Hæstiréttur íslands

Mál nr. 10/2016


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


                                     

Fimmtudaginn 7. janúar 2016.

Nr. 10/2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari.)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2016 þar sem varnaraðila var gert að afplána 240 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar [...]. mars 2014 í máli nr. [...]/2013. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins er fram kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi, eftir að honum var veitt reynslulausn, gerst sekur um háttsemi sem varðað getur sex ára fangelsi. Hefur varnaraðili þannig gróflega rofið almennt skilyrði reynslulausnarinnar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal afplána 240 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar [...]. mars 2014 í máli nr. [...]/2013.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 240 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Hæstaréttar Íslands nr. [...]/2014 frá [...]. mars 2013, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 5. september 2015 í 2 ár.

Í greinargerð kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í nótt eftir að lögreglu hafi borist tilkynning um heimilisófrið að [...] í íbúð [...] (mál nr. [...]). Á vettvangi hafi A lýst því fyrir lögreglu að X hafi ruðst inn í íbúð hennar að [...] þar sem hann hafi dvalið hjá henni undanfarið og beitt hana ofbeldi. Það mál sætir nú rannsókn lögreglu.

Kærði hafi komið við sögu lögreglu eftir að hann fékk reynslulausn þann 5. september 2015 og sé undir sterkum grun um aðild að broti gegn 252. gr. almennra hegningarlaga.

Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]

Kærði sé undir sterkum grun um að hafa átt aðild að ráni sem framið hafi verið í verslun [...], [...], Hafnarfirði, fimmtudaginn 22. október 2015 ásamt þeim Y og Z. Samverkamenn kærða, þeir Y og Z, hafi farið  inn í verslunina með lambhúshettur fyrir andlitinu, Y vopnaður exi og hafi hann skipað starfsmanni verslunarinnar, B, að leggjast á gólfið og hlaupið á eftir henni með exi á lofti. Hafi þeir haft á brott með sér skartgripi að áætluðu verðmæti 1.950.200 krónur og yfirgefið vettvang á bifreiðinni [...], sem Y hafi ekið suður Reykjanesbraut, að Grindavíkurafleggjara, þar sem kærði X hafi sótt Y og Z, keyrt þá til Keflavíkur, þar sem X hafi tekið við þýfinu.

Kærði X hafi skýrt frá því að Y skuldi honum mikinn pening. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 30. október sl. hafi X verið spurður hvort að Y væri búinn að greiða þessa skuld. Sagði X að hann væri ekki búinn að því, hann væri búinn að láta hann fá tvo hringa og hálsmen upp í skuldina. X hafi skoðað þessa skartgripi og komist að því að þeir væru úr ráni. Aðspurður hvar þessir munir væru sem Y hafi látið hann fá minnti hann að einn hringur hafi verið í tösku á [...]. Sagði hann að Y hafi ekki látið hann fá þessa skartgripi heldur aðrir aðilar.

Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 1. nóvember sl. hafi X skýrt frá því að Y hafi hringt í hann daginn sem ránið hafi verið framið og sagt honum að vera á bifreiðastæðinu við Grindavíkurafleggjara eftir hálftíma og ef hann sinnti því ekki fengi hann skuldina ekki greidda. Y hafi komið þangað ásamt Z á hvítum stolnum jeppa. Hafi þeir komið yfir í bifreiðina til X, Y hafi sagt honum að bruna til Keflavíkur því hann hafi verið að fremja rán. Hafi X ekið með þá til Keflavíkur til systur Y. Þar hafi þeir farið inn og Y svo komið út eftir stutta stund og viljað láta hann fá „teipaðann“ pakka. X hafi neitað að taka við honum og sagt að hann vildi bara fá peninginn sem Y skuldaði honum. Y hafi þá sagst ætla að útvega peninga og beðið hann að hafa samband við móður sína eftir nokkra daga. Eftir þetta hafi X farið. Á gólfinu í bifreiðinni hafi tveir hringar legið sem Y og Z hafi misst þegar þeir hafi komið yfir í bílinn. Einn þeirra hringa hafi lögregla fundið í húsleitinni að [...]. X kvaðst ekki hafa haft vitneskju um þetta rán, annars hefði hann aldrei verið á staðnum. Hann hafi haldið að hann væri að fá borgað.

Framburður Z hafi verið borinn undir X þar sem fram komi að X haldi því fram að Y hafi rænt hann. X sagði Y klárlega hafa rænt sig. Y hafi skuldað honum fullt af peningum.           

X hafi verið kynnt að við leit í íbúðinni, þar sem hann hafi verið handtekinn, hafi fundist fíkniefni. Lögregla hafi lagt hald á kannabisefni á eldhúsborði. Kvaðst X eiga það. Lögregla hafi lagt hald á amfetamín sem hafi verið á diski í eldhúsinu. Sagði X að hann vissi ekki nákvæmlega hver eigandi þess væti, það gæti alveg verið hann, en hann gæti ekki staðfest það. Lögregla hafi einnig lagt hald á lásboga. Sagði X að aðili sem hafi skuldað honum pening hafi látið hann fá lásbogann og spurt hvort að hann gæti komið honum í verð fyrir sig.

Meðal gagna málsins sé upplýsingaskýrsla er varði símasamskipti Y og X. Þar segi að í framburði Y hafi komið fram að hann, Z og X hafi fundað um hádegi í verslun 10/11 [...] sama dag og ránið hafi verið framið. Í símagögnum X komi fram að frá kl. 10:47 til 11:35 hafi hann verið staðsettur í Hafnarfirði. X hafi komið inn á sendi hjá [...]. Þá komi einnig fram í skýrslunni að farsímar X og Y hafi tengst 127 sinnum frá 16. – 22. október sl.

Kærðu Y og Z hafi játað að hafa framið ránið í [...]. Kærði X hafi játað að hafa sótt Y og Z við Grindavíkurafleggjara strax eftir ránið, þar sem kærði Y hafi skýrt honum frá því að hann hafi verið að fremja rán og í framhaldinu hafi X keyrt með þá til Keflavíkur. X hafi því játað hlutdeild í hinu meinta broti, en hafi neitað að hafa tekið þátt í skipulagningu þess og að hafa tekið við þýfinu. Y og Z beri báðir um að X hafi tekið við þýfinu og greitt þeim fyrir það með fíkniefnum og peningum. Við húsleit á dvalarstað X að [...] hafi lögregla fundið hring úr ráninu. X hafi verið tvísaga hvar hann hafi fengið hringinn. Fyrst hafi hann skýrt frá því að Y hafi látið hann fá tvo hringa og hálsmen upp í skuld. Sagði hann að Y hafi ekki látið hann fá þessa hringa heldur aðrir aðilar. Síðar hafi hann skýrt frá því að eftir að hann hafi keyrt Y og Z til Keflavíkur hafi tveir hringar legið á gólfi bifreiðarinnar sem þeir hafi misst þegar þeir hafi komið yfir í bílinn. Hafi annar þeirra fundist í húsleitinni að [...]. Sé framburður X að þessu leyti ótrúverðugur. Af símagögnum sé ljóst að X hafi verið í mjög miklum samskiptum við Y, bæði fyrir ránið og strax eftir það. Gögn málsins hafi verið send embætti Héraðssaksóknara til meðferðar í dag.

Að mati lögreglu hafi kærði nú rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar sinnar enda liggi fyrir sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot sem geti varðað  allt að 16 ára fangelsi. Kærði hafi gerst brotlegur við almenn hegningarlög og séu skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsingu nr. 49/2005 að mati lögreglu uppfyllt, enda hafi kærði með ofangreindri háttsemi sinni rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar sinnar. sbr. 252. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram

                Niðurstaða              

Kærða var veitt reynslulausn á eftirstöðvum fangelsisrefsingar þann 5. september sl. Í samræmi við 1. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, var almennt skilyrði reynslulausnarinnar að hann gerðist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Eins og rakið er í greinargerð lögreglu og nánar kemur fram í rannsóknargögnum var kærði upphaflega handtekinn vegna gruns um aðild að vopnuðu ráni sem framið var þann 22. október 2015. Auk hans voru tveir aðrir karlmenn handteknir. Kærði var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 5. nóvember 2015 en rannsókn málsins var fram haldið.

Fallast má á það með lögreglu að gögn málsins eins og þau liggja nú fyrir séu þess eðlis að sterkur grunur þyki fram kominn um að kærði hafi, eftir að honum var veitt reynslulausn, gerst sekur um háttsemi sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi. Gildir hér einu hvort um verkskipta þátttöku er að ræða eða hlutdeildarbrot enda eru refsimörk 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga þau sömu og gilda um aðalverknað. Hefur kærði þannig gróflega rofið almenn skilyrði reynslulausnarinnar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005.

Er krafan því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Kærði, X, kt. [...], skal afplána 240 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Hæstaréttar Íslands nr. [...]/2013 frá [...]. mars 2014.