Hæstiréttur íslands
Mál nr. 646/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Fimmtudaginn 1. október 2015. |
|
Nr. 646/2015.
|
A (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 17. sama mánaðar um nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2015.
Með kröfu, sem dagsett er 17. þ.m. og þingfest var í dag, hefur A, kt. [...], til lögheimilis á [...], Reykjavík, en dveljandi á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, Reykjavík, krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 17. þ.m. um það hann skuli vistast á sjúkrahúsi.
Kröfunni er mótmælt af hálfu varnaraðila, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Um aðild vísast til 20. gr., sbr. a-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.
Fyrir liggur í málinu álit tveggja geðlækna, þeirra [...] og [...], um það að veruleg líkindi séu til þess að A sé haldinn geðrofssjúkdómi ([...]) eða ástandi sem jafna má til alvarlegs geðsjúkdóms ([...]). Þá sé hann haldinn efnafíkn, með margþætta persónuleikaröskun og jafnframt haldinn ofbeldishugmyndum og fyrirætlunum að ráða öðrum og sjálfum sér bana. Hann vilji ekki vera á geðdeild og sjái ekki þörf á því. Álíta læknarnir að nauðsynlegt sé að vista hann nauðugan á geðdeildinni til þess að hann fái þar viðeigandi meðferð við sjúkdóminum og til þess að verja aðra og hann sjálfan fyrir voðaverkum.
Dómurinn álítur að það sé nægilega í ljós leitt með áliti læknanna að brýna nauðsyn beri til þess að sóknaraðili dvelji um sinn á sjúkrahúsi og fái þar nauðsynlega læknishjálp við geðsjúkdómi eða ástandi sem jafna má til hans. Ber því, með vísan til 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga, að ákveða að synja kröfu sóknaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 75.000 krónur. Þóknun talsmannsins er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], til lögheimilis á [...], Reykjavík, en dveljandi á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, Reykjavík um það að felld verði úr gildi sú ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 17. september 2015, að hann skuli vistast á sjúkrahúsi.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 75.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.