Hæstiréttur íslands

Mál nr. 297/2014


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Samverknaður
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fyrning
  • Skilorð


                                     

Fimmtudaginn 27. nóvember 2014.

Nr. 297/2014.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Hauki Brandssyni

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Líkamsárás. Samverknaður. Ávana- og fíkniefni. Fyrning. Skilorð.

X var ásamt Y, Z og Þ ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa slegið og sparkað ítrekað í höfuð A og búk með þeim afleiðingum að hann hlaut skurði og sár á hvirfli, andliti og handlegg. Þá var X ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum 1,49 g af marihuana og 3,0 g af amfetamíni. Í dómi héraðsdóms var X sakfelldur og dæmdur í eins árs fangelsi en fullnustu níu mánaða refsingarinnar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Í dómi Hæstaréttar var niðurstaðan héraðsdóms staðfest að því er líkamsárásina varðaði og meðal annars tekið fram í því sambandi að þar sem X og meðákærðu hefðu fjórir slegið og sparkað í höfuð varnarlauss, liggjandi manns hefði verknaðaraðferðin verið sérstaklega hættuleg. Brot X væri því réttilega heimfært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn var X sýknaður af því að hafa haft í vörslum sínum fíkniefni með þeim röksemdum að brotið hefði verið fyrnt þegar ákæra var gefin út.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Til vara krefst hann sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu að brot ákærða samkvæmt fyrsta kafla ákæru verði heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu af henni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.  

Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

I

Ákærði krefst ómerkingar hins áfrýjaða dóms, annars vegar á þeim grundvelli að héraðsdómara hafi borið að neyta heimildar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu, og hins vegar með vísan til þess að mat dómsins á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. sömu laga.

Samkvæmt ákæru var ákærða, Y, Z og Þ gefin að sök líkamsárás sem talin var varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Ákærðu neituðu sakargiftum. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að einn héraðsdómari skipi dóm í hverju máli nema svo standi á sem segir í 3. mgr. til 5. mgr. greinarinnar. Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ef ákærði neiti sök og dómari telji sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi geti dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu. Tilvitnað ákvæði heimilar að hafa dóm fjölskipaðan við þær aðstæður sem vísað er til, en slíkt er ekki skylt. Eins og mál þetta er vaxið eru ekki efni til að fallast á kröfu ákærða um ómerkingu dómsins af þeirri ástæðu að einn héraðsdómari skipaði dóm í málinu í samræmi við meginreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008.

II

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi kom ákærði ásamt meðákærðu með leigubifreið að [...] í [...] aðfaranótt 14. nóvember 2010. Auk þeirra voru í bifreiðinni B og C. Að [...] voru auk brotaþola D, E og F, sem var húsráðandi. C mun á þeim tíma er atvik gerðust hafa verið unnusta meðákærða, Z.

Fyrir dómi var ákærði spurður um hvort hann hafi farið upp á aðra hæð hússins umrædda nótt til að koma einhverjum sem þar var út úr húsinu. Kvað hann það „ekkert ólíklegt að ef ég hafi verið þarna með þeim þá finnst mér nú líklegt að ég hafi haldið við þá ... en þá mjög líklega reyndi ég kannski að koma einhverjum út“. Þá kvaðst hann ekki geta „svarið fyrir það“ að hafa lent þar í átökum, en fannst líklegt að hann hefði munað eftir því ef hann hefði tekið mikinn þátt í þeim.

Meðákærði, Y, bar fyrir dómi að allir ákærðu hafi farið upp í herbergi það sem brotaþoli var í.

Lögregla fór á slysadeild í kjölfar árásarinnar og tók skýrslu af brotaþola. Kvaðst hann umrædda nótt hafa vaknað við einhver læti framan við hurð að herbergi því sem hann svaf í, en síðan hafi dyrnar opnast og á sig hafi ráðist nokkrir karlmenn sem hann þekkti ekki. Þeir hafi ítrekað sparkað í sig. Hann kvaðst aðeins geta lýst einum árásarmannanna, en sá hafi verið hávaxinn, dökkhærður með sítt hár og ,,var klæddur einhverju grænu, kannski peysu“. Í skýrslu sem lögregla tók af brotaþola 19. nóvember 2010 sagði hann alla vega fjóra karlmenn hafa komið inn í herbergið. Þeir hafi lamið og sparkað í sig, bæði í höfuð og búk. Hann kvaðst muna eftir því að maður, sem verið hafi hærri en hann sjálfur, dökkhærður og síðhærður með alskegg, hafi verið sá fyrsti sem réðist á sig, en síðan hafi hinir haldið áfram barsmíðunum. Fyrir dómi bar hann á þá lund að fjórir eða fimm menn hafi ruðst inn í herbergið og ráðist á sig með höggum og spörkum en stúlka komið þar inn og reynt að koma sér til varnar. Hann hafi þá náð að standa upp og hlaupið út. Spurður um lögregluskýrslu er hann gaf 19. nóvember 2010 kvaðst hann sjá fyrir sér ,,síðhærðan mann, mjög dökkhærðan, svona aðeins hærri en flestir ... með alskegg“. Spurður um hvort hann muni eftir að sá maður hafi ráðist á sig, svaraði hann  ,,já já eða þú veist ég man það ekki núna í dag ... en þeir voru að ráðast á mig, það er bara ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu ... ég sé hann fyrir mér dökkhærðan skilurðu það er skegg smá skegg hávaxinn grannur.“

Lögregla tók skýrslur af vitnum á vettvangi og kemur fram í samantekt lögreglu 15. nóvember 2010 að fyrrnefnd C hafi heyrt öskur frá annarri hæð hússins. Hún hafi þá farið upp og fundist eins og allir væru að lemja brotaþola og sparka í hann. Fyrir dómi bar hún að allir þeir sem verið hafi með henni í leigubifreiðinni hafi farið upp á aðra hæð og ráðist á brotaþola. Nánar spurð kvaðst hún ekki vita hver barði hvern ,,þeir stóðu svona yfir gaurnum og ég man gaurinn var liggjandi“.

Í samantektinni kemur einnig fram að fyrrgreind D hafi skýrt svo frá að hún hafi heyrt læti frá annarri hæð hússins og farið upp. Brotaþoli hafi legið á gólfinu og strákarnir verið að ,,sparka og sparka“ í hann. D gaf skýrslu hjá lögreglu 15. nóvember 2010. Hún sagðist ekki átta sig á hversu langur tími hafi liðið frá því að hópurinn kom með leigubifreiðinni að [...] þar til hún hafi heyrt læti á annarri hæð hússins. Hún hafi farið upp og séð brotaþola liggja í svefnherherberginu og þar ,,sé verið að sparka í hann liggjandi á gólfinu.“ Blóð hafi verið þar um allt. Hún hafi lagst ofan á brotaþola til að verja hann. Þegar hér hafi verið komið sögu hafi þrír menn verið inni í herberginu, en tveir fyrir utan það. Hún hafi sagt brotaþola að forða sér, en hann hafi beðið „strákana um að drepa sig ekki” og hann hafi greinilega verið mjög hræddur um líf sitt. Hún kvaðst muna mest eftir ákærða, Þ og Z þegar þetta gekk allt á. Hún kvaðst ekki þekkja þessa stráka, en kvaðst vita hver ákærði væri. Fyrir dómi kvað hún strákana sem komu með leigubifreiðinni hafa farið upp á aðra hæð hússins er þeir komu að [...] og ,,tekið strákinn sem var sofandi uppi og þeir eru bara að berja hann í stöppu“. Hún hafi séð ,,bara fullt af löppum sparka í strák og fullt af blóði.“ Eftir því sem hún best vissi hafi þeir allir slegið og sparkað í brotaþola. Spurð um þann framburð sinn hjá lögreglu að hún myndi mest eftir ákærða, Þ og Z, þegar þetta gekk allt á, kvaðst hún ekki muna eftir því. Sagði hún það áreiðanlegt sem eftir henni væri haft í lögregluskýrslunni, sem hún staðfesti.

Í ljósi alls framangreinds er ekki fallist á að nokkuð sé fram komið um að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, þannig að ástæða sé til að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað.

III

Af gögnum málsins verður ráðið að ákærði er dökkhærður og 1,98 cm á hæð og var, á þeim tíma er atvik urðu, með sítt, dökkt hár og skegg og 78 kg að þyngd. Á vettvangi fannst græn úlpa sem hann kvaðst eiga og í henni fundust þau fíkniefni sem þriðji kafli ákæru lýtur að. Lýsing brotaþola fyrir lögreglu á manni þeim, sem hann kvað fyrstan hafa ráðist á sig umrædda nótt, kemur því heim og saman við útlit og fatnað ákærða.

Í vottorði læknisins G 7. janúar 2014 sagði að brotaþoli hafi komið á slysadeild með sjúkrabifreið að morgni 14. nóvember 2010. Í vottorðinu er haft eftir brotaþola að hann hafi vaknað við að á sig var ráðist með höggum og spörkum og hafi sér jafnvel dottið í hug að hnífur hefði verið notaður við árásina. Greining læknisins á áverkum brotaþola voru opin sár á hársverði og á öðrum hlutum höfuðs, opið sár á framarmi, rifbrot, blóðnasir og blóð í þvagi. Fyrir dómi bar læknirinn að ekki væri unnt að staðfesta að áverkar hans væru eftir hníf, þeir væru líkara því að sljóu áhaldi hefði verið beitt, til dæmis röri og sprungið hefði fyrir undan því, þar sem mikið mar hefði verið kringum áverkana. Síðar sagði hann að skurðirnir væru ,,líklega eftir barsmíðar“ nema áverki á úlnlið, sem væri varnaráverki. Hann kvað blóð hafa verið í þvagi brotaþola og væri það hugsanlega merki um sparkáverka. Þegar framangreint er virt samrýmast áverkar brotaþola verknaðarlýsingu í ákæru, enda kemur hún heim og saman við framburð vitna sem gerð hefur verið grein fyrir. Samkvæmt öllu framangreindu og með hliðsjón af áverkum brotaþola sem lýst er í áverkavottorði verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða. Ákærði tók þátt í líkamsárás, þar sem fjórir menn slógu og spörkuðu í búk og höfuð varnarlauss, liggjandi manns. Er þessi verknaðaraðferð sérstaklega hættuleg og brot ákærða því réttilega heimfært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

IV

Í þriðja kafla ákæru er ákærða gefið að sök fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 1,49 g af marihuana og 3,0 g af amfetamíni 14. nóvember 2010. Hann var yfirheyrður hjá lögreglu 24. nóvember sama ár og játaði þar vörslur fíkniefnanna. Brotið fyrnist á tveimur árum samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, en rannsókn málsins lá niðri frá þeim tíma er hann játaði brot sitt. Var það því fyrnt þegar birt var ákæra sem  gefin var út 16. apríl 2013, sbr. 4. og 5. mgr. 82. gr. laganna. Verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi sem þessi kafli ákæru tekur til.

V

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að árásin var með öllu tilefnislaus, hrottafengin og unnin í félagi við aðra menn. Að þessu virtu og með vísan til 1., 3. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. sömu greinar verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða, sem rétt er að skilorðsbinda að hluta á þann hátt sem þar var gert vegna þess óútskýrða dráttar sem varð á útgáfu ákæru í málinu.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu, upptöku fíkniefna og sakarkostnað ákærða verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Haukur Brandsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 555.624 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 29. maí sl. 2013 og dómtekið 17. febrúar sl., er höfðað með tveimur ákærum. Fyrri ákæran er gefin út af ríkissaksóknara, dagsett 16. apríl 2013, á hendur Y, kennitala [...],[...],[...], Hauki Brandssyni, kennitala [...],[...],[...], Z, kennitala [...],[...],[...], og Þ, kennitala [...],[...],[...], fyrir neðangreind hegningar-, fíkniefna- og vopnalagabrot framin að morgni sunnudagsins 14. nóvember 2010 að [...] í [...]:

I.

„Gegn ákærðu öllum fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa ruðst inn í herbergi á efri hæð hússins og í félagi veist þar með ofbeldi að A og slegið og sparkað ítrekað í höfuð hans og búk. Af árásinni hlaut A þrjá skurði á hvirfli, skurð á enni hægra megin, skurð á vinstra kinnbein og skurð frá úteyra að kjálkabarði, blóðnasir og sár á vinstri framhandlegg auk þess sem grunur var um brot á tveimur rifbeinum.

Háttsemi ákærðu telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

II.

Gegn ákærða Þ fyrir vopnalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum hníf með 20 cm löngu hnífsblaði.

Telst þetta varða við a-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

III.

Gegn ákærða Hauki fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 1,49 g af maríhúana og 3,0 g af amfetamíni.

Telst þetta varða við 2., sbr. 5. gr. að því er amfetamínið varðar en einnig sbr. 6. gr. að því er maríhúana varðar, laga nr. 65/1974 sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga að upptækur verði gerður hnífur sem lýst er í ákærulið II. Loks er þess krafist með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni að upptæk verði gerð 1,49 g af maríhúana og 3,0 g af amfetamíni.“

                Með framhaldsákæru útgefinni 12. september 2013 á hendur öllum ákærðu var endanleg bótakrafa þannig:

„Af hálfu A, kennitala [...], er þess aðallega krafist að ákærðu verði dæmdir, in solidum, til að greiða brotaþola skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 1.316.474, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2010 þangað til mánuður er liðinn frá birtingu ákæru, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Þess er krafist til vara að ákærðu verði dæmdir, pro rata, til að greiða brotaþola miskabætur að áliti dómsins og hlutfallslega eftir sök hvers og eins, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2010 þangað til mánuður er liðinn frá birtingu ákæru, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Þá er í aðal- og varakröfu jafnframt gerð krafa um þóknun skipaðs réttargæslumanns samkvæmt framlagðri tímaskýrslu eða að mati dómsins.“

Seinni ákæran er gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 7. maí 2013 á hendur Z fyrir eignaspjöll með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 12. desember 2012 á bifreiðastæði við Landspítala við Eiríksgötu í Reykjavík hoppað á þaki bifreiðarinnar [...], með þeim afleiðingum að þak bifreiðarinnar dældaðist.

Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá gerir H, kt. [...], f.h. I, kt. [...], kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 348.940 krónur. Fékk mál þetta númerið S-606/2013 en var sameinað S-482/2013 með heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærði Y kom fyrir dóminn og neitaði sök. Ákærði Haukur neitaði sök varðandi ákærulið I, en játaði sök varðandi ákærulið III. Ákærði Þ neitaði sök í báðum ákæruliðum. Þá mótmæltu allir bótakröfunni. Ákæran á hendur ákærða Z var birt í Lögbirtingablaði og kom hann fyrir dóminn 10. október sl. ásamt verjanda sínum og tók sér frest til að taka afstöðu vegna ákæru, sem er dagsett 16. apríl 2013, en játaði sök í ákæru dagsettri 7. maí 2013. Mótmælti hann bótakröfunni. Ákærði Z kom aftur fyrir dóminn 30. október sl. og neitaði sök í ákæru útgefinni 16. apríl 2013 og mótmælti bótakröfunni.

Þann 12. september 2013 gaf ákæruvaldið út framhaldsákæru og lagði hana fram 4. október s.á. þar sem leiðrétt var einkaréttarkrafa brotaþola þannig að krafist var skaða- og miskabóta að fjárhæð 1.316.474 krónur í stað miskabóta að fjárhæð 1.423.390 krónur. Krafa um vexti er óbreytt. Var framlagningu framhaldsákærunnar mótmælt af hálfu ákærðu sem of seint fram kominni þar sem viðbótarupplýsingar hefðu legið fyrir við útgáfu ákæru þann 16 apríl 2013.

Aðalmeðferð málsins hófst 8. janúar sl., og framhald aðalmeðferðar fór fram þann 17. febrúar sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Málsatvik.

Ákæra útgefin 16. apríl 2013.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var lögreglan kölluð að [...] í [...] klukkan 10:47, 14. nóvember 2010 vegna líkamsárásar. Þegar lögreglan kom inn var þar fyrir A, sem sat á stól innan við svaladyr íbúðar á jarðhæð. Húsráðandi þar, F, kvaðst ekki þekkja A en sagði A hafa komið hlaupandi alblóðugan og verið mjög hræddur og sagt að menn væru að reyna að drepa sig. Hafi B þá hleypt A inn og hringt í lögreglu. Segir í skýrslunni að A hafi verið mjög blóðugur og mikið blóð lekið úr höfði hans og úr sári í andliti. Föt hans hafi verið útötuð blóði og erfitt að átta sig á öðrum meiðslum. Hafi hann skýrt lögreglu svo frá að nokkrir menn hafi ráðist á sig í raðhúsi í næstu götu. Húsráðandi þar heiti D. Var A fluttur á slysadeild. Við skoðun á nágrenninu sá lögreglan að við [...] var opin útidyrahurð og voru einhverjir aðilar fyrir utan. Fór lögreglan þangað og hitti þar fyrir E sem hélt á tveimur steikarhnífum í sitthvorri hendi. Þá voru í anddyrinu B og F. Vildu þau lítið tjá sig um meinta líkamsárás. Lögreglan leitaði að fleiri aðilum í húsinu og fann á efri hæð hússins Y,  Þ,  D, C, Z og Hauk Brandsson. Hafi Haukur verið inni á salerni og þegar hann kom út að fyrirskipan lögreglu var hann með sár á höndum sem hann kvaðst hafa fengið í vinnunni. Voru allir þessir aðilar handteknir á vettvangi.

                Í frumskýrslu lögreglunnar er haft eftir F og D að þeir aðilar sem hafi verið á efri hæð hússins hafi ráðist á brotaþola þar sem hann hafi verið sofandi uppi á efri hæðinni. Kváðust þær hafa verið heima ásamt brotaþola og E þegar ákærðu komu ásamt C og B í leigubifreið. Fyrst hafi þeir gengið að E, sem hafi verið mjög hræddur og því hafi hann verið búinn að grípa hnífa til að verjast þeim. Þeir hafi svo látið E í friði en farið á efri hæðina og ráðist á brotaþola. D kvaðst hafa komið að þeim þar sem þeir voru að sparka í brotaþola liggjandi og hafi hún lagst ofan á hann til þess að reyna að bjarga honum. Hafi brotaþoli þá náð að standa upp og hún sagt honum að flýja. Þegar brotaþoli var farinn hafi mennirnir farið að þrífa upp blóð sem hafi verið út um alla íbúð. C hafi skýrt lögreglu frá því að hún hafi verið mjög hrædd en hún hafi komið með Y, Z, B, Þ og Hauki í leigubifreið. Á efri hæð íbúðarinnar að [...] hafi mátt sjá blóðslettur og blóðkám á gólfi, veggjum og húsgögnum inni í herbergjum, á gangi og baðherbergi. Á neðri hæð hafi einnig verið blóðdropar á gólfi og blóðkám á útidyrahurð. Blóðugt handklæði hafi verið í þvottakörfu í þvottaherbergi og þvottur í þvottavélinni sem hafi verið í gangi þegar lögregla kom á vettvang. F húsráðandi kvaðst ekki hafa sett þvottavélina af stað og taldi meinta árásaraðila hafa gert það.

                Við húsleit að [...] fundust tveir hnífar í fataherbergi á efri hæð þar sem þeir höfðu verið faldir inni á milli skópara í hillueiningu. Í hjónaherbergi fundust undir rúmi gallabuxur með blóðkámi. Þar fannst einnig blóðugt handklæði. Inni á baðherbergi, undir baðherbergisinnréttingu, fannst blóðug tuska og plástursumbúðir. Í skrifstofuherbergi fannst sverð á gólfi við hlið sófa. Í þvottavél fannst handklæði og rúmteppi.

Ákæra útgefin 7. maí 2013.

Ákærði Z játaði sök varðandi þessa ákæru og eru ekki efni til að rekja málsatvik frekar og vísað til ákærunnar varðandi háttsemina.

Rannsóknargögn.

Rannsóknarskýrsla tæknideildar lögreglu.

Þann 29. október 2012, sendi tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu beiðni um rannsókn á blóði sem fannst í fötum og skóm á vettvangi. Var skýrsla tæknideildar um töku sýna og varðveislu og rannsókn gerð 13. desember 2012. Var niðurstaða rannsóknarinnar að fundist hafi blettir sem gáfu jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófum sem blóð. Var því talið að til staðar væru nothæf lífsýni til DNA-kennslagreiningar. Voru gögn send til DNA-rannsóknar þann 14. desember 2012 til Svíþjóðar. Niðurstöður úr DNA-rannsókninni lágu fyrir þann 27. febrúar 2013. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að nokkur sýni hafi ekki verið rekjanleg. Blóð sem var á millihurð að anddyri á 1. hæð reyndist hafa sama DNA-snið og brotaþoli. Sýni úr gallabuxum, haldlögðum að [...], höfðu öll sama DNA-snið og brotaþoli. Sýni af skóm Þ reyndust innihalda blöndu DNA-sniða frá a.m.k. tveimur einstaklingum og reyndist annað sýnið innihalda sama DNA-snið og brotaþoli. Sýni af skó Hauks Brandssonar hafði sama DNA-snið og brotaþoli. Blóðsýni úr gallabuxum Y var með bæði óþekkt DNA-snið og sama DNA-snið og brotaþoli. Þá segir að í máli þessu hafi verið send samtals 19 sýni, sem varðveitt höfðu verið til vettvangsrannsóknar að [...], af gögnum haldlögðum við rannsóknina, svo og við réttarlæknisskoðun á grunuðum og rannsókn á fatnaði þeirra. Frumrannsókn á sýnunum hafi leitt í ljós að í einu sýnanna, merktu 333054, af skó B, hafi ekki reynst vera blóð og það sýni því ekki rannsakað frekar. Blóð hafi verið til staðar í öðrum sýnum og hafi þau þá verið rannsökuð áfram og greind með DNA-greiningaraðferðum. Eitt sýnanna sem varðveitt var við vettvangsrannsókn að [...], merkt 332855, millihurð að anddyri 1. hæðar, blóðblettur, ásamt sýnum úr gallabuxum haldlögðum að [...], merkt 333081 -1 til 333081 -4, sýni af skóm grunaðs, Hauks Brandssonar, merkt 333121, hægri og vinstri skór Hauks Brandssonar, blóðblettir, og sýni varðveitt af bakhlið buxna í eigu grunaðs Y, merkt 369850-3, reyndust öll innihalda sama DNA-snið og var það snið eins og DNA-snið  brotaþola A. Þá segir að DNA-snið brotaþola hafi einnig komið fram í litlu magni í sýni merktu 333119 af skó Þ, blóðbletti. Þá segir að DNA-snið, sem merkt var „óþekkt 1“ hafi verið til staðar í einu sýni sem varðveitt var við vettvangsrannsóknina að [...], merkt 332852, tekið í svefnherbergi á 2. hæð, blóðklístur á gólfi, og hafi kyngreinir sýnt að sýnið væri frá kvenmanni. Enn fremur kemur fram að til staðar hafi verið DNA-snið af Þ, í sýni sem merkt var „Óþekkt 2“, og tekið hafi verið við réttarlæknisskoðun á honum, merkt 333118, af fingri og í sýni, merktu 332853, veggur við stigapall á 2. hæð, blóðkám, hafi verið DNA-snið eins og í brotaþola. DNA-snið, sem merkt var „Óþekkt 3“, hafi verið til staðar í sýni, sem tekið hafi verið við réttarlæknisskoðun af Y, merkt 333116, af hægri litlafingri, svo og í sýnum sem vor varðveitt af framhlið buxna í eigu Y, merktum 36980 -1 og 369850 -2, og einnig í sýni sem hafi verið tekið á vettvangi af stól í herbergi á 2. hæð á [...]. Þá hafi DNA-snið í sýni, merkt „Óþekkt 4“, eingöngu verið til staðar af skóm í eigu Z.

                Að lokum segir í skýrslunni að miðað við þá tækni og aðferðarfræði sem rannsóknarstofa SKL noti, megi ganga út frá því, um áreiðanleika niðurstöðunnar, að líkurnar á að finna sams konar snið frá óskyldum einstaklingi séu ávallt minni en 1:1.000.000.000.

Læknisvottorð.

J læknir skoðaði ákærða Y að beiðni lögreglu þann 14. nóvember 2010. Segir í vottorðinu að á litlafingri hægri handar hafi verið lítið ferskt sár við naglabeð. Aðra ferska áverka hafi ekki verið að finna á honum. J skoðaði einnig ákærða Þ þann 14. nóvember 2010. Kemur fram í vottorðinu að á hægri öxl hafi verið um 10 sm löng og um eins mm breið blóðhlaupin rák, sem lá frá hálsi og út á öxlina um 1 sm löng svipuð rák lá þvert við efri enda þeirrar lengri. Ekkert húðrof var yfir þessum áverkum. Lófamegin á nærkjúku hægri baugfingurs var um 1 sm skurðsár, sem lá þvert. Virðist sárið ekki alveg ferskt, soðið í kantana. Plástur var yfir sárinu. Kvaðst Þ hafa fengið það af brotinni flís við flísalagnir fyrir tveimur dögum. Aðra ferska áverka hafi ekki verið að finna á Þ. J skoðaði einnig ákærða B sama dag. Kemur fram í vottorðinu að engir ferskir áverkar hafi verið sýnilegir á B. J skoðaði einnig ákærða Hauk þann sama dag. Kemur fram í vottorðinu að smárispa hafi verið vinstra megin á brjósti, um átta sm ofan við vinstri geirvörtu og virðist vera fersk, um eins sm löng og lá skáhalt niður og út á við. Blóð virtist á hægri lófa án sýnilegs sárs. Á hægri þumli voru nokkur fersk grunn sár. Eitt þeirra við liðamótin en tvö á nærkjúku. Á vinstra handarbaki voru tvö fersk, grunn sár. Það stærra var þríhyrningslaga með breiðari enda í átt að fingrum, um 3 sm langt. Annað minna sár, ferskt, grunnt var á handarbaki innan við fjærenda stærra sársins. Aðrir ferskir áverkar hafi ekki verið á ákærða. J skoðaði einnig ákærða Z umræddan dag. Kom fram við skoðun á honum að hann var með ferskt grunnt sár á fingurgómi vinstri vísifingurs, sem ákærði kvaðst hafa hlotið eftir að hann kom í fangaklefa. Önnur fersk áverkamerki hafi ekki verið að finna á honum.

                Læknabréf Bráðadeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss, dagsett 15. nóvember 2010, vegna brotaþola, liggur fyrir í málinu. Þar segir að við skoðun hafi komið í ljós þrír skurðir uppi á hvirfli brotaþola. Þeir hafi verið aðeins óreglulega lagaðir, meira eins og eftir högg heldur en eftir eitthvert eggvopn. Þeir lengist eftir því sem aftar dragi á hvirflinum, lengsti skurðurinn sé um þrír sm. Sá skurður hafi verið deyfður og saumaður með fjórum sporum. Þá komi rétt aftar skurður, sem sé um fimm sm að lengd, og hann hafi verið saumaður með sjö sporum. Aftan við miðjan hvirfil sé skurður, sjö til átta sm langur, sem hafi verið saumaður með tíu sporum. Brotaþoli hafi verið með svolítinn skurð á enni hægra megin, um tvo og hálfan sm, sem hafi verið saumaður með fimm sporum. Þá hafi brotaþoli verið með um fjögurra sm skurð á vinstri kinnbeini og talsvert mikil bólga hafi verið þar undir. Það sé eins og þar hafi komið þokkalega þungt högg. Það sár hafi verið saumað með sjö sporum. Brotaþoli hafi fengið blóðnasir. Loks hafi hann verið með skurð, sem teygi sig frá úteyra og niður á kjálkabarðið og sé annars vegar svolítil rispa frá eyranu sjálfu og grunnur skurður, sem sé kannski tveir sm niður af eyranu og það sár hafi verið deyft og saumað með fjórum sporum. Loks sé brotaþoli með sár á vinstri framhandlegg og sé það aðeins V-laga flipi, kannski eins og tveggja sm samtals og virðist ekki hafa skemmt taugar eða sinar. Það sár hafi verið saumað með fimm sporum.

                Röntgenmynd af höfði og andlitsbeinum var tekin og ekki var að sjá innvortis blæðingar né brot. Nokkuð áberandi vökvarými framan við „lobus temporalis vinstra megin, mögulega arachnoidal cysta.“ Brot greinist ekki í höfuðkúpu en hematona í mjúkvefjum „extra cranielt parietalt“ vinstra megin og eilítið loft í mjúkvefjum þar. Þá kemur einnig fram að brotaþoli hafi verið farinn að kvarta um eymsli í vinstri síðunni og sé aumur í 5. og 6. rifi þar og í sjálfu sér ekki hægt að útiloka að ekki kunni að vera einhver sprunga þar en miðað við mettun þá sé ósennilegt að þetta sé eitthvað að trufla hann.

                Vottorð G læknis frá 7. janúar 2014 liggur fyrir í málinu. Þar segir að sjúklingur hafi komið inn með sjúkrabíl að morgni 14. nóvember 2010. Hann hafi verið í heimahúsi og vaknað við það að á hann var ráðist með spörkum og höggum, jafnvel hafi honum dottið í hug að þar hafi hníf verið beitt. Kemur fram í vottorðinu að brotaþoli hafi, við komu á slysadeild, verið í uppnámi og lýsi því sem hann muni og sem skýrist aðeins betur þegar frá líði. Hann sé talsvert blóðugur um andlit og hendur og föt hans líka. Á höfði sé hann með þrjá skurði uppi á hvirfli. Aðeins óreglulega lagaðir og virðast vera eftir högg með rúnnuðu áhaldi fremur en eftir eggvopn. Þá segir að skurður eitt sé um þriggja sm og sé saumaður með fjórum sporum. Skurður tvo sé um fimm sm langur og saumaður með sjö sporum. Skurður þrjú sé sjö til átta sm langur og liggi frá miðjum hvirfli og sé saumaður með tíu sporum. Á enni hægra megin sé  hann með 2½ sm skurð sem sé saumaður saman með fimm sporum af andlitsþræði. Fjögurra sm skurður sé á vinstra kinnbeini og talsvert mikil bólga þar undir. Þar sé deyft og saumað með sjö sporum af andlitsþræði. Brotaþoli hafi fengið blóðnasir. Nefið virðist þokkalega beint en blæðing haf stöðvast. Hann sé með skurð sem teygi sig frá eyra niður á kjálkabarð um tvo sm langan og sé saumaður með fjórum sporum. Hann sé með sár á vinstri framhandlegg við úlnlið, V-laga flipasár eins til tveggja cm samtals, og virðast taugar eða sinar ekki hafa skemmst. Þar sé saumað með fimm sporum. Samtals séu þetta þrjátíu og sex spor. Á tölvusneiðmynd sjást engin ummerki um brot, blæðingar eða áverka á heilanum. Við greiningu segir: „Opið sár á hársverði, S01.0. Opið sár á öðrum hlutum höfuðs, S01.8 (Sár í andliti.) Opið sár á framarmi, hluti ótilgreindur, S51.9. Rifbrot, S22.3. Blóðnasir, R04.0. Blóð í þvagi, R31.“

                Í niðurstöðum vottorðsins segir að sjúklingur sé með fjölda skurða í hársverði, í andliti og á framhandlegg. Mar sé í kringum sárin sem séu saumuð saman. Hann sé jafnframt með eymsli í rifjahylki, sem hæglega geti verið ígildi rifbrots. Hann sé jafnframt með blóð í þvagi sem sé horfið næsta dag. Spurning sé hvort mar á nýra sé ástæða þess. Þannig hafi sjúklingur orðið fyrir töluverðum áverkum af völdum annars manns og megi vera að framhandleggsáverkinn sé varnaráverki. Að lokum segir að sjúklingur hafi komið aftur þann 18. nóvember og 20. nóvember 2010 vegna sýklalyfjagjafar og hann fái sýklalyf áfram eftir það.

                Skýrsla tæknideildar lögreglunnar liggur fyrir og vettvangsrannsókn að [...]. Aðstæðum á vettvangi er lýst þannig að í anddyri og forstofu neðri hæðar hafi verið sjáanlegir blóðblettir á innanverðri útidyrahurðinni, sem og millihurð í forstofu. Blóðferlar þar hafi verið með stefnu að útidyrahurðinni og geti verið tilkomnir frá brotaþola sem sagður er hafa verið alblóðugur á höfði og höndum. Í forstofunni hafi verið þrifmoppa og ummerki eftir þrif á veggjum við stigapall neðri og efri hæðar. Hald hafi verið lagt á blautt handklæði úr þvottavél en sjá hafi mátt rauðleita bletti í handklæðinu. Þá er sýnatökum lýst sem hafi gefið jákvæða svörun með Hemident-blóðprófi. Alls hafi verið tekin sýni á þremur stöðum á efri hæðinni og að auki úr blóðkámi á stólsetu í herbergi á efri hæð, úr blóðblettum á gólfi í svefnherbergi, milli rúms og borðs. Þá hafi gallabuxur fundist í svefnherbergi húsráðanda á efri hæð með blóðblettum á báðum skálmum. Buxunum hafi verið komið undir rúmið, neðan við höfðagafl. Þar hafi einnig verið að finna hvítt handklæði með rauðleitum blettum í. Á hillu í fataherbergi hafi fundist tveir hnífar, annar með 20 sm löngu, skörðóttu hnífsblaði en hinn svonefndur „butterfly“, ómerktur með 9 sm löngu hnífsblaði. Ekki hafi verið að finna á hnífsblöðunum blóðbletti. Á gólfi baðherbergis efri hæðar hafi verið opnar umbúðir af plástrum og blóðugar grisjur og tuska.

                Ljósmyndir liggja fyrir af vettvangi að [...]. Þá skoðaði dómari grunnteikningu af húsinu á heimasíðu [...]. Sú teikning var ekki lögð fram en er öllum aðgengileg á veraldarvefnum. Þá liggja fyrir ljósmyndir af [...]. Má þar sjá mikið blóð, bæði fyrir utan svalahurð og innan hennar þar sem brotaþoli sat og beið eftir sjúkrabifreið. Þá liggja fyrir ljósmyndir af brotaþola og áverkum hans. Einnig eru ljósmyndir af ákærðu og þeim áverkum sem á þeim fundust.

                Réttarlæknisfræðileg rannsókn fór fram á ákærðu sem liggur fyrir í málinu og hefur verið lýst hér að ofan.

                Læknisvottorð K geðlæknis, dagsett 5. september 2013, liggur fyrir í málinu vegna brotaþola. Um fyrra heilsufar brotaþola segir að fyrir árásina hafi hann hvergi verið til lækninga eða meðferðar. Hann hafi lent í vinnuslysi fyrir mörgum árum þar sem hann hafi slasast í slípirokk og verið frá vinnu í tvær vikur. Engar varanlegar afleiðingar hafi orðið af því slysi. Um persónusögu brotaþola segir að hann hafi farið í nám í pípulögnum og gengið vel og sé nú í meistaraskóla. Hans áhugamál séu ræktin og fjallamennska, sem hann stundi sæmilega. Góðir vinir ýti honum af stað. Við skoðun segir að brotaþoli sé meðalmaður sem komi vel fyrir. Hann sé ekki dapur eða kvíðinn í yfirbragði en finnist augljóslega umræðan um slysið vera mjög óþægileg. Hann lýsi sveiflandi geðslagi með kvíðaeinkennum og að hann hafi aðeins talað um árásina við þá fimm nánustu í lífi sínu. Sjáanleg séu ör á hægri úlnlið við rót þumals, 2-3 sm, og í miðjum hvirfli ögn hægra megin um 2 sm að lengd.

 Í niðurstöðum vottorðsins segir m.a. að brotaþoli hafi orðið fyrir fólskulegri árás með líkamsmeiðingum þannig að úr blæddi. Atburðurinn sé til þess fallinn að valda ógn og skelfingu. Brotaþoli hafi orðið mjög hvekktur og sár í framhaldinu og sýnt merki um aðlögunarröskun með geðsveiflum, kvíða, hræðslu og svefntruflunum. Þá hafi hann misnotað áfengi um tíma í framhaldinu. Síðar hafi hann verið með sveiflukennd þunglyndis- og kvíðaeinkenni sem verði að ætla að rekja megi til þessarar árásar. Eftir árásina hafi hann hellt sér út í vinnu og haft gott af og m.a. verið tvö ár erlendis að vinna. Hann hafi ekki farið í meðferð vegna geðeinkenna sem rekja megi til árásarinnar. Honum sé ráðlagt að leita sér slíkrar meðferðar í heimabyggð sinni. Það verði því miður að ætla að geðheilsa brotaþola verði til framtíðar lituð af þessum atburði og þurfi að taka tillit til þess við mat á miska sem hann hafi fengið vegna atburðanna.

                Að lokum liggja fyrir upptökur af framburði ákærðu hjá lögreglu í hljóði og mynd.

Framburður fyrir lögreglu.

Ákærði Y lýsti því svo hjá lögreglu að hann hafi komið með einhverju fólki að [...] umrætt sinn. Þau hafi verið sex í leigubíl og  komið þangað um tíuleytið en hann muni það þó ekki. Þá hafi strákur verið læstur inni í herbergi í húsinu og skildist ákærða að strákurinn hafi ekki viljað fara út úr herberginu. Þá hafi allir þotið upp á efri hæðina í þeim tilgangi að fá „gæjann“ út. Þeir hafi náð að opna hurðina og hélt ákærði að árásarþoli hafi endað bak við hurðina þegar hún opnaðist. Ákærði kvaðst þá hafa séð að sjónvarp hafi verið að detta og stokkið til og gripið það og þá snúið baki í hópinn og því ekki séð hvað gerðist. Hann hafi náð að bjarga sjónvarpinu og þá sýnst út undan sér einn úr hópnum, lágvaxinn, ætla að ráðast á brotaþola en ákærði hafi stoppað hann af. Því hafi ákærði tekið utan um þann aðila og haldið honum þar til brotaþoli var staðinn upp og farinn út. Sá hafi ekki gert brotaþola neitt. Ákærði kvaðst telja að rauðhærði maðurinn í hópnum hafi kýlt brotaþola þegar brotaþoli lá niðri. Ákærði kvaðst ekki hafa notað né séð að hnífur hafi verið notaður umrætt sinn. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn og muna vel eftir kvöldinu.

Ákærði Haukur Brandsson sagði hjá lögreglu að nokkrir strákar hafi farið heim til Þ í [...] í [...] en hann muni lítið eftir því vegna ölvunar. Þeir hafi síðan farið  í partí en ákærði mundi ekki hvar það var né með hverjum hann fór. Síðasta sem hann myndi var að lögreglan hafi bankað á hurð á salerninu þar sem ákærði var. Næst myndi hann eftir sér handjárnuðum í lögreglubíl. Ákærði kvaðst ekki vita hver brotaþoli væri og kannaðist ekki við að hafa beitt hnífi. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um hvernig hann fékk sár  ofan við þumalfingur vinstrihandar og á þumalfingur hægri handar auk marbletta en hann hljóti að hafa fengið sárin um nóttina.

Ákærði Z kvaðst hafa verið að skemmta sér með kærustu sinni C fyrr um kvöldið. Undir morgun hafi einhver gaur hringt í C og þeim verið boðið í partí ásamt öðrum gaur sem hafi verið í sama afmæli um kvöldið og þau í [...]. Í því partíi hafi einhver boðið þeim í partí í [...] og þau farið sex saman í leigubíl. Þegar þau komu í [...] hafi stelpa verið þar ásamt fleira fólki. Ákærði, ásamt C kærustu sinni, hafi farið upp á efri hæð hússins ásamt fleirum sem voru með honum í leigubílnum. Eitthvað hafi gerst mjög hratt, ákærði vissi ekki hvort hurð hafi verið rifin eða sparkað upp, en ákærði hafi ekki séð hvað gerðist. Fórnarlambið hafi verið inni í herberginu en ákærði og C hafi snúið baki í slagsmálin en mikill hávaði og öskur hafi verið. Ákærði kvaðst hafa verið mjög brugðið og brugðið enn meira þegar hann sá hversu mikið C hafi brugðið. Ákærði hafi brugðist þannig við að hann dró C með sér innar í ganginn og reyndi að róa hana. Síðan hafi brotaþoli allt í einu verið horfinn. Ákærði kvaðst aldrei hafa farið inn í herbergið. Ákærði kvaðst bara hafa séð troðning, heyrt hávaða og mikil læti inn um hurðina í herberginu. Ákærði kvaðst hafa séð húsráðanda í fyrstu sem hafi farið upp tröppurnar á efri hæðina að hluta en farið svo aftur niður. Vissi hann ekki hvort hún hafi komið aftur upp. Ákærði kvaðst ekki hafa séð brotaþola laminn. Taldi ákærði strákana sem voru með þeim í leigubílnum hafa verið inni í herberginu en hann hafi ekki þekkt þá og gæti ekki lýst þeim. Þeir gætu hafa verið þrír eða fjórir inni í herberginu. Minnti ákærða að þeir hafi allir verið með skegg sem voru með honum í leigubílnum en kvaðst ekki geta fullyrt það. Kvað hann stelpuna, sem hann hélt að væri húsráðandi, með skollitað hár, hafa seinna staðið með steikarhníf á neðri hæðinni en hún hafi örugglega ekki notað hann í neitt. Kvaðst ákærði hafa verið „semi“ fullur, og neytt amfetamíns fyrr um kvöldið og það hafi allavega verið mjög skemmtilegt fram að þessu. Ákærði kvaðst hafa fengið sár á fingur í fangaklefanum. Taldi ákærði dökkhærðan mann með dökkt skegg hafa farið inn á salerni eftir árásina á efri hæðinni og verið skorinn á fingri. Sá hafi verið svipaður á hæð og ákærði, kannski lægri en ákærði sem væri 175 sm á hæð eða svipaður á hæð en hann hafi verið með sér í leigubílnum.

Ákærði taldi að ef blóðblettir fyndust á skóm hans þá hafi það getað borist á skóna hans í forstofunni þegar brotaþoli fór út, en ákærði hafi farið úr skónum áður en hann fór inn í íbúðina. Hann hafi farið í skóna þegar lögreglan handtók hann.

Ákærði Þ kvað hjá lögreglu sig, Z, Hauk, Y og B og einhverja stelpu, sem hann vissi ekki nafnið á, hafa verið heima hjá sér og ákærði ætlað að fara að sofa. Þá hafi F hringt og sagt E vera heima hjá sér og hún væri að reyna að losna við hann út. Hún hafi sagt E káfa á sér og spurt sig hvort hann gæti komið og hent E út fyrir sig. Kvaðst ákærði hafa haldið áfram að tala við D og E í síma í leigubílnum á leið að [...]. Þegar þau komu á staðinn hafi E staðið fyrir utan húsið og verið með hníf og gengið í hringi eins og hálfviti. Ryskingar hafi orðið fyrir utan húsið á milli þeirra allra við bílskúrinn og E síðan rokið inn og upp stigann og öll hersingin á eftir honum. E hafi rokið inn í herbergi þar sem annar strákur hafi verið fyrir. Ákærði vissi ekki hvað gerðist næst nema að allt hafi orðið kolvitlaust. Vissi ákærði ekki hvort þetta hafi verið ryskingar á milli E og brotaþola eða annarra. E hafi verið alveg brjálaður en þeir hafi síðan hent strákunum báðum út og meira hafi þeir ekki gert. Aðspurður kvaðst hann hafa heyrt á látunum að einhverjar ryskingar voru uppi en hann hafi komið upp eitthvað á eftir hinum. Þetta hafi verið þar sem sjónvarpið var og kannski hafi brotaþoli fengið sjónvarpið í hausinn. Ákærði kvaðst ekki hafa séð þegar sjónvarpið datt en hann hafi séð blóð á kommóðunni. Ákærði kvaðst hafa séð blóð í andliti stráksins og þá tekið í höndina á honum og sagt honum að koma sér. Sá hafi þá tekið á rás og hlaupið út og E á eftir. Svo hafi lögreglan bara allt í einu verið komin. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neinn annan með hníf en E en E hafi ekki verið með hnífinn þegar þeir komu á staðinn. F hafi líka sagt sér að E hafi verið með hníf og ætlað að drepa sig þegar hún hringdi í ákærða. Ákærði kvaðst hafa fengið sár á höndina á föstudeginum, við flísalögn, en sárið hafi rifnað upp og blætt úr því á staðnum. D hafi þá látið hann hafa plástur og hann sett hann á sig uppi á baðherberginu. Ákærði kvaðst hafa verið mjög ölvaður umrætt sinn og undir áhrifum fíkniefna.

                Vitnið E kvaðst hafa verið með F og D og einhverjum gaur á bar og hafi þau öll komið með leigubíl frá Reykjavík að [...], heim til F. Kvaðst vitnið ekki þekkja manninn sem var með þeim en kannast við stelpurnar. Þetta hafi verið seint um nótt, um fimm- eða sexleytið kannski. Þau hafi verið þar í rólegheitum og einhver hafi hringt í D. Vissi vitnið ekki hvernig það hafi endað í símanum en sá hinn sami hafi hótað sér og síðan hafi vitnið áttað sig á því að gaurinn ætlaði að koma og ráðast á vitnið og brotaþola. Brotaþoli hafi verið uppi og vitnið farið til hans og reynt að tala við hann og sagt honum að menn væru á leiðinni til að ganga frá þeim. Brotaþoli hafi verið sofandi, ekki viljað vakna og sagt vitninu að koma sér út, fylgt sér að dyrunum og skellt hurðinni á eftir sér. Vitnið hafi því farið niður og út og verið þar þegar mennirnir komu, fjórir eða fimm, í leigubíl. Vitnið hafi fyrst tekið upp grjót og verið með það í þeim tilgangi að verja sig og aðra inni í húsinu. Vitnið hafi kannast við einn mannanna og því róast. Mennirnir hafi nálgast hann, spurt hvar brotaþoli væri og vitnið sagt hann vera uppi. Þeir hafi allir farið inn í húsið og vitnið á eftir þeim. Kvaðst vitnið ekki geta fullyrt hvort einhver hafi verið með hníf en grunaði það. Vitnið mundi að önnur hvor D hafi komið upp í stigann í upphafi en mundi ekki hvor. Vitnið hafi séð mennina fara inn í herbergið en vitnið ekki þorað alla leið upp. Þá taldi vitnið að árásarþoli hafi verið sleginn með krepptum hnefa og gæti verið að hnífur hafi verið notaður auk þess að það hafi verið sparkað í hann. Einn af þeim sem var í herberginu hafi haft sig mest í frammi. Þá hafi einhverjir staðið í dyragættinni þannig að vitnið sá ekki vel inn í herbergið. Kvað vitnið árásarmennina hafa leyft brotaþola að fara og hafi vitnið fylgt brotaþola út. Þá hafi vitnið farið inn í eldhús og náð sér í tvo hnífa til að geta varið sig og farið með þá út fyrir. Vitnið kvað sér hafa verið mjög brugðið. Þar hafi vitnið beðið eftir lögreglunni en F hafi verið búin að hringja í lögreglu.

Vitnið B kvaðst ekki hafa komið nálægt neinum slagsmálum í þessu partíi. Hann hafi komið með leigubíl í partíið með Y, Hauki, Þ og einhverri stelpu. Fljótlega eftir að vitnið kom inn í húsið hafi slagsmál brotist út á efri hæðinni. Vitnið hafi kíkt upp og séð menn kýta svo vitnið hafi farið niður aftur og farið út að reykja. Þá hafi komið út dökkhærð stelpa sem hafi verið útötuð í blóði í andliti, eins og það hafi slest á hana. Hún hafi verið í einhverju móðursýkiskasti en vitnið ekki gert sér grein fyrir því að þetta hafi verið eitthvað alvarlegt. Fyrir utan húsið hafi einhver skíthræddur strákur staðið með tvo hnífa og verið þar þegar lögreglan kom. Taldi vitnið að Haukur hafi verið uppi, Þ og rauðhærður maður sem hann þekkti ekki. Y hafi verið niðri þegar vitnið kom aftur niður, þó var vitnið ekki visst. Dökkhærða stelpan hafi talað um að einhver hafi verið með hníf og stelpan sem bjó þarna hafi komið gangandi með hníf á neðri hæðinni. Hafi þetta verið eins og í skrýtinni mynd.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði Y kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að [...] ásamt meðákærðu. Einhver hafi hringt og sagt að tveir menn væru hjá D og væru með leiðindi og aðstoð vantaði til að koma þeim út úr húsinu. Þegar þeir komu inn í húsið var þeim sagt að annar mannanna væri uppi og hefði læst sig inni í herbergi. Þeir hafi farið upp og einhver hafi náð að opna hurðina. Y hafi farið síðastur inn af þeim. Hann hafi séð að sjónvarp var að detta og rokið til og gripið það. Allir ákærðu hafi farið upp á efri hæðina. Þegar þetta var búið hafi honum fundist fleiri vera inni í herbergi, m.a. stelpa. Kvaðst ákærði ekki vita nákvæmlega hvað hafi gerst, hvort brotaþoli eða einhver hafi dottið á skenkinn sem sjónvarpið stóð á. Strákurinn hafi verið einhvern veginn á bak við hurðina. Brotaþoli hafi snúið baki í ákærða, en ákærði hafi séð eitthvað af blóði þarna. Brotaþola hafi verið sagt að fara út, hann hafi farið niður og það hafi tekið hann langan tíma að koma sér út. Ákærði kvaðst ekki muna hvort mikið blóð hafi verið uppi. Ákærði hafi farið niður og þá hafi brotaþoli staðið fyrir utan húsið og honum verið sagt að koma sér burt. Mundi ákærði að ákærði Haukur hafi verið að þrífa upp blóð eftir þetta. Ákærði kvaðst ekkert þekkja Hauk og Z. Ástæða þess að þeir hafi farið allir í [...] hafi verið að hann hafi verið staddur í partíi með öðrum og það einhvern veginn æxlast svo að hann fór með þeim. Ákærði kvaðst hafa verið að skemmta sér alla nóttina og verið nokkuð ölvaður þegar þetta gerðist en muni þetta nokkuð vel. Ákærði kvað eingöngu hafa verið rætt um það í leigubílnum á leiðinni til [...] að koma þessum mönnum út úr húsinu. Ákærði kvaðst ekkert hafa gert við brotaþola og verið uppi í einu herberginu þegar lögreglan kom á vettvang. Aðspurður um sár á litlafingri kvaðst ákærði sennilega hafa fengið það þegar hann var að bjarga sjónvarpinu.

                Ákærði kvaðst ekki hafa ruðst inn í herbergið og komið þangað inn síðastur allra meðákærðu. Flestir þeirra hafi verið einhvern veginn á bak við hurðina þegar hann kom inn. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neinn berja brotaþola, hann gæti hafa séð eitthvað út undan sér en var ekki viss. Aðspurður kvað ákærði lögreglu hafa haft rangt eftir sér í lögregluskýrslu um að ákærði hafi sagst hafa séð einhvern dökkhærðan náunga ráðast á brotaþola, það væri ekki rétt eftir sér haft. Ákærði kvaðst aldrei hafa haft annan ásetning með ferðinni en að koma þessum mönnum út úr húsi. Ákærði kvaðst hafa klárað skóla eftir atvikið og vinni í dag sem húsasmiður.

                Aðspurður hver hafi reynt að opna svefnherbergishurðina kvaðst ákærði ekki muna það. Ákærði kannaðist ekkert við umtal um hníf né skrautsverð.

                Ákærði kvað rétt eftir sér haft hjá lögreglu að hann hafi séð út undan sér rauðhærðan náunga berja brotaþola en hann þekkti þann aðila ekki. Aðspurður um blóð á skóm ákærða og buxum, taldi ákærði að það gæti hafa lekið úr litla fingri en nokkuð mikið hafi blætt úr fingrinum. Ákærði kvaðst hafa farið niður eftir atlöguna en ekki séð brotaþola. Ákærði hafi farið aftur upp og verið þar þegar lögregla kom á vettvang en kvaðst ekki geta gefið neina skýringu á því hvers vegna hann fór aftur upp á efri hæðina. Aðspurður um niðurstöður tæknideildar lögreglunnar um að sama DNA-snið og úr brotaþola hafi fundist á buxum ákærða, kvaðst ákærði ekki geta skýrt það en hann hafi ekki sér vitandi komið við brotaþola.

                Aðspurður um aðra sem voru á efri hæðinni þegar árásin var, minnti ákærða að það hafi verið fullt af fólki. Þá kvaðst ákærði muna það að meðákærði Þ hafi verið í símanum alla leiðina til [...]. Aðspurður um þann rauðhærða, sem ákærði lýsti hjá lögreglu, kvað ákærði það hafa verið meðákærða Z en sagðist ekki geta verið alveg viss. Þá kvaðst ákærði muna eftir því að brotaþoli hafi neitað að opna hurðina inn í svefnherbergið þegar þeir komu upp.

                Ákærði Haukur Brandsson kom fyrir dóminn og kvaðst lítið muna. Hann muni þó að hann hafi verið í samkvæmi og þar hafi verið rætt um að fara í eitthvað annað partí. Þá muni hann óljóst að rætt hafi verið í leigubílnum að einhver væri vopnaður á staðnum og síðan myndi hann óljóst eftir því að hafa farið út úr leigubílnum. Minnti ákærða að tilgangur ferðarinnar hafi verið að koma einhverjum út úr húsi. Treysti ákærði sér ekki til að skýra nánar frá atvikum. Ákærða rámaði í að hafa séð blóð eða að hann hafi verið að þrífa blóð í stiga. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að vera í drykkju frá því föstudeginum áður og hafði ekki hugmynd um það hvort hann hafi neytt fíkniefna. Ákærði kvað líklegt að hann hafi farið með meðákærðu inn í herbergi brotaþola en hann myndi það ekki. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa lent í átökum en hann gæti ekki svarið fyrir það. Ákærði kvaðst hafa rætt atvikið við meðákærðu til að fríska upp á minni sitt. Ákærði kvaðst ekki hafa neinar skýringar á þeim áverkum sem voru á honum við handtöku. Ákærði kvaðst hættur að neyta áfengis, hann væri í fastri vinnu og í sambúð. Ákærða rámaði í að meðákærði Örn hafi rætt í síma í leigubílnum en gat ekki fullyrt það.

                Ákærði Z kom fyrir dóminn og kvaðst ekki geta greint frá því af hverju hann fór að [...] umræddan morgun, það hafi verið hrein tilviljun. Ákærði neitaði því að hafa veist að brotaþola.

                Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt meðákærðu en hann hafi farið með þeim á [...] ásamt kærustu sinni C. Ákærði kvað þau öll hafa farið inn í húsið og þau rætt saman á léttum nótum og enginn æsingur hafi verið. Síðan hafi allt farið í háaloft. Ákærði kvaðst þá hafa dregið kærustu sína frá og farið með hana í annað herbergi og því séð mjög lítið. Ákærði kvaðst meira hafa heyrt en séð og það sem hann hafi séð sé ekki mikið. Ákærði kvaðst hafa séð fólk hlaupa fram og til baka og einhvern hávaða og einhvern troðning inni á gangi, á efri hæð minnti ákærða. Ákærði kvaðst ekki geta lýst miklu, enda myndi hann lítið. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neina áverka á brotaþola en það gæti verið að hann hafi séð blóð í stiga. Hann myndi ekki eftir því að einhver hafi verið að þrífa upp blóð en það gæti verið. Ákærði kvaðst kannast við að einhver hafi átt að vera í húsinu sem ekki ætti að vera þar en þegar þeir komu á staðinn hafi það ekki virst vera. Einhver stelpa hafi búið þarna og ekkert óeðlilegt virtist vera í gangi. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neinn með hníf á staðnum né í leigubílnum. Ákærði hélt að hann hafi verið í sama herbergi og hann dró kærustuna sína inn í þegar lögreglan kom.

                Ákærði var inntur eftir áverkum á fingri þegar lögregla skoðaði hann, og kvaðst ákærði nánast daglega vera með einhver sár, hann ynni mikið með fingrunum.

                Aðspurður kvaðst ákærði halda að þrír til fimm manns hafi getað verið inni í þessu „skuggahorni“ en hann hafi bara séð þetta út undan sér. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að brotaþoli hafi farið út úr húsinu. Ákærði kvað fólk hafa gengið um á neðri hæðinni og verið að kynnast í einhvern tíma áður en farið var á efri hæðina. Kærasta sín hafi verið á efri hæðinni þegar lætin byrjuðu og því hafi ákærði dregið hana inn í herbergi. Aðspurður um blóðbletti á skóm ákærða, kvaðst ákærði hafa farið úr skónum þegar hann kom inn í húsið og blóð úr brotaþola gæti hafa slest á skóna hans þegar brotaþoli fór út úr húsinu. Aðspurður um framburð hans hjá lögreglu um að hann, C og önnur ljóshærð stúlka hafi verið á efri hæðinni kvað hann það vera rétt. Ákærði mundi ekki eftir því hvort einhver hafi rætt í síma í leigubílnum á leiðinni á [...].            

                Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um að hurð hafi skollið í kommóðu, svaraði ákærði út í hött eða að honum sýndist hurðin og kommóðan ekki vera á sama stað.

                Aðspurður um það hvort hann myndi eftir einhverjum utandyra þegar hann kom að [...], minnti ákærða að húsráðandi hafi verið það og hann rámaði í að einhver hafi verið þar að bíða. Mögulega væri eitthvað í fari þess aðila, sem hann myndi ekki eftir. Gæti verið að einhver hafi verið órólegur fyrir utan. Ákærði hélt að fólk hafi bara tínst þarna upp, einn og einn í einu en hann gæti ekki sagt hversu margir hafi farið upp á undan honum, hann hafi ekki verið að fylgjast með, hann hafi verið að gæta kærustu sinnar sem hafi verið hrædd.

                Aðspurður um framburð meðákærða Y hjá lögreglu um að rauðhærður maður hafi barið brotaþola, kvaðst ákærði telja að brotaþoli væri rauðhærður og kvaðst ákærði sérstaklega muna eftir því að lögreglan hafi sagt sér að ráðist hafi verið á rauðhærðan strák.

                Aðspurður um það hvort hurðin inn í svefnherbergi, þar sem brotaþoli var, hafi verið lokuð þegar ákærði kom upp á efri hæðina, kvaðst ákærði alveg geta séð það fyrir sér að hurðin hafi verið lokuð. Aðspurður um þann hávaða sem ákærði hafi lýst, kvað ákærði það geta hafa verið þegar brotaþola var hent út. Af því sem ákærði kvaðst hafa séð, þá myndi hann halda að brotaþoli hafi streist á móti.

Ákærði kvaðst vera í námi í dag og vera að vinna í því að hætta neyslu áfengis og fíkniefna og sækja sér aðstoð við það. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að skemmta sér alla helgina áður en atvikið átti sér stað.

                Ákærði kvaðst játa háttsemi sína eins og henni er lýst í ákæru frá 7. maí 2013 en mótmælti bótakröfunni.

                Ákærði Þ kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið heima hjá sér ásamt fullt af fólki en allir verið á leið til síns heima. Hann hafi fengið símtal frá F og hún sagt sér að þar væru tveir strákar sem væru að ógna henni og vinkonu hennar. Hún hafi spurt hvort hann gæti komið til sín. Hann ásamt meðákærðu hafi farið á staðinn til að henda þeim út. Hún hafi sagt að E væri að ógna þeim með hnífi og uppi væri maður sem væri nakinn að ógna vinkonu sinni. Ákærði hafi hringt í E úr leigubílnum og E verið með hótanir. Þegar þeir komu á staðinn hafi E verið með hníf í hendi, sem hann hafi hent frá sér. E hafi róast og honum verið haldið úti. Þeir hafi farið inn í húsið til að tala við hinn strákinn sem þá hafi verið búinn að læsa sig inni í svefnherbergi. Þeir hafi rætt við strákinn gegnum hurðina og gefið honum frest til að koma sér út og koma sér í föt og beðið í um hálftíma. Þá hafi stráknum verið sagt að þetta væri ekki hægt lengur og að þeir yrðu að fara í gengum hurðina. Meðákærði Z hafi reynt að pikka upp hurðina á svefnherberginu en brotaþoli hafi opnað hurðina og í raun ráðist á móti þeim og þeir allir dottið inn í herbergið og brotaþoli á skenk sem sjónvarpið stóð á. Ákærði hafi gripið sjónvarpið og meðákærði Y tekið undir það með sér. Þetta hafi allt gerst mjög hratt, á nokkrum sekúndum, en brotaþola hafi verið sagt að koma sér út úr húsinu. Brotaþoli hafi ekki farið strax út og staðið einhverja stund niðri þegar rekið hafi verið á eftir honum. Ákærði, Y, Z og brotaþoli hafi allir verið inni í herberginu en ákærði mundi ekki hvort meðákærði Haukur hafi verið þar inni. E  hafi enn verið fyrir utan alveg kolvitlaus. Þegar þeir voru að ganga frá, hafi E komið aftur inn í húsið og þegar lögreglan kom hafi E verið kominn með tvo hnífa. Ákærði kvað einhver átök hafa orðið við brotaþola en hann hafi ráðist á móti þeim þegar þeir komu inn í herbergið. Aðspurður kvaðst ákærði örugglega hafa veist að brotaþola en ákærði og meðákærði z hafi verið fremstir þegar þeir duttu inn í herbergið. Z hafi farið á undan sér inn þar sem hann hafi verið að pikka hurðina upp. Ákærði hafi ekki séð meðákærða Z ráðast að brotaþola en Z hafi dottið með honum. Ákærði hafi ekki séð meðákærða Y ráðast á brotaþola. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hafi gerst inni í herberginu og ekki geta skýrt þá áverka sem voru á brotaþola. Kvað ákærði ekki fræðilegan möguleika á að fimm manns kæmust inn í svefnherbergið. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neinn með hníf umrætt sinn nema E fyrir utan húsið þegar lögreglan kom. Ákærði kvað D hafa viljað losna við fólkið út og þeir hjálpað henni við að ganga frá og laga til og hafi ákærði þrifið eitthvað af blóði minnti hann. Ákærði mundi ekki til þess að hafa sett í þvottavél. Ákærði kvaðst hafa verið nánast ofurölvi umrætt sinn og neytt fíkniefna fyrr um nóttina. Aðspurður um áverka, sem voru á ákærða, kvaðst hann líklega hafa fengið þá þegar þeir duttu inn í herbergið.

                Ákærði neitaði því að hafa veist að ákærða eins og greint er í ákæru. Þá neitaði ákærði því að hafa verið með hníf á vettvangi. Ákærði kvaðst hafa verið með F í símanum allan tímann sem þeir voru á leiðinni heim til hennar. Hún hafi sagt sér að E hafi verið að káfa á sér og brotaþoli hafi verið nakinn, ógnandi að nudda kynfærunum utan í þær og eitthvað fleira. Báðir tveir hafi verið með ógnandi athæfi við þær. Því hafi ákærði einnig talað við E vegna þess að þá hefði hann látið þær í friði á meðan auk þess að hann hafi reynt að fá E til að yfirgefa húsið áður en þau kæmu. Ákærði kvaðst hafa setið í farþegasæti leigubílsins, frammi í, á leiðinni til [...] og leigubílstjórinn hafi hlustað á símtalið alla leiðina. Lögreglan hafi þó ekkert rannsakað það þrátt fyrir að hann hafi látið hana vita af því.  

                Ákærði kvað D aldrei hafa komið upp í herbergið og rangt hjá henni í lögregluskýrslu að hún hafi komið upp og hent sér yfir brotaþola, enda hafi ekkert pláss verið í herberginu til þess. Ákærði kvaðst ekki hafa séð meðákærðaY inni í svefnherberginu áður en sjónvarpið datt.

                Aðspurður um blóðbletti á skóm ákærða, kvað ákærði að þeir hafi leitt brotaþola út úr herberginu, en brotaþoli ekki viljað fara, og það væri næg skýring á því að blóð hafi farið úr brotaþola á ákærða. Minnti ákærða að þeir hafi einnig talast við niðri áður en brotaþoli fór út úr húsinu.

                Ákærði var ítrekað inntur eftir aðkomu meðákærða Z. Kvað ákærði Z hafa reynt að pikka hurðina upp og dottið með sér inn í herbergið þegar brotaþoli opnaði herbergið. Taldi ákærði að C, kærastaZ, hafi aldrei komið upp og verið allan tímann niðri með stelpunum. Ákærði kvað E  hafa verið vopnaðan niðri þegar þau komu að húsinu í upphafi en hann hafi verið fljótur að kasta hnífunum frá sér. Kvað ákærði E hafa verið kominn inn í íbúðina áður en lögreglan kom og kominn aftur með hnífa og verið kolvitlaus þegar lögreglan kom.

                Ákærði kvað lítið að marka það sem hann sagði hjá lögreglu, hann hafi verið vakinn og tekinn beint í skýrslutöku og ekki verið í góðu ásigkomulagi.

                Vitnið A kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið boðið í partí í heimahús umrædda nótt. Vitnið hafði séð aðra stelpuna áður en þekkti hina ekkert. Þau hafi rætt saman heima hjá stelpunni, vitnið hafi verið orðið mjög þreytt og spurt hvort það mætti ekki fara upp og leggja sig. Vitnið hafi vaknað við það að maður stóð yfir því með hníf en ekki ógnandi. Vitnið kvaðst hafa orðið skelfingu lostið og vísað manninum út. Þetta hafi verið E  sem kom með þeim í partíið. Vitnið hafi læst hurðinni á eftir sér, reynt að hringja í frænku sína til að sækja sig en þá ekki vitað hvar það var statt. Vitnið hafi því ákveðið að leggja sig aftur en viti ekki hvort það hafi sofnað. Þá hafi verið bankað á hurðina og því sagt að ef það opnaði ekki eftir fimm sekúndur þá yrði brotist inn. Vitnið hafi reynt að halda við fyrir hurðina, en það hafi fundið að eitthvað var í skráargatinu. Hurðin hafi einhvern veginn opnast inn og vitnið skollið í hornið með hurðina á sig. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa skollið á sjónvarp eða skenk sem var inni í herberginu. Strax hafi verið ráðist á vitnið og sparkað í það, m.a. í höfuð. Vitnið taldi einnig að það hafi verið barið með hníf. Það hafi fundið að því blæddi, og blætt hafi í augu þess. Einhver stelpa hafi komið inn og hoppað yfir vitnið og reynt að verja það. Hún hafi sagt við vitnið að ef það ætlaði að lifa skyldi það koma sér í burtu. Vitnið kvaðst hafa fengið „hræðsluadrenalínsjokk“ og einhvern veginn getað hent öllum af sér og hlaupið út. Það hafi ekki gefið sér tíma til að fara í skóna þegar það hljóp út og hafi vitnið hlaupið að húsi, þar sem það hafi séð ljós, og bankað á glugga. Lítil stelpa hafi verið þar og sótt foreldra sína sem hafi hleypt sér inn. Þar hafi nærri verið liðið yfir vitnið og mikið blætt úr því. Lögreglan hafi síðan komið. Kvaðst vitnið hafa dottið einu sinni á hlaupunum og þá fengið rispur á hnéð en vitnið hafi síðan hnigið niður þegar það var komið að svalahurðinni áður en það náði að banka á gluggann. Það hafi ekki fengi neina áverka þá því að það hafi hnigið niður í grasið.

Vitnið kvaðst ekkert hafa þekkt þessa menn sem réðust á sig en sæi fyrir sér dökkhærðan, hávaxinn, grannan mann. Vitnið kvaðst ekki geta lýst því.

 Vitnið kvaðst hafa fengið skurð á úlnlið, kinnbein og nokkra skurði á höfuðleðrið. Vitnið hafi verið með brákuð rifbein hægra megin. Vitnið kvaðst finna merki eftir áverkana á höfði en ör á kinn væri að hverfa. Vitnið kvaðst hafa átt erfitt andlega í framhaldi. Það hafi verið eitthvað frá vinnu og lokað sig inni. Það hafi þó drifið sig fljótlega í vinnu aftur. Vitnið kvaðst hafa dreymt atvikið á eftir og fundið fyrir þunglyndi. Vitnið kvaðst hafa sótt nokkra tíma hjá sálfræðingi eftir árásina, stutt væri síðan að það fór í nokkra tíma.

Vitnið kvaðst ekki hafa verið nakið í rúminu þegar E kom inn né þegar ákærðu réðust á vitnið. Þá hafi vitnið ekki farið á salerni á leiðinni niður og ekki stoppað niðri áður en það hljóp út. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð neinn með hníf en mundi eftir að einhver sagði, „skerðu hann meira“, eins og verið væri að mana einhvern til þess. Vitnið kvaðst muna eftir því að dökkhærða stelpan, sem var á staðnum, hafi komið inn í svefnherbergið og reynt að verja sig, en vitnið minnti að það hafi þá verið á hnjánum.

Vitnið B kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið með öllum ákærðu að [...] umrætt sinn. Þau hafi verið að fara í eftirpartí í [...] og komið með leigubíl. Kvaðst vitnið ekki hafa heyrt í leigubílnum að það hafi átt að henda einhverjum þar út úr húsi. Vitnið kvaðst hafa setið frammi í í leigubílnum og ekki verið að fylgjast með því hvort aðrir hafi verið í símanum á leiðinni eða ekki. Ákærði Þ hafi ekki setið frammi í. Upplifun vitnisins af veseni hafi verið eitthvert rifrildi, það hafi aldrei séð neitt. Kvaðst vitnið hafa rætt við eitthvert fólk í stofunni og rætt við Y en ekki verið að fylgjast neitt með. Vitnið kvaðst hafa heyrt einhvern „fæting“, það hafi verið úti að reykja og í lokin séð einhvern úti með hnífa og ekki einu sinni þá upplifað neina ógn. Vitnið kvaðst bæði hafa verið drukkið og neytt fíkniefna í umrætt sinn. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neinn ákærðu hafa gert neitt en í minningunni hafi vitnið og ákærði Yverið niðri að ræða saman. Vitnið kvaðst hafa munað atvik betur þegar það gaf skýrslu hjá lögreglu og staðfesti vitnið lögregluskýrslu sína.

Vitnið E gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið að skemmta sér með tveimur stelpum og einum strák niður í bæ fyrr um kvöldið. Þau hafi ætlað í partí og vitnið farið með. Um kvöldið hafi verið hringt í F, vitnið rætt við einhvern í símann og einhverjir strákar ætlað að koma. Sá sem talaði við vitnið hafi verið með hótanir í símann við sig og sagst ætla að berja vitnið. Kvaðst vitnið hafa orðið smeykt og farið upp í svefnherbergi þar sem hinn strákurinn svaf og beðið hann um að koma og hjálpa sér. Hafi sá hent vitninu út úr svefnherberginu og læst á eftir sér. Vitnið hafi þá farið út og tekið upp grjót sem vopn. Fimm strákar hafi komið út úr leigubílnum og vitnið verið hrætt. Vitnið hafi kannast við einn strákinn og því hent steinunum frá sér. Strákarnir hafi allir ruðst inn í húsið og vitnið hafi verið fegið að hafa sloppið. Vitnið kvaðst hafa farið aðeins upp í tröppurnar upp á efri hæðina, séð blóð á gólfinu og þá hlaupið strax niður og sótt sér tvo hnífa. Vitnið hafi sagt stelpunum að hringja í lögregluna. Vitnið kvaðst ekki hafa séð árásina sjálfa. Strákurinn, sem ráðist var á, hafi hlaupið út úr húsinu á nærbuxunum. Lögreglan hafi komið og vitnið þá lagt hnífana frá sér. Vitnið kvaðst hafa verið búið að drekka eitthvað af áfengi í umrætt sinn.

Framburður vitnisins hjá lögreglu um að það hafi séð árásina á brotaþola var borinn undir vitnið. Vitnið kveðst sennilega hafa séð það sem það lýsti fyrir lögreglu og þá sagt rétt frá en minnið væri farið að daprast nú þar sem svo langt sé liðið frá atvikinu. Vitnið var spurt hvort það hafi séð einhvern með hníf, og kvaðst vitnið það hljóta að hafa verið rétt, því að vitnið hafi verið skíthrætt og hlaupið niður til að sækja sér hnífa til að verjast. Spurt um það hvort vitnið hafi farið upp á efri hæðina, eins og vitnið lýsti fyrir lögreglu, kvað vitnið það vera rétt fyrst það hafi lýst því svo hjá lögreglu. Þráspurt kvaðst vitnið klárlega hafa farið eitthvað upp og séð ofbeldi því að það hafi orðið hrætt vegna þeirra ógnar sem það upplifði.

Vitnið D kom fyrir dóminn og kvaðst hafa hitt F niðri í bæ og þau fjögur hafa farið saman heim til hennar í [...]. Þau hafi verið að horfa í rólegheitum á vídeó og annar strákurinn hafi farið upp að sofa. F hafi verið að tala við einhvern í síma og E  eitthvað verið að rífa sig fyrir aftan hana og þá við fólkið sem F hafi verið að tala við. Í framhaldi hafi E orðið hræddur og vitnið komið að honum fyrir utan húsið með stóran hníf. Vitnið hafi tekið hnífinn af honum og hann þá tekið upp grjót. Í því hafi hópurinn komið og einhver sagt að það væri ekki E en það væri annar strákur inni. Þeir hafi farið upp á efri hæðina og vitnið heyrt öskur að ofan. Þeir hafi barið strákinn í stöppu. Vitnið hafi þá farið upp og hent sér yfir strákinn sem var barinn og vitnið öskrað á hann að koma sér út. Hann hafi gert það og vitnið á eftir. Þar hafi vitnið mætt F sem þá fyrst hafi komið að þessu. Vitnið kvaðst ekkert þekkja þá stráka sem komu með leigubílnum. Vitnið kvaðst, þegar það kom upp á eftir hæðina, hafa séð fullt af strákum standa hringinn í kringum strákinn og sparka í hann og séð fullt af blóði. Í framhaldi hafi strákarnir allir þrifið upp blóð og meðal annars framan úr vitninu. Vel gæti passað að einhver hafi sett í þvottavél. Vitnið kvað rétt að þeir sem voru uppi á efri hæðinni þegar lögreglan kom hafi verið þeir sem tóku þátt í árásinni. Þar hafi einnig verið stelpa sem vitnið kvaðst fyrst hafa tekið eftir eftir að lögreglan kom. Aðspurt hvort brotaþoli hafi verið nakinn, kvað vitnið svo ekki vera, og hann hefði þá ekki haft tíma til að klæða sig áður en hann hljóp út. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að hafa farið með E upp á aðra hæð, þegar hann fór að vekja brotaþola. Þá kvað vitnið möguleika á því að E hafi komið upp á eftir sér og séð eitthvað af árásinni. Aðspurt um það hvort ákærði Þ hafi verið með hníf þegar hann kom á svæðið kvað vitnið það rétt vera. Vitnið lýsti efri hæð hússins þannig að baðherbergi hafi verið beint á móti stigauppganginum og herbergið sem slagsmálin voru í verið til hægri handar og þar hafi rauðhærði strákurinn einnig verið. Vitnið kvaðst minnast þess að það hafi mætt stiganum þegar það var á leið niður ásamt brotaþola. Vitnið mótmælti því aðspurt að brotaþoli og E  hafi verið að áreita þær áður en strákarnir komu. Það hafi engin læti verið og þau verið í rólegheitum að horfa á vídeó. Þá kvaðst vitnið minna að brotaþoli hafi hlaupið beint út þegar hann kom niður, hann hafi ekki staldrað við. Þá ítrekaði vitnið að það hafi séð ákærða Þ með hníf þegar hann kom út úr leigubílnum en það hafi ekki séð hann með hnífinn eftir það. Vitnið kvað ákærðu hafa þrifið blóð á veggjum inni í svefnherberginu, á kommóðu og sjónvarpi og blóðkám á veggjum meðfram stiganum niður svo og framan úr vitninu.

Vitnið F kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa orðið vitni að árásinni umrætt sinn. Þau fjögur, D, E, brotaþoli og vitnið hafi verið heima hjá vitninu að skemmta sér. Brotaþoli hafi farið upp að sofa og þau þrjú verið að horfa á vídeó. Vitnið kvaðst þekkja ákærða Þ og Y, það hafi verið að ræða við Þ meira og minna um nóttina í síma. Vitnið kvaðst ekki hafa beðið ákærða Þ um að koma til að hjálpa sér við að koma mönnum út úr húsinu hjá sér. Vitnið kvaðst ekki hafa þekkt E neitt en hann hafi verið pirrandi og vitnið gæti hugsanlega hafa sagt eitthvað í þá áttina „vá, ég  nenni ekki að hafa hann hérna lengur“. Brotaþoli hafi ekki verið með nein leiðindi. Vitnið hafi verið inni í bílskúr, sem sé einangraður, þegar ákærðu komu en þegar það kom innan úr bílskúrnum hafi það séð mikið blóð og stuttu seinna hafi lögreglan komið. Þá hafi brotaþoli verið farinn. Vitnið kvaðst ekki hafa farið á efri hæðina áður en lögreglan kom og ekki hafa sett í þvottavél en vissi að lögreglan hafi slökkt á þvottavélinni. Vitnið kvaðst ekkert hafa rætt við ákærðu á vettvangi heldur hafa hringt strax í móður sína og bróður. Vitnið kvaðst hafa átt mörg símtöl við ákærða Þ um nóttina en E  hafi í einhver sinn verið gjammandi á bak við. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa heyrt það áður að brotaþoli hafi verið nakinn þegar hann var heima hjá því. 

Vitnið C kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið kærasta ákærða Z á þessum tíma. Vitnið kvaðst kannast við ákærða Hauk. Vitnið og ákærði Z hafi farið að hitta Hauk sem hafi verið hjá vini sínum. Einhver hafi hringt í þann strák og sagst vera í veseni með strák. Strákarnir hafi ætlað að fara að hjálpa stelpunni og tekið leigubíl í [...] og tekið vín með sér. Vitnið hafi því haldið að þau ætluðu að halda áfram að djamma. Þegar þau komu á [...]  hafi ljóshærð stelpa tekið á móti þeim. Strákarnir hafi farið upp og vitnið þá heyrt slagsmál og þá flýtt sér upp stigann. Þá hafi vitnið séð strákana í slagsmálum, standa yfir liggjandi strák, en ákærða Z standa vinstra megin aðeins frá strákunum. Vitnið hafi öskrað á þá að hætta og ákærði Z þá komið og tekið sig frá. Vitnið hafi þá séð brotaþola hlaupa niður stigann alblóðugan. Mikið öngþveiti hafi verið og einhverjir verið að þrífa blóð af veggjum. Þ hafi beðið Z að hjálpa sér að þrífa sár á hendinni á Þ. Þ hafi sagt þeim að fara upp í rúm og segja lögreglunni að þau hafi verið sofandi. Vitnið hafi átt að segjast vera kærasta dökkhærða stráksins en vitnið viti ekki af hverju hann vildi halda þessu fram en þau hafi gefið þessa skýringu þegar lögreglan kom. Vitnið kvaðst aðspurt ekki vita hver barði hvern, þeir hafi staðið yfir liggjandi stráknum. Hinn strákurinn sem var þar fyrir hafi ekki verið uppi. Vitnið hafi bara heyrt öskur í stráknum sem lá á gólfinu og viti ekki hvort hafi verið sparkað í hann eða lamið en heyrt þannig hljóð. Vitnið kvaðst hafa komið alveg að strákunum og öskrað á þá að hætta. Z hafi þá tekið sig og farið með sig í annað herbergi og haldið sér það. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vitni að því að ákærði Z hafi ráðist á brotaþola. Vitnið kvaðst síðan hafa séð brotaþola hlaupa niður stigann blóðugan á höfði. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða Þ með hníf. Aðspurt kvað vitnið þau öll hafa farið inn í húsið á sama tíma en strákarnir, sem voru með henni í leigubílnum, hafi allir farið upp á efri hæðina. Aðspurt hvort D hafi komið upp í svefnherbergi, kvaðst vitnið ekki vita það. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að hafa séð neinn opna svefnherbergishurðina. Vitnið kvaðst hafa verið nokkuð ölvað umrætt sinn.

Vitnið Birgir Örn Guðjónsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í útkall þar sem brotaþoli var. Brotaþoli hafi verið mjög hræddur og sagt sér að reynt hafi verið að drepa sig. Í framhaldi hafi verið farið að [...]. Eftir að sjúkrabifreið hafði sótt brotaþola hafi vitnið farið að [...] en þá hafi lögreglan verið að fara inn í húsið. Gerendur hafi verið á efri hæðinni en einhvern tíma hafi tekið að ná einum ákærðu út af baðherberginu. Aðspurt kvað vitnið einhverja hnífa hafa fundist að [...] við húsleit. Vitnið staðfesti skýrslu sína fyrir dóminum.

Vitnið L kom fyrir dóminn og kvaðst fyrst hafa farið þangað sem brotaþoli var en hann hafi vísað lögreglu á staðinn þar sem árásin átti sér stað. Vitnið hafi í framhaldið farið að [...]. Þegar vitnið kom á vettvang hafi maður verið fyrir utan með hnífa en í framhaldi hafi lögreglu verið vísað á efri hæð hússins þar sem gerendur voru. Augljóst hafi verið að mikið hafi gengið á, því að blóðkám hafi verið út um allt. Þá kvaðst vitnið muna eftir aðila sem erfitt var að ná út af salerni.

Vitnið Tjörvi Einarsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið á vettvang. Þegar lögregla kom á vettvang hafi einhver aðili verið fyrir utan húsið og síðan hafi einhverjir verið handteknir í framhaldi. Blóð hafi verið á vettvangi. Vitnið mundi að öðru leyti lítið eftir atvikum.

Vitnið Jón Kristinn Þórsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið á vettvang. Vitnið mundi að eitthvað hafi verið búið að hreinsa til á vettvangi. Þá mundi vitnið ekki eftir því hvort einhver vopn hafi fundist á vettvangi.

Vitnið Lúðvík Kristinsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið á vettvang, bæði þar sem brotaþoli hafi fengið húsaskjól svo og á árásarstað. Minnti vitnið að mikið blóð hafi verið á vettvangi en langt væri um liðið. Vitnið kvaðst hafa rætt við brotaþola á slysadeildinni og þar hafi komið í ljós að hann varð fyrir árás margra aðila. Vitnið kvaðst hafa eftir D að brotaþoli hafi hlaupið út án þess að fara í skóna.

Vitnið Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur hjá tæknideild lögreglunnar, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að DNA-rannsóknum í málinu. Kvað vitnið sýni, sem tekið var á millihurð í anddyri á vettvangi, fjögur sýni úr gallabuxum sem fundust á vettvangi, sýni af skóm Hauks Brandssonar og eitt  sýni úr gallabuxum Y sýni af skóm Þ, öll hafa verið samkennd við blóðsýni úr brotaþola. Önnur sýni hafi verið úr óþekktum aðilum. Sýni hafi verið tekið úr aftanverðum buxum Y, sem reyndist vera úr brotaþola en tvö sýni sem tekin voru af framanverðum buxum hans hafi verið úr sama óþekkta aðilanum. Vitnið kvað eingöngu samanburðarsýni hafa verið sent úr brotaþola en ekki úr ákærðu. Niðurstaðan úr rannsókninni hafi sýnt sýni úr fjórum óþekktum aðilum. Vitnið kvaðst aldrei hafa fengið neina hnífa til rannsóknar. Rétt væri að blóðsýni úr skóm ákærða Z hafi verið úr óþekktum aðila.

 Vitnið Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið að [...] umrætt sinn. Vitnið hafi haldlagt buxur sem voru undir rúmi, smádót frá baðherbergi, hnífa sem fundust í fataherbergi. Þá hafi blóðsýni verið tekin á vettvangi svo og á þeim stað sem brotaþoli leitaði ásjár. Engin blóðferlagreining hafi farið fram. Búið hafi verið að þrífa upp blóð í svefnherbergi og blóðkám hafi verið á vegg við stiga. Vitnið kvað ekkert sérstakt hafa verið í þessu máli, mikið hafi blætt úr brotaþola og ekki óeðlilegt að menn hafi stigið í blóð auk þess að líklegt sé að blóð smitist á milli aðila við átök. Vitnið sagði að ekki hafi verið kannað hvort blóð hafi verið á hnífunum sem haldlagðir voru. Vitnið kvaðst muna eftir því að nokkuð mikið blóðkám hafi verið á gallabuxum sem fundust undir rúmi á vettvangi.

Vitnið G læknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa skrifað læknisvottorð vegna brotaþola. Brotaþoli hafi komið á slysadeild með sjúkrabifreið og gefið upp að hann hafi orðið fyrir árás. Hann hafi verið með fjölda skurða á höfuðleðri, á andliti, á kinn og við eyra og á framhandlegg. Brotaþoli hafi tjáð þeim að hnífi hafi verið beitt en áverkarnir hafi frekar verið þannig að sljóu áhaldi hafi verið beitt, röri eða slíku og sprungið undan því þar sem mikið mar var í kringum skurðina. Mikil vinna hafi verið að sauma skurðina saman. Skurðirnir séu eftir barsmíðar, sýnist vitninu, en skurðurinn á úlnlið beri frekar þess merki að vera varnaráverki. Um var að ræða grunna áverka, brotaþoli hafi ekki verið brotinn og skurðirnir voru ekki þannig að þeir hafi verið lífshættulegir. Illska hafi hlaupið í skurðina og brotaþoli þurft sýklameðferð í framhaldi. Skurðirnir hafi ekki verið þesslegir að hafa komið eftir fall eða við það að rúlla niður stiga. Vitnið kvaðst ekki hafa séð brotaþola sjálfur en það hafi borið ábyrgð á verkinu og því gefið út læknisvottorðið en rætt hafi verið við vitnið um úrlausn málsins. Aðspurt um það hvort áverkar á höfði brotaþola hafi getað komið við fall á skemil, hvað vitnið áverkana vera þess eðlis að þeir hafi verið veittir aftan frá. Stefna áverkanna hefði verið önnur ef brotaþoli hefði dottið á borð. Vitnið kvað ekki útilokað að áverkinn á úlnlið hafi komið við fall en áverkinn sé einnig klassískur varnaráverki. Vitnið ítrekaði að áverkar á höfði hafi verið langsum eftir höfði og mislangir og ólíklegt að þeir hafi orðið við fall. Engir tveir af þeim áverkum á höfðinu hafi verið veittir í einu lagi. Aðspurt hvort áverkarnir hafi getað komið eftir nokkur mismunandi föll við átök, kvaðst vitnið ekki geta útilokað það, fáránlegar aðstæður væru svo sem til, en áverkarnir væru sennilega eftir högg með barefli frekar en með hnúum. Aðspurt hvort áverkarnir gætu verið eftir hnífsskaft kvað vitnið líklegra að áverkarnir væru frekar  eftir rör eða herðatré þannig að áhaldið kljúfi höfuðleðrið en það gæti ekki fullyrt að þeir væru eftir hnífskaft. Áverkarnir gætu verið eftir lokaðan vasahníf eða allt sem sé sívalt eða með sljóa brún sem kljúfi húðina upp til beggja hliða ef krafturinn sé nógur. Þannig meiði lögreglukylfa, skaft á skiptilykli, rör og skaft á mörgu öðru en útilokað sé að greina hvað sé hvað. Líklega hafi rörlaga áhald verið notað sem olli líka miklum kúlum sem voru sitt hvorum megin við skurðinn og ollu þessum miklu blæðingum. Aðspurt hvort áverkarnir gætu verið eftir spörk, kvað vitnið líklegt rifbrot og blóð í þvagi brotaþola sennilega vera eftir spörk. Skurðirnir á höfðinu séu líklega ekki eftir spörk.

                J læknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Vottorð vegna ákærða Y var borið undir lækninn. Kvaðst vitnið ekki treysta sér til að segja um hvort þeir áverkar hafi komið til í átökum. Vottorð vegna ákærða Þ var borið undir vitnið. Kvað vitnið áverkana ekki hafa verið mikla og vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvort þeir hafi komið við átök. Þótti vitninu frásögn ákærða um að hafa fengið áverkana áður trúleg.. Varðandi ákærða Hauk kvaðst vitnið ekkert geta sagt til um það hvernig þeir áverkar komu. Sama eigi við um ákærða Z. Aðspurt kvað vitnið ólíklegt að svo mikið blæði úr sári á naglabeði að blóð leki.

                Vitnið K geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti það sem fram kemur í vottorði þess. Aðspurt kvað vitnið að svona atburðir séu til þess fallnir að valda ógn og skelfingu. Verði brotaþoli fyrir árás síðar í lífinu þá sé þröskuldur hans til að takast á við slíkt lækkaður og líkur á andlegu tjóni meiri en ella. Staðfesti vitnið að atvikið sem brotaþoli lenti í eigi eftir að valda honum vandamálum í framtíðinni.

Forsendur og niðurstöður.

Ákæra útgefin 16. apríl 2013.

Ákærðu neita allir sök í I. kafla ákærunnar. Allir ákærðu gerðu lítið úr hlut sínum fyrir utan ákærða Hauk, sem kvaðst lítið muna en tók ekki fyrir það að hann hafi lent í ryskingum þar sem hann hafi starfað sem dyravörður og væri vanur að kasta mönnum út. 

                Þegar lögreglan kom að [...],[...], þar sem brotaþoli hafði leitað ásjár, sat brotaþoli þar á stól við svaladyr alblóðugur og hafði mikið blóð lekið úr höfði hans og úr sári í andliti. Hafi hann verið hræddur og sagt að menn væru að reyna að drepa sig. Ekki er ágreiningur um að brotaþoli hafi komið beint frá [...] í [...].

Ágreiningslaust er að allir ákærðu ásamt B og C fóru með leigubíl að [...] í [...]umræddan morgun. Ákærði Þ ber því við að hann hafi farið þangað að ósk F, húsráðanda þar, til að koma gestum hennar út þar sem þeir hafi verið ógnandi og með kynferðislegt áreiti. Vitnið F kannaðist ekki við það og neitaði því að brotaþoli hafi verið nakinn heima hjá sér. Þrátt fyrir það er ljóst að ákærðu allir fóru eftir símtal við F að [...]að morgni 14. nóvember 2010 og einhverjir ræddu um það í leigubílnum að koma ætti tveimur mönnum út úr húsi.

Þá er ágreiningslaust að brotaþoli A var uppi í hjónaherberginu á efri hæð hússins þegar ákærðu komu þangað og voru dyrnar læstar. Fær það stoð í framburði brotaþola sjálfs og vitnisins E, sem sagði brotaþola hafa læst að sér eftir að vitnið hafði reynt að fá brotaþola til liðs við sig vegna væntanlegrar komu ákærðu. Var vitnið E utandyra, með grjót í hendi, að hans sögn og vitna, þegar ákærðu komu á vettvang, vegna þess að hann var hræddur og óttaðist komu ákærðu.

Ákærðu allir eru missaga um það hvað gerðist þegar þeir komu á [...], bæði hjá lögreglu og fyrir dóminum. Þó er ljóst af framburði ákærðu sjálfra og vitna að ákærðu hafi allir farið upp á efri hæðina fljótlega eða strax og þeir komu að [...]. Fær það stoð í framburði vitnanna B, Y,  E  og C. 

Ákærði Y kvað hjá lögreglu, einhverja hafa náð að opna hurðina að svefnherberginu, brotaþoli hafi lent bak við hurðina og hafi ákærði Y séð sjónvarp inni í herberginu vera að detta, hann hafi gripið það og þá snúið baki í hópinn, sem hafi verið á bak við hurðina. Þá hafi lágvaxinn maður ætlað að ráðast á brotaþola en hann tekið um þann mann og haldið honum þar til brotaþoli var farinn út. Þó taldi ákærði Y að hann hafi séð rauðhærðan mann kýla brotaþola.

Fyrir dómi kvað Y alla hafa farið upp en hann verið síðastur inn í herbergið af hópnum. Sjónvarpið hafi dottið og hann gripið það. Brotaþoli hafi lent bak við hurð en ákærði séð blóð. Þá hafi stelpa líka verið í herberginu þegar allt var búið. Ákærði hafi sagt brotaþola að fara út en það hafi tekið brotaþola langan tíma. Ákærði hafi farið niður og þá hafi brotaþoli enn verið fyrir utan húsið.

Ákærði Þkveðst einnig hafa gripið umrætt sjónvarp þegar hann kom inn í herbergið og Y síðan komið líka. Ákærði Y minnist ekki á að Þ hafi gripið sjónvarpið með sér. Fyrir lögreglu kvað ákærði Þbrotaþola hafa fengið sjónvarpið í hausinn og fyrir dóminum kvað hann brotaþola hafa dottið á skenkinn og sjónvarpið. Þessu neitaði brotaþoli og samræmist þessi framburður heldur ekki framburði ákærða Y sem sagði brotaþola hafa verið á bak við hurðina þegar hún opnaðist.

Ákærði Z hefur neitað því að hafa farið inn í herbergið og kvaðst hafa allan tímann verið með C inni í öðru herbergi á meðan lætin voru. Stangast sá framburður hans á við framburð C sjálfrar sem segist hafa komið upp á eftir strákunum og séð ákærða Z  inni í herberginu þegar hún kom upp. Þá mundi C ekki til þess að svefnherbergishurðin hafi verið lokuð þegar hún kom upp en ákærði Þ lýsti því fyrir dóminum að ákærði Z hafi pikkað hurðina upp og hafi Z ásamt Þ dottið fyrstir inn í herbergið. Þá kvað ákærði Y hjá lögreglu að hann hafi séð út undan sér að rauðhærður maður kýldi brotaþola. Að auki kvað vitnið D rauðhærða strákinn hafa verið inni í herberginu þegar hún kom upp og kastaði sér yfir brotaþola. Þá kvað hún einnig alla þá sem komu með leigubílnum hafa verið inni í herberginu. Þá lýstu F og D því fyrir lögreglu að þeir sem voru á efri hæðinni, þegar lögreglan kom, hafi verið þeir sem réðust á brotaþola, en það voru allir ákærðu auk C og D.

 Af þessu telur dómurinn fullsannað að ákærði Z, sem er sá rauðhærði í hópnum, hafi einnig verið inni í svefnherberginu þar sem árásin fór fram. Vel má vera að ákærði Z hafi farið meðC inn í annað herbergi þegar hún kom upp og inn í herbergið en samkvæmt hennar lýsingu þá stóðu strákarnir þá þegar yfir ákærða liggjandi á gólfinu en Z hafi staðið til hliðar. Er framburður ákærða Z í öllu missaga og ótrúverðugur. Telur dómurinn með þessu lögfulla sönnun fram komna um að ákærði Z hafi átt sinn þátt í því að ráðast á brotaþola. Breytir engu hversu stór þáttur hans var í þeim áverkum sem brotaþoli hlaut við árásina, enda ekkert á framburði ákærðu sjálfra að byggja.

Framburður ákærða Þ fyrir lögreglu og dóminum er ótrúverðugur þegar hann lýsir því fyrir lögreglu að E  hafi fyrstur farið upp og ákærðu síðan á eftir honum. Fær sá framburður ekki stoð í neinum framburði annarra. Þá hafi brotaþoli fengið sjónvarpið í hausinn. Stangast það á við framburð ákærðaY, sem kvaðst hafa farið síðastur inn þar sem hann hafi séð sjónvarpið vera að detta og brotaþola bak við hurð. Þá kvaðst ákærði Þ hafa séð blóð á brotaþola, tekið í höndina á honum og sagt honum að koma sér út. Framburður ákærða Þ fyrir dóminum var á allt annan veg en þá kvað hann ákærðu hafa gefið brotaþola hálftíma til að koma sér út áður en þeir myndu ráðast inn í herbergið. Fær sá framburður ekki stoð í neinum gögnum né framburði annarra. Þá lýsti ákærði því svo fyrir dóminum að brotaþola hafi síðar verið gefinn kostur á að fara út en hann ekki sinnt því og það hafi þurft að reka á eftir honum. Fær sá framburður ekki stoð í framburði brotaþola sjálfs, sem kvaðst hafa verið mjög hræddur, svo og þeirri staðreynd að brotaþoli hljóp út á sokkunum og framburði D, sem kvaðst hafa öskrað á brotaþola að koma sér út, þegar hún reyndi að verja hann. Er framburður ákærða Þ, að brotaþoli hafi látið reka á eftir sér við þessar aðstæður, með ólíkindablæ.

Ákærði Haukur kvaðst ekkert muna hjá lögreglu og fyrir dómi kvaðst hann lítið muna en kvaðst ekki geta fullyrt að hann hafi ekki tekið þátt í árásinni. Hann rámaði í blóð og líklega hafi hann farið inn í herbergið með meðákærðu. Brotaþoli kvaðst muna eftir hávöxnum dökkhærðum manni inni í herberginu og á sú lýsing við ákærða Hauk, sem er mjög hávaxinn með dökkt sítt hár. Þá var Haukur læstur inni á salerni að þrífa sig þegar lögreglan kom á vettvang. Þá er ekkert fram komið um að ákærði Haukur hafi verið á öðrum stað eða sést annars staðar í húsinu en inni í herberginu þegar árásin átti sér stað. Þá hefur brotaþoli lýst því skilmerkilega fyrir dóminum að það hafi verið fjórir til fimm menn sem hafi ráðist að honum. Þá kvað vitnið B ákærða Hauk hafa farið upp með hinum, ákærði Y kvað alla ákærðu hafa farið upp og C kvað alla ákærðu hafa verið inni í herberginu þegar hún sá þangað inn. Þá kvað vitnið E  á sama veg. Telur dómurinn því sannað að ákærði Haukur hafi verið inni í svefnherberginu þegar árásin átti sér stað og tekið þátt í henni. 

Af þeim áverkum sem brotaþoli hlaut og var með þegar hann komst undir manna hendur, verður ekki annað ráðið en hann hafi orðið fyrir fólskulegri árás, sem beindist mest að höfði hans. Sé litið til ástands hans þegar brotaþoli komst inn að [...], telur dómurinn nægjanlega fært fram að hann hafi verið skelfingu lostinn, enda sagði hann strax að menn hafi ætlað að drepa sig. Ákærðu hafa komið með ýmsar skýringar á veru þeirra í svefnherberginu og enginn kannast við að hafa ráðist að brotaþola, þvert á móti, tekið í hönd hans og sagt honum að koma sér út. Er þessi frásögn þeirra í hróplegu ósamræmi við vettvang, sem samkvæmt frásögn og gögnum málsins var allur útataður í blóði, og þá áverka sem sannanlega voru á ákærða.

 Að virtum öllum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram, því að blóð úr brotaþola var að finna á millihurð í anddyri á [...], aftan í buxum ákærða Y og á skóm ákærðu Þ og Hauks, telur dómurinn sannað að brotaþola hafi verið veittir þeir áverkar að [...] í [...] að morgni 14. nóvember 2010 eins og greinir í ákæru. Breytir engu þó svo að brotaþoli hafi hugsanlega dottið og fengið húðhrafl á flótta sínum frá vettvangi, enda má leiða líkur að því að slíkir áverkar hafi einnig verið afleiðing árásarinnar.

Að framburði öllum virtum, trúverðugleika framburðar, frásögn brotaþola, sem fær staðfestu í framburði vitnanna D, um að hún hafi kastað sér yfir brotaþola til að verja hann, E, um að hann hafi séð upp af stigapallinum ákærðu standa yfir brotaþola, C sem einnig kvað alla brotaþola hafa verið inni í herberginu yfir brotaþola liggjandi á gólfinu auk áverkavottorðs og framburðar Y um að þegar þessu hafi verið lokið hafi stelpa líka verið inni í herberginu, sem samrýmist frásögn D, telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að allir ákærðu hafi í félagi, af tilefnislausu og á hrottafengin hátt, veist að brotaþola eins og lýst er í ákæru. Þó svo að ósannað sé að áverkar á höfði hafi ákærða orðið af völdum hnífs eða annars verkfæris, var atlögunni beint að höfði manns, sem getur verið lífshættulegt, og beindist sérstaklega að lífi og heilsu brotaþola. Verður að telja að sú aðferð sem ákærðu beittu hafi verið sérstaklega hættuleg og er háttsemin því réttilega heimfærð til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Verða ákærðu allir sakfelldir fyrir háttsemi þessa og verður þeim gerð refsing fyrir.

Ákærði Þ neitaði sök varðandi II. kafla ákærunnar. Við húsleit fundust tveir hnífar faldir inni í fataskáp í svefnherbergi. Engin rannsókn fór fram á þeim. Gegn neitun ákærða telur dómurinn ósannað að ákærði hafi haft þann hníf á sér sem ákært er fyrir. Verður ákærði sýknaður af þeim lið ákærunnar.

Ákærði Haukur játaði sök í III. kafla ákærunnar. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir hana en háttsemin er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Í málinu gerir brotaþoli kröfu um að sér verði dæmdar miskabætur að fjárhæð 1.423.390 krónur auk málskostnaðar við að halda kröfunni uppi auk tiltekinna vaxta.

 Framhaldsákæra var gefin út 12. september 2013 og kynnt ákærðu 4. október 2013. Mótmæltu ákærðu framhaldsákærunni sem of seint fram kominni þar sem upplýsingar, sem breytt bótakrafa byggist á, hafi legið fyrir við útgáfu ákærunnar. Var krafist frávísunar á framhaldsákærunni. 

Framhaldsákæru skal gefa út minnst tveimur vikum fyrir aðalmeðferð samkvæmt 153. gr. laga nr. 88/2008. Er það skilyrði uppfyllt. Þá er heimilt að gefa út framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út, gefa tilefni til. Framhaldsákæru skal gefa út svo fljótt sem verða má eftir að þörfin á henni er kunn. Sú breyting sem gerð var á einkaréttarkröfu brotaþola var kostnaður vegna skemmds fatnaðar, 35.000 krónur, sjúkraflutnings, 5000 krónur, og komugjalda á sjúkrahús, 7.400 krónur. Varð þessi kostnaður til á árunum 2010 og 2011 og lá þá fyrir þegar ákæran var gefin út. Engir reikningar liggja fyrir um þennan kostnað utan að yfirlit í formi exelskjals var lagt fram með læknisvottorði K læknis þann 11. september 2013. Er að þessu leyti skilyrði 153. gr. laganna ekki uppfyllt og ber að vísa framhaldsákærunni frá dómi.

Eftir stendur þá bótakrafa brotaþola eins og henni er lýst í ákæru dagsettri 16. apríl 2013. Í greinargerð bótakrefjanda kemur fram að krafist er 1.200.000 króna í miskabætur auk lögmannskostnaðar. Brotaþola var skipaður réttargæslumaður í þinghaldi þann 11. september 2013. Eins og kröfugerð brotaþola er háttað í ákæru verða honum ekki dæmdar skaðabætur.

Ákærðu mótmæltu allir bótakröfu brotaþola. Fyrir liggur að brotaþoli varð fyrir tilefnislausri og fólskulegri árás með stórhættulegri aðferð sem er heimfærð til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá liggur fyrir læknisvottorð K geðlæknis þar sem segir að brotaþoli hafi sýnt merki um aðlögunarröskun með geðsveiflum, kvíða, hræðslu og svefntruflun eftir árásina. Sé atburðurinn til þess fallinn að valda ógn og skelfingu. Þá lýsti brotaþoli fyrir dóminum afleiðingum árásarinnar, en brotaþoli upplifði sig í lífshættu við árásina. Þá er áverkum í vottorði G lýst ítarlega og er sú árás til þess fallin að valda þeim sem fyrir henni verður bæði andlegum og líkamlegum skaða.

Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga verða ákærðu allir dæmdir in solidum til að greiða brotaþola miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 800.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2010 til 23. júní 2013, en með vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákæra útgefin 7. maí 2013.

Ákærði Z játaði sök í ákæru útgefinni 7. maí 2013. Er játning ákærða í samræmi við önnur skjöl málsins og verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða. Verður ákærða gerð refsing fyrir. 

Í málinu gerir H, kt. [...], f.h. I, kt. [...], kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 348.940 krónur. Ákærði mótmælir bótakröfunni.

 Í 2. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2008 er tilgreint í hvaða formi einkaréttarkrafa skuli vera í sakamáli. Kröfugerð bótakrefjanda uppfyllir ekki þau skilyrði sem mælt er fyrir um í ákvæðinu og ber því að vísa bótakröfunni frá dómi.

Ákvörðun refsingar.

Ákærði Y var tuttugu og fjögurra ára gamall þegar brotið var framið. Hefur sakaferill hans ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Ákærði Haukur Brandsson var tuttugu og níu ára þegar brotið var framið. Ákærði gekkst undir sátt á árinu 2003 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og í apríl 2008 var hann dæmdur fyrir fíkniefnaakstur og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði Z var tuttugu og fimm ára er brotið var framið. Á hann nokkurn sakaferil að baki vegna nytjastuldar, umferðarlagabrota og brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði var dæmdur þann 15. nóvember 2010 til þrjátíu daga fangelsisvistar fyrir umferðarlagabrot. Það brot sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú, framdi hann daginn áður en sá dómur gekk og verður honum því gerður hegningarauki nú samkvæmt reglum 78. gr., sbr. 77. gr., almennra hegningarlaga. Ákærði Þ var tæplega þrjátíu og fjögurra ára gamall þegar brotið var framið. Hann á einnig nokkurn sakaferil að baki frá árinu 2004. Það brot sem hefur áhrif við ákvörðun refsingar nú er dómur frá 25. október 2007, en þá var ákærði dæmdur til 100.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Hlé virðist hafa orðið á rannsókn málsins hjá lögreglu frá lokum árs 2010 þar til í lok árs 2012 en þá voru blóðsýni fyrst send til rannsóknar. Engin skýring hefur verið gefin á þessum drætti. Niðurstöður DNA-rannsókna lágu fyrir  í mars 2013 og var ákæra gefin út 16. apríl 2013. Telur dómurinn að þessi dráttur málsins hjá lögreglu, sem er óútskýrður, sé ákærðu bæði til refsilækkunar og til þess að refsing þeirra verði skilorðsbundin að hluta. Að öllu þessu virtu er refsing ákærða Z ákveðin fangelsi í þrettán mánuði en fresta skal fullnustu tíu mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærðu, Y, Hauks og Þ er ákveðin fangelsi í eitt ár en fresta skal fullnustu refsingarinnar þannig að níu mánuðir falli niður að liðnum þremur árum, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Sakarkostnaður.

Með vísan til 218. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þrátt fyrir sýknu ákærða Þ á II. lið ákæru útgefinni 16. apríl 2013, telur dómurinn þann þátt svo lítinn í vörn ákærða að það sé óverulegt. Réttargæslumaður brotaþola Jónasar aflaði læknisvottorðs undir rekstri málsins sem þýðingu hefur haft við úrlausn málsins. Verður kostnaður vegna þess felldur á ríkissjóð sem hluti sakarkostnaðar.

Að þessum niðurstöðum fengnum ber að dæma ákærðu in solidum til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er samkvæmt yfirliti 563.925 krónur auk kostnaðar við læknisvottorð K, 65.000 krónur. Þá ber að dæma alla ákærðu til greiðslu málsvarnarlauna verjenda sinna þannig: Ákærði Y greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Gísla Kr. Björnssonar hdl.,  815.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði Haukur Brandsson greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., 815.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði Z greiði þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Björgvins Jónssonar hrl., 50.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir dóminum, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 753.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ákærði Þ greiði verjanda sínum, Sveini Guðmundssyni hdl., 815.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærðu allir, in solidum, greiði Ingólfi Kristni Magnússyni hdl. réttargæsluþóknun, 439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði Y sæti fangelsi í eitt ár en fresta skal fullnustu níu mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Haukur Brandsson sæti fangelsi í eitt ár en fresta skal fullnustu níu mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sæti ákærði Haukur upptöku á 1,49 g af marijúana og 3,0 g af amfetamíni.

Ákærði Z sæti fangelsi í þrettán mánuði en fresta skal fullnustu tíu mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Þ sæti fangelsi í eitt ár en fresta skal fullnustu níu mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu allir greiði, in solidum, sakarkostnað samtals 628.925 krónur.

Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla Kr. Björnssonar hdl.,  815.750  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Haukur Brandsson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., 815.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Z greiði þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Björgvins Jónssonar hrl., 50.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir dóminum, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 753.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Þ greiði skipuðum verjanda sínum, Sveini Guðmundssyni hdl., 815.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærðu greiði, in solidum, Jónasi Ævarr Jónassyni 800.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2010 til 23. júní 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærðu allir, in solidum, greiði Ingólfi Kristni Magnússyni hdl. réttargæsluþóknun, 439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bótakröfu H, fyrir hönd I, er vísað frá dómi.

Upptæk eru gerð 1,49 g af marijúana og 3,0 g af amfetamíni.