Hæstiréttur íslands
Mál nr. 277/2010
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Óvenjulegur greiðslueyrir
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2011. |
|
|
Nr. 277/2010. |
Grjótháls ehf. (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn þrotabúi Tækja, tóla og byggingavara ehf. (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Óvenjulegur greiðslueyrir.
Í málinu deildu aðilar um hvort tvær greiðslur T (áður M) til G, samtals að fjárhæð 17.006.372 krónur, væru riftanlegar. Um var að ræða greiðslur vegna kröfu G á hendur T vegna leigu á húsnæði. Greiðslurnar fóru fram með millifærslu í bókhaldi T með þeim hætti að viðskiptakrafa T á hendur E að fyrrgreindri fjárhæð var færð sem innborgun á kröfu G. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í leigusamningi aðila hafi ekki verið kveðið á um greiðslu með þessum hætti og hún jafnframt verið innt af hendi innan sex mánaða fyrir frestdag. Fallast yrði á með þrotabúi T að greiðsla í formi kröfu á hendur þriðja manni væri óvenjulegur greiðslueyrir samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þeirri málsástæðu G að greiðslurnar hafi verið venjulegar eftir atvikum, sbr. lokamálslið ákvæðisins, var hafnað. Riftunarkrafa T var því tekin til greina og G gert að endurgreiða þrotabúi T umkrafða fjárhæð, sbr. 142. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2010. Hann krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2008, en frestdagur við skiptin var 29. sama mánaðar. Félagið bar áður nafnið Mest ehf., en því var breytt í Tæki, tól og byggingarvörur ehf. 21. júlí 2008. Stefndi höfðaði málið 21. mars 2009 og krafðist þess að rift yrði tveimur greiðslum Mest ehf. til áfrýjanda fyrir húsaleigu vegna apríl og maí 2008, samtals að fjárhæð 17.006.372 krónur og að áfrýjanda yrði gert að endurgreiða stefnda sömu fjárhæð. Greiðslurnar fóru fram 1. og 29. apríl 2008 með þeim hætti að krafa áfrýjanda var gerð upp með millifærslu í bókhaldi Mest ehf. á móti kröfu félagsins á hendur Eykt ehf. Skuld síðastnefnda félagsins við Mest ehf. var lækkuð sem nam sömu fjárhæð. Stefndi heldur fram að með þessu hafi jafnræði kröfuhafa verið raskað í þágu áfrýjanda, sem þannig hafi fengið kröfu sína greidda frá þriðja manni og komist hjá því að lýsa henni við skipti á búi Tækja, tóla og byggingarvara ehf. Stefndi reisir kröfu sína á 134. gr., sbr. einnig 136. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar eð greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Hann byggir einnig á ákvæðum 141. gr. sömu laga, en krafa um endurgreiðslu er studd við 142. gr. laganna. Áfrýjandi heldur á hinn bóginn fram að ekki hafi verið um óvenjulegan greiðslueyri að ræða, en jafnvel þótt svo yrði talið hafi greiðslan verið venjuleg eftir atvikum, sbr. 134. gr. áðurnefndra laga.
Í héraðsdómi er rakið hvernig áfrýjandi, Tæki, tól og byggingarvörur ehf. og Eykt ehf. voru tengd.
II
Skriflegur leigusamningur hefur ekki verið lagður fram í málinu. Meðal gagna þess er á hinn bóginn óundirritað skjal 19. janúar 2007 með fyrirsögninni „samkomulag um skuldajöfnun“ sem fjögur félög gerðu, en þau voru Súperbygg ehf., Mest ehf. og Eykt ehf. auk áfrýjanda. Fyrstnefnda félagið er þar tilgreint sem leigutaki og áfrýjandi leigusali húsnæðis, sem Mest ehf. hafði til afnota fyrir starfsemi sína. Samkomulagið gekk út á að leiguskuld Súperbygg ehf. við áfrýjanda fyrir desember 2006 og janúar 2007 ásamt vöxtum og kostnaði skyldi greidd með skuldajöfnuði við kröfu Mest ehf. á hendur Eykt ehf. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram sú skýring af hálfu áfrýjanda að 1. janúar 2007 hafi Súperbygg ehf. og Mest ehf. verið sameinuð undir nafni Mest ehf. og síðastnefnt félag yfirtekið leigusamninginn við áfrýjanda. Ekkert er fram komið um annað en að leigugjald samkvæmt samningnum skyldi vera í reiðufé.
Samkvæmt því, sem fram er komið, var krafa áfrýjanda vegna leigu fyrir apríl og maí 2008 greidd með viðskiptakröfu Mest ehf. á hendur Eykt ehf. Ekki var í leigusamningi kveðið á um greiðslu með þeim hætti og hún var jafnframt innt af hendi innan sex mánaða fyrir frestdag. Fallist verður á með stefnda að greiðsla í formi kröfu á hendur þriðja manni sé óvenjulegur greiðslueyrir samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 410/1994 í dómasafni réttarins 1996, bls. 892.
Áfrýjandi ber fyrir sig að hvað sem öðru líði séu uppfyllt skilyrði síðastnefnds lagaákvæðis fyrir því að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum, enda hafi kröfur hans vegna húsaleigu í önnur skipti einnig verið inntar af hendi með sama hætti. Að framan var getið um greiðslu Mest ehf. fyrir húsaleigu vegna desember 2006 og janúar 2007 í formi viðskiptakröfu á hendur Eykt ehf., en ráða má að greiðslan hafi að hluta verið í þágu fyrri leigutaka húsnæðisins, sem þá hafði verið sameinaður Mest ehf. Gögn málsins bera jafnframt með sér að í tvö önnur skipti hafi húsaleiga verið greidd með sama hætti áður en kom að þeim greiðslum í apríl 2008 sem hér eru til úrlausnar, en það var fyrir september og október 2007. Þá hafa allmörg tölvubréf verið lögð fram í málinu, sem hafa að geyma samskipti starfsmanna áfrýjanda og Mest ehf. um greiðslu húsaleiguskulda þess síðastnefnda, sem síðar lauk með greiðslu í formi framsals krafna á hendur Eykt ehf. Þau bera þess merki að greiðslur með þeim hætti hafi einkum komið til þegar fjárhagsörðugleikar Mest ehf. komu í veg fyrir að unnt væri að greiða með reiðufé, auk þess sem frumkvæði til slíks uppgjörs virðist gjarnan hafa komið af hálfu áfrýjanda. Á tímabilinu frá desember 2006 til mars 2008 að báðum mánuðum meðtöldum fór greiðsla húsaleigu því fram með skuldajöfnuði og framsali viðskiptakröfu fyrir fjóra mánuði af sextán. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður hafnað þeirri málsástæðu áfrýjanda að greiðslur Mest ehf. fyrir húsaleigu í apríl 2008 hafi verið venjulegar eftir atvikum. Samkvæmt því verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að fallast á riftunarkröfu stefnda.
Áfrýjandi andmælir því að skilyrði 142. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt svo að taka megi til greina kröfu stefnda um endurgreiðslu. Sá fyrrnefndi hafði hag af áðurgreindum ráðstöfunum Mest ehf. í apríl 2008, en tjón stefnda af sömu sökum nam þeirri fjárhæð, sem hann krefst. Áfrýjandi fékk greiðslu á kröfu sinni umfram aðra kröfuhafa innan sex mánaða fyrir frestdag. Skilyrði eru því uppfyllt til að verða við kröfu stefnda um endurgreiðslu, þar með talið kröfu um dráttarvexti eins og hún var endanlega gerð í þinghaldi 28. janúar 2010. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Grjótháls ehf., greiði stefnda, þrotabúi Tækja, tóla og byggingarvara ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. janúar 2010, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Tækja, tóla og byggingavara ehf., kt. 620269-7439, Reykjavík, gegn Grjóthálsi ehf., kt. 711296-4929, Skúlagötu 63, Reykjavík, með stefnu sem birt var 21. mars 2009.
Dómkröfur stefnanda eru að rift verði með dómi greiðslu frá stefnanda til stefnda að fjárhæð 17.006.372 kr. sem fram fór 1. og 29. apríl með millifærslu í bókhaldi félagsins með því að krafa stefnanda á Eykt ehf. kt. 560192-2319, að fjárhæð 17.006.372 kr., var færð sem innborgun á kröfu stefnda. Þá er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 17.006.372 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. apríl 2009 til greiðsludags. Að lokum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Með bréfi, sem móttekið var í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 29. júlí 2008, krafðist stjórn Tækja, tóla og byggingavara ehf. þess að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Greint var frá því að gengismál hefðu leikið félagið grátt; eigið fé samkvæmt milliuppgjöri fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins væri neikvætt um 1.548.155.427 kr. Þá segir að SP-Fjármögnun hf. og Lýsing hf. hefðu rift fjármögnunarleigusamningum við félagið og Glitnir banki hf. hefði leyst til sín allar verðsettar eignir félagsins og tekið yfir rekstur steypustöðvar og Glitnir fjármögnun hefði með bréfi 23. júlí rift eignaleigusamningi við félagið. Skylt væri að krefjast gjaldþrotaskipta samkvæmt 64. gr. laga nr. 21/1991. Þá var upplýst að samkvæmt árshlutareikningsuppgjöri félagsins frá 1. janúar til 30. apríl 2001 væri tap félagsins 1.365.173.100 kr., eignir félagsins 5.527.485.212 kr. og skuldir þess 7.075.640.639 kr.
Bú Tækja, tóla og byggingavara ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði hinn 30. júlí 2008. Í bréfi skiptastjóra til stefnda, Grjótháls ehf., hinn 15. mars 2009, segir, að athugun á bókhaldi hafi leitt í ljós að Tæki, tól og byggingavörur ehf. hefði greitt Grjóthálsi ehf. skuld að fjárhæð 17.006.372 kr. í júní 2008 með inneign Tækja, tóla og byggingavara ehf. hjá Eykt ehf. Með þessu hafi Grjótháls ehf. fengið greidda kröfu á Tæki, tól og byggingavörur ehf. Krafist var riftunar á framangreindu og að fjárhæðin yrði endurgreidd þrotabúinu.
Af hálfu stefnda, Grjótháls ehf., segir að félagið eigi fasteignirnar að Norðlingabraut 12 og Vagnhöfða 5 í Reykjavík. Tæki, tól og byggingavörur ehf. - áður Mest samsteypan ehf. hafi leigt þessar fasteignir allt frá árinu 2006 og greitt Grjóthálsi ehf. fyrir leigu á húsnæðinu með því að skuldajafna kröfu á hendur Eykt ehf. á móti leigugjaldinu. Eykt ehf. hafi síðan gert upp við Grjótháls ehf. Í janúar 2007 hafi orðið sérstakt samkomulag um slíka skuldajöfnun og frá þeim tíma hafi skuldajöfnun verið samþykkt í tölvupósti milli aðila.
Þá segir að hinn 1. apríl 2008 og 29. apríl 2008 hafi Tæki, tól og byggingavörur ehf. greitt Grjóthálsi ehf. fyrir leigu fasteignanna að Norðlingabraut 12 og Vagnhöfða 5 í Reykjavík, leigugjald fyrir apríl og maí 2008. Hafi greiðslurnar farið fram með þeim hætti að kröfur Tækja, tóla og byggingavara ehf. á hendur Eykt hf. var skuldajafnað á móti viðskiptaskuld Tækja, tóla og byggingavara ehf. við Grjótháls ehf. Með bréfi, dagsettu 15. mars 2009, hafi skiptastjóri Tækja, tóla og byggingavara ehf. krafist þess að rift yrði þessum greiðslum og að Grjótháls ehf. greiddi þrotabúinu 17.006.372 kr. Af hálfu Grjótháls ehf. hafi að svo stöddu kröfum skiptastjórans verið hafnað sökum skorts á gögnum og farið fram á frekari gögn til stuðnings kröfunum. Skiptastjórinn hafi ekki orðið við því.
Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefnandi, þrotabú Tækja, tóla og byggingavara ehf., byggir á því að rifta beri með dómi greiðslu Tækja, tóla og byggingavara ehf. til Grjótháls ehf. fyrir leigu í apríl og maí 2008 á fasteignum að Norðlingabraut 12 og Vagnhöfða 5 í Reykjavík með þeim hætti sem gert var. Krafa á þriðja aðila sé óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Um hafi verið að ræða greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag [29. júlí 2008] sem á ótilhlýðilegan hátt hafi orðið Grjóthálsi ehf. til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og verið brot á jafnræðisreglum skuldaskilaréttar.
Um réttarheimildir vísar þrotabú Tækja, tóla og byggingavara ehf. til 134. gr., 141. gr. og 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti styður þrotabúið við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 og kröfu um málskostnað við 1. mgr. laga nr. 91/1991.
Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefndi, Grjótháls ehf., byggir á því að greiðsla Tækja, tóla og byggingavara ehf. til Grjótháls ehf. fyrir leigu á fasteignum Grjótháls ehf. að Norðlingabraut 12 og Vagnhöfða 5 í Reykjavík í apríl og maí 2008 með þeim hætti, sem gert var, hafi verið venjuleg. Þessi háttur á leigugreiðslu hafi verið hafður um árabil á grundvelli samkomulags milli Tækja, tóla og byggingavara ehf. og Grjótháls ehf. Þetta hafi verið venja ótengd fjárhagsstöðu Tækja, tóla og byggingavara ehf. Þá byggir Grjótháls ehf. á því að fjárhæð, sem hér um ræðir og greidd var með skuldajöfnun, hafi hvorki verulega skert greiðslugetu Tækja, tóla og byggingavara ehf. né Grjótháls ehf. með þessu móti fengið kröfu greidda umfram aðra kröfuhafa. Eigið fé Tækja, tóla og byggingavara ehf. hafi - samkvæmt milliuppgjöri fyrstu fjóra mánuði ársins 2008 - verið neikvætt um 1.548.155.427 kr. Greiðsla að fjárhæð 17.006.372 kr. hafi því ekki verulega skert greiðslugetu Tækja, tóla og byggingavara ehf., enda smáræði í samhengi við veltu félagsins. Einnig byggir Grjótháls ehf. á því að umdeild skuldajöfnun hafi ekki valdið Tækjum, tólum og byggingavörum ehf. tjóni í ljósi þess, að hefði Tæki, tól og byggingavörur ehf. ekki greitt húsaleigu með skuldajöfnun - sem var venjulegur greiðslueyrir milli félagsins og Grjótháls ehf. - fyrir þá tvo mánuði sem hér um ræðir, hefði Tæki, tól og byggingavörur ehf. verið borið út úr húsnæðinu og allur rekstur þess stöðvast og það valdið mun meira tjóni fyrir kröfuhafa en nemi umdeildum leigugreiðslum. Loks byggir Grjótháls ehf. á því að dómsorð geti ekki kveðið á um skyldu til að greiða þær fjárhæðir, sem greinir í dómkröfum stefnanda, þar sem þær nema ekki ætlaðri auðgun stefnda, 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 kveði á um endurgreiðslu á fjárhæð sem nemi auðgun riftunarþola. Hvorki sé í stefnu krafist endurgreiðslu né skýrður grundvöllur ætlaðrar skyldu stefnda til að endurgreiða né þess krafist að endurgreiðsla sé ákveðin sem tjónsbætur eftir almennum reglum. Með hliðsjón af framangreindu byggir stefndi á því að skilyrði endurgreiðslu séu ekki uppfyllt. Í öllu falli geti endurgreiðsla ekki numið hærri fjárhæð en ætluð auðgun stefnda.
Grjótháls ehf. byggir varakröfu sína á sömu málsástæðum og röksemdum og aðalkröfu. Ósannað sé að Tæki, tól og byggingavörur ehf. hafi orðið fyrir tjóni og þó svo hafi verið, þá sé tjónið ekki í nokkru samræmi við stefnukröfur.
Um réttarheimildir vísar Grjótháls ehf. til almennra reglna kröfuréttar og gjaldþrotaréttar, einkum um skuldajöfnun, og til ákvæða laga nr. 21/1991, einkum 100. gr., 134. gr., 141. gr. og 142. gr. Þá vísar félagið til málsforræðisreglu íslensks einkamálaréttarfars. Um réttarheimild fyrir kröfu um málskostnað vísar Grjótháls ehf. til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða: Upplýst er að Pétur Guðmundsson, Brúnastöðum 63 í Reykjavík, var stjórnarmaður Grjótháls ehf., Eyktar ehf. og Tækja, tóla og byggingavara ehf. á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann vissi því eða mátti vita um ógjaldfærni Tækja, tóla og byggingavara ehf. þegar félagið greiddi Grjóthálsi ehf. apríl- og maíleigu á fasteignunum Norðlingabraut 12 og Vagnhöfða 5 í Reykjavík að fjárhæð 17.006.372 kr., hinn 1. apríl og 29. apríl 2008, með því að skuldajafna kröfu Tækja, tóla og byggingavara ehf. á hendur Eykt hf. á móti leiguskuld Tækja, tóla og byggingavara ehf. við Grjótháls ehf.
Þrátt fyrir að þessi háttur á leigugreiðslu hafi verið hafður allt frá árinu 2006 á grundvelli samkomulags milli Tækja, tóla og byggingavara ehf. og Grjótháls ehf., svo sem haldið er fram að hálfu Grjótháls ehf., verður að telja, að Pétri Guðmundssyni hafi mátt vera ljóst í byrjun apríl 2008 að óvíst væri hvort Tæki, tól og byggingavörur ehf. gæti lengur staðið undir skuldbindingum sínum, þ.á m. greitt húsaleigu. Í því sambandi er varla raunhæft að ætla að Pétur hefði, eins og á stóð, látið fjarlæga Tæki, tól og byggingavörur ehf. úr húsnæðinu að Norðlingabraut 12 og Vagnhöfða 5 vegna húsaleiguskulda við Grjótháls ehf., en að því er vikið í greinargerð stefnda. Um þetta hefði Pétur sjálfur getað borði fyrir rétti hefði hann kosið það.
Framangreind ráðstöfun Tækja, tóla og byggingavara ehf. og Grjótháls ehf. verður að teljast til hagsbóta fyrir Grjótháls ehf. á kostnað annarra og leiða til þess að umrædd fjárhæð er ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Ráðstöfunin er ótilhlýðileg þar sem stjórnarmaður Grjótháls ehf. vissi eða mátti vita um ógjaldfærni Tækja, tóla og byggingavara ehf. Samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. verður því fallist á kröfur þrotabúsins og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 186.750 krónur.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Rift er greiðslu frá stefnanda, Tækjum, tólum og byggingavörum ehf., til stefnda, Grjótháls ehf., að fjárhæð 17.006.372 kr. sem fram fór 1. og 29. apríl með millifærslu í bókhaldi félagsins með því að krafa stefnanda á Eykt ehf., kt. 560192-2319, að fjárhæð 17.006.372 kr., var færð sem innborgun á kröfu stefnda.
Stefndi greiði stefnanda 17.006.372 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. apríl 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 186.750 krónur í málskostnað.