Hæstiréttur íslands

Mál nr. 401/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                                                                                              

Miðvikudaginn 11. júní 2014.

Nr. 401/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta nálgunarbanni.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2014 þar sem lagt var nálgunarbann á varnaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem greinir í dómsorði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 28. maí 2014 þess efnis að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt sé bann við því að hún komi á eða í námunda við heimili [...] að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreindan stað, mælt frá miðju hússins, og að varnaraðili veiti [...] eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

Staðfest eru ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun verjanda og réttargæslumanns.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2014.

I

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 28. maí 2014 þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hún komi á eða í námunda við heimili [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreindan stað, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að [...] veiti [...] eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum lögreglu liggi [...] undir grun um að hafa valdið [...], sem sé starfandi lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu, ónæði og áreiti með símhringingum og sendingu smáskilaboða, mestmegnis af kynferðislegum toga, frá lokum febrúar sl. til 15. maí sl. 

[...] hafi sætt nálgunarbanni gagnvart [...] frá 11. júlí 2013 til 11. janúar sl. skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. [...]/2013 frá [...]sl. vegna áreitis og hótana í garð [...]. Á þeim tíma hafi hún orðið uppvís að því að klifra upp á svalir á heimili hans og safna persónuupplýsingum um hann og fjölskyldu hans. Þá hafi [...] verið gerð 30 daga skilorðsbundin fangelsisrefsing fyrir brot gegn valdstjórninni með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2013, en brot [...] hafi beinst að [...] sem lögreglumanni.

Lögreglan hafi ítrekað óskað eftir því að kærða láti af háttsemi sinni og láti af áreiti sínu í garð [...] en hún  hafi ekki látið segjast. Í ljósi framangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að hætta sé á að [...] muni halda áfram að raska friði [...], í skilningi ákvæðisins, njóti hún fulls athafnafrelsis. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi hans verði verndað með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

                Fyrir dóminn hafa verið lögð fram afrit rannsóknargagna lögreglu, sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra frá  28. maí sl. um að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni.  Fallist er á það með lögreglustjóra að gögn þessi beri með sér að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa raskað friði brotaþola á þann hátt að heimilt sé, til að vernda friðhelgi hans, að banna henni að nálgast hann.   Þá sýna gögn málsins að hætta  sé á að varnaraðili haldi áfram að brjóta gegn brotaþola.  Jafnframt er tekið undir það mat lögreglustjóra að ekki þyki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði verndað með öðrum hætti en að varnaraðili sæti nálgunarbanni, en m.a. liggur fyrir að varnaraðili hefur áður sætt nálgunarbanni vegna svipaðrar háttsemi gagnvart brotaþola og að engin tengsl eru á milli varnaraðila og brotaþola.  Þykja því uppfyllt skilyrði 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011 til þess að staðfesta ákvörðun lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorð.       Ekki þykja efni til að marka nálgunarbanni skemmri tíma er þar er ákveðið.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hrl., sem ákveðst 75.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði, samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.  Einnig greiðist úr ríkissjóði, samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gylfa Thorlacius hrl., 75.300 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                [...] skal sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hún komi á eða í námunda við heimili [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreindan staði, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að [...] veiti [...] eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

                Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hrl., 75.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gylfa Thorlacius hrl., 75.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði.