Hæstiréttur íslands

Mál nr. 48/2016


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skýrslugjöf
  • Vitni


                                     

Fimmtudaginn 21. janúar 2016.

Nr. 48/2016.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður brotaþola)

Kærumál. Skýrslugjöf. Vitni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að skylt að víkja úr þinghaldi þegar brotaþoli gæfi skýrslu við aðameðferð málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. janúar 2016 þar sem fallist var á kröfu um að varnaraðila skyldi vikið úr dómsal meðan brotaþolinn A gæfi skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili og brotaþoli krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur varnaraðila 2. september 2015 fyrir ætlað brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Málið var þingfest 21. sama mánaðar en í þinghaldi 18. janúar 2016 fór brotaþoli fram á að varnaraðila yrði gert að víkja úr dómsal á meðan hún gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins. Féllst héraðsdómari á kröfuna með hinum kærða úrskurði. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. janúar 2016.

Brotaþoli hefur krafist þess að ákærða verði vikið úr dómsal meðan hún gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins. Telur brotaþoli að nærvera ákærða við skýrslugjöfina yrði henni mjög íþyngjandi og gæti haft áhrif á framburð hennar. Hefur réttargæslumaður hennar lagt fram greinargerð B, uppeldis- og afbrotafræðings hjá Barnahúsi, sem hefur haft brotaþola til meðferðar vegna andlegrar vanlíðunar er rekja megi til ákæruefnisins. Í greinargerðinni kemur fram að brotaþoli hafi lýst því í viðtölum að hún óttist mjög að sjá meintan geranda og telji það verulega íþyngjandi fyrir sig. Þá segir svo „Eykur það enn frekar á vanlíðan og streitu þegar ákærði er viðstaddur skýrslugjöfina. Neikvæð áhrif í slíkum aðstæðum eru tvíþætt. Annars vegar er hætt við því að stúlkan geti ekki tjáð sig jafn vel um meint brot vegna kvíða og streitu yfir nærveru ákærða og getur það haft áhrif á framburð stúlkunnar sem verður að teljast mikilvægt sönnunargagn í málum sem þessum. Hins vegar er hætt við því að íþyngjandi aðstæður sem þessar geti haft mjög neikvæð áhrif á líðan stúlkunnar og ollið bakslagi sérstaklega hvað varðar áfallastreituröskun ...“

Verjandi ákærða hefur mótmælt þessu og krefst þess að ákærði fái að vera viðstaddur alla aðalmeðferð málsins, eins og hann eigi rétt á.

Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari, að kröfu ákæranda eða vitnis, ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan það gefur skýrslu, telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Samkvæmt ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa nauðgað stúlkunni, sem þá var 16 ára, og brotið gegn barnaverndarlögum með því að hafa haft samræði við hana gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og ölvunar og með þessu sýnt af sér ósiðlegt og ruddalegt athæfi.

Samkvæmt því, og með hliðsjón af tilvitnaðri greinargerð og gögnum málsins að öðru leyti, er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði framangreindrar lagagreinar og verður því orðið við kröfunni, eins og í úrskurðarorði greinir.

Þess verður gætt við aðalmeðferð að ákærði geti fylgst með skýrslutökunni af brotaþola um leið og hún fer fram og spurningar verði lagðar fyrir brotaþola eftir því sem ákærða þykir tilefni til.

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Ákærða, X, skal vikið úr dómsal þegar vitnið A gefur skýrslu.