Hæstiréttur íslands

Mál nr. 139/2004


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Lögmaður
  • Fyrning
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. október 2004.

Nr. 139/2004.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir

(Sigurður Georgsson hrl.)

gegn

Þórði Heimi Sveinssyni

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabótamál. Lögmenn. Fyrning. Gjafsókn.

K leitaði til lögmannsins Þ á árinu 1996 vegna umferðarslyss sem hún hafði lent í á árinu 1987. Af þessu tilefni ritaði Þ tryggingafélaginu S hf. bréf, en aðhafðist síðan ekkert í málinu fyrr en á árinu 1999. Af hálfu S hf. var vísað til þess að krafa K væri fyrnd. Taldi K að hún hafi orðið fyrir tjóni með því að vanræksla Þ hafi leitt til þess að hún hafi orðið af tryggingabótum vegna slyssins. Í máli K á hendur Þ var talið ósannað að K hafi hlotið varanlega örorku í umræddu slysi. Því hafi lögvarin krafa á hendur tryggingafélaginu ekki stofnast. Samkvæmt því væri ekki fyrir hendi tjón sem til álita kæmi að gera Þ bótaskyldan fyrir. Var hann sýknaður af kröfu K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.978.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júlí 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, svo og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að sýkna beri stefnda af kröfu áfrýjanda þegar af þeirri ástæðu að þar sem ekki hafi stofnast lögvarin krafa áfrýjanda á hendur réttargæslustefnda sé ekkert tjón fyrir hendi sem til álita kemur að gera stefnda bótaskyldan fyrir. 

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest.

Rétt þykir að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Þórður Heimir Sveinsson, er sýkn af kröfu áfrýjanda, Kolbrúnar Hrundar Sigurgeirsdóttur.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 500.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. mars 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. f.m., er höfðað 18. apríl 2002 af Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur, Grenimel 1 í Reykjavík, á hendur Þórði Heimi Sveinssyni, nú til heimilis að Hrísalundi 20F á Akureyri.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 1.978.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. maí 2001 til 1. júlí sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 22. maí 2002 veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara verulegrar lækkunar á dómkröfu stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefnandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu.

I.

Stefndi er lögfræðingur og starfaði um tíma sem héraðsdómslögmaður í Reykjavík. Í málinu krefur stefnandi hann um skaðabætur vegna tjóns sem hún kveðst hafa orði fyrir vegna vanrækslu hans við heimtu bóta vegna umferðarslyss sem hún lenti í 12. mars 1987, en þá ók bifreið á hana á Hamrabergi í Hafnarfirði. Stefnandi var þá 9 ára gömul.

Samkvæmt gögnum málsins veitti stefnandi stefnda umboð 13. nóvember 1996 til þess að „afla gagna, skattskýrslna, semja um skaðabætur, ljúka við uppgjör og taka á móti greiðslum“ fyrir sína hönd vegna slyssins. Ritaði stefndi réttargæslustefnda bréf vegna málsins 25. nóvember 1996, þar sem fram kom að stefnandi hefði eignast barn 5. sama mánaðar, en hið rétta er að barnið fæddist 27. október. Var í bréfinu áskilinn réttur til að koma að bótakröfum á hendur tryggingafélaginu „vegna mögulegra eftirkasta fæðingar vegna slyssins“. Þá var óskað eftir því að stefnanda yrðu send gögn er vörðuðu málið. Ekkert mun síðan hafa verið aðhafst í málinu af hálfu stefnda gagnvart tryggingafélaginu fyrr en 16. júní 1999, en þann dag var bréfið frá 25. nóvember 1996 sent félaginu að nýju. Í kjölfar þess, eða 25. júní 1999, kynnti tryggingafélagið stefnda þá afstöðu sína að hugsanleg bótakrafa á hendur því væri fyrnd og var þar um vísað til 99. gr. umferðarlaga. Mun stefnandi í framhaldi af þessu hafa leitað til annars lögmanns og falið honum að gæta hagsmuna sinna í málinu. Að tilhlutan þess lögmanns og eftir að tryggingafélagð hafði bréflega tilkynnt honum að bótakrafa á hendur því væri fyrnd mat Atli Þór Ólason læknir varanlega örorku stefnanda vegna slyssins. Komst hann að þeirri niðurstöðu í matsgerð 24. apríl 2001 að stefnandi hafi í slysinu hlotið 5% varanlega örorku. Á grundvelli örorkumatsins var það síðan niðurstaða Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings að höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps á slysdegi og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins næmi samtals 1.878.600 krónum. Þá lagði stefnandi fram kvörtun 15. maí 2000 á hendur stefnda til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. V. kafli laga nr. 77/1998 um lögmenn. Var það niðurstaða nefndarinnar í úrskurði 9. október 2000, að aðgerðarleysi stefnda í hagsmunagæslu fyrir hönd stefnanda „vegna hættu á fyrningu bótakröfu“ hafi verið aðfinnsluvert.

Skömmu eftir að framangreind niðurstaða tryggingafræðings lá fyrir veitti stefnandi núverandi lögmanni sínum umboð til að gæta hagsmuna sinna gagnvart stefnda. Ritaði lögmaðurinn stefnda bréf 18. júní 2001 þar sem sett var fram bótakrafa á hendur honum vegna meintrar vanrækslu við hagsmunagæslu í þágu stefnanda gagnvart réttargæslustefnda. Var gerð krafa um það í bréfinu að stefndi greiddi stefnanda bætur í samræmi við niðurstöðu örorkumats og útreikning tryggingafræðings, eða 1.878.600 krónur, og að auki miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur. Þá beindi lögmaðurinn kröfu um bætur að réttargæslustefnda með bréfi 23. janúar 2002 og þá á grundvelli starfsábyrgðartryggingar stefnda hjá félaginu. Þeirri kröfu hafnaði tryggingafélagið með bréfi 7. febrúar 2002. Í því kemur fram að stefndi hafi haft starfsábyrgðartryggingu lögmanna hjá félaginu frá 27. nóvember 1995 til 24. nóvember 2000. Samkvæmt skilmálum félagsins taki slík vátrygging ekki til tjóns vegna skaðabótakröfu, sem stofnast hefur gegn vátryggingartaka á vátryggingartímanum, hafi krafan ekki verið tilkynnt félaginu í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok vátryggingar. Innan þessara tímamarka hafi engin bótakrafa komið fram á grundvelli starfsábyrgðartryggingar stefnda hjá félaginu. Þegar af þessari ástæðu bæri að hafna bótakröfu.

Mál þetta höfðaði stefnandi svo sem fram er komið 18. apríl 2002.

II.

Á meðal gagna málsins er vottorð læknis um komu stefnanda á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík 12. mars 1987. Niðurstaða skoðunar og rannsókna sem stefnandi undirgekkst þar var „cliniskt vaxtarlínulos rétt neðan við [vinstri] olnboga og blæðing í [vinstri] olnbogalið“. Meðferð hafi verið fólgin í gipsspelku um vinstri olnboga. Þá hafi verið ákveðið að fylgjast með stefnanda með tilliti til kviðáverka og hafi hún því verið lögð inn á sjúkrahús til næsta morguns. Þessu næst segir svo í vottorðinu: „Þá var hún útskrifuð af gæslud. í góðu standi og kom síðan 3-4 vikum síðar á [endurkomudeild slysadeildar] og var þá fjarlægð gipsspelkan [...]. Hins vegar mun hafa komið í ljós við gipstökuna að hún var með eymsli yfir rófubeini en það var ekki myndað og talið geta hafa verið sprunga en að sögn sjúkl. mun hún hafa lagast fljótlega í rófubeininu.“

Í örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis er gerð grein fyrir efni framangreinds læknisvottorðs. Þá kemur fram í örorkumatinu að í viðtali við Atla Þór hafi stefnandi lýst því að hún hefði haft veruleg óþægindi í rófubeini fyrst eftir slysið og varla getað gengið. Hún hefði einnig átt erfitt með að sitja á stól í skólanum og oft þurft að standa upp í tímum og ganga um. Þannig hefði þetta verið út skólaárið, að minnsta kosti 1987. Óþægindin hefðu síðan minnkað eitthvað, en verið áfram til staðar og versnað þegar frá leið og farið versnandi einkum á síðari árum. Þessu næst segir svo í örorkumatinu: „Kolbrún segir að óþægindin í rófubeini hafi verið til staðar öll hennar skólaár og truflað hana við langar setur. Hún hafi leitað til skólahjúkrunarkonu vegna þessa. Skýrslur skólahjúkrunarkonu fundust ekki þrátt fyrir leit. Í fyrstu meðgöngu hennar á árinu 1996 hafi hún haft aukin óþægindi niður í rófubein og einnig við rembing í fæðingu.“ Í framhaldi af þessu er í örorkumatinu getið um gögn sem matsmaður hafði undir höndum frá kvennadeild Landspítalans og Sólvangi í Hafnarfirði og sem aðallega varða upplýsingar sem skráðar voru í mæðraskrá stefnanda á þessum sjúkrastofnunum í tengslum við meðgöngu og fæðingu árin 1996 og 2000, en stefnandi eignaðist sitt annað barn í júlí 2000. Í niðurstöðukafla örorkumatsins, sem ber yfirskriftina „samantekt og álit“, segir svo: „Fyrir slysið 12.03.1987 var Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir einkennalaus frá stoðkerfi. Í slysinu gekk hún út úr strætisvagni yfir götu þegar bíll ók á hana. Hún hlaut áverka á vinstri olnboga, kvið og brjóstkassa og var á gæsludeild slysadeildar yfir eina nótt. Framantaldir áverkar löguðust allir og skyldu ekki eftir sig nein varanleg mein. Við eftirlit 3-4 vikum eftir slysið þegar gipsspelka var fjarlægð kom fram að Kolbrún hafði eymsli yfir rófubeini sem talið var vera hugsanlega vegna sprungu í beininu en það var ekki myndað. Síðan hefur Kolbrún haft óþægindi í rófubeini allt til dagsins í dag. Þau koma við langar setur, stöður, áreynslu, rembing, í lok meðgöngu og við fæðingu. Þau trufla hana við göngu, vinnu í sitjandi stellingu eða vinnu er krefst áreynslu. Við skoðun finnast eymsli yfir rófubeini sem aukast við áreynslu. Við mat á varanlegri örorku er talið líklegt að Kolbrún hafi getað hlotið áverka á rófubeini í framangreindu slysi, enda er þess getið í læknisvottorði sem ritað er tveimur og hálfum mánuði eftir slysið. Samfelld kvartanalýsing Kolbrúnar er trúverðug. Varanleg örorka er metin 5%.“

III.

Dómkröfu sína í málinu byggir stefnandi á því að stefndi hafi með stórkostlegu gáleysi orðið valdur að því að stefnandi hafi orðið af tryggingabótum frá réttargæslustefnda, Sjóvá Almennum tryggingum hf., vegna slyssins 12. mars 1987, samtals að fjárhæð 1.978.600 krónur. Hafi þar annars vegar verið um að ræða bætur fyrir varanlega örorku, sem á grundvelli örorkumats Atla Þórs Ólasonar læknis og tjónsútreiknings Jóns Erling Þorlákssonar tryggingafræðings hafi numið 1.878.600 krónum. Hins vegar hafi stefnandi orðið af miskabótum að fjárhæð 100.000 krónur. Stefnda hafi borið að gefa út stefnu á hendur tryggingafélaginu til þess að rjúfa fyrningu bótakröfunnar eða fá yfirlýsingu frá félaginu þess efnis að það myndi ekki bera fyrningu fyrir sig. Það hafi hann ekki gert og þar með gerst sekur um saknæm mistök í starfi sínu sem lögmaður. Fái þessi grundvöllur kröfugerðar stefnanda stoð í úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna, en að honum er vikið í kafla I hér að framan. Verði samkvæmt þessu ekki hjá því komist að gera stefnda ábyrgan fyrir tjóni stefnanda. Um lagarök fyrir skaðabótakröfu sinni vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar. Þá er vísað sérstaklega til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 61/1942 um málflytjendur, nú 2. mgr. 25. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því er varðar miskabótakröfu.

IV.

Í greinargerð stefnda er því haldið fram að nokkru áður en stefnandi veitti honum umboð til að fara með bótamál gagnvart réttargæslustefnda vegna slyssins 12. mars 1987 hefði stefnandi, sem þá var þunguð, lýst því að eymsli í rófubeini, sem hún hefði fundið fyrir í kjölfar slyssins, gætu tekið sig upp við fæðingu. Ekkert hefði verið minnst á rófubeinseymsl vegna meðgöngu. Stefndi hefði ritað réttargæslustefnda bréf 25. nóvember 1996 og á grundvelli þess hefði félagið sent honum gögn í málinu 5. desember sama árs. Hefði stefndi á þessu tímamarki litið svo á að hann væri búinn að ná samkomulagi við tryggingafélagið um að málinu yrði haldið opnu. Ýmislegt hefði síðan orðið til þess að tefja málið, en stefnandi hefði að endingu misst þolinmæðina og falið öðrum lögmanni að annast það.

Krafa stefnda um sýknu er í fyrsta lagi á því byggð að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku í umferðarslysinu 12. mars 1987. Hún hafi þar af leiðandi aldrei eignast lögvarða kröfu til bóta vegna slyssins. Því geti ekki verið um það að ræða að stefndi hafi bakað henni tjón með aðkomu sinni að málinu. Tiltekur stefndi í þessu sambandi að engin tengsl þurfi að vera á milli rófubeinseymsla sem stefnandi hafi sem barn fundið fyrir í kjölfar slyssins og rófubeinseymsla sem síðar hefðu komið til vegna meðgöngu og fæðingar. Þannig séu rófubeinseymsli og eymsli í spjaldhrygg algengir fylgikvillar meðgöngu og fæðingar. Slík einkenni geti einnig stafað af öðrum og ókunnum orsökum. Þá skipti miklu í þessu sambandi að engin gögn liggi fyrir í málinu sem staðfesti frásögn stefnanda um viðvarandi eymsli í rófubeini frá því skömmu eftir slysið og þar til bera fór á þeim í tengslum við meðgöngu og fæðingu í lok árs 1996. Sé því engin sönnun komin fram fyrir því að eymsli í rófubeini í kjölfar umrædds slyss hafi haft þau áhrif á stefnanda sem hún heldur fram.

Í öðru lagi reisir stefndi sýknukröfu sína á því að jafnvel þótt talið verið að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku í slysinu 12. mars 1987 hafi bótakrafa vegna þess verið fyrnd löngu áður en stefndi fékk málið til meðferðar. Vísar stefndi þessu til stuðnings til 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. áður ákvæði 78. gr. umferðarlaga nr. 40/1968. Samkvæmt 99. gr. núgildandi umferðarlaga fyrnist bótakrafa samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Tilvitnað ákvæði eldri umferðarlaga hafi verið sama efnis. Ljóst sé af gögnum málsins að heilsufarslegt ástand stefnanda eftir slysið hafi verið orðið stöðugt fyrir mitt ár 1988. Hugsanleg bótakrafa á hendur tryggingafélagi bifreiðarinnar sem ekið var á stefnanda í umrætt sinn hafi þar með verið fyrnd löngu áður en stefnandi fól stefnda í lok árs 1996 að semja við það um skaðabætur vegna slyssins, enda hafi stefnandi ekkert aðhafst áður til að slíta fyrningu.

Í þriðja lagi krefst stefndi sýknu á þeim grundvelli að hann hafi ekki sýnt af sér gáleysi við hagsmunagæslu í þágu stefnanda. Bótagrundvöllur sé því ekki fyrir hendi. Í málinu liggi það fyrir að stefnandi hafi sent réttargæslustefnda bréf 25. nóvember 1996 þar sem áskilnaður um bætur hafi verið hafður uppi. Tryggingafélagið hafi í kjölfarið sent stefnda umbeðin gögn án höfnunar bótaréttar. Hafi stefndi litið svo á að hann væri búinn að ná samkomulagi við félagið um að það myndi ekki bera fyrningu fyrir sig. Stefndi hafi því verið í góðri trú. Löngu seinna, eða 25. júní 1999, og þar með löngu eftir að 10 ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga var liðinn, hafi fyrst legið fyrir sú afstaða tryggingafélagsins að það teldi hugsanlega bótakröfu stefnanda vegna slyssins fyrnda.

V.

Undir rekstri málsins og á grundvelli matsbeiðni frá stefnda voru þeir Benedikt Ó. Sveinsson sérfræðingur í fæðingarhjálp og kvensjúkdómum og Stefán Carlsson bæklunarskurðlæknir dómkvaddir til að leggja á það mat „hvort og þá hve miklar líkur [væru] á því að Kolbrún Hrund hafi hlotið varanlega örorku af völdum áverka á rófubein í umferðarslysinu 12. mars 1987“. Þá var þeim jafnframt falið að láta í té skriflegt og rökstutt álit á því „hvort rófubeinseymsli séu þekktur fylgikvilli meðgöngu og fæðingar og hvort rófubeinseymsli Kolbrúnar geti að einhverju eða öllu leyti stafað af slíkum kvilla án þess að áverki á rófubein komi til“. Matsgerð lá fyrir 4. nóvember 2002. Í þeim kafla hennar sem ber yfirskriftina „niðurstaða og álit“ segir svo: „Í samantekt málsins kemur fram að Kolbrún hefur um árabil haft óþægindi frá rófubeini og grindarbotni, sem hún rekur allt aftur til ársins 1987 er hún lenti í bílslysi. Hún hefur jafnframt átt við erfiða hægðatregðu að stríða allt frá barnæsku og þarf stundum að nota lyf til að losna við hægðir, en slíkt getur gefið óþægindi frá rófubeini og grindarbotni. [...] Einkenni frá rófubeininu hafa verið verst þegar hún er ófrísk og kringum fæðingar, en hjaðnað þess á milli. Þannig virðast einkennin og óþægindin frá slysinu fram að fyrstu meðgöngu og fæðingu eða í um 9 ár ekki hafa verið það slæm að ástæða hafi þótt að leita lækninga þeirra vegna. Þessara óþæginda er heldur hvergi getið í mæðraskrá frá 1996, en slíkt er viðtekin venja ef vandmálið er talið á einhvern hátt lýjandi í meðgöngu. Í ljósi framangreindra staðreynda eru svör og niðurstöður okkar undirritaðra dómkvaddra matsmanna eftirfarandi: 1) Það er sennilegt að Kolbrún hafi hlotið einhvern áverka á rófubein í bílslysinu 1987. Slíkt verður þó ekki fullyrt, þar sem saga um langvarandi hægðatregðu frá barnæsku getur að einhverju leyti skýrt einkennin. Hún var og einkennalítil árin eftir slysið, en einkennin jukust til muna við meðgöngu og fæðingu 1996 og 2000. En óþægindi frá rófubeini, grind og grindarbotni er þekktur fylgikvilli meðgöngu og fæðingar. Í ljósi þess að aðrir samverkandi þættir koma inn í myndina er ekki hægt að fullyrða, að Kolbrún hafi hlotið varanlega örorku í bílslysinu 1987. 2) Rófubeins, en þó einkum grindar verkir (grindargliðnun) eru algengir fylgikvillar á meðgöngu og í og eftir fæðingu, án þess að vitað sé um nokkurn áverka í sögu.“

Í kjölfar þess að framangreint mat lá fyrir lagði stefnandi fram yfirmatsbeiðni. Í þinghaldi 14. janúar 2003 voru þau Hulda Hjartardóttir sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp og Ríkarður Sigfússon og Björn Zoëga bæklunarskurðlæknar dómkvödd til að framkvæma hið umbeðna mat, sem aðallega laut að því að metið yrði yfirmati hvort og þá hve miklar líkur væru á því að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku af völdum áverka á rófubein í slysinu 12. mars 1987. Þá skyldi að auki lagt mat á það hvort varanleg örorka samkvæmt fyrirliggjandi áliti Atla Þórs Ólasonar læknis væri réttilega metin og hvort tímabært hafi verið að meta varanlega örorku stefnanda þegar Atli Þór gerði það. Matgerð yfirmatsmanna var lögð fram í þinghaldi 7. apríl 2003. Í henni kemur fram að við athugun á gögnum slysadeildar Borgarspítalans hafi komið í ljós að stefnandi hafi komið þangað til eftirlits 24. mars 1987. Hún hafi þá verið aum í rassi og rófubeini. Niðurstaða skoðunar hafi verið „kliniskt rófubeinsbrot“. Þá segir í matsgerðinni að við endurkomu á slysadeildina 3. apríl 1987 hafi stefnandi verið „alveg einkennalaus og ekki nein einkenni frá rófubeini“. Í niðurstöðuköflum matsgerðarinnar segir svo meðal annars „Yfirmatsmenn telja engan vafa á að við slysið 12 mars 1987 hlaut matsbeiðandi áverka á rófubein. Í komunótu á endurkomu Slysadeildar 24. mars 1987 er Kolbrún sögð hafa kliniskt rófubeinsbrot. Saga hennar er samfelld og trúverðug næstu árin. Hún fær álagseinkenni og óþægindi frá rófubeini við langar setur og er viðkvæm við þrýsting á rófubein samanber erfiðleika hennar að sitja hest. Einkennin há henni þó ekki daglega, en hafa áhrif á lífsgæði hennar. Þessi einkenni hafa ekki haft áhrif á skólagöngu og ekki hindrað hennar aflahæfi, en hún hefur verið dugleg við vinnu og oft verið í meira en 100% starfi. Einkennin hafa síðan á trúverðugan hátt aukist allmikið þegar á meðgöngu líður. Í fyrstu tveimur meðgöngunum hafði hún einnig grindargliðnunar einkenni, sem hún hefur sloppið við að þessu sinni. Meðgangan er aukið álag á grindarbotninn og þar með rófubeinið og því eðlilegt að einkennin aukist. Sjálf fæðingin er síðan verulegt álag á grindarbotn og rófubein. Rófubeinsverkir í kjölfar fæðingar eru ekki óalgengir en verkir frá rófubeini sjaldgæfir á meðgöngu hjá þeim sem ekki hafa átt barn áður og ekki fengið áverka fyrir meðgönguna þó að slíkt sé ekki óþekkt. Saga um hægðatregðu matsbeiðanda fyrir slys 12. mars 1987 er ekki staðfest og neitar Kolbrún því. Þá er yfirmatsmönnum ekki kunnugt að hægðatregða geti valdið rófubeinsverkjum „Coccycodynia“. Það er einnig hugsanleg skýring á því hvers vegna ekki er leitað til lækna að móðir matsbeiðanda er sjúkraliði og að hún við starf sitt hafi fengið þau ráð að við rófubeinsóþægindum væri ekkert að gera. Móðirin sýndi þó frumkvæði á yngri árum Kolbrúnar með því að fá fyrir hana sethring, sem er gamalreynt læknisráð við rófubeinsverkjum. [...] Það er samdóma álit matsmanna að við slysið hlaut Kolbrún Hrund áverka á rófubein. Við teljum yfirgnæfandi líkur á að slysið hafi valdið áverka sem orsaki viðkvæmni og verkjum við álag á rófubein og þar með varanlegri örorku.“ Þá veita yfirmatsmenn svohljóðandi svar við þeirri spurningu hvort mat Atla Þórs Ólasonar læknis hafi verið tímabært þegar það fór fram: „Já. Eðlilegt er að telja að um stöðugt ástand hafi verið að ræða hjá matsþola, nokkrum mánuðum eftir áverkann. Hins vegar var ekki hægt að vita hvernig aukið álag á meðgöngu hefði áhrif fyrr en síðar á ævinni.“

Að beiðni stefnda fól dómurinn undirmatsmönnum að leggja mat á það hvenær fyrst hafi verið tímabært að meta varanlega örorku stefnanda eftir bílslysið 12. mars 1987, að því gefnu að um hafi verið að ræða varanlega örorku vegna rófbeinsáverka af völdum slyssins. Í matsgerð þeirra 28. maí 2003 segir svo: „Við stöndum enn við fyrra álit okkar í þessu máli, að það sé ósannað að Kolbrún Hrund hafi hlotið varanlega örorku í bílslysi 1987. [...] Hafi hún verið svo slæm árin eftir slysið eins og hún heldur fram, bar að okkar mati forráðamönnum hennar skylda til að færa hana til læknis til frekari rannsókna og mats á áverkanum og afleiðingum hans. Hefði slíkt verið gert má ætla að ástandið hafi orðið stöðugt 2-3 árum eftir slys og þá tímabært að meta örorkuna.“ Yfirmatsmenn tóku þetta sama matsatriði til yfirmats að beiðni stefnanda og á grundvelli dómkvaðningar 1. júlí 2003. Í matsgerð þeirra, sem lögð var fram í þinghaldi 22. september sama árs, segir svo: „Í málinu liggur fyrir ítarleg matsgjörð okkar [...] Þar er í raun svarað þeirri spurningu sem fyrir okkur er lögð. Við teljum að við umferðarslysið 12. mars 1987 hafi matsbeiðandi hlotið áverka á rófubein. Næstu árin á eftir hefur hún óþægindi sem ekki virðast há henni mikið. Það er fyrst á meðgöngu 1996 að einkenni fara að aukast verulega vegna viðkvæmni á grindarbotnssvæði og aukins álags. Það var engin leið fyrir matsþola að vita hver afleiðing áverkans kynna að verða fyrr en við meðgöngu. [...] Svar: Við skoðun matsbeiðanda hjá heimilislækni 03.11.1997 rúmu ári eftir fæðingu barns var ástand orðið stabilt og einkenni gengin niður. Afleiðingar aukins álags vegna meðgöngu voru liðnar hjá. Það var fyrst þá sem allar afleiðingar áverkans voru að fullu ljósar.“

Undir- og yfirmatsmenn komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfestu þær matsgerðir sínar sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

VI.

Svo sem fram er komið var stefnandi flutt á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík í kjölfar þess að bifreið var ekið á hana á Hamrabergi í Hafnarfirði 12. mars 1987. Hún var þá 9 ára gömul. Samkvæmt vottorði læknis á slysadeildinni 1. júní 1987 var niðurstaða skoðunar og rannsókna sem stefnandi undirgekkst þar „cliniskt vaxtarlínulos rétt neðan við [vinstri] olnboga og blæðing í [vinstri] olnbogalið“. Í vottorðinu kemur einnig fram að við gipstöku þremur til fjórum vikum síðar hafi stefnandi verið með „eymsli yfir rófubeini“. Var talið hugsanlegt að um sprungu í rófubeini hafi verið að ræða, en ekki var tekin röntgenmynd af því. Í niðurlagi vottorðsins er síðan haft eftir stefnanda að hún hafi fljótlega lagast í rófubeininu. Er hér væntanlega verið að vísa til gagna um komu stefnanda á slysadeildina 3. apríl 1987, sem áður er gerð grein fyrir. Af hálfu stefnanda er aftur á móti á því byggt í máli þessu að óþægindi í rófubeini hafi minnkað eitthvað nokkrum mánuðum eftir slysið, en verið áfram til staðar og versnað þegar frá leið og farið versnandi á síðari árum.

Stefnandi ól barn á kvennadeild Landspítalans 27. október 1996. Í bréfi sem Reynir Tómas Geirsson forstöðulæknir á deildinni ritaði 29. maí 2000 í tilefni af bréfi sem þáverandi lögmaður stefnanda ritaði honum, kemur meðal annars fram, að í gögnum spítalans um þessa meðgöngu stefnanda væri ekkert að finna sem benti til þess að hún hafi borið fram kvartanir sem rekja mætti til bílslyss árið 1987. Þar kemur þó fram að við mæðraskoðun 25. júlí 1996 hafi stefnandi verið slæm í baki og rófubeini. Í gögnum frá Sólvangi í Hafnarfirði er síðan haft eftir stefnanda við læknisskoðun 21. febrúar 1997 að hún hafi aldrei orðið jafngóð í rófubeininu eftir slysið. Þannig hafi hún ekki þolað langar setur, svo sem í bíó og skóla. Við meðgönguna hafi farið að bera á lágstæðum mjóbaks- og spjaldverkjum og undir lok hennar hafi hún átt bágt með setur vegna samblands af spjaldverkjum og rófubeinsverkjum. Eftir fæðinguna hafi hún verið slæm í rófubeininu og enn verið viðkvæm við setur þegar skoðunin fór fram. Við komu á Sólvang 2. júlí 1997 var síðan eftirfarandi bókað í sjúkraskrá stefnanda: „Breytist lítið með rófubeinið, er þó þannig skárri að þetta bagar ekki mikið dags daglega þegar hún er í sinni rútínu við heimilisstörf eða í starfi sínu í Snælandsvídeo. Er fyrst og fremst böguð ef situr meira en venjulega, [svo sem] í bíl, bíó eða slíku.“ Framangreind staðhæfing stefnanda um viðvarandi óþægindi í rófubeini í kjölfar umferðarslyssins 12. mars 1987 fær ekki aðra stoð í gögnum málsins eða vætti vitna, að öðru leyti en því að yfirmatsmenn hafa metið frásögn hennar trúverðuga.

Í matsgerð læknanna Benedikts Ó. Sveinssonar og Stefáns Carlssonar 4. nóvember 2002 er talið sennilegt að stefnandi hafi hlotið einhvern áverka á rófubein í slysinu 1987. Það verði þó ekki fullyrt. Er annars vegar vísað til þess að óþægindi frá rófubeini megi að einhverju leyti skýra með langvarandi hægðatregðu frá barnæsku. Hins vegar sé til þess að líta að óþægindin hafi aukist til muna við meðgöngu og fæðingu 1996 og 2000, en óþægindi frá rófubeini, grind og grindarbotni sé þekktur fylgikvilli meðgöngu og fæðingar. Í ljósi þessa og þar sem aðrir samverkandi þættir kæmu inn í myndina væri ekki hægt að fullyrða að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku í slysinu. Í ódagsettri matsgerð yfirmatsmanna, læknanna Björns Zoëga, Huldu Hjartardóttur og Ríkarðs Sigfússonar, er hins vegar út frá því gengið að stefnandi hafi hlotið áverka á rófubein í umræddu slysi. Í kjölfar slyssins hafi borið á álagseinkennum og óþægindum frá rófubeini við langar setur. Þessi einkenni hafi ekki háð stefnanda daglega, en haft áhrif á lífsgæði hennar. Einkennin hafi síðan á trúverðugan hátt aukist allmikið þegar á meðgöngu leið. Meðganga þýði aukið álag á grindarbotninn og þar með rófubeinið. Fæðing hafi síðan í för með sér verulegt álag á grindarbotn og rófubein. Rófubeinsverkir í kjölfar fæðingar séu ekki óalgengir, en verkir frá rófubeini sjaldgæfir á meðgöngu hjá þeim sem ekki hafa átt barn áður og ekki fengið áverka fyrir meðgönguna. Slíkt sé þó ekki óþekkt. Þá er hafnað því áliti undirmatsmanna að hægðatregða geti valdið rófubeinsverkjum. Var það að þessu virtu niðurstaða yfirmatsmanna að yfirgnæfandi líkur væru á því að í umferðarslysinu 1987 hafi stefnandi hlotið áverka sem orsaki viðkvæmni og verki við álag á rófubein og þar með varanlega örorku.

Af matsgerð yfirmatsmanna og vitnisburði þeirra fyrir dómi verður skýrlega ráðið að sú niðurstaða þeirra, að stefnandi hafi hlotið áverka á rófubein í umferðarslysinu 12. mars 1987 og varanlega örorku vegna hans, sé að miklu leyti á því byggð að frásögn stefnanda um viðvarandi óþægindi í rófubeini frá því stuttu eftir slysið og fram til ársins 1996, þá er hún gekk með sitt fyrsta barn, hafi verið trúverðug. Á móti kemur hins vegar að í vottorði læknis 1. júní 1987, sem vísað er til hér að framan, er haft eftir stefnanda að hún hafi fljótlega lagast í rófubeininu. Mun hér vera vísað til komu stefnanda á slysadeild Borgarspítalans 3. apríl 1987. Þá verður í öllu falli við það að miða að stefnandi hafi ekki leitað til læknis vegna óþæginda í rófubeini á því tímabili sem hér um ræðir, eða um rúmlega 9 ára skeið, og framangreind frásögn hennar er ekki á annan hátt studd gögnum frá þessum tíma eða vætti vitna. Þá er til þess að líta að ekki er óalgengt að konur finni á meðgöngu fyrir óþægindum í rófubeini, grind og grindarbotni án undanfarandi áverka þar. Við þetta bætist síðan að svo sem fram kemur í fyrirliggjandi matsgerðum eru óþægindi frá rófubeini þekktur fylgikvilli fæðingar.

Að öllu framangreindu virtu hafa ekki verið færðar fyrir því sönnur að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku í umferðarslysinu 12. mars 1987, en sönnunarbyrði þar um hvílir á henni. Dómkrafa stefnanda í málinu er alfarið á því reist að vegna vanrækslu stefnda hafi hún orðið af bótum frá tryggingafélagi bifreiðarinnar sem ekið var á hana. Með því að lögvarin krafa stefnanda á hendur tryggingafélaginu telst samkvæmt framansögðu ekki hafa stofnast er ekkert tjón fyrir hendi sem til álita kæmi að gera stefnda bótaskyldan fyrir. Verður stefndi þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfum stefnanda. Það er hins vegar mat dómsins að sú málsástæða stefnda, sem grundvölluð hefur verið á tilvísun til 78. gr. umferðarlaga nr. 40/1968 og 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, leiði til sömu niðurstöðu. Er þá til þess að líta að miðað við málatilbúnað stefnanda verður ekki ályktað á annan veg en þann að ástand hennar hafi verið orðið stöðugt og tímabært að meta örorku hennar eigi síðar en 2-3 þremur árum eftir slysið, svo sem undirmatsmenn telja, en ósamræmis telst gæta um þetta atriði í matsgerðum yfirmatsmanna. Samkvæmt þessu byrjaði fjögurra ára fyrningartími samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum umferðarlaga að líða eigi síðar en í lok árs 1990. Hafði ekkert verið aðhafst til að slíta fyrningu bótakröfu þegar stefnandi leitaði til stefnda í nóvember 1996. Hugsanleg bótakrafa var því löngu fyrnd þegar þar var komið sögu.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá sem tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Eftir atvikum málsins og málalokum er rétt að stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar af matsgerðum, sem stefnda var nauðsyn að afla.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 550.000 krónur.

Mál þetta dæma Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Konráð Lúðvíksson sérfræðingur í fæðingarhjálp og kvensjúkdómum og Ragnar Jónsson bæklunarskurðlæknir.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Þórður Heimir Sveinsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Kolbúnar Hrundar Sigurgeirsdóttur.

Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 550.000 krónur.