Hæstiréttur íslands

Mál nr. 505/2006


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. mars 2007.

Nr. 505/2006.

 X

(Brynjar Níelsson hrl.                            

 Jóhannes Ásgeirsson hdl.)

gegn

Félagsmálaráði Kópavogs

(Helgi Birgisson hrl.

 Ólafur Örn Svansson hdl.)

 

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.

Félagsmálaráð K krafðist þess að X yrði svipt forsjá tveggja sona sinna sem fæddir eru 2003 og 2005. Undir rekstri málsins í héraði var dómkvaddur matsmaður sem taldi X ekki vera færa til að fara með forsjá sona sinna, einkum vegna langvarandi fíkniefnaneyslu hennar. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var gerð grein fyrir afskiptum Félagsmálaráðs K af málefnum X og þess að ekki hefðu aukist líkur á því að hún gæti tekist á við þær skyldur sem forsjá sona hennar krefðist frá því að ákvörðun um höfðun málsins hefði verið tekin. Með vísan til fyrirliggjandi matsgerðar, vitnisburðar matsmanns fyrir dómi og þess sem fyrir lá um hagi X var talið að skilyrðum fyrir forsjársviptingu samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 væri fullnægt og að önnur vægari úrræði kæmu ekki að haldi.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2006. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, X, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. f.m., er höfðað 1. desember 2005 af Félagsmálaráði Kópavogs, Fannborg 2 í Kópavogi, á hendur X, [...] í Kópavogi.

             Í málinu gerir stefnandi þá dómkröfu að stefnda verði með dómi svipt forsjá sona sinna, A [...], og B, [...].

             Stefnda krefst sýknu af kröfu stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

I.

             Sú dómkrafa sem stefnandi hefur uppi í málinu er grundvölluð á a. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en þar er kveðið á um að barnaverndarnefnd sé heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur: a. að daglegri umönnun, uppeldi, eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska eða d. fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna fíkniefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Er aðild stefnanda að málinu byggð á 4. mgr. 10. gr. laganna, en þar segir að sveitarstjórn sé heimilt að fela félagsmálanefnd störf barnaverndarnefndar.

II.

Í stefnu er gerð grein fyrir ástæðum þess að stefnandi hóf í ársbyrjun 2004 að hafa afskipti af stefndu og syni hennar hennar A, sem fæddist 13. ágúst 2003. Þar er einnig lýst framvindu málsins, einkum í kjölfar þess að stefnda eignaðist soninn B [...] 2005 og allt þar til tekin var ákvörðun um höfðun forsjársviptingarmáls. Fer þessi greinargerð hér að eftir, en hún er studd gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu.

Í lok janúar 2004 barst stefnanda tilkynning frá barnadeild Landspítalans um hugsanlega fíkniefnaneyslu stefndu, en A lá þá á deildinni eftir að hafa undirgengist hjartaaðgerð. Hafi stefnda komið á sjúkrahúsið aðfaranótt 29. janúar í fylgd unnusta síns, C, og þá verið í annarlegu ástandi. Hafi þeim verið vísað út af sjúkrahúsinu af þessum sökum. Fram komi í gögnum frá sjúkrahúsinu að í upphafi dvalar drengsins hefðu foreldrar skipst á að vera hjá honum, en í lok dvalarinnar hafi það eingöngu verið faðir hans, D, sem hafi sinnt honum. Stefnda hafi viðurkennt á þessum tíma að vera í neyslu örvandi lyfja. Hún hafi verið innrituð á Vog 3. febrúar. Í vottorði Valgerðar Rúnarsdóttur læknis 18. mars 2004 komi fram að ekki hafi náðst mikið meðferðarsamband við stefndu og hún hafi ákveðið sjálf á 7. degi meðferðar að fara heim. Stefnda hafi fengið útskrift fyrir tímann með tilvísun á göngudeild SÁÁ, þar sem fyrirhugaður var þriggja vikna daglegur stuðningur.

Hinn 23. febrúar 2004 ritaði Þórarinn Tyrfingsson, yfirlækni á Vogi, Félagsþjónustu Kópavogs bréf þar sem meðal annars segir svo um stefndu:

„Um er að ræða tvítuga stúlku sem hefur innritast á Sjúkrahúsið Vog einum 5 sinnum frá því í desember 2001. Í öll þessi skipti hefur X yfirgefið Sjúkrahúsið Vog án samráðs við starfsfólk hér. Síðast dvaldist hún hér frá 03.02.04-09.02.04, greindist hér fíkin í örvandi vímuefni og fékk afeitrunarmeðferð samkvæmt því. Lítil meðferðartengsl náðust við sjúkling á þessum fáu dögum og hún útskrifaði sig án samráðs við starfsfólk en er vísað í áframhaldandi stuðning og meðferð á göngudeild SÁÁ í Síðumúla. Batahorfur verða að teljast litlar í ljósi þess að sjúklingur hefur átt við langvarandi vímuefnavanda að stríða þó ungur sé og enginn raunhæf meðferðaráætlun virðist nú í gangi.“

Að beiðni stefnanda var Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur fengin til þess að meta hæfni stefndu til að sjá um uppeldi og aðbúnað barns. Forsjárhæfnismatið fór fram á tímabilinu 16. mars til 26. apríl 2004. Í greinargerð sálfræðingsins, sem dagsett er 29. apríl 2004, segir meðal annars: 

„Í neyslu verður X óhæf til allra verka, hættuleg sjálfri sér og öðrum og til mikils ama fyrir allt nánasta umhverfi hennar. Áhrif vímugjafa kalla fram alla þá verstu þætti sem X hefur að bera í fari sínu. [...] Fíkniefnaneysla er því stærsti áhættuþátturinn þegar foreldrahæfni X er skoðuð. [...] Í ljósi erfiðra persónuleikaeinkenna sem X hefur sýnt að hún hafi að bera má hafa af því nokkrar áhyggjur að þegar henni finnist henni ekki lengur ógnað að hálfu barnaverndaryfirvalda gæti hún talið sér trú um að henni sé óhætt að neyta vímugjafa. Til að koma í veg fyrir að vítahringur neyslu og endurbóta vari mánuðum og jafnvel árum saman er mikilvægt að X sé gert ljóst að hefji hún neyslu að nýju séu möguleikar hennar á að vera treyst sem foreldri að engu orðnir í það minnsta verulega skertir.“ Í niðurlagi greinargerðarinnar segir sálfræðingurinn það vera mat sitt að á meðan fíkniefni rati ekki inn í líf stefndu sé hún vel hæf sem móðir og að þá þurfi ekki að óttast um soninn A.

Hann 1. apríl 2004 var mál stefndu að nýju lagt fyrir stefnanda. Þar sem góð samvinna hafði náðst við stefndu og líf hennar tekið miklum breytingum til hins betra var ákveðið að sonur hennar færi aftur í umsjá hennar. Gerð var ný áætlun um málsmeðferð þar sem fram kom að stefnda skyldi mæta reglulega í viðtöl til starfsmanns, eftirlit yrði með heimili hennar, hún lyki sálfræðiathugun og héldi áfram meðferðarviðtölum.

Hinn 1. ágúst 2004 var gerður samningur við stefndu um þátttöku hennar í Grettistaki til 30. nóvember 2004, en það er endurhæfingin fyrir áfengis- og vímuefnasjúka sem hafa lokið meðferð og vilja ná bata. Í október 2004 var samþykkt beiðni stefndu um áframhaldandi endurhæfingaráætlun hennar út mars 2005.

Hinn 2. desember 2004 var mál stefndu lagt fyrir fund stefnanda og þar ákveðið að „útskrifa málið“ í ljósi þess að stefnda hefði verið í góðri samvinnu frá því í apríl 2004.

Í desember 2004 upplýsti stefnda starfsmann stefnanda að hún ætti von á barni með þáverandi kærasta sínum, C, í mars 2005. Sonurinn B fæddist þann [...] 2005, tveimur mánuðum fyrir tímann.

Í maí 2005 var unnið að áframhaldandi þátttöku stefndu í Grettistaki, meðal annars með undirbúningi að námi hennar í Menntaskólanum í Kópavogi. Eldri sonur hennar fékk á sama tíma inni á leikskóla og stefnda fékk dagmóður fyrir yngri drenginn.

Í júní 2005 leitaði stefnda í meðferðarheimilið Byrgið og gaf þá skýringu að hún væri í áfalli vegna þess að C barnsfaðir hennar hefði fallið. Dvaldi hún þar þann mánuð.

Hinn 9. júlí 2005 hafði lögregla afskipti af stefndu og C. Er eftirfarandi bókað um þessi afskipti í dagbók lögreglu: „Tilkynnt um að meðhöndlun á fíkniefnum færi fram í bifreiðinni [...] og [...] flytja aðila og bifreið að [...]. Meint fíkniefni fundust á ökumanni, hann handtekinn og fluttur á lögreglustöðina Hverfisgötu.“ Í bifreiðinni voru stefnda og C með B, 5 mánaða son sinn.

Samkvæmt dagbók lögreglunnar í Kópavogi var hún kölluð að heimili móður stefndu, E, að kvöldi 17. júlí 2005. Ástæða útkallsins var sú að E, sem var að passa drengina, vildi ekki afhenda stefndu og C þá, þar sem hún taldi að þau væru í annarlegu ástandi og að hún hefði áhyggjur af því að ekki yrði hugsað um börnin. Bakvaktarstarfsmaður stefnanda kom á heimili stefndu skömmu síðar, en ákvað að aðhafast ekkert þar sem erfitt hafi verið staðfesta hvort stefnda og C væru undir áhrifum lyfja eða ekki.

Stefnda var boðuð í viðtal hjá starfsmönnum stefnanda daginn eftir og neitaði hún staðfastlega að vera í neyslu. Þann 27. júlí 2005 voru stefnda og C boðuð í viðtal, en þau létu ekki sjá sig og boðuðu ekki forföll.

Hinn 2. ágúst 2005 barst stefnanda bréf frá F, starfsmanni húsnæðisnefndar Kópavogs, vegna kvartana sem höfðu borist frá íbúum fjöleignarhússins að [...] í Kópavogi þess efnis að í íbúð stefndu hefðist við ólánsfólk og grunur væri um að fíkniefnasala færi fram í íbúðinni. Einnig höfðu F borist hringingar frá iðnaðarmönnum, sem unnu við lagfæringar á húsinu, um neyslu fíkniefna íbúa og mikið ónæði af þeirra völdum.

Hinn 26. ágúst 2005 barst stefnanda bréf frá Heilsugæslu Kópavogs, Smárahvammi, um stefndu og syni hennar tvo. Þar segir meðal annars svo:

„[B:] Umhirða/aðbúnaður: Hann fær þurrmjólk og graut. Til stendur að gefa honum fjölbreyttara matarræði. Barn reynir ekki að velta sér til hliðanna þó leikföng séu sett hjá. Situr ekkert.  Nokkuð greinilegt er að lítil rækt hefur verið lögð í að örva barnið. Móðir gefur þá skýringu að hún geti hvergi æft barnið vegna þess að eldri bróðir væri svo vondur við þann litla. Samskipti við móður: Móðirin hefur svör við spurningum okkar og segist framkvæma flest eins og maður leggur til. Konan er ör og fremur hranaleg við eldri drenginn.

Eldri bróðir: Ég hef áhyggjur af þessum litla dreng. Hann setti í brýrnar (sýndi reiði) við alla hér á biðstofunni og skammaðist á „sínu máli“. Greip leikföng og grýtti þeim. Honum líður greinilega mjög illa. Móðirin skammaði hann í sífellu.“

Stefnda hóf nám í Menntaskólanum í Kópavogi í september 2005. Mætingar hennar voru lélegar og að lokum hætti hún náminu og rauf með því endurhæfingarsamninginn (Grettistak).

Hinn 11. október 2005 var stefnda boðuð í viðtal hjá starfsmanni stefnanda, en hún hvorki mætti né afboðaði. Reynt var ítrekað að ná sambandi við hana símleiðis, en án árangurs.

Hinn 13. október 2005 hafði E, móðir stefndu, samband við starfsmann stefnanda og sagði B hjá sér. Stefnda væri í neyslu og héldi til hjá manni í Grafarvogi. Jafnframt upplýsti hún að eldri drengurinn hefði undanfarnar tvær vikur verið hjá föður sínum vegna neyslu móður.

Hinn 14. október 2005 barst starfsmanni stefnanda bréf frá Slysa- og bráðadeild G2, Fossvogi, þar sem eftirfarandi kemur meðal annars fram:

„X á að baki langa sögu um fíkniefnanotkun. Hún hefur sprautað sig með ýmsum efnum: amfetamíni, rítalíni, parkódíni fl. Hún er jákvæð fyrir lifrabólgu C. Hún á að baki nokkrar komur á Slysa- og bráðadeild LSH ýmist í tengslum við fíkn sína, vegna slysa  eða annarra minniháttar heilsuvandamála. Árið 2002 lagðist hún inn vegna paracetamólseitrunar eftir neyslu parkódíns. Mun ekki vera um sjálfsvígstilraun að ræða heldur ofneyslu vegna fíknar í kódein. [...] Þann 25/07 sl. kom hún í fylgd bróður síns í kjölfar fíkniefnaneyslu. Hafði hún tekið Amfetamin, Ecstasy, Mogadon, Tafíl og mögulega enn fleiri lyf. Hún var meðofskynjanir og sýndi undarlega hegðun þar sem hún gekk um og gelti á fólk. Við skoðun var hún frekar ör, sýndi afbrigðilega hegðun og var greinilega undir áhrifum örvandi efna. Það voru engar áverkaverkanir né annað markvert við skoðun. Hún var ekki með sjálfsvígshugmyndir og sýndi engan áhuga á að fá aðstoð vegna fíknar sinnar. Hún útskrifaðist heim að lokinni skoðun, meðferð og eftirliti hér. 11. sept. síðastliðinn kom hún aftur á Slysa- og bráðadeild vegna meintra kvíðaeinkenna, þá líkast til í  lyfjaleit en fékk þó engin.“

Hinn 25. október 2005 kom stefnda í viðtal hjá starfsmanna stefnanda ásamt C barnsföður sínum. Fram kom í viðtalinu að hún hefði verið á Vogi og útskrifað sig eftir fjóra daga. Kvaðst hún ekkert hafa þar að gera. Hún hafi leitað á Vog vegna þunglyndis, en ekki verið í neinni neyslu í tvö ár. Stefnda samþykkti á fundinum að drengirnir myndi áfram dvelja þar sem þeir væru til 3. nóvember, en þá yrði mál hennar tekið fyrir hjá stefnanda. Stefnda mætt á fund hjá stefnanda þann dag ásamt lögmanni og móður sinni. Hún var þá undir áhrifum fíkniefna og yfirgaf fundarstaðinn áður en komið var að umfjöllun og afgreiðslu á máli hennar Á fundinum kvað stefnandi upp þann úrskurð að synir stefndu skyldu dvelja áfram þar sem þeir væru í allt að tvo mánuði á grundvelli a. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Jafnframt tók stefnandi þá ákvörðun að höfða það mál sem hér er til meðferðar.

Auk alls framanritaðs er í stefnu gerð nokkur grein fyrir högum stefndu áður en afskipti stefnanda af henni hófust. Í þeirri umfjöllun og gögnum málsins kemur fram að stefnda leiddist snemma út í áfengis- og fíkniefnanotkun. Þannig hafi hún sumarið 2000, þegar hún var 16 ára gömul, verið vistuð á meðferðarheimili vegna hegðunarvanda og misnotkunar fíkniefna. Hún hafi dvalið á þremur meðferðarheimilum af þessum sökum allt til janúarloka 2001. Þá hafi hún farið til Bandaríkjanna og hafið þar nám í gistihúsaskóla. Hún hafi komið aftur til Íslands árið 2002. Líf hennar frá því að hún kom heim frá Bandaríkjunum og þar til hún varð ófrísk í fyrra skiptið hafi einkennst af neyslu vímuefna og dvöl á meðferðarheimili fyrir vímuefnaneytendur. 

Að því er málsástæður varðar vísar stefnandi til þess að í 1. og 2. gr. barnaverndarlaga sé lögfest sú meginregla að foreldrum beri að búa börnum sínum viðunandi uppeldis­aðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Barnaverndar-yfirvöldum sé falið það verkefni að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð, en leitast skuli við að ná því mark­miði með því að styrkja fjölskyldur í upp­eldis­hlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.

Eins og rakið sé hér að framan hafi málefni stefndu verið til meðferðar hjá stefnanda frá upphafi árs 2004. Fljótlega hafi náðst góð samvinnu við stefndu og við tekið tímabil meðferðar og endurhæfingar þar sem stefnda hélt sig frá áfengi og öðrum vímuefnum. Hafi mál þróast á þann veg að stefnandi hafi hætt afskiptum sínum 2. desember 2004. Eftir að stefnda eignaðist sitt seinna barn í janúar 2005 hafi hallað undan fæti hjá henni. Virðist ljóst að áhyggjur Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings um að stefnda kynni að hefja vímuefnaneyslu að nýju þegar henni finnist henni ekki lengur ógnað af hálfu barnaverndaryfirvalda hafi gengið eftir.

                 Þrátt fyrir óyggjandi upplýsingar um neyslu stefndu hafi hún neitað öllu slíku. Samvinna barnaverndaryfirvalda við hana hafi því verið erfið á þessu ári vegna afneitunar hennar á vímuefnavanda sínum. Þegar hún sé í neyslu sé daglegri umönnun drengjanna og uppeldi af hennar hálfu alvarlega ábótavant. 

                 Þó að stefnda sé aðeins 22 ára eigi hún sér langa sögu misnotkunar áfengis og vímuefna og eigi að baki fjölmargar meðferðir sem engum árangri hafi skilað. Stefnda hefur 6 sinnum farið í meðferð hjá Byrginu frá miðju ári 2002 þangað til í febrúar 2004. Ekki hafa borist upplýsingar frá Byrginu um innlagnir frá þeim tíma og til dagsins í dag, en vitað sé að þær séu nokkrar. Samkvæmt upplýsingum frá Vogi frá því í febrúar 2004 eigi stefnda að baki 5 innlagnir síðan 2001 og engri þeirra hafi hún lokið. Upplýsingar frá þeim tíma og til dagsins í dag hafi ekki borist. Af meðferðarsögu stefndu telur stefnandi ólíklegt að hún hafi getu til að bæta stöðu sína til lengri tíma litið sem uppeldisaðili barna sinna.

Stefnda hafi slitið sambandi sínu við C föður yngri sonar síns síðastliðið sumar og búið eftir það með synina í leiguíbúð Félagsþjónustu Kópavogs að [...], Kópavogi. Þau hafi aldrei verið skráð í sambúð og stefnda ein farið með forsjá bæði yngri og eldri sonarins. Síðasta sumar hafi tilkynningar borist frá opinberum stofnunum, einstaklingum og ættingjum stefndu þess efnis að hún væri í neyslu. Frá því í byrjun október síðastliðinn hafi yngri sonurinn, B, verið hjá föðurömmu sinni, G, og eldri sonurinn, A, hjá D föður sínum og sambýliskonu hans. 

A hafi byrjað í leikskóla 1. september 2005 og í bréfi frá skólanum 28. október 2005 komi meðal annars eftirfarandi fram: „A er glaðlyndur, duglegur, skýr og opinn strákur. Hann er duglegur að leika sér, jákvæður og alltaf til í að taka þátt í öllu.“ Um samskipti við stefndu segir: „Fyrstu 4 vikur leikskóladvalar A var hann hjá móður sinni og mætti hann þá ekki alltaf og var oft að koma seint á morgnana og kom þá nokkrum sinnum fyrir að hann var sóttur seint. Þessar vikur voru margir sem komu með og sóttu A á leikskólann. Móðir hans kom stundum, móðurbróðir, fósturpabbi, fósturamma, vinur móður og fleiri sem við vissum ekki hvernig tengdust A. Starfsfólkið á deildinni er ekki í miklum tengslum við móðurina þar sem við höfum ekki haft mikið af henni að segja, t.d. var hún ekki sjálf með honum í aðlöguninni.“ Um samskipti við föður segir: „Undanfarnar 4 vikur hefur hann dvalið hjá föður sínum og hefur hann þá mætt reglulega, er kominn kl. 8 og er sóttur á réttum tíma. Þessar 4 vikur hefur faðir hans alltaf komið með hann á morgnana og nánast alltaf föðurafi hans sótt hann. Starfsfólkið á deild A er í ágætum tengslum við föður hans og sýnir hann greinilegan áhuga á líðan drengsins í leikskólanum.“

Á stuttri ævi A hafi stefnda verið mikið frá honum. Hún eigi margar innlagnir á meðferðarstofnanir að baki án þess að hafa náð árangri. Þegar A var fimm mánaða og þurfti að ganga undir alvarlega hjartaaðgerð hafi ekki verið hægt að stóla á að móðir væri til staðar og nauðsynlegt hafi reynst að vísa henni í burtu eins og áður hefur komið fram vegna neyslu.

Eins og áður hefur verið rakið séu báðir synir stefndu farnir að bera merki vanrækslu. Líðan A hafi þó greinilega batnað eftir að hann fór til föður. Engu að síður sé brýnt að mati stefnanda að grípa sem fyrst til varanlegra ráðstafana í málefnum bræðranna áður en þeir bíði frekara tjón. Starfsmenn stefnanda hafi reynt að vanda eins og kostur er til meðferðar og könnunar þessa máls. Mikil vinna hafi verið lögð í að aðstoða stefndu og leiðbeina henni, en án árangurs. Það sé mat stefnanda að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum gagnvart stefndu en sviptingu forsjár. Eldri syninum verði best tryggð viðunandi uppeldiskilyrði með áframhaldandi veru hjá föður, en þeim yngri með langtímafóstri.

                 Miðað við að­stæður í þessu máli og þau at­riði sem rakin hafa verið hér að framan telur stefnandi sýnt fram á að stefnda sé ekki fær um að veita sonum sínum það öryggi og þá umönnun sem þeir hafa þörf fyrir. Telur stefnandi að daglegri umönnun og uppeldi hjá stefndu og samskiptum við drengina sé alvarlega ábótavant. Fullvíst megi telja að á heimili stefndu sé líkamlegri eða andlegri heilsu drengjanna og þroska hætta búin sökum þess að stefnda sé augljóslega vanhæf til að fara með forsjána vegna fíkniefnaneyslu. Þannig eru að mati stefnanda uppfyllt skilyrði a. og d. liða 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá.

                 Stefnandi byggir kröfur sínar á ákvæðum barn­a­verndarlaga nr. 80/2002 og vísar auk framangreindra ákvæða sér­stak­lega til 1., 2. og 4. gr. laganna og ákvæða í III., VI. og VIII. kafla þeirra.

II.

              Stefnda byggir sýknukröfu sína í málinu á því að engin efni standi til forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga. Þótt ekki sé þrætt fyrir að stefnda hafi átt við vímuefnavanda að stríða sé að hennar mati unnt að tryggja þau markmið sem fjallað er um í 1. og 2. gr. laganna með öðrum hætti en forsjársviptingu. Í 7. mgr. 4. gr. þeirra sé gert ráð fyrir að ávallt skuli beitt vægustu ráðstöfunum til að ná markmiðum sem að er stefnt. Því skuli aðeins beita íþyngjandi ráðstöfunum ef lögmæltum markmiðum verður ekki náð með öðru eða vægara móti. Stefnda telur að auðveldlega sé hægt að ná markmiðum laganna með öðrum hætti en forsjársviptingu. Samvinna stefndu við stefnanda hafi hafist í ársbyrjun 2004 og vel hafi tekist til, reyndar svo vel að stefnandi hafi hætt afskiptum sínum af stefndu í desember þetta ár. Stefnda hafi síðan hafið neyslu fíkniefna aftur í júní 2005 og afskipti stefnanda af henni þá hafist að nýju. Þó að erfiðleikar hafi komið upp í samskiptum stefnanda og stefnda seinni hluta árs 2005 telur stefnda í greinargerð sinni að ekki sé útséð með að önnur og vægari úrræði en forsjársvipting geti dugað til. Að mati hennar sé verið að grípa of fljótt til verulega íþyngjandi ráðstafana án þess að fullreynt sé með önnur og vægari úrræði. Ekkert sé því til fyrirstöðu að samvinna við stefnanda geti orðið eins og góð og hún var á árinu 2004. Erfiðleikar í samskiptum aðila á seinni hluta árs 2005 þurfi ekki að koma í veg fyrir það. Vísar stefnda sérstaklega til fyrirliggjandi forsjárhæfnismats Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings, þar sem fram komi að hún sé undir eðlilegum kringumstæðum vel hæf móðir. Meðan á neyslu fíkniefna standi sé stefnda hins vegar óhæf til allra verka og sé ekki um það deilt, enda eigi það við um alla sem eru í slíkri neyslu. Með því að önnur og vægari úrræði en forsjársvipting hafi ekki verið fullreynd bresti lagaheimild fyrir dómkröfu stefnanda í málinu. Þá byggir stefnda jafnframt á því að skilyrði fyrir forsjársviptingu samkvæmt a. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu ekki uppfyllt. Þannig sé í fyrsta lagi til þess að líta að fíkniefnaneysla stefndu hafi jafnan staðið yfir í skamman tíma og hún þá komið börnum sínum fyrir annars staðar. Í öðru lagi liggi ekki fyrir í málinu fullnægjandi gögn um að daglegri umönnun og uppeldi barnanna hafi verið verulega ábótavant. Í þriðja lagi skorti gögn um það að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna hafi verið hætta búin vegna fíkniefnaneyslu stefndu.  

III.

             Þegar stefnandi tók um það ákvörðun á fundi 3. nóvember 2005 að mál þetta skyldi höfðað lá fyrir greinargerð sem Jónína Gunnarsdóttir félagsráðgjafi hafði tekið saman vegna málsins. Í greinargerðinni var framvinda þess rakin með hliðsjón af gögnum sem henni fylgdu. Framangreinda ákvörðun sína rökstuddi stefnandi með eftirfarandi hætti: „Hér er um að ræða tvo drengi [...] sem lúta forsjá móður sinnar X sem átt hefur við fíkniefnavanda að stríða til margra ára. Drengirnir hafa þurft að búa við óöryggi og vanrækslu frá fæðingu og eru farnir að bera þess merki. Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslu Kópavogs, Smárahvammi, er yngri drengurinn farinn að bera greinileg merki vanörvunar og sá eldri merki vanlíðunar, sem sýna sig m.a. í því að hann er að skammast, grýta leikföngum. Yngri drengurinn hefur ítrekað verið hjá föðurömmu sinni þegar móðir hefur farið á meðferðarstofnanir eins og Byrgið og Vog og sá eldri hefur verið hjá föður sínum og móðurömmu. Hafa þeir báðir verið í umönnun annarra frá því í byrjun október sl. X [...] á að baki margar meðferðir sem ekki hafa skilað neinum árangri (sic) eins og fram kemur í greinargerð félagsráðgjafa. Hún neitar allri neyslu en ber fyrir sig m.a. þunglyndi en þær upplýsingar sem fyrir liggja benda þó eindregið til þess að hún sé í fíkniefnaneyslu eins og upplýsingar frá húsnæðisdeild Félagsþjónustunnar í Kópavogi, lögreglu, slysa- og bráðadeild G2, Fossvogi, og læknisvottorð frá Vogi. Móðir hefur ítrekað verið boðinn stuðningur sem hún hefur ekki getað nýtt sér eins og í formi meðferðarviðtala og þátttaka í endurhæfingarprógramminu Grettistak.“

Í þinghaldi í málinu 24. febrúar sl. var, að beiðni stefndu, dómkvaddur maður til að meta forsjárhæfni hennar. Var í dómkvaðningu meðal annars tekið fram að tengsl drengjanna við stefndu yrðu könnuð sérstaklega, svo og félagslegar aðstæður hennar með tilliti til heimilisaðstæðna, fjárhagsstöðu, atvinnu, framfærslu og framtíðaráforma. Er matsgerð Einars Inga Magnússonar sálfræðings dagsett 18. apríl 2006. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að hæfni stefndu til að fara með forsjá sona sinna og búa þeim eðlileg uppeldisskilyrði sé verulega skert. Komi þar bæði til hennar eigið getuleysi til að skapa slíkar forsendur þar sem hennar þarfir gangi að jafnaði fyrir, hún hafi ekki haft viljaþol til þess að veita drengjunum forgang í lífi sínu heldur þráfaldlega gefist upp fyrir eigin veikleikum og verið fjarri þeim í langan tíma vegna fíkniefnaneyslu. Þá sé öll hennar umfjöllun um uppeldisaðferðir og uppeldisskilyrði losaraleg og yfirborðskennd. Sökum ungs aldurs drengjanna hafi ekki verið gerlegt að kanna tengsl af þeirra hálfu til stefndu á sjálfstæðan hátt, en þó hafi komið fram viss vísbending um nokkur tengsl eldri drengsins við hana. Um félagslegar aðstæður stefndu segir að hún haldi ekki sjálfstætt heimili. Hún hafi í samtölum við matsmann nefnt að hún hefði í hyggju að fá sér leiguhúsnæði, en þau áform hennar hafi verið óljós. Þá hafi hún látið þess getið í símtali sem hún átti við matsmann að hún stefndi að því að komast að á meðferðarheimili strax að loknum páskum, það er um miðjan apríl síðastliðinn. Framfærslugeta stefndu ráðist alfarið af fjárhagsaðstoð frá félagsþjónustunni. Hún hafi nánast enga vinnusögu eða starfsreynslu að baki og þörf sé á mikilli þjálfun og undirbúningi af hennar hálfu áður en hún verði fær um að hefja störf á vinnumarkaði. Fyrsta skrefið á þeirri vegferð væri að hún héldi sig frá fíkniefnum í mjög langan tíma, en hana hafi brostið úthald til þess. Þau framtíðaráform sem stefnda hafi nefnt í samtölum við matsmann séu skammtímaáform.

Í matsgerð kemur fram að á matsfundi 8. mars 2006 hafi verið upplýst að X byggi í húsnæði trúfélagsins Krossins í Kópavogi og ynni á matsölustað. Á þessu varð breyting nokkrum dögum síðar. Þannig er að því vikið í matsgerðinni að stefnda hafi neytt fíkniefna 11. mars og hún hafi verið gripin af lögreglu fyrir meint hnupl í vímuástandi. Hún sé nú án atvinnu og hafi ekkert fast heimili.

Í samantekt í niðurlagi matsgerðar segir svo: „Það er ljóst að langvarandi  fíkniefnaneysla þar sem allar gerðir fíkniefna koma við sögu m.a. í sprautuformi eins og X hefur tjáð undirrituðum og staðfest er og talið upp í umsögnum tveggja sjúkrastofnana, sem hafa haft með mál hennar að gera, hafa haft mótandi áhrif á persónuleika hennar og hegðun. Mörg frávikaeinkenni hafa mælst í persónuleika og hegðun X, s.s. andfélagslegir þættir, hvatvísi, depurð og mikil reiði í mjög langan tíma og nú nýlega jafnframt sjálfsvígshugsanir og jafnvel ætlanir á því sviði. Þessir þættir stríða mjög gegn heppilegum uppeldisaðstæðum. Ennfremur hverfur svipmót slíkra þátta ekki þótt viðkomandi einstaklingur stöðvi neyslu um tíma, því sumir þeirra voru líklega til staðar í upphafi neyslunnar en hafa styrkst við hana. Til þess að vinna gegn slíkum persónu- og hegðunareinkennum þarf  skýr markmið til langs tíma og verulegt viljaþol til þess að ná þeim markmiðum, auk skilnings á stýringu og leiðbeiningum annarra í umhverfinu. Langtímamarkmiðin fælust í því að tileinka sér reglubundið, daglegt líf þar sem vinna, fastmótað heimilislíf, uppeldisrammi (með hvatningu og aga) og frítími með börnunum væri í skorðum og sveiflaðist ekki til eða brysti. X hefur fengið fjölmörg tækifæri til að ná sér á strik og halda aftur af óæskilegum einkennum og vinna að eigin persónuþroska. Hana hefur vantað úthald til þess til langs tíma og hefur sífellt fallið í gryfju fíkniefnaneyslu á ný þótt hún hafi ekki neytt fíkniefna á meðgöngu og einhverja mánuði þar á eftir. Hún er enn að berjast við að losna við neysluna sjálfa eftir margar ára baráttu og ætti svo verulega í land að henni lokinni til að geta byggt börnum sínum viðunandi uppeldisskilyrði.

Einar Ingi Magnússon staðfesti matsgerð sína fyrir dómi. Sagði hann það vera mat sitt að stefnda væri ófær um að hafa forsjá sona sinna með höndum. Í þeim efnum fléttist saman fíkniefnaneysla til langs tíma og skaðleg áhrif sem hún hafi haft á persónuleika stefndu. Ekkert bendi til þess að þetta ástand þróist til betri vegar. Stefnda hafi í upphafi þess tímabils sem vinna matsmanns að málinu stóð yfir, en það var frá 8. mars til 18. apríl, lýst vilja til að taka sig á. Það hafi ekki gengið eftir. Þannig hafi stefnda neytt fíkniefna á þessum tíma og sagt matsmanni ósatt um hagi sína. Matsmaður hafi síðast hitt stefndu 26. mars sl., en hún hafi síðan talað við hann í síma rétt fyrir páska og þá lýst áformum um að fara í meðferð hjá Byrginu. Reynslan sé hins vegar sú að stjórn á vímuefnameðferð sem stefnda hafi gengist undir í gegnum tíðna hafi alfarið verið í höndum hennar sjálfrar. Þannig hafi hún dvalið í skamman tíma á meðferðarstofnun hverju sinni og útskrifað sig sjálf. Þá lýsti matsmaður þeirri skoðun sinni að þó svo að stefndu tækist að halda sér frá fíkniefnum þyrfti mun meira til að koma svo hún teldist hæf til að hafa forsjá sona sinna með höndum. Það eitt dugi ekki að hún sé til staðar, það er búi með þeim. Hún verði að geta sinnt uppeldishlutverki sínu með eðlilegum hætti. Vandi hennar sé það djúpstæður að hún ætti enn mjög langt í land með að geta sinnt forsjárskyldum sínum þó svo að hún léti af fíkniefnaneyslu sinni.  

             Tveir starfsmenn stefnanda, sem hafa haft með mál stefndu að gera, þær Kolbrún Ögmundsdóttir og Jónína Hjördís Gunnarsdóttir, komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Þá gaf faðir hennar skýrslu. Fram kom að stefnda hefði dvalið á meðferðarheimili Byrgisins mestan þann tíma sem þá var liðinn frá því að matsgerð dómkvadds matsmanns lá fyrir. Hún hafi hins vegar farið þaðan þremur dögum áður en aðalmeðferð málsins fór fram og þá hafið fíkniefnaneyslu að nýju. Fram kom hjá starfsmanni stefnanda að eldri sonur stefndu hafi meðan á málinu hefur staðið dvalið hjá föður sínum, en yngri drengurinn hafi haldið til hjá föðurömmu sinni.

             Til viðbótar því sem fyrir liggur samkvæmt framansögðu um hagi stefndu frá því að stefnandi tók ákvörðun um höfðun þessa máls þykir rétt að taka hér fram, að á meðal gagna málsins er skýrsla um afskipti lögreglu af stefndu 8. desember 2005. Kemur þar fram að stefnda hafi haft samband við lögreglu laust eftir klukkan 6 að morgni þessa dags og óskað eftir aðstoð þar sem fyrrverandi sambýlismaður hennar, C, væri að ógna henni með hnífi. Stefnda bjó á þessum tíma í leiguhúsnæði á vegum Kópavogsbæjar að [...] í Kópavogi. Þegar lögregla kom á vettvang hafi hurðarkarmur á útidyrahurð verið mölbrotinn og hafi verið greinilegt að henni hafi verið sparkað upp. Inni í íbúð stefndu hafi allt verið á rúi og stúi. Stefnda og C hafi bæði verið í „vímuefnaástandi“ og samræður við þau verið erfiðar af þeim sökum. Þá kemur fram í niðurlagi skýrslunnar að íbúi í húsinu hafi hringt til lögreglu í tengslum við komu hennar í húsið í þetta skipti og meðal annars skýrt frá erjum á milli stefndu og C daginn áður. Væri ástandið orðið þess eðlis að sögn íbúans að hann væri hættur að þora að fara úr húsi. Þá skal það nefnt hér að stefnandi hefur lagt fram í málinu greinargerð félagsráðgjafa sem lögð var fram á fundi stefnanda 16. febrúar 2006. Segir þar, svo sem áður er fram komið, að stefnda hafi misst framangreint leiguhúsnæði og dveldi í húsnæði á vegum Krossins. Þá hafi hún í tvígang frá 3. nóvember 2005 „verið innskrifuð á stofnanir fyrir áfengissjúklinga án þess að ljúka meðferð“.  

IV.

Svo sem rakið hefur verið tók stefnandi um það ákvörðun 3. nóvember 2005 að vista syni stefndu, þá A og B, utan heimilis hennar í allt að tvo mánuði. Var þessi ákvörðun tekin með stoð í a. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en drengirnir höfðu þá um tveggja mánaða skeið dvalið hjá öðrum en stefndu þar sem hún hafði reynst ófær um að annast þá. Einnig var ákveðið að krefjast þess fyrir dómi að stefnda yrði svipt forsjá drengjanna og er sú krafa stefnanda til úrlausnar í þessu máli. Er hún svo sem fram er komið grundvölluð á a. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Krafa stefndu um sýknu er annars vegar á því byggð að unnt sé að tryggja sonum hennar eðlileg uppeldisskilyrði með vægari úrræðum en forsjársviptingu og hins vegar að skilyrðum fyrir henni sé ekki fullnægt.

Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þá skulu þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Skal því aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í 2. mgr. 27. gr. laganna er þessi regla um meðalhóf sérstaklega áréttuð að því er tekur til kröfu um forsjársviptingu, en hún skal því aðeins gerð að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.

Svo sem fram er komið hóf stefnda, sem nú er á 23. aldursári, ung að neyta fíkniefna. Var hún aðeins 16 ára gömul þegar hún var fyrst vistuð á meðferðarheimili vegna hegðunarvanda og misnotkunar fíkniefna. Á þessu varð engin veruleg breyting fyrr en hún varð ólétt í fyrra skiptið, en hún eignaðist soninn A [...] 2003. Stefnandi hóf síðan afskipti af málefnum stefndu í ársbyrjun 2004. Er áður rakið með hvaða hætti þessi afskipti komu til og á hvern veg þau þróuðust, en stefnandi ákvað að hætta þeim í desember 2004. Stefnda eignaðist síðan soninn B [...] 2005. Fljótlega eftir það fór að halla mjög undan fæti hjá henni á nýjan leik og varð það til þess að stefnandi tók mál hennar upp að nýju um mitt síðasta ár. Lyktaði þeim afskiptum með framangreindum ákvörðunum um vistun sona stefndu utan heimilis hennar og höfðun forsjársviptingarmáls og er rök fyrir þeirri ákvörðun áður tíunduð. Styðst lýsing stefnanda í stefnu á afskiptum af málefnum stefndu við gögn sem lögð hafa verið fram í málinu og hefur hún engum andmælum sætt.  

Áður eru raktar helstu niðurstöður í matsgerð Einars Inga Magnússonar sálfræðings, sem hann hefur staðfest fyrir dómi. Í vitnisburði sínum kvað Einar Ingi það vera mat sitt að stefnda væri ófær um að hafa forsjá sona sinna með höndum. Í þeim efnum fléttist saman fíkniefnaneysla til langs tíma og skaðleg áhrif sem hún hafi haft á persónuleika stefndu. Ekkert bendi til þess að þetta ástand þróist til betri vegar. Reynsla af vímuefnameðferðum sem stefnda hafi gengist undir tali sínu máli hvað þetta varðar. Þá sé vandi hennar það djúpstæður að hún ætti enn mjög langt í land með að geta sinnt forsjárskyldum sínum þó svo að hún léti af fíkniefnaneyslu sinni.

Ljóst þykir að frá því að stefnandi tók ákvörðun um höfðun þessa máls hefur stefndu síður en svo tekist að ná tökum á lífi sínu eða auka líkur á því að hún geti tekist á við þær skyldur sem uppeldi sona hennar krefst. Má um þetta vísa til þess sem fram kemur í kafla III hér að framan.

Báðir synir stefndu eru mjög ungir, sá eldri tæplega þriggja ára og sá yngri aðeins eins og hálfs árs.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, einkum fyrirliggjandi matsgerðar dómkvadds matsmanns og vitnisburðar hans fyrir dómi, og með hliðsjón af því sem fyrir liggur um hagi stefndu verður að telja fyllilega í ljós leitt að skilyrðum fyrir forsjársviptingu samkvæmt a. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sé fullnægt, svo og að önnur og vægari úrræði komi ekki að haldi. Er það þannig niðurstaða dómsins að þarfir og hagsmunir sona stefndu krefjist þess að stefnda verði svipt forsjá þeirra.  

Samkvæmt framansögðu er krafa stefnanda tekin til greina.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðin er án tillits til virðisaukaskatts og svo sem nánar greinir í dómsorði. Undir gjafsóknarkostnað fellur kostnaður vegna matsgerðar, en hann nemur 384.348 krónum og hefur þegar verið greiddur.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

             Stefnda, X, er svipt forsjá sona sinna, A og B.

             Málskostnaður fellur niður.

             Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 175.000 krónur.