Hæstiréttur íslands

Mál nr. 186/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. maí 2005.

Nr. 186/2005.

Sigurbjörg Sigurbergsdóttir

Sigurþór Pétur Þórisson og

Borgar Þórisson

(Eyvindur G. Gunnarsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Kristján Þorbergsson hrl.)

 

Kærumál. Þinglýsing.

Í skipti út úr jörð sinni tiltekinni spildu og gerði jafnframt samkomulag við F um afnot hennar. Sóknaraðilar töldu hina útskiptu spildu ná inn fyrir landamerki jarðar sinnar og kröfðust þess, að stofnskjal spildunnar ásamt fyrrnefndu samkomulagi yrði afmáð úr veðmálabókum. Talið var að ekki yrði fullyrt af gögnum málsins, að lýst merki hinnar útskiptu spildu úr landi Í næðu inn á land sóknaraðila. Jafnframt væri ljóst að stofnskjalið gæti ekki að lögum hróflað við landamerkjum jarðanna. Þá var þess sérstaklega getið í þinglýstu samkomulagi um afnot spildunnar, að vera kynni ágreiningur um merki jarðanna. Var kröfum sóknaraðila um aflýsingu skjalanna hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 3. mars 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að sýslumanninum á Patreksfirði yrði gert að afmá úr veðmálabókum annars vegar stofnskjal fyrir Sauðlauksdal - flugvöll og hins vegar samkomulag landbúnaðarráðherra og Flugmálastjórnar Íslands um afnot af þeirri fasteign sem mynduð var með umræddu stofnskjali. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumann að afmá umrædd skjöl úr þinglýsingarbók. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt ný gögn. Af þeim verður í þinglýsingamáli þessu ekki með öruggum hætti fullyrt að lýst merki hinnar útskiptu spildu úr landi varnaraðila nái inn á land sóknaraðila. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 3. mars 2005.

Mál þetta barst dóminum 31. mars 2004 og var tekið til úrskurðar í dag. Kærendur Sigurbjörg Sigurbergsdóttir, Sigurþór P. Þórisson og Borgar Þórisson, þinglýstir eigendur jarðarinnar Hvalskers, Patreksfirði, krefjast þess að felld verði úr gildi synjun sýslumannsins á Patreksfirði frá 4. mars 2004 um að afmá úr þinglýsingarbók stofnskjal fyrir Sauðlauksdal-flugvöll, þinglýsingarnr. A-56/03, sem þinglýst hafi verið 6. febrúar 2003 og lagt fyrir sýslumann að afmá stofnskjalið úr fasteignabók. Einnig krefjast þau þess að felld verði úr gildi synjun sýslumannsins á Patreksfirði sama dag um að afmá úr þinglýsingarbók skjal með þinglýsingarnúmerið A-110/03, sem þinglýst hafi verið 18. mars 2003 og sé samkomulag um afnot Flugmálastjórnar Íslands af lóð þeirri sem mynduð hafi verið með stofnskjali með þinglýsingarnr. A-56/03 og lagt fyrir sýslumann að afmá skjalið úr fasteignabók. Þá krefjast kærendur málskostnaðar úr hendi þinglýsingarbeiðenda og/eða sýslumannsins á Patreksfirði.

Varnaraðili Flugmálastjórn Íslands krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og gerir jafnframt kröfu um málskostnað. Varnaraðili Fjársýsla ríkisins hefur ekki látið málið til sín taka.

Sýslumaðurinn á Patreksfirði hefur ekki neytt heimildar sinnar til að koma að athugasemdum sínum í málinu.

I.

Varnaraðili íslenska ríkið mun vera eigandi jarðarinnar Sauðlauksdals, með landnúmerið 139917, en sóknaraðilar málsins kveðast þinglýstir eigendur jarðarinnar Hvalskers, sem mun eiga landamerki að fyrstnefndri jörð. Í málinu liggur fyrir afrit stofnskjals Sauðlauksdals-flugvallar dagsett 21. desember 2002 og ber skjalið með sér að hafa verið móttekið til þinglýsingar 5. febrúar 2003 og innfært daginn eftir. Ber skjalið þinglýsingarnúmerið A-56/03. Sú fasteign sem þannig varð til fékk landnúmerið 139919. Á síðastgreinda fasteign var þinglýst samkomulagi um afnot milli landbúnaðarráðherra og Flugmálastjórnar Íslands dagsett 4. mars 2003, móttekið til þinglýsingar 12. þess mánaðar og innfært þann 18. Sóknaraðilar málsins kröfðust þess með bréfi til sýslumannsins á Patreksfirði 26. janúar 2004 að umrædd tvö skjöl yrðu afmáð úr þinglýsingarbókum. Þessu erindi hafnaði sýslumaður með rökstuddu bréfi 4. mars 2004. Sóknaraðilar kærðu þessa ákvörðun til héraðsdóms með heimild í 4. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 með bréfi sem móttekið var af dóminum 31. mars 2004. Sama dag tilkynntu sóknaraðilar sýslumanninum á Patreksfirði um kæruna. Með bréfi 7. desember 2004 gaf dómurinn varnaraðilum kost á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu og jafnframt var sýslumanninum á Patreksfirði gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Í málinu nýtur ekki við staðfestra ljósrita gagna né endurrits úr þinglýsingabók eins og kveðið er á um í 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga. Varnaraðilum og sýslumanninum á Patreksfirði voru send afrit allra þeirra gagna sem sóknaraðilar málsins hafa lagt fram og þeim boðið að gera athugasemdir. Þar sem ekki hafa borist athugasemdir frá þessum aðilum um gagnaframlagningu þykir ekki varhugavert, eins og mál þetta er vaxið, að úrskurða í því þrátt fyrir fyrrgreindan annmarka. Það athugast og að fyrir mistök dómsins leið óhæfilega langur tími frá því umrædd kæra barst þar til málið var tekið til skoðunar án þess að aðilum þess verði um það kennt.

II.

Kærendur lýsa málsatvikum þannig að þeir séu þinglýstir eigendur jarðarinnar Hvalskers, Patreksfirði. Hluti flugvallarins á Patreksfirði hafi um árabil verið inni á landareign kærenda, þar sem flugvöllurinn og öryggissvæði hans skeri næstum því í sundur slægjuland jarðarinnar, sbr. m.a. ábendingu í umsögn jarðanefndar V-Barðastrandarsýslu 14. janúar 2002. Landamerki Hvalskers og ríkisjarðarinnar Sauðlauksdals séu afmörkuð með dómi Landamerkjadóms Barðastrandarsýslu í landamerkjamálinu nr. 1/1945: Séra Trausti Pétursson, sem umráðamaður og ábúandi að Sauðlauksdal gegn Valborgu Pétursdóttur sem eiganda og ábúanda Hvalskers. Vera kunni að einhver vafi sé um það hvernig skilja beri dómsorð tilvitnaðs dóms en það hafi ekki þýðingu fyrir þetta mál, þar sem það sé ekki spurning um hvort, heldur hve mikið af flugvallarstæðinu sé innan marka Hvalskers.

Hinn 6. febrúar 2003 hafi verið þinglýst stofnskjali lóðar í fasteignabók embættis sýslumannsins á Patreksfirði, sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, með síðari breytingum. Um hafi verið að ræða stofnskjal fasteignarinnar Sauðlauksdalur-flugvöllur, landnúmer og fastanúmer fasteignar 139917, lóðarauðkenni 4607-03-00062002. Landeigandi hafi verið sagður „Fjársýsla ríkisins. /Umsjón: Flugmálastjórn.“ Um mörk spildunnar hafi verið vísað til meðfylgjandi hnitsetts uppdráttar af flugvellinum öllum með öryggissvæði, án þess að gerð hafi verið grein fyrir því að flugvöllurinn sé gerður í landi tveggja jarða. Fasteign sú sem afmörkuð hafi verið með stofnskjali þessu sé því að hluta innan landamerkja Hvalskers.

Á grundvelli ofangreinds stofnskjals hafi hinn 18. mars 2003 verið þinglýst skjali dags. 4. mars 2003, með þinglýsinganúmerið A-110/03, sem sé samkomulag landbúnaðarráðherra f.h. jarðadeildar og Flugmálastjórnar Íslands um afnot þess síðarnefnda af lóð þeirri sem mynduð hafi verið með stofnskjalinu. Ekki hafi skjalið verið lagt fyrir sveitarstjórn og jarðanefnd. Áður hafi sömu aðilar gert með sér svipað samkomulag dags 17. maí 2002. Því skjali hafi ekki verið þinglýst en það hafi hins vegar verið lagt fyrir sveitarstjórn og jarðanefnd til umsagnar.

Kærendur hafi fyrst orðið þess áskynja að ofangreindum skjölum hafi verið þinglýst skömmu eftir áramót 2003/2004. Í framhaldi af því hafi kærendur krafist þess í bréfi til sýslumannsins á Patreksfirði 26. janúar 2004 að sýslumaður afmáði bæði skjölin. Sýslumaður hafi hafnað kröfu kærenda með ábyrgðarbréfi 4. mars 2004 sem borist hafi kærendum næsta dag.

Kærendur telja að þinglýsingastjóra hafi borið að afmá úr þinglýsingabók stofnskjal fyrir Sauðlauksdal-flugvöll (þinglýsinganúmer A-56/03). Benda þeir á að skjal verði að fullnægja ýmsum skilyrðum, bæði formlegum og efnislegum, til þess að því verði þinglýst. Í 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga séu greind þau atriði sem leiða til þess að þinglýsingastjóra beri að vísa skjali frá dagbók. Eftir breytingar sem gerðar hafi verið á þinglýsingalögum með lögum nr. 45/2000, séu skilyrði þess að skjali verði þinglýst að ýmsu leyti bundin því að gætt hafi verið ákvæða laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Þannig sé t.d. í b.-e. liðum 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga gert ráð fyrir því, að skjali verði vísað frá dagbók þegar ekki hefur verið gætt tiltekinna ákvæða III. kafla laga nr. 6/2001, sem varða svokallaða Landsskrá fasteigna. Verði ekki framhjá þessu horft við úrlausn málsins. Kærendur benda og á að áður fyrr hafi ný fasteign einfaldlega verið mynduð með því að sett hafi verið nýtt blað í þinglýsingabók. Með lögum nr. 6/2001 hafi orðið breytingar á því hvernig fasteign skuli stofnuð. Í landsskrá fasteigna sé gert ráð fyrir því að eign verði stofnuð með forskráningu grunnupplýsinga hjá Fasteignamati ríkisins. Sú skráning hljóti síðan staðfestingu við þinglýsingu og teljist það fullnaðarskráning, sbr. 11. gr. laga nr. 6/2001. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 45/2000 um breytingu á þinglýsingalögum komi fram að nauðsynlegt sé af þessum sökum að veita þinglýsingarstjóra rýmri heimild til frávísunar skjals sem ekki fullnægi formkröfum um myndun eigna. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 6/2001 skuli landeigandi gefa út stofnskjal fyrir einstaka lóð eða hverfi í heild sinni. Þar segi að í stofnskjali skuli koma fram: a) heiti landeignar samkvæmt ákvörðun sveitarfélags eða lögum um bæjarnöfn, eftir því sem við eigi, b) landnúmer lóðar, eitt eða fleiri, c) landnúmer þess lands sem lóð er tekin úr, d) afmörkun lóðar á uppdrætti sem staðfestur hefur verið af skipulagsyfirvöldum, e) fastanúmer hverrar lóðar eða jarðar sem hafi beina tilvísun í þá skika sem henni tilheyri, f) nafn og kennitala eiganda lands. Kærendur telja að ekki verði horft framhjá skilyrðum laga nr. 6/2001 við úrlausn þess hvort þinglýsa eigi skjali. Af skýru orðalagi 14. gr. laganna, sem að framan sé rakið, sem og skýringum í greinargerð með frumvarpi til laganna, verði að telja að stofnskjal geti ekki stafað frá öðrum en landeiganda. Benda kærendur einnig á 25. gr. þinglýsingalaga í þessu sambandi, en samkvæmt henni hafi sá sem þinglýsingabók nefni eiganda á hverjum tíma þinglýsta eignarheimild.

Kærendur kveðast einnig byggja á 7. gr. þinglýsingalaga er varði rannsóknarskyldu þinglýsingastjóra. Af því ákvæði leiði meðal annars að hljóði skjal um ráðstöfun sem óheimil sé að lögum verði því ekki þinglýst. Ráðstöfun sú sem falist hafi í þinglýsingu stofnskjals hafi verið óheimil að lögum, sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001, sem mæli svo fyrir að landeigandi skuli gefa út stofnskjal. Þinglýsingastjóra hafi því borið að synja þinglýsingar.

Kærendur benda einnig á að með þinglýsingu stofnskjals sé mynduð sérstök fasteign. Af þessu leiði að mikilsverð réttaráhrif séu bundin við þinglýsingu stofnskjals. Í hinu þinglýsta stofnskjali komi fram að landeigandi sé „Fjársýsla ríkisins. / Umsjón: Flugmálastjórn.“ Þessi fullyrðing standist ekki. Kærendur séu einnig landeigendur á því svæði sem stofnskjalið taki til. Í 3. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga segi að vísu að heimilt sé að þinglýsa í einu stofnskjali myndun fleiri en einnar fasteignar. Það breyti þó ekki þeirri staðreynd að allir landeigendur yrðu að standa að slíku stofnskjali. Með vísan til alls þessa telja kærendur ekki hjá því komist að afmá hið þinglýsta stofnskjal úr fasteignabók.

Hið síðara skjal sem kærendur telja að afmá skuli úr þinglýsingabók er samningur sem þinglýst var 18. mars 2003 (þinglýsinganúmer A-110/03), sem er samkomulag um afnot Flugmálastjórnar af lóð þeirri sem mynduð var með fyrrgreindu stofnskjali. Telja kærendur ágreiningslaust að leita hafi orðið samþykkis viðkomandi sveitarstjórnar og jarðanefndar til þeirrar ráðstöfunar sem í samningnum hafi falist og vísa um þetta atriði til 9. gr. sbr. 6. og 7. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Kveða kærendur að í málinu liggi fyrir að jarðanefnd V-Barðastrandarsýslu hafi 14. janúar 2002 tekið afstöðu til samkomulags landbúnaðarráðherra f.h. jarðadeildar landbúnaðarráðu­neyt­isins og Flugmálastjórnar, dags. 17. maí 2002. Í 8. gr. samkomulagsins hafi komið fram að það hafi verið gert „með samþykki bæjarstjórnar Vesturbyggðar 20. febrúar 2002 og jarðanefndar V-Barðastrandarsýslu 14. janúar 2002.“ Skjalinu hafi ekki verið þinglýst.

Landbúnaðarráðherra f. h. jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins og Flugmálastjórn hafi gert með sér nýtt samkomulag 4. mars 2003. Í 8. gr. samkomulagsins hafi komið fram að það væri gert „með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar Vesturbyggðar og jarðanefndar A-Barðastrandarsýslu“. Skjalinu sem fengið hafi þinglýsinganúmerið A-110/03 hafi verið þinglýst 18. mars 2003, eins og fyrr greini. Skjalið beri ekki með sér að hafa verið lagt fyrir jarðanefnd samkvæmt áðurnefndum ákvæðum jarðalaga.

Samkvæmt framansögðu liggi fyrir að hið þinglýsta skjal hafi aldrei verið borið undir jarðanefnd. Hafi skjalið því ekki verið tækt til þinglýsingar og hafi þinglýsingarstjóra borið að vísa því frá. Með sama hætti og með stofnskjalið sé hér byggt  á 7. gr. þinglýsingalaga um rannsóknarskyldu þinglýsingarstjóra. Í hinum þinglýsta samningi sé sérstakur fyrirvari í 2. mgr. 1. gr. um eignarrétt kærenda. Hefði fyrirvari þessi átt að vera næg aðvörun um annmarka á skjalinu, sem leiða hefði átt til þess að þinglýsingarstjóri synjaði þinglýsingar.

Auk framangreindra lagatilvísana vísa kærendur til 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um málskostnaðarkröfu sína og til laga nr. 50/1988 varðandi það að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu lögmanns þeirra til að innheimta virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

III.

Varnaraðili Flugmálstjórn kveðst byggja kröfur sínar á rökstuðningi sem fram komi í bréfi sýslumannsins á Patreksfirði til sóknaraðila þar sem kröfum þeirra var hafnað. Varðandi skjal nr. A-56/03 kemur fram í umræddu bréfi að um sé að ræða stofnskjal lóðar, sem ekki feli í sér afsal á landi. Með skjalinu hafi Sauðlauksdal-flugvelli, mannvirki sem staðið hafi í áratugi, verið mörkuð sérstök lóð. Um sé að ræða stofnskjal sem uppfylli skilyrði 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þar sé lóðinni gefið heitið Sauðlauksdalur-flugvöllur og landnúmerið 139919 og þess getið hvert landnúmer þess lands sem spildan hafi verið tekin úr, sem sé 139917 (Sauðlauksdalur). Skjalinu fylgi hnitsettur uppdráttur af lóðinni og sé það áritað um samþykki byggingafulltrúans í Vesturbyggð og landbúnaðarráðherra fyrir hönd Fjársýslu ríkisins, sem landeiganda Sauðlauksdals. Um skjal nr. A-110/03 kemur fram að skjalinu hafi verið þinglýst með athugasemd: „Skjalinu þinglýst á landnúmer 139919, sbr. stofnskjal dags. 21.12.2002, þingl.nr. A-56/03“. Í skjalinu komi fram fyrirvari um að ágreiningur kunni að vera um landamerki jarðarinnar Sauðlauksdals gagnvart jörðinni Hvalskeri og að samningurinn taki einungis til þess hluta land­spildunnar sem sé innan landamerkja jarðarinnar Sauðlauksdals, ef í ljós komi síðar að mörk hennar, samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti, nái einnig inn á land Hvalskers. Það sé því skýrt bæði í texta skjalsins og með þeirri athugasemd sem þinglýsingarstjóri hafi gert við þinglýsingu skjalsins að skjalinu hafi ekki verið þinglýst á jörðina Hvalsker og sé ekki ætlað að skerða land þeirrar jarðar. Loks er tekið fram að augljósar ritvillur geri skjalið ekki ótækt til þinglýsingar. Í greinargerð varnaraðila segir að í framangreindum rökstuðningi sýslumanns komi fram að að þinglýsing þeirra tveggja skjala sem málatilbúnaður sóknaraðila varði, skerði í engu eignarrétt þeirra og raski í engu lögvörðum hagsmunum þeirra að öðru leyti.

IV.

Með margnefndu stofnskjali með þinglýsinganúmerið A-56/03 skipti landeigandi Sauðlauksdals út úr jörðinni tiltekinni spildu. Þetta var landeiganda heimilt án afskipta sóknaraðila máls þessa og hafa sóknaraðilar ekki leitt líkur að því að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að hnekkja þessum gerningi sem slíkum. Liggur einnig fyrir að skjalið fullnægði formkröfum 20. gr. þinglýsingalaga. Það er jafn ljóst að skjal þetta getur ekki að lögum hróflað við landamerkjum milli jarðanna Sauðlauksdals og Hvalskers eins og sóknaraðilar virðast telja. Eins og krafa sóknaraðila er rökstudd virðast þeir telja að stofnskjalið hafi verið ótækt til þinglýsingar þar sem spildan sem um ræði sé óumdeilanlega að hluta í landi þeirra. Á þetta verður ekki fallist en eins og fyrr greinir hefur umrætt stofnskjal engin áhrif að lögum til breytingar á landamerkjum jarðanna. Hafa sóknaraðilar því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skjal þetta afmáð vegna þeirra formgalla sem þeir telja að hafi verið á þinglýsingu þess. Hins vegar er fallist á það með sóknaraðilum að ef rétt reynist að merkjum hinnar útskiptu spildu sé lýst með þeim hætti í fylgigögnum stofnskjals að þau nái inn á land í eigu sóknaraðila þá hafi þeir lögvarða hagsmuni af því að slík skráning merkja standi ekki athugasemdalaust í þinglýsingabókum. Hins vegar er til þess að líta að umrætt stofnskjal er áritað af skipulagsyfirvöldum.  Sóknaraðilar hafa fullyrt að hluti umræddrar spildu sé innan landamerkja jarðar þeirrar og að þetta sé alkunnugt. Hins vegar hafa engir uppdrættir verið lagðir fram í málinu sem sýna afstöðu jarðanna og staðsetningu hinnar útskiptu spildu og hvernig hin lýstu merki raska rétti sóknaraðila. Engin gögn liggja fyrir í málinu um að lýst merki hinnar umræddu spildu nái inn á land sóknaraðila utan umsögn jarðanefndar Vestur-Barðastrandarsýslu dagsett 14. janúar 2002, sem mun hafa verið veitt í tilefni af áformum landbúnaðarráðuneytisins um að gera samning við Flugmálastjórn Íslands um afnot af spildunni, en í þessari umsögn er athygli ráðuneytisins vakin á því að einungis hluti af landspildunni sé í landi Sauðlauksdals. Þetta skjal nægir ekki eitt og sér sem sönnun þess að merkjum spildunnar sé ekki rétt lýst í stofnskjali sem dagsett er 21. desember sama ár. Nægir þetta skjal ekki eitt og sér til að sýna fram á að merkjalýsing hinnar útskiptu spildu sem staðfest var af skipulagsyfirvöldum sé röng.

Þar sem sóknaraðilar hafa ekki stutt þær fullyrðingar sínar nægilegum gögnum að lýsing merkja í umræddu stofnskjali og fylgigögnum sé þannig að hún nái til hluta jarðar sóknaraðila verður kröfu þeirra um aflýsingu stofnskjalsins hafnað.

Skjali nr. A-110/03 var þinglýst á margnefnda spildu og þess sérstaklega getið að vera kunni ágreiningur um merki gagnvart Hvalskeri. Þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að stofnskjal spildunnar verður ekki afmáð og liggur þá ljóst fyrir að þinglýsing skjals nr. A-110/03 raskar ekki lögvörðum réttindum sóknaraðila og verður því kröfu þeirra um afmáningu þess skjals einnig hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila, Sigurbjargar Sigurbergsdóttur, Sigurþórs P. Þórissonar og Borgars Þórissonar í máli þessu er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.