Hæstiréttur íslands

Mál nr. 571/2011


Lykilorð

  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur
  • Akstur án ökuréttar
  • Ökuréttarsvipting


Fimmtudaginn 16. febrúar 2012.

Nr. 571/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Sigvalda Eiríki Hólmgrímssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Umferðarlagabrot. Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Ökuréttarsvipting.

S var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið ölvaður og sviptur ökurétti á grindverk og síðan yfirgefið vettvang án þess að nema staðar og gera viðvart um slysið. Með hliðsjón af sakaferli var honum gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði auk þess sem áréttuð var ævilöng ökuréttarsvipting hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. október 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og ökuréttarsviptingu ákærða verði staðfest, en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara refsimildunar og að „sviptingartími ökuréttar verði styttur.“

Eins og fram kemur í héraðsdómi barst lögreglu um klukkan tvö aðfararnótt fimmtudagsins 20. janúar 2011 tilkynning um að bifreið hefði verið ekið á girðingu við Blómsturvelli 1 í Grindavík og síðan á brott. Lögreglumenn komu á vettvang skömmu síðar og röktu þeir slóð bifreiðarinnar að bílskúr við heimili ákærða að Selsvöllum 5 þar í bæ, en það var unnt þar sem þá var nýfallinn snjór á jörðu og lítil sem engin umferð. Greinileg ummerki eftir ákeyrslu voru á bifreið ákærða þar sem hún stóð inni í bílskúrnum og þá var hún blaut ákomu en það er í samræmi við skýrslu lögreglu um að „úti hafi verið slydda og rigning.“ Ákærði var handtekinn ellefu mínútum eftir að fyrrnefnd tilkynning barst lögreglu á gangi í átt frá heimili sínu og var hann mjög ölvaður. Að þessu virtu og öðrum gögnum málsins, sem rakin eru í héraðsdómi, verður ekki vefengt sönnunarmat héraðsdómara á framburði ákærða og vitna, en rétt er að taka fram að síðbúinn framburður [A] er að engu hafandi.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 244.759 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 225.900 krónur.

                                                        

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 13. september sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 28. mars 2011 á hendur Sigvalda Eiríki Hólmgrímssyni [...], Selsvöllum 50, Grindavík fyrir ,,umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 20. janúar 2011, ekið bifreiðinni TL527, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,60 ‰), með þeim hætti að bifreiðin skall á grindverki við Blómsturvelli 1, Grindavík. Í kjölfar árekstursins ók ákærði af vettvangi án þess að nema staðar og gera viðvart um umferðaróhappið.

Telst háttsemi þessi varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 4. gr.  laga nr. 57/1997 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun verjanda, en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

I.

Málavextir

Þann 20. janúar um kl. 02 barst lögreglu tilkynning um að ekið hafi verið á grindverk við Blómsturvelli 1 í Grindavík og að ekið hafi verið af vettvangi. Fylgdi tilkynningunni að um hvíta Subaru Impreza bifreið hafi verið að ræða. Nýfallinn snjór var á götum þegar atvikið átti sér stað og sáu lögreglumenn að hjólförin enduðu við Selsvelli 5. Í ljós kom að Sigvaldi Eiríkur, ákærði í máli þessu, sem býr að Selsvöllum 5, var skráður eigandi bifreiðarinnar TL-527 sem er hvít Subaru Impreza bifreið. Er farið var að svipast um eftir bifreiðinni sáu lögreglumenn mann fótgangandi skammt frá og reyndist þar vera kominn ákærði í máli þessu og virtist hann vera undir áhrifum áfengis.

Kvaðst ákærði aðspurður fyrir dóminum hafa um kl. hálf ellefu um kvöldið þann 19. janúar farið gangandi til kunningja síns [B] með landabrúsa meðferðis og sest þar að drykkju með honum. Það hafi svo verið um klukkan tvö um nóttina sem hann lagði af stað heim með brúsann innan á sér. Er hann hafi rétt verið kominn af stað hafi hann séð lögreglu á ferð sem varð til þess að hann sneri við með brúsann til þess að lenda ekki í vandræðum. Sagðist ákærði hafa vitað að umræddur bíll hafi verið fyrir utan húsið heima hjá honum þegar hann lagð af stað til [B] kunningja síns um kvöldið. Segir ákærði að [A] hafi sagt honum þremur dögum eftir atvikið að hann hafi ekið bílnum á girðinguna um nóttina.Sagðist ákærði halda að hann hafi látið lögreglu vita um það í maí hver hafi ekið bílum á girðinguna. Hjá lögreglu bar ákærði þann 20. janúar 2011 að hann hafi gengið heim til [B] að [...] um kl. 00.30 eða 00:00 og setið þar við drykkju í um tvo tíma og hafa verið á heimleið þegar hann var handtekinn. Hann neitaði því að hafa ekið bifreiðinni TL-527 umrædda nótt. þann 20. janúar. Sagðist ákærði hafa hringt í [C] til að skipta við hann á bifreiðum og þá hafi [A] verið með honum til þess að aka bifreiðinni. Aðspurður um bifreiðina TL-527 um nóttina 2011 sagðist ákærði hafa lánað vinnufélögum sínum hana til þess að fara á henni til Reykjavíkur.

Vitnið [D], lögreglumaður, staðfesti að þegar hún kom á vettvang þá hafi verið snjór á götum sem gerði það að verkum að hægt var að fylgja hjólförum að Selsvöllum 5 þar sem bifreiðin var inni í bílskúr með ummerkjum um að hafi verið ekið skömmu áður. Sagði kona sem kom þar til dyra að ekki gæti verið að neinn hafi verið að aka bílnum skömmu áður nema heimilismenn. Sagði vitnið að sést hafi til manns á gangi sem greinilega hafi verið ölvaður og að hann hafi aðspurður sagt að hann væri á leið til vinar síns en minnist þess ekki að hann hafi getið um erindi. Sagði vitnið að þessi maður hafi þá verið staddur á gatnamótum Gerðavalla og Iðavalla sem hún taldi að væri um það bil 200 metrum frá þeim stað sem ekið var á girðinguna á horni Blómsturvalla og Gerðavalla. Sagði vitnið að þeir sem komu á vattvang hafi rætt við ákærða einhverjum mínútum eftir að tilkynning um atburðinn barst lögreglu.

Vitnið [E], lögreglumaður, kvaðst hafa verið kvaddur til ásamt vitninu [D] vegna ákeyrslu á girðingu umrædda nótt og lýsti því að þau hefðu rakið hjólför viðkomandi bíls til heimilis ákærða. Þau höfðu orðið vör við ákærða rétt hjá á gangi á Gerðavöllum skömmu síðar en hann var í framhaldinu fluttur til Keflavíkur. Eftir það var farið heim til ákærða og rætt við konu hans sem leyfði þeim að fara inn í bílskúr þar sem bíllinn var og við samanburð á braki sem fannst á vettvangi og skemmdir sem sjá mátti á bílnum var ljóst að það sem fannst var af þeim bíl. Höfðu þau tal af konu ákærða sem tjáði sig lítið um atburði enda sagðist hún hafa vera nývöknuð.

Vitnið [F] kvaðst hafa um tvöleitið umrædda nótt verið að aka um Sólvelli í Grindavik inná Gerðavelli þegar hann sá að ökumaður hvítrar Subaru Impresa bifreiðar missti stjórn á henni og ók á girðingu og bakkaði frá og ók burtu þegar í stað og í átt til þeirra félaga og framhjá þeim á miklum hraða. Sagðist vitnið hafa séð ökumanninn undir stýri og eftir að hafa farið á fésbók hafi hann þekkt ákærða sem ökumann bifreiðarinnar af mynd. Kvaðst hann strax hafa þekkt ákærða á mynd og segist ekki í neinum vafa.

Vitnið [G] sem var ökumaður bifreiðarinnar sem þeir voru á, hann og félagi hans [F], og lýsti hann atvikum með sama hætti og vitnið [F] en sagði að hann treysti sér ekki til að þekkja ökumanninn aftur nú ef hann sæi hann.

Vitnið [A] sagðist vera búinn að þekkja ákærða í mörg ár og [...]. Kveðst vitnið hafa verið ökumaður bifreiðarinnar TL-527 aðfaranótt 20. janúar 2011 þegar henni var ekið á grindverk. Þegar vitnið var innt eftir því hvers vegna það hafi neitað því að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn þegar hann var spurður um það af lögreglu morguninn eftir atburðinn svaraði hann því til að hann hafi verið nývaknaður og mjög brugðið. Sagðist vitnið hafa farið heim til ákærða og stolið bílnum uppúr eitt eða tvö um nóttina til þess að fara á henni til Keflavíkur til þess að ná sér í eitthvað að borða af því að hann var svangur. Sagðist vitnið fyrst hafa verið á öðrum bíl sem hann hafði að láni en sá bíll hafi verið að verða bensínlaus. Sagði vitnið að hann hafi ekki treyst sér til að fara á þeim bensínlitla og því ákveðið að stela útgerðarbílnum hans Sigvalda sem hann hafi tekið fyrir utan bílskúrinn hjá ákærða en sett hann síðan inn í bílskúr þegar hann skilaði honum. Sagði vitnið að hann hafi, þegar hann frétti um morguninn að ákærði hefði verið settur inn, ákveðið segja lögreglunni ósatt og ekki kannast við að hafa ekið á grindverkið um nóttina og í raun hafi allur framburður hans hjá lögreglu verið ósannur. Sagði vitnið að hann hafi ekki tekið eftir neinum bíl eða umferð í námunda við staðinn þar sem óhappið varð. Aðspurður um það hvers vegna hann hafi ekki leyst bensínvandann með því að fara í bensínsjálfsala svaraði hann því til að hann hafi ekki verið með kortið sitt og að ekki sé hægt að nota peningaseðla eftir níu á kvöldin í Grindavík til bensínkaupa. Framburður [A]  hjá lögreglu sem hann segir nú að hafi verið uppspuni var á þá leið að [C] hafi ekið honum til Keflavíkur á bifreiðinni TL-527 þann 19. janúar 2011 um kl 18.00 þar sem hann var að fá lánaða bifreiðina [...] hjá vinafólki sínu. Sagðist hann hafa verið í kaffi hjá vinafólki sínu í einn og hálfan klukkutíma og að því búnu farið um borð í [...] þegar hann kom aftur til Grindavíkur og eftir það hafi hann farið heim að horfa á sjónvarpið og ekki farið neitt að heiman eftir það.

Vitnið [C] kannast ekki við að hafa ekið [A] til Keflavíkur á bifreiðinni TL-527 þann 19. janúar 2011 um kl. 18:00 eins og [A] hélt fram hjá lögreglu. Hjá lögreglu sagði [C] að ákærði hafi hringt til hans til þess að skipta á bifreiðum og taka bifreiðina TL-527. Kvaðst hann halda að [A] hafi verið að aka ákærða þegar hann kom að skipta á bílum um kl. 17.00 þann 19. janúar 2011.

Vitnið [B] kvaðst hafa þekkt ákærða um árabil. Sagði vitnið að ákærði hafi komið heim til hans að kveldi 9. janúar 2011 um klukkan ellefu og hafi þeir setið þar að sumbli og að þeir hafi auk annars drukkið landa sem ákærði átti. Ekki kvaðst vitnið orðið þess var að ákærði hafi verið á bíl en telur að hann hafi farið frá sér milli hálf tvö og tvö um nóttina.

II.

Ekki þykja framburðir þeirra vitna sem tengjast ákærða og raktir hafa verið vera í samræmi við frásögn þeirra og ákærða hjá lögreglu auk þess sem svör verða að teljast nokkuð loðin. Vitnið [B] segir hjá lögreglu að ákærði hafi komið í heimsókn til hans annað hvort þann 18. eða 19. janúar en í dóminum að það hafi verið þann 19. sem hentar betur málstað ákærða og bætir því við að hann hafi er hann fór að sofa heyrt ákærða á tali við einhverja fyrir utan húsið um 2 leitið um nóttina þann 20. og gerði ráð fyrir því að hann hafi verið að ræða við löggæslumenn sem vissulega þjónar vel málstað ákærða en á þetta minntist hann ekki í samtali við lögreglu daginn eftir umrætt atvik. Þykir þessi frásögn [B] ekki nægilega trúverðug og afdráttarlaus til þess að álykta að ákærði hafi verið heima hjá vitninu þegar umrætt atvik átti sér stað. Ákærði sagði hjá lögreglu að hann hafi farið til [B] kl. tólf eða hálf eitt og sest að sumbli en fyrir dóminum að hann hafi fari til hans kl. hálf ellefu.Vitnið [C] sagðist hjá lögreglu halda að [A] hafi verið að aka ákærða þegar hann kom að skipta á bifreiðum um kl. 17.00 þann 19 janúar þó hann hafi ekki séð það en [A] sagði hjá lögreglu að [C] hefði ekið honum til Keflavíkur um kl. 18.00 sama dag.

Vitnið [A] hefur borið fyrir dóminum að frásögn hans hjá lögreglu hafi veri hreinn uppspuni frá upphafi til enda og sagði að hann hafi sjálfur ekið bifreiðinni TL-527 á grindverkið í umrætt sinn eins og lýst er í ákæru. Ekki þykja skýringar hans á breyttri frásögn vera trúverðugar og stuðning fá þær engan í vitnaframburðum að ekki sé talað um þá skýringu á uppspunanum að hann hafi verið nývaknaður hefur þegar lögregla tók af honum skýrslu. Þykir frásögn hans seint fram komin og það eitt að segja ákærða ekki frá fyrr þremur dögum eftir atvikið að hann hafi, eftir að hafa stolið bílnum, ekið honum á girðinguna umrædda nótt þykir með miklum ólíkindablæ og síst til þess fallin að trúnaður verði lagður á frásögnina. Við mat á þessu verður ekki litið fram hjá því að lögreglumenn hafa staðfest þá frásögn að kona ákærða hafi farið með þeim út í bílskúr á heimili ákærða þar sem bifreiðin var þá nýkomin inn og hafði augljóslega orðið fyrir tjóni. Þá verður ekki hjá því komist að benda á að sú skýring að hungur hafi rekið vitnið [A] til þess að stela bílnum til þess eins að ná sér í samloku eða eitthvað í svanginn um þrjátíu kílómetra leið sem er vegalengdin fram og til baka til Keflavíkur frá Grindavík en til þess að frásögnin fengi staðist fylgdi frásögn um að lítið bensín hafi verið á annarri bifreið sem [A] hafði umráð yfir og bensín gat hann ekki fengið í sjálfsala af því að hann var ekki með kortið sitt. Telur dómari að vitninu [A] hafi ekki tekist að færa fram nein haldbær rök fyrir breyttum framburði fyrir dóminum frá því sem hann áður hafði borið hjá lögreglu. Þá skal þess getið að ákærði bar hjá lögreglu að hann hafi lánað vinnufélögum sínum bifreiðin TL-527 umrædda nótt til þess að fara á henni til Reykjavíkur.

Verður því framburður [A] hjá lögreglu lagður til grundvallar við sönnunarmat í málinu. Við sönnunarmatið er einnig horft til þess að kona ákærða, sem kaus að nýta sér rétt sinn til þess að gefa ekki skýrslu fyrir dóminum, sagði aðspurð af lögreglu, hvort einhver gæti hafa fengið bifreiðina og skilað henni aftur inn í bílskúr, að svo gæti ekki verið.

Upplýst er og óumdeilt að lögreglumenn sáu ákærða fótgangandi skammt frá þeim stað sem ekið hafði verið á girðinguna, stuttu eftir að þeir komu á vettvang, og virtist hann vera undir áhrifum áfengis. Þá þykir einnig upplýst að í hlut átti bifreið ákærða TL-527. Vitnin [G] og [F] sem ekki tengjast ákærða og urðu fyrir tilviljun vitni að atvikum hafa borið að bíl ákærða hafi verið ekið á átt til þeirra og að þeir hafi báðir séð að ökumaður var einn í bílnum og [F] hefur fullyrt fyrir dóminum eftir að hann hafði skoðað mynd af ákærða á fésbók og síðan séð ákærða í dóminum að ákærði hafi verið sá sem hann sá aka bifreiðinni brott af vettvangi í umrætt sinn en áður hafi hann ekki þekkt nein deili á ákærða.

Um ölvunarástand ákærða er ekki deilt og verður því mat Rannsóknarstofu háskólans í lyfja- og eiturefnafræðum sem byggt er á í ákæru lagt til grundvallar eða 2,6 o/oo.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það mat dómara að ákæruvaldinu hafi tekist lögfull sönnun þess að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir og réttilega er færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði sem er fæddur 13. apríl 1973 á að baki nokkurn sakaferil en þau refsiviðurlög sem hér skipta máli er einkum dómur frá 13. september 2006 en þá er ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir ölvunarakstur ítrekaðan öðru sinni og sviptingarakstur og 100.000 króna sektargreiðsla sem hann gekkst undir þann 3. maí 2007 með dómsátt fyrir ítrekaðan sviptingarakstur. Þykir refsing hans nú samkvæmt dómvenju hæfilega ákveðin 3 mánaða fangelsi. Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting áskærða.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað. Þóknun verjanda þykir hæfilega ákveðin 150.600 krónur að meðtöldum virðisauka­skatti. Þá ber ákærða að greiða 82.360 krónur samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti sækjanda. Heildarsakarkostnaður sem ákærða ber að greiða nemur því 232.960 krónum.

Vilhjálmur Reyr Vilhjálmsson fulltrúi lögreglustjóra á Suðurnesjum sótti málið.

Dóm þennan kveður upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Sigvaldi Eiríkur Hólmgrímsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

Ákærði greiði 232.960 krónur í sakarkostnað þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigmundar Hannessonar hrl. 150.600 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.