Hæstiréttur íslands
Mál nr. 549/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Samningur
- Lögsaga
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 28. október 2010. |
|
Nr. 549/2010. |
Landsbanki Luxembourg S.A. in liquidation (Kristján B. Thorlacius hrl.) gegn Herði Jónssyni (Atli Björn Þorbjörnsson hdl.) Árna Jóhannessyni Þórarni Kristinssyni (Einar Þór Sverrisson hrl.) Jóni Guðna Sandholt (enginn) Arnari Sölvasyni og Gunnari Jóhanni Birgissyni (Einar Þór Sverrisson hrl.) |
Kærumál. Samningur. Lögsaga. Frávísunarúrskurður staðfestur.
L höfðaði mál og krafði H, Á, Þ, J, A og G sameiginlega um greiðslu skuldar samkvæmt sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum í lánssamningi milli L sem lánveitanda og félagsins J sem lántaka, og viðauka við hann. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá héraðsdómi, þar sem lögsaga þess væri í Danmörku samkvæmt 13. gr. ábyrgðarsamningsins. L hélt því fram að honum sem ábyrgðarþega væri á grundvelli 3. mgr. 13. gr. samningsins heimilt að hefja málarekstur í tengslum við ábyrgðina fyrir hvaða öðrum dómstól en sjó- og viðskiptadómstólnum í Kaupmannahöfn, en ákvæði 2. mgr. 13. gr. um lögsögu danskra dómstóla ætti aðeins við um mál sem H, Á, Þ, J, A og G hygðust höfða á hendur L vegna samningsins. Hæstiréttur taldi að þegar litið væri til 3. mgr. 13. gr. og samningsákvæðisins í heild mætti ljóst vera, að væri skilningur L réttur myndi 3. mgr. 13. gr. samningsins ganga þvert gegn efni 2. mgr. hennar um að lögsagan væri einskorðuð við danska dómstóla. Í 3. mgr. væri kveðið á um að greinin í heild væri ábyrgðarþega til hagsbóta á þann hátt sem þar nánar greindi, en í því fælist að við fullnustuaðgerðir eða hliðsettar aðgerðir að gengnum dómi væri sókn ekki bundin við danska dómstóla. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. september 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Hörður Jónsson krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um málskostnað honum til handa en að málinu verði að öðru leyti „vísað heim í hérað til úrskurðar um aðrar frávísunarkröfur aðila í héraði en þær sem héraðsdómur byggir niðurstöðu sína á.“
Varnaraðilarnir Arnar Sölvason, Árni Jóhannesson, Gunnar Jóhann Birgisson og Þórarinn Kristinsson krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Jón Guðni Sandholt hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðilinn Hörður Jónsson hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og koma aðrar kröfur hans en um staðfestingu úrskurðarins því ekki til skoðunar.
I
Samkvæmt gögnum málsins tóku varnaraðilar á sig sjálfskuldarábyrgð 29. maí 2008 á skuldbindingum í lánssamningi 24. september 2007 milli Landsbanka Luxembourg S.A. sem lánveitanda og JAG Ejendomme ApS í Kaupmannahöfn sem lántaka, og viðauka við hann 29. maí 2008. Samkvæmt ábyrgðarsamningnum takmarkast ábyrgð sjálfskuldarábyrgðarmanna við 50.000.000 danskar krónur. Sóknaraðili hefur höfðað mál gegn varnaraðilum til greiðslu sjálfsskuldarábyrgðarinnar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, sem þingfest var 14. janúar 2010. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá héraðsdómi, þar sem lögsaga þess væri í Danmörku samkvæmt 13. gr. ábyrgðarsamningsins.
II
Sóknaraðili styður kröfu sína þeim rökum, að honum sé samkvæmt ákvæðum ábyrgðaryfirlýsingarinnar heimilt að höfða mál fyrir hvaða dómstól sem hann kýs og sú heimild sé ekki takmörkuð við danska dómstóla. Í 13. gr. samningsins sé fjallað um gildandi lög og lögsögu. Í íslenskri þýðingu samningsins segi í 1. mgr. 13. gr. að ábyrgðin skuli heyra undir og teljast vera í samræmi við dönsk lög og í 2. mgr. 13. gr. að danskir dómstólar skuli hafa lögsögu um að setja niður deilumál sem kunni að rísa af eða í tengslum við viðbæti þennan og að sjó- og viðskiptadómstóllinn í Kaupmannahöfn skuli vera fyrsta dómstig. Í 3. mgr. 13. gr. komi jafnframt fram að ákvæði 13. gr. séu eingöngu í þágu ábyrgðarþega. Svo segi: „Því skal ábyrgðarþega ekki fyrirmunað að hefja málarekstur í tengslum við deilu sem felur í sér, en takmarkast ekki við, fullnustuaðgerðir viðvíkjandi ábyrgðinni fyrir hvaða öðrum dómstóli eða fógetavaldi sem er. Að því marki sem lög leyfa getur lánveitandi haldið uppi málarekstri samtímis fyrir hvaða fjölda dómstóla sem er.“ Af þessum orðum megi ljóst vera að sóknaraðila sem ábyrgðarþega sé heimilt að hefja málarekstur í tengslum við ábyrgðina fyrir hvaða öðrum dómstól en sjó- og viðskiptadómstólnum í Kaupmannahöfn, þar með talið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í þessu felist og að ákvæði 2. mgr. 13. gr. um lögsögu danskra dómstóla eigi aðeins við um mál sem varnaraðilar hygðust höfða á hendur sóknaraðila vegna samningsins. Þessi greinarmunur hafi verið gerður þar sem sóknaraðili hafi veitt félagi á vegum varnaraðila mikla fyrirgreiðslu í viðskiptum og því eðlilegt að sóknaraðili hefði heimild til að reka mál fyrir þeim dómstólum sem hann kýs. Hins vegar sé bent á að í þessu máli sé það varnaraðilum síst til óhagræðis að mál sé höfðað fyrir íslenskum dómstól, enda megi ljóst vera að það sé þeim auðveldara og útlátaminna að taka þar til varna. Ákvæði 1. mgr. 13. gr. um að um ábyrgðina skuli fara eftir dönskum lögum hafi hér ekki sérstaka þýðingu þar sem reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiði til þess að íslenskum dómstólum sé bæði heimilt og skylt að beita erlendum réttarreglum sé fyrir þá lagt ágreiningsefni sem fara skuli eftir erlendum rétti, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Hin þrönga túlkun héraðsdóms á orðalagi samningsins sé ekki tæk, enda felist í henni alvarleg takmörkun á þeim heimildum sem sóknaraðila séu veittar samkvæmt samningnum. Túlkunin myndi leiða til þess að honum yrði ókleift að grípa til fullnustuaðgerða á grundvelli dóms í málinu, enda einungis heimilt að krefjast fullnustu fyrir dönskum dómstólum og þar með ókleift að fá fullnustu dóms gagnvart eigum varnaraðila sem staðsettar væru annarstaðar en í Danmörku.
Sóknaraðili bendir ennfremur á að samningur sá sem um sé deilt byggi á réttarsambandi hans, sem sé lögaðili í Luxembourg, varnaraðila, sem séu íslenskir ríkisborgarar með eignir á Íslandi og JAG Ejendomme Aps, sem sé danskt félag, sem stundað hafi fasteignaviðskipti í Danmörku. Kveði samningurinn á um skyldu varnaraðila til að ábyrgjast fjárskuldbindingu þriðja aðila. Gera verði ráð fyrir rúmum heimildum lánveitanda til að sækja ábyrgðarmenn um efndir skuldbindingarinnar og í samningnum sé sérstakt ákvæði um heimild sóknaraðila til að höfða mál víðar en í Danmörku. Lokamálsliður 3. mgr. 13. gr. staðfesti skilning sóknaraðila, en þar segi „að því marki sem lög leyfa getur lánveitandi haldið uppi málarekstri samtímis fyrir hvaða fjölda dómstóla sem er.“ Hér geti ekki verið átt við að heimilt sé að reka mál samtímis fyrir mörgum dómstólum í sama landi á sama tíma, enda komi málsmeðferðarreglur í hverju landi jafnan í veg fyrir það, sbr. reglur um litis pendens og res judicata. Af þessum sökum verði ekki fallist á að lögsaga málsins hafi verið takmörkuð við rekstur þess fyrir dönskum dómstólum.
III
Samningur aðila er á ensku. Skýring á 13. gr. hans er hér til úrlausnar. Í 1. mgr. 13. gr. felst að um ábyrgðina skuli fara og hún skýrð samkvæmt dönskum lögum. Í 2. mgr. 13. gr. segir: „The courts of Denmark shall have exclusive jurisdiction to settle any dispute arising out of or in connection with this Guarantee. The Maritime and Commercial Court in Copenhagen shall be the court of first instance.“ Í íslenskri þýðingu hans hefur fallið út orðið „exclusive“ í fyrri málslið greinarinnar, en þar er um að ræða orð sem felur í sér að danskir dómstólar skuli einir hafa lögsögu og að sjó- og viðskiptadómstóllinn í Kaupmannahöfn skuli þar vera fyrsta dómstig. Í fyrsta málslið 3. mgr. 13. gr. segir: „This Clause 13 is for the benefit of the Beneficiary only.“ Í þessum orðum felst að grein 13 sé til hagsbóta fyrir ábyrgðarþegann eingöngu. Framhald þessarar málsgreinar er rakið orðrétt í íslenskri þýðingu hér að framan.
Þegar litið er til 3. mgr. 13. gr. og samningsákvæðisins í heild má ljóst vera, að sé skilningur sóknaraðila réttur myndi 3. mgr. 13. gr. ganga þvert gegn efni 2. mgr. hennar um að lögsagan væri einskorðuð við danska dómstóla. Eðlileg skýring á 13. gr. hlýtur því að vera, að 1. mgr. og 2. mgr. hennar verði túlkaðar samkvæmt orðum sínum, en að í 3. mgr. sé kveðið á um að greinin í heild sé ábyrgðarþega til hagsbóta á þann hátt sem þar nánar greinir, en í því felist að við fullnustugerðir eða hliðsettar aðgerðir að gengnum dómi sé sókn ekki bundin við danska dómstóla. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Rétt er að hver aðila beri sinn kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. september 2010.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 31. ágúst sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landsbankanum Luxembourg S.A. in liquidation, 2-4 Rue Beck, L-1222 Luxembourg, á hendur Árna Jóhannessyni, Þverárseli 14, Reykjavík, Herði Jónssyni, Gnitaheiði 3, Kópavogi, Þórarni Kristinssyni, Depluhólum 7, Reykjavík, Jóni Guðna Sandholt, Sunnuflöt 28, Garðabæ, Arnari Sölvasyni, Ásbúð 78, Garðabæ, og Gunnari Jóhanni Birgissyni, Klettási 16, Garðabæ með stefnu birtri 16. desember 2009 og 5. janúar 2010.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 50.000.000 danskra króna. Þá er þess krafist að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefndu, Arnars, Árna, Gunnars Jóhanns, Jóns Guðna og Þórarins, eru aðallega þær að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara krefjast stefndu sýknu af kröfum stefnanda. Til þrautavara krefjast stefndu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum krefjast stefndu, hver fyrir sig, málskostnaðar úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi, Hörður, krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Til þrautavara er þess krafist að stefnanda verði gert að þola ógildingu á samningi um ábyrgð stefnda í þágu stefnanda sem birtist á dskj. 10. Til þrautaþrautavara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.
Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins frá Héraðsdómi Reykjavíkur tekin til úrskurðar. Stefnandi hafnar frávísunarkröfum stefndu og krefst þess að málið verið tekið til efnisdóms og honum tildæmdur málskostnaður.
Ágreiningsefni
Málið er tilkomið vegna kröfu stefnanda um greiðslu skuldar samkvæmt sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 50.000.000 danskra króna.
Málsástæður og lagarök stefndu, Arnars, Árna, Gunnars Jóhanns, Jóns Guðna og Þórarins, um frávísun
Í fyrsta lagi mótmæla stefndu þeirri málsástæðu í stefnu að stefnanda sé heimilt að höfða mál á hendur stefndu fyrir hvaða dómstól sem hann kýs, enda kemur skýrt fram í hinni umdeildu ábyrgðaryfirlýsingu að danskir dómstólar skuli skera úr um ágreining aðila, sbr. gr. 13.2 á dskj. 10 sem er svohljóðandi (dskj. 11); ,,Danskir dómstólar skulu hafa lögsögu um að setja niður deilumál sem kunna að rísa af eða í tengslum við samning þennan (ásamt deilum sem varða tilvist, gildi eða lok þessa samnings (,,Deilumál“)). Sjó- og viðskiptadómstóllinn (Sofarts- og Handelsretten) í Kaupmannahöfn skal vera fyrsta dómsstig.“
Stefnandi höfðar málið á grundvelli gr. 13.3. Stefndu byggja á því að sú grein eigi einungis við um fullnustu kröfunnar en heimili ekki að velja varnarþing vegna dómsmáls sem rekið er um efni hennar. Gr. 13.2. feli í sér meginreglu um varnarþing, en gr. 13.3. er undantekning sem m.a. eigi við um fullnustuaðgerðir. Ef leggja ætti skilning stefnanda til grundvallar er ljóst að gr. 13.2. væri þarflaus.
Stefndu byggja á því að ágreiningur aðila þessa máls hafi verið skilinn undan lögsögu íslenskra dómstóla. Ber því að vísa dómkröfu stefnanda frá dómi með vísan til 1. mgr. 24. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
Í öðru lagi byggja stefndu á því að málið sé vanreifað. Í stefnu er enga umfjöllun að finna um fjárhæð kröfu stefnanda á hendur Jag ApS., en eðli máls samkvæmt á stefnandi enga kröfu á hendur stefndu nema hann eigi kröfu á hendur Jag ApS., sem nú hefur verið seld. Að mati stefndu er málatilbúnaður stefnanda því langt frá því að standast kröfur 80. gr. einkamála nr. 91/1991.
Afar erfitt er um vik að sjá hvernig haga beri uppbyggingu varna í málinu með tilliti til þessa en stefndu vekja athygli á því að stefnandi hefur nú þegar gengið að veðum sínum og að auki selt kröfuna, sbr. dskj. nr. 27 og 30. Stefndu byggja á því að með því hafi stefnandi fengið fullar efndir kröfunnar. Því til viðbótar hefur stefnandi gengið að innlánsreikningi Jap ApS. í Danmörku og að hlutabréfum Jag ehf. í Jag ApS. án þess að lækka kröfu sína eða veita upplýsingar um verðmæti veða sem gengið hefur verið að. Þessi vanreifun í stefnu hefur þau réttaráhrif að stefndu geta ekki lagt mat á hvort stefnandi hafi leyst til sín umrædd veð með forsvaranlegum hætti og á „eðlilegu“ verði.
Með vísan til ofangreinds og niðurlagsorða e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, þar sem segir að lýsing málsástæðna og annarra atvika í stefnu skuli vera svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er, þá telja stefndu að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki kröfur ákvæðisins. Stefndu telja auk þess veruleg áhöld um það hvort bæta megi úr þessari vanreifun á síðari stigum málsins án þess að málsgrundvellinum sé þar með raskað. Ber því að vísa málinu frá dómi.
Málsástæður og lagarök stefndu, Harðar, um frávísun
Í fyrsta lagi byggir stefndi frávísun málsins á því að honum sé ómögulegt að halda uppi vörnum í málinu vegna vanreifunar stefnanda á dómkröfu, óskýrleika og haldleysi þeirra krafna og gagna sem stefnandi leggur fram sem og augljósrar vöntunar á grundvallarupplýsingum og gögnum er varða málið og stefnandi kýs að leggja ekki fram.
Málatilbúnaður stefnanda er með slíkum hætti og þannig ófaglega úr garði gerður að stefnda er ómögulegt að taka til varna í máli þessu. Stefnandi gerir kröfu um að stefndi greiði honum 50.000.000 danskra króna. Engu að síður liggur fyrir, sbr. dskj. 35 og 37 (gögn er varða veðsetningu reiknings sem leigugreiðslur skyldu berast inn á) og dskj. 12 (þar sem kemur fram í grein 4.2. að bankinn fái innborgaðar fjárhæðir inn á kröfu sína) að stefnandi hefur fengið og/eða verið í aðstöðu til að ráðstafa töluverðum fjárhæðum á móti kröfu sinni á Jag ejendomme ApS. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings hver raunveruleg staða hinnar undirliggjandi kröfu er og þá hvort hann eigi yfirhöfuð rétt á að fá tildæmda kröfufjárhæð sína en ótækt er að stefnandi hagnist á kostnað stefnda. Þá lætur stefnandi ekki einu sinni svo lítið að leggja fram staðfestingu á því að lánið til Jag ejendomme ApS hafi í raun verið greitt út í samræmi við lánasamninginn. Þá blasir við, sbr. dskj. 27 og 28 (bréf lögmanns nýs kröfueiganda) að stefnandi hefur selt kröfuna, sem hinni meintu ábyrgð er ætlað að tryggja, frá sér og því fullkomlega óljóst hver fjárhæð hennar er og ekki síður hvort stefnandi eigi yfirhöfuð einhverja kröfu á Jag ejendomme ApS og þar með á hendur stefnda, sbr. síðar, en það leiðir af sjálfu að stefnandi á enga kröfu á hendur stefnda nema hann eigi kröfu á hendur Jag ejendomme ApS.
Stefnandi leggur einvörðungu fram lánasamning, viðaukasamning við hann og hið umdeilda ábyrgðarskjal. Skjöl þessi eru öll í ljósriti og undirskriftir eru máðar og kannast stefndi ekki við undirritun sína á þeim þannig fram lögðum. Eins og glögglega má sjá þá er umræddur lánasamningur viðameiri en það skjal sem er lagt fram sem dskj. nr. 6, þar sem hluti samningsins eru margir viðaukar sem kunna að skipta máli fyrir varnir í málinu, þar á meðal veðsetning bankareikninga vegna leigugreiðslna, útborgunarbeiðni o.s.frv.
Framangreindu til viðbótar, vegna þeirrar fullyrðingar stefnanda um að dönsk lög eigi að gilda um lögskipti aðila málsins, þá leggur stefnandi fram til stuðnings dómkröfum sínum lögfræðiálit sömu lögmannsstofu og a) samdi lánaskjölin og hið meinta ábyrgðarskjal sjálft sem dómkröfur stefnanda byggja á, og b) hefur annast innheimtu kröfunnar fyrir hönd stefnanda á fyrri stigum málsins. Á slíku áliti getur íslenskur dómstóll ekki byggt niðurstöðu sína vegna augljósra hagsmuna þeirrar lögmannsstofu er álitið gefur út af niðurstöðu máls þessa. Þá er umrætt álit afar yfirborðskennt og ekki hægt að styðjast við það á nokkurn hátt um meintar skuldbindingar aðila í því máli sem hér er til umfjöllunar á grundvelli málsatvika, skjala og annarra gagna málsins sem er til úrlausnar.
Að framangreindu virtu er ljóst að stefnandi hefur ekki uppfyllt kröfu um skýran og greinargóðan málatilbúnað sem gerir stefnda kleift að taka til varna, og að mati stefnda er málatilbúnaður stefnanda því víðs fjarri að standast kröfur 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ber því að vísa máli þessu frá dómi og dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun
Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu. Hann vísar til atvik málsins. Hann byggir á því að með vísan til gr. 13.3 samnings um ábyrgðaryfirlýsingu á dskj. 10, en íslensk þýðing liggur fyrir á dskj. 11, hafi stefnandi heimild til að höfða mál sem sprottin er af ábyrgðaryfirlýsingunni fyrir hvaða dómstól sem vera skal, bæði hér á landi eða í Danmörku. Hins vegar hafi sóknaraðilar einungis heimild til að höfða mál í Kaupmannahöfn.
Þá mótmælir sóknaraðili því að málatilbúnaður hans uppfylli ekki skilyrði 80. gr. eml. Hann tekur fram að krafan standi í rúmlega 74 milljónum danskra króna en ábyrgðaryfirlýsingin sé fyrir 50 milljónum danskra króna. Stefnandi tekur fram að þegar stefnan var gefin út hafi hvorki verið gengið að veðum né réttindum ráðstafað. Framsal réttinda hafi átt sér stað eftir að stefnan var gefin út. Stefnandi bendir á að telji stefndu að einhverjar greiðslur hafi átt sér stað, sem lækki dómkröfuna, væri þeim í lófa lagið að leggja fram staðfestingu á því.
Niðurstaða
Í málinu krefst stefnandi greiðslu skuldar vegna sjálfsskuldarábyrgðar, sbr. samning frá 29. maí 2008. Í 13. kafla samningsins er fjallað um gildandi lög og lögsögu. Í gr. 13.1 segir svo: „Ábyrgð þessi skal heyra undir og teljast vera í samræmi við dönsk lög.“ Í gr. 13.2 segir: „Danskir dómstólar skulu hafa lögsögu um að setja niður deilumál sem kunna að rísa af eða í tengslum við viðbæti þennan. Sjó- og viðskiptadómstóllinn í Kaupmannahöfn skal vera fyrsta dómsstig.“ Í gr. 13.3 segir: „Grein 13 er eingöngu í þágu ábyrðarþega. Því skal ábyrgðarþega ekki fyrirmunað að hefja málarekstur í tengslum við deilu sem felur í sér, en takmarkast ekki við, fullnustuaðgerðir viðvíkjandi ábyrgðinni fyrir hvaða öðrum dómstóli eða fógetavaldi sem er. Að því marki sem lög leyfa getur lánveitandi haldið uppi málarekstri fyrir hvaða fjölda dómstóla sem er.“
Af þessum ákvæðum er alveg ljóst að málsaðilar hafa samið um, að um ábyrgðina skuli fara að dönskum lögum. Á sama hátt er ljóst að danskir dómstólar eiga að hafa lögsögu í málum út af ábyrgðinni og það eigi að byrja í sjó- og viðskiptadómstólnum í Kaupmannahöfn.
Túlka verður gr. 13.3 þannig, að stefnandi málsins geti hafið málarekstur varðandi ábyrgðina fyrir hvaða öðrum dómstóli eða fógetavaldi sem er, þ.e. fyrir utan sjó- og viðskiptadómstólinn, sbr. gr. 13.2. Þá getur stefnandi, eftir því sem lög leyfa, haldið uppi málarekstri samtímis fyrir hvaða fjölda dómstóla sem er. Þetta takmarkast þó við danska dómstóla, því um það sömdu málsaðilar, sbr. gr. 13.2. Lögsaga máls þessa er því í Danmörku.
Með vísan til þess sem að framan greinir, sem og 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála, er máli þessu vísað frá dómi. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki tekin afstaða til málatilbúnaðar stefnanda og hvort hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 80. gr. sömu laga.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda, Herði Jónssyni, 250.000 kr. í málskostnað og hverjum annarra stefndu um sig 50.000 kr., eða samtals 500.000 kr. í málskostnað.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda, Herði Jónssyni, 250.000 kr., og stefndu, Arnari Sölvasyni, Árna Jóhannessyni, Gunnari Jóhanni Birgissyni, Jóni G. Sandholt og Þórarni Kristinssyni, 50.000 kr. hverjum um sig, í málskostnað.