstjóra, enda væri minni hans gloppótt, auk þess sem andlegt ástand hans hafi ekki verið gott á þessum tíma. Ákærði kvaðst hafa verið undir umsjá geðlæknis og sálfræðings á þessum tíma vegna þunglyndis og vera enn.

Borin voru undir ákærða einstök tilvik innflutnings á bifreiðum. Aðspurður um framburð sinn hjá skattrannsóknarstjóra, um að innflutningur bifreiðarinnar SB-203 hafi verið vinargreiði við Jón Baldvinsson og ákærði hafi ekkert hagnast á þeim viðskiptum, kvaðst ákærði ekki muna þetta nákvæmlega, en þetta væri ekki ólíklegt. Hann þekki Jón Baldvinsson mjög vel og hafi flutt inn fleiri en eina bifreið fyrir hann. Hann sagðist hvorki geta játað né neitað því verði sem byggt væri á. Hann kvað Jón hafa leitað til sín um hvort hann gæti fundið fyrir sig bíl og það hafi hann gert í flestum tilvikum.

Borinn var undir ákærða framburður hans hjá skattrannsóknarstjóra varðandi bifreiðina MO-372 sem flutt var inn í febrúar 1999. Kvað hann þá söluverð bifreiðarinnar hafa verið 2.600.000 krónur, en samkvæmt bókhaldsgögnum var það 3.200.000 krónur. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um hvort þetta væri rétt verð. Benti hann á að hafa bæri í huga varðandi uppsett verð að það hafi tekið mið af bílalánakerfinu á þessum tíma. Þá hafi ekki verið um 100% lán að ræða, heldur hafi verið um hámarks prósentuhlutfall að ræða miðað við árgerð og söluvirði. Reikningar hafi því sýnt hærra söluverð en raunin hafi verið.

Ákærði kvaðst ekki geta tjáð sig frekar um verð í einstökum tilvikum. Hann kvað það hins vegar rétt með farið að hann hafi flutt inn allar þessar bifreiðar, annað hvort í eigin nafni eða Bílastíls ehf. Hann hafi komið að vinnu við innflutning þeirra, en muni ekki eftir smáatriðum í sambandi við þær. Hann hafi ætlað að fá umboðsþóknanir fyrir þessa vinnu. Ákærði kvaðst hafa greitt fyrir bifreiðarnar í tollinum. Fjármagn vegna þess hafi stundum farið í gegnum reikninga hans, en stundum hafi væntanlegir eigendur komið með honum og greitt, bæði hjá tollinum og skráningarstofu. Hann hafi jafnframt séð um það þegar þurft hafi að lagfæra bílana eitthvað. Ákærði kvaðst ekki hafa gert grein fyrir þessu sem virðisaukaskyldri sölu. Aðspurður um tölur í ákæru kvað ákærði þær vera allt of háar. Ekki væri um að ræða raunvirði allra hluta. Hann kvað þau söluverð sem byggt væri á ekki rétt í öllum tilvikum, en kaupendur bifreiðanna hefðu líklega ekki viljað viðurkenna hækkanir sem þeir teldu geta komið sér illa. Hann kvaðst þó ekki geta bent á nein ákveðin tilvik þar sem um þetta væri að ræða.

Ákærði kvað engan hagnað hafa verið á rekstrinum, heldur gífurlegt tap, sem hafi orsakað það að bæði hann persónulega og fyrirtækið hafi orðið gjaldþrota. Hann kvað meiri gjöld hafa verið af rekstrinum en fram komi í gögnum málsins. Um alls konar viðgerðir og lagfæringar hafi verið að ræða vegna atriða sem kaupendur hafi ekki sætt sig við og hann hafi tekið á sig. Kvaðst hann telja að megnið af kvittunum vegna þessa hafi lent hjá rannsóknaraðilum. Um hafi verið að ræða lausar staðgreiðslukvittanir. Hann kvaðst ekki hafa gert neina frekari leit að kvittunum heima hjá sér. Þar sem ekki hafi heyrst af þessu máli í fjölda ára hafi hann fargað einhverjum gögnum sem gætu hafa verið honum til framdráttar. Ákærði kvað það sem hafi verið fært honum og Bílastíl ehf. til tekna í ákærunni ekki vera rétt. Hann kvaðst ekki hafa talið fram umboðslaun vegna þess að í rúmlega 90% tilvika hafi hann glatað þeim í formi lagfæringa á bílunum. Ef eitthvað hafi komið upp á með bílana, sem ekki hafi staðist væntingar kaupenda, hafi það lent á umboðslaununum. Hann kvaðst líklega hafa tekið á sig meira en vera bar þar sem hann hafi illa þolað þrýsting á þessum tíma. Hann hafi því glatað þóknuninni og orðið gjaldþrota. Ákærði kvað ástæðu þess að hann hafi þurft að afsala sér bifreiðunum vera þá að þær hafi verið sendar á nafni hans eða félagsins. Hann hafi þó aldrei talið sig eiganda bifreiðanna, heldur einungis afsalað sér þeim vegna þess að hann hafi verið skráður fyrir þeim í flutningi.

Ákærði kvaðst hafa haldið bókhald af bestu getu. Hann kvaðst hafa haldið öllum gögnum til haga og hafa leitað aðstoðar bókhaldsstofu. Hann kvaðst þó muna að haft hafi verið samband við hann þaðan vegna þess að gögn hafi vantað þegar hann hafi talið sig vera búinn að skila öllum gögnum. Hafi gögnin þá verið heima hjá honum. Þegar borið var undir ákærða svar hans um færslu bókhalds hjá skattrannsóknarstjóra, þar sem fram kom að hann hafi ekki fært bókhald vegna sjálfstæðrar starfsemi þar sem hann hafi ekki talið sig stunda hana og einungis hafa flokkað gögn að hluta til og fært að einhverju leyti í Excel til að afhenda endurskoðanda til framtalsgerðar vegna Bílastíls ehf., kvað hann það hafa verið raunina. Hann kvaðst muna eftir að hafa flokkað að einhverju leyti og bókhaldsstofa hafi verið fengin til að setja upp. Viðurkenndi hann að kannast við að hafa ekki fært bókhald og að einhverju leyti ekki varðveitt bókhaldsgögn.

Vitnið, Jón Baldvinsson, kvaðst hafa keypt tvær bifreiðar af ákærða, annars vegar persónulega og hins vegar fyrir hönd Ráðningarþjónustunnar. Vitnið kvað ákærða hafa flutt inn bifreiðina SB-203 Mercedes Benz 200E fyrir sig. Hann kvaðst ekki muna hvert kaupverðið hafi verið. Aðspurður kvað hann að haft hafi verið samband við sig af hálfu yfirvalda og spurt um kaupverð bifreiðarinnar og hann hafi þá gefið upp rétt verð. Vitnið kvaðst hafa valið bílinn eftir mynd. Hann hafi svo greitt fyrir bílinn samkvæmt tollpappírum sem ákærði hafi lagt fram. Hann kvaðst ekki hafa greitt neina þóknun. Það hafi verið áætlað verð og þetta hafi verið eins og að ganga inn á bílasölu og kaupa bíl. Hann kvað bílinn hafa verið bankaborgaðan og hann hafi svo borgað seinni greiðsluna þegar bíllinn hafi verið kominn til landsins. Vitnið kvað bifreiðina OO-489 Toyota Landcruiser hafa verið flutta inn fyrir Ráðningarþjónustuna. Hann kvað þessa aðferð hafa verið notaða þar sem Toyota hafi ekki átt svona bíl og hann hafi verið búinn að panta Benz í Ræsi, en það hafi verið sex mánaða bið eftir honum. Hann hafi langað í jeppa og því haft samband við nokkra innflutningsaðila. Einn bíll hafi fundist og verið fluttur inn fyrir hann. Kvaðst hann hafa bankaborgað bílinn. Hann hafi svo farið með ákærða og greitt fyrir hann í tollinum. Hann kvað ákærða hafa sagst taka eitthvað fyrir þetta og eins hafi verið um alla aðra sem hann hafi leitað til. Um hafi verið að ræða 50.000-100.000 krónur. Þóknuninni hafi verið bætt við verð bílsins.

Vitnið, Ragnheiður D. Dagbjartsdóttir, kvaðst hafa verið skráð eigandi að SS-443 Musso jeppa, en fyrrverandi eiginmaður hennar, Einvarður Hallvarðsson, hafi keypt bílinn. Hún kvaðst ekki vita hvernig greitt hafi verið fyrir bílinn eða hvert kaupverðið hafi verið. Hún kvað það geta verið að hún hafi gefið skattayfirvöldum upplýsingar um kaupverð bílsins, en kvaðst ekki muna eftir því.

Vitnið, Sigurður Sigurjónsson, kvaðst hafa keypt bifreiðina MU-520. Vitnið kvaðst hafa sent skattrannsóknarstjóra afsal vegna kaupanna. Hann hafi verið í bílaskiptum á þessum tíma. Hann þekki til ákærða, sem hafi boðist til að útvega honum bíl. Ákærði hafi haft ákveðinn bíl í huga og úr hafi orðið að hann hafi keypt þennan bíl af honum, eins og komi fram á samningi þeirra á milli. Vitnið kvaðst ekki hafa viljað greiða inn á bíl í öðru landi sem hann hafi ekki séð, nema í tölvu, og hafi hann því viljað hafa skriflegan samning um þetta. Hann kvað allt við kaupin hafa staðist. Vitnið kvað ekki um það að ræða að hann hafi flutt bílinn inn, heldur hafi hann keypt hann. Hann kvaðst einu sinni eftir þetta hafa keypt bíl með sama hætti. Hann kvað kaupverðið rétt tilgreint í samningnum. Hann hafi greitt umsamið verð, en ekki neina sérstaka þóknun. Hann kvaðst ekki minnast þess að sér hafi verið kynnt verðið erlendis frá. Sér hafi verið boðinn bíllinn á ákveðnu verði.

Vitnið, Vilhjálmur Hafsteinsson, kvaðst hafa keypt bifreiðina JY-084 í mars 2000. Hann kvað ákærða hafa boðið sér bílinn til sölu og sagst vera að fá hann inn. Kaupverðið hafi verið 2.133.000 krónur.

Vitnið, Sigrún Halla Runólfsdóttir, kvaðst hafa keypt bifreiðna OF-376 af ákærða í október 2000. Kvaðst hún hafa séð auglýsingu í Dagblaðinu um bílinn. Hún hafi hringt og mælt sér mót við ákærða. Vitnið kvaðst minna að hún hafi farið og skoðað bílinn fyrst. Það hafi líklega verið í Hafnarfirði, en hún mundi ekki hvort það hafi verið í tollportinu. Hún hafi ákveðið að kaupa hann og hafi þá greitt inn á hann fyrst og fengið bílalán fyrir um helming verðsins. Hún kvaðst hafa greitt með þremur ávísunum, en verðið hafi verið 1.600.000 krónur. Hún kvað einhverja galla hafa komið upp í bílnum, geymirinn hafi gefið sig og eitthvað annað hafi komið upp um svipað leyti. Hún kvaðst hafa fengið aðstoð bróður síns og farið og látið laga þetta.

Niðurstaða.

Ákærði hefur neitað sök samkvæmt liðum I og II í A kafla ákæru og liðum I og II í B kafla ákæru. Hefur hann borið því við að hann hafi flutt tilgreindar bifreiðar inn í umboðssölu og hafi átt að fá smáþóknun fyrir. Hann hafi ávallt greitt virðisaukaskatt í tollinum og því talið sig hafa uppfyllt skyldur sínar. Þá kvað ákærði engar tekjur hafa verið af innflutningnum. Mikill kostnaður, meðal annars við lagfæringar á bifreiðunum, hafi orsakað að yfirleitt hafi ekkert staðið eftir af þóknun hans. Þá hefur ákærði borið því við að brot hans samkvæmt A kafla ákærunnar séu fyrnd. Ákærði hefur hins vegar játað sakargiftir samkvæmt lið III í A kafla og lið III í B kafla ákæru.

Ákærði og Bílastíll ehf. voru skráðir innflytjendur allra þeirra bifreiða sem ákæran lýtur að. Ákærði kvaðst hafa greitt fyrir viðgerðir á bifreiðunum ef á þurfti að halda. Afsalaði ákærði bifreiðunum til kaupenda. Vitnið Jón Baldvinsson kvað ákærða ekki hafa tekið neina þóknun þegar hann hafi flutt inn bíl fyrir sig og sagðist einungis hafa greitt samkvæmt tollpappírum sem ákærði hafi lagt fram. Hins vegar kvaðst hann hafa greitt þóknun þegar ákærði hafi flutt inn bíl fyrir hann fyrir hönd Ráðningarþjónustunnar. Önnur vitni báru um að hafa keypt bíl á ákveðnu umsömdu verði af ákærða. Bar vitnið Sigurður Sigurjónsson þannig um að gerður hafi verið skriflegur samningur um að hann keypti bíl á ákveðnu verði. Hann hafi ekki fengið upplýsingar um verð bílsins erlendis og ekki hafi verið talað um neina þóknun. Þá bar vitnið Sigrún Halla Runólfsdóttir að hún hafi keypt bifreiðina OF-376 af ákærða eftir að hafa séð hana auglýsta í dagblaði. Verður því að telja að ákærði hafi verið innflytjandi þeirra bifreiða sem ákæran lýtur að og honum hafi borið að skrá starfsemina á virðisaukaskattskrá lögum samkvæmt.

Ákærði hefur haldið því fram að fjárhæðir í ákæru séu mun hærri en þær ættu að vera þar sem söluverð einhverra bifreiða gæti verið of hátt og að kostnaður hafi verið meiri. Ákærði hefur þó ekki getað bent á nein sérstök tilvik þar sem söluverð sem miðað er við sé of hátt. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra staðfesti hann ætlað verð flestra bifreiðanna og var við rannsókn málsins tekið tillit til þeirra athugasemda sem hann hafði fram að færa. Í öðrum tilvikum kvaðst hann ekki geta staðfest verðið. Fyrir dómi hafa nokkrir kaupenda bifreiðanna sem um ræðir borið að það verð sem byggt sé á sé rétt. Ákærði hefur ekki lagt fram nein gögn um annað verð. Þá hefur hann ekki sýnt fram á að hann hafi haft meiri kostnað vegna bifreiðanna en þegar hefur verið tekið tillit til. Verður því ekki fallist á að lækka beri vangoldinn virðisaukaskatt eða tekjuskattstofn.

Ákærði heldur því fram að brot hans samkvæmt A kafla ákæru, vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi, séu fyrnd, enda verði að gera að þessu leyti greinarmun á brotum ákærða vegna hans eigin reksturs og hins vegar brotum hans í starfsemi einkahlutafélagsins Bílastíls. Enda þótt brot ákærða á lögum um virðisaukaskatt samkvæmt lið I í A kafla og lið I í B kafla ákæru tengist starfsemi tveggja sjálfstæðra lögaðila verður að líta svo á að þessi brot ákærða séu samkynja og nái yfir tímabilin frá janúar-febrúar 1999 til nóvember-desember 2000. Ber því að miða við að fyrningarfrestur hefjist þegar umræddri brotastarfsemi lauk í desemberlok 2000, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 18/2001. Á sama hátt verður að telja brot ákærða samkvæmt lið II í A kafla og lið II í B kafla ákæru samkynja og þá einnig lið III í A kafla og lið III í B kafla. Samkvæmt 7. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, 8. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 6. mgr. 108. gr. eldri laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald fyrnist sök vegna brota á þeim lögum á sex árum. Voru brot ákærða því ófyrnd þegar málið var þingfest 4. september 2006.

Að virtum þeim fjárhæðum sem brot ákærðu lúta að og öðru því sem hér hefur verið rakið verður að telja brot ákærða í rekstri einkahlutafélagsins Bílastíls meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða í sjálfstæðri atvinnustarfsemi þykja á hinn bóginn ekki þess eðlis að þau teljist stórfelld eða sakir hans að öðru leyti miklar í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 107. gr. eldri laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, eða 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum, sbr. og Hæstaréttardóm 30. september 1999 í máli nr. 193/1999. Verður ákærða að þessu leyti því ekki refsað samhliða fyrir brot á almennum hegningarlögum.

Eins og rakið hefur verið hefur ákærði verið fundinn sekur um stórfelld brot sem vörðuðu verulegar fjárhæðir. Hins vegar verður litið til þess að nokkur dráttur hefur orðið á rannsókn málsins og að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot sem hér skiptir máli. Að þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði og verður hún bundin skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærða gert að greiða sekt í ríkissjóð að fjárhæð 16.000.000 króna innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 5 mánuði.

Með hliðsjón af greindum málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til að greiða máls­varnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Thoroddsen héraðsdómslögmanns. Með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og að teknu tilliti til fjölda þinghalda þykja málsvarnarlaun hans hæfilega ákveðin 190.000 krónur, að meðtöldum virðisauka­skatti.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Birni Þorvaldssyni, fulltrúa ríkislögreglustjóra.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Hrafn Sturluson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 16.000.000 króna í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 5 mánuði.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Thoroddsen héraðsdómslögmanns, 190.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.