Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Haldsréttur
- Úthlutun söluverðs
|
|
Þriðjudaginn 7. september 2004. |
|
Nr. 288/2004. |
SKH eignarhaldsfélag ehf. (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Haldsréttur. Úthlutun söluverðs.
S ehf. taldi sig eiga haldsrétt í flugvél fyrir kröfu vegna viðgerðar samkvæmt tilteknum verktakasamningi. Hafði sá sem framkvæmdi viðgerðina framselt félaginu kröfuna en félagið hélt því fram að flugvélin hefði verið í vörslum viðgerðarmanns þegar uppboðið fór fram. Talið var að félaginu hefði ekki tekist sönnun um að fyrrgreindur samningur hefði komist á og því ekki sannað að það nyti þess réttar sem það bar fyrir sig. Voru skilyrði haldsréttar því ekki talinn fyrir hendi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. júlí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að söluverði flugvélarinnar TF-TOX, sem seld var nauðungarsölu 27. ágúst 2003, yrði að frádregnum kostnaði úthlutað til greiðslu á kröfu hans að fjárhæð 664.807 krónum á undan kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og söluverði flugvélarinnar að frádregnum kostnaði við söluna ráðstafað til greiðslu á kröfu hans „auk innlánsvaxta“ frá 9. júní 2004 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Flugvélin TF-TOX, áður TF-FFC, var seld nauðungarsölu á uppboði 27. ágúst 2003. Eigandi hennar og gerðarþoli við uppboðið var Flugskólinn Flugsýn ehf. Söluverðið var 700.000 krónur og varð varnaraðili hæstbjóðandi. Lýsti hann kröfu í söluverðið, sem tryggð var með 1. veðrétti í flugvélinni að fjárhæð 1.666.680 krónur. Ragnar Jón Magnússon flugvirki lýsti einnig kröfu 26. ágúst 2003 samkvæmt reikningi dagsettum degi áður að fjárhæð 599.850 krónur, en að viðbættum kostnaði við innheimtu og kröfulýsingu nam krafan í söluverðið 664.807 krónum. Í kröfulýsingu Ragnars Jóns var tekið fram að lýst væri haldsréttarkröfu, sem nyti forgangs til úthlutunar af söluverðinu. Væri hún vegna viðgerðar á flugvélinni. Meðal málsskjala er framsal Ragnars Jóns á kröfunni til sóknaraðila, dagsett 27. ágúst 2003. Segir þar meðal annars að uppgjör hafi farið fram, en fyrir dómi kom fram hjá Ragnari Jóni að engin greiðsla hafi komið fyrir kröfuna.
Í upphaflegu frumvarpi sýslumannsins í Reykjavík 6. janúar 2004 til úthlutunar á söluverðinu var gert ráð fyrir að það skiptist þannig að fyrst greiddust sölulaun í ríkissjóð og kostnaður, 7.000 krónur. Síðan yrði sóknaraðila greidd krafa sín að fullu með 664.807 krónum, en eftirstöðvum söluverðsins, 28.193 krónum, yrði úthlutað til varnaraðila upp í kröfu hans. Varnaraðili mótmælti frumvarpinu og krafðist þess að honum yrði úthlutað söluverðinu upp í kröfu sína að frádregnum 7.000 krónum vegna sölulauna og kostnaðar. Sýslumaður féllst á mótmælin og samkvæmt nýju frumvarpi 15. mars 2004 skyldi varnaraðila úthlutað 693.000 krónum upp í veðkröfu sína, en ekkert greiðast af kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili undi ekki þessari ákvörðun sýslumanns og bar kröfu sína undir héraðsdóm, þar sem henni var hafnað.
II.
Ragnar Jón Magnússon gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa stofnað Flugskólann Flugsýn ehf. á árinu 2000 og þá verið einkaeigandi félagsins. Eftir það hafi hann selt það Flugporti ehf., en síðarnefnda félagið hafi hann átt sjálfur. Í greinargerð til Hæstaréttar kemur fram að hann hafi aðeins átt félagið að hluta. Flugskólinn Flugsýn ehf. hafi loks verið seldur Sigurði Kristjáni Hjaltested. Samkvæmt framlögðum kaupsamningi 1. október 2002 var verðið í þeim viðskiptum ein króna. Meðal málsskjala eru vottorð Hagstofu Íslands, en samkvæmt þeim hefur Ragnar Jón verið stjórnarformaður Flugskólans Flugsýnar ehf. frá 8. mars 2001. Með honum í stjórn voru upphaflega Einar Örn Einarsson og Jón Grétar Sigurðsson, en frá 1. október 2002 Sigurður Kristján Hjaltested og annar maður. Samkvæmt enn einu vottorði úr hlutafélagaskrá er Sigurður framkvæmdastjóri og eini stjórnarmaðurinn í sóknaraðila.
Starfstöð flugskólans var þegar uppboð fór fram að Fluggörðum 31d í Reykjavík. Fram er kom í málinu að það húsnæði var eign Jórvíkur ehf. til 2002, en eftir það eign sóknaraðila. Er því haldið fram að sá síðastnefndi hafi leigt Ragnari Jóni svonefndan verkstæðishluta á neðri hæð húseignarinnar en Flugskólanum Flugsýn ehf. hinn hlutann. Leigusamningar hafa ekki verið lagðir fram í málinu.
Í framburði sínum kvaðst Ragnar Jón hafa unnið að viðgerð flugvélarinnar frá hausti 2002. Hafi hann unnið verkið á löngum tíma, en það „var bara kroppað í þetta eftir hentugleikum.“ Telur hann sig hafa unnið sem verktaki fyrir Flugskólann Flugsýn ehf. samkvæmt samningi 15. maí 2002, sem gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði. Hafi hann samkvæmt samningnum notið haldsréttar í flugvélinni fyrir kröfu sinni, og hafi flugvélin verið í hans vörslum þegar uppboðið fór fram. Byggir sóknaraðili á því að eftir framsal Ragnars Jóns á kröfunni njóti hann sömu réttarstöðu við úthlutun söluverðs flugvélarinnar og Ragnar Jón hafi áður haft.
Varnaraðili vefengir að Ragnar Jón hafi unnið við flugvélina sem verktaki. Hann hafi á þessum tíma bæði verið stjórnarformaður félagsins, sem átti hana, og tæknistjóri og þar með starfsmaður þess. Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 692/1999 um flugskóla sjái tæknistjóri um og beri ábyrgð á skoðunum og viðhaldi loftfara flugskóla. Hafi Ragnar Jón því augljóslega unnið við flugvélina sem slíkur. Samningurinn 15. maí 2002 skipti engu máli og hafi hann yfirbragð þess að hafa verið útbúinn eftir á til að freista þess að komast fram fyrir veðhafa í réttindaröð við úthlutun söluverðs. Þá hafi vinna Ragnars Jóns ekki aukið verðgildi flugvélarinnar og hafi hún enn verið óflughæf og ástand hennar frekar lélegt þegar varnaraðili eignaðist hana á uppboði 27. ágúst 2003. Þá mótmælir varnaraðila því að húskynnum að Fluggörðum 31d hafi verið skipt með þeim hætti að Ragnar Jón hafi einn allra starfsmanna gerðarþolans haft aðgang að verkstæðisrýminu þar. Sé ósannað að hann hafi haft þær vörslur flugvélarinnar að með því hafi verið girt fyrir umráð gerðarþolans á henni þegar uppboð fór fram. Til vara heldur varnaraðili fram að hvað sem öðru líði beri að lækka kröfu sóknaraðila verulega. Málavöxtum og málsástæðum aðilanna er nánar lýst í hinum kærða úrskurði.
III.
Svo sem áður var getið var Ragnar Jón Magnússon flugvirki stjórnarformaður Flugskólans Flugsýnar ehf. og gegndi auk þess mikilvægu ábyrgðar- og trúnaðarstarfi fyrir félagið sem tæknistjóri í samræmi við 12. gr. reglugerðar nr. 692/1999. Krafa sóknaraðila er á því reist að Ragnar Jón hafi ekki unnið að viðgerð áðurnefndrar flugvélar sem tæknistjóri, heldur sem sjálfstæður verktaki. Er um það vísað til samningsins 15. maí 2002. Við mat á sönnunargildi samningsins er fyrst til þess að líta að í málatilbúnaði sóknaraðila felst í raun að Ragnar Jón hafi samið við sjálfan sig sem stjórnarformann og tæknistjóra Flugskólans Flugsýnar ehf. um að koma eftir það að viðgerð flugvélarinnar sem verktaki. Er þó hvorki haldið sérstaklega fram að hann hafi eftir þetta gert annað eða meira en það, sem hann gerði áður sem tæknistjóri, né að hann hafi látið af starfi sem tæknistjóri fyrr en einhvern tíma á árinu 2003. Tveir menn, sem sátu á þessum tíma í stjórn félagsins ásamt Ragnari Jóni stjórnarformanni, rituðu fyrir þess hönd undir samninginn við formann stjórnarinnar. Hafa þeir ekki gefið skýrslu fyrir dómi til að gera grein fyrir því hvenær samningurinn var gerður eða þeirri sérstöku skipan, sem með honum skyldi komið á. Samningurinn ber ekki undirskrift votta. Þá felur það enn í sér líkindi gegn því að sönnun hafi tekist um að samningur hafi komist á þess efnis, sem sóknaraðili byggir á, að hann hefur ekki lagt fram leigusamning við Ragnar Jón um hluta af húsnæðinu að Fluggörðum 31d, sem þeir kveðast hafa gert. Þá gerði Ragnar Jón engan reka að því að senda gerðarþola reikning og krefjast greiðslu hans í skjóli haldsréttar fyrr en tveimur dögum fyrir nauðungarsöluna þótt að baki eigi að hafa legið vinna frá því allt að ári fyrr. Þegar sú aðstaða er virt, sem að framan er lýst, hefur sóknaraðili ekki sannað að hann njóti þess réttar, sem hann ber fyrir sig. Verður að fallast á með varnaraðila að leggja beri til grundvallar niðurstöðu að Ragnar Jón Magnússon hafi unnið við flugvélina TF-TOX sem starfsmaður Flugskólans Flugsýnar ehf. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest þegar af þeirri ástæðu og reynir þá ekki sérstaklega á aðrar málsástæður varnaraðila til stuðnings þeirri niðurstöðu.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, SKH eignarhaldsfélag ehf., greiði varnaraðila, Tryggingamiðstöðinni hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2004.
Máli þessu var skotið til héraðsdóms með bréfi sóknaraðila 19. mars 2004. Málið var þingfest 26. mars og tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 17. maí sl.
Sóknaraðili er SKH eignarhaldsfélag, kt. 430203-2070.
Varnaraðili er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079.
Ágreiningur aðila varðar úthlutun söluandvirðis flugvélarinnar TF-TOX, áður merkt TF-FFC, er seld var nauðungarsölu 27. ágúst 2003. Sýslumaður ákvað 15. mars sl. að breyta upphaflegu frumvarpi að úthlutun á þann veg að öllu andvirði að greiddum sölulaunum, 693.000 krónum, skyldi úthluta til varnaraðila upp í kröfu samkvæmt veðskuldabréfi, en hafna kröfu sóknaraðila um úthlutun á grundvelli haldsréttar.
Sóknaraðili krefst þess að söluandvirði vélarinnar verði að frádregnum kostnaði úthlutað til greiðslu á kröfu hans að fjárhæð 664.807 krónur, á undan kröfu varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar. Til vara krefst varnaraðili þess að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði þá felldur niður.
Ágreiningur aðila snýst um það hvort viðurkenna beri haldsréttarkröfu sóknaraðila og úthluta af söluandvirðinu til greiðslu hennar, áður en greitt verður upp í veðskuldabréf varnaraðila.
Krafa varnaraðila er í sjálfu sér óumdeild. Hún er samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu af Lofti ehf. til Tryggingar hf. 1. október 1998. Samkvæmt beiðni varnaraðila um nauðungarsölu nam krafa hans samtals 1.380.600 krónum.
Krafa sóknaraðila var sett fram í nafni Ragnars Jóns Magnússonar í bréfi lögmanns hans, dagsettu 26. ágúst 2003, sem var beint til sýslumanns sem kröfulýsing í söluandvirðið. Þar er krafan sögð nema samtals 664.807 krónum. Vísað er til reiknings nr. 352 vegna „viðgerðar á flugvélinni, aileron skipi efni og vinna, vinna við flapa og indicator og kerfi, ársskoðun, skýlisleiga í 3 mánuði, vinna við mótor, cylinder #2 og startara. Vinnu er ekki lokið.”
Með yfirlýsingu 27. ágúst 2003 framseldi Ragnar Jón kröfu sína til sóknaraðila máls þessa.
Málsástæður sóknaraðila.
Sóknaraðili vísar til framangreinds reiknings. Reikningurinn sé fyrir efni í og vinnu við flugvélina. Ragnar Jón Magnússon hafi gert skriflegan samning við eiganda vélarinnar, Flugskólann Flugsýn. Hann hafi innt verkið af hendi í flugskýli sínu, Fluggörðum 29c fram í febrúar 2003, en eftir það í flugskýli sem hann hafi haft á leigu að Fluggörðum 31c. Tekur hann fram að Flugskólinn hafi haft efri hæð þess húsnæðis á leigu, en húsrýmin séu alveg aðskilin. Flugskólinn hafi ekki haft aðgang að verkstæðinu.
Sóknaraðili fullyrðir að Flugskólinn hafi ekki haft umráð vélarinnar frá því að viðgerð hófst haustið 2002. Er uppboðið fór fram hafi Ragnar Jón Magnússon haft umráð vélarinnar. Hafi hann haft lykla að vélinni og handbækur í sínum vörslum. Með þessu séu öll meginskilyrði til stofnunar haldsréttar uppfyllt.
Sóknaraðili segir að hann sé þinglýstur eigandi að Fluggörðum 31d. Hafi svo verið frá 2002, en áður hafi Flugfélagið Jórvík átt húsnæðið. Flugskólinn Flugsýn hafi hins vegar aldrei átt þetta húsnæði.
Þá segir sóknaraðili að engu skipti þótt Ragnar Jón Magnússon hafi verið tæknistjóri Flugskólans Flugsýnar, gerðarþola við nauðungarsöluna. Í því felist að hann beri ábyrgð á því að sá sem framkvæmi viðhald eða skoðun geri það samkvæmt gildandi reglum. Flugmálastjórn þurfi að samþykkja hæfi viðkomandi tæknistjóra. Tæknistjórinn sé ekki skuldbundinn til að annast viðhald eða skoðanir sjálfur. Honum beri að sjá um að verk sé unnið og staðfesti það með undirritun sinni. Þannig séu undirritanir hans í skjölum sem fram hafi verið lagðar í málinu staðfesting þess að verk hafi verið unnið, en í því felist ekki að verk hafi verið unnið af flugskólanum sjálfum eða starfsmanni hans.
Málsástæður varnaraðila.
Varnaraðili lýsir í greinargerð sinni veðskuldabréfi sínu. Hafi það verið gefið út til Tryggingar hf. 1. október 1998, en nú sé hann eigandi bréfsins, sem hvíli á 1. veðrétti í flugvélinni.
Varnaraðili segir að Ragnar Jón Magnússon hafi, er hann annaðist skoðun og viðgerð á flugvélinni í nóvember 2002, verið stjórnarformaður Flugskólans Flugsýnar ehf., eiganda vélarinnar og gerðarþola í uppboðsmálinu. Þá hafi hann gegnt starfi tæknistjóra gerðarþola. Hafi hann því borið ábyrgð á skoðunum og viðhaldi loftfara gerðarþola, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 692/1999. Hvernig svo sem launagreiðslum til Ragnars hafi verið háttað sé ekki ástæða til að ætla annað en að greiðslur til hans hafi byggst á vinnusamningi. Vegna stöðu Ragnars sé einnig öldungis fráleitt að ætla að hann geti eignast haldsrétt í eignum gerðarþolans.
Varnaraðili mótmælir þeim samningi um viðhald sem sóknaraðili lagði fram. Telur hann að samningur þessi hafi yfirbragð þess að hafa verið gerður eftir á. Því verði ekki á honum byggt varðandi samband Ragnars og gerðarþola. Varnaraðili segir að slíkir samningar séu að jafnaði ekki gerðir um skoðanir á smáflugvélum. Einnig mótmælir hann því að unnt sé að semja um að haldsréttur stofnist.
Varnaraðili telur að áritanir í viðhaldsbók hreyfils og vélarinnar bendi eindregið til þess að viðgerðin og skoðunin í nóvember 2002 hafi farið fram í nafni gerðarþola. Á því leiki ekki vafi að Ragnar hafi unnið að verkinu í krafti starfstengsla sinna við gerðarþola, en ekki sem sjálfstæður viðgerðaraðili. Við þessar aðstæður kveðst varnaraðili mótmæla því að haldsréttur hafi stofnast. Þá beri sóknaraðili sönnunarbyrðina fyrir því að slíkur réttur hafi stofnast og sú sönnun sé ekki komin fram.
Varnaraðili telur að skoðun og viðgerð hafi farið fram á staðnum þar sem vélin var er uppboðið fór fram. Á þeim stað reki gerðarþoli sína starfsemi. Telur hann að innangengt sé á milli rýma í flugskýlinu og ráða megi að veruleg tengsl séu á milli þeirrar starfsemi sem fór fram í skýlinu og starfsemi gerðarþola. Telur varnaraðili ósannað að Ragnar hafi með geymslu vélarinnar í skýlinu komið í veg fyrir að aðrir eigendur fyrirtækisins hefðu aðgang að henni. Enn mótmælir varnaraðili því að Ragnar hafi geymt viðhaldsbækur vélarinnar þannig að aðrir starfsmenn gerðarþola hefðu ekki haft aðgang að þeim. Þá telur hann það hreina firru að halda því fram að vörslur viðhaldsbókanna sé nægileg til þess að haldsréttur stofnist.
Varnaraðili tekur fram að sóknaraðili geti ekki öðlast betri rétt en Ragnar Jón Magnússon átti.
Varakrafa varnaraðila er um að krafa sóknaraðila verði lækkuð og mótmælir hann í því samhengi einstökum liðum í kröfugerð sóknaraðila.
Hann mótmælir kröfu að fjárhæð 68.850 vegna „servicable I/h aileron”. Telur varnaraðili að ekkert liggi fyrir um að Ragnar hafi sjálfur lagt út fyrir þessu. Hann telur að óhæfilegur tími sé reiknaður fyrir „ársskoðun”. Reikna megi með að slík skoðun taki ekki meira en 20 stundir og því beri að lækka þennan kröfulið í 84.000 krónur. Þá mótmælir varnaraðili því að skýlisleiga sé sönnuð.
Um liðinn vinna við „mótor cylinder #2 og startara” segir varnaraðili að hér sé um að ræða vinnu við að skipta um strokk í vélinni, en nýr strokkur hafi verið fenginn að láni. Þegar hann hafi fengið vélina afhenta eftir uppboðið hafi verið búið að fjarlægja strokkinn. Hafi varnaraðili þurft að kosta ísetningu nýs strokks. Vinna þessi hafi því ekki aukið verðgildi vélarinnar og geti krafa um kostnað við hana því ekki notið haldsréttar.
Loks bendir varnaraðili á að þegar uppboðið fór fram hafi Ragnar ekki hafið innheimtuaðgerðir til að fá kröfuna greidda úr hendi gerðarþola. Því sé ekki grundvöllur fyrir því að 59.760 króna innheimtukostnaður sé tryggður með haldsrétti.
Forsendur og niðurstaða.
Við aðalmeðferð var gengið á vettvang. Sýndi Ragnar Jón Magnússon dóminum flugskýlið þar sem vélin hafði verið geymd og kennsluhúsnæði Flugskólans Flugsýnar ehf. Síðan gaf hann skýrslu fyrir dóminum, svo og Ágúst Ögmundsson, aðstoðarforstjóri varnaraðila. Húsakynnin eru aðskilin að því leyti að hlerar hafa verið negldir fyrir dyr til að hindra umgang á milli.
Ragnar kvaðst hafa stofnað Flugskólann Flugsýn ehf. í mars 2000. Þá hafi hann verið einn eigandi. Félagið hafi síðan verið selt Flugporti ehf. ári síðar. Hann kvaðst vera sjálfur eigandi Flugports. Flugport hafi verið selt Sigurði Hjaltested í október 2002. Hann kveðst hafa fallist á að vera skráður stjórnarformaður eftir að hann seldi félagið. Hann kvaðst ekki hafa tekið þátt í rekstri skólans eftir að hann seldi, hann hafi einungis verið verktaki í sambandi við skoðanir.
Hann sagði að til hefði staðið að hann fengi greitt í peningum fyrir skoðanir, en það hafi aldrei orðið neitt af því. Hann hefði einungis skrifað einn reikning. Aileron kvaðst hann hafa átt sjálfur, en gat ekki skýrt hvenær og hvernig hann hefði eignast hann. Þá kvaðst hann hafa framselt kröfu sína til sóknaraðila máls þessa, en fram kom að hann hefði ekki fengið neina greiðslu enn sem komið er.
Ágúst Ögmundsson sagði að eftir að Tryggingamiðstöðin keypti vélina á uppboði hefðu þeir látið skoða vélina og ástand hennar hefði verið slæmt að ýmsu leyti. T.d. hefði cylinder í vélinni verið ónýtur. Í skýrslu Ragnars kom fram að hann hefði fengið lánaðan cylinder í vélina og síðan skilað honum aftur.
Frammi liggur „Samningur um viðgerð-viðhald á flugvél. TF-FFC”. Er hann dagsettur 15. maí 2002 og er á milli Flugskólans Flugsýnar ehf. sem verkkaupa og Ragnars Jóns Magnússonar sem verktaka. Í lokaákvæði samningsins segir að verkkaupi viðurkenni haldsrétt verksala í flugvélinni og skráningarbókum vélar til tryggingar fullri greiðslu samkvæmt samningnum. Samningurinn er undirritaður af Ragnari Jóni og Einari Erni Einarssyni og Jóni Grétari Sigurðssyni. Samkvæmt vottorði um skráningu í hlutafélagaskrá er Ragnar Jón Magnússon formaður stjórnar Flugskólans Flugsýnar ehf. og með honum í stjórn Sigurður Kristján Hjaltested og Árni Gunnsteinsson.
Ekki hefur verið lagt fram neitt frekar um greiðslur á milli Flugskólans og Ragnars Jóns á grundvelli ofangreinds samnings. Af skýrslu Ragnars fyrir dóminum sem áður getur virðist mega ráða að engar greiðslur hafi runnið til hans.
Sú staðreynd að Ragnar Jón Magnússon hefur alla tíð verið stjórnarformaður Flugskólans Flugsýnar ehf., varnaraðila við nauðungarsöluna, svo og sérstaklega tilgreindur tæknistjóri, leiðir til þess að gera verður ríkar kröfur til sönnunar fyrir því að hann hafi eignast fjárkröfur á hendur félaginu. Samningur sá sem hann hefur lagt fram er ekki skýr um það hver undirritar fyrir hönd félagsins. Ekki er sýnt fram á að þeir sem skrifa undir auk Ragnars hafi haft umboð til að skuldbinda félagið. Þá er ljóst að engar greiðslur hafa farið fram samkvæmt samningnum og ekki var skrifaður reikningur fyrr en rétt í þann mund sem flugvélin var seld nauðungarsölu.
Ragnar kveðst hafa unnið verkið í nóvember 2002, en hann skrifaði ekki reikning fyrr en í ágúst 2003, rétt í þann mund er vélin var seld nauðungarsölu. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi krafist greiðslu eða tilkynnt að hann vildi beita haldsrétti í vélinni. Er raunar svo að sjá sem hann hefði átt að beina slíkri tilkynningu til sjálfs sín. Er ekki sjáanlegt að vörslur vélarinnar hafi breyst á neinum tímapunkti.
Að þessu virtu, einkum því að Ragnar Jón Magnússon var sjálfur stjórnarformaður gerðarþolans og að hann kaus að gera ekki reikning fyrr en ljóst var að vélin yrði seld nauðungarsölu, verður að hafna því að hann hafi unnið við vélina sem sjálfstæður verktaki og að verkið hafi aukið verðgildi vélarinnar svo að unnt sé að viðurkenna haldsrétt. Verður kröfum sóknaraðila því hafnað.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða málskostnað, 120.000 krónur. Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfu sóknaraðila, SKH eignarhaldsfélags ehf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Tryggingamiðstöðinni hf., 120.000 krónur í málskostnað.