Hæstiréttur íslands

Mál nr. 421/2009


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 10. júní 2010.

Nr. 421/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Gísla Birgissyni

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

(Hjördís E. Harðardóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var 14 ára gömul, með því að hafa í bifreið sem hann hafði lagt við verksmiðjuhúsnæði, sett fingur í leggöng stúlkunnar, látið hana nudda lim sinn og haft við hana samræði. Talið var sannað að X hefði beitt A ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung til að ná fram kynferðismökunum. Að virtum ljósmyndum af bifreiðinni, sem voru meðal málsgagna, og þegar litið var til þess að fjölskipaður héraðsdómur hefði metið framburð A trúverðugan, þar á meðal um hvernig X braut gegn henni í bifreiðinni, þótti hafið yfir skynsamlegan vafa að atburðir hefðu verið með þeim hætti sem hún lýsti. Var háttsemi X talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að A hafði oft gætt barns X, sem var tengdur henni og hafði áunnið sér trúnaðartraust hennar. X var 32 ára þegar brotin voru framin, en A 14 ára. Hann hefði nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni og neytt hana í skjóli þess til að hafa við sig kynferðismök í læstri bifreið á afviknum stað, en þar átti A sér ekki undankomu auðið. Var refsing X ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Þá var honum gert að greiða A 800.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist þyngingar á refsingu.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega sýknu af einkaréttarkröfu, en til vara að dæmd fjárhæð verði lækkuð.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var 14 ára gömul, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 12. maí 2008, í bifreið sem hann hafði lagt við verksmiðjuhúsnæði í Grafarvogi, sett fingur í leggöng stúlkunnar, látið hana nudda lim sinn og haft við hana samræði. Taldist sannað að ákærði hafi beitt hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung til að ná fram kynferðismökunum, eins og honum var að sök gefið í ákæru.  Brot ákærða eru þar heimfærð undir 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eins og getið er í héraðsdómi hafði stúlkan verið að gæta barns ákærða og konu hans þetta kvöld. Um eða upp úr miðnætti ók ákærði henni heim á leið. Hefur ákærði sagt að þau hafi tekið „smá rúnt“ og svo hafi hann ekið henni heim. Er þangað kom hafi þau tekið utan um hvort annað og hann kysst hana á munninn í kveðjuskyni. Stúlkan hefur staðfastlega borið í skýrslum sínum fyrir dómi og hjá lögreglu að ákærði hafi á heimleiðinni ekið henni á afvikinn stað við hús, sem samkvæmt lýsingu hennar mun vera verksmiðjuhúsnæði í Grafarvogi. Þar hafi hann lagt bifreiðinni og læst henni. Þau hafi setið í framsætunum. Lýsti hún nánar atvikum þar, eins og skilmerkilega er rakið í héraðsdómi. Meðal málsgagna eru ljósmyndir af bifreiðinni, sem er fimm manna fólksbifreið. Á þeim sést glögglega að stokkur undir gírstöng nemur næstum við framanvert hægra horn sætis ökumanns og það vinstra farþegamegin, en ekki er hindrun milli sætanna að öðru leyti. Að virtum þessum myndum og þegar litið er til þess að fjölskipaður héraðsdómur hefur metið framburð stúlkunnar trúverðugan, þar á meðal um hvernig ákærði braut gegn henni í bifreiðinni, er hafið yfir skynsamlegan vafa að atburðir hafi verið með þeim hætti sem hún lýsir. Samkvæmt því sem að framan er rakið en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. 

Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að stúlkan hafði oft áður gætt barns ákærða, sem var tengdur henni og hafði áunnið sér trúnaðartraust hennar. Ákærði var 32 ára er brotin voru framin, en stúlkan 14 ára. Hann nýtti sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni og neyddi hana í skjóli þess til að hafa við sig kynferðismök í læstri bifreið á afviknum stað, en þar átti hún sér ekki undankomu auðið. Ákærði á sér engar málsbætur. Háttsemi hans varðar við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Að öllu framangreindu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um miskabætur og vexti af þeim verður staðfest, en þess ber að geta að ekki hafa verið lögð fyrir Hæstarétt frekari gögn um andlega hagi brotaþola.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Gísli Birgisson, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Að öðru leyti skal héraðsdómur vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 539.751 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Hjördísar E. Harðardóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 25. maí er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 23. mars 2009 á hendur Gísla Birgissyni, kt. 240675-5449, Drápuhlíð 34, Reykjavík, fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var fjórtán ára gömul, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 12. maí 2008, í bifreið sinni [...] við verksmiðjuhúsnæði í Grafarvogi, sett fingur í leggöng stúlkunnar, látið hana nudda lim sinn og haft við hana samræði eða reynt að hafa við hana samræði, en ákærði beitti A ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung til að ná fram kynferðismökunum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 2.500.000 auk vaxta skv. 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. maí 2008 til 2. janúar 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu þóknunar við réttargæslu.

Verjandi ákærða krefst sýknu, en til vara að ákærða verði gerð vægasta refsing er lög leyfa. Þá er þess krafist að ákærði verði sýknaður af greiðslu skaðabóta en til vara að upphæðin verði stórlega lækkuð. Að síðustu er þess krafist að sakarkostnaður verði allur felldur á ríkissjóð. 

Málavextir

Hinn 25. júní 2008 lagði B fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot á hendur A, dóttur hans. Kvað hann ákærða hafa brotið gegn dóttur hans í bifreið ákærða hinn 11. maí 2008. Greindi B frá því að dóttir hans hefði hinn 12. júní sagt bróður sínum og unnustu hans frá því að maður sem hún hefði verið að passa fyrir hefði reynt að nauðga sér. Hefði málið þá verið rætt en ekkert frekar verið aðhafst. Svo hefði það verið hinn 19. júní að dóttir hans var að ræða við C, mágkonu hans, í gegnum MSN og þá spurt að því hvernig konu liði ef hún væri ólétt. Við þetta hefði C áttað sig á því að ef til vill hefði eitthvað meira gerst en stúlkan hefði í fyrstu greint frá. Hefðu hann og eiginkona hans í kjölfarið sjálf rætt við dóttur þeirra og hún þá greint frá því að ákærði hefði ætlað að skutla henni heim eftir að hún passaði fyrir hann. Ákærði hefði ekið lengri leið þar sem hann hefði ætlað að sýna henni eitthvað. Hann hefði svo stöðvað bifreiðina og þar hefði hann fyrst farið með hendur inn undir nærbuxur hennar, síðan sett hana ofan á sig og haft við hana einhvers konar samfarir. Hefði ákærði hætt eftir að hún öskraði á hann en beðið hana um að segja engum frá. Hafði B eftir stúlkunni að á pilsi hennar (sic) hefði verið einhvers konar ,,hvítt subb“ en það hefði verið þvegið ásamt öðrum þeim fatnaði sem hún hefði verið í. Eftir að stúlkan hefði greint þeim frá atvikum máls hefðu þau farið með hana í skoðun á Neyðarmóttöku hinn 20. júní.

Í gögnum málsins er skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun Arnars Haukssonar læknis á Neyðarmóttöku, dags. 20. júní 2008. Við skoðun fundust engir áverkar á stúlkunni. Þá liggur fyrir skýrsla Þóru Sigfríðar Einarsdóttur, sálfræðings í Barnahúsi, dags. 25. mars 2009. Þar er rakið að frá 10. september 2008 hafi brotaþoli sótt 11 viðtöl til Þóru Sigfríðar. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að viðtöl við stúlkuna hafi leitt í ljós fjölmörg vandamál sem þekkt séu meðal barna sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi. Stúlkan sýni einkenni áfallastreitu og glími við skapsveiflur. Þá hafi borið á svefntruflunum, skömm og sektarkennd. Ekki sé unnt að segja til um það að svo stöddu hvort stúlkan muni ná sér eftir það kynferðislega ofbeldi, sem hún segist hafa orðið fyrir.

Þá liggja fyrir tæknigögn lögreglu vegna tölvurannsóknar. Rannsakað var sérstaklega hvort samskipti fyndust á milli tölvupóstfanga ákærða og brotaþola. Í skýrslunni kemur fram að miðað við fjölda tilvika megi reikna með að samskiptin hafi verið ítrekuð. Ekki hafi hins vegar reynst unnt að sjá dag- eða tímasetningar samskiptanna. Viðbótarrannsókn á tölvu með tilliti til samskipta á milli brotaþola og fyrrverandi konu ákærða hafi ekki leitt í ljós nein gögn er bentu til samskipta þeirra á milli. Þá voru símagögn af gsm-síma ákærða afrituð. Kom fram að ákærði hefði tvívegis sent brotaþola sms-skilaboð. Hinn 14. júní sendi ákærði skilaboð þar sem í stóð: ,,“Hae hvernig er heilsan?“ og 17. júní 2008 voru send skilaboðin „Hvad er verid ad gera?“

Ljósmyndir af bifreið þeirri er ákærði ók brotaþola heim í umrætt sinn liggja fyrir í gögnum málsins. Þá liggur fyrir tölvupóstur þar sem staðfest er að bifreið sú er ákærði ók var þvegin á þvottastöðinni Löðri kl. 01.35 hinn 12. maí 2008.

Skýrslur fyrir dómi

Hinn 1. júlí 2008 gaf A, brotaþoli máls þessa, skýrslu fyrir dómi í samræmi við 2. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991 Sagðist hún hafa passað fyrir ákærða og konu hans í um fjögur til fimm skipti. Þegar hún byrjaði hefðu þau spurt hana hversu gömul hún væri og hún þá svarað því til að hún væri fjórtán ára. Ákærði hefði sjálfur hringt í hana og beðið hana um að passa. Hann hefði svo tekið upp á því að hringja til að heyra í henni og þá hefði hann sagt við hana: ,,Þú ert svo falleg og flott, ekki láta neinn annan segja þér neitt annað“. Þá hefði hann einu sinni hringt og sagt við hana: „Ég ætla kannski að taka mér frí í kvöld á fundi en segja D að ég sé að fara á fund og koma síðan og hitta þig ... bara af því ert svo falleg og flott.“ „Símtölin voru voru farin að vera bara eiginlega þannig. Hann vildi einhvern veginn fá að hitta mig og svona og þá var ég farin að vera svolítið hrædd við hann, en samt þorði ég ekki að gera neitt af því ég þorði ekki að neita pössuninni af því að D myndi fara að fatta eitthvað eða eitthvað svoleiðis sem ég hefði náttúrulega átt að stoppa áður en þetta gerðist, en ég vissi náttúrulega ekkert að þetta myndi gerast.“ Hefði hann hringt í hana fimm til sex sinnum og vinkona hennar verið viðstödd í eitt skiptið. Einnig hefðu þau ræðst við á MSN.

Umrætt kvöld hinn 11. maí 2008 sagðist hún hafa verið að passa heima hjá ákærða. Hefðu hann og kona hans verið í bíó en komið heim, líklega upp úr klukkan 12 á miðnætti. Hefði ákærði ætlað að aka henni heim og sagt við konu sína að hann ætlaði að koma við á bílaþvottastöð til að þrífa bílinn. Er þau gengu saman niður í bílageymsluna hefði ákærði komið aftan að henni og klipið hana í rassinn. Gat hún þess að hún hefði þá verið orðin ,,alveg vel hrædd við hann“. Sagði hún ákærða hafa á leiðinni rætt um hvernig hefði gengið að passa en er þau hefðu keyrt um stund hefði hann byrjað að reyna við hana. Hefði hann ekið inn í Grafarvog og sagst ætla að sýna henni eitthvað. Þar á leiðinni hefði hann byrjað að strjúka henni á innanverðu lærinu. Kvaðst hún hafa stífnað öll upp við þetta. Hann hefði svo ekið upp að einhverju húsi, sem hefði verið merkt Hunt´s tómatsósu, drepið á bílnum og læst. Því næst hefði hann hægt og rólega snúið sér að henni, losað bílbelti hennar, sett aðra hönd sína á innanvert læri hennar en með hinni tekið um hönd hennar og sagt: „Ég ætla aðeins að fá að kyssa þig.“ Hún hefði reynt að hörfa en hann þá ýtt höfði hennar nær þannig að hann hefði náð að kyssa hana. Hefði hún þá reynt að kýla hann eða segja honum að hætta og bitið saman tönnum ,,svo hann kæmist ekki upp í mig“. Hefði hann kysst hana dágóða stund. Hann hefði svo losað bílbelti sitt, hneppt frá buxum hennar og rennt niður. Kvaðst hún hafa reynt að fara frá en ákærði haldið henni. Hann hefði svo tekið niður um hana gallabuxurnar, náð að færa hana úr annarri skálminni og farið með hönd sína niður. Hefði hann strokið yfir kynfæri hennar en einnig farið með puttana aðeins upp í leggöngin. Á meðan hefði hann verið „að fitla þarna niðri með höndina og að reyna að kyssa mig líka og þá byrjar hann að renna frá buxunum sínum ... og þú veist fer ekki alveg úr þeim en tekur typpið á sér upp úr og setur höndina mína á typpið á sér og þá er hann hættur að fitla þarna niðri hjá mér“. „Og síðan tekur hann höndina mína af typpinu á sér og tosar mig yfir til sín, en ég streitist á móti eins og ég get ... og síðan bara setur hann typpið á sér inn í mig“. Lýsti hún því að hún hefði setið og snúið að honum. Þetta hefði verið vont og hún öskrað og sagt honum að hætta, en hann samt haldið áfram. Hefði hún svo fundið er ákærði fékk sáðlát. Hefði hún orðið öll ,,slímug og ógeðsleg“ á innanverðu lærinu og eitthvað hafi farið í buxurnar. Hefði hún ,,trompast“ og öskrað á ákærða að hætta, kýlt hann og náð að komast af honum. Hefði hún sagt við hann ,,nú skaltu drullast til að skutla mér beinustu leiðina heim“. Lýsti vitnið því að eftir á hefði ákærði orðið ,,venjulegur“. Á leiðinni heim hefði hún ekkert sagt og reynt að halda sér sem næst glugganum. Hefði ákærði gert það en stöðvað bílinn á leiðinni og sagt við hana að hún mætti alls ekki segja neinum frá þessu af því að þá myndi hann lenda í vandræðum. Allra síst mætti hún segja konu hans frá þessu þar sem það mynda skemma þeirra samband. Hefði hún því upplifað sig ábyrga og haldið þessu ,,inni í mér“ til 12. júní. Er þau voru komin að húsi hennar hefði ákærði teygt sig yfir til hennar og reynt að kyssa hana en þá hefði hún farið út úr bifreiðinni. Hefði hún er heim var komið heilsað foreldrum sínum og látið vita af því að hún væri komin heim. Hefði hún grátið sig í svefn næstu kvöld eftir það.

Brotaþoli sagðist fyrst hafa greint vinkonu sinni frá umræddu atviki er þær sátu saman og lásu dagblað. Þar hefðu þær séð eitthvert efni sem tengdist nauðgunum og hún orðið klökk við það. Er vinkonan hefði spurt hvort eitthvað amaði að kvaðst stúlkan hafa farið að gráta og sagt henni frá atvikinu. Áður hefði mamma hennar verið búin að segja henni frá því að ákærði og kona hans væru skilin. Hefði henni því fundist ,,ekkert að því að segja bara frá því“. Kvað hún vinkonu sína svo hafa ráðlagt sér að segja frá atvikinu og í kjölfarið hefði hún sagt unnustu bróður síns. Hefði unnustan svo hjálpað sér að segja bróður hennar frá og hefðu þau systkinin svo í sameiningu sagt foreldrum sínum. Gat hún þess að hafa óttast um tíma að hún hefði orðið þunguð og hefði henni liðið illa af þeim sökum. Hefði hún fundið fyrir morgunógleði og beðið eftir blæðingum. Hefði hún svo farið í skoðun á Neyðarmóttöku og ekki reynst þunguð. Undir brotaþola var borinn framburður ákærða þess efnis að þau hefðu verið í sambandi frá því í febrúarmánuði og að ákærði hefði kysst hana nokkrum sinnum auk þess að hafa verið í sambandi við hana á MSN þar sem þau hefðu spjallað saman á kynferðislegum nótum, meðal annars um hvað þau langaði til að gera hvort við annað. Kvað stúlkan þennan framburð ákærða rangan að öllu leyti.

Tekin var skýrsla af brotaþola öðru sinni hinn 26. janúar 2009. Sagði hún þá frá því að í annað eða þriðja sinn er hún hefði gætt barna ákærða hefði hann náð í hana á æfingu. Hefði hann þá sagt henni að hún væri falleg en jafnframt að ef hún myndi ekki gera það sem honum líkaði þá væri hann ,,svona í undirheimum Reykjavíkur og þekkti alla þar og svona og þannig væri ekkert mál fyrir hann að hafa samband við þá“. Hefði hún þá ekki þorað að segja neinum frá þessu en þetta hefði verið það fyrsta í fari ákærða sem hún hefði orðið smeyk við. Hefði henni fundist ummælin óþægileg en þó ekki dottið í hug að eitthvað myndi gerast.

Stúlkan sagðist aðspurð hafa hringt að beiðni ákærða í móður sína úr bílnum í greint sinn, líklega rétt eftir miðnætti, og sagt að henni myndi seinka. Hefði hún hlýtt af hræðslu við ákærða sem hefði enn minnt hana á að hann þekkti alla í undirheimum Reykjavíkur. Hefði hún verið læst inni í bílnum og ekki verið í ,,góðum málum“ ef hún hefði sagt eitthvað. Hefði hún óttast að ákærði myndi lemja hana eða láta lemja hana eða jafnvel nauðga henni.

Ákærði neitaði því að hafa viðhaft þá háttsemi gagnvart brotaþola sem lýst er í ákæru. Sagðist hann aldrei hafa beitt konu ofbeldi enda væri það einn af hornsteinunum í hans ,,edrúmennsku“. Kvaðst hann hafa ekið stúlkunni heim eftir að hún passaði fyrir hann og konu hans umrætt kvöld, en ákveðið að „rúnta“ fyrst eitthvað um án þess að muna hvert þau óku. Ekkert hefði gerst á milli þeirra á leiðinni annað en það að hann hefði kysst hana á kinnina í kveðjuskyni. Spurður hvort einungis hefði verið um að ræða koss á kinn sagðist hann ekki geta svarað því þar sem minni hans væri ekki gott vegna þungs höfuðhöggs sem hann hefði hlotið í bílslysi í lok október. Hins vegar væri rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu og vildi hann vísa til hennar hvað þetta varðar. Lýsti ákærði þessum kossi svo í lögregluskýrslu sem tekin var af honum 26. júní 2008 að hann hefði spurt stúlkuna hvort hann mætti kyssa hana. Hefðu þau síðan tekið utan um hvort annað og hann kysst hana innilega á opinn munninn. Kom og fram hjá honum að hann hefði kysst hana tvisvar áður.

Ákærði sagði að stúlkan hefði byrjað að passa fyrir þau eftir að þau hefðu kynnst henni í útskriftarveislu, líklega í kringum jólin 2007. Eftir það hefði hún passað í nokkur skipti. Sagði hann þau þá oft hafa rætt saman og hefðu þau hjónin orðið trúnaðarvinir stúlkunnar. Þá hefði hann meðal annars rætt við stúlkuna á MSN. Spurður nánar um samskiptin við brotaþola sagði hann að eftir á að hyggja hefðu öll þeirra samskipti verið óæskileg, enda væri óæskilegt að þrítugur karlmaður væri að reyna að aðstoða 14 ára stúlku. Kvaðst hann hafa rætt við stúlkuna á kynferðislegum nótum, meðal annars um kjaftasögur sem hún hefði sagt ganga um sig varðandi tilgreind samskipti hennar við stráka. Hefði hann reynt að ,,peppa“ hana upp þannig að hún léti ekki sögurnar hafa áhrif á sig. Spurður hvort hann hefði haft kynferðislegan áhuga á stúlkunni kvaðst ákærði ekki vita það almennilega. Hann hefði ,,blokkerað“ á þetta tímabil og lokað á marga hluti eftir að hafa lent í bílslysinu. Kvaðst hann vera að vinna í sínum málum með aðstoð geðlæknis. Sagðist hann muna vel eftir því sem fólk tryði honum fyrir en síður eftir öðrum hlutum. Þannig kvaðst hann aðspurður engu geta svarað um vitneskju sína um aldur stúlkunnar á umræddum tíma en vildi í því sambandi vísa til skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu.

Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna stúlkan væri að bera á hann þessar sakir. Sagði hann vissa aðila hafa notfært sér þetta mál sjálfum sér til framdráttar og hefði hann stundum velt því fyrir sér hvort menn í undirheimum hefðu átt þar hlut að máli. Aðspurður minntist hann þess ekki að hafa rætt við stúlkuna á netinu eftir 12. maí 2008, líkt og gögn málsins bera með sér, kvaðst hann ekki muna eftir því né eftir öðrum samskiptum við stúlkuna eftir 12. maí 2008. Ekki kvaðst ákærði muna eftir verksmiðjuhúsi merkt Hunt´s sem stúlkan bar um að hann hefði ekið að.

Vitnið B, faðir brotaþola, skýrði frá því að dóttir hans hefði byrjað að gæta barna fyrir ákærða á haustmánuðum 2007 og hefði passað fyrir hann í um tíu skipti. Spurður um atvik hinn 12. maí 2008 sagði hann dóttir sína hafa hringt heim um miðnæturbil til að láta vita af því að þeim myndi seinka. Hefði stúlkan hins vegar ekki skilað sér heim fyrr en að verða tvö og hefðu þau þá verið að horfa á sjónvarp upp í rúmi. Hefði hún látið vita af sér og svo farið að sofa. Hefðu þau þá ekki skynjað að neitt væri að. Kvað hann þau ekki hafa tekið eftir neinu daginn eftir enda ekki hvarflað að þeim að eitthvað þessu líkt gæti gerst. Þegar þau hins vegar hefðu litið til baka hefðu þau áttað sig á að dóttir þeirra hefði verið þung í skapi og erfið í umgengni. Aðspurður kvaðst hann hafa fengið vitneskju um hið meinta kynferðisbrot hinn 12. júní. Hefði dóttir hans í fyrstu sagt bróður sínum og unnustu hans af málinu. Hefðu þau hjónin verið á tónleikum um kvöldið og er þau komu heim hefðu þau fengið að heyra af málinu. Hefði hún sagt þeim að ákærði hefði reynt að nauðga sér í bifreið sinni. Hefði hún verið grátandi og í geðshræringu og erfitt hefði verið að henda reiður á frásögninni. Hefði hann spurt hvort ákærða hefði tekist að koma fram vilja sínum og hefði dóttir hans þá ekki talið svo vera. Um viku síðar hefði svo komið reiðarslagið þegar í ljós hefði komið að ákærði hefði farið ,,alla leið“. Hefði dóttir hans verið í samskiptum við C mágkonu hans á MSN og spurt hana að því ,,hvernig er maður í maganum þegar maður er óléttur“. Stúlkan hefði á þessum tíma verið óvenjulega þung í skapi og hefðu óþægindi í maga greinilega íþyngt henni. Hefði hún svo farið í skoðun á neyðarmóttöku.

Vitnið E, móðir brotaþola, kvað ákærða tengjast bróður sínum. Bar vitnið að dóttir hennar hefði passað umrætt kvöld þar sem ákærði og kona hans hefðu ætlað í bíó. Hefði stúlkan svo hringt um miðnætti og sagt að sér myndi seinka eitthvað þar sem hún þyrfti að passa lengur. Hefði hún reiknað með að vera komin heim um 1.30 og hefði það staðist. Kvaðst vitnið hafa verið vakandi þegar stúlkan kom heim. Hefði hún talað við þau foreldrana stuttlega í dyragættinni og sagt þeim meðal annars að illa hefði gengið að fá dóttur ákærða og konu hans til að sofna. Kvaðst vitnið ekki hafa tekið eftir neinu óvenjulegu í fari hennar en þó hefði henni fundist sem dóttir hennar mætti ekki vera að því að tala við þau, að hún væri að drífa sig inn í herbergi. Væri það óvenjulegt þar sem hún væri yfirleitt dugleg að segja þeim frá því sem upp kæmi. Sagðist hún hafa fengið vitneskju um það sem gerst hefði þarna um nóttina þegar þau hjónin komu heim af tónleikum en þá hefðu tengdadóttir hennar, sonur og dóttir öll verið hágrátandi og hefðu þau foreldarnir reynt að fá upp úr þeim hvað hefði gerst. Hefði stúlkan þá sagt að ákærði hefði reynt að nauðga sér í bílnum, en ekki farið ,,alla leið“. Hefði hún sagt þeim, hágrátandi og verið í miklu uppnámi, að ákærði hefði kysst hana, káfað á brjóstum hennar og tekið hana úr buxunum. Hefði hún þá ekki talað um að ákærði hefði farið inn í sig. Bar vitnið að stúlkan hefði ekki getað verið ein heima eftir þetta og hefði haldið sig mikið innandyra. Hefði hún ekki þorað að fara ein út og óttast að hitta ákærða. Stúlkan hefði svo sagt þeim foreldrunum frá því um viku síðar, eftir samtal við vinkonu sína á MSN, að ákærði hefði farið inn í hana. Kvaðst hún þá sjálf hafa minnst þess að hafa séð hvíta bletti út um allt á buxum hennar, sem hún hefði þvegið. Hefðu blettirnir verið framan á lærunum.

Eftir að dóttir hennar hefði sagt þeim frá atvikinu kvaðst vitnið hafa talað við konu í Barnahúsi, sem hefði ráðlagt þeim að athuga hvort dóttirin vildi kæra málið eða ekki. Hefði stúlkan í fyrstu ekki viljað kæra málið. Þegar þau hefðu fengið betri upplýsingar um það sem hafði gerst hefði stúlkan farið á Neyðarmóttökuna til skoðunar. Spurð um líðan dóttur hennar eftir þetta atvik sagði vitnið að sálfræðingur stúlkunnar hefði ráðlagt henni að segja öllum frá atvikinu í skólanum og hefði stúlkan orðið fyrir mikilli stríðni kjölfarið.

F, bróðir brotaþola, kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um málið þannig að systir hans hefði sagt G unnustu hans af því. Hefði systir hans áður verið eitthvað skrýtin í háttum og spurt að því hvernig unnt væri að sanna kynferðisbrot. Hefði honum þótt þetta einkennilegt og því beðið G um að ræða við hana og þær síðan sagt honum af málinu. Hefði brotaþoli byrjað á því að segja að ákærði hefði ekki gengið alla leið og að hún hefði náð að stöðva hann. Síðar hefðu þau komist að því að svo hefði ekki verið. Sagan hefði til að byrja með verið ,,alveg í tætlum hjá henni“ og hefði kvöldið verið ein allsherjar geðshræring. Hefði hún hágrátið og sagt að ákærði hefði reynt að klæða hana úr og fara ofan á hana. Hefði hann farið yfir til hennar í sætið en hún náð að koma í veg fyrir það. Spurður um líðan brotaþola sagði hann systur sína oft hafa grátið en líðan hennar væri betri nú.

Vitnið G kvaðst hafa fengið vitneskju um málið með þeim hætti að hún hefði verið heima með F unnusta sínum ásamt brotaþola. Hefði hún sagt þeim frá ákærða og að hann hefði verið að skilja við konuna sína. Hefði þeim þótt stúlkan eitthvað ólík sjálfri sér og hefði F því beðið vitnið um að ræða við hana. Hefði vitnið bankað á herbergisdyrnar hjá henni og hún þá komið grátandi til dyra og viljað ræða málin. Í kjölfarið hefði hún sagt sér að ákærði hefði reynt að nauðga sér en ekki gengið ,,alla leið“. Hefði gengið nokkuð greiðlega hjá henni að segja frá, þrátt fyrir að hún hefði verið grátandi. Hefði komið fram hjá henni að ákærði hefði fyrst hneppt frá sínum buxum og svo hennar og sett sína hönd inn á hana. Hefði hún barist um, en ákærði náð að toga hana yfir á sig. Henni hefði síðan tekist að berja frá sér og komast yfir í sitt sæti. Hefði hún öskrað á ákærða og hann þá ekið henni heim. Brotaþoli hefði svo sagt foreldrum sínum frá þessu þegar þau komu heim síðar um kvöldið. Vitnið kvaðst hafa þekkt stúlkuna í um eitt og hálft ár þegar þarna kom við sögu og aldrei séð hana í viðlíka ástandi. Vitnið kvaðst ekki áður hafa tekið eftir neinu óvenjulegu í fari hennar en það hefði hins vegar verið greinilegt þetta kvöld.

Vitnið C, gaf símaskýrslu í málinu, kvaðst gift föðurbróður brotaþola og hafa haft mikil samskipti við stúlkuna í gegnum tíðina. Væru þær góðar vinkonur. Kvaðst hún hafa fengið fyrstu vitneskju um málið frá móður stúlkunnar eftir að stúlkan hefði greint fjölskyldu sinni frá málinu. Hefði það verið á föstudegi. Á mánudag þar á eftir hefði hún verið að spjalla við brotaþola á MSN í tölvunni og stúlkan þá sett fram spurningar sem bentu til þess að þetta ,,hefði gengið töluvert lengra en hefði átt að vera“. Hefði stúlkan spurt að því hvort hægt væri að verða ólétt ,,eftir svona“ og sagðist vitnið þá hafa forvitnast um hvað stúlkan ætti við. Hefði stúlkan þá greint sér frá því að það ,,hefði allt orðið blautt“ og hefðu útskýringar hennar borið með sér að ákærði hefði gert töluvert meira en að reyna. Hefði stúlkan svo sagt að ákærði hefði náð að setja ,,inn í hana“. Hefði ,,komið úr lim hans“ og hefði stúlkan velt því fyrir sér hvort hún gæti orðið ólétt við það. Kvaðst hún þá hafa hringt í stúlkuna og rætt málið við hana í síma og stúlkan þá greint sér frá því að ákærði hefði haldið henni, sett liminn inn í hana og ,,komið sínu á framfæri“. Hefðu þau verið stödd á einhverjum afskekktum stað. Bar vitnið að stúlkan hefði ekki reynslu af kynlífi og hefðu þær talað um það áður og stúlkan þá sagt sér það. Spurð hvort hún hefði skynjað breytingar á stúlkunni eftir meint atvik kvaðst hún hafa orðið þess áskynja að stúlkan hefði ,,dregið sig til baka“ og ekki verið eins og hún ætti að sér að vera. Væri hún hress og skemmtileg stelpa en hefði hún eftir atvikið ,,bara verið öðruvísi“. Hefði henni þótt sem málið hefði greinilega haft mikil áhrif á stúlkuna.

Vitnið D kvaðst vera fyrrverandi eiginkona ákærða. Sagði hún stúlkuna hafa gætt barna fyrir þau í nokkur skipti áður en meint atvik átti sér stað, líklega í fyrsta skiptið einhvern tímann haustið áður. Greindi vitnið frá því að ákærði hefði alltaf ekið stúlkunni heim. Kvaðst hún muna eftir því að þau hefðu rætt að hvað stúlkan væri þroskuð eftir aldri, falleg og kæmi vel fyrir. Hefðu þau vitað að stúlkan væri fermd og að hún hefði fermst árið áður en hún byrjaði að passa fyrir þau. Hefðu þau rætt að hún liti út fyrir að vera eldri en hún væri. Sagði hún að þeim hefði báðum verið ljóst að stúlkan væri 14 ára að aldri. Vitnið sagði að umrætt kvöld hefði stúlkan passað fyrir þau á meðan þau fóru út að borða og í bíó. Hefði hún sjálf verið gengin sex mánuði með yngsta barn þeirra á þessum tíma og verið þreytt. Hefði hún því farið að sofa er heim var komið. Hefði ákærði sagt að hann ætlaði að aka stúlkunni heim og ,,fara með bílinn í Löður“ og koma svo. Hefði hún ekki hugsað sérstaklega út í það, enda hefði ákærði gert það áður að fara með bílinn á sjálfvirka þvottastöð í Kópavogi eftir lokun. Hefði ákærði komið heim á milli 01.30 og 02 og hún þá verið hálfsofandi. Hefði hún ekki tekið eftir neinu sérstöku daginn eftir öðru en því en að ákærði hefði verið þreyttur. Spurð hvort hún hefði rætt málið við ákærða síðar kvað hún ákærða ekki hafa viljað ræða málið er hún hefði spurt hann.

H, vinkona brotaþola, kom fyrir dóminn. Sagðist hún hafa þekkt brotaþola í sjö ár og væru þær trúnaðarvinkonur. Þegar hún hefði sagt vitninu frá málinu hefði hún byrjað á því að segja frá því að ákærði og kona hans væru að skilja og að ákærði hefði alltaf verið að tala um hvað hún væri falleg og einu sinni reynt að kyssa hana. Sama kvöld hefði stúlkan hringt og sagt að hún hefði ekki sagt alla söguna. Hefði hún svo lýst því að ákærði hefði í umrætt skipti stöðvað bílinn, tekið hana yfir til sín, úr sínu sæti, og nauðgað henni með því að hafa við hana samfarir. Hefði brotaþola liðið mjög illa er hún sagði frá atvikinu, hefði hún grátið og átt erfitt með að tala. Ekki kvaðst hún hafa vitað af kynferðislegu tali á milli stúlkunnar og ákærða, en kvaðst hafa vitað til þess að þau ræddu mikið saman á MSN. Kvaðst vitnið nokkrum sinnum hafa verið viðstödd þegar hún spjallaði við ákærða. Kvað hún brotaþola hafa verið leiða eftir atvikið en að hún væri nú eins og áður.

Arnar Hauksson læknir gaf símaskýrslu og staðfesti skýrslu sína vegna skoðunar brotaþola á Neyðarmóttöku. Sagði hann skoðunina hafa sýnt að stúlkan væri þroskuð umfram aldur. Ekki hefði verið að finna neina áverka á henni. Meyjarhaft hefði ekki verið rofið. Hefði það verið eftirgefanlegt og mjúkt og þyrfti það því í sjálfu sér ekki að rofna fyrr en hugsanlega við fæðingu, jafnvel þótt samfarir ættu sér stað. Væri því út frá því ekki unnt að segja til um hvort hún hefði haft samfarir eða ekki.

Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur skýrði og staðfesti skýrslu sína. Kom fram hjá henni að sjálfsásakanir hefðu reynst stærsta áskorunin í meðferð brotaþola. Hefðu þær þurft að fara aftur og aftur í gegnum atburðinn, hvað stúlkan hefði getað gert öðruvísi og hvernig það hefði mögulega breytt því sem gerðist. Markmiðið hefði verið að hjálpa stúlkunni að átta sig á að hún hefði ekki haft stjórn á aðstæðum. Endurupplifanir hefðu aðallega snúist um þennan atburð. Kvað hún endurupplifanir hafa valdið því að stúlkan einangraði sig töluvert á tímabili. Hefðu henni þótt erfitt að brotna niður fyrir framan aðra og því hefði henni þótt betra að vera heimavið. Bar hún að málið hefði haft töluvert neikvæð áhrif á sjálfsmynd hennar. Stúlkan hefði farið að efast um eigið ágæti, útlit og eigin skoðanir. Hefði hún sagst óttast að hitta ákærða. Sagði hún að stúlkan myndi sækja meðferð hjá henni í einhvern tíma til viðbótar.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök og  kveðst ekki hafa viðhaft þá háttsemi gagnvart brotaþola sem lýst er í ákæru. Segir hann ekkert annað hafa gerst á milli þeirra en að hann hafi kysst hana á kinn í kveðjuskyni. Er hann var spurður hvort einungis hefði verið um að ræða koss á kinn kvaðst hann ekki muna það en vísaði hvað það varðar til skýrslu sinnar hjá lögreglu þar sem hann hélt því fram að hann hefði kysst hana innilega á opinn munninn. Einkenndi það mjög framburð ákærða fyrir dómi að hann kvaðst ítrekað ekki muna einstök atvik og kvað ástæðu þess vera höfuðhögg sem hann hefði hlotið í bílslysi í október sl. Engin gögn liggja þó fyrir sem staðfesta þær skýringar ákærða. Ákærði bar þannig við minnisleysi er hann var spurður út í þau MSN-samskipti við stúlkuna sem hann lýsti þannig hjá lögreglu að hefðu meðal annars snúist um kynlífstal eða „hvað okkur langaði til að gera hvort við annað í rauninni. Óábyrgt tal með engri framkvæmd“. Þá bar hann einnig við minnisleysi um það hvaða leið hann hefði ekið með stúlkuna umrædda nótt. Að þessu gættu er það álit dómsins að framburður ákærða sé ekki trúverðugur um samskiptin við brotaþola í greint sinn.

Eins og rakið hefur verið lýsti brotaþoli því í skýrslu sinni fyrir dómi hvernig ákærði hefði þröngvað henni til samræðis við sig og annarra kynferðismaka eins og nánar greinir í ákæru. Kvaðst hún hafa áður verið búin að finna fyrir kynferðislegum áhuga ákærða á sér en neitaði hins vegar eindregið þeim framburði hans hjá lögreglu, sem að framan er rakinn, um eitthvert kynferðislegt tal þeirra í milli eða að ákærði hefði fyrir umrætt atvik kysst hana ítrekað á munn. Fyrir liggur að stúlkan skýrði foreldrum sínum ekki frá því sem gerst hefði þegar hún kom heim um nóttina þrátt fyrir að hafa þá boðið þeim góða nótt. Skýrði hún ekki frá atburðum fyrr en um mánuði síðar, en þó í fyrstu einungis á þann veg að ákærði hefði reynt að nauðga henni og að hann hefði ekki gengið „alla leið“, eins og kom meðal annars fram í vætti foreldra hennar, B og E. Hann hefði kysst hana, káfað á brjóstum hennar og tekið hana úr buxunum. Það er síðan ekki fyrr en að liðinni viku þar á eftir sem stúlkan skýrði frá því að ákærði hefði „gengið alla leið“ eða sett lim sinn inn í hana og fellt til hennar sæði. Hefur stúlkan gefið þá skýringu hvað þetta varðar að ákærði hafi sagt við hana á leiðinni, eftir atvikið, að hún mætti ekki segja frá þessu því þá myndi það eyðileggja samband þeirra hjóna. Kvaðst hún hafa kunnað mjög vel við D og því ekki lagt í að segja frá vegna þeirra afleiðinga sem það kynni að hafa í för með sér fyrir hjónaband ákærða og D og þá einnig fyrir barnið sem hún hefði verið að passa. Hefur komið fram að áður en stúlkan skýrði frá í fyrra skiptið hafði hún fengið fréttir af skilnaði þeirra hjóna.

B, E, F, G, C og H hafa öll borið um það vitni fyrir dóminum hvernig stúlkan sagði þeim frá því sem gerðist í bifreið ákærða í greint sinn, og í hvaða ástandi hún hefði þá verið, og fara þær lýsingar mjög saman við lýsingu hennar fyrir dómi. Þá hefur Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur lýst frásögnum brotaþola og hvaða afleiðingar hún telur atvikið hafa haft fyrir stúlkuna. Loks ber hér til þess að líta að móðir stúlkunnar hefur lýst því að hún hafi séð hvíta bletti út um allt framan á buxum stúlkunnar þegar hún setti þær í þvott. Með hliðsjón af þessu, og eftir að hafa horft og hlýtt á upptöku af dómsframburði stúlkunnar og farið að öðru leyti vandlega yfir hann, er það niðurstaða dómsins að frásögn hennar sé trúverðug.

Af hálfu ákærða hefur því verið haldið fram að sú lýsing sem stúlkan hefur gefið á því hvernig ákærði færði hana úr buxum og setti hana ofan á sig geti ekki staðist miðað við að hann hafi setið við hlið hennar í framsæti bifreiðar ákærða. Fyrir liggja í málinu ljósmyndir af umræddri bifreið, sem meðal annars sýna innanrými hennar. Hins vegar liggja ekki fyrir ljósmyndir af umræddum buxum brotaþola. Þá hefur ekki farið fram sviðssetning á atvikinu sem gæti hafa varpað betra ljósi á þennan þátt málsins. Út frá fyrirliggjandi gögnum verður þó engan veginn talið ósennilegt eða útilokað að atburðarrásin í bíl ákærða hafi verið í samræmi við lýsingu brotaþola.

Þegar allt framangreint er metið heildstætt telur dómurinn að ekki sé varhugavert að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar niðurstöðu í málinu um að ákærði hafi í greint sinn haft þau kynmök við brotaþola sem í ákæru greinir.

Brotaþoli hefur lýst því að ákærði og D kona hans hafi spurt hana að því þegar hún byrjaði að gæta barna þeirra hvað hún væri gömul og hafi hún þá svarað því til að hún væri fjórtán ára. Hefur D staðfest þennan framburð. Hefur hún lýst því að þau hafi bæði vitað að stúlkan hafi fermst árið áður en hún byrjaði að passa fyrir þau. Hafi þau rætt að hún liti út fyrir að vera eldri en hún væri og að þeim hafi báðum verið ljóst að hún væri 14 ára gömul. Þegar ákærði var spurður út í þetta við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ekki muna þetta og vísaði um það til framburðar síns hjá lögreglu. Framburður hans hjá lögreglu var hins vegar ekki skýr, en þar hélt hann því fram í fyrstu að hann hefði talið stúlkuna vera fimmtán ára en virtist svo staðfesta það í síðari skýrslu að hann hefði vitað að hún hefði einungis verið fjórtán ára gömul á umræddum tíma. Að þessu virtu þykir fram komin sönnun um að ákærða hafi verið kunnugt um aldur stúlkunnar í greint sinn.

Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið hefur ákærði, sem þá var 32 ára, verið fundinn sekur um að hafa haft þau kynferðismök við brotaþola sem hann er ákærður fyrir, en hún var þá 14 ára. Það er niðurstaða dómsins að ákærði hafi haft yfirburðastöðu gagnvart brotaþola, bæði vegna aldurs og aflsmunar. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til þess sem að framan var rakið um mat dómsins á framburði brotaþola, telur dómurinn sannað að ákærði hafi beitt brotaþola ólögmætri nauðung við kynferðismökin. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Ákærði nýtti sér yfirburðaaðstöðu sína gagnvart stúlkunni og braut gegn sjálfsákvörðunarrétti hennar til að hafa við hana kynferðismök. Á ákærði sér engar málsbætur og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Af hálfu brotaþola er gerð krafa um að ákærði greiði honum miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur, að viðbættum vöxtum. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af sakfellingu ákærða verður hann dæmdur til að greiða henni miskabætur skv. b-lið 1. mgr. tilvitnaðs ákvæðis. Ákærði hefur með athöfnum sínum brotið alvarlega gegn fjórtán ára stúlkubarni. Með mat á fjárhæð þeirra verður litið til vottorðs og vættis Þóru Sigríðar Einarsdóttur sálfræðings auk þess sem hliðsjón er höfð af dómsvætti stúlkunnar sjálfrar, foreldra hennar og annarra skyldmenna og vina er um það báru fyrir dóminum. Að þessu gættu, og í ljósi þess að kynferðisbrot af því tagi sem hér um ræðir eru almennt talin valda þolanda margvíslegum sálrænum erfiðleikum, þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti eins og greinir í dómsorði.

Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara er útlagður sakarkostnaður við rannsókn málsins 32.000 krónur og verður ákærði dæmdur til að greiða hann. Ákærði greiði og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, þóknun hans fyrir réttargæslu á rannsóknarstigi og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákvarðast allt með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Mál þetta sótti af hálfu ákæruvaldsins Sigríður Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari.

Dóm þennan kveða upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari, sem dómsformaður, og héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg og Sigríður Ingvarsdóttir.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Gísli Birgisson, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Ákærði greiði A 800.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. maí 2008 til 2. janúar 2009 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði 450.000 króna réttargæslu- og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hrl., og 278.800 króna þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Valdimarsdóttur hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi.