Hæstiréttur íslands
Mál nr. 22/2018
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Lögjöfnun
- Stefna
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2018, en kærumálsgögn bárust réttinum 17. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 28. september 2018, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a. liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess aðallega að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar, en til vara að því „verði einungis vísað frá héraðsdómi að því leyti sem varðar kröfur vegna reikninga sóknaraðila sem gefnir voru út áður en notendaskilmálar sóknaraðila voru samþykktir þann 31. ágúst 2015.“ Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili þess að ákvörðun um málskostnað í hinum kærða dómi verði hrundið og hann látinn falla niður, en varnaraðila verði gert að greiða sér kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar.
Landsréttur kvað á um frávísun máls þessa frá héraðsdómi með fyrrnefndum dómi, svo sem heimilt er samkvæmt 4. málslið 2. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991. Þótt mælt sé svo fyrir í a. lið 1. mgr. 167. gr. sömu laga að úrskurðir Landsréttar sæti kæru til Hæstaréttar sé kveðið þar á um frávísun máls frá héraðsdómi, en í engu vikið að því hvort sama heimild til málskots sé fyrir hendi ef ákvörðun er tekin um slík málalok í dómi, verður eðli máls samkvæmt að beita lögjöfnun frá lagaákvæði þessu um þær aðstæður, sem uppi eru í málinu. Er kæra dómsins til Hæstaréttar þannig heimil í því skjóli.
Eftir gögnum málsins á það rætur að rekja til samnings, sem Landgræðsla ríkisins gerði 18. október 1985 sem eigandi jarðarinnar Stóra-Klofa við fjóra hreppa um nýtingu jarðhita á Baðsheiði í landi hennar og Litla-Klofa fyrir starfsemi klakstöðvar til fiskeldis. Í samningnum var meðal annars kveðið á um það að fengist meira heitt vatn úr borholum í landinu en verja þyrfti til þeirrar starfsemi yrði „landeigendum heimilt að nýta alla þá orku, sem umfram er, án sérstaks endurgjalds, enda beri hrepparnir ekki kostnað af þeirri nýtingu og hún fari fram án áhættu fyrir nýtingu í þágu klakstöðvarinnar.“ Eftir ákvæðum samningsins var þessi heimild eigenda Stóra-Klofa og fleiri tilgreindra jarða þó bundin við not „til eigin þarfa vegna heimilis- og búrekstrar“ og skyldu þeir í því skyni „tengja heimæðar við stofnlögnina að klakstöðinni“. Móðir varnaraðila, sem mun hafa verið ábúandi á Stóra-Klofa, fékk 15. nóvember 2005 afsal fyrir hluta jarðarinnar, sem varnaraðili kveður hafa verið „heimalandið“ innan jarðarinnar. Er óumdeilt að við það hafi móðir varnaraðila gengið inn í rétt til nýtingar á heitu vatni, sem landeigendum var áskilinn í samningnum 18. október 1985, en jarðarhluti þessi mun nú vera í eigu varnaraðila og bróður hennar. Þá liggur fyrir að sóknaraðili sé kominn í stað hreppanna fjögurra, sem stóðu að þeim samningi við Landgræðslu ríkisins, en samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er sá hluti jarðarinnar Stóra-Klofa, þar sem jarðhitasvæðið á Baðsheiði liggur, enn í eigu þeirrar ríkisstofnunar. Sóknaraðili kveðst sjálfur og forverar hans þar áður margoft hafa reynt að innheimta hjá móður varnaraðila og síðar henni „kostnað sem hlaust af því að koma heitavatni til Stóra-Klofa“ og meðal annars boðist á árinu 1998 til að gera samning um slíkan kostnað í tilefni af byggingu sumarhúss í landinu. Fyrir liggur að ekki varð af þeim samningi og hefur varnaraðili neitað að inna af hendi greiðslur til sóknaraðila í tengslum við nýtingu á heitu vatni á þeim grunni að henni sé í samningnum frá 18. október 1985 áskilinn réttur til þessa án endurgjalds. Gagnstætt þessu virðist sóknaraðili hafa byggt á því að sá réttur varnaraðila sé bundinn við það að hún sé undanþegin „greiðslu fyrir heita vatnið sjálft“, en henni beri á hinn bóginn að inna af hendi greiðslur til að „mæta kostnaði við rekstur sóknaraðila“, svo sem komist er að orði í greinargerð hans til Hæstaréttar. Eigi þetta jafnframt við um aðra landeigendur, sem eins sé ástatt um, en hér sé um að ræða almennan rekstrarkostnað sóknaraðila ásamt útgjöldum hans í tengslum við „öflun og dreifingu á heitu vatni auk kostnaðar við viðhald búnaðar og tækja.“ Á tímabilinu frá 18. febrúar 2014 til 25. nóvember 2016 gaf sóknaraðili eftir gögnum málsins út samtals 25 reikninga á hendur varnaraðila að fjárhæð alls 1.016.487 krónur, sem hún hefur hafnað að greiða. Höfðaði sóknaraðili því mál þetta með stefnu 1. mars 2017 til heimtu þeirrar fjárhæðar ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.
Í héraðsdómsstefnu gerði sóknaraðili einkum grein fyrir atvikum að baki málinu, starfsemi sinni og hvers eðlis sá kostnaður sé, sem falli til af henni, ásamt viðhorfum sínum um réttarsamband aðilanna. Um þá kröfu, sem málið var höfðað um, og reikningana að baki henni sagði á hinn bóginn einungis eftirfarandi: „Um sundurliðun dómkröfu og frekari útlistun hennar vísast til yfirlitsskjals og útgefinna reikninga á dskj. nr. 40.“ Yfirlitsskjalið, sem þannig var vísað til, hefur aðeins að geyma upptalningu á reikningunum, þar sem greint er frá útgáfudegi þeirra, númeri, fjárhæð höfuðstóls og virðisaukaskatts ásamt samtölu og eindaga, en að auki eru tilteknir áfallnir dráttarvextir á tímabili, sem ekki er nánar getið, og að endingu heildarfjárhæð að þeim vöxtum meðtöldum. Á framlögðum reikningum sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem stafa frá áðurnefndu tímabili, er í 22 tilvikum aðeins sagt að „vöruheiti“ sé „heitt vatn“ tiltekna mánuði, ein svonefnd eining hverju sinni fyrir tiltekið einingarverð, en í sumum tilvikum er þess jafnframt getið að þeir tengist Stóra-Klofa og í öðrum að þeir varði sumarhús. Á tveimur af þessum reikningum segir að auki að um sé að ræða „áætlun“. Að öðru leyti kemur fram á tveimur reikningum að svonefnt vöruheiti sé „fastagjald heitt vatn“, hálf eining hvort skiptið á ákveðnu einingarverði, og loks er á einum reikningi tiltekið að hann varði annars vegar „fastagjald“ fyrir sumarhús, refahús og íbúðarhús og hins vegar „notkun“ í sömu húsum, með einni einingu í hverjum lið fyrir tilgreint einingarverð. Hvorki kemur þannig fram í reikningunum né yfirlitsskjalinu nokkur frekari skýring á forsendum að baki þeim, en vart verður séð hvernig reikningarnir, sem í flestum tilvikum eru gerðir um endurgjald fyrir „heitt vatn“ eða „notkun“ og í tveimur þeirra samkvæmt „áætlun“, beri með sér að með þeim hafi sóknaraðili ekki krafið varnaraðila um greiðslu fyrir notkun á heitu vatni, heldur hlutdeild í ótilgreindum kostnaði af rekstri sínum. Án tillits til þess að almenn skírskotun í stefnu af framangreindum toga til tiltekinna dómskjala til að lýsa sundurliðun kröfu og efnisatriðum að baki henni fullnægir ekki áskilnaði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 háttar svo til í málinu að dómskjölin, sem vitnað var til á þennan hátt, bæta síst nokkru við í raun til reifunar á grundvelli þess. Í öðrum málatilbúnaði sóknaraðila er ekki bætt úr þessu með því að skýra á viðhlítandi hátt fyrir hverju einstakir reikningar hans á hendur varnaraðila hafi verið gerðir og hvernig fjárhæð þeirra hafi verið fundin. Að þessu virtu eru ekki efni til að hnekkja því mati Landsréttar að málið sé af þessum sökum ótækt til efnisdóms og verður því að staðfesta niðurstöðu hins kærða dóms.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði dómur skal vera óraskaður.
Sóknaraðili, Orkuveita Landsveitar ehf., greiði varnaraðila, Ruth Árnadóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Dómur Landsréttar 28. september 2018.
Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Oddný Mjöll Arnardóttir og Ragnheiður Harðardóttir.
Málsmeðferð og dómkröfur aðila
1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 5. febrúar 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2018 í málinu nr. E-1024/2017.
2. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst áfrýjandi þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Landsrétti.
3. Stefndi krefst þess að kröfu áfrýjanda um frávísun málsins verði hafnað og að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar fyrir Landsrétti.
4. Málið var flutt í einu lagi um formsatriði og efni, sbr. lokamálslið 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsatvik
5. Hinn 18. október 1985 gerði Landgræðsla ríkisins vegna jarðarinnar Stóra-Klofa samning við Ása-, Djúpár-, Holtamanna- og Landmannahrepp þar sem hreppunum var veitt heimild til borunar og nýtingar á heitu vatni í Baðsheiði í landi Stóra-Klofa í þágu klakstöðvar sem hrepparnir voru að koma á fót.
6. Móðir áfrýjanda, Hrefna Kristjánsdóttir, undirritaði samninginn sem ábúandi jarðarinnar Stóra-Klofa, en vatnsleiðslur lágu um ábúðarjörð hennar. Í 6. gr. samningsins sagði að hrepparnir væru tilbúnir að heimila eftir nánara samkomulagi tilgreindum bæjum, þar á meðal Stóra-Klofa, að tengja heimæðar við stofnlögnina að klakstöðinni til eigin þarfa vegna heimilis- og búrekstrar, enda gæfi holan nægilegt vatnsmagn að lokinni tilraunadælingu. Í greininni sagði einnig að þessi notkun teldist hluti af heimiluðu orkumagni og gæti numið allt að 0,75 l/sek. vegna Stóra-Klofa, en þó hefði klakstöðin ákveðinn forgangsrétt að fyrstu 10 l/sek. Jafnframt sagði í 7. gr. samningsins að öll réttindi hreppanna til framkvæmda og til nýtingar á heitu vatni samkvæmt samningnum væru án endurgjalds eða annarra skuldbindinga af nokkru tagi, annarra en þeirra sem í samningnum greindi. Í samræmi við heimild samningsins var tengd heimæð við stofnlögnina og hún lögð að Stóra-Klofa. Munu ábúendur Stóra-Klofa hafa nýtt heitt vatn úr stofnlögninni án endurgjalds og munu engar athugasemdir hafa verið við það gerðar fyrr en áfrýjandi reisti sumarhús á jörðinni og lét tengja heitavatnslögn við heimæðina að Stóra-Klofa. Gerðu þá Holta- og Landsveit, Ásahreppur og Djúpárhreppur, sem „handhafar virkjunar- og nýtingarréttar á heitu vatni í landi Stóra-Klofa“, drög að samningi 22. maí 1998 þar sem fram kom að áfrýjanda, sem afnotahafa, væri heimilt að tengja hitaveituæð að sumarhúsi sínu við stofnlögn hreppanna til fiskeldisstöðvarinnar til eigin þarfa. Væri afnotahafa heimilt að nota orkumagn úr vatnsæðinni sem svaraði til 4 l/mín. af heitu vatni meðan nægilegt vatn fengist úr virkjaðri borholu. Í 2. gr. samningsdraganna sagði að afnotahafi greiddi allan stofn-, viðhalds- og rekstrarkostnað sem leiddi af framkvæmdum við að leggja heimæð frá stofnlögn að sumarbústað sínum og sæi um viðhald og allan rekstur heimæðarinnar undir eftirliti hreppanna. Áfrýjandi undirritaði ekki samninginn fyrir sitt leyti, en hún hélt áfram nýtingu vatns úr borholunni endurgjaldslaust.
7. Með kaupsamningi og afsali 15. nóvember 2005, seldi landbúnaðarráðherra fyrir hönd jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins heimaland jarðarinnar Stóra-Klofa til móður áfrýjanda. Með kaupsamningnum voru vatns- og jarðhitaréttindi, umfram heimilisþarfir ábúanda jarðarinnar, ásamt nauðsynlegri aðstöðu til að hagnýta þau réttindi, undanskilin sölunni. Í samningnum var sérstaklega kveðið á um að kaupandi skyldi áfram fá heitt vatn til heimilis- og búrekstrar á Stóra-Klofa í samræmi við ákvæði 6. gr. samningsins frá 18. október 1985. Áfrýjandi mun nú vera eigandi heimalandsins.
8. Hinn 22. janúar 2013 fékk forveri stefnda, Íslensk matorka ehf., á grundvelli laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nýtingarleyfi hjá Orkustofnun á heitu vatni úr borholunni á Baðsheiði. Orkuveita Landsveitar ehf., stefndi þessa máls, var stofnuð 17. september 2013 og var áfrýjandi meðal stofnenda. Framangreint nýtingarleyfi var framselt stefnda 18. desember 2013 sem rekur nú hitaveitu á svæðinu.
9. Með bréfi 18. desember 2013 var áfrýjanda tilkynnt um fyrirhugaða innheimtu gjalda vegna „dreifingar á heitu vatni“ frá hitaveitunni sem miðast ætti við 1. október sama ár. Í bréfi til notenda stefnda í desember sama ár kom jafnframt fram að hafin væri vinna við gerð gjaldskrár og ætti innheimta gjalda að fara fram mánaðarlega. Á aðalfundi stefnda 31. ágúst 2015 voru notendaskilmálar fyrir félagið samþykktir og greiddi áfrýjandi atkvæði á móti þeim. Jafnframt var rætt um gjaldskrá stefnda, en tillögur að gjaldskrá voru samþykktar á stjórnarfundi stefnda 21. ágúst 2015. Gjaldskrá tók gildi 1. september sama ár.
10. Í 3. gr. notendaskilmálanna greinir að stefndi innheimti gjöld af þeim aðilum sem tengist stofnæð veitunnar til að standa straum af kostnaði við rekstur veitunnar. Til kostnaðar teljist meðal annars dæling vatns frá borholum veitunnar, viðhald á bordælum og öðrum búnaði, endurbætur á búnaði, sem og kostnaður við viðhald nýtingarleyfa, tryggingar, reikningsgerð, bókhald og aðkeypta þjónustu. Jafnframt segir í 3. gr. að við ákvörðun gjaldskrár skuli þess gætt að gjaldtakan standi undir eðlilegum rekstrarkostnaði, afskriftum og fjármagnskostnaði veitunnar og gætt sé að eðlilegri hlutdeild þeirra sem tengist stofnæðum í þeim kostnaði sem til falli við rekstur veitunnar.
11. Í gjaldskrá stefnda segir meðal annars að í gjaldskrám orkuveitna sé ýmist byggt á föstu gjaldi auk notendatengds gjalds eða eingöngu á notendatengdu gjaldi. ,,Hér [sé] gert ráð fyrir að vera bæði með fast gjald auk innheimtu eftir notkun“. Í gjaldskránni er fast árgjald vegna sumarhúss 30.000 krónur, fast gjald vegna lögbýlis án ábúðar 35.000 krónur, fast gjald vegna lögbýlis með ábúð 70.000 krónur og fast gjald vegna útihúss 10.000 krónur.
12. Áfrýjandi hefur mótmælt þeim reikningum sem kröfugerð stefnda er reist á og hafnað greiðsluskyldu með vísan til fyrrgreinds samnings frá 18. október 1985.
Niðurstaða
13. Áfrýjandi krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi á þeim grundvelli að stefna málsins sé vanreifuð og uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Héraðsdómari hafnaði þeirri kröfu með úrskurði 30. júní 2017, sbr. 3. málslið 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 sæta úrskurðir héraðsdómara um þau atriði sem þar eru talin kæru til Landsréttar. Þar á meðal er ekki að finna heimild til að kæra úrskurð um að hafna frávísunarkröfu. Var því áfrýjanda sá einn kostur fær að leita endurskoðunar á þeirri niðurstöðu héraðsdóms undir áfrýjun málsins.
14. Í stefnu krefst stefndi greiðslu úr hendi áfrýjanda á 1.016.487 krónum með dráttarvöxtum. Engin grein er fyrir því gerð hver fyrirsvarsmaður stefnda er, sbr. b-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
15. Í málsástæðukafla stefnunnar greinir að „um sundurliðun dómkröfu og frekari útlistun hennar vísast til yfirlitsskjals og útgefinna reikninga“, en í stefnunni sjálfri er enga slíka sundurliðun að finna.
16. Í yfirlitsskjalinu eru reikningarnir sem eru 25 talsins tilgreindir og þar getið höfuðstóls, virðisaukaskatts, eindaga og dráttarvaxta. Reikningarnir eru gefnir út á tímabilinu frá 18. febrúar 2014 til 25. nóvember 2016. Í öllum tilvikum er um tvo reikninga vegna sama tímabils að ræða, að undanskildum síðasta reikningnum, 25. nóvember 2016. Í flestum tilvikum eru reikningarnir annars vegar vegna sumarhúss og hins vegar vegna Stóra-Klofa. Í reikningum 5. desember 2014, 28. janúar 2016 og 12. maí 2016 er þó ekki tilgreind staðsetning þeirrar eignar sem innheimt er vegna. Í langflestum reikninganna er eina skýring þeirra tilgreind sem „heitt vatn“ fyrir tilgreint tímabil og ákveðin fjárhæð tilgreind, án sundurliðunar. Í öðrum tveggja reikninga 27. október 2015 segir að hann sé vegna sumarhúss „heitt vatn sept/okt Áætlun“. Í hinum er á sama hátt um Stóra-Klofa tilgreint að reikningurinn sé vegna heits vatns fyrir sama tímabil „Áætlun“. Reikningar 5. ágúst 2016 tilgreina að um sé að ræða annars vegar „fastagjald heitt vatn sumarhús“ og hins vegar „fastagjald heitt vatn Stóri-Klofi“ án tilgreiningar á tímabili. Í reikningi 25. nóvember 2016 er tilgreint að um sé að ræða annars vegar „fastagjald“ vegna sumarhúss, refahúss og íbúðarhúss og hins vegar „notkun“ vegna sömu fasteigna.
17. Um rökstuðning fyrir stefnukröfu vísar stefndi til notendaskilmála sem samþykktir voru á aðalfundi stefnda 31. ágúst 2015 og kveður þá skilmála taka til áfrýjanda. Beri áfrýjanda skylda til að greiða sína hlutdeild í rekstrarkostnaði hitaveitunnar. Þá greinir í stefnu að eftir 1. september 2015 byggist kröfur stefnda á gjaldskrá hans, sem flokki notendur í fjóra flokka eftir tegund húsnæðis og sé „fast gjald“ breytilegt eftir því hver tegund húsnæðisins sé. Einnig segir í stefnu að jafnvel þótt áfrýjanda sé endurgjaldslaus hlutdeild í sjálfu heita vatninu, sem nemi 0,75 l/ sek., beri henni skylda til greiðslu þess kostnaðar sem stefndi hafi af því að veita áfrýjanda heitt vatn. Enn fremur segir þar að aðstaða í máli þessu sé svipuð þeim kostnaði sem eigendur í fjölbýlishúsi beri af rekstri hússins, en lagaskylda hvíli á þeim samkvæmt 2. tölulið 13. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús til að greiða hlutdeild í sameiginlegum kostnaði.
18. Eins og rakið hefur verið spanna reikningar stefnda tímabilið frá 18. febrúar 2014 til 25. nóvember 2016. Þótt fram komi í stefnu að notendaskilmálar stefnda, sem samþykktir voru á aðalfundi hans 31. ágúst 2015, taki til áfrýjanda og að henni beri skylda til að greiða hlutdeild í rekstrarkostnaði hitaveitunnar, er engin grein fyrir því gerð á hvaða grundvelli fjárhæð reikninganna er reist fyrir tímabilið áður en notendaskilmálar stefnda voru samþykktir. Enn fremur skortir með öllu að tilgreint sé í stefnu hvernig reikningar stefnda endurspegla ætlaða hlutdeild áfrýjanda í rekstrarkostnaði. Einungis er vísað til reikninganna og yfirlitsskjals, án frekari rökstuðnings fyrir því hvernig hlutdeild áfrýjanda í þeim kostnaði er reiknuð. Þá verður hvorki af stefnu ráðið né reikningum þeim sem lagðir eru fram hvort innheimta stefnda á hendur áfrýjanda lúti einungis að hlutdeild hennar í rekstrarkostnaði hitaveitunnar samkvæmt notendaskilmálum hennar eða hvort hún lúti einnig að notkun áfrýjanda á heitu vatni sem stefndi telur þó að henni beri endurgjaldslaus afnot af að 0,75 l/sek. samkvæmt samningnum 18. október 1985. Í öllum reikningunum er tilgreint að innheimt sé fyrir „heitt vatn“ og síðustu reikningar stefnda bera með sér að auk fastagjalds lúti innheimta að heitu vatni samkvæmt áætlun eða notkun.
19. Samkvæmt öllu framangreindu er málatilbúnaður stefnda svo óskýr að áfrýjanda er gert erfitt um vik að grípa til tölulegra varna í málinu. Þar sem stefna málsins fer að þessu leyti svo í bága við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 verður fallist á kröfu áfrýjanda um að vísa beri málinu frá héraðsdómi.
20. Í hinum áfrýjaða dómi er tekin orðrétt upp lýsing stefnanda á málsatvikum, í stað þess að semja hlutlæga lýsingu á málsatvikum í samræmi við d-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Er þetta aðfinnsluvert.
21. Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Stefndi, Orkuveita Landsveitar ehf., greiði áfrýjanda, Ruth Árnadóttur, 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.