Hæstiréttur íslands
Mál nr. 343/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 24. júní 2009. |
|
Nr. 343/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. júlí 2009 klukkan 16 og honum gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum verði ekki gert að sæta einangrun á gæsluvarðhaldstíma.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 22. maí 2009.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. júní 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 1. júlí 2009, kl. 16.00. Þess er krafist að X verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan hafi til rannsóknar ætlaðan stórfelldan innflutning á fíkniefnum til Íslands og að talið sé að innflutningurinn tengist flutningi á fíkniefnum frá Suður-Ameríku til Evrópu og dreifingu áfram um Evrópu. Þá sé til rannsóknar ætlað peningaþvætti á ætluðum ágóða af fíkniefnabrotum. Þá segir að rannsóknin sé mjög umfangsmikil og að talið sé að um sé að ræða skipulagðan glæpahring.
Í greinargerðinni segir ennfremur að hinn 20. apríl sl. hafi íslenskum lögregluyfirvöldum borist upplýsingar þess efnis að von væri á sendingu til Íslands sem innihéldi fíkniefni og að pakkinn yrði sendur með hraðflutningafyrirtækinu UPS. Hafi pakkinn borist til landsins 21. apríl sl. og reynst hann innihalda yfir 6 kg af amfetamíni. Efnin hafi verið í viðarolíuáldósum.
Lögreglu hafi og borist upplýsingar frá hollenskum lögregluyfirvöldum um að hollenskur karlmaður hefði verið í sambandi við símanúmerið [...]. Þar hefði verið rætt um skipulag á sendingu á ólöglegum fíkniefnum og að líklega yrðu þau falin í málningarfötum/viðarolíufötum. Samtölin hafi átt sér stað 16. og 19. apríl sl. Talið sé að notandi símanúmersins [...] sé kærði X, en lögreglumenn sem ítrekað hafi haft afskipti af kærða og hlustað á hann í símtölum telji að um sé að ræða kærða. Kærði kannist ekki við greind símtöl, en þau hafi verið send til samanburðarrannsóknar á því hvort um kærða sé að ræða eða ekki.
Þann 18. maí sl. hafi lögreglan séð þegar X hitti þrjá menn í Smáralind, gekk með þeim að bifreið er hann var á við verslunarmiðstöðina og afhenti þeim umslag, sem lögregla ætlar að hafi innihaldið peninga. Lögregla hafi upplýsingar um þá menn er X hitti fyrir og að einn þeirra hafi hringt í UPS hraðflutningafyrirtækið í Hollandi 20. apríl sl. til að spyrjast fyrir um kostnað við að flytja pakka til Íslands. Pakkinn sem haldlagður hafi verið hér á landi muni hafa verið sendur frá Hollandi síðar sama dag. Í greinargerðinni segir að mennirnir sem X hitti við Smáralind séu allir útlendingar, en þeir hafi verið handteknir við komu til Hollands frá Íslandi, þar sem þeir séu grunaðir um aðild í stórfelldum fíkniefnabrotum.
Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi X borið um að hann hafi sótt þrjá menn, alla útlendinga, út á Keflavíkurflugvöll 15. maí sl., en mennirnir séu kunningjar hans. Hafi hann lánað þeim bifreið sína er þeir dvöldu hér á landi og hafi X tekið að sér að skipta 1.700.000 íslenskum krónum fyrir þá í evrur. Hafi hann hitt þá við Smáralind vegna þessara peningaviðskipta.
Hinn 22. maí sl. hafi kærði verið handtekinn á heimili sínu að [...]. Við leit á heimilinu hafi fundist lítilræði af ætluðu maríjúana og 1.200.000 krónur í peningum. Á ætluðum vinnustað hans, [...], hafi verið haldlagðar 695.000 krónur í peningum, sem fundist hafi í íláti uppi á hillu baka til í versluninni.
Auk framangreinds hafi lögregla upplýsingar um að bæði kærði [...] og þeir aðilar sem hann hitti við Smáralind hafi ítrekað heimsótt Y í fangelsið að Litla-Hrauni þar sem hann afpláni nú dóm. Þá hafi Z einnig heimsótt Y ítrekað. Sé talið að greindar heimsóknir tengist ætluðum stórfelldum fíkniefnabrotum, enda þyki upplýsingar, sem fengnar hafi verið með hlustunum á grundvelli dómsúrskurða, benda til þess að svo sé. Hafi Y og Z verið handteknir og sæti nú gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar.
Í málinu liggi nú fyrir grunur um tengsl kærða við umfangsmikil fíkniefnabrot. Í tengslum við þau hafi aðilar verið handteknir hér á landi, víðar í Evrópu og í Suður-Ameríku. Meðal þeirra séu þeir menn sem ætlað sé að X hafi afhent peninga við Smáralind þann 18. maí sl. Í tengslum við rannsóknina hafi verið lagt hald á mörg tonn af sykurvökva, sem talinn sé innihalda hundruð kílóa af kókaíni, en um sé að ræða ætlaðan flutning fíkniefna frá Suður-Ameríku til Evrópu og dreifingu um Evrópu. Þá snúi hluti rannsóknarinnar að ætluðu peningaþvætti í tengslum við hin ætluðu fíkniefnabrot.
Í greinargerðinni segir að lögreglu hér á landi hafi verið að berast upplýsingar erlendis frá um tengingar á milli símanúmers, sem kærði X hafi kannast við að hafa notað, og aðila sem talinn sé umfangsmikill í fíkniefnabrotum og skipulagðri glæpastarfsemi, en greindur aðili hafi verið handtekinn í Hollandi í þágu rannsóknar málsins. Þá liggi fyrir upplýsingar um einhvers konar “kóða” sem aðilar noti sín á milli. Er kærði X hafi verið handtekinn í þágu rannsóknar annars stórfellds fíkniefnamáls hér á landi í október sl. hafi fundist sambærilegur kóði í skrifstofuhúsnæði hans. Sé talið um sé að ræða samskiptaleið á milli aðila í skipulagðri glæpastarfsemi.
Rannsókn lögreglu snúi að þáttum er varði aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. Yfirheyrslur hafi farið fram yfir öðrum sakborningum og vitnum í málinu og standi yfirheyrslur enn yfir í þágu rannsóknarinnar. Rannsóknin sé unnin í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og hafi hluti af gögnum tengdum þeirra hluta í rannsókninni borist hingað til lands. Hluti gagnanna hafi ekki borist, enda standi rannsóknin enn yfir. Þá hafi borist beiðnir erlendis frá um upplýsingar í tengslum við rannsóknina hér á landi.
Rökstuddur grunur sé um stórfellt fíkniefnabrot og peningaþvætti X. Nauðsynlegt sé talið að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn og/eða vitni og/eða að hann geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafi í málinu og hafa ekki verið haldlögð. Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að X sæti áfram gæsluvarðhaldi og að hann verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Loks segir í greinargerðinni að til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun.
Samkvæmt gögnum málsins er fram kominn rökstuddur grunur um aðild kærða að stórfelldum fíkniefnabrotum og peningaþvætti og geta brot hans varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins stendur enn yfir og er í fullum gangi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu er hætta á því að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á framburð vitna og annarra sakborninga, eða komi sönnunargögnum undan. Með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti áfram gæsluvarðahaldi. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 er jafnframt fallist á að kærði skuli látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. júlí 2009, kl. 16.00.
Kærði skal látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi stendur.