Hæstiréttur íslands
Mál nr. 31/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 14. janúar 2015 |
|
Nr. 31/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til þess að eins og málið lægi fyrir yrði ekki talið að fullnægt væri skilyrði 2. mgr. 95. gr. laganna um að brotið gæti að lögum varðað 10 ára fangelsi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem móttekin var í héraðsdómi 12. janúar 2015 og barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. febrúar 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að hann verði vistaður á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Í báðum tilvikum er þess krafist „að gæsluvarðhaldi eða vistun“ verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er það skilyrði gæsluvarðhalds að afbrot geti að lögum varðað 10 ára fangelsi. Eins og málið liggur fyrir verður ekki talið að fullnægt sé framangreindu lagaskilyrði. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. febrúar 2015 kl 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að síðastliðinn þriðjudag hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] vegna tilkynningar um að verið væri að ganga í skrokk á konu í íbúð á þriðju hæð. Tilkynnandi hafi verið íbúi í íbúð fyrir neðan. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi X tekið á móti lögreglunni og verið blóðugur á höndum og í andliti og greinilega í annarlegu ástandi. Hann hafi strax verið færður í handjárn og á meðan hafi hann talað um að hann væri Gabríel erkiengill og hefði verið að lemja djöfla úr konunni. Brotaþoli hafi staðið fyrir innan dyrnar og verið mjög bólgin í andliti og blóðug, bæði í andlitinu og á fatnaði. Hún hafi strax sagt að X hefði lamið sig og hafi hún í kjölfarið verið flutt á slysadeild. Hafi brotaþoli sagt að kærði hefði ítrekað haft í líflátshótunum við hana, fyrrum unnusta hennar og börnin hennar.
Brotaþoli hafi lýst því að henni og kærða hafi sinnast á heimili hennar að [...] og hann í kjölfarið ráðist á hana og slegið hana ítrekað í höfuð og líkama. Þá hafi hann sparkað í andlit hennar klæddur skóm svo hún hafi fallið í gólfið. Þá hafi kærði, þar sem brotaþoli hafi setið í stól, tekið hana kyrkingartaki og á meðan haft í hótunum um að drepa hana. Brotaþoli segist hafa óttast um líf sitt meðan á atlögunni stóð og hafi hún lýst ástandi kærða eins og hann hafi verið í geðhvarfi. Hafi sagt að hann væri [...] og þá hafi hann beðist fyrirgefningar inn á milli.
Í skýrslutöku af kærða hafi hann borið fyrir sig að muna ekki hvað hafði gerst en neiti ekki að hafa ráðist á brotaþola.
Í íbúðinni hafi mátt sjá blóðslettur á gólfi og á hurðum í gangi og í stofu. Vinkona brotaþola hafi einnig verið inni í íbúðinni er lögregla hafi komið á vettvang og sagt lögreglu að X hefði lamið A "eins og boxpúða". Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi hún sagt að kærði hefði lamið A margoft í andlit og líkama og jafnframt hafi hann sparkað í andlit hennar og síðu og dregið hana um íbúðina. Brotaþoli hafi misst meðvitund um stund og hafi hún þá haldið að brotaþoli væri dáin. Vinkonan hafi sagt kærða meðal annars hafa verið með skæri á lofti og sagst ætla að drepa brotaþola.
Lögregla hafi einnig rætt við B, tilkynnanda sem búi í íbúðinni fyrir neðan. Hafi hún sagst hafa heyrt miklar barsmíðar og köll á hjálp og því hafi hún hringt á lögreglu. Hún hafi einnig heyrt í kærða öskra að hann myndi drepa hana ef hún hringdi á lögreglu. Sagðist B hafa tekið það til sín.
C sérfræðingur hafi ritað áverkavottorð vegna komu brotaþola á slysadeild LSH þar sem fram komi að hún hún hafi verið mjög blóðug í andliti, með sprungið fyrir nefbryggju, brot í nefbeini með hliðrun til hægri og brot í miðsnesi, með stórt glóðarauga í kringum vinstra auga og mikið blóðsafn hægra megin á höfði. Þá hafi hún verið með fjölda marbletta og rispur á báðum handleggjum og fingrum, fótleggjum, lærum og á síðu og mikið blóðsafn á síðu og upphandlegg. Fái áverkar hennar samræmst því að hún hafi orðið fyrir ítrekuðum höggum og spörkum.
Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur (R-1/2015) þann 6. janúar sl. til dagsins í dag.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. eða eftir atvikum 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi, eða ævilöngu, og sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjist gæsluvarðhalds en kærði hafi ráðist á brotaþola með alvarlegum hætti og sparkaði m.a. klæddur skóm í andlit hennar, slegið hana ítrekað í höfuð og reynt að kyrkja hana meðan hann hafi haft í hótunum um að drepa hana.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt því sem fram er komið er kærði undir sterkum grun um að hafa ráðist að konu á heimili hennar með höggum og spörkum, m.a. í höfuð hennar, sem og að hafa reynt að kyrkja hana og á sama tíma hótað henni lífláti. Með því hefur kærði gerst sekur um brot sem varðað getur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða eftir atvikum 211. gr. sbr. 20. gr. sömu laga. Brot þetta getur varðað allt að 16 ára fangelsi eða ævilöngu. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 6. janúar sl. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008. Liggur fyrir að rannsókn málsins er á lokastigi en beðið er enn niðurstöðu tæknideildar lögreglunnar, sem og geðrannsóknar dómkvadds matsmanns á kærða. Með tilliti til almannahagsmuna verður á það fallist með lögreglustjóra að brot þetta sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus meðan mál hans er til meðferðar, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður því orðið við kröfunni eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. febrúar 2015 kl 16:00.