Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/2000


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Vátrygging
  • Sjómaður
  • Sönnunargildi dóms
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. júní 2000.

Nr. 21/2000.

Sæbjörn Sigurðsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Hvammsfelli ehf.

og til réttargæslu

Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

(Karl Axelsson hrl.)

                                                

Skaðabætur. Örorka. Vátrygging. Sjómenn. Sönnunargildi dóms. Gjafsókn.

S, sem var í skiprúmi á skipi H, varð fyrir meiðslum á hálsi í átökum við annan skipverja meðan þeir voru að vinnu á þilfari skipsins, þar sem það var að veiðum. Talið var að orðið slys í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 horfði til þess, er skipverji yrði fyrir líkamstjóni vegna ákomu eða áhrifa utan að. Væri skilgreining á orðinu í skilmálum slysatryggingar H, er hann hafði keypt samkvæmt 2. mgr. 172. gr., fallin til leiðbeiningar um, hvað við væri átt, en lagagreinina bæri þó að skýra sjálfstætt. Ljóst væri af síðari málslið 1. mgr. 172. gr. að atburður gæti talist slys, þótt skipverji væri meðvaldur að honum eða meðábyrgur. Við það var miðað, eins og í fyrra dómi réttarins út af sömu atvikum, að S hefði stofnað til þeirra illinda, sem leiddu til átakanna, en ætti ekki einn alla sök á því hvernig fór. Hefði sú atburðarás, sem úrslitum réð, gerst af skyndingu og átökin gengið lengra og orðið afdrifaríkari en hann gat séð fyrir. Var því ekki fallist á að meiðsl S stöfuðu ekki af slysi í skilningi 1. mgr. 172. gr. laga nr. 34/1985. Hins vegar þótti S hafa vísvitandi stofnað til hættu á meiðslum í samskiptum við félaga sinn og þótti hæfilegt að örorkubætur til hans yrðu lækkaðar um helming af þessum sökum. Var H dæmt til að greiða S hálfar bætur samkvæmt b. lið 2. tl. 2. mgr. og 4. mgr. 172. gr. laga nr. 34/1985 og þótti rétt að miða við þá fjárhæð hinnar lögboðnu vátryggingar H, sem í gildi var á slysdegi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi hefur skotið málinu til Hæstaréttar með stefnu 17. janúar 2000, að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess, að stefnda verði gert að greiða sér örorkubætur að fjárhæð 331.632 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. mars 1999 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Af hálfu réttargæslustefnda eða á hendur honum eru engar dómkröfur gerðar.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit af yfirheyrslu aðila og vitna, er fram fór 25. febrúar 1997 fyrir Héraðsdómi Reykjaness í máli milli sömu aðila, er varðaði rétt áfrýjanda til launa í forföllum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en því máli lauk með dómi Hæstaréttar 12. febrúar 1998, H.1998.592.

I.

Mál þetta er risið af meiðslum, er áfrýjandi varð fyrir hinn 7. mars 1996 um borð í m/b Sandafelli HF 82, þar sem hann gegndi starfi matsveins og háseta, en skipið var þá að veiðum skammt frá Sandgerði. Hlaut áfrýjandi meiðslin í átökum við annan skipverja á þilfari skipsins, þar sem þeir voru að gera að innbyrtum afla. Fleiri úr áhöfninni voru að vinnu á þilfarinu, og gekk einn af þeim á milli þeirra félaga, en skipstjóri var í brú og sá þaðan til viðureignarinnar.

Samkvæmt framburði skipverja fyrir lögreglu og dómi virðast átökin hafa sprottið af orðaskaki milli áfrýjanda og skipsfélaga hans, sem taldi hann standa slælega að aðgerðarvinnunni. Hafi þeir einnnig kastað kola hvor að öðrum, án þess þó að fullyrt verði, hvor orðið hafi fyrri til. Framhald þessarar sennu varð á þá leið, að hinn skipverjinn stökk upp á aðgerðarborðið, sem þeir félagar stóðu við, og síðan ofan af því og að áfrýjanda, þannig að átökin urðu aðallega hans megin borðsins. Áfrýjandi rekur meiðsli sín einkum til þess, að gagnaðilinn hafi náð á sér hálstaki, en þeim sjálfum og vitnunum ber ekki saman að öllu leyti um hin nánari atvik að átökunum, sem stóðu mjög skamma stund. Sneru báðir sér aftur að aðgerðinni jafnskjótt og þau voru afstaðin.

Skipið kom að landi að kvöldi sama dags, en áfrýjandi leitaði læknishjálpar sólarhring síðar, eftir næsta róður. Samkvæmt vottorðum lækna var hann óvinnufær nokkurn tíma eftir atburðinn, og svo fór, að hann kom ekki aftur til starfa á skipinu. Er nægilega sannað, að hann hafi í átökunum hlotið hálsvöðvatognun, sem valdið hafi verkjum í hálsi og herðum og einnig í baki. Samkvæmt örorkumati dr. Atla Þórs Ólasonar læknis 20. apríl 1998 býr hann við varanlega örorku vegna þessara einkenna, og metur læknirinn hana 8%.

Stefndi var útgerðarmaður Sandafells HF 82, sem er tæplega 90 brúttórúmlesta fiskibátur, og hafði keypt svonefnda áhafnartryggingu hjá réttargæslustefnda vegna ábyrgðar sinnar á lífs- eða líkamstjóni af völdum slysa á skipverjum, sbr. 1. og 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Hljóðar krafa áfrýjanda í málinu um bætur samkvæmt b-lið 2. tl. 2. mgr. og 4. mgr. þessarar lagagreinar vegna hinnar varanlegu örorku hans. Telur hann rétta fjárhæð bótanna nema 331.632 krónum og miðar þá við umsamda fjárhæð örorkubóta samkvæmt kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem var 20% hærri en fyrrnefndar lagagreinar mæltu um, og verðlag á fyrsta ársfjórðungi 1998, þegar bótakrafa var borin upp við réttargæslustefnda og örorkumat á næsta leiti. Stefndi telur hins vegar, að miða ætti við samningsbundna bótafjárhæð á slysdegi, 293.360 krónur. Báðar fjárhæðirnar eru annars óumdeildar.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 172. gr. siglingalaga, sem rakin er í heild í héraðsdómi, ber útgerðarmaður svonefnda hlutlæga ábyrgð á lífs- eða líkamstjóni vegna slysa á mönnum, sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum og staddir eru á skipi hans eða að vinnu í beinum tengslum við rekstur þess, en lækka má fébætur eða láta niður falla, ef hinn slasaði „sýndi vítavert gáleysi sem leiddi til slyssins eða tjónsins.“ Eftir 2. mgr. sömu greinar er útgerðarmanni skylt að kaupa „tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla samkvæmt 1. mgr.“ með vátryggingarfjárhæðum, sem tilgreindar eru í ákvæðinu og taka skulu breytingum í samræmi við breytingar á tilteknum launum verkamanna, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Í 5. tl. 175. gr. laganna er svo tekið fram, að hin hlutlæga ábyrgð samkvæmt 1. mgr. takmarkist við þær fjárhæðir, sem um ræði í 2. mgr. 172. gr. Ákvæði þessi leystu af hólmi hliðstæð ákvæði í 2. mgr. 205. gr. siglingalaga nr. 66/1963 og bráðabirgðaákvæði með þeim, er síðast var breytt með lögum nr. 25/1977.

 Af hálfu stefnda er því haldið fram, að áfrýjandi hafi ekki orðið fyrir slysi í merkingu 1. mgr. 172. gr. siglingalaga. Vísar hann meðal annars til þess, að í skilmálum fyrrnefndrar áhafnartryggingar sé orðið „slys“ skilgreint á þann veg, að átt sé við „skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist sannanlega án vilja hans.“ Átökin, sem urðu áfrýjanda að meiðslum, hafi átt aðdraganda í illindum, sem hann hafi sjálfur stofnað til. Hafi hann ekki reynt að forðast það, að til handalögmála kæmi, og beitt sér í þeim eftir bestu getu. Átökin hafi því hvorki verið óvænt, utanaðkomandi né án samþykkis hans.

Orðið „slys“ í 172. gr. horfir til þess, er skipverji verður fyrir líkamstjóni vegna ákomu eða áhrifa utan að. Áðurnefnd skilgreining er í samræmi við hefðbundin viðhorf í slysatryggingum hér á landi og þannig fallin til leiðbeiningar um það, hvað við sé átt í þessari lagagrein. Hana ber þó að skýra sjálfstætt, og endanlega verður undir mati komið, hvort hugtakið slys eigi við um tiltekin atvik. Þá er og ljóst af síðari málslið 1. mgr. 172. gr., að atburður geti talist slys, þótt skipverji sé meðvaldur að honum eða meðábyrgur.

Atvikum að meiðslum áfrýjanda í þetta sinn má lýsa svo, að hann hafi orðið fyrir líkamsárás frá öðrum skipverja, sem sprottið hafi af illindum, er spunnust þeirra í milli við vinnu á þilfari fiskibátsins. Við það ber að miða, að áfrýjandi hafi stofnað til þessara illinda, svo sem gert er í fyrrnefndum dómi réttarins 12. febrúar 1998, en ekki einn átt á því alla sök, hvernig fór. Sú atburðarás, sem úrslitum réði, gerðist af skyndingu, og má ætla eftir gögnum málsins, að átökin hafi gengið lengra og orðið afdrifaríkari en áfrýjandi gat séð fyrir. Að þessu athuguðu verður að hafna því sjónarmiði stefnda, að meiðsl áfrýjanda verði ekki talin stafa af slysi í skilningi 1. mgr. 172. gr. siglingalaga.

Í samræmi við síðari lið málsgreinarinnar þarf hins vegar að taka afstöðu til þess, hvort rétt sé að lækka bætur til áfrýjanda eða fella þær niður sakir þess, að hann hafi orðið valdur að tjóni sínu af vítaverðu gáleysi. Telja verður, að hann hafi vísvitandi stofnað til hættu á meiðslum í samskiptunum við félaga sinn, en eigi hins vegar ekki einn alla sök á því, hvernig fór, svo sem fyrr getur. Þykir hæfilegt að þessu virtu, að örorkubætur til hans verði lækkaðar um helming, þannig að stefndi greiði honum bætur að hálfu. Þykir rétt að miða við þá fjárhæð hinnar lögboðnu vátryggingar, sem í gildi var á slysdegi.

 Samkvæmt þessu verður stefnda gert að greiða áfrýjanda 146.680 krónur, með dráttarvöxtum frá birtingu stefnu í héraði, eins og krafist er hér fyrir dómi.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem um er mælt í dómsorði, og renni hann í ríkissjóð. Er þá með talinn útlagður kostnaður samkvæmt ákvörðun héraðsdómara, 84.178 krónur.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda á báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, samkvæmt ákvörðun í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Hvammsfell ehf., greiði áfrýjanda, Sæbirni Sigurðssyni, 146.680 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. mars 1999 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 384.178 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, og renni þær í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, samtals 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. september 1999.

I.

Mál þetta sem dómtekið var hinn 16. september 1999 hefur Sæbjörn Sigurðsson, kt. 250356-5799, Asparfelli 12, Reykjavík, höfðað fyrir dómi með stefnu birtri 8. mars 1999 á hendur Hvammsfelli ehf., kt. 560283-0409, Eyrartröð 2, Hafnarfirði, og til réttargæslu gegn Samábyrgð Íslands og fiskiskipum, kt. 540269-0179, Lágmúla 9, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum kr. 331.632,00 auk vanskilavaxta p.a. frá 20. maí 1998 til greiðsludags, skv. 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga, þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en dómsmálaráðuneytið veitti stefnanda gjafsókn í málinu hinn 28. maí 1999.

Af hálfu stefnda Hvammsfell ehf. er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu.

Stefndi Hvammsfell ehf. tryggir sjómenn sína hjá réttargæslustefnda. Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Af hálfu réttargæslustefnda eru engar sjálfstæðar dómkröfur gerðar, enda  engar  sjálfstæðar dómkröfur gerðar á hendur félaginu.

Málavextir eru þeir að stefnandi var starfsmaður stefnda Hvammsfells ehf., skipverji á Sandfelli HF-82, skipaskrárnúmer 1812. Hinn 7. mars 1996 er var skipið á sandkolaveiðum og skipverjar um borð í aðgerð, urðu ryskingar milli stefnanda og skipverja á skipinu. Stefnandi mætti til skips morguninn eftir og kvaðst ekki geta unnið vegna eymsla í hálsi. Stefnandi mætti ekki frekar til skips og var sagt upp störfum hinn 15. sama mánaðar.

Stefnandi kærði líkamsárás til lögreglu sem tók skýrslur af skipverjum. Rannsóknin leiddi ekki til ákæru.

Með örorkumati dags. 20. apríl 1998 mat Atli Þór Ólason dr. med. varanlega örorku stefnanda af völdum hálstognunar og vægra en útbeiddra einkenna niður eftir baki 8 %.

Í máli þessu byggir stefnandi á því að hann hafi við störf sín um borð orðið fyrir áverka hálsi sem valdið hafi honum varanlegri örorku og krefst slysatryggingabóta úr hendi stefnda á grundvelli 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og kjarasamnings milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna, en þar er svo um samið að örorkubætur séu 20% hærri en lög nr. 34/1985 kveða á um.

Fyrsta málsgrein 172. greinar siglingalaga nr. 34/1985 hljóðar svo:

"Útgerðarmaður ber ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum er hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur skips enda þótt slysið eða tjónið verði hvorki rakið til bilunar á tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né heldur yfirsjónar þeirra er starfa í þágu skips. Lækka má fébætur eða láta þær niður falla ef sá, sem fyrir slysi eða tjóni varð, sýndi vítavert gáleysi sem leiddi til slyssins eða tjónsins."

Stefnandi telur að þær aðstæður, er undanskilið geta útgerðarmenn frá ábyrgð samkvæmt 172. gr. laga nr. 34/1985, hafi ekki verið fyrir hendi. Haldi stefndi því fram, að um hafi verið að ræða þær aðstæður er undanþegið geti hann frá ábyrgð, sé það hans að sanna slíkar staðhæfingar. Þá telur stefnandi að ákvæði 2. mgr. 172. gr., þar sem lögð er sú skylda á útgerðarmann að kaupa vátryggingu fyrir slysabótum, leiði til þess að túlka beri hugtakið vítavert gáleysi út frá sjónarmiðum vátryggingaréttar. Það þurfi miklu meira til að koma til að gáleysi verði talið vítavert á sviði vátryggingaréttar en á sviði skaðabótaréttar og vitnar þar um til Preben Lyngsö, Dansk Forsikringsret, 7. udg. bls. 225. Loks telur stefnandi að Hæstiréttur hafi þegar, í dómi sínum frá 12. febrúar 1998, milli sömu aðila sem síðar verður að vikið, hafnað þeirri málsástæðu að stefnandi hafi ekki í umrætt sinn sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í merkingu 4. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/ 1985.  Síðast greindri málsástæðu mótmælir stefndi sérstaklega og bendir á orðalagið "...sjálfur bakað sér af ásetningi eða stórfelldu gáleysi" í tilvitnuðu ákvæði.

Fjárhæð dómkröfu skýrir stefnandi svo, að samkvæmt framlagðri tilkynningu Íslenskrar endurtryggingar hf. dags. 17. desember 1997 til aðildarfélaga að samsteypu um slysatryggingu sjómanna, sem fram er lagður í málinu, skuli í janúar - mars 1998 greiðast kr. 41.454,00 fyrir hvert örorkustig frá 1% til 25%. Stefnandi sé metinn með 8% varanlega örorku og slysatryggingafjárhæðin því kr. 331.632,00 (8x41.454,00).

Upphafsdag dráttarvaxta miðar stefnandi við 20. maí 1998, en örorkumat er dagsett mánuði fyrr. Stefndi geti ekki borið það fyrir sig að hann hann hafi ekki fengið sérstakt kröfubréf er örorkumatið lá fyrir, þar sem hann hafi áður hafnað bótaskyldu með bréfi dags. 3. apríl 1998.

Við munnlegan málflutning orðaði lögmaður stefnanda þá varakröfu, án þess þó að krefjast bókunar þar um, að komist dómurinn að þeirrri niðurstöðu að dæma beri bætur á verðlagi slysadags, kr. 36.670 fyrir hvert örorkustig, þá er krafist almennra vaxta skv. III. kafla vaxtalaga af  kr. 293.360 frá tjónsatburði 7. mars 1996 til 20. maí 1998, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Slík varakrafa rúmist innan stefnufjárhæðar og sé því heimil án framhaldsstefnu.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að átökin sem leiddu til áverkans teljist ekki slys í skilningi tilvitnaðs ákvæðs siglingalaga nr. 34/1985 og kjarasamnings SSÍ og LÍÚ. Umrædd átök geti hvorki talist skyndileg, utanaðkomandi, óvænt né án samþykkis stefnanda. Þau hafi orðið í áflogum sem stefnandi hafi stofnað til við skipsfélaga sinn. Líkamstjón stefnanda verði því ekki rakið til slyss, en slíkt er fortakslaust skilyrði þess að bótaskylda úr slysatryggingu stofnist.

Síðastgreindri fullyrðingu stefnda mótmælir stefnandi séstaklega og bendir á orðalagið í niðurlagi ákvæðisins: "...sem fyrir slysi eða tjóni varð ... leiddi til slyssins eða tjónsins."

Fallist dómurinn ekki á framangreint, byggir stefndi sýknukröfu sína í öðru lagi á því, að tjón stefnanda verði rakið til vítaverðs gáleysis hans sjálfs. Upphaf átakanna hafi verið það að stefnandi hafi farið niðrandi orðum um skipsfélaga sinn og hent fiski í andlit hans. Stefnandi hafi sýnilega látið sig engu varða afleiðingar hugsanlegra átaka. Honum hafi enga nauðsyn borið til að munnhöggvast við skipsfélagann eða kasta fiski að honum. Stefnanda geti ekki hafa dulist að slík tilefnislaus áreitni væri til þess fallin að leiða til átaka sem gætu haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir hann. Þannig megi ljóst vera að virða beri háttsemi stefnanda honum til vítaverðs gáleysis sem firri hann rétti til bóta, sbr. tilvitnað ákvæði siglingalaga nr. 34/1985 og kjarasamnings SSÍ og LÍÚ.

Stefndi leggur sérstaka áherslu á, og vísar þar um til til Preben Lyngsö, Dansk Forsikringsret, 7. udg. sem segir á bls. 816, að samkvæmt almennum reglum vátryggingaréttarins taki slysatrygging ekki til tjóns sem hlýst af þáttöku vátryggðs í slagsmálum. Ef maður hafi átt upptök að ryskingum, með orðum eða athöfnum, og þar með gefið tilefni til að verða sleginn, verði hann, jafnvel þótt hann hafi ekki sjálfur greitt högg, almennt talinn hafa tekið þátt í slagsmálum í skilningi vátryggingaréttar og njóti þá ekki vátryggingar. Þessu mótmælir stefnandi sérstaklega og vísar til hæstaréttarmálsins nr. 335/1997 þar sem ekki var dæmd sakarskipting. Um áhættutöku vísar stefndi einnig til Hrd. 1988:1401, 1995:648 og 1996:4161 og um vítavert gáleysi til Hrd. 1982:1259 og 1996:445.

 Komist dómurinn að þeirrri niðurstöðu að skyldan til greiðslu bóta úr slysatryggingunni sé fyrir hendi, er dómkröfu stefnanda mótmælt sem of hárri. Dómkrafan sé miðuð við bótafjárhæðir slysatryggingar sjómanna sem voru í gildi í janúar til mars 1998, þ.e. tveimur árum eftir að tjónsatvik átti sér stað. Þetta fái ekki staðist, enda beri að miða ákvörðun bótafjárhæðar við þær fjárhæðir sem eru í gildi þegar tjónsatvik á sér stað. Um réttar bótafjárhæðir vísar stefndi til framlagðrar tilkynningar Íslenskrar endurtryggingar hf. dags. 2. janúar 1996 til aðildarfélaga að samsteypu um slysatryggingar sjómanna um bótafjárhæðir í slysatryggingu sjómanna í janúar og mars 1996,  en þar kemur fram að örorkubætur teljist kr. 36.670 fyrir hvert örorkustig á bilinu 1-25%. Samkvæmt því telur stefndi að stefnukrafa ætti aldrei að vera hærri en um greiðslu á kr. 293.360 í stað kr. 331.632.

Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt. Í fyrsta lagi er vísað til þess að kröfubréf stefnanda frá 25. mars 1998 hafi aðeins lotið að viðurkenningu á bótaskyldu en ekki greiðslu tiltekinnar fjárkröfu, enda hafi örorkumat þá ekki legið fyrir. Örorkumatið frá  20. apríl 1998 hafi ekki kynnt stefndu fyrr en við málsókn þessa. Með hliðsjón af þessu geti krafa um dráttarvexti ekki byggst á 9. gr., sbr. 15. gr vaxtalaga, sbr. lög. nr. 67/1989. Því geti stefnandi ekki miðað dráttarvaxtakröfu sína við annan dag en stefnubirtingardag, þ.e. 8. mars 1999. Þar fyrir utan hafi stefnandi sýnt af sér skeytingarleysi um rétt sinn því hann hafi ekki ekki hafist handa um málsóknina fyrr en einu ári eftir að öll gögn lágu fyrir. Stefndi beri fráleitt að greiða dráttarvexti þann tíma sem á aðgerðarleysi stefnanda stóð, sbr. 9. og 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr.lög nr. 67/1989.

Sem fyrr er að vikið tilkynnti stefnandi veikindi daginn eftir umræddan atburð og var sagt upp störfum síðar í sama mánuði. Ágreiningur varð um það hvort stefnandi ætti rétt á veikindalaunum samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómanna laga. Þeim ágreiningi var ráðið til lykta með dómi Hæstaréttar hinn 12. febrúar 1998 í hæstaréttarmálinu nr. 177/1997, þar sem staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að stefnanda bæru full veikindalaun. Í forsendum dóms Hæstaréttar segir m. a.:

"Vitni að fyrrnefndum áflogum staðfesta, að skipverji hafi tekið gagnáfrýjanda hálstaki. Að öllu framangreindu virtu telst nægilega sannað að einkenni í hálsi gagnáfrýjanda verði rakin til áfloganna og að hann hafi af þeim sökum orðið óvinnufær...

Af lýsingu vitna er ljóst að gagnáfrýjandi stofnaði til illinda við skipsfélaga sinn á meðan þeir stóðu í aðgerð á þilfari. Vitnum ber hins vegar ekki saman um hvor þeirra kastaði fyrst fiski að hinum eða um athafnir þeirra í kjölfarið, áður en þeir tókust á. Verður ekki slegið föstu að gagnáfrýjandi hafi einn átt alla sök á því hvernig fór."

 

Niðurstöður.

 

Stefndi keypti lögboðna slysatryggingu sjómanna hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, og fullnægði þar með lagaskyldu sinni samkvæmt 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Vátryggingarfélagið, réttargæslustefndi í máli þessu, synjar stefnanda um greiðslu bóta á þeirri forsendu annars vegar að útgerðarmaður beri ekki ábyrgð á meiðslum sem skipverjar kunna að verða fyrir í slagsmálum  um borð og hins vegar á þeirri forsendu að tjón stefnanda verði rakið til vítaverðs gáleysis hans sjálfs, sem leiði til lækkunar eða niðurfalls bótagreiðslna samkvæmt 2 ml. 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Á það verður fallist með stefnda að átökin sem leiddu til örorku stefnanda teljast ekki til slyss sem skapi bótaskyldu úr slysatryggingu samkvæmt  vátryggingarlögum.

Engu að síður varð stefnandi fyrir tjóni og á stefnda hvílir hlutlæg bótaábyrgð samkvæmt 1. ml. 1. mgr 172. gr. siglingalaga. Kemur hér til skoðunar hvort háttsemi stefnanda hafi verið með þeim hætti að lækka beri eða jafnvel fella niður bætur samkvæmt  2. ml. 1. mgr 172. siglingalaga.

Dómurinn lítur svo á, að með því að hafa tekið þátt í slagsmálum við skipsfélaga sinn hafi stefnandi sýnt vítavert gáleysi, sem leiði til lækkunar eða jafnvel niðurfellingar bótagreiðslna.  Því hefur ekki verið haldið fram af hálfu stefnanda að verkstjórn hafi verið áfátt um borð. Kemur því ekki til álita að skipta sök

Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið er  bótaréttur stefnanda úr hendi stefnda á grundvelli 1. mgr. 172. gr. siglingalaga er að öllu leyti niðurfallinn með vísan til 2. ml. 1. mgr. 172. gr. siglingalaga.

Niðurstaðan er því sú, að stefndi skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn kr. 105.000, og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, en stefnanda var veitt gjafsókn í málinu með bréfi dóms-og kirkjumálaráðuneytis, dagsett 28. maí 1999. Hann telst hæfilega ákveðinn kr. 190.000, þar af útlagður kostnaður kr. 84.178,. Hefur þá ekki verið tekið tillits til virðisaukaskatts.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefndi, Hvammsfell ehf, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sæbjörns Sigurðssonar, í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda málskostnað, krónur 105.000,-. Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði krónur 190.000,-.