Hæstiréttur íslands

Mál nr. 374/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Barnavernd
  • Börn
  • Vistun barns
  • Gjafsókn


Miðvikudaginn  22. júní 2011.

Nr. 374/2011.

M

(Sigurður A. Þóroddsson hrl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Barnavernd. Börn. Vistun barns. Gjafsókn.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu B um að tvö börn M yrðu vistuð utan heimilis hans allt til 22. september 2011 á grundvelli b. liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að tvö nafngreind börn sóknaraðila yrðu vistuð utan heimilis hans allt til 22. september 2011. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um vistun barnanna utan heimilis og sér dæmdur kærumálskostnaður án tillits til gjafsóknar, sem veitt hefur verið.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í hinum kærða úrskurði er greint frá langvarandi skiptum varnaraðila af málefnum tveggja barna sóknaraðila, sem fædd eru á árinu 2006, en frá hjónaskilnaði sóknaraðila og móður barnanna í júní 2008 hafa þau farið sameiginlega með forsjá barnanna, sem hafa haft lögheimili hjá honum. Samkvæmt gögnum málsins hafa þessi afskipti einkum stafað af aðbúnaði barnanna og öðrum aðstæðum á heimilum beggja foreldranna, sem varnaraðila hafa ítrekað borist tilkynningar um, svo og af miklum deilum sóknaraðila og móðurinnar. Í málinu liggur meðal annars fyrir álitsgerð sálfræðings frá 23. júní 2010 um forsjárhæfni sóknaraðila og móðurinnar, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þau teldust samkvæmt nánar tilgreindum prófunum hæf til að sinna hlutverki foreldra, en þó hafi komið fram miklir veikleikar í „matsþættinum hegðun og viðhorf í foreldrahlutverki þar sem ósættið á milli þeirra endurspeglast skýrt.“ Þar var bent á að sóknaraðili og móðirin yrðu að leggja deilumál sín til hliðar og einbeita sér að hag barnanna og bæta uppeldisaðstæður þeirra til að geta sinnt hlutverki sínu sem foreldrar, en það hafi ekki tekist og hafi þau ekki nema að hluta nýtt sér ráðgjöf, sem veitt hafi verið um uppeldi barnanna og til að fást við eigin veikleika. Með úrskurði 21. september 2010 tók varnaraðili ákvörðun um að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum hans í tvo mánuði frá þeim degi að telja og bar í framhaldi af því undir Héraðsdóm Reykjavíkur 8. nóvember sama ár kröfu um að börnin yrðu vistuð utan heimilis sóknaraðila allt til 21. mars 2011, sbr. 1. mgr. 28. gr. og XI. kafla barnaverndarlaga. Því máli lauk með dómsátt 8. desember 2010, þar sem sóknaraðili og móðirin samþykktu þessa kröfu, en þar var einnig kveðið á um umgengni þeirra við börnin, sem komið hafði verið í fóstur á heimili samkvæmt ákvörðun varnaraðila. Að áliðnu tímabilinu, sem dómsáttin tók til, lýsti móðirin þeirri afstöðu að hún teldi hagsmunum barnanna best borgið með því að þau yrðu áfram á heimili fósturforeldra næstu sex mánuði. Því andmælti sóknaraðili, sem krafðist þess að fá börnin aftur til sín. Varnaraðili kvað upp úrskurð 22. mars 2011, þar sem ákveðið var að þau skyldu áfram vistuð utan heimilis sóknaraðila í tvo mánuði. Varnaraðili bar síðan upp við héraðsdóm kröfu 6. apríl 2011 um að vistunin yrði látin standa allt til 22. september sama ár og er sú krafa til meðferðar í máli þessu.

Að virtum gögnum málsins í heild má fallast á með varnaraðila að fyrir hendi hafi verið nægilegt tilefni samkvæmt b. lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga til að ráðstafa börnum sóknaraðila tímabundið í fóstur með áðurnefndum úrskurði 21. september 2010 og dómsátt 8. desember sama ár. Þótt fyrir liggi að bæði sóknaraðili og móðir barnanna hafi á tímabilinu, sem dómsáttin sneri að, leitað aðstoðar sérfræðinga í samræmi við áætlun varnaraðila um meðferð málsins, mat sá síðastnefndi það svo í úrskurði sínum 22. mars 2011 að árangur hefði ekki náðst í samræmi við þá áætlun og uppeldisfærni foreldranna ekki styrkst nægilega til að það þjónaði best hagsmunum barnanna að fara aftur í umsjá þeirra. Í málinu hafa ekki komið fram sérfræðileg gögn, sem ganga gegn þessu mati. Það fær að auki meðal annars stuðning í því að samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, hefur sóknaraðili, sem mun hafa gengið í hjúskap í maí 2011, hvorki fengist til að samþykkja nýja áætlun varnaraðila um meðferð máls, þar sem meðal annars sé ráðgert að eiginkona hans gangist undir mat á forsjárhæfni, né að þiggja sáttameðferð hjá svokölluðum fjölskyldumeðferðarfræðingi, sem varnaraðili hafði hlutast til um. Að þessu gættu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 19. maí síðastliðinn, barst dóminum 6. apríl sl. með beiði sóknaraðila sama dag.

Sóknaraðili er Barnaverndarnefnd Reykjavíkur en varnaraðili M, [...], [...].

Sóknaraðili krefst þess að dómurinn úrskurði, að A, kt. [...], og B, kt. [...], sem lúta sameiginlegri forsjá foreldra sinna, K, [...], [...], og M, varnaraðila máls þessa, [...], [...], verði vistuð utan heimilis forsjáraðila í sex mánuði alls eða til 22. september 2011, sbr. a-lið 27. gr., sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

          Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila og að hann fái börnin til baka í sína umsjá. Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en varnaraðila var veitt gjafsókn 24. maí sl.

I.

Málavextir eru þeir að með úrskurði sóknaraðila 22. mars sl. var ákveðið að börn varnaraðila yrðu vistuð á heimili á vegum sóknaraðila í allt að tvo mánuði frá og með 22. mars 2011 að telja samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Ástæður fyrir því voru þær að með úrskurði sóknaraðila 21. september 2010 var ákveðið að börnin skyldu vistuð á heimili á vegum sóknaraðili í tvo mánuði frá þeim degi að telja. Varnaraðili krafðist þess fyrir dóminum að sá úrskurður yrði felldur úr gildi og að börnin yrðu afhent honum hið fyrsta. Krafist var af hálfu sóknaraðila að úrskurðurinn yrði staðfestur og að börnin skyldu vistuð utan heimils til 21. mars 2011 með vísan til 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Í þinghaldi 10. nóvem­ber 2010 var lögð fram dómsátt í málinu en með henni varð samkomulag um að börnin skyldu vistuð utan heimilis foreldranna til 21. mars 2011.

Í úrskurði sóknaraðila frá 22. mars sl. kemur fram að reynt hafi verið að afla samþykkis foreldra fyrir því að börnin yrðu áfram á fósturheimilinu sem þau voru vistuð á samkvæmt fyrri úrskurði og dómsáttinni. Móðirin hafi samþykkt 15. mars sl. að börnin yrðu vistuð þar áfram í sex mánuði en ekki varnaraðili. Með úrskurðinum 22. mars sl. var því ákveðið að börnin skyldu vistuð áfram á fóstur­heimilinu í allt að tvo mánuði frá og með þeim degi að telja samkvæmt a-lið 1. mgr. 27. gr. barna­verndarlaga. Sóknaraðili telur nauðsynlegt að vista börnin lengur en þá tvo mánuði sem hann hefur heimild til að úrskurða um samkvæmt framangreindu lagaákvæði. Er því sú krafa gerð fyrir dóminum að börnin verði vistuð utan heimilis í sex mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar sóknaraðila 22. mars 2011, eða til 22. september 2011, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, eins og fram kemur í kröfu­gerð sóknaraðila.

Þar sem móðir barnanna hefur samþykkt vistun þeirra á fóstur­heimilinu á sama tímabili samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sömu laga er hún eðli málsins samkvæmt ekki aðili að málinu.

II.

Af hálfu sóknaraðila er vísað til forsögu málsins. Samband móður barnanna og varnaraðila hafi hafist í [...] 1998 og þau hafi gengið í hjónaband [...]. [...] 2006. Fljótlega hafi farið að bera á miklum samskiptaerfiðleikum sem leitt hafi til þess að þau hafi skilið í ársbyrjun 2008. Þau hafi farið sameiginlega með forsjá barnanna en lögheimili þeirra sé hjá varnaraðila. Börnin hafi verið vistuð utan heimilis á fóstur­heimili í [...] í samræmi við úrskurð sóknaraðila 21. september 2010 og dóm­sátt 8. desember s.á.

Börnin hafi fæðst í [...] [...], um [...] vikum fyrir tímann. Þau hafi dafnað og þroskast eðlilega en foreldrarnir hafi þurft stuðning við uppeldi og umönnun þeirra. Var brugðist við því með stuðningi þjónustumiðstöðvar.

Sóknaraðili lýsir því að málefni barnanna hafi verið í vinnslu hjá honum frá því í október 2007 en þá hafi fyrst borist tilkynning í málinu. Aftur hafi borist tilkynning vegna umönnunar og aðbúnaðar barnanna. Málið hafi verið tekið fyrir á meðferðar­fundi starfsmanna sóknaraðila 20. nóvember 2007. Daginn eftir hafi foreldrarnir undirritað áætlun um meðferð máls sem hafi miðað að því að tryggja börnunum sem bestan aðbúnað og bjóða foreldrunum úrræði til þess. Greiningar- og kennsluvistun hafi hafist á Vistheimili barna 13. desember s.á. í samræmi við áætlun um meðferð máls. Þar hafi verið lögð áhersla á að skoða tengsl milli foreldra og barna ásamt því að skoða styrkleika og veikleika foreldra með tilliti til umönnunar og uppeldis barnanna.

Í byrjun janúar 2008 hafi aftur farið að bera á samskiptavandamálum hjá foreldrunum. Í greinargerð starfsmanna Vistheimilis barna er því lýst hve foreldrunum hafi gengið illa að skynja þarfir og óskir barnanna. Foreldrarnir hafi tekið börnin af Vistheimilinu 30. janúar s.á. Starfsmaður sóknaraðila hafi heimsótt heimili barnanna 13. febrúar s.á. og hafi aðstæður þeirra verið ótryggar og aðbúnaður allur óásættan­legur auk þess sem móðir þeirra hafi verið í andlegu ójafnvægi. Skriflegt samþykki foreldranna hafi fengist fyrir vistun barnanna á Vistheimilinu. Til hafi staðið að börnin væru vistuð í eina viku á meðan foreldrarnir ynnu í sínum málum og kæmu fjölskyldulífinu í viðunandi ástand en dvölin hafi staðið í alls sex mánuði með samþykki foreldranna.

Málið hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna sóknaraðila 28. febrúar s.á. og 3. mars s.á. hafi foreldrarnir skrifað undir meðferðaráætlun þar sem þeir hafi samþykkt að undirgangast forsjárhæfnismat og áframhaldandi vistun barnanna í allt að þrjá mánuði. Greinargerð starfsmanna Vistheimilisins 17. apríl s.á. sýni að ósam­komu­lag foreldranna hafði gengið of nærri börnunum í allt of langan tíma.

Málið hafi verið tekið fyrir á fundi sóknaraðila 13. maí s.á. Starfsmönnum hafi verið falið að gera nýjan samning um umgengni á Vistheimilinu en það hafi ekki tekist og því hafi verið kveðinn upp úrskurður um hana.

Börnin hafi verið útskrifuð af Vistheimilinu í júlí s.á. Málið hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfs­manna 2. júlí s.á. og hafi foreldrarnir undirritað meðferðar­áætlun 4. júlí þar sem þeir hafi lýst sig reiðubúna til samvinnu við starfsmenn sóknar­aðila og að leggja deilur sínar til hliðar barnanna vegna.

Niðurstaða forsjárhæfnismats á foreldrunum hafi legið fyrir í lok júní 2008. Þar komi fram að foreldrar hefðu staðið í erfiðu skilnaðarferli og deilt um forsjá barna sinna. Í viðtölum við báða aðila hefði komið fram mikið vantraust og ásakanir á báða bóga um hver ætti sök á erfiðleikunum. Einnig hafi verið fullyrðingar á báða bóga um vanhæfi hins í foreldrahlutverkinu. Ljóst væri að samband foreldra væri stormasamt og að þeir hefðu ekki getað fundið leiðir til að leysa úr ágreiningsefnum sínum. Foreldrarnir hafi ekki verið í nægilega góðu tilfinningalegu jafnvægi til að sinna heimilis­­haldi, fjölskyldulífi eða þörfum barnanna. Samkvæmt sálfræðilegum prófun­um, sem gerð hafi verið á foreldrum, hafi bæði verið talin hæf til að sinna foreldra­hlutverkinu. Vitsmunaþroski beggja hafi mælst innan meðalmarka en þó í lægra meðal­lagi. Persónuleikapróf hafi ekki gefið til kynna að um væri að ræða alvarlega geðræna erfiðleika eða geðraskanir. Mat sálfræðingsins hafi verið að til að foreldrar gætu sinnt foreldrahlutverki sínu af fullri ábyrgð og skyldurækni þyrftu þeir að leggja deilumál sín til hliðar og einbeita sér að hag barnanna og bæta uppeldisaðstæður þeirra. Gerðu þeir það ekki og nýttu ekki ráðgjöf, sem í boði væri, bæði varðandi uppeldi barnanna og vinnu með eigin veik­leika, þ.e. uppeldis- og sálfræðiráðgjöf sem veitt væri af barnaverndaryfirvöldum, gætu þeir ekki talist hæfir til að sinna foreldra­hlutverkinu.

         Starfsmenn sóknaraðila hafi leitað eftir upplýsingum um lögregluafskipti af for­eldrum barnanna. Í svari 4. júlí 2008 komi fram að lögreglan hefði í 16 skipti haft af­skipti af foreldrum frá 1. desember 2007. Einnig hafi verið leitað eftir upplýs­ingum slysa- og bráðamóttöku Landspítalans. Í bréfi þaðan 9. júlí 2008 komi fram að móðirin hefði leitað þangað í þrígang.

         Tilkynning hafi borist sóknaraðila 21. ágúst s.á., þess efnis að umönnun barnanna væri áfátt hjá varnaraðila. Upplýsinga hafi verið leitað frá leikskóla. Fram hafi komið að mikil truflun væri á leikskólanum af hálfu foreldranna og föðurömmu þeirra og lýst miklum áhyggjum af umsjón barnanna vegna deilna þeirra í millum. Sóknaraðila hafi borist tilkynning 10. september s.á. vegna mikillar áfengis­neyslu á heimilinu. Sóknar­aðila hafi borist ný tilkynning 25. september s.á. þar sem áhyggjum sé lýst af mögu­legu ofbeldi á börnunum af hálfu varnaraðila og vangetu móður­innar til að annast þau. Tilkynningar hafi einnig borist 8. október og 20. októ­ber.

         Málið var tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna 9. október s.á. þar sem ákveðið var að framlengja meðferðaráætlunina um fjóra mánuði. Fram kemur að foreldrar barnanna hafi fengið uppeldisnámskeið á Heilsugæslu barna og þar hafi einnig verið framkvæmt þroskamat á börnunum. Foreldrarnir hafi báðir þegið sálfræði­þjónustu til að reyna að bæta samskipti sín.

Greining og ráðgjöf hafi unnið með báðum foreldrum í byrjun árs 2009 til að fylgja eftir greiningar- og kennsluvistun sem fram hafði farið á Vistheimili barna. Foreldrarnir hafi báðir verið sáttir við niðurstöðu skýrslunnar 22. janúar. Tilkynning hafi borist frá lögreglu 29. mars s.á. vegna heimilisófriðar milli varnaraðila og sam­býlis­konu hans. Sóknaraðila hafi borist tilkynningar í apríl og maí um vanrækslu á börnunum, ýmist í umsjón móður eða varnaraðila. Borist hafi tilkynning frá leikskóla 19. júní s.á. þar sem lýst er áhyggjum af ofbeldi á heimili móður. Tilkynningar hafi borist sóknaraðila í september og október um bágan að­búnað barnanna. Starfsmenn sóknaraðila hafi óskað eftir upplýsingum um líðan barnanna í leikskólanum og í svari 20. október s.á. komi fram að líðan þeirra hefði hrakað, þau væru vansæl og félags­legur aðbúnaður þeirra færi versnandi vegna rígs og ósættis foreldranna sem hefði áhrif á börnin. Samskiptum þeirra við önnur börn hefði jafnframt hrakað. Sóknar­aðila hafi borist tilkynning 26. nóvember þar sem lýst sé áhyggjum af um­önnun barnanna hjá móður.

Málið hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna sóknaraðila 3. desember 2009. Þar hafi verið ákveðið að gera meðferðaráætlun með foreldrum með aðkomu sálfræðings sóknaraðila sem myndi ræða við börnin og meta líðan þeirra. Foreldrum yrði gert að leita sér aðstoðar sálfræðings með það að markmiði að þau gætu unnið saman sem forsjáraðilar barnanna. Tilkynningar hafi borist sóknaraðila 15. og 16. desember s.á. þar sem lýst var áhyggjum af börnunum á heimili varnaraðila. Foreldrarnir hafi mætt í viðtal 18. desember s.á. Móðirin hafi skrifað undir áætlun um meðferð máls.

Málið hafi verið lagt fyrir meðferðarfund starfsmanna 7. janúar 2010. Lagt hafi verið til að gert yrði nýtt forsjárhæfnismat á foreldrunum, gert yrði mat á líðan barnanna og óskað yrði eftir upplýsingum frá lögreglu. Jafnframt hafi verið lagt til að foreldrar færu á ný í Greiningar- og kennsluvistun á Vistheimili barna þar sem aðstæður á heimili barnanna væru ekki viðunandi. Foreldrarnir hafi mætt í viðtal sitt í hvoru lagi 13. janúar s.á. þar sem þeim hafi verið kynnt bókun meðferðarfundar. Foreldrarnir hafi lýst yfir áhyggjum af börnunum hvort í umsjón annars. Varnaraðili hafi lagt fram til­kynningu um mögulegt kynferðis­legt ofbeldi á telpunni í umsjá móðurinnar. Telpan hafi farið með varnaraðila í könnunarviðtal í Barnahús 19. janúar en ekkert hafi komið þar fram sem benti til kynferðislegrar misnotkunar. Læknis­skoðun daginn eftir hafi leitt í ljós að ekki væri útilokað að telpan kynni að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Málið hafi verið tekið fyrir á fundi sóknaraðila 23. febrúar s.á. þar sem ákveðið var að foreldrunum yrði gert að þiggja sálfræðiaðstoð til að styrkja sig í foreldra­hlutverkinu, að sálfræðilegt mat yrði gert á börnunum, að aflað yrði upplýs­inga frá lög­reglu og að óboðað eftirlit yrði með heimili varnaraðila. Foreldrarnir hafi verið boðaðir til viðtals þar sem þeir hafi skrifað undir áætlun um meðferð máls. Í svari lög­reglu 24. mars s.á. komi fram að lögreglan hefði sextán sinnum haft afskipti af mál­efnum varnaraðila á tímabilinu 4. júlí 2008 til 10. mars 2010.

Samkvæmt bókun sóknaraðila 23. febrúar s.á. og áætlun um meðferð máls 5. mars s.á. hafi verið gert mat á líðan og stöðu barnanna. Í niðurstöðu C, sálfræðings 19. maí s.á. komi fram að börnin hafi verið eðlilega þroskuð, vitsmuna­lega og félagslega. Sú togstreita sem ríkti á milli foreldra virtist ekki hafa sett greini­leg merki á börnin en mikilvægt væri að foreldrar gætu unnið saman að velferð barna sinna til að tryggja hagsmuni þeirra.

Foreldrarnir hafi gengist undir forsjárhæfnismat á ný. Niðurstaða þess hafi verið að báðir foreldrar væru hæfir til að sinna foreldrahlutverkinu. Hæfi varnaraðila væri þó heldur lakara en móður. Miklir veikleikar kæmu hins vegar fram hjá báðum foreldum á matsþættinum hegðun og viðhorf í foreldrahlutverki þar sem ósættið á milli þeirra endurspeglaðist skýrt. Niðurstaða forsjárhæfnismatsins, sem gert var á árinu 2008, hefði verið að til þess að foreldrar gætu sinnt foreldrahlutverki sínu af fullri ábyrgð yrðu þeir að leggja deilumál sín til hliðar og einbeita sér að hag barnanna og bæta uppeldisaðstæður þeirra. Nú þætti hins vegar ljóst að foreldrar hefðu ekki lagt niður ágreining sinn og virtust aðeins að hluta til hafa nýtt sér ráðgjöf, bæði varðandi uppeldi barnanna og vinnu með eigin veikleika. Ósætti foreldranna virtist vera farið að hafa neikvæð áhrif á líðan barnanna, bæði samkvæmt upplýsingum foreldra og leik­skóla. Því væri staða málsins erfiðari nú en hún var á árinu 2008 en um sömu niður­stöðu væri að ræða, þ.e. að hæfi foreldra réðist af getu þeirra til að eiga samskipti sem valdi ekki börnunum vanlíðan. Forsjárhæfni foreldra væri skert vegna ósættisins og því full ástæða til að halda áfram því eftirliti sem verið hefði með málefnum barnanna.

D sálfræðingur hafi tekið að sér að vinna með foreldrunum svo þeir gætu unnið saman sem forsjáraðilar barnanna. Í skýrslu hans 10. júlí 2010 komi fram að hvorugt foreldrið kærði sig um samskipti við hitt né hafi þau talið forsendur fyrir vinnu sálfræðingsins með þeim. Foreldrarnir hafi neitað að hittast og ásökuðu hvort annað. Mat sálfræðingsins hafi verið að foreldrarnir gætu ekki bætt samskipti sín og að áfram yrðu deilur á milli þeirra varðandi börnin og annað. Hvorugt þeirra hefði vilja til að sættast eða þiggja ráðgjöf varðandi bætt samskipti. Þau legðu höfuðáherslu á að vera í stríði hvort við annað og létu það vera í forgangi fram yfir velferð barna sinna. Ólíklegt væri að hægt yrði að sætta foreldrana og mælti sálfræðingurinn ekki með að sóknaraðili héldi áfram vinnu sinni með samskipti foreldranna þar sem engar forsendur væru fyrir henni.

Tilkynning hafi borist 12. apríl 2010 þar sem áhyggjum var lýst af umönnun barnanna hjá varnaraðila. Börnin sættu vanrækslu í hans umsjá, óþrifnaður væri á heimilinu og lítill matur til. Föðuramma barnanna væri ófær um að annast þau, m.a. vegna geðrænna erfiðleika hennar, en hún annaðist þau um helgar. Báðir foreldrar væru vanhæfir til að annast börnin. Tilkynning hafi borist 26. apríl s.á. þar sem fram komi að varnaraðili annaðist börnin lítið sem ekkert og að þau væru alltaf í umsjá annarra. Einnig hafi borist tilkynning 28. apríl s.á. vegna barn­anna hjá varnaraðila sem hefði hvorki getu né vilja til þess að annast þau og væru þau stöðugt sett í umsjá annarra. Þá gætti varnaraðili ekki öryggis barnanna þar sem hann væri með þau í bílnum án öryggisútbúnaðar. Hann væri vondur við börnin, beitti þau hörku og öskraði mikið á þau. Svo virtist sem börnin hræddust hann og vildu ekki vera í hans umsjá. Tilkynning hafi borist 18. júlí s.á. þess efnis að telpan væri í umsjá skyld­mennis sem ekki væri treystandi.

Tilkynning hafi borist frá varnaraðila 27. júlí s.á. þess efnis að stúlkan hefði lýst harðræði og vanrækslu af hálfu móður sinnar í síðustu umgengni. Hún hefði verið með marbletti og greint frá því að móðir hennar hefði klipið hana og skilið hana eftir eina heima. Bróðir telpunnar hefði staðfest það. Varnaraðili hafi farið með telpuna á slysa­deild til skoðunar og sagt að hann myndi ekki setja telpuna aftur í umsjá móður hennar.

Sálfræðingur sóknaraðila hefði rætt við börnin 27. ágúst s.á. Börnin hefðu staðfest að móðir þeirra hefði rassskellt þau og að hún gerði það oft. Hún rifi oft í hárið á þeim og klipi þau fast. Telpan hafi sagt það vera mjög vont. Þá hafi börnin einnig rætt um að móðir þeirra væri oft að pota í rassinn á telpunni. Börnin læsi sig inni í herbergi og neiti að hleypa móður sinni inn þegar hún væri að meiða telpuna. Staðfest hafi verið af hálfu slysadeildar 3. september s.á. að varnaraðili hefði mætt þangað með telpuna. Hún hafi verið með marbletti víðsvegar um líkamann sem taldir voru af mannavöldum og gætu vel samrýmst förum eftir fingur.

Málið hafi verið lagt fyrir meðferðarfund starfsmanna 9. september s.á. þar sem bókað var að á grundvelli fyrirliggjandi gagna í málinu verði að teljast hæpið að börnin nái eðlilegum þroska í þeim aðstæðum sem foreldrar bjóði þeim. Mikill óstöðug­leiki væri í lífi barnanna og vanlíðan þeirra færi vaxandi. Þá mætti sjá á fyrirliggjandi gögnum að deilur foreldra færu einnig vaxandi. Mikilvægt væri að börnin færu í könnunarviðtal í Barnahúsi.

III.

Kröfur sóknaraðila eru byggðar á því að leitast hafi verið við að beita eins vægum úrræðum gagn­vart varnaraðila og unnt hafi verið hverju sinni. Stuðningsúrræðin hafi ekki megnað að skapa börnunum þær aðstæður sem tryggi þeim möguleikann á heilbrigðu uppeldi svo þau geti náð þeim þroska sem þeim sé nauðsynlegur fyrir framtíðina. Úrræði á grundvelli 24. og 25. gr. barnaverndarlaga hafi verið reynd en ekki skilað árangri. Einnig hafi verið nýtt úrræði á grundvelli 26. gr. laganna en án árangurs. Skilyrði fyrir beitingu b-liðar 1. mgr. 27. gr. laganna sé að brýnir hagsmunir barnanna mæli með því og að úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. hafi ekki skilað árangri eða að þau séu ófullnægjandi. Öll lagaleg skilyrði fyrir beitingu 27. gr. ­laganna væru uppfyllt í máli þessu.

Hér sé um að ræða tæplega fimm ára gamla tvíbura sem lúti sameiginlegri forsjá foreldra sinna. Fyrstu afskipti sóknaraðila hafi hafist af málinu í október 2007. Síðan þá hafi málið verið til vinnslu hjá sóknaraðila. Fjölmargar tilkynningar hafi borist í málinu fram til dagsins í dag. Börnin hafi verið vistuð tímabundið utan heimilis og foreldrarnir hafi fengið mjög mikinn stuðning og ráðgjöf svo þeir gætu aukið hæfni sína sem forsjáraðilar barna sinna sem virtist ekki hafa borið ásættanlegan árangur. Ekki sé fyrirsjáanlegt að stöðugleiki verði í lífi barnanna haldi þau áfram að vera í umsjá foreldra sinna. Málið hafi einnig ítrekað verð lagt fyrir fund sóknaraðila.

Foreldrarnir hafi undirgengist sálfræðilegt mat með tilliti til forsjárhæfni þeirra á árinu 2008 og aftur á árinu 2010. Niðurstaða þess hafi verið að forsjárhæfni beggja væri skert vegna ósættis þeirra á milli. Eftirliti hafi verið haldið áfram. Þá hafi for­eldrarnir fengið sálfræðilegan stuðning og ráðgjöf í þeim tilgangi að þeir gætu unnið saman sem forsjáraðilar barnanna. Mat sálfræðingsins hafi verið að ólíklegt væri að foreldrar gætu unnið úr ósætti sínu. Engar forsendur væru fyrir áframhaldandi vinnu með samskipti þeirra varðandi uppeldi barnanna. Sálfræðingurinn hafi lagt áherslu á slæmar afleiðingar af samskiptum foreldra á börnin. Börnin hafi farið í könnunar­viðtal í Barnahús eins og fram komi í úrskurði sóknaraðila 21. september 2010. Bæði börnin hafi greint þar frá ofbeldi. Nýlegar niðurstöður taugavísinda­rannsókna gefi til kynna að afleiðingar áfalla hjá börnum risti dýpra en áður var talið. Heili barna sé sérlega viðkvæmur gagnvart streitu þar sem hann er að þroskast. Barn, sem verði vitni að ofbeldi milli foreldra sinna, geti þróað með sér áfallastreituröskun sem geti valdið því frekari erfiðleikum við að bregðast við streitu og aukið áhættuna á að það þrói með sér frekari geðræn vandamál.

Sóknaraðili hafi reynt til þrautar að ná samstarfi við varnaraðila, eins og fram komi í gögnum málsins. Foreldrarnir hafi ítrekað samþykkt og undirritað áætlanir um meðferð máls sem allar hafi miðað að því að styrkja þau í uppeldishlutverki sínu. Þeir hafi í tvígang farið í greiningar- og kennsluvistun á Vistheimili barna. Varnaraðili hafi undirgengist tvö forsjárhæfnismöt. Niðurstaða þeirra beggja hafi í meginatriðum verið sú að ef foreldrar gætu lagt ágreining sinn til hliðar teldust þeir hæfir til að sinna foreldra­­­skyldum sínum en það hafi þeim ekki enn tekist heldur hafi deilur þeirra aukist jafnt og þétt. Þeir hafi fengið sálfræðilega þjónustu en niðurstaðan hafi orðið sú að engar forsendur væru fyrir áframhaldandi vinnu þar sem hvorugt for­eldrið kærði sig um samskipti við hitt. Varnaraðili hafi fengið stuðning og ráðgjöf sem hafi ekki borið ásættanlegan árangur og ekki fyrirsjáanlegt að stöðugleiki verði í lífi barnanna í umsjá foreldra sinna.

Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga í málinu og margra tilkynninga þar sem áhyggjum er lýst af velferð barnanna í umsjá foreldra sé það mat sóknaraðila að þeir gegni ekki forsjárskyldum sínum líkt og lögin geri ráð fyrir. Ljóst sé að ef foreldrarnir taki ekki á sínum málum af fullri alvöru séu þeir vart hæfir til að annast börn sín.

IV.

Af hálfu varnaraðila er málsatvikum lýst þannig að samskipti hans við barns­móður hafi ekki verið góð sem hafi á tíðum haft slæm áhrif á börnin. Varnaraðili og barnsmóðir hans hafi fengið lögskilnað, en skilnaðinn megi eingöngu rekja til hinna slæmu samskipta. Deilurnar stafi einkum af persónulegri misklíð móðurinnar í garð varnaraðila. Þegar börnunum hafi hrakað sé aðallega um að kenna að barns­móðirin viðhaldi hinu slæma ástandi á milli þeirra með því að tala illa um varnaraðila að börnunum viðstöddum. Þetta ástand hafi að mestu staðið óbreytt fram í byrjun árs 2010, en þá virtust samskiptin skána að mestu leyti. Börnin hafi síðan komið heim frá móður sinni eftir mánaðarlanga sumarumgengni og hafi annað barnið verið með greinilega áverka eftir að hafa verið beitt ofbeldi. Varnaraðili hafi strax leitað til Landspítalans með barnið þar sem staðfest hafi verið að barnið hefði sætt ofbeldis­fullri meðferð. Það hafi síðan verið staðfest í viðtölum við börnin. Varnaraðili hafi ekki lagt fram aðrar tilkynningar um vanrækslu barnsmóður sinnar gagnvart börn­unum en þær sem hann hafi tilkynnt undir nafni og sem lögmaður varnaraðila hafi sett fram 19. mars 2011. Varnaraðili hafi ekki tilkynnt annað en háttsemi sem feli í sér grun um brot á lögum og líklegt megi telja að valdi börnunum skaða.

Varnaraðili telji með öllu ósannað að ósættið í málinu sé tilbúið af hans hálfu. Hins vegar telji hann sannað að barnsmóðir hans vilji ekki sættast við sig, en á því geti hann ekki borið ábyrgð. Nýlega hafi hún hafnað sáttum á grundvelli þess að hún vildi leyfa varnaraðila „að finna á eigin skinni hvernig henni er búið að líða“. Þessi um­mæli hafi hún látið falla á fundi með starfsfólki sóknaraðila 25. febrúar 2011.

Varnaraðili og barnsmóðir hans hafi gert sátt sín á milli 15. nóvember 2010 sem hafi orðið grundvöllur dómsáttar sem þau hafi gert sameiginlega við sóknaraðila í kærumálinu nr. U-9/2010 sem rekið var þá fyrir dóminum. Samkvæmt sáttinni hafi börnin átt að koma aftur í umsjá foreldra sinna 25 janúar ef talið væri að framför hefði náðst í sáttaferli þeirra á milli. Varnaraðili og barnsmóðir hans hafi sótt viðtöl hjá þeim sérfræðingum sem sáttin náði til. Samkvæmt sáttinni hafi það verið sömu sér­fræð­ingar og áttu að framkvæma matið sjálft. Ástæðan fyrir því sé sú að varnaraðili telji að almennir starfsmenn sóknaraðila séu sér persónulega mótfallnir. Við fram­kvæmd matsins hafi hins vegar komið í ljós að sömu starfsmenn sóknaraðila hafi gert matið sem hafi verið byggt á upplýsingum sérfræðinganna.

Varnaraðili hafni því að vera valdur að ósætti því sem ríki á milli sín og barns­móður sinnar. Hann beri einungis ábyrgð á sjálfum sér í þeim samskiptum, en að barnsmóðirin beri sína ábyrgð að sama leyti. Hann hafi reynt eftir megni að nálgast hana með sáttaleiðum. Það sjáist glöggt á því að varnaraðili hafi ákveðið einhliða að undirgangast breytingar á jólaumgengni til að barnsmóðir hans fengi notið hennar til jafns við hann. Þá hafi hann tekið þátt í samningaferli við barns­móður sína um breyt­ingar á umgengni frá því sem hún var ákveðin í úrskurði Sýslumannsins í Reykja­vík 8. janúar 2009 þannig að móðirin fengi umgengni við börnin til jafns við varnaraðila. Með þessu hafi varnaraðili sýnt það í verki að hann vilji friðmælast við hana. Hins vegar sé það hún sem vilji ekki friðmælast við hann. Hún hafi haft uppi alls kyns ásakanir á hendur honum en þær standi ósannaðar, enda hafi varnaraðili hvorki sætt rannsókn né ákæru vegna þeirra. Barnsmóðir hans vilji ekki friðmælast en láti reiði sína bitna á honum og börnum þeirra með því að taka undir og styðja kröfur sóknar­aðila.

Varnaraðili telji að ákvörðun sóknaraðila um að fjarlægja börnin úr hans umsjá gangi of langt miðað við þarfir málsins. Fulljóst sé að hann sé hæft foreldri að mati sálfræðings. Því séu engar forsendur fyrir því að takmarka líf hans með börnunum. Í niðurstöðum sálfræðingsins komi fram að ástæða sé til að halda áfram því eftirliti sem verið hefði með málefnum barnanna. Þar komi einnig fram að ástæður þess megi rekja til hins slæma samkomulags sem ríki á milli varnaraðila og barns­móður hans. Á þeim tíma hafi samskiptin farið batnandi við aðra sem sinni börnunum, svo sem leikskóla. Þar komi einnig fram að börn varnaraðila beri til hans traust og væntum­þykju og að grunnþörfum þeirra sé vel sinnt. Ákvörðun sóknaraðila, um að fjarlægja börnin úr umsjá varnaraðila, gangi mun lengra en tillaga sál­fræðings. Engin sjálf­stæð rannsókn virtist hafa átt sér stað hjá sóknaraðila sem geti réttlætt svo harkalegt inngrip í líf varnaraðila og barna hans. Með því hafi sóknaraðili brotið gegn rann­sóknar­reglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Þá hafi sóknar­aðili brotið gegn andmælareglu stjórnsýsluréttarins með því að hafa ekki byggt ákvörðun sína um frekari inngrip á því sem matsaðilar hafi ráðlagt. Ákvörðun sóknar­aðila hafi ekki byggst á fagmannlegum vinnubrögðum eða gögnum sem hægt var að miða andmæli við. 

Varnaraðili hafi að eigin frumkvæði farið í viðtöl hjá sálfræðingi. Í matsskýrslu sálfræðingsins 2. maí 2011 segi að ekki komi neitt fram sem bendi til þess að varnar­aðili geti ekki annast börn sín. Þá komi þar fram að varnaraðili sé yfir meðalgreind samkvæmt niðurstöðum greindarprófs. Sú niðurstaða sé ekki í samræmi við niður­stöðu greindarprófs sem varnaraðili hafi gengist undir í foreldrahæfnismati á árunum 2008 og 2010. Það sýni að verulegur vafi leiki á um réttmæti niðurstöðu þeirra skýrslna sem sóknaraðili byggi málatilbúnað sinn á. Lög­maður varnaraðila hafi lagt til 14. mars sl. að fenginn yrði óháður matsaðili til að meta hver raunveruleg staða málsins væri og hvort þörf væri á að fjar­lægja börnin úr hans umsjá. Engin formleg svör hafi borist frá sóknaraðila við beiðninni. Varnaraðila hafi verið tjáð að hann gæti leitað til Barnaverndarstofu varðandi aðfinnslur við störf sóknaraðila. Þá sé misræmi í skýrslum tveggja sálfræðinga. Skýrslurnar væru gerðar á svipuðum tíma, en niður­staða í annarri þeirra sé að togstreita foreldranna sé ekki farin að setja mark sitt á börnin. Niðurstaða hinnar sé hins vegar sú að ósætti foreldranna hafi áhrif á börnin. Niðurstöður sálfræðinganna E og F í greindarprófum varnaraðila séu með gerólíkum hætti. Engin sjálfstæð rannsókn hafi átt sér stað á þessum mismun, heldur sé um spádóma að ræða sem styðjist ekki við veruleika málsins heldur gangi lengra en mat sérfræðinga. Mat G fjölskyldu­ráðgjafa hafi verið að ekki hafi verið þörf á að fjarlægja börnin úr umsjá varnaraðila á meðan vinna við sáttameðferð færi fram. Hægt sé að ná sáttum í málinu án þess. Slík ummæli hafi hún látið falla í umræðum um málið og í símtali við fulltrúa lögmanns varnaraðila.

Varnaraðili telji aðgerðir sóknaraðila ólögmætar þar sem krafan lúti að því að varnaraðili og barnsmóðir hans leggi ágreining sinn til hliðar. Í fyrsta lagi sé ekki um sameiginlegan ágreining að ræða heldur ágreining barnsmóðurinnar í garð varnar­aðila sem hann geti ekki borið ábyrgð á. Í öðru lagi hafi sóknaraðili ekki sinnt rann­sóknar­skyldum sínum sem skyldi gagnvart hvoru þeirra fyrir sig heldur séu þau sett undir sama hatt þrátt fyrir að vera skilin að skiptum. Samkvæmt dómsáttinni, sem gerð var 8. desember 2010, hafi átt að skilja á milli þeirra í mati á því hvort börnin gætu snúið aftur heim til þeirra. Varnaraðili hafi krafist hlutlausrar rannsóknar á meintu ofbeldi en sóknaraðili hafi ekki orðið við því. Varnaraðili hafi samþykkt 3. febrúar að barnið færi í könnunarviðtal með þeim fyrirvara að hlutleysis yrði gætt vegna gruns um að reynt yrði að hafa áhrif á framburð barnsins. Varnaraðili hafi á þeim tíma margsinnis tjáð starfs­­mönnum sóknaraðila frá þeim áhyggjum sínum. Af þeim sökum hafi lögmaður hans krafist þess að sóknaraðili legði fram áætlun um framkvæmd viðtalsins 7. febrúar. Þar sem kröfunni hafi ekki verið svarað hafi hún verið ítrekuð 15. sama mánaðar. Í kjölfar þess hafi borist svar frá sóknaraðila þess efnis að slíks hlutleysis yrði ekki gætt. Sóknaraðili bæri fullt traust til fóstur­foreldranna varðandi þetta atriði, þrátt fyrir að sóknaraðila væri á þeim tíma fullkunnugt um ágreining á milli varnar­aðila og fósturforeldranna og að fóstur­foreldrarnir hefðu í þrígang staðið rangt að málum gagnvart börnunum. Þegar svo við bættist að af hálfu sóknaraðila hafi verið um mis­skilning að ræða, sem ekki hafi fengist útskýringar á, hafi samþykki varnar­aðila verið afturkallað.

Sóknaraðili hafi viðhaft vafasöm vinnubrögð undir vinnslu málsins. Sóknar­aðili hafi m.a. gengið erinda fósturforeldranna varðandi varnir við athugasemdum varnaraðila gagnvart algerlega óútskýrðum þáttum sem meðal annars hafi falið í sér verulega vanvirðandi framkomu gagnvart varnaraðila og börnunum. Varnaraðili telji að sóknaraðili hafi ekki sinnt rannsóknarskyldum sínum gagnvart þessum þáttum sem leitt hafi til samskiptabanns varnaraðila við fósturforeldra. Þá hafi barnsmóðir verið staðin að því 19. mars 2011 að vera ein og eftirlitslaus með börnunum og brjóta þannig gegn úrskurði sóknaraðila frá 2. nóvember 2010, en samkvæmt því hafi móðir barnsmóður átt að tryggja að barnsmóðir væri ekki ein með börnunum vegna ofbeldis barnsmóðurinnar gegn öðru barninu. Við úrvinnslu málsins hafi ekki verið haft sam­band við þá sem komu við sögu með beinum hætti, þ.e. tengdaforeldra og fulltrúa lög­manns varnaraðila, heldur hafi ályktanir starfsmanna sóknaraðila eingöngu tekið mið af frá­sögn móður barnsmóður sem hafði í raun brotið gegn úrskurðinum. Atburð­irnir hafi leitt til þess að sóknaraðili hafi breytt afstöðu sinni gegn barnsmóðurinni þannig að nú megi móðir hennar framselja eftirlitshlutverk sitt til annarra fjölskyldu­með­lima. Það sé undarleg úrvinnsla málsins þar sem tilgangur vistunarinnar sé að tryggja börnunum öruggara og betra skjól. Harðari viðurlög virtust þar með við því að hafa afskipti af brotum á úrskurði sóknaraðila en að framkvæma brotið sjálft.

Þá hafi starfsmenn sóknaraðila reynt að hagræða frásögnum sínum og starfmaður hafi borið fyrir sig misskilning þegar hann var krafin um upplýsingar. Varnaraðila hafi verið hótað því að börnin yrðu tekin af honum á grundvelli neyðarréttarsjónarmiða ef hann skilaði þeim ekki aftur til fósturforeldra á tímabilinu 19.-21. mars, en þá hafi engin lögmæt vistunarheimild verið til staðar. Aldrei hafi skapast aðstæður sem uppfylli sjónarmið neyðarréttar heldur hafi starfsmaður sóknar­aðila viljað með þessu hræða varnaraðila til hlýðni. Þá hafi fyrrum lögmaður barnsmóður haft uppi hörð mótmæli strax í öndverðu málinu gegn vinnubrögðum starfsmanna sóknaraðila. Niður­stöður meðferðarfundar 23. febrúar 2011 hafi verið tillögur starfsmanna um að börnin fari aftur heim til foreldra sinna þegar vistunartímanum ljúki 21. mars 2011. Tillagan hafi breyst í meðförum starfsmanna. Þegar hún var lögð fram á fundi sóknaraðila 8. mars hafði því verið bætt við að „öflugur stuðningur verði veittur inn á heimili barn­anna“. Ekki komi fram hvort þar sé átt við heimili varnaraðila eða barnsmóður hans. Heimilisaðstæður varnaraðila hafi verið óbreyttar frá 23. febrúar til 8. mars 2011. Í raun hefði ekkert annað breyst en slit barnsmóðurinnar á sáttum við varnaraðila sem síðan hafi leitt til verri niðurstöðu fyrir hann án nokkurra saka. Þar sé ekki gætt sanngirni í garð varnaraðila í málinu, heldur séu hann og barnsmóðir hans undir sömu sök seld.

Sóknaraðila eigi að vera fullljóst hvernig málið sé í pottinn búið. Engu að síður taki sóknaraðili ekki tillit til þess að varnaraðili og barnsmóðir hans séu skilin, heldur geri ólögmæta kröfu á varnaraðila um að bera ábyrgð á sáttavilja barns­móðurinnar. Óeðlilegt sé að sóknaraðili setji þau undir sama hatt þar sem hvergi megi sjá af gögnum málsins að hann sé óhæfur faðir eða hafi gerst sekur um vanrækslu á börnunum. Þvert á móti sýni gögnin hið gagnstæða.

Varnaraðili telji að með ákvörðun sinni um inngrip í deilur barnsmóður sinnar við sig hafi sóknaraðili brotið gegn friðhelgi einkalífs og heimilis. Aðalkrafa varnaraðila byggi á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem staðfestur var með lögum nr. 2/1995, sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Enn fremur byggi varnar­aðili kröfu sína um að hafnað verið kröfum sóknaraðila á barnalögum nr. 76/2003. Kröfu sína um málskostnað reisi varnaraðili á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V.

Í gögnum málsins kemur fram að sóknaraðili hefur veitt varnaraðila og móður barnanna mikinn stuðning og ráðgjöf í þeim tilgangi að bæta aðstæður barnanna eins og hér að framan er lýst. Þrátt fyrir það hefur að mati sóknaraðila ekki tekist að bæta aðstæður þeirra með viðunandi hætti.

Markmið barnaverndarlaga er meðal annars að tryggja að börn sem búa við óviðunandi uppeldisaðstæður fái nauðsynlega aðstoð, sbr. 2. gr. laganna. Í lögunum eru fyrirmæli um að sóknaraðila beri að grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt því sem lýst er í lögunum þegar aðstæður barns eru óviðunandi eða líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu foreldris, vanhæfni eða framferðis þess.

Í úrskurði sóknaraðila frá 22. mars sl. er vísað til þess að fjöldi tilkynninga hafi borist sóknaraðila vegna skorts á viðhlítandi umönnun barnanna af hálfu foreldra þeirra. Þar kemur enn fremur fram að foreldrarnir fengu viðtöl og fjölskylduráðgjöf eftir að börnin voru vistuð á fósturheimili í október 2010. Markmiðið með því var að styrkja foreldra í þeirri stöðu sem þau voru í á þeim tíma. Framtíðarsýnin væri að samskipti foreldranna og fjölskyldna þeirra yrðu uppbyggilegri en þau voru þá. Í greinargerð starfsmanna sóknaraðila 2. mars sl., sem vísað er til í úrskurðinum, kemur fram að foreldrar hafi uppfyllt meðferðaráætlun að sínu leyti þar sem þeir hafi mætt í boðuð viðtöl meðferðaraðila. Stuðningsaðgerðir hafi farið seint af stað og gengið hægar en væntingar voru um.

Í úrskurðinum kemur fram að börnin hafi verið í fóstri frá 11. október 2010 í kjölfar úrskurðar sóknaraðila 21. september s.á., börnin hafi aðlagast vel og að vel hafi gengið með þau í fóstrinu.

Ákvörðun sóknaraðila um að nauðsynlegt væri að vista börnin áfram á fóstur­heimilinu er studd þeim rökum að ekki hafi náðst viðunandi árangur við að bæta uppeldisaðstæður barnanna hjá foreldrum á vistunartímabili utan heimilis. Uppeldis­færni foreldranna hefði ekki styrkst nægilega á tímabilinu til þess að það þjónaði hagsmunum barnanna best að fara aftur í þeirra umsjá og teljist forsjár­hæfni þeirra enn vera skert. Í úrskurðinum er enn fremur vísað til þess að sóknaraðili telji brýnt að reynt verði til hlítar að vinna áfram með samskiptavanda foreldranna og að áfram verði veittur stuðningur til að styrkja þá í uppeldishlutverki sínu. Þá taldi sóknaraðili nauðsynlegt að gert yrði tengslapróf á börnunum til að unnt verði að meta tengsl þeirra við sína nánustu.

Með vísan til þess sem fyrir liggur í málinu verður að telja að ekki sé unnt að tryggja uppeldisskilyrði barnanna á annan hátt en þann sem gert hefur verið með því að vista þau áfram utan heimilis á meðan sóknaraðili freistar þess að styðja varnar­aðila þannig að honum verði fært að bæta úr þeim alvarlegu vandamálum sem hann hefur þurft að glíma við og hefur ekki enn tekist að ráða bót á samkvæmt því sem fram hefur komið þrátt fyrir mikinn stuðning og ráðgjöf sóknaraðila. Margvísleg og ítarleg gögn liggja fyrir í málinu sem byggt er á við mat á því hvort lagaskilyrði eru fyrir því að beita framangreindu úrræði. Er því ekki fallist á að rannsóknarregla eða meðalhófs­regla hafi verið brotnar af hálfu sóknaraðila við meðferð málsins. Réttur varnaraðila til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu er takmarkaður af þeim rétti sem börn njóta en ef hagsmunir barns og foreldris rekast á verða hagsmunir foreldris að víkja fyrir hagsmunum barnsins. Úrskurður sóknaraðila frá 22. mars sl. er byggður á gögnum málsins. Verður ekki fallist á þær röksemdir vararaðila að andmælaréttur hafi verið brotinn gagnvart honum þegar ákveðið var með úrskurðinum að vista börnin áfram á fósturheimilinu. Af greinargerð varnaraðila 18. mars sl. er ljóst að hann hefur við ritun hennar haft vitneskju um að tekin yrði afstaða til þess af hálfu sóknaraðila hvort vista skyldi börnin eins og ákveðið var með úrskurðinum. Úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. barnaverndarlaga hafa verið reynd án þess að þau hafi skilað viðunandi árangri.

Að virtu öllu framangreindu ber að fallast á að skilyrði sé til þess samkvæmt 1. mgr. 28. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr. barna­verndarlaga að vista börnin áfram á fóstur­heimilinu, þar sem þau hafa verið, í sex mánuði, frá 22. mars til 22. september 2011.

Af hálfu sóknaraðila er ekki krafist málskostnaðar og fellur hann því niður.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Tryggva Agnarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur án virðisaukaskatts.

Úrskurðinn kveður upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, um að börnin A og B verði vistuð utan heimilis varnar­aðila, M, í sex mánuði, frá 22. mars  til 22. september 2011 að telja.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lög­manns hans, Tryggva Agnarssonar hdl., 400.000 krónur.