Hæstiréttur íslands
Mál nr. 83/2006
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 5. október 2006. |
|
Nr. 83/2006. |
Sveinbjörn Guðmundsson(Karl Axelsson hrl.) gegn Félagsbúinu Miðhrauni sf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur.
S varð fyrir slysi þegar stálbiti sveiflaðist í hann. Þegar slysið átti sér stað var S að vinna við að flytja stálbitann ásamt öðrum manni og ók sá síðarnefndi lyftara, sem til verksins var notaður. Þótti slysið mega rekja til óhappatilviljunar og eigin sakar S en ekki var fallist á að skaðabótaábyrgð yrði lögð á F vegna þess.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2006. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 22.739.247 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 3.308.522 krónum frá 11. október 2003 til 11. október 2004 og af 22.539.247 krónum frá þeim degi til 11. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 22.739.247 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.825.321 krónu með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af 3.308.522 krónum frá 11. október 2003 til 11. október 2004 og af 10.625.321 krónu frá þeim degi til 11. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 10.825.321 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2006.
I
II
Málsatvik eru þau að hinn 11. október 2003 slasaðist stefnandi er hann var við vinnu sína hjá stefnda við bæinn Miðhraun II í Eyja- og Miklaholtshreppi. Var verið að vinna við byggingu stálgrindarhúss og voru stefnandi og bróðir hans, Þórður Guðmundsson, að vinna við að flytja stálbita inn á verkstæði þar sem átti að vinna frekar með þá. Stefnandi var verkstjóri við verkið en Þórður stjórnaði lyftaranum sem notaður var við verkið. Samkvæmt gögnum málsins mun umræddur stálbiti hafa verið 6,58 m að lengd, 25 mm að þykkt og vegið um 1,2 tonn. Lyftarinn sem notaður var er svokallaður skotbómulyftari með skráningarnúmerið JF-0136. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins var stálbitinn festur við lyftarann með stroffu og má af gögnum málsins ráða að bæði stefnandi og umræddur Þórður hafi séð um að festa stálbitann. Þá kemur fram í gögnum málsins að verklagið hafi verið þannig að þegar búið var að festa stálbitann við lyftarann var honum bakkað í hálfhring þannig að lyftarinn væri með stefnu á verkstæðishúsið og þá var lyftaranum ekið áfram að verkstæðishúsinu.
Þetta verk hafði staðið yfir í nokkurn tíma þegar slysið varð, en stefnandi bar fyrir dómi að það hefði staðið í einn og hálfan mánuð og fyrir dómi kvaðst Þórður telja að það hafi staðið yfir í nokkra mánuði. Kom fram hjá Bryndísi Guðmundsdóttur, fyrirsvarsmanni stefnda, er skýrsla var tekin af henni fyrir dómi, að byrjað hafi verið á verkinu í júní eða júlí 2003.
Gögnum málsins ber ekki allskostar saman um aðdraganda slyssins en fyrir liggur að eftir að stálbitinn hafði verið festur við lyftarann í umrætt sinn og lyftarinn fór af stað með hann fór stálbitinn að sveiflast til. Stefnandi fór að stálbitanum og skall hann á bringu stefnanda með þeim afleiðingum að hann kastaðist aftur fyrir sig og lenti með bakið ofan á öðrum stálbita. Stefnandi slasaðist mikið og var fluttur með þyrlu á Landspítala háskólasjúkrahús í Fossvogi. Við slysið hlaut stefnandi sár á baki, samfallsbrot á IV.-VI. brjósthryggjarliðbol og tognun á hálshrygg.
Á vettvangi þegar slysið varð voru stefnandi, Þórður og Vignir Þór Gunnarsson. Sá síðastnefndi var að vinna við að rafsjóða á stálbitanum sem stefnandi féll ofan á. Við það verk var hann með rafsuðuhjálm sem huldi andlit hans og snéri hann baki í stefnanda. Hann sá því ekki hvað gerðist en heyrði hljóð og sá þá hvar stefnandi lá slasaður og hringdi hann þá í Neyðarlínuna.
Þórður varð heldur ekki vitni að slysinu en hefur borið að þegar hann hafi tekið eftir að stálbitinn sveiflaðist og stefnandi hvergi sjáanlegur hafi hann stöðvað lyftarann og farið út og þá séð hvar stefnandi lá slasaður. Hann hafi þá farið til að hlúa að stefnanda þangað til læknar komu á staðinn.
Atli Þór Ólason læknir mat líkamstjón stefnanda vegna slyssins og er matsgerð hans dagsett 11. október 2004. Í niðurstöðu matsgerðarinnar er tjón stefnanda með hliðsjón af skaðabótalögum metið eftirfarandi:
1. Tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, 100% í 12 mánuði.
2. Þjáningabætur samkvæmt 3. gr.:
a) Rúmliggjandi: 2 dagar
b) Batnandi án þess að vera rúmliggjandi: 12 mánuðir
3. Stöðugleikatímapunktur: 11. október 2004
4. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga: 20%
5. Varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga: 40%
6. Hefðbundin varanleg læknisfræðileg örorka: 20%
Með bréfi 9. mars 2004 fór lögmaður stefnanda þess á leit að teknar yrðu skýrslur af stefnanda og Þórði hjá lögreglu vegna slyssins og var svo gert 21. mars 2004. Með bréfi 25. mars 2004 óskaði lögmaður stefnanda eftir afstöðu réttargæslustefnda til bótaskyldu vegna tjóns stefnanda en réttargæslustefndi taldi málið ekki nægilega upplýst og óskaði eftir að teknar yrðu skýrslur af stefnanda og Þórði fyrir dómi og voru skýrslur teknar af þeim í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. júní 2004.
Með bréfi 14. ágúst 2004 tilkynnti réttargæslustefndi lögmanni stefnanda að félagið hafnaði bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda á þeim forsendum að slysið verði aðeins rakið til óhappatilviljunar og líklega eigin gáleysis stefnanda.
Í málinu er ekki deilt um afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda heldur lýtur ágreiningur aðila fyrst og fremst að því hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Ef skaðabótaskylda stefnda telst vera fyrir hendi er ágreiningur um útreikning bóta fyrir varanlega örorku að því leyti sem varðar árslaunaviðmið auk þess sem stefndi mótmælir þeim hluta kröfu stefnanda sem lýtur að öðru fjártjóni þar sem það sé ósannað.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á því að ljóst sé að mistök Þórðar Guðmundssonar, lyftaramanns, hafi orðið stefnanda til stórfells tjóns. Hafi Þórður haldið áfram að bakka án þess að sjá hvar stefnandi væri staddur eða hvort væri í lagi með stálbitann. Hafi þessi háttsemi Þórðar verið sérstaklega varhugaverð, einkum í ljósi þess hversu mikið tjón slík mistök geti leitt af sér. Sé það hending ein að ekki hafi farið verr og hefði stefnandi hæglega getað látist. Beri stefndi því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar, enda verði slysið rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi Þórðar, starfsmanns stefnda, og þar með séu öll skilyrði sakarreglunnar uppfyllt. Engar hlutrænar eða huglægar ábyrgðarleysisástæður eigi við og því fari fjarri að um óhappatilvik sé að ræða þar sem slysið verði einungis rakið til saknæmrar háttsemi Þórðar. Beri stefndi því ótvírætt ábyrgð á tjóni stefnanda vegna slyssins á grundvelli húsbóndaábyrgðar.
Við mat á sök verði sérstaklega að líta til þess að umræddur Þórður hafi ekki verið með lyftararéttindi og sé líklegt að hefði hann haft slík réttindi hefði hann farið með meiri varúð og þá sé hugsanlegt að slysið hefði ekki átt sér stað.
Stefnandi telur að það eigi ekki að hafa áhrif á sakarmatið í þessu máli að menn hafi litið á stefnanda sem verkstjóra. Hins vegar verði við mat á sök að líta til þess að stefnandi hafi ekki ráðið því hvaða verk skyldi vinna eða hvernig. Skipanir um það hafi hann fengið frá yfirmanni sínum, Sigurði Hreinssyni. Hafi yfirmaður hans ákveðið hvaða verk skyldi vinna og með hvaða hætti eða hvort stefnandi færi í verkefni eða ekki. Hafi stefnandi engu ráðið um framangreindar vinnuaðferðir enda hafi hann verið venjulegur launamaður sem tekið hafi við skipunum en ekki verið í stjórnunarstöðu.
Þá verði við mat á sök einnig að líta til hættueiginleika starfsins. Þegar um hættuleg störf sé að ræða beri vinnuveitandinn ríkari ábyrgð á því að farið sé að lögum og reglum og að fyllsta öryggis sé gætt í hvívetna. Ef öryggisreglur séu brotnar verði að beita ströngu sakarmati og leggja ábyrgð á vinnuveitandann.
Stefnandi hafnar því að slysið verði rakið til óhappatilviks og eigin gáleysis stefnanda. Í skaðabótarétti teljist óhapp vera það atvik sem engum verði kennt um. Fráleitt sé að halda því fram að hér hafi verið um óhapp að ræða. Lyftaramaðurinn hefði átt að fara það varlega að stálbitinn hefði ekki fest undir dekkinu. Þá hefði lyftaramaðurinn átt að gæta að því hvar stefnandi væri staðsettur. Hefði hann sýnt þá varúð sem honum hafi borið skylda til hefði mátt koma í veg fyrir slysið. Þess vegna sé því alfarið vísað á bug að um óhapp hafi verið að ræða.
Stefnandi kveður orsök tjónsins vera þá að lyftaramaðurinn hafi gert afdrifarík mistök sem stefnandi hafi ekki borið ábyrgð á. Við mat á eigin sök verði að horfa til sömu atriða við sakarmatið og þegar sök stefnda sé metin. Verði þannig að meta hvort stefnandi teljist hafa hagað sér með gáleysislegum hætti. Hafi stefnandi unnið verkið eins og það hafi venjulega verið unnið. Hinsvegar hafi það verið samstarfsmaður hans sem olli slysinu með því að gæta ekki nægilegrar varúðar. Hafi stefnandi ekki með neinum hætti hagað sér með gáleysislegum hætti.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:
Tímabundið atvinnutjón, 1.794.302 krónur
Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga skuli ákveða bætur fyrir atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli geti hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans sé orðið stöðugt. Samkvæmt matsgerð teljist tímabundið atvinnutjón stefnanda vera 100% í 12 mánuði. Tímabundið atvinnutjón nemi því 3.804.552 krónum eða 12 x 317.046. Mánaðarlaunin séu miðuð við meðallaun iðnaðarmanna sem hafi verið 299.100 á stöðugleikatímapunkti. Við launin sé bætt 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Upphæðin sé því 317.046 krónur á mánuði. Frá þessari upphæð dragist greiðslur samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Um sé að ræða 2.010.250 krónur sem séu veikindalaun sem stefnandi hafi fengið greidd frá stefnda og dagpeningar sem hann hafi fengið greidda frá Verkalýðsfélaginu Stykkishólmi, Tryggingastofnun ríkisins og Tryggingafélaginu Verði.
Þjáningabætur, 368.720 krónur
Samkvæmt matsgerð hafi stefnandi verið rúmliggjandi í 2 daga og batnandi án þess að vera rúmliggjandi í 12 mánuði. Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga sbr. 15. gr. laganna hafi þjáningabætur numið annars vegar 1.000 krónum og hins vegar 1.860 krónum á dag miðað við lánskjaravísitölu í nóvember 2004. Því sé um að ræða 365.000 krónur ( 365x 1.000) fyrir þann tíma sem stefnandi hafi verið batnandi án þess að vera rúmliggjandi og 3.720 krónur ( 2 x 1.860) fyrir þann tíma sem hann hafi verið rúmliggjandi.
Varanlegur miski, 1.145.500 krónur
Varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins hafi verið metinn 20%. Fjárhæðin sé fundin út samkvæmt 4. gr. sbr. 15. gr. skaðabótalaga eða 20% x 5.712.500 eða 1.142.500 krónur samkvæmt lánskjaravísitölu í nóvember 2004.
Varanleg örorka, 19.230.725 krónur
Varanleg örorka stefnanda vegna slyssins sé metin 40%. Árið 2000 hafi stefnandi haft 780.000 krónur í heildartekjur, árið 2001 hafi heildartekjur hans verið 1.500.000 krónur og árið 2002 hafi hann haft 1.480.000 krónur í heildartekjur. Þar sem stefnandi sé með sveinspróf í bifvélavirkjun verði að meta árslaunin sérstaklega sbr. 2. mgr. 7. gr. enda gefi tekjur þrjú ár fyrir slys ekki eðlilega mynd af líklegum framtíðartekjum stefnanda. Sé því rétt að miða við meðallaun iðnaðarmanna á stöðugleikapunkti sem sé 11. október 2004. Meðallaun iðnaðarmanna á þeim tímapunkti hafi verið 314.000 krónur sem geri 3.768.000 í árslaun. Við þá upphæð sé bætt 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð og séu árslaunin þá 3.994.080 krónur. Stefnandi hafi verið 29 ára og 268 daga gamall á stöðugleikatímapunkti. Margföldunarstuðull 6. gr. skaðabótalaga sé því 12,989. Krafa vegna varanlegrar örorku nemi því 40% x 3.994.080 x 12,989 eða 20.751.642 krónum. Frá kröfunni dragist innborgun Tryggingastofnunar ríkisins og 757.766 krónur sem sé innborgun frá Verði vátryggingafélagi.
Annað fjártjón, 200.000 krónur
Stefnandi hafi orðið fyrir ýmsum kostnaði vegna málsins. Hann hafi til dæmis þurft að keyra margoft milli Reykjavíkur og Eyja- og Miklaholtshrepps. Hóflegt sé að miða við að kostnaður vegna þessara ferða og ýmiss annars kostnaðar nemi um 200.000 krónum og styðjist hún við 1. gr. skaðabótalaga.
Upphafstími dráttarvaxtakröfunnar sé 11. nóvember 2004 en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að niðurstaða matsgerðar hafi legið fyrir.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar svo og almennu sakarreglunnar. Þá vísar stefnandi til meginreglna um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda vegna skaðaverka sem rekja megi til ásetnings eða gáleysis starfsmanna hans. Þá vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Um aðild réttargæslustefnda vísar stefnandi til 21. gr. laga nr. 91/1991 og um málskostnað til 129. og 130. gr. þeirra laga sbr. og laga nr. 50/1988. Um varnarþing vísar stefnandi til V. kafla laga nr. 91/1991 einkum 41 gr.
V
Eins og rakið hefur verið er ekki deilt um afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda heldur er ágreiningur fyrst og fremst um skaðabótaskyldu stefnda. Um orsök slyssins og aðdraganda þess ber gögnum málsins ekki allskostar saman.
Í stefnu er atvikum lýst þannig að Þórður Guðmundsson, starfsmaður stefnda, hafi verið að bakka lyftaranum með stálbitanum en þá hafi ekki viljað betur til en að bitinn hafi byrjað að keyrast upp eftir hægra framdekki og mikil strekking hafi myndast á stroffuna. Hafi stefnandi þá gefið Þórði merki um að stoppa. Þórður hafi hins vegar ekki tekið eftir því og haldið áfram að bakka. Það hafi orðið til þess að bitinn hafi skotist til baka á stefnanda með fyrrgreindum afleiðingum.
Lögreglan kom á staðinn eftir slysið og ræddi við þá menn sem voru á vettvangi, þá Þórð og Vigni Þór. Í frumskýrslu lögreglunnar er haft eftir Þórði að bitinn hefði slegist upp á hægra framhjólið á lyftaranum og verið fastur þar undir aurbrettinu. Þá hafi stefnandi farið að toga í bitann til að snúa honum og losa hann, en lyftarinn hafi verið stopp. Skyndilega hafi bitinn hrokkið af hjólinu og lent á stefnanda.
Eins og rakið hefur verið varð Vignir Þór hvorki vitni að aðdraganda slyssins né slysinu sjálfu og Þórður sá ekki þegar stefnandi fékk stálbitann á sig. Að virtum framburðum stefnanda og Þórðar bæði hjá lögreglu og fyrir dómi verður að telja varhugavert að leggja frumskýrslu lögreglu til grundvallar um hvað gerðist enda hefur komið á daginn að þeir sem lögreglan ræddi við á vettvangi voru ekki sjónarvottar að slysinu sjálfu. Það sama á við um skýrslu Vinnueftirlits ríkisins þar sem tildrög slyssins eru rakin, enda verður ekki annað séð en að sú skýrsla sé eingöngu byggð á því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglunnar. Þykir því ósannað að stefnandi hafi togað í stálbitann með fyrrgreindum afleiðingum. Þá verður ekki annað ráðið af skýrslum stefnanda og Þórðar fyrir dómi en að lyftarinn hafi verið á ferð þegar slysið varð en ekki stopp eins og greinir í frumskýrslu lögreglunnar.
Í ódagsettri skýrslu eða minnispunktum stefnanda á dómskjali nr. 3 segir meðal annars að þegar búið hafi verið að festa stálbitann við lyftarann og lyfta honum hafi verið keyrt í átt að verkstæðinu. Þegar um það bil 10 metrar hafi verið eftir hafi stálbitinn snúist og rekist í dekk lyftarans. Þegar stefnandi hafi séð í hvað stefndi hafi hann gefið Þórði merki og gengið í átt að dekkinu í því skyni að halda við enda stálbitans síðustu metrana. Þórður hafi hins vegar ekki séð merkið þar sem skotbóman hafi skyggt á útsýni hans og hafi hann því keyrt af stað og á bitann með þeim afleiðingum að mikil spenna hafi komið á stroffuna og stálbitinn því slegist í stefnanda.
Framangreind lýsing fær ekki allskostar stoð í framburðum stefnanda og Þórðar fyrir lögreglu og dómi þar sem þeir báðir lýsa atburðarásinni með þeim hætti að þegar búið hafi verið að festa stálbitann við lyftarann hafi lyftaranum verið bakkað í hálfhring til að hægt væri að aka beint að verkstæðishúsinu með stálbitann. Engin gögn benda til þess að lyftaranum hafi verið ekið áfram og á stálbitann svo sem ráða má af lýsingu stefnanda í umræddu dómskjali.
Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum er ekki varhugavert að slá því föstu að Þórður hafi verið að bakka lyftaranum þegar stálbitinn byrjaði að sveiflast. Til að bakka lyftaranum hlaut hann að þurfa að horfa aftur fyrir sig og hafði því hvorki tök á að sjá þegar stálbitinn byrjaði að sveiflast né að taka eftir merkjagjöf stefnanda um að stoppa lyftarann. Þá liggur fyrir að umrædd bóma lyftarans byrgði honum sýn úr þeirri áttinni sem stefnandi var. Stálbitinn slóst síðan í annað dekk lyftarans og þar sem stefnandi taldi víst að stálbitinn myndi keyrast upp eftir dekkinu hugðist hann fara að honum og styðja við hann. Þórður hins vegar sá ekki þegar stefnandi gaf honum merki um að stoppa og hélt áfram að bakka og stálbitinn skaust í stefnanda með fyrrgreindum afleiðingum.
Ekki liggur fyrir í málinu svo óyggjandi sé hvað það var sem olli því að stálbitinn byrjaði að sveiflast. Í framburði stefnanda hjá lögreglu, sem var á sömu lund hjá honum og Þórði fyrir dómi, kom fram að yfirleitt væri þetta verk unnið á þann hátt að stefnandi héldi í stálbitann til þess að hann færi ekki að snúast. Af þessu verður ekki dregin önnur ályktun en að ákveðin hætta hafi verið á því að stálbitinn færi að snúast, hvort sem ástæðan var sú að Þórður væri að stíga á bremsurnar, svo sem stefnandi telur, eða jafnvel sú staðreynd að stálbitinn var stór og þungur. Í þetta skipti hélt stefnandi ekki um bitann en hugðist gera það eftir að hann var byrjaður að sveiflast til.
Stefnandi var verkstjóri yfir því verki sem hann og Þórður voru að vinna við þegar slysið varð. Það staðfestu bæði hann og Þórður í skýrslu fyrir dómi og það kemur fram í tilkynningu Bryndísar Guðmundsdóttur um slysið til Vinnueftirlits ríkisins 15. október 2003. Í þeirri tilkynningu segir Bryndís stefnanda vera verkstjóra í viðhalds- og nýsmíðadeild stefnda. Verkefnið sem þeir Þórður voru að vinna við tengdist nýsmíði stálgrindarhúss fyrir stefnda. Í ljósi þessa þykja fullyrðingar í stefnu um að stefnandi hafi ekki ráðið hvernig staðið skyldi að verkinu ekki eiga sér neina stoð í gögnum málsins.
Eins og að framan er rakið hófst bygging stálgrindarhússins í júní eða júlí 2003 og höfðu stefnandi og Þórður unnið við þetta verk frá þeim tíma þegar slysið varð í október sama ár. Höfðu þeir því flutt fjöldann allan af stálbitum með þessum hætti og voru því vanir þessu verklagi. Sem verkstjóra að verkinu var undir stefnanda komið að taka ákvörðun um það hvort hann teldi ástæðu til að halda um bitann eins og hann hafði yfirleitt gert, enda ekkert fyrirliggjandi um að hann hafi haft annað hlutverk við verkið á meðan á flutningi bitans stóð. Þetta fær stuðning í skýrslu Þórðar hjá lögreglu þar sem haft er eftir honum að hann hafi séð stálbitann snúast en hann hafi ekki séð stefnanda, sem átti að vera þarna á staðnum og halda í stálbitann. Hann var hins vegar ekki eins afdráttarlaus þegar hann var spurður um það fyrir dómi hvort hann hafi talið að stefnandi héldi í bitann þegar hann bakkaði en þá svaraði hann: „Ekkert endilega held ég.“
Af gögnum málsins er ljóst að við flutning stálabitanna með lyftaranum var stefnandi jafnan fyrir framan lyftarann þegar Þórður bakkaði hálfhring og yfirleitt hélt stefnandi í stálbitann þótt ekki hafi hann gert það í umrætt sinn. Ekki liggur fyrir annað en að staðsetning stefnanda hafi verið sú sama í þetta skipti og með vísan til þess að bóma lyftarans skyggði á hann mátti hann gera ráð fyrir að Þórður sæi ekki þegar hann gaf honum merki um að stöðva lyftarann auk þess sem yfirgnæfandi líkur voru á að Þórður væri að horfa í aðra átt þar sem hann var að bakka lyftaranum.
Fyrir dómi bar Bryndís Guðmundsdóttir, fyrirsvarsmaður stefnda, að staðið hafi verið að umræddu verki með eðlilegum hætti og að hennar mati var ekki hægt að hafa verklagið öðruvísi. Hlutverk Þórðar í verkinu var að aka lyftaranum með stálbitann og þurfti hann að bakka með hann til að byrja með og um það var stefnanda vel kunnugt. Hlutverk stefnanda hins vegar var að fylgjast með stálbitanum við flutninginn og eftir atvikum halda við hann. Með vísan til þessa og að virtum gögnum málsins verður ekki annað séð en að Þórður hafi hagað akstri lyftarans með stálbitann í samræmi við þau fyrirmæli sem honum höfðu verið gefin og á þann hátt sem hann hafði gert oft áður og ekkert fyrirliggjandi um að hann hafi ekið óvarlega eða gert mistök. Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á það með haldbærum rökum að Þórður hafi við umrætt verk sýnt af sér saknæma háttsemi sem leiði til skaðabótaskyldu stefnda.
Fyrir liggur að Þórður hafði um langt skeið unnið á umræddum lyftara þótt hann hefði ekki sérstök réttindi á lyftara. Ekkert liggur fyrir hvað í slíkum réttindum felst eða á hvern hátt þau hefðu haft áhrif á það hvernig Þórður bar sig að við verkið. Eru því fullyrðingar stefnanda um að Þórður hefði farið með meiri varúð hefði hann haft slík réttindi ósannaðar auk þess sem því hefur verið slegið föstu að Þórður sýndi ekki af sér saknæma háttsemi er hann ók lyftaranum umrætt sinn. Þá liggur fyrir að Vinnueftirlitið gerði engar athugasemdir um úrbætur, hvorki varðandi umræddan lyftara né réttindaleysi Þórðar. Er því ekki sýnt fram á að orsakasamband sé milli þessa réttindaleysis Þórðar og slyss stefnanda.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki annað séð en að óhappatilviljun hafi ráðið því að stálbitinn fór að sveiflast og engum um það kennt. Stefnandi tók þá ákvörðun að ganga að stálbitanum eftir að hann fór að sveiflast, án þess að ganga fyllilega úr skugga um að Þórður hefði stöðvað lyftarann. Honum hefði mátt vera ljóst að hættuástand hafði skapast í nágrenni við stálbitann við þessar aðstæður sem þarna voru komnar upp, enda sagði hann í skýrslutöku fyrir dómi: „... ég náttúrulega vissi alveg hvað myndi gerast en hefði ekki átt að gerast ef hann hefði bara stöðvað.“ Þykir stefnandi hafa með þessu háttalagi sínu sýnt af sér gáleysi og lagt sjálfan sig í stórkostlega hættu að óþörfu.
Að öllu framansögðu virtu verður að telja að stefnandi hafi ekki leitt sönnur að því að slysið og tjónið sem af því hlaust verði rakið til sakar starfsmanns stefnda sem leiði til skaðabótaábyrgðar stefnda heldur verður að telja að slysið verði alfarið rakið til óhappatilviks og gáleysis stefnanda sjálfs. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir þó rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Grímur Sigurðarson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Heiðar Ásberg Atlason hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Félagsbúið Miðhrauni sf., er sýknað af öllum kröfum stefnanda, Sveinbjörns Guðmundssonar.
Málskostnaður fellur niður.