Hæstiréttur íslands

Mál nr. 295/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 14. maí 2010.

Nr. 295/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. maí 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að dæmt verði óheimilt að skerða réttindi hans samkvæmt c. - e. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Við meðferð málsins í héraði hafði varnaraðili, með vísan til 3. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, uppi kröfu um að dómari úrskurðaði að óheimilt væri að skerða réttindi varnaraðila í gæsluvarðhaldinu samkvæmt c. – e.  liðum 1. mgr. 99. gr. laganna. Af hálfu sóknaraðila var þess einungis krafist að gæsluvarðhaldið yrði með þeim takmörkunum sem greinir í d. lið 1. mgr. 99. gr. Verður þetta skilið svo að sóknaraðili hafi ekki andmælt kröfu varnaraðila að því er varðar takmarkanir þær sem greinir í c. og e. liðum málsgreinarinnar. Stóðu því efni til þess að fallast á kröfu varnaraðila að því er þær varðar.

Að því athuguðu sem að framan greinir en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um gæsluvarðhald varnaraðila, X.

Óheimilt er, meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, að skerða réttindi hans samkvæmt c. og e. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í 11 daga, frá lokum gæsluvarðhalds í dag klukkan 16:00 allt til föstudagsins 21. maí 2010, kl. 16:00. 

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögregla hafi undanfarnar vikur rannsakað ætluð fjársvik kærða X.  Rannsókn máls hafi byrjað í kjölfar þess að nokkrir einstaklingar leituðu til lögreglu eftir að þeir töldu sig hafa sannreynt að kærði X hefði blekkt þá til þess að láta sig hafa peninga.  Í öllum tilvikum, þó með einni undantekningu, hafi kærði haft frumkvæði að fjárhagslegum samskiptum og boðið skjóta ávöxtun.  Kærði hafi oftast boðið fólki að ávaxta fé í einhverskonar gjaldeyris- og eða hlutabréfaviðskiptum eða með öðrum viðskiptum. Aldrei hafi verið gerðir samningar og hafi kærði ekki lagt fram skrifleg gögn eða tilboð.  Fólk hafi lýst því að það hafi treyst kærða þótt það hafi ekki almennilega skilið eðli og eða tegund þeirra viðskipta sem hann lýsti auk þess sem kærði hafi oft lagt á það nokkra pressu að láta hann hafa peningana þar sem viðskiptin þyrftu af einhverjum ástæðum að komast fljótt á.

Gögn lögreglu beri með sér að kærði hafi blekkt mikinn fjölda einstaklinga og fyrirtækja og að svikin hafi staðið yfir í fjölda ára.  Rannsókn nú bendi til þess að umfang máls frá árinu 2007 nemi að minnsta kosti 300.000.000 króna og þolendur ætlaðra brota kærða séu 90 einstaklingar og fyrirtæki.

Lögregla hafi þegar yfirheyrt 60 einstaklinga.  Brotaþolar hafi svipaða sögu að segja um samskipti sín við kærða.  Framburður fólks sé með fáum undantekningum á þann veg að kærði hafi algerlega haft frumkvæðið.  Hann hafi í flestum tilvikum boðið að ávaxta peninga fólks með því að gera einhverskonar gjaldeyrisviðskipti eða hluta­bréfa­viðskipti.  Nokkur dæmi séu um loforð um ávöxtun af viðskiptum af öðru tagi. Kærði hafi sótt mjög á og gjarnan sett pressu á fólk að ákveða sig og að láta peningana af hendi með því að útskýra einhverjar trúverðugar ástæður fyrir því að það hastaði að gera viðskiptin. Kærði, sem hafi enga starfstöð, hafi haft þann hátt á að hitta fólk á fyrir fram ákveðnum stöðum og viðhaldið eftir það samskiptum við fólk í síma.  Engin dæmi séu um að kærði hafi verið með lögmæt skjöl eða gögn um viðskipti sem hann bauð og aldrei þannig að hann hafi getað sýnt fólki fram á í hvað hann hefði ráðstafað peningum þess. Þegar fólk hafi leitast við að endurkrefja hann um peningana  hafi kærði borið fyrir sig ýmsum afsökunum og haldið fólki í von um endurgreiðslu svo mánuðum og árum skipti.  Í fjölda tilvika hafi kærði greitt fólki óverulegan hluta til baka með hlutfallslega mjög lágum fjárhæðum og hafi haldið fólki þannig í þeirri von að hann muni endurgreiða að fullu.  Rannsókn hafi leitt í ljós að kærði noti til endurgreiðslu, þegar það hafi gerst, fé frá nýjum fórnarlömbum til þess að halda eldri fórnarlömbum frá því að grípa til harðra innheimtuaðgerða og frá því að kæra til lögreglu. Þá hafi brotaþolar lýst því að kærði hafi bent því á að það muni enga endurgreiðslu fá ef það kæri til lögreglu. Þá hafi nokkrir kærendur lýst því hjá lögreglu að þeir vilji kæra X til refsingar en þeir vilji ekki endurgreiðslu frá kærða og hafi ekki krafið hann um slíkt þar sem þeir geri sér grein fyrir því að endurgreiðsla frá kærða geti eingöngu átt sér stað með því að hann finni nýtt fórnar­lamb.

Mörg dæmi séu þess að kærði hafi sagt fórnarlömbum sínum frá því að til þess að hann geti endurgreitt þurfi hann aukið framlag frá viðkomandi til þess að leysa út gjaldeyri, hlutabréf eða önnur verðmæti sem hann gefi í skin að sé bundið einhverjum hömlum sem hann þurfi að leysa úr. Við rannsókn hafi verið upplýst að engin slík dæmi séu uppi, heldur sé um algeran tilbúning að ræða og að peningarnir sem hann blekki út úr fólki, sem í örvæntingu haldi að það sé að liðka fyrir endurgreiðslu, fari oftar en ekki til greiðslu skulda kærða við einstaklinga sem leggi hart að honum að endurgreiða sér.  Mörg dæmi séu um að kærði þvingi einstaklinga til þess undir þessum kringumstæðum að taka lán, t.d. yfirdráttarlán í banka sem hann noti til að endurgreiða öðrum einstaklingum sem tekist hafi að setja kærða upp við vegg til að endurgreiða.

Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að kærði hafi ekki staðið í gjaldeyris­viðskiptum öðrum en að kaupa óverulegar fjárhæðir í erlendri mynt af bönkum og hann hafi ekki staðið í hlutabréfaviðskiptum.  Þá séu fá dæmi um að kærði hafi tengst fasteignaviðskiptum undanfarin misseri.

 Undanfarin 10 ár hafi orðið eignamyndun hjá kærða og fjölskyldu hans með því að hann hafi greitt af áhvílandi skuldum af fasteign að [...], [...] sem sé og hafi verið séreign eiginkonu hans samkvæmt kaupmála og þá hafi kærði lagt til heimilisreksturs að minnsta kosti 400.000 krónur á mánuði undanfarin ár og aðstoðað son sinn við að fjármagna flugnám.

Kærði sé og hafi verið ógjaldfær um margra ára skeið. Kærði hafi á undanförnum árum skipað málum með þeim hætti að fasteignirnar að [...], [...], [...] og [...], [...] séu á nafni eiginkonu hans og þrjár bifreiðar sem hann og fjölskylda hans hafi yfir að ráða. Bú kærða hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta á síðasta ári og sé skiptum lokið á eignalausu búi hans.

Rannsókn ætlaðs brots kærða gegn 248. gr. alm. hgl., nr. 19/1940 sé afar umfangsmikil en vel á veg komin.  Lögregla eigi þó eftir að ná til og yfirheyra vel á annan tug vitna sem samkvæmt gögnum megi ætla að hafi verið blekkt og hafi tapað fjármunum sínum.  Í ljósi þess sem leitt hafi verið í ljós og fram komi hjá þeim sem yfirheyrðir hafi verið sé veruleg hætta á að kærði muni torvelda rannsókn málsins með því að freista þess að fá þolendur til þess að hverfa frá kærum eða kæra ekki með loforðum um að endurgreiða þeim, þrátt fyrir að hann hafi ekki yfir fjármunum að ráða nema þeim fjármunum sem séu afrakstur langvarandi og kerfisbundinna fjársvika hans. Þá liggi fyrir að tryggja þá fjármuni sem talið sé að kærði hafi komið undan. Með vísan til þess sem að framan sé rakið og gagna málsins þyki brýna nauðsyn bera til þess að kærða verði með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 21. maí n.k., til þess að koma í veg fyrir að kærði hindri og torveldi rannsókn málsins og til að koma í veg fyrir að hann mismuni þeim sem eigi kröfu á hann.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins þykir kærði vera undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.  Þá má ætla að haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Þá er ljóst að yfirheyra á eftir mikinn fjölda vitna en rannsókn málsins er mjög umfangsmikil. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra, eins hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.  Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Verjandi hefur fyrir hönd kærða krafist þess að úrskurðað verði að óheimilt sé að skerða réttindi þau sem sakborningi sem gæsluvarðhaldsfanga eru áskilin í c-e liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.  Samkvæmt kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er einungis krafist að gæsluvarðhaldið verði með þeim takmörkunum sem greinir í d lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.  Með hliðsjón af því og rannsóknarhagsmunum málsins verður ekki fallist á kröfu kærða.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 21. maí nk. kl. 16:00. 

Hafnað er kröfu kærða um að óheimilt sé að skerða réttindi hans samkvæmt c-e liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.