Hæstiréttur íslands

Mál nr. 363/2004


Lykilorð

  • Óvígð sambúð
  • Fjárskipti
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. mars 2005.

Nr. 363 /2004.

K

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

M

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

og gagnsök

 

Óvígð sambúð. Fjárskipti. Gjafsókn.

M og K, sem voru í óvígðri sambúð í tæp fjögur ár, deildu um hver væri eignarhlutur hvors þeirra í íbúð sem þau festu kaup á þegar sambúðin hafði varað í um tvö ár. Í málinu lá fyrir að kaupin höfðu að mestu verið fjármögnuð með því sem fékkst við sölu á íbúð sem M átti áður og að M tók lán vegna kaupanna og annaðist greiðslu afborgana þeirra, en hann hafði mun hærri launatekjur en K. Þótt launatekjur K hafi verið lægri var hins vegar talið að taka yrði tillit til þess, að hún var heima að annast barn þeirra og var því mikið frá vinnu. Þá var talið að líta yrði til þess, að áður en þau festu kaup á umræddri íbúð hafði K gert M kleift að leigja út íbúðina, sem hann átti áður, og lagt þeim til íbúð að kostnaðarlausu. Samkvæmt þessu þótti hlutdeild K í eignamyndun á sambúðartímanum hæfilega ákveðin 15%.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 31. ágúst 2004. Hún krefst þess, að viðurkenndur verði helmings eignarhlutur hennar í fasteigninni X í Reykjavík, fastanúmer [...]. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstaréttar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 8. nóvember 2004. Hann krefst þess aðallega, að viðurkennt verði, að hann eigi einn og að óskiptu 100% eignarrétt til fasteignarinnar X, fastanúmer [...], sem er þriggja herbergja kjallaraíbúð með tilheyrandi sameign og lóðarréttindum [...], enda greiði hann einn og að óskiptu lán, sem á fasteigninni eru. Til vara krefst hann þess, að viðurkennd verði eignarhlutdeild hans í samræmi við framlag hans til myndunar eignarinnar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi voru málsaðilar í óvígðri sambúð frá hausti 1998 til maí 2002. Þau létu skrá sambúð sína í febrúar 2000 og eignuðust dóttur [...] það ár. Þau stunduðu bæði nám [...] og lauk gagnáfrýjandi námi vorið 2000 en aðaláfrýjandi í desember 2001. Áður en sambúð aðila hófst festi gagnáfrýjandi kaup á íbúð að Y fyrir 5.500.000 krónur. Í upphafi sambúðar fluttu þau í íbúð foreldra aðaláfrýjanda á Z, þar sem þau bjuggu leigulaust, en gagnáfrýjandi leigði út íbúð sína á Y. Gagnáfrýjandi seldi þá íbúð í maí 2000 fyrir 7.200.000 krónur, og var útborgun á söluári 2.150.632 krónur. Í september sama ár keyptu málsaðilar saman íbúð á X fyrir 8.200.000 krónur og voru útborgunargreiðslur 3.245.000 krónur. Var sú íbúð þinglýst eign þeirra beggja. Þau fluttu inn í þá íbúð um áramótin 2000/2001, en höfðu fram til þess tíma búið í íbúð foreldra aðaláfrýjanda. Upp úr sambúðinni slitnaði 21. maí 2002, þegar aðaláfrýjandi flutti að heiman.

II.

Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi þess aðallega, að viðurkennt verði að hann eigi einn og óskipt íbúðina á X. Hann hafi einn greitt allar afborganir og gjöld vegna íbúðar sinnar á Y og notað söluandvirði hennar til að greiða kaupverð íbúðarinnar á X, og hafi einnig greitt afborganir og öll útgjöld hennar vegna. Tekjur sínar árin 1998 til 2001 hafi verið miklum mun hærri en tekjur aðaláfrýjanda. Meginforsendan fyrir skráningu á jafnri eignarheimild aðila að íbúðinni hafi verið sú, að sambúð þeirra yrði til frambúðar og þau legðu jafnt af mörkum til fjármögnunar á kaupunum. Til vara krefst hann þess, að fjárframlag hans til íbúðarinnar verði metið á móti heildarandvirði hennar miðað við söluverð hennar við sambúðarslit.

Aðaláfrýjandi krefst þess, að viðurkenndur verði helmings eignarhlutur hennar í íbúðinni á X. Hún telur, að eignin hafi að meginstefnu til myndast meðan á sambúðinni stóð. Þau hafi lagt jafnt að mörkum bæði með beinum fjárgreiðslum og með húsnæði, sem hún hafi útvegað þeim endurgjaldslaust, en þau hafi búið leigulaust í íbúð foreldra hennar í um tvö og hálft ár og gagnáfrýjandi því getað leigt íbúð sína á Y. Fjárfélag hafi verið með þeim meðan á sambúð stóð og þau talið sameiginlega fram til skatts tekjuárin 2000 og 2001. Tekjur hennar hafi eðlilega verið lægri en tekjur gagnáfrýjanda, þar sem hún hafi eignast barn og verið heima við umönnun þess.

Fallist er á það með héraðsdómi að þinglýsing íbúðarinnar á X á nöfn beggja aðila veiti líkindi fyrir því, að hvor um sig hafi átt helming hennar. Það sé þó ekki einhlítt, því að líta beri til framlags hvors um sig til eignamyndunarinnar.

Eins og að framan greinir voru kaupin á íbúðinni á X fjármögnuð að mestu með því sem fékkst fyrir sölu á eign gagnáfrýjanda á Y. Þá liggur fyrir, að gagnáfrýjandi tók lán hjá lífeyrissjóði og banka vegna kaupanna og hefur annast greiðslu afborgana þeirra lána, auk þess sem hann hafði mun hærri launatekjur en aðaláfrýjandi. Þótt launatekjur hennar hafi verið lægri verður að taka tillit til þess, að hún var heima að annast barn þeirra og var því mikið frá vinnu. Þá verður einnig að líta til þess, að aðaláfrýjandi gerði gagnáfrýjanda kleift að leigja út íbúð sína á Y og lagði til íbúð, sem var þeim að kostnaðarlausu, en viðurkennt er að sú leiga hafi numið 1.108.000 krónum. Ekki er annað fram komið en að báðir aðilar hafi lagt allt sitt til heimilisins. Með vísan til framanritaðs verður að telja, að með framlagi sínu hafi aðaláfrýjandi eignast hlutdeild í eignamyndun á sambúðartímanum, sem þykir hæfilega ákveðin í héraðsdómi 15%. Samkvæmt því verður héraðsdómur staðfestur.

Rétt þykir, að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, K, greiði gagnáfrýjanda, M, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2004.

I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 23. apríl sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af M, [...], á hendur K, [...], með stefnu áritaðri um birtingu hinn 4. júní 2003.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði, að hann eigi einn og að óskiptu 100% eignarrétt til fasteignarinnar X, fasteignanr. [...], sem er 3ja herbergja kjallaraíbúð með tilheyrandi sameign og lóðarréttindum [...], enda greiði hann einn og að óskiptu lán, sem á fasteigninni eru og til bifreiðar [...],     

Til vara krefst stefnandi þess, að viðurkennd verði eignarhlutdeild stefnanda í samræmi við framlag hans til eignamyndunar framangreindra eigna.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hafnað verði kröfu stefnanda um að honum verði dæmdur 100% eignarréttur fasteignarinnar að X, og að stefndu verði með dómi dæmdur helmings eignarréttur í fasteigninni.

Þá krefst stefnda málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, úr hendi stefnanda, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Með bréfi dómsmálaráðherra, dagsettu 17. október 2003, fékk stefnda gjafsókn í málinu.

II

Málavextir eru þeir, að málsaðilar skráðu sig í óvígða sambúð 23. febrúar 2000. Hinn 21. maí 2002 urðu slit á sambúðinni. Áður en sambúð þeirra hófst hafði stefnandi fest kaup á íbúð að Y, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 14. janúar 1998, fyrir 5.500.000 krónur. Afsal var gefið út fyrir þeirri íbúð hinn 4. desember 1998.

Málsaðilar eru sammála um að samband þeirra hafi hafist um mánaðamóti febrúar/mars 1998 og flutti stefnda inn í íbúð stefnanda í marsmánuði 1998. Í lok maímánaðar 1998 flutti stefnda í íbúð foreldra sinna að Z. Í lok ágústmánaðar 1998 flutti stefnandi búslóð sína út úr fasteigninni að Y og leigði hana út. Kveður stefnandi að arður af leigunni hafi runnið til framfærslu beggja aðila. Stefnandi var á sjó sumarið 1998. Haustið 1998 fóru báðir aðilar til náms í Vélskóla Íslands og bjuggu í íbúð foreldra stefndu, án endurgjalds.

Sumarið 1999 starfaði stefnda hjá [...] en stefnandi starfaði á [...].

Veturinn 1999/2000 voru báðir málsaðilar við nám [...] og lauk stefnandi námi vorið 2000.

Hinn 23. febrúar 2000 skráðu málsaðilar sig í sambúð og [...] 2000 fæddist þeim dóttir.

Með kaupsamningi, dagsettum 2. maí 2000 seldi stefnandi íbúð sína að Y fyrir 7.200.000 krónur, útborgun á söluári var 2.150.632 krónur.

Hinn 22. september 2000 keyptu aðilar íbúð að X fyrir 8.200.000 krónur. Útborgun á kaupári var 1.500.000 krónur og á því næsta 1.745.000 krónur.

Um áramótin 2000/2001 fluttu aðilar síðan saman inn í íbúðina að X, en stefnda hafði tekið fæðingarorlof og sótti síðan nám við [...] á haustönn 2000. Vorið og sumarið 2001 var stefnda síðan í námi uns hún lauk prófi um áramótin 2001/2002. Var hún án atvinnu frá þeim tíma fram í marsmánuð 2002 er hún hóf störf hjá [...]. Í maímánuði 2002 slitu aðilar sambúðinni.

Málsaðilar voru samskattaðir gjaldaárin 2001 og 2002.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að áðurgreind fasteign, sé og hafi alltaf verið óskipt eign hans, þar sem hann hafi alltaf einn greitt fyrir eignina, bæði kaupverð hennar, afborganir og öll útgjöld. Núverandi skráning á eignarheimildum eignarinnar og þinglýsing sé því röng, þar sem stefnda eigi ekkert í eigninni. Hún hafi ekki lagt neitt fram við kaup hennar og ekkert greitt síðar af henni. Stefnda hafi því ekkert til að byggja eignarrétt sinn á og skráning eignarheimilda því röng.

Stefnandi byggir og á því, að forsendur séu brostnar fyrir skráningu aðila að jöfnum eignarhluta í fasteigninni. Meginforsenda fyrir skráningu hafi verið sú, að aðilar yrðu í sambúð til frambúðar og legðu jafnt af mörkum til fjármögnunar kaupa fasteignarinnar. Þetta hafi stefnda ekki gert og sambúðinni auk þess lokið eftir stuttan tíma. Forsendur séu því brostnar og því eigi samkomulag þeirra um að vera bæði skráð sem eigendur að fasteigninni að vera ógilt.

Stefnandi byggir og á því, að sambúðin hafi varað það stutt, að ekki hafi myndast með þeim fjárhagsleg samstaða. Fyrir upphaf sambúðar hafi stefnandi átt fasteign, sem hann hafi selt og nýtt andvirðið til að greiða fyrir hina umþrættu íbúð og standa straum af greiðslum af henni. Stefnda hafi á hinn bóginn verið eignalaus. Töluvert fé hafi farið í vexti, verðbætur og kostnað án þess að nokkuð hafi komið í staðinn auk þess sem stefnandi hafi látið fé af hendi rakna til stefndu. Tekjur stefndu hafi numið mun lægri fjárhæðum en tekjur stefnanda á sambúðartíma. Því sé ekki um neina sameiginlega eignamyndun að ræða í sambúðinni.

Varakröfu sína byggir stefnandi á sömu rökum og aðalkröfu. Hann hafi einn greitt allt kaupverð fasteignarinnar og verði ekki fallist á að hann eigi einn alla eignina eigi að meta fjárframlag hans á móti heildarandvirði eignarinnar og miða þá við söluverð hennar við sambúðarslit. Tekjur stefndu hafi hins vegar eingöngu runnið til eigin þarfa og til heimilishalds á móti framlagi stefnanda til sömu þarfa.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna um fjárskipti við sambúðarslit svo og dómaframkvæmdar. Einnig vísar stefnandi til grundvallarreglna á sviði eigna- og kröfuréttar.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

Stefnda byggir kröfur sínar á því, að hún eigi 50% eignarhluta í fasteigninni í samræmi við þinglýsta eignarheimild hennar, en fasteignin sé óvéfengjanlega þinglýst eign þeirra beggja. Við sambúðarslit hafi stefnandi fengið bifreiðina og mest allt innbúið. Stefnda hafi talið sanngjarnt að hann fengi bifreiðina, þar sem hann hafi átt aðeins meiri pening en hún við upphaf sambúðarinnar og telur að sá mismunur sé þannig greiddur.

Staðhæfingar stefnanda þess efnis að ekki hafi myndast með þeim fjárhagsleg samstaða á sambúðartímanum og að hann hafi greitt einn allt kaupverð fasteignarinnar eigi ekki við rök að styðjast.

Málsaðilar hafi búið leigulaust í íbúð foreldra stefndu að Z frá sumri 1998 til áramóta 2000/2001 eða í um 2 1/2 ár. Með leigutekjum hafi þau greitt m.a. af lánum, sem hvílt hafi á íbúð stefnanda við Y. Meðan sú íbúð hafi verið í útleigu hafi íbúðaverð í Reykjavík rokið upp. Íbúðin sem keypt hafi verið hinn 14. janúar 1998 á 5.500.000 krónur hafi verið seld 21/2 ári síðar, eða 2. maí 2000, á 7.200.000 krónur.

Samkvæmt skattframtali 2001 hafi leigutekjur þeirra verið 240.000 krónur á árinu 2000. Samkvæmt skattframtali 2000 hafi leigutekjur þeirra numið 468.000 krónum fyrir árið 1999. Þar sem stefnda hafi lagt aðilum til fría íbúð megi færa fyrir því rök að frá henni hafi framangreindar leigutekjur komið, þ.e.a.s. húsaleiga fyrir árin 1999 og 2000, samtals 708.000 krónur og ca 400.000 krónur árið 1998.

Stefnda kveðst hafa átt bifreið við upphaf sambúðar aðila og hafi sú bifreið verið metin á 500.000 krónur. Bifreiðin hafi eyðilagst í árekstri í maí 2001 og hafi stefnda fengið greiddar 148.900 krónur frá Vátryggingafélagi Íslands hinn 11. maí 2001 vegna þess tjóns.

Stefnda kveður foreldra sína hafa lagt inn á reikning sinn 423.500 krónur í nokkrum greiðslum á sambúðartíma aðila málsins, til að styðja þau vegna íbúðarkaupa og framfærslu. Vorið 2000 hafi foreldrar stefndu tekið á leigu herbergi fyrir stefnanda til próflesturs og hafi leigan numið 15.000 krónum. Faðir stefndu hafi gefið aðilum 75.000 krónur, sem m.a. hafi verið notaðir til greiðslu reikninga. Að auki hafi foreldrar stefndu lagt ýmislegt annað til á sambúðartímanum, m.a. greitt reikninga og að mestu annast fatakaup á dóttur málsaðila og stefndu sjálfa.

Stefnda kveður þau hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að hún yrði meira heima við til að annast barn þeirra meðan stefnandi hafi unnið og hafi það komið í hlut stefndu að vera heima hjá barninu sumarið 2001, þar sem þau hafi ekki getað fengið dagmóður til þess að annast barnið. Stefnda hafi sem mótframlag við vinnu stefnanda lagt til fría íbúð og skapað þannig þær aðstæður að hægt væri að afla aukatekna með útleigu íbúðarinnar að Y, sem stefnandi hafi nýlega verið búinn að festa kaup á er þau kynntust. Þá íbúð hafi hann fjármagnað að mestu með lánum, m.a. láni með veði í fasteign foreldra stefndu og greitt hafi verið af láninu á sambúðartímanum. Íbúðin hafi síðan verið seld og þau keypt sér saman íbúðina á X, sem alltaf hafi verið eign þeirra beggja. Stefnda hafi lagt sitt af mörkum til húsnæðiskaupanna, sem sé meginástæðan og rökin fyrir því að hún hafi verið skráð fyrir 50% eignarhluta íbúðarinnar.

Stefnda mótmælir því að forsendur fyrir skráningu aðila að jöfnum eignarhluta séu brostnar, þar sem til sambúðarslita hafi komið. Það hafi aldrei verið forsenda fyrir skráningu, heldur það að stefnda hafi lagt sitt af mörkum til kaupanna, sem jafna mætti til framlags stefnanda.

Stefnda heldur því fram að ekki sé rétt að stefnandi hafi greitt allt kaupverðið. Stefnda hafi lagt til fría íbúð þannig að hægt væri að leigja út íbúðina að Y til að greiða af henni afborganir. Hún hafi sjálf unnið á sumrin og með skólanum þó að hún hafi ekki aflað jafn hárra tekna og stefnandi. Hún hafi farið í fæðingarorlof og því ekki getað unnið eins og hann. Hún hafi verið lengur í skóla og óvinnufær í stuttan tíma vegna slyss, sem hún hafi lent í. Þær aðstæður sem aðilar hafi búið við hafi ekki bara gert stefnanda kleift að halda íbúð sinni, sem stuðlað hafi að betri fjárhagsstöðu, heldur einnig gert honum kleift að afla sér menntunar, en hann hafi ekki getað gert hvort tveggja án aðstoðar stefndu. Framlagi stefndu sé hægt að jafna til tekna stefnanda en mismunur vegna upphaflegrar fjárhagsstöðu þeirra hafi nú þegar verið greiddur af hálfu stefndu í formi þess að stefnandi hafi fengið bifreiðina og mest allt innbú. Þá beri til þess að líta að málsaðilar hafi talið íbúðina vera sameiginlega eign sína á skattskýrslum eftir að þau hafi hafið að telja fram til skatts.

Um lagarök vísar stefnda til 1. mgr. 26. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og meginreglna og dómaframkvæmdar um fjárskipti við sambúðarslit.

Kröfu um málskostnað byggir stefnda á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnda á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

V

Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur að því hver eignarhlutur þeirra er í fasteigninni X, sem þinglýst er eign þeirra beggja. En stefnda hefur samþykkt kröfur stefnanda um að hann sé einn eigandi bifreiðarinnar [...].

Eins og að framan greinir voru málsaðilar í óvígðri sambúð, sem hófst á árinu 1998 og lauk í maímánuði 2002. Með kaupsamningi dagsettum 22. september 2000 keyptu aðilar fasteignina X fyrir 8.200.000 krónur og bjuggu þau í henni frá áramótum 2000/2001 og út sambúðartímann. Nam útborgun á kaupári 1.500.000 krónum og á næsta ári 1.745.000 krónum, en annar hluti kaupverðsins fólst í yfirtöku veðskulda og útgefnu fasteignaveðbréfi skiptanlegu fyrir húsbréf. Er óumdeilt að áður hafði stefnandi selt íbúð sína að Y, með kaupsamningi dagsettum hinn 2. maí 2000. Söluverð íbúðarinnar að Y var 7.200.000 krónur og nam útborgun á söluári 2.150.632 krónum.

Sú tilgreining eignarréttar að X í kaupsamningi og afsali, sem áður er nefnd, veitir líkindi fyrir því að hvor aðilanna hafi átt helming hennar, svo sem stefnda heldur fram. Þinglýsing eignarheimildar leiðir hins vegar ekki þegar til þeirrar niðurstöðu heldur ber að líta til framlags hvors um sig til eignarmyndunarinnar. Eins og áður hefur verið rakið stóð sambúð aðila í skamman tíma. Aðilar töldu sameiginlega fram til skatts árið 2001 og 2002. Af framlögðum skattframtölum aðila sést að launatekjur stefnanda voru mun hærri allan sambúðartímann. Hins vegar ber að líta til þess að á sambúðartímanum eignuðust þau dóttur og féll það í hlut stefndu að vera heima fyrst um sinn og annast barnið.

Þó svo að útborgun í fasteigninni X virðist að mestu hafa verið fjármögnuð með þeim peningum sem stefnandi fékk fyrir sölu á fasteign sinni, að Y, bjuggju þau um tíma, eða frá árinu 1998, leigulaust í fasteign í eigu foreldra stefndu og leigði stefnandi á meðan út fasteign sína að Y, en á þeim tíma hækkaði verð fasteignar stefnanda að Y og hann hirti af eigninni leigutekjur. Þykir mega horfa til þessa að með því hafi framlag stefndu til eignamyndunar verið nokkurt og þykir það með vísan til alls framanritaðs hæfilega metið 15%.

Samkvæmt framansögðu verður því viðurkenndur eignarréttur stefnanda að 85% fasteignarinnar X, en eignarréttur stefndu að fasteigninni 15%.

Þar sem stefnda hefur fallist á kröfur stefnanda um að viðurkenndur verði 100% eignarréttur hans að bifreiðinni [...], verður sú krafa hans tekin til greina.

 Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, 320.000 krónur, sem er þóknun lögmanns stefnda, greiðist úr ríkissjóði.

Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu stefndu.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að stefnandi, M, sé eigandi 85% og stefnda, K, sé eigandi 15% fasteignarinnar að X, fasteignanr. [...], sem er 3ja herbergja kjallaraíbúð með tilheyrandi sameign og lóðarréttindum M-0001.

Viðurkennt er að stefnandi sé einn eigandi bifreiðarinnar [...].

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, 320.000 krónur, sem er þóknun lögmanns hennar, Þórdísar Bjarnadóttur hdl., greiðist úr ríkissjóði.