Hæstiréttur íslands
Mál nr. 101/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsókn
- Fjarskipti
|
|
Miðvikudaginn 12. febrúar 2014. |
|
Nr. 101/2014. |
Sýslumaðurinn á Selfossi (Gunnar Örn Jónsson fulltrúi) gegn X (enginn) |
Kærumál. Rannsókn. Fjarskipti.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S um heimild til að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og önnur fjarskipti við tilgreint símanúmer um tveggja vikna skeið, og eftir atvikum önnur símanúmer sem X kynni að hafa umráð yfir, með skírskotun til þess að skilyrði samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væru ekki fyrir hendi í málinu.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fjarskiptafyrirtækjum yrði gert að heimila lögreglu að hlusta á og taka upp símtöl og skilaboð í talhólf við tiltekið símanúmer varnaraðila sem og aðra síma sem hann kynni að hafa umráð yfir, í allt að tvær vikur frá úrskurðardegi. Þess var jafnframt krafist að heimildin tæki til þess að skrá í og úr hvaða númerum hringt væri og til að taka afrit af SMS-skilaboðum sem send væru úr og bærust í sömu númer. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina.
Varnaraðili hefur ekki átt kost á að láta málið til sín taka, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008.
Fallist er á með héraðsdómara að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að ætlað brot varnaraðila, sem til rannsóknar er, varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eins og ráðið verður af athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 88/2008 er með skilyrðinu í 2. mgr. 83. gr. þeirra laga um að ríkir almannahagsmunir geti réttlætt það að gripið verði til aðgerða á borð við símahlustun samkvæmt 81. gr. laganna vísað til annarra samfélagslegra hagsmuna en einvörðungu þeirra að brot séu upplýst, enda hefði skilyrðið um að rannsókn þurfi að beinast að broti, sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi, að öðrum kosti takmarkaða þýðingu. Með vísan til þessa og að virtum gögnum málsins er staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að ekki séu fyrir hendi skilyrði samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 til þess að verða við kröfu sóknaraðila. Verður hann því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. febrúar 2014.
Héraðsdómi Suðurlands hefur borist krafa lögreglustjórans á Selfossi, dagsett 5. febrúar 2014, þess efnis að fjarskiptafyrirtækjum verði með úrskurði gert að heimila lögreglunni á Selfossi að hlusta á og taka upp símtöl og skilaboð í talhólf við símanúmerið [...] sem og aðra síma sem X, kt. [...], kann að hafa umráð yfir, frá úrskurðardegi og í allt að tvær vikur þaðan í frá. Þess er jafnframt óskað að heimildin nái til þess að skrá í hvaða númer er hringt og úr hvaða númeri er hringt og til að tekin verði afrit af SMS skilaboðum sem send eru úr og berast í ofangreint símanúmer, sem og aðra síma sem hinn grunaði kann að hafa umráð yfir.
Í kröfunni kemur fram að lögreglu hafi undanfarið borist ítrekaðar ábendingar frá aðilum, sem lögregla telur trausta upplýsingagjafa, um að X standi fyrir sölu og dreifingu fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Selfossi, frá heimili sínu að [...] á [...]. Eftirgrennslan lögreglu hafi leitt í ljós að nokkuð sé um að fólk komi að umræddu húsnæði og staldri stutt við, þ.á m. einstaklingar sem lögregla hefur áður haft afskipti af vegna fíkniefnatengdra mála. Fram kemur að lögregla hafi undanfarna daga stöðvað fjórar bifreiðar sem höfðu skamma viðdvöl við [...] og hafi ökumenn umræddra bifreiða allir verið undir áhrifum fíkniefna samkvæmt þvagprufum. Þá bendi upplýsingar lögreglu sterklega til þess að umrædd sala/dreifing fíkniefna fari fram um umrætt símanúmer og einnig á lokuðum samskiptahópum á netinu. Þá hafi X margoft komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála, síðast þann [...], en þá hafi verið haldlögð 17 grömm af ætluðu kannabisefni.
Lögreglustjóri kveður rannsókn málsins, sem sé á frumstigi, yfirgripsmikla og varða mjög alvarleg sakarefni. Mjög mikilvægir almannahagsmunir séu fyrir því að upplýsa mál þetta, m.a. um hugsanlega sölu og dreifingu fíkniefna, hverjir komi að sölu umræddra fíkniefna og hvernig henni sé háttað. Þá sé einnig nauðsynlegt að reyna að upplýsa um uppruna umræddra fíkniefna.
Lögreglustjóri segir umrædd brot geta varðað við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga og/eða ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, og geta varðað allt að tólf ára fangelsi ef sök sannist. Því sé lögreglustjóra nauðsyn á að fá úrskurð þennan enda sé full ástæða til þess að ætla að upplýsingar sem fáist með þessum hætti geti skipt miklu máli fyrir rannsókn málsins.
Kröfu sinni til stuðnings vísar lögreglustjóri til a liðar 1. mgr. 82. gr., sbr. 81. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í 81. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, segir að með þeim skilyrðum sem greind eru í 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. áðurnefndra laga, sé heimilt í þágu rannsóknar máls að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki ellegar við síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki í eigu eða umráðum tilgreinds manns. Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 er það skilyrði fyrir aðgerðum samkvæmt 81. gr. laganna, að ástæða sé til að ætla að upplýsingar sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls fáist með þeim hætti. Auk þess verða þau skilyrði að vera fyrir hendi að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi eða að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess, sbr. 2. mgr. 83. gr. áðurnefndra laga.
Rannsóknarúrræði 81. gr. laga nr. 88/2008 fela í sér verulega skerðingu á grundvallarrétti einstaklings til friðhelgi einkalífs. Af þeim sökum er heimildum til að beita greindum rannsóknarúrræðum settar þröngar skorður vegna tillits til friðhelgi einkalífs manna, sbr. og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008, er eins og áður er rakið, auk þeirra skilyrða sem fram koma í 1. mgr. greinarinnar, sett það skilyrði að rannsókn þurfi að beinast að broti þar sem refsiramminn er allt að átta ára fangelsi, en til slíkra brota teljast meðal annars meiriháttar fíkniefnabrot, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem refsiramminn er allt að tólf árum. Refsirammi laga nr. 65/1974, sem lögreglustjóri vísar til í kröfu sinni, er hins vegar sex ár. Með vísan til rökstuðnings lögreglustjóra og framlagðra rannsóknargagna þykir lögreglustjóri ekki hafa sýnt fram á að uppfyllt sé framangreint skilyrði 2. mgr. 83. gr.
Af hálfu lögreglustjóra er einnig á því byggt að mjög mikilvægir almannahagsmunir séu fyrir því að upplýsa mál þetta. Kemur því til skoðunar hvort uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 um að rannsókn þurfi að beinast að broti þar sem ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess að rannsóknaraðgerð sem þessi verði heimiluð. Að mati dómsins felst í framangreindu skilyrði að brot þurfi að beinast að verulegum hagsmunum einstaklinga eða lögaðila. Þegar gögn máls þessa eru virt, sem og rökstuðningur lögreglustjóra, og með hliðsjón af atvikum þessa máls, verður ekki talið að svo sé. Með vísan til alls framanritaðs verður því að hafna kröfu lögreglustjórans á Selfossi.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Framangreindri kröfu lögreglustjórans á Selfossi er hafnað.