Hæstiréttur íslands
Mál nr. 517/2007
Lykilorð
- Þjófnaður
- Umferðarlagabrot
- Ítrekun
- Vextir
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 6. mars 2008. |
|
Nr. 517/2007. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari) gegn Birgi Brynjarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.)
|
Þjófnaður. Umferðalagabrot. Ítrekun. Vextir. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
B var sakfelldur fyrir að hafa í fimm skipti stolið munum að andvirði samtals um 2.000.000 krónur og umferðarlagabrot. Með brotunum rauf hann reynslulausn á 380 dögum eftirstöðva óafplánaðrar fangelsisrefsingar og var sú refsing felld inn í þá refsingu sem honum var gerð í málinu. Við ákvörðun refsingar B var einkum litið til þess að B hafði ítrekað gerst sekur um þjófnaðarbrot, um var að ræða mörg brot, um talsverð verðmæti var að ræða og brotavilji hans var einbeittur. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. ágúst 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og greiðslu „skaðabóta ásamt vöxtum“ en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst sýknu af ákæru 27. október 2006 svo og af tölulið 1 í ákæru 21. nóvember 2006. Þá krefst hann þess að refsing sín verði að öðru leyti milduð. Loks krefst ákærði frávísunar á bótakröfu.
Ákærði er sakaður um þjófnaðarbrot í fimm skipti. Málavöxtum er rétt lýst í hinum áfrýjaða dómi hvað varðar ákærulið 1.1 í ákæru 21. nóvember 2006 að öðru leyti en því að samkvæmt upptöku úr öryggismyndavél telst brot ákærða framið um kl. 20.45. Ákærði hafði þá nokkrum sinnum komið inn í verslunina, fyrst um kl. 19.30. Á upptökunni sést greinilega hvar hann hleypur í burtu þegar hann er kominn út úr versluninni með tilgreindan kassa. Dómari segir réttilega að atvik þetta hafi átt sér stað 13. júlí 2006, en ekki 18. sama mánaðar eins og í ákæru greinir. Er um augljós mistök að ræða í ákæruskjali sem heimilt var að leiðrétta, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Í rökstuðningi hins áfrýjaða dóms um sönnun þess að ákærði hafi 12. ágúst 2006 stolið af lager verslunarinnar BT í Kringlunni, sbr. tölulið 1.2 í ákæru 21. nóvember 2006, er vísað til „ferils“ ákærða. Af samhengi og gögnum má ráða að hér er átt við aðferð ákærða við framningu brotsins. Hinn 12. ágúst 2006 sést ákærði á upptöku úr öryggismyndavél athafna sig á lager verslunarinnar BT í Kringlunni og ber hann sig þar að á sambærilegan hátt og sést upptöku á sama stað 11. nóvember 2006. Í síðara skiptið var hann stöðvaður þegar hann var kominn út af lagernum. Þá eru þjófnaðir af lager verslunarinnar Ormsson í Smáralind 13.-14. og 22. ágúst 2006 með sama yfirbragði. Ákærði játaði síðastgreind brot eftir handtöku 22. ágúst 2006. Hann dró játningu sína til baka fyrir dómi, en vefengdi þó ekki að hafa hjá lögreglu greint þannig frá atvikum að viðstöddum verjanda sínum. Hefur ákærði ekki gefið þær skýringar á breyttum framburði sem tekið verður tillit til við úrlausn máls. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákærði sakfelldur fyrir öll þau brot sem hann er ákærður fyrir.
Ákærði er í máli þessu fundinn sekur um að hafa í fimm skipti stolið munum að andvirði samtals um 2.000.000 krónur og umferðalagabrot. Aðeins hluti þýfisins hefur komist til skila. Hann hefur fimm sinnum áður fengið dóm fyrir þjófnaðarbrot, en þrisvar var um hegningarauka að ræða. Ákærði hefur einnig gengist undir viðurlög vegna umferðar- og fíkniefnabrota og hlotið dóm fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir að hinn áfrýjaði dómur féll var hann dæmdur til greiðslu sektar fyrir hraðakstursbrot og sviptur ökurétti í þrjá mánuði. Samtals hefur ákærði verið dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar í þrjú ár og tvo mánuði. Hinn 2. desember 2004 var honum veitt reynslulausn á 380 dögum eftirstöðva óafplánaðrar fangelsisrefsingar skilorðbundið í tvö ár. Hefur hann rofið reynslulausnina með þeim brotum sem hann er hér sakfelldur fyrir. Verður með vísan til 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, að taka hana upp og fella inn í refsingu sem honum verður nú gerð. Við ákvörðun refsingar er ennfremur litið til þess að ákærði hefur ítrekað gerst sekur um þjófnaðarbrot og varðar það þyngingu refsingar samkvæmt 255. gr. og 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Þá er um mörg brot að ræða og refsing því ákveðin samkvæmt 77. gr. sömu laga. Einnig er litið til þess að um talsverð verðmæti var að ræða og að endurtekinn þjófnaður á sama stað með svipaðri aðferð bendir til einbeitts brotavilja, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Allt leiðir þetta til refsiþyngingar. Það leiðir á hinn bóginn ekki til refsiþyngingar þó að ákærði hafi verið með „óþarfa undanbrögð“ við rannsókn og meðferð málsins eins og segir er í hinum áfrýjaða dómi, en ákærði á sér hins vegar engar málsbætur. Þegar allt framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár.
Samkvæmt ákæru krefst Ormsson ehf. „vaxta og dráttarvaxta af höfuðstól“ án þess að tilgreindur sé vaxtafótur eða þeir upphafsdagar vaxta sem miða beri við. Ekki er heldur krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. heimild í 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Vaxtakrafan er samkvæmt þessu vanreifuð og verður ekki hjá því komist að vísa henni frá héraðsdómi. Hins vegar verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um höfuðstól skaðabótakröfu Ormsson ehf.
Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Birgir Brynjarsson, skal sæta fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði Ormson ehf. 229.800 krónur, en kröfu Ormson ehf. um vexti og dráttarvexti er vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 278.373 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. júní 2007.
Mál þetta sem dómtekið var 23. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi er höfðað með tveimur ákærum útgefnum 27. október og 21. nóvember 2006 gegn Birgi Brynjarssyni, kt. 230577-5609, Stóragerði 38, Reykjavík "fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2006.
I. Þjófnaðir
1. Að hafa á tímabilinu 13. 14. ágúst 2006, stolið tveimur skjávörpum, samtals að verðmæti kr. 229.800, af lager verslunarinnar Ormsson í Smáralind við Hagasmára 1 í Kópavogi.
(036-2006-7785)
2. Að hafa þriðjudaginn 22. ágúst 2006, stolið þremur sjónvarpstækjum og tveimur bifreiðahljómflutningstækjum, samtals að verðmæti kr. 435.502, af lager verslunarinnar Ormsson í Smáralind við Hagasmára 1 í Kópavogi.
(037-2006-7838)
3. Að hafa þriðjudaginn 18. júlí í versluninni Hans Petersen, Kringlunni 8-12, stolið skjávarpa að verðmæti kr. 160.000.
(10-2006-34395)
4. Að hafa laugardaginn 12. ágúst í versluninni BT í Kringlunni 8-12, stolið 4 fartölvum, samtals að verðmæti kr. 671.952.
(10-2006-39076)
5. Að hafa laugardaginn 11. nóvember á sama stað, stolið flatskjá og 2 fartölvum, samtals að verðmæti kr. 612.964.
(10-2006-57590)
Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Vegna 2. ákæruliðarins gerir Ormsson, Smáralind ehf. kt. 441104-3670, kröfu um að ákærður verði dæmdur til að greiða félaginu bætur að fjárhæð kr. 229.860- auk vaxta og dráttarvaxta.
II. Umferðarlagabrot.
1. Að hafa sunnudaginn 13. ágúst ekið bifreiðinni UF-847 með 110 km hraða á klst. austur Vesturlandsveg, á vegarkafla við Réttarholtsveg, þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klst.
(10-2006-39579)
Telst þetta varða við 1., sbr. 2., mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."
Ákærður hefur játað öllu um meint umferðarlagabrot og verður það dæmt skv.125. gr.laga nr. 19/1991.
Ákærður hefur neitað öllu um ætluð þjófnaðarbrot sem lýst er í I. kafla hér að framan, liðir 1-5 og hefur haldið uppi vörnum um þá liði og krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins varðandi þá, en til vara er þess krafist að ákærða verði einungis gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og verði hún skilorðsbundin. Þá er þess krafist að bótakröfunni verði vísað frá dómi og sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóð, þar á meðal hæfileg málsvarnarlaun og verjandalaun skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar hrl. á rannsóknarstigi.
Með játningu ákærða sem er í samræmi við rannsóknargögn málsins er sannað að hann hefur gerst sekur um það umferðalagabrot sem honum er gefið að sök og rétt er fært til refsiákvæða í II. kafla hér að framan sbr. ákæru merkt dómskjal nr. 5.
Verður nú fjallað um þau þjófnaðarbrot sem ákærður er sakaður um.
1. Verslun Ormsson í Smáralind við Hagasmára í Kópavogi
a) Mánudaginn 21. ágúst 2006 var kært til lögreglunnar í Kópavogi að líklega á tímabilinu frá 13.14. ágúst 2006 hafi horfið af lager verslunar Bræðranna Ormsson, Smáralind, Kópavogi 2 3 skjávarpar og upplýsti A, starfsmaður verslunarinnar, að þeir væru af gerðinni Sharp x R 10 og væru hver að verðmæti kr. 114.900 á tilboði. Á þessum tíma var ólag á lagerhurðinni, þar sem ekið hafði verið á hana með lyftara, og fullnaðarviðgerð ekki farið fram og var ekki talið ólíklegt, að sá sem tekið hafi skjávarpana hafi komist þar inn, en ekkert var að sjá í öryggismyndavélum þar sem gagnagrunnur fyrir myndavélaupptökur hafi ekki virkað. Talið var að hlutaðeigandi hafi farið út um neyðarútgöngudyr á lager. Villuboð höfðu borist stjórnstöð Öryggismiðstöðvarinnar frá neyðarútgöngudyrunum 14. ágúst 2006 en þau bárust vegna þess að klippt hafði verið á snúru sem tengd var þjófavarnarkerfinu og var talið að skjávarparnir hafi verið teknir á þeim tíma. Um svipað leyti hafi frést af samskonar þjófnaði úr versluninni BT Í Kringlunni og voru taldar líkur á að sami maður gæti hafa staðið þar að verki. Teknar höfðu verið myndir af þeim manni með öryggismyndavélum verslunarinnar og voru þær taldar vera af ákærða.
Þriðjudaginn 22. ágúst s.l. var tekin skýrsla af ákærða vegna gruns um, að hann hefði staðið að þessu broti en hann hafði sama dag viðurkennt að hafa tekið plasma sjónvarpstæki af lager verslunarinnar. Hann kvaðst í bæði skiptin hafa farið eins að. Hann hafði heyrt að unnt væri að fara inn á lager verslunarinnar með auðveldum hætti, en þar inn á lagerinn væri hurð sem ekki væri tengdi þjófavarnarkerfinu, þar eð búið var að klippa á viðvörunarbúnaðinn sem tengdur var við hurðina. Hann hafði svo farið inn á lagerinn, tekið tvo kassa sem voru við hurðina og sett þá í bíl sem hann var á. Þegar hann var kominn í hæfilega fjarlægð frá versluninni hafði hann opnað kassana og séð að í þeim voru skjávarpar, sem hann hafði selt aðila, sem hann skuldaði vegna fíkniefnakaupa.
Hér fyrir dómi neitaði ákærði að hafa stolið framangreindum skjávörpum af lager verslunar Ormsson í Smáralind og kvaðst hann hafa verið tilneyddur að játa hjá lögreglu þar sem gæsluvarðhald hafi vofað yfir honum ef hann játaði ekki, en aðstæður hans hafi þá verið þannig að hætta hafi verið á að konan sem hann var með færi frá honum ef hann lenti inni, en til hafi staðið að þau færu að gifta sig. Hann hafi því skáldað framburðinn hjá lögreglu og kvað hann B rannsóknarlögreglumann, sem tók af honum skýrsluna hafa ráðið því hvernig framburður hans varð.
Vitnið B, rannsóknarlögreglumaður staðfesti að það hafi tekið skýrslu af ákærða um meint framangreint brot ákærða og ætlað brot hans sem lýst er í b lið hér á eftir. Það kvað ákærða hafa játað bæði brotin og hann ekki verið beittur neinum þrýstingi í því sambandi en verjandi hans hafi verið viðstaddur skýrslutökuna. Það taldi þó að í þágu rannsóknarinnar hafi komið til álita að ákærði sætti gæsluvarðhaldi meðan rannsókninni yrði haldið áfram, ef málið hefði ekki upplýstst með játningu ákærða. Það kvað hafi komið fram hjá ákærða að hann vissi að klippt hafði verið á snúrur sem tengdi hurðina inn á lagerinn við þjófavarnarkerfið. Starfsfólk verslunarinnar gat borið að ákærður hafði verið í versluninni rétt áður en þjófnaðarbrotin áttu sér stað og hafði það séð mynd af ákærða sem tekin var af honum á öryggismyndavél í BT Kringlunni og endurþekktu hann sem sama mann.
Vitnið C, aðstoðarverslunarstjóri verslunarinnar, kvaðst hafa verið að fara heim eftir vinnu mánudaginn 14. águst 2006 og sett öryggiskerfið á. Þá hafi komið villuboð frá hurðinni inn á lagerinn og það hringt upp í Öryggismiðstöð og látið vita og spurt hvað gæti valdið þessu og þá verið talið að villuboðin væru vegna þess að eitthvað ýtti á hurðina og hafi ekkert verið gert í því þá. Miðvikudaginn á eftir höfðu starfsmenn verslunarinnar séð að það vantaði 3 skjávarpa á lagerinn og var þá beðið um skoðun á hurðinni og kom þá í ljós að klippt hafði verið á snúru að hurðinni á lagernum, sem gengur út í portið og var þetta lagað sama dag. Starfsmenn höfðu svo leitað eftir myndum í öryggismyndavélakerfinu en sáu engar myndir um töku skjávarpanna og töldu það ekki hafa verið í sambandi eða verið bilað. Á fimmtudaginn var fenginn maður til að laga myndavélarnar og einnig var lagerhurðin löguð. Síðar heyrði það að einhver hefði verið á ferðinni úti og var greinilega með vörur frá þeim og kom þá í ljós að aftur var búið að klippa á vírinn að hurð lagersins. Það kvaðst þá hafa séð í öryggismyndavélakerfinu að akærður var að dunda sér á lagernum og að hann klippti vírinn í sundur. Sbr. b hér á eftir. Það hvað skávörpunum ekki hafa verið skilað og gaf nokkuð rétta lýsingu á ákærða.
b) Þriðjudaginn 22. ágúst 2006 kl. 18:50 barst lögreglunni í Kópavogi tilkynning um tilraun til þjófnaðar í versluninni Ormsson í Smáralind og að öryggisverðir væru með mann í haldi utan við heilsugæslustöðina að Hagasmára 3, Kópavogi. Er lögreglumenn komu á vettvang rétt á eftir voru tveir öryggisverðir með mann í handtökum og reyndist það vera ákærður. Hann tjáði lögreglumönnunum sem handtóku hann eftir að honum hafði verið lesið réttarstaða hans, að hann hefði farið inn í verslun Ormsson að framanverðu og gengið svo beint inn á lager. Þar hafi verið kassi sem í var plasmasjónvarp og setti hann hann í innkaupakerru og ýtti henni svo út af lagernum að aftanverðu. Þegan hann kom út, kom öryggisvörður á móti honum og reyndi að stoppa hann. Hann hafði þá ýtt kerrunni fast í átt að öryggisverðinum og hlaupið á brott en svo hafi komið tveir öryggisverðir á eftir honum og náð honum við heilsugæslustöðina, en hann þá alveg verið búinn. Þeir hafi hrint honum í jörðina, en hann tekist á við þá. Haft var samband við C um að af lager verslunar hafi verið tekið í greint sinn LCD sjónvarpstæki af gerðinni Sharp 37 og tvö sjónvarpstæki af gerðinni 20” Samsung LCD og einnig hafi verið tekin þrjú Pioneer bíltæki og væri samanlagt verðmæti tækjanna 475.000 krónur.
Við skýrslutöku hjá B, rannsóknarlögreglumanni sama dag, þar sem verjandi ákærða var viðstaddur, viðurkenndi ákærði að hafa farið í greint sinn inn á lager verslunar og tekið stóran kassa, sem var næst útihurð lagersins, sem hann setti á innkaupakerru og fór með út, en kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hvað var í kassanum en hann kvaðst bara hafa viljað stela einhverju til að minnka fíkniefnaskuldir sínar. Hann sagðist hafa verið búinn að frétta að hurðin að lagernum væri ekki tengd þjófavörn og því auðvelt að athafna sig inni á lagernum. Við síðari yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu, viðurkenndi hann að það hafi verið fleiri kassar sem hann hafi sett í innkaupakerruna eða nokkrir kassar, en þeir hafi verið svo léttir að hann þyrði að fullyrða að þeir hafi verið tómir.
Ákærður hefur við skýrslutöku hér fyrir dómi horfið frá því að hafa tekið úr lagernum í greint sinn kassa með sjónvarpstæki og heldur því fram að hann hafi farið út með tóma kassa af lagernum og fengið til þess leyfi hjá verslunarstjóra eða öðrum starfsmanni til að taka þá. Hann kvað hafa verið farið með kassana aftur upp á lager, eftir að hann var handtekinn, án þess að innihald þeirra væri skoðað.
Vitnið A kannaðist við að hafa séð ákærða í öryggismynda-vélakerfinu inni á lager verslunarinnar, er það skoðaði upptökurnar eftir framan-greindan þjófnað.
Vitnið D, öryggisvörður, kt. [...], hafði verið statt á 3. hæð Öryggismiðstöðvarinnar í Smáralind 22. ágúst 2006, er það fékk boð eða viðvörun um að vesturhurð á lager verslunar Bræðranna Ormsson hefði opnast, en sérstakur hreyfiskynjari hafði verið tengdur við hurðina vegna þjófnaðar af lagernum sem átti sér stað nokkrum dögum áður. Það kvaðst hafa hlaupið niður að versluninni og komið að manni í portinu utan við lagerinn með kassa í innkaupakerru. Það kvað hann hafa ýtt kerruni á það svo að það fór upp að vegg og svo hafi hann hlaupið í burt en áður hafi maðurinn sagt því að hann væri starfsmaður verslunarinnar og væri með vörur frá þeim. Það hafði svo hlaupið á eftir manninum og náð honum á bílaplaninu við heilsugæslustöðina og ætlað með hann aftur að Smáralind er einn öryggisvörður hafi komið á móti, en þá hafi maðurinn farið að berjast á móti og honum þá verið haldið niðri þangað til lögreglan kom. Vitnið lýsti ákærða og samræmdist lýsingin útliti ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa skoðað varninginn sem var í kerrunni en það hafi fundið að hún var þung er það fékk hana á sig.
Vitnið E, lögreglumaður staðfesti lögregluskýrslu sína um atvikin. Það kvað hafa komið tilkynning til þeirra um að tveir öryggisverðir í verslunarmiðstöðinni Smáralind væru með mann í haldi, sem væri æstur og í tökum. Þegar þeir komu þangað færðu þeir manninn í lögreglubifreiðina og svo niður á lögreglustöð, en hann hafði brotist um er þeir komu. Öryggisverðirnir hafi upplýst að hann hafi reynt að stela Plasmasjónvarpi. Það kvað manninn, sem það þekkti sem ákærða, ekki hafa tjáð sig um né viðurkennt brotið á vettvangi. Það kvaðst ekki hafa kannað varninginn sem ákærði var grunaður um að hafa tekið.
Vitnið F, sölumaður hjá versluninni Ormsson, kvaðst hafa verið í versluninni þegar husvörðurinn kom þar inn og sagði að það væri verið að taka Bigga fyrir þjófnað. Það hafði hlaupið niður og farið inn á lagerinn af bílaplaninu við heilsugæslustöðina. Lagerinn hafi verið opinn og þar verið rekstrarstjóri verslunarinnar og öryggisvörður og hafi þeir játað því að Biggi hafi verið tekinn. Það kvaðst hafa séð kassana sem voru á innkaupakerru frá Hagkaup og hafi það verið tvö sjónvarpstæki og tvö bíltæki og svo þriðja sjónvarpstækið sem staðið hafi upp við vegg. Tækin höfðu verið óskemmd og farið aftur í sölu.
Vitnið C aðstoðarverslunarstjóri hafði ekki verið vitni af þessum þjófnaði. Það heyrði að ákærður hafi farið út með tæki frá þeim, en það fór ekki út. Það hafði séð að búið var að opna lagerhurðina og klippa á víra. Það kvaðst hafa séð upptökur úr öryggismyndavélum eftir þetta síðara þjófnaðarbrot og hafi þar sést að ákærður var inni á lagernum að dunda sér og klippti vírinn að hurðinni og hafði það séð þetta á myndbandi. Það hafði ekki afhent lögreglu þetta myndband en gerði ráð fyrir að A hafi gert það. Það lýsti manninum sem það sá á lagernum á myndbandinu og var sú lýsing í samræmi við útlit ákærða.
Fram er komið að ákærður viðurkennir bæði framangreind þjófnaðarbrot við skýrslutöku hjá lögreglu að viðstöddum verjanda sínum og gegn vætti B, rannsóknarlögreglumanni, þykja ekki komin fram gögn sem benda til þess að ákærður hafi verið beittur óeðlilegum þrýstingi við skýrslutökur. Skýring ákærða um að hann hafi átt á hættu að samband hans við unnustu hans gæti farið út um þúfur ef hann sætti gæsluvarðhaldi er ekki sennileg og hefur ekki þýðingu í málinu. Þegar virtur er að auki framburður C sem sér ákærða í síðara skiptið þegar hún afspilar upptökur úr öryggismyndavélum verslunarinnar, að hann er inni á lager að dunda sér og klippir jafnframt á rafmagnssnúruna á útihurðinni að lagernum og svo framburður vitnisins D sem fer strax að lager verslunarinnar er það fékk boð um að vesturhurð lagersins hefði opnast og hittir þá fyrir í portinu utan við lagerinn ákærða með innkaupakerru með kössum í sem hann kvað vera vörur frá verlsuninni, þykir ekki fara milli mála og vera nægilega sannað að ákærður framdi síðara þjófnaðarbrotið, en vitnisburður D og F, staðfestir að í kerrunni voru þær vörur, sem ákærður er sakaður um að hafa tekið. Litið er á það sem fyrirslátt einan af hálfu ákærða að þetta hafi verið tómir pappakassar. Verksummerki eftir fyrra brotið, eru með sama hætti og þykir ekki varhugavert að telja næga sönnun um að ákærði hafi og staðið að því, en við síðara brotið hafði hann ekki varað sig á því, að vegna fyrra brotsins var búið að tengja aukalega hreyfiskynjana við lagerhurðina, sem gáfu boð í hvert skipti sem hún var opnuð.
Ákærður telst því sekur um að hafa framið bæði þessi þjófnaðarbrot, og hefur með því gerst brotlegur við 244. gr. almennra hegningarlaga.
2. Verslanir í Kringlunni 8-12, Reykjavík.
a. Fimmtudagskvöldið 13. júlí 2006 kl. 19:30 hafði komið inn í verslun Hans Petersen í Kringlunni maður, sem samkvæmt lýsingu G við lögreglu var á milli þrítugs og fertugs, sköllóttur með dökkan kraga og var að svipast um í versluninni. Fram kom hjá henni að maðurinn hafi farið út og komið inn nokkrum sinnum.
Um kl. 20:45 hafi hann gengið að kassa með skjávarpa, sem geymdur væri við útstillingarglugga, tekið hann og farið með út úr versluninni. Skjávarpinn hafi verið af gerðinni Epson TW-200 að verðmæti 160.000 krónur. Hún vísaði á geisladisk úr öryggiskerfi verslunarinnar, sem fylgdi kærunni en þar sjáist greinilega er maðurinn hlaupi burt með kassann, eftir að hann hafi farið í gegnum þjófavarnaðarhlið verslunarinnar.
Ákærður hefur hér fyrir dómi og hjá lögreglu neitað að hafa tekið skjávarpann í greint sinn. Hann kannaðist við að hafa verið inni í versluninni og verið að skoða muni, en engu stolið. Hann kvað það geta verið að hann hafi verið að færa til kassa með skjávarpa inni í versluninni áður en hann fór út. Kassinn sem hann hafi verið með í höndunum eftir að hann var kominn út úr versluninni hafi verið tómur pappakassi, sem hann hafi þurft á að halda vegna fyrirhugaðra flutninga og hann hafi geymt utan við verslunina og vísaði hann til myndbandsins úr öryggismyndavél verslunarinnar því til sönnunar.
G, kt. [...], [...], starfsmaður verslunarinnar bar vitni í málinu. Bar vitnið að það hafi sjálft ekki séð ákærða taka kassann með skjávarpanum og fara með út, heldur hafi framburði þess í kæruskýrslu um að það hafi séð ákærða taka kassann miðast við það, sem það hafði séð er upptökur úr öryggismyndavélakerfi verslunarinnar voru spilaðar. Það kvað engann starfsmann verslunarinnar hafa verið beint vitni að því að ákærður hafi tekið skjávarpann og þó að öryggismyndavélakerfið væri alltaf í gangi væri ekki fylgst stöðugt með því. Það kvað verðmæti skjávarpans hafa verið 160.000 krónur en hann væri nú til sölu á 90-110 þúsund krónur. Það kvað tækinu ekki hafa verið skilað.
Ljóst er að framangreindur skjávarpi var tekinn úr verslun Hans Petersen í Kringlunni um kl. 19:30 fimmtudaginn 13. júlí sl. og hefur vitnið G borið að á þessum tíma hafi maður sem samsvarar lýsingu á ákærða komið inn í verslunina og eftir að hafa fylgst með ferðum hans er upptökur voru spilaðar úr öryggismyndavélum var það þess fullvisst að maðurinn hafi tekið kassa með skjávarpa sem hafi verið í hillu við útstillingarglugga verslunarinnar. Geisladiskur með upptökum úr versluninni á umræddum tíma frá 19:30 til 20:45 var spilaðar og sýndur í réttinum og auk þess hefur dómarinn skoðað þær enn betur og fer ekki á milli mála að ákærður færir kassann úr hillunni við útstillingargluggann og nær því í hvarf við aðra hillusamstæðu, svo að aðeins sést í hornið á honum og næst sést hann með kassa sem virðist vera sami kassinn fyrir utan sýningargluggann og er þá kassinn sem aðeins sást í þar sem hann var í hvarfi við hillusamstæðuna horfinn.
Framburður ákærða um að hann hann hafi tekið tóman kassa utan við verslunina um leið og hann kom út þykir ósennilegur, er ekki studdur neinum gögnum. Örskotsstund líður frá því að það sést á myndbandi að kassinn er horfinn, þar til ákærði sést með álíka kassa utan við verslunina og verður þrátt fyrir neitun ákærða að telja að upptakan ásamt öðrum gögnum sé næg sönnun um að ákærður tók framangreindan skjávarpa og hefur hann með því gerst brotlegur við 244. gr. almennra hegningarlaga.
b. Laugardaginn 12. ágúst s.l. kl. 18:50 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um þjófnað úr versluninni BT í Kringlunni í Reykjavík og fóru tveir lögreglumenn á staðinn og hittu þar fyrir H, staðgengil verslunarstjóra, sem upplýsti þá um að uppgötvast hefði að fjórar fartölvur vantaði inni á lager verslunarinnar og léki grunur á því, að maður sem hefði komið inn í verslunina kl. 16:45 og verið að vafra um verslunina í smátíma hefði tekið fartölvurnar. H sagði að það hefði fengist staðfest með því að skoða myndavélakerfi verslunarinnar að maðurinn fari um lager verslunarinnar og taki þar fartölvurnar og fari með þær út um hurð sem snúi að Borgarleikhúsinu, sem opnanleg er innan frá. Fram kom að samanlagt verðmæti fartölvanna væri 671.952 krónur. Lögreglunni var afhent mynd af manninum þar sem hann kemur inn í verslunina og svo myndupptökur úr geisladisk og myndavélakerfi verslunarinnar, þar sem maðurinn sést taka fartölvurnar. J rannsóknarlögreglumaður, skoðaði myndina og myndbandið, en þekkti ekki manninn, en eftir eftirgrennslan var talið að þetta væri ákærði og var flett upp á mynd af honum í myndasafni lögreglunnar og fór ekki á milli mála að maðurinn á myndinni og geisladiskinum var ákærði.
Ákærður hefur hjá lögreglu og hér fyrir dómi neitað að hafa tekið fjórar fartölvur úr versluninni, en kannaðist við að hafa verið í versluninni á framangreindum tíma um kl. 16:45. Honum voru sýndar myndir úr myndavélakerfi verslunarinnar, þar sem sést að maður líkur ákærða tekur kassastæðu úr hillu á lagernum og gengur með hana út um bakdyr. Ákærður kannaðist við að hafa verið þarna inni á lagernum. Hann kvaðst hafa farið inn í verlsunina til að athuga hvort hann gæti fengið gefins tóma pappakassa, vegna þess að hann stóð í flutningum á þessum tíma. Hann sagðist hafa rætt við starfsmann verslunarinnar sem setið hafi í eftirlitsbúri við dyr að lagernum og spurt hann um pappakassa og hann vísað honum á hilluna eða rekkann, sem sjáist á myndbandsupptökunni. Hann kvaðst hafa tekið kassana og fengið leyfi til að fara með þá bakdyramegin út, því að þar væri bifreið hans. Hann lýsti manninum svo að um hafi verið að ræða karlmann á þrítugs aldri með dökkt hrokkið hár og í bol frá BT.
Ákærður hélt fast við það við skýrslutöku fyrir dómi, að hann hefði ekki tekið fjórar fartölvur af lager verslunarinnar. Hann hafi verið inni á lager og fært til kassa, en hann hafi farið tómhentur út, þó að hann hafi ætlað að ná í tóma kassa, og fengið leyfi frá manni í stjórnstöð til þess.
Vitnið I, sem var starfandi verslunarstjóri helgina 12.-14. ágúst 2006, kvaðst hafa verið við afgreiðslu frammi í versluninni í lok dags laugardaginn 12. ágúst s.l. þegar sölumaður seldi fartölvu og þeir farið á bak við eða inn á lager til að reyna að finna þessa fartölvu, sem átti að vera til samkvæmt birgðabókhaldinu. Hún hafði ekki fundist og fór þá að gruna að ekki væri allt með felldu. Það var strax gerð talning og þeir skoðuðu upptökur í myndavélakerfi verslunarinnar og kom þá í ljós að maður hafði gengið inn á lagerinn í gegnum verslunina og tekið góðan slatta af fartölvum, minnti að þær hafi verið sex og hafi maðurinn gengið með þær um bakútganginn inn á Kringlusvæðið. Hann kvað dyrnar út af lagernum oftast læstar og þurfi lykil til að komast inn um þær utan frá. Eftir að hafa skoðað myndupptökuna hringdu þeir strax í lögregluna og virtust lögreglumennirnir þekkja manninn af myndupptökunni. Um tveimur dögum síðar hafði maðurinn komið aftur í verslunina, en séð strax að starfsmennirnir þekktu hann og forðað sér út, er þeir hafi gengið til hans. Það lýsti manninum og samræmdist sú lýsing útliti ákærða. Vitnið hafði kannað verðmæti tölvanna og minnti að það hafi verið milli 500 og 600 þúsund krónur.
Vitnið K, kt. [...], [...], Reykjavík, verslunarstjóri í verslun BT í Kringlunni kvaðst hafa skoðað mikið upptökurnar í myndavélakerfi verslunarinnar, bæði um þjófnaðinn af lager hennar 12. ágúst 2006 og einnig 11. nóvember 2006. Vitnið kvaðst hafa borið kennsl á manninn sem grunaður var um seinna þjófnaðarbrotið eftir að hafa séð upptökurnar um fyrra brotið. Það kvað fyrri myndirnar hafa verið greinilegar og hafa fallið að því að um sama mann sé að ræða í bæði skiptin. Vitnið kvað tóma kassa af sýningarvörum vera geymda inni á lager, en á allt öðrum stað, en þeim sem fartölvurnar voru geymdar á.
c. Laugardaginn 11. nóvember 2006 var ákærður handtekinn á bifreiðastæði við suðaustur horn Kringlunnar í Reykjavík og var klukkan þá 18:52, en hann var grunaður um að hafa tekið stórt sjónvarpstæki úr verslun BT í Kringlunni. Fram kom hjá öryggisvörðunum L og M hjá Securitas, sem voru þarna á vettvangi, að þeir hafi verið að horfa á skjá frá öryggismyndavélum og þá séð að ákærður var fyrir framan og inni í verslun BT. Hann hafi svo farið inn á lager verslunarinnar og tekið þær vörur, sem voru í innkaupakerru, er lögregluna bar að. Engar myndavélar frá Öryggismiðstöðinni eru inni á lagernum, en öryggisverðirnir höfðu séð er ákærður kom út af lagernum bakdyramegin, að þá hafi hann verið með vörur í innkaupakerru og verið á leið burt með kassa, en þeir höfðu þá tilkynnt um atvikið til lögreglu og svo hlaupið á eftir ákærða. Hann hafði þá skilið eftir kerruna og hlaupið á brott af staðnum en hafði þá hlaupið í fangið á lögreglumönnunum sem komið hefðu að í því. Ákærður hélt því strax fram að hann hefði engu stolið úr verslun BT. Ákærða var þá gert ljóst að best væri að hann vísaði lögreglunni á ætlað þýfi, svo að koma mætti því til skila og vísaði ákærði þá lögreglunni á það við suðurenda Kringlunnar og var því þar haganlega komið fyrir undir þakskyggni við dyr á gólfi hússins. Um var að ræða tvo litla kassa sem voru í innkaupakerru og svo stóran kassa sem var við hliðina á kerrunni. Í stóra kassanum var 1 stykki Phanaconic 37" P.V. 60E Plasma, talið að verðmæti 275.988 krónur, en í hinum kössunum voru fartölvur 1 stykki Toshiba Satelite A 100.761 að verðmærti 146.988 krónur og 1 stykki FSC Amilo X 1526 að verðmæti 167.988 krónur. Fram hafði komið hjá ákærða að þetta hafi verið skyndiákvörðun að taka þessi tæki og hann vissi að hann ætti ekki að stela en hann réttlætti þetta með því að hann skuldaði húsaleigu.
Við skýrslutöku hjá lögreglu kannaðist ákærði við að hafa verið inni á lager BT og verið að taka til kassa. Hann kvaðst þó ekki hafa sett kassana, sem voru í innkaupakerrunni og stóra kassann með Phanaconic tækinu í hana, heldur hafi þessir kassar verið í kerrunni er hann tók hana. Hann kvaðst hafa farið með kerruna upp á ramp við hliðina á Borgarleikhúsinu. Ákærður hefur hér fyrir dómi vísað í játningu sína hjá lögreglu um að hafa fært innkaupakerru frá BT að Borgarleikhúsinu, en neitaði að hafa tekið vörurnar sem í kerrunni voru af lager BT.
Vitnið M, kt. [...], [...], Reykjavík, öryggisvörður í Kringlunni bar hér fyrir dómi, að það hafi framangreindan dag fylgst með ákærða sem það þekkti í sjón í öryggismyndavélum Kringlunnar. Hann þá verið þar á rölti með einhverri vinkonu sinni. Svo hafi orðið rafmagnsbilun í Kringlunni og öryggismyndavélarnar hafi dottið út í smá tíma, en þegar rafmagnið kom á aftur hafi sést að hann nálgaðist verslun BT, en tveir öryggisverðir voru og fyrir utan verslun BT og fylgdust með honum, en þá sást ekki til hans í smá tíma, en svo sást hann fara út um bakdyr BT og er þar með kerru með vörum í og ekur henni upp á ramp við bakinnganginn. Haft var samband við lögreglu, sem króaði hann af austan megin við húsið. Vitnið kvaðst hafa veitt honum eftirför og látið stjórnstöð vita af ferðum hans. Vitnið kvaðst hafa svo séð hann við Borgarleikhúsið. Hinn öryggisvörðurinn sem var við eftirlit á göngum hússins hafði séð hann þegar hann hafi komið út við bakinnganginn.
Vitnið L, kt. [...], [...] var og öryggisvörður í Kringlunni, kvaðst fyrst hafa séð ákærða kl. 16:00 þennan dag, en það þekkti hann vegna annarra mála, og fylgdist örstutt með honum án þess að hafa af honum afskipti. Um kl. 17:30 hafi rafmagnið farið af og það farið ásamt öðrum að ganga frá ýmsum búnaði, sem þurfti að sinna í slíkum tilvikum. Það hafði þá séð ákærða aftur og gerði viðvart í stjórnstöð. Það hafði svo aftur séð hann við BT, þar sem hann hverfur og litlu síðar hafi stjórnstöð tilkynnt, að hann sjáist í myndavélum vera að fara út bakdyramegin með vörur frá BT. Þá hafi strax verið hringt í lögreglu og tveir öryggisverðir farið bak við húsið til að reyna að finna hann aftur og það svo séð hann aftur á móts við Borgarleikhúsið og eins og hann bíði eftir einhverjum, en um leið og hann hafi séð það, hafi hann tekið til fótanna og hlaupið í fangið á lögreglunni. Vitnið lýsti ákærða og var lýsingin í samræmi við útlit hans.
Vitnið N, lögreglumaður, kvaðst hafa verið í lögreglubifreið nálægt Kringlunni, þegar tilkynnt hafði verið að ákærður hafi sést fara með þýfi úr Kringlunni. Það kvaðst ásamt lögreglumanninum sem var með því þegar farið á vettvang og ekið að bílastæðinu austan við Kringluna og voru þeir að svipast um eftir ákærða er þeir sáu hann koma út undan kjallaranum á neðri bílastæðinu og náðu þeir honum þar og hann verið móður og másandi og verið handtekinn. Það kvað ákærða í fyrstu ekki þóst vita um málið, en vísaði þeim svo á vörurnar sem hann var grunaður um að hafa tekið og hann hafði komið fyrir við anddyri Borgarleikhússins. Öryggisverðir höfðu svo komið og tekið varninginn. Það kvað ákærða hafa viðurkennt að hafa tekið varninginn en sagði ekki hvar, en ýjaði að því, að hann hafi tekið þetta þar sem kerrunni hafði verið lagt. Það hafði skoðað vörurnar og hafi verið um að ræða tvær fartölvur og sjónvarp í lokuðum umbúðum og verið nokkur þyngsli í þessu. Vitnið kvaðst síðar hafa skoðað myndbandsupptökurnar og hafi þar glitt í ákærða með kerruna og það borið kennsl á hann
Vitnið O, kt. [...], [...], Reykjavík, sölumaður verslunar BT Kringlunni í Reykjavík hafi verið að störfum 11. nóvember s.l. er öryggisverðir komu til þess og sögðu því að þeir væru með mann í vörslu, sem hefði stolið sjónvarpi frá versluninni. Þeir hafi fengið að skoða myndbandsupptökur úr versluninni og strax sést að maðurinn hafði komið inn á baksvæðið og þekkti vitnið ákærða frá fyrra atvikinu. Þeir höfðu svo farið út bakdyramegin til að sækja þýfið og hafði það þá séð lögreglubifreiðina við Borgarleikhúsið, þar sem þýfið var, en þar hafi verið 37" Plasma sjónvarp og tvær ferðatölvur. Þetta hafi verið þungir hlutir, en ekki tómir pappakassar og það þurft kerru undir þetta.
Vitnið K hafði skoðað upptökur úr myndavélum verslunarinnar í sambandi við fyrra og seinna þjófnaðarbrotið og hafði eins og fyrr er fram komið, séð að sami maður var að verki í báðum tilvikunum.
Vitnið P, hafði tekið skýrslu af ákærða vegna ætlaðs þjófnaðarbrots hans 11. nóvember 2006, en mundi ekki sérstaklega eftir skýrslutökunni, en staðfesti að það væri rétt, sem það hefði bókað í sambandi við hana. Það kvaðst muna eftir að hafa séð myndir úr upptökuvélum verslunarinnar, þar sem ákærði sjáist fara með vörur í innkaupakörfu.
Það er sammerkt með báðum atvikunum sem rakin eru í liðum b og c hér að framan, að í bæði skiptin sést ákærður athafna sig inni á lager verslunar BT í Kringlunni og er greinilegt af þessum upptökum að hann tekur þar þær vörur sem hann er sakaður um og í síðara skiptið er hann staðinn að verki, þar sem hann er með vörurnar, Plasma 37" sjónvarp og tvær fartölvur í og við innkaupakerru rétt hjá lager verslunarinnar.
Framburður ákærða um að hann hafi einungis verið að leita eftir tómum pappakössum á lager verslunarinnar fær enga stoð í gögnum og er reyndar ósamræmi í framburði ákærða þar og verður að líta á hann sem tilbúning, sem ákærður kemur með, eftir að upp um hann kemst í sambandi við þessi meintu brot.
Með framangreindum upptökum og vætti vitnanna og þegar litið er til ferils ákærða í heild í sambandi við brot sem hann er sakaður um, þykir fram komin næg sönnun um að hann hafi framið þau þjófnaðarbrot, sem greind eru í lið b og c hér að framan.
Sakaferill ákærða er þannig að frá árinu 2001 hefur hann hlotið 5 dóma fyrir brot á 244. gr. almennra hegningarlaga og einnig í eitt skipti fyrir brot á 1. mgr. 202. gr. sömu laga og hefur í allt verið dæmdur til að sæta fangelsi í 3 ár og 2 mánuði.
Ákærður hlaut þann 2. desember 2004 samkvæmt ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins reynslulausn á 380 dögum af eftirstöðvum refsingarinnar í 2 ár.
Brot þau sem ákærður er sakfelldur fyrir í máli þessu eru framin fyrir lok reynslulausnartímans og hefur ákærði því rofið skilorð hennar og verður með vísan til 42. gr. sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga refsing ákærða ákvörðuð í einu lagi fyrir brot þau sem nú er sakfellt fyrir og með hliðsjón af hinni óafplánuðu refsingu sem tilgreind er í reynslulausninni og hún tekin með.
Með hliðsjón af þessum sakaferli og að ákærður hefur verið með óþarfa undanbrögð í málinu, sem meta verður til þyngingar á refsingunni, sem með vísun til 77. og 255 gr. almennra hegningarlaga þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 4 mánuði.
Ekki þykja skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.
Í málinu hefur Ormsson, Smáralind ehf., gert bótakröfu að fjárhæð 229.800 krónur auk vaxta og dráttarvaxta sbr. a lið ákæru frá 27. október 2006.
Ákærður mótmælti þessari kröfu og krafðist þess að henni yrði vísað frá dómi. Telja verður að kröfu þessari sé í hóf stillt og miðast við tilboðsverð þeirra skjávarpa sem ákærði tók, sem er nokkru lægra en fullt verð og þykir mega taka hana til greina, en rétt þykir að miða upphafstíma dráttarvaxta við þingfestingu málsins 10. janúar s.l.
Dæma ber ákærða til að greiða skipuðum verjanda sínum Hilmari Ingimundarsyni hrl. málsvarnarlaun og þóknun vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi málsins, sem ákveðast í heild 233.064 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan kostnað leiddi ekki af sökinni.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Ákærður, Birgir Brynjarsson, sæti fangelsi í 2 ár og 4 mánuði.
Ákærði greiði Ormsson ehf., Smáralind, Kópavogi, 229.800 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. ágúst 2006 til 10. janúar 2007, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laganna frá þeim tíma til greiðsludags.
Ákærði greiði skipuðum verjanda sínum Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttar-lögmanni í málsvarnarlaun og í þóknun vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi 233.064 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.