Hæstiréttur íslands

Mál nr. 309/2016

Ákæruvaldið (Marín Ólafsdóttir saksóknari)
gegn
Jóni Ásgeiri Ríkharðssyni (Stefán Geir Þórisson hrl.)

Lykilorð

  • Tollalagabrot
  • Brot gegn lyfjalögum
  • Brot gegn lyfsölulögum
  • Aðfinnslur

Reifun

J var gefið að sök brot gegn lyfja-, lyfsölu-, fjarskipta- og tollalögum með því að hafa, í gegnum einkahlutafélag sem hann starfaði hjá og sá um innflutning fyrir, flutt inn til landsins 1050 stykki af nikótínfilterum í rafsígarettur án leyfis og þrjár spjaldtölvur án CE merkinga. Í dómi Hæstaréttar var því hafnað að J hefði verið ókunnugt um að nikótínfilterarnir hefðu verið í sendingunni. Þá var jafnframt hafnað þeirri viðbáru J að hann hefði ekki þurft að afla leyfis til innflutnings nikótínfilteranna þar sem nikótín gæti ekki talist vera lyf í skilningi lyfjalaga, eða að sú tilhögun, að fela Lyfjastofnun að skera úr um hvað teldust lyf samkvæmt lögunum, væri andstæð þeim kröfum sem gera yrði til skýrleika refsiheimilda. Þá var ekki talið hald í þeirri viðbáru J að hann hefði talið að spjaldtölvurnar hefðu verið CE merktar, enda hefði hann innflutning að atvinnu og mætti því vera ljóst að hann þyrfti að kanna hvort þær bæru slíka merkingu. Það hefði hann hins vegar ekki gert. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu ákærða því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari, Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari og Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. apríl 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa á árinu 2013 með nánar tilgreindri sendingu flutt hingað til lands 1050 stykki af svokölluðum nikótínfilterum í rafsígarettur, sem svarar til meira en 100 daga notkunar slíkra filtera, án tilskilins leyfis og þrjár spjaldtölvur án CE merkinga og látið hjá líða að leggja fram „til gerðar aðflutningsskýrslu dags. 26. ágúst, tvo reikninga yfir vöru, sem við vöruskoðun 27. ágúst reyndust vera í sendingunni“ og þannig ekki veitt tollyfirvöldum réttar upplýsingar um magn, tegund og verðmæti vörunnar í sendingunni. Móttakandi sendingarinnar var fyrirtækið A ehf., sem ákærði starfaði hjá og sá um innflutning fyrir. Var þessi háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 172. gr. tollalaga nr. 88/2005, 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr. 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963, 1. mgr. 7. gr., sbr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og 1., 2. og 3. gr., sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 212/1998 um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota og 1. mgr. 65. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 74. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003.

Samkvæmt skýrslu Tollstjórans í Reykjavík 29. ágúst 2013 tóku tollverðir til skoðunar framangreinda sendingu en samkvæmt tollskýrslu átti hún að innihalda „slöngur/hosur“ og grænmetiskvörn. Við skoðun fundu tollverðir 1050 stykki af nikótínfilterum í rafsígarettur og þrjár spjaldtölvur, sem ekki voru CE merktar. Haft var samband við tollmiðlarann sem hafði annast gerð skýrslunnar fyrir ákærða, og óskað eftir að lagðir yrðu fram reikningar varðandi þessar vörur. Tollmiðlarinn hafði þá samband við ákærða, sem sendi honum samdægurs tvo reikninga, dagsetta 13. og 19. ágúst 2013, en 29. sama mánaðar bárust reikningarnir tollstjóra og voru þeir í samræmi við vörurnar. Í hinum áfrýjaða dómi er nánar greint frá aðdraganda þessarar sendingar og málavöxtum þar rétt lýst að öðru leyti.

Í 1. mgr. 28. gr. tollalaga nr. 88/2005 kemur fram að vörureikningar skuli liggja til grundvallar aðflutningsskýrslum samkvæmt 23. og 25. gr. laganna eftir því sem við á. Í 1. mgr. 172. gr. laganna er síðan kveðið á um að hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir rangar eða villandi upplýsingar um tegund, magn eða verðmæti vöru eða vanrækir að leggja fram tilskilin gögn samkvæmt lögunum vegna innflutnings vöru skuli sæta nánar tilgreindum sektum. Ákærði heldur því fram að honum hafi ekki verið kunnugt um að nikótínfilterarnir hafi verið í sendingunni. Þá hafi hann fengið þær upplýsingar að starfsmaður umboðsmanns hans, sem hafi átt að sjá um að ganga frá sendingu spjaldtölvanna, hafi sent reikning með þeim. Ákærði hefur ekki rennt stoðum undir þessar fullyrðingar sínar. Honum bar samkvæmt áðurnefndum ákvæðum tollalaga að tryggja að varanna væri getið í aðflutningsskýrslunni 26. ágúst 2013 og að reikningar fylgdu með henni. Tollmiðlari sá, sem annaðist gerð skýrslunnar fyrir ákærða staðfesti fyrir dómi að við vinnslu hennar hafi hann haft samband við ákærða og innt hann eftir hvort allir reikningar hafi skilað sér. Samkvæmt tölvupósti sem fylgdi með reikningum frá sendanda vörunnar pantaði ákærði rafsígarettur með nikótínfilterum 19. ágúst 2013. Ákærði hlaut því samkvæmt framansögðu að hafa gert sér grein fyrir að nikótínfilterarnir væru með vörusendingunni. Braut hann því gegn 1. mgr. 172. gr. tollalaga og hefur unnið sér til refsingar samkvæmt því ákvæði.

Ákærða er jafnframt gefið að sök að hafa ekki aflað sér tilskilinna leyfa áður en hann flutti inn umrædda nikótínfiltera.

Ákærði ber því við að ákvæði lyfsölu- og lyfjalaga sem vísað er til í ákæru eigi ekki við um nikótínfiltera, þar sem nikótín geti ekki talist vera lyf í skilningi laganna og hafi hann því ekki þurft að afla sér leyfa samkvæmt áðurnefndum ákvæðum. Reisir hann vörn sína meðal annars á því að önnur efni með sambærilega verkun á líkama og nikótín falli ekki undir lögin og geti einhliða ákvörðun Lyfjastofnunar, sem sé stjórnvald, ekki gert þennan greinarmun án lagaheimildar. Öll bönn sem leiði til refsingar verði að vera samkvæmt skýrri lagaheimild. Flokkun Lyfjastofnunar á því hvaða efni teljist vera lyf sé einnig andstæð 1. gr. lyfjalaga, sem beri að tryggja landsmönnum nægilegt framboð nauðsynlegra lyfja.

Í 1. mgr. 5. gr. lyfjalaga eru lyf skilgreind sem hvers konar efni eða efnasamsetningar sem sögð eru búa yfir eiginleikum sem koma að gagni við meðferð sjúkdóma hjá mönnum eða dýrum eða við forvarnir gegn sjúkdómum eða hvers konar efni eða efnasamsetningar sem nota má fyrir menn eða dýr eða gefa þeim, annað hvort í því skyni að endurheimta, lagfæra eða breyta lífeðlisfræðilegri starfsemi fyrir tilstilli líflyfjafræðilegrar eða ónæmisfræðilegrar verkunar eða verkunar á efnaskipti eða til þess að staðfesta sjúkdómsgreiningu. Mælt er fyrir um það í 2. mgr. sömu greinar að þegar vafi leikur á því hvort einstök efni eða efnasambönd teljist lyf skeri Lyfjastofnun úr um það.  

Meðal skjala málsins er bréf Lyfjastofnunar til ákærða 14. ágúst 2012, undirritað af tveimur sérfræðingum stofnunarinnar, og staðfest fyrir dómi af öðrum þeirra. Þar kemur fram að á árinu 2009 hafi Lyfjastofnun skorið úr um að rafsígarettur sem innihalda nikótín teljist vera lyf í skilningi lyfjalaga. Hafi það mat meðal annars byggst á því að nikótín megi gefa til að breyta lífeðlisfræðilegri starfsemi fyrir tilstilli líflyfjafræðilegrar verkunar, sbr. 1. mgr. 5. gr. lyfjalaga, svo og á því að í lágum skömmtum, svipuðum þeim sem fáist með tóbaksreykingum valdi nikótínið hækkuðum blóðþrýstingi, örvun öndunar, örvun seytingar ákveðinna kirtla, sem og ýmsum áhrifum á miðtaugakerfið. Nikótínið virki á nikótínska asetýlkolinviðtaka. Meðal aukaverkana nikótíns megi nefna svima, höfuðverk, brjóstverk og eirðarleysi. Sérstaka varúð skuli viðhafa við notkun hjá sjúklingum, sem hafa nýlega fengið heilablóðfall, hjartaáfall, gengist undir æðaaðgerðir, hjá sykursjúkum og sjúklingum með maga- og skeifugarnarsár.   

Löggjafinn hefur með 1. mgr. 5. gr. lyfjalaga sett fram áðurgreinda skilgreiningu á því hvað skuli teljast vera lyf og með 2. mgr. 5. gr. sömu laga kveðið á um að það skuli vera mat Lyfjastofnunar hvaða efni eða efnasambönd skuli teljist lyf í skilningi 1. mgr. greinarinnar sé um það ágreiningur. Slíkt mat hlýtur eðli sínu samkvæmt að vera best komið hjá sérfræðingum á þessu sviði, enda verða slík efni eða efnasambönd ekki talin upp í lögum með tæmandi hætti. Er samkvæmt framansögðu ekki fallist á með ákærða að sú tilhögun að fela Lyfjastofnun þetta mat sé andstæð kröfunni um skýrleika refsiheimilda, sbr. 2. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Lyfjastofnun hefur sem fyrr segir talið að nikótín í rafsígarettum falli undir hugtakið lyf í skilningi 1. mgr. 5. gr. lyfjalaga og er ekkert fram komið um að það mat hafi ekki verið reist á lögmætum og málefnalegum grundvelli. Verður því ekki hróflað við því. Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á þá málsvörn ákærða að filterarnir með nikótíninu, sem ákærði flutti til landsins teljist ekki falla undir lyf í skilningi áðurnefndra ákvæða lyfjalaga.

Eftir 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga, eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 42/2014, er einungis heimilt að flytja til landsins, selja eða afhenda fullgerð lyf, (lyf tilbúin eða sem næst tilbúin til notkunar) að fengnu markaðsleyfi eða leyfi til samhliða innflutnings. Í 1. gr. reglugerðar nr. 212/1998, sem sett var með heimild í lyfjalögum, er kveðið á um að einstaklingum sé heimilt að flytja inn til landsins lyf til eigin nota með þeim takmörkunum sem reglugerðin kveði á um. Eftir 1. mgr. 2. gr. hennar geta einstaklingar flutt inn lyf til eigin nota, að því tilskildu að um sé að ræða lyf sem aflað hefur verið með lögmætum hætti til notkunar fyrir menn. Ágreiningslaust er að filterarnir voru ekki til eigin nota heldur fluttir inn í söluskyni.

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. lyfsölulaga er lyfjabúðum og viðurkenndum lyfjagerðum, svo og tilraunastofnunum, sem reknar eru af ríkinu eða Háskóla Íslands, heimilt að flytja inn lyf og efni til lyfjagerðar vegna eigin þarfa. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að önnur fyrirtæki megi því aðeins flytja inn og selja lyf í heildsölu að þau hafi til þess leyfi ráðherra, enda mæli landlæknir með leyfisveitingunni. Í 5. mgr. greinarinnar er síðan mælt fyrir um að öllum öðrum sé bannað að flytja inn lyf eða lyfjavörur.

Ákærði heldur því jafnframt fram að þar sem rafsígaretturnar séu samsettar úr rafhólk, hleðslutæki og nikótíni, sem sé ekki lyf og CE merktar frá framleiðanda hafi verið heimilt eftir reglum 11. gr. og 13. gr. EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga að flytja vöruna til landsins. Samkvæmt gögnum málsins var varan CE merkt þar sem hleðslutækið er raftæki. Sú merking gat augljóslega ekki tekið til filteranna með nikótíninu. Er þessari viðbáru ákærða því hafnað.

Ákærði flutti inn margumrædda filtera án tilskilinna leyfa, sem um er fjallað í 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga og 2. mgr. 51. gr. lyfsölulaga. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi. Með 2. gr. laga nr. 20/2013, um breytingu á lyfjalögum nr. 93/1994, sem samþykkt voru á Alþingi 26. febrúar 2013, var nýrri grein, 47. gr., bætt inn í lögin. Við það breyttist röð þeirra greina laganna sem á eftir komu og færðust þær efnisreglur sem áður var að finna í 48. gr. laga nr. 93/1994 í 49. gr. sömu laga. Verður ákærða því gerð refsing eftir síðarnefndu ákvæði lyfjalaga og 1. mgr. 68. gr. lyfsölulaga. Þá er sem fyrr segir óumdeilt að filterarnir voru ekki fluttir inn til landsins til eigin nota, sbr. 1., 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 212/1998. Ákærða verður því jafnframt gerð refsing eftir 7. gr. reglugerðarinnar.

Sú málsástæða ákærða að bann á innflutningi á nikótínfilterum sé andstætt 65 gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar er hvorki studd haldbærum rökum né gögnum.

Ákærði kvaðst hafa talið að spjaldtölvurnar þrjár hafi verið CE merktar, en svo reyndist ekki vera þegar umrædd sending sem þær voru í kom til landsins. Hann hafi keypt þær í tiltekinni netverslun, eins og fram kemur á vörureikningi 13. ágúst 2013. Hafi verið ómögulegt að kanna á netinu hvort varan væri CE merkt. Eins og fyrr segir ber eftir 1. mgr. 65. gr. laga um fjarskipti að CE merkja slíka vöru. Ákærða, sem hefur innflutning að atvinnu, mátti vera ljóst að hann þyrfti að kanna hvort varan bar þessa merkingu, en það gerði hann ekki. Verður hann því sakfelldur fyrir brot gegn umræddu ákvæði fjarskiptalaga og gerð refsing eftir 2. mgr. 74. gr. þeirra, en brot hans er hvorki stórfellt né ítrekað, sbr. 1. mgr. sömu greinar.

Rannsókn máls þessa hófst 29. ágúst 2013 og lauk í ágúst 2014. Ákæra var gefin út 25. nóvember sama ár. Málið var þingfest 16. janúar 2015.  Í þinghaldi 1. apríl sama ár fór ákærði þess á leit að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við mál þetta. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms 14. apríl 2015 og var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti 5. maí sama ár. Aðalmeðferð hófst 10. september, eða rúmum fjórum mánuðum síðar og var málið dómtekið í október. Héraðsdómur var sem fyrr segir kveðinn upp 19. nóvember 2015. Áfrýjunarstefna var gefin út 18. apríl 2016 að fengnu áfrýjunarleyfi 14. sama mánaðar. Málsgögn bárust hins vegar ekki Hæstarétti fyrr en 10. janúar 2017. Við ákvörðun refsingar verður tekið tillit til þess dráttar við rannsókn og meðferð málsins sem honum verður ekki um kennt svo og þess að ákærði hefur áður gerst brotlegur við sams konar ákvæði lyfsölu- og lyfjalaga og hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Er því ekki fallist á kröfu ákæruvaldsins um að þyngja refsingu ákærða og verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu hans.

Í greinargerð ákæruvaldsins til Hæstaréttar er ekki gerð krafa um upptöku. Kemur hún því ekki til álita í máli þessu.

Sá dráttur sem var á afhendingu ríkissaksóknara á málsgögnum til Hæstaréttar er aðfinnsluverður.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Jóns Ásgeirs Ríkharðssonar, og um sakarkostnað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 774.171 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. nóvember 2015.

Mál þetta, sem þingfest var 16. janúar 2015 og dómtekið 8. október sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 23. nóvember 2013, á hendur Jóni Ásgeiri Ríkharðssyni, kt. [...], [...], [...],

„fyrir  lyfja-, lyfsölu-, fjarskipta- og tollalagabrot á árinu 2013, með því að hafa með sendingu með sendingarnúmerinu F 784 25 08 3 US JFK V896, en fyrirtækið A ehf. sem ákærði starfaði hjá og sá um innflutning fyrir var móttakandi sendingarinnar, flutt hingað til landsins 1050 nikótínfiltera í rafsígarettur, sem svarar til meira en 100 daga notkunar slíkra filtera, án tilskilins leyfis og einnig þrjár spjaldtölvur án CE merkinga og látið hjá líða að leggja fram til gerðar aðflutningsskýrslu, dags. 26. ágúst, tvo reikninga yfir vöru, sem við vöruskoðun 27. ágúst reyndust vera í sendingunni og þannig ekki veitt tollyfirvöldum réttar upplýsingar um magn, tegund og verðmæti vörunnar í sendingunni.

Telst þetta varða við 1. mgr. 172. gr. tollalaga nr. 88/2005, 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr. 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963, 1. mgr. 7. gr., sbr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og 1., 2. gr. 3. gr., sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 212/1998 um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota og 1. mgr. 65. gr., sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 74. gr. fjarskiptalaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á varningnum, þremur spjaldtölvum og 1050 nikótínfilterum í rafsígarettur samkvæmt heimild í 4. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005.“  

Við framlagningu greinargerðar í málinu þann 10. febrúar sl. krafðist ákærði þess að álits EFTA-dómstólsins yrði leitað við tilteknum spurningum. Fór málflutningur um þá kröfu fram 1. apríl 2015 og var úrskurður uppkveðinn þann 14. apríl sl. þar sem kröfu ákærða var hafnað. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 291/2016 þann 5. maí sl. Þann 20. maí sl. var fyrirtaka í málinu og því þá frestað til aðalmeðferðar þann 10. september sl. Fór framhald aðalmeðferðar fram þann 8. október sl. og var málið dómtekið að munnlegum málflutningi loknum. Krafðist ákærði sýknu en til vara þeirrar vægustu refsingar sem lög leyfa.

Málsatvik.

Aðdragandi máls þessa er að ákærði keypti frá Bretlandi, í nafni A ehf., rafsígarettur ásamt nikótínfilterum sumarið 2013. Var varan send með flutningafyrirtækinu FedEx til Íslands. Sendingin var stöðvuð af tollyfirvöldum á Íslandi og ákærða bent á að hann hefði ekki heimild til að flytja filterana inn til landsins. Óskaði ákærði þá eftir því að filterarnir yrðu sendir til umboðsaðila vörunnar í New York. Var það gert og sá hraðflutningafyrirtækið DHL um þann flutning. Óupplýst er hvers vegna umrædd sending fór í vöruhús TVG Zimsen í New York en ákærði hafði áður flutt inn vörur frá Bandaríkjunum í gegnum vöruhús TVG Zimsen. Ákærði keypti á veraldarvefnum þrjár spjaldtölvur í USA og lét senda þær til Íslands. Fóru þær í vöruhús TVG-Zimsen í New York. Með þeirri sendingu komu ofangreindar rafsígarettur ásamt nikótínfilterum. Voru það 1050 nikótínfilterar í rafsígarettur, sem svarar til meira en 100 daga notkunar. Voru tólf sýni send til rannsóknar hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. Í matsgerð frá 13. ágúst 2013 kemur fram að nikótín hafi fundist í öllum sýnunum. Í september s.á. sendi tollstjóri málið til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá kom einnig í ljós að í sendingunni voru þrjár spjaldtölvur sem ákærði hafði keypt í gegnum eBay í Bandaríkjunum. Voru þær ekki CE-merktar né fylgdu tilheyrandi tollpappírar með vörunni.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði kvaðst mörgum sinnum hafa flutt inn til landsins vörur en hann ræki félögin B ehf. og A ehf. Hann sæi sjálfur um innflutning fyrir fyrirtækin. Þá kvaðst ákærði margoft hafa pantað erlendis frá rafsígarettur og nikótínfiltera án athugasemda og selt hérlendis. Kvað ákærði skipta við tollmiðlarann TVG-Zimsen í New York sem sjái um að flytja vörur sem ákærði verslar í USA og flytur til Íslands. Kvaðst ákærði hafa keypt spjaldtölvurnar á eBay og þær verið fluttar frá umboðsaðilanum til TVG-Zimsen í New York og þaðan til Íslands. Ákærði kvaðst vel þekkja íslenska löggjöf varðandi CE-merkingar. Ákærði kvaðst undrast það að reikningarnir hafi ekki fylgt með spjaldtölvunum og hann hefði aldrei keypt spjaldtölvurnar ef hann hefði grunað að þær væru ekki löglega merktar. Ákærði kvað ekki hægt að sjá á netinu hvort varan væri CE-merkt eða ekki, hann hafi fyrst séð það hjá tollyfirvöldum. Ákærði kvaðst hafa fengið þær upplýsingar frá tollyfirvöldum að reikninga hafi vantað vegna spjaldtölvanna og hafi ákærða fundist það skrýtið því að hann hafi sent þá til TVG-Zimsen erlendis. Ákærði kvaðst hafa haldið að allar vörur sem seldar væru frá eBay á Evrópumarkaði væru CE-merktar, hann hafi ekki vitað betur. Ákærði hafi sent flutningsfyrirtækinu reikninga fyrir vörunni í tölvupósti á föstudegi og sendingin hafi farið af stað á sunnudegi.

Filterana hafi ákærði keypt hjá Green Smoke í Bretlandi og þeir verið fluttir til Íslands með FedEx og verið stöðvaðir í tollinum. Reikningur vegna filteranna hafi verið tollafgreiddur hér á landi þegar varan kom fyrst frá Bretlandi en sendingin hafi síðan verið stöðvuð. Ákærði hafi þá beðið um að filterarnir yrðu endursendir og hafi hann reiknað með því að þeir færu aftur til Bretlands. Ítrekaði ákærði fyrir dóminum að það hafi átt að endursenda filterana en ekki áframsenda þá til Bandaríkjanna. Hafi ákærði síðar haft samband við C, starfsmann FedEx, og hann séð að síðasta sending frá Green Smoke hafi komið frá New York og hann ákveðið að áframsenda filterana þangað. Filterarnir hafi þannig verið áframsendir til TVG-Zimsen í New York án vitundar ákærða og þaðan hafi þeir svo komið til Íslands með sömu sendingu og spjaldtölvurnar. Ákærði kvað flutningsaðilann erlendis hafa átt að sjá um reikningagerð fyrir hann og senda tollyfirvöldum. Ákærði kvaðst einnig hafa keypt slöngur frá Bandaríkjunum, þar sem boðið var upp á „tveir fyrir einn“, og hann sent viðeigandi reikninga til tollyfirvalda. Vegna þeirrar sendingar hafi ákærði fengið þær upplýsingar að hann væri einnig að flytja inn tóbak, sem ákærði hafi neitað. Hafi þá komið í ljós að rafsígaretturnar og filterarnir voru í sendingunni en það hafi verið starfsmenn TVG-Zimsen í New York sem gengu frá sendingunni áður en hún var send til Íslands. Ákærði kvað það vera á sína ábyrgð að leggja fram reikninga fyrir þeim vörum sem fluttar séu til ákærða en flutningsaðilinn sé ábyrgur fyrir því að reikningar séu með vörusendingum. Ákærði kvaðst þurfa að senda reikninga til tollmiðlara áður en sending fer af stað nema hann hafi keypt vörur t.d. á eBay, þá fylgi reikningurinn með vörunni til tollmiðlarans. Starfsmaður tollmiðlara í New York hafi sagt ákærða að reikningurinn fyrir filterunum hafi verið utan á kassanum þegar varan kom til þeirra og því hafi hann ekki þurft að senda þeim reikninginn til að gera innflutningsskýrsluna.

Aðspurður um það hvort ákærði væri með markaðsleyfi fyrir sölu á nikótínfilterum, kvað ákærði CE-merkingu gefa sér fullt markaðsleyfi innan ESS án afskipta annarra stofnanna og nikótínfilterarnir væru CE-merktir. Ákærði kvað Lyfjastofnun ekki hafa heimild til að fjalla um CE-merktar vörur en lyf séu ekki CE-merkt. Ákærði kvaðst hafa farið með filtera til Lyfjastofnunar á árinu 2008 og óskað eftir áliti þeirra en fengið vöruna til baka með þeim orðum að varan heyrði ekki undir Lyfjastofnun þar sem hún væri CE-merkt. Ákærði kvað að nikótín í vökvaformi væri flutt inn til landsins sem væri háð markaðsleyfi en vara ákærða væri þeim eiginleikum gædd að ekki væri hægt að gefa hana mönnum eða dýrum heldur þyrftu menn að sjúga efnið til að fá það ofan í sig. Því gæti það ekki flokkast sem lyf. Ákærði kvað nikótín vera náttúrulegt efni og óskaðlegt. Rafsígarettur væru seldar víða án athugasemda. 

Ákærði óskaði eftir að gefa aftur skýrslu varðandi nikótínfilterana eftir að hafa hlustað á vitni. Kvaðst ákærði þá hafa beðið um að varan yrði endursend til umboðsaðila Green Smoke í New York sem framsendi síðan allar sendingar ákærða í Ameríku. Umboðsaðili ákærða í New York hafi séð að varan hafi verið tollafgreidd á Íslandi á pappírum sem hafi verið utan á kassanum. Umboðsaðilinn hafi því sett vöruna í sendingu sem ákærði var að fá senda frá New York þessa helgi og hafi ákærði ekki haft hugmynd um að filterarnir hefðu verið settir í þá sendingu. Vöruna hafi átt að senda áfram til umboðsaðila Green Smoke í Bandaríkjunum sem vilji fá allar endursendingar. Afhendingarheimild hafi verið komið á sendinguna hér á Íslandi þegar hún hafi verið stöðvuð af tollyfirvöldum. Þess vegna hafi varan verið send til Íslands aftur frá New York að ákærða forspurðum. Icetransport hafi gefið þessa afhendingarheimild hér á landi.

Vitnið D, lyfjafræðingur og starfsmaður Lyfjastofnunar, kom fyrir dóminn og kvað Lyfjastofnun hafa fjallað um nikótín í rafsígarettum og falli það undir lyfjalög. Kvað hún nikótín falla undir lyfjalög og flokkast sem lyf sem væri leyfisskylt hér á landi, s.s. nikótíntyggjó, nikótínpúst og allar vörur sem innihaldi nikótín. Það geri varan sem ákærði flutti inn. Ákærði geti sótt um og fengið markaðsleyfi eins og allir aðrir og selt sína vöru án afskipta yfirvalda. Vitnið kvað sumar vörur sem innihalda nikótín vera CE-merktar, t.d. nikótínpúst, en þá sé það bara hylkið sem sé CE-merkt en ekki innihaldið. Sama ætti við um mörg lækningatæki, tækið sjálft væri CE-merkt en lyfið ekki. Kvað vitnið nikótíni í einhverri mynd vera ávísað af læknum til að hjálpa fólki við að hætta að reykja. Vitninu var sýnt hylki sem ákærði er ákærður fyrir að flytja til landsins. Vitnið staðfesti að umrætt hylki hafi verið til skoðunar hjá Lyfjastofnun og hafi sérfræðingur CE-merkinga skoðað hylkið. Vitnið kvaðst ekki geta svarað frekar fyrir hann.

Vitnið E, starfsmaður Neytendastofu, kom fyrir dóminn og lýsti því að raftæki sem flutt væru til Íslands væru CE-merkt og uppfylltu ákveðna staðla. Neytendastofa hafi verið lögbært stjórnvald til að hafa eftirlit með raftækjum sem flutt voru til landsins á ákærutímabilinu. Vitnið kvað CE-merkingu eina og sér ekki veita heimild til innflutnings á vöru. CE-merkingin væri í raun yfirlýsing framleiðanda um að hann hafi farið að þeim reglum sem gilda um ákveðna vöruflokka. Um tuttugu og einn flokkur væri til á EES-svæðinu sem gilti um ýmsa vöruflokka. Þegar framleiðandi framleiði tæki setji hann CE-merkingu á svo að það auðveldi stjórnvöldum að skoða vöruna. Að auki eigi samræmisyfirlýsing að fylgja vöru sem segi að framleiðslan uppfylli allar öryggiskröfur bæði tilskipunar og þess staðals sem eigi um vöruna. Um þetta snúist CE-merkingin. Varan megi þannig fara áfram en slík CE-merking taki ekki til þess ef einhverjir aðrir hlutir fylgja vörunni. T.d. megi ekki CE-merkja lyf en þá sé farið að villa um fyrir neytendum, auk þess sé þá farið að nota merkinguna á villandi hátt. Ef lækningatæki sé flutt inn sé tækið CE-merkt en ef lyf fylgi tækinu þá eigi merkingin ekki við um lyfið. CE-merking getur þá átt við um hluta vörunnar. Ef framleiðandi setji inn í samræmisyfirlýsinguna upplýsingar sem ekki eigi við vöruna sé það villandi yfirlýsing en yfirleitt sé þetta ekki gert. Ef vara sé t.d. bæði raftæki og leikfang ætti að gefa upp í samræmisyfirlýsingunni lýsingu á raftækinu og einnig lýsingu á leikfanginu þannig að sýnt sé fram á að varan uppfylli báða staðlana. Í því máli sem um ræðir hér sé um að ræða raftæki sem sé sett í samband til að hlaða það en auk þess fylgi tækinu lyf sem heyri undir Lyfjastofnun. Þegar varan sé samsett þurfi markaðsleyfi og hugsanlega þurfi einnig að skoða staðla um lækningatæki. Þó svo að tækið sjálft uppfylli staðla þá sé ekki heimilt að bæta öðrum hlutum við, s.s. lyfjum. Kvað vitnið framleiðendur bera ábyrgð á því að samræmisyfirlýsingar séu réttar og þannig úr garði gerðar að stjórnvöld geti alltaf kallað eftir þeim og kannað hvort þær uppfylli öll skilyrði. Þá séu meiri líkur á að vörur sem framleiddar séu utan EES uppfylli ekki samræmisyfirlýsingar vörunnar innan EES en séu þrátt fyrir það CE-merktar. Varðandi rafsígarettur ákærða minnti vitnið að þær hafi heldur ekki staðist samræmisyfirlýsingu sem framleiðandi lét frá sér og því hafi verið gerð athugasemd um innflutning þeirra. Vitnið kvað vöru ýmist eiga að falla undir staðla í Evrópu eða staðla annars staðar í veröldinni og sé það framleiðandinn sem framleiðir vöruna í samræmi við viðeigandi staðla. Beri hann þannig ábyrgð á merkingunni. Stjórnvöld geti hins vegar bannað vöru sem sé CE-merkt ef hún hefur t.d. valdið slysi eða sé heilsu manna eða umhverfi hættuleg. Vitnið taldi að umræddur framleiðandi hafi ekki átt að CE-merkja nikótínfilterana vegna innihalds þeirra. Spurður um það hvers vegna þessir filterar séu seldir í Bretlandi kvað vitnið tvö hundruð og fjórar neytendastofur starfa sjálfstætt um allt Bretland og ekki vera miðlægt stjórnvald eins og hérlendis. Því gæti vara eins og nikótínfilterar verið þar í sölu og hugsanlega með einhverjum skilyrðum sem ekki séu fyrir hendi hérlendis. Filterarnir sem hér séu til umfjöllunar séu framleiddir í Kína. Vitnið kvað vörur utan EES-svæðisins eða innan þess geta verið CE-merktar og sé kerfið þannig uppbyggt að fyrst sé gengið út frá því að varan uppfylli þá landsstaðla þar sem á að markaðssetja vöruna. Gengið sé út frá því að CE-merkt vara sé réttilega merkt af framleiðendum þar til annað kemur í ljós. Þó að vara sé CE-merkt og jafnvel talin vera í fullu samræmi við staðla en hafi valdið skaða sé heimild til að stöðva vöruna. Innflytjandi vöru á hins vegar að ganga úr skugga um að vara sem hann flytur til Íslands uppfylli öll skilyrði til innflutnings en það sé stjórnvalda að taka til skoðunar ef merkingar eru villandi. Innflytjandi sem er einstaklingur getur verið í góðri trú um að vara uppfylli öll skilyrði ef hún er CE-merkt en sé um innflytjanda að ræða, sem sé í sölustarfsemi, ber hann ábyrgð á því að ganga úr skugga um að varan uppfylli allar kröfur áður en hann flytur hana til landsins.

Vitnið var innt eftir heimild til að flytja inn spjaldtölvur frá Bandaríkjunum. Kvað vitnið tölvuna ekki vera CE-merkta en hún sé hins vegar með FE-merkingu sem sé merking innan Bandaríkjanna og uppfylli staðla innan þess ríkis. Hins vegar framleiða Bandaríkjamenn einnig CE-merktar vörur sem uppfylla staðla EES-svæðisins. Annað kerfi gildi hérlendis en í Bandaríkjunum varðandi samræmisyfirlýsingar og merkingar vöru. Ekki sé skylda að CE-merkja vörur sem eru seldar í Bandaríkjunum. Hafi Neytendastofa oft þurft að stöðva sendingar frá Bandaríkjunum sem ekki hafa verið CE-merktar.       

Vitnið F kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað við skoðun vörusendinga hjá Tollinum. Minnti vitnið að það hafi fengið ábendingu frá greiningardeild um að skoða vörusendingu ákærða. Vitnið sagði vinnuferlið vera þannig að innihaldslýsing á reikningum og í sendingunni væru bornar saman og ef það stemmdi sé varan send áfram til kaupanda. Það hafi ekki verið í þessu tilviki. Aðspurt kvað vitnið tollmiðlara eða innflytjanda bera ábyrgð á því að reikningar fylgi vörusendingum. Minnti vitnið að það hafi þurft að hafa samband við tollmiðlarann í þessu sambandi til að fá reikninga með vörunni sem aftur hafi haft samband við innflytjandann. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna eftir því að hafa fengið skýringar á því hvers vegna reikninga hafi vantað með vörunni. Séu vörureikningar utan á umbúðum láta tollyfirvöld það nægja.

Vitnið G gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa séð um afgreiðslu fyrir A ehf. vegna sendingar frá TVG-Zimsen í New York. Sendingin hafi verið skoðuð hjá tollgæslunni á Íslandi og þau fundið vöru sem ekki var reiknað með að væri í sendingunni og því haft samband við vitnið. Aðspurt um hverjir beri ábyrgð á reikningum fyrir innfluttri vöru kvað vitnið það ýmist vera seljandi vörunnar eða innflytjandinn. Vitnið kvaðst ekki vita af hverju reikningar hafi ekki verið með umræddri sendingu og því sérstaklega hringt í innflytjanda til að kanna hvers vegna reikningar hafi ekki verið með sendingunni. Vitnið kvaðst ekki vinna vanalega fyrir ákærða en í þessu tilviki hafi vitnið verið beðið um að ræða við ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað til þess að varan hafi upphaflega komið frá Bretlandi.

Vitnið C kom fyrir dóminn og kvaðst vinna hjá Icetransport. Vitnið hafi starfað hjá þjónustudeild FedEx á ákærutímabilinu. Vitnið var innt eftir því hvernig varan, sem átti að endursenda til Bretlands, hafi farið til Bandaríkjanna. Kvað vitnið vöruna hafa komið upphaflega frá Bretlandi og hún verið stöðvuð af tollyfirvöldum. Tollvörður hafi ekki viljað hleypa sendingunni inn í landið. Í slíkum tilvikum sé vörunni annaðhvort fargað eða hún endursend þangað sem hún upphaflega kom frá. Varan hafi í þessu tilviki verið í framhaldi send til Bandaríkjanna að beiðni ákærða. Aðalskrifstofa hjá framleiðanda nikótínfilteranna sé í New York og hafi ákærði óskað eftir því að varan væri send þangað. Vitnið útskýrði fylgiskjal með sendingunni þar sem fram kemur með hvaða flugi og flugfélagi varan er send, ásamt númeri á sendingunni og hvaðan varan kæmi.

Vitnið H, sölumaður hjá TVG-Zimsen á Íslandi, kom fyrir dóminn og kvað fyrirtækið vera með skrifstofur víða erlendis, m.a. í New York. Ef tollyfirvöld stöðva sendingu þá afhendir fyrirtækið ekki vöruna fyrr en tollyfirvöld heimila það. Vörur séu endursendar til birgja aftur ef það hefur t.d. verið röng afgreiðsla en innflytjandi getur einnig óskað eftir því að varan verði endursend til annarra birgja hvar sem er í heiminum. Vitnið kvaðst ekki þekkja þetta mál sérstaklega en það þekki ákærða. Vitnið kvaðst ekkert vera í tollamálum. Lýsti vitnið því að þegar innflytjandi kaupir vörur í Bandaríkjunum þá komi vörurnar í vöruhús TVG-Zimsen í New York, ásamt reikningum, og TVG á Íslandi geri innflutningsskýrslur fyrir tollyfirvöld áður en vörusendingin er tollafgreidd. Að auki geti verið að innflytjandi sendi sjálfur reikninga til TVG ef keypt er t.d. af e-Bay eða öðrum netsíðum. Vitnið kvað fyrirtækið ekki kanna hvort vörur séu CE-merktar áður en varan er send til Íslands, það sé tollyfirvalda að kanna það. Aðspurt um það hvað gerist ef reikningar skila sér ekki, kvað vitnið reikninga yfirleitt vera á kössum ef keypt er af netinu en kaupandi vörunnar fái líka reikning sendan á netinu fyrir þá vöru sem hann sé að versla. Það geti þó gerst erlendis að pappírar detti af ef varan fer um margar hendur. Þess vegna sendi innflytjendur afrit af reikningum til TVG í New York og líka til deildarinnar á Íslandi. Það sé á ábyrgð innflytjenda að senda alla pappíra til tollmiðlara til að hægt sé að fylla út viðeigandi gögn. Aðspurt kvað vitnið það hafa gerst að vara hafi farið með sendingu án þess að henni sé ætlað það. Ef engir pappírar séu til fyrir slíkri sendingu þá sé sendingin stöðvuð við komuna til Íslands af tollyfirvöldum. Kassar geti óvart farið á milli bretta í vöruhúsinu og þá sent röngum innflytjanda. Aðspurt kvað vitnið að ef vara hafi verið endursend þá komi hún aftur í vöruhús tollmiðlara að beiðni kaupanda.   

Forsendur og niðurstöður.

Ákærði krafðist frávísunar á málinu þar sem ákæran væri svo óljós að illa hafi mátt ráða í það fyrir hvað hann sé ákærður. Telur dómurinn framsetningu brotanna í ákæru ekki vera svo óljósa að það hafi komið niður á vörnum ákærða. Verður þessari kröfu ákærða hafnað.

Ekki er um það deilt að ákærði hefur stundað verslun og viðskipti í áraraðir. Þá kvaðst ákærði hafa flutt inn nikótínfiltera í rafsígarettur til nokkurra ára. Ákærði kvaðst einnig þekkja til CE-merkinga og þess að lyf væru ekki CE-merkt og því þyrfti markaðsleyfi Lyfjastofnunar til sölu á þeim. Ákærði kvað nikótínfilterana sem hann ætlaði að flytja inn hafa verið CE-merkta og hann hefði staðfestingu frá Lyfjastofnun um að stofnuninni væri ekki heimilt að fjalla um vöruna þess vegna. Þá er óumdeilt að hylkin innihéldu nikótín og var ákærða fullkunnugt um það. Var það einnig  staðfest í matsgerð  Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 13. ágúst 2014 að filterarnir frá Green Smoke innihéldu nikótín. Í gögnum málsins liggur fyrir sáttagerð vegna ákæru frá 22. febrúar 2013 þar sem ákærði flutti inn 675 nikótínfiltera í maí 2011. Braut ákærði þar gegn tollalögum og lyfsölulögum. Í fylgiskjali með filterunum sem ákærði flutti inn í ágúst 2013 er yfirlit yfir vöruna frá seljanda og kemur fram í lýsingu um „Starter Kit“ að það heiti m.a. „Red Label Tobacco-zero (0%), Short“ ásamt fleiri lýsingum. Þessi vara innihélt nikótín frá 0,6% til 1,8% samkvæmt framangreindri matsgerð. Telur dómurinn að ákærða hafi verið kunnugt um það að heimild þurfti frá Lyfjastofnun til að flytja inn filtera í rafsígarettur sem innihéldu nikótín. Styður það að ákærði hefur allt frá árinu 2011 verið í samskiptum við Lyfjastofnun vegna nikótínfiltera og m.a. fengið skriflega staðfestingu á að einungis sé heimilt að flytja inn lyf sem fengið hafa markaðsleyfi hér á landi útgefið af Lyfjastofnun. Þá var ákærða bent á af Lyfjastofnun, áður en umþrætt sending kom til landsins í ágúst 2013, að rafsígarettur sem innihaldi nikótín falli undir skilgreiningu 5. gr. lyfjalaga nr. 93/1994. Hefur ákærði ekki hnekkt þeirri skilgreiningu Lyfjastofnunar en mótmælir því að svo sé.

Ákærði óskaði eftir því að gefa aftur skýrslu fyrir dóminum eftir að hafa hlýtt á framburð vitna varðandi innflutninginn á nikótínfilterunum. Kvað ákærði í fyrri skýrslu sinni hafa óskað eftir því að filterarnir yrðu endursendir til Bretlands og ekki vitað af því að þeir hefðu farið til Bandaríkjanna. Í seinni skýrslu sinni kvaðst ákærði hafa óskað eftir því að filterarnir færu til Green Smoke í Bandaríkjunum þar sem þeir vildu fá allar endursendingar. Hafi þar átt að áframflytja vörurnar til umboðsaðilans í New York. Engin skýring kom fram hjá ákærða af hverju hann breytti framburði sínum. Telur dómurinn framburð ákærða ótrúverðugan. Vitnin C og H kváðu það reglu hjá tollyfirvöldum að annaðhvort farga vörunni ef hún er ekki tollagreidd eða endursenda hana til upprunalegs sendanda nema óskað sé eftir því að varan verði send eitthvað annað. Svo hafi verið í máli ákærða, hann hafi óskað eftir því að varan yrði send til Bandaríkjanna. Ákærði hélt því fyrst fram að það hafi átt að endursenda filterana til Bretlands og þeir því farið án hans vitundar til Bandaríkjanna. Ákærði breytti síðar framburði sínum og kvaðst hafa óskað eftir því að filterarnir yrðu sendir til framleiðanda í Bandaríkjunum en þeir farið án hans vitundar til tollmiðlara í New York og þar verið settir án hans vitundar í sendingu með öðrum vörum sem hann hafði pantað frá Bandaríkjunum. Telur dómurinn skýringar ákærða ótrúverðugar og hann ekki hafa sýnt fram á að nikótínfilterarnir hafi komið án hans vitundar til Íslands. Þá kvað ákærði flutningsaðilann erlendis hafa átt að sjá um reikningagerð fyrir hann og senda tollyfirvöldum. Stangast það á við framburð starfsmanna TVG-Zimsen og FedEx. Ákærði kvaðst hafa keypt filterana hjá Green Smoke í Bretlandi og þeir verið fluttir til Íslands með FedEx og verið stöðvaðir í tollinum. Reikningur vegna filteranna hafi verið tollafgreiddur hér á landi þegar varan kom fyrst frá Bretlandi. Umboðsaðili ákærða í New York hafi séð að varan hafi verið tollafgreidd á Íslandi á pappírum sem hafi verið utan á kassanum. Samræmist þetta ekki frásögn vitna enda liggur fyrir að varan var endursend eða áframsend til New-York vegna þess að hún fékkst ekki tollafgreidd hér á landi. Er því útilokað að varan hafi verið tollafgreidd á Íslandi áður en hún fór til Bandaríkjanna. Er þessi framburður ákærða ótrúverðugur því að engu hafandi en ákærði bar ábyrgð á því að reikningar fylgdu vöru sem hann óskaði eftir sendingu á og átti að tollafgreiða á Íslandi.

 Þá telur dómurinn engu máli skipta að pakkningar utan um filterana hafi verið CE-merktar. Þvert á móti telur dómurinn ákærða hafa verið í vondri trú og ætlað að nýta sér að hylkin, sem nikótínið var í, var CE-merkt. Þá bar ákærði ábyrgð á því að varan var send aftur til landsins án tilskilinna pappíra og án þess að markaðsleyfi væri til staðar. Gat honum ekki verið annað en ljóst að innflutningur á nikótíni er óheimill nema hafa markaðsleyfi fyrir vörunni. Það hafði ákærði ekki.  Ber ákærði áhættuna af því og hefur því gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákærunni. Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði er einnig sakaður um að hafa flutt inn þrjár spjaldtölvur án CE-merkinga sem sé skilyrði fyrir því að rafvörur séu fluttar til landsins. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að tölvurnar voru ekki CE-merktar. Ákærða, sem stundað hefur innflutning og verslun um árabil, er kunnugt um CE-merkingar, samkvæmt hans eigin framburði. Bar hann fyrir sig að á vörunni hafi verið einhver merking sem hann hafi talið alveg eins geta verið CE-merking. Þá hafi tölvunar átt að vera gjafir til barna hans en ekki til endursölu. Telur dómurinn ákærða ekki geta borið fyrir sig gáleysi þar sem þekking hans á innflutningi og reglum um CE-merkingar á EES-svæðinu er umfram þá þekkingu sem gera má ráð fyrir að hinn almenni borgari hafi. Bar ákærða að ganga úr skugga um að vara sem hann keypti í gegnum eBay og ætlaði að flytja til Íslands væri CE-merkt. Ákærði ber því áhættuna á því að svo var ekki. Þá bar ákærði áhættuna á því að rétt gögn s.s. reikningar, fylgdu vörunni til tollmiðlara og/eða tollyfirvalda. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru varðandi innflutning á spjaldtölvunum án tilskilinna gagna og gerð refsing fyrir. Eru brot ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærða hefur ekki verið gerð refsing sem hefur áhrif við ákvörðun refsingar nú utan að ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun 23. apríl 2013 vegna brota á sömu lagaákvæðum og hann hefur verið sakfelldur fyrir nú. Var ákærða þá gert að greiða 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir innflutning á 675 nikótínfilterum sem lögreglan lagði hald á.  Ákærði er nú sakfelldur fyrir innflutning á 1050 nikótínfilterum og þrjár spjaldtölvur að óþekktu verðmæti.  

Er refsing ákærða hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt til ríkissjóðs sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í fjórtán  daga. Þá skal ákærði sæta upptöku á 1050 nikótínfilterum og þremur spjaldtölvum sem hald var lagt á af tollyfirvöldum 27. ágúst sl.

Ákærði verður dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er samkvæmt yfirliti 265.037 krónur vegna matsgerðar, auk málsvarnalauna skipaðs verjanda síns, Stefáns Geirs Þórissonar hrl., 716.100 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Ástríður Grímsdóttir kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Ákærði, Jón Ásgeir Ríkharðsson, greiði 200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í fjórtán daga.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, sem er samtals 981.137 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Geirs Þórissonar hrl., 716.100 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.     

                Ákærði sæti upptöku á 1050 nikótínfilterum og þremur spjaldtölvum er tollyfirvöld lögðu hald á.