Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2009


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð


                                                        

Fimmtudaginn 27. maí 2010.

Nr. 420/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Agli Jónssyni

(Jón Egilsson hdl.)

Líkamsárás. Skilorð.

A var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið M í höfuðið með glerglasi með þeim afleiðingum að hann hlaut meðal annars skurð á slagæð. Með vísan í framburð vitna í málinu var talið sannað, þrátt fyrir neitun  A, að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greindi og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. A var dæmdur í 6 mánaða fangelsi, en með vísan til þess að dregist hafði um eitt ár að gefa út ákæru í málinu, þess að hann hafði ekki gerst brotlegur um verknað sem áhrif hefði á ákvörðun refsingar og einkum í ljósi ungs aldur hans, var fullnustu refsingarinnar frestað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð og skilorðsbundin að öllu leyti.  

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, refsitíma og sakarkostnað í héraði.

Rannsókn málsins fór strax fram og voru allar skýrslur lögreglu teknar á fyrstu dögum janúarmánaðar 2008 og beðið um áverkavottorð. Það er dagsett 20. febrúar sama ár. Engin skýring hefur komið fram á því hvers vegna ákæra var þrátt fyrir þetta ekki gefin út fyrr en ári síðar eða 8. janúar 2009. Ákærði, sem var 19 ára gamall þegar brotið var framið, hefur ekki gerst brotlegur um verknað sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar. Í ljósi alls þessa, og sérstaklega með vísan til ungs aldurs ákærða, þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Egill Jónsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 287.539 krónur, þar með talin  málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 251.000 krónur.

DómurHéraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 8. janúar 2009 á hendur Agli Jónssyni, kt. 150688-2809, Logafold 33, Reykjavík, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt þriðju­dagsins 1. janúar 2008, fyrir utan Thorvaldsen bar, Austurstræti 8, Reykjavík, slegið A í höfuðið með glerglasi, með þeim afleiðingum að hann hlaut 2 cm L-laga skurð framan við vinstra eyra og alvarlega slagæðablæðingu auk minni skurðar á vinstra eyra.

Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá aðfaranótt þriðjudagsins 1. janúar 2008, sem miðar við tilkynningu til lögreglu kl. 04.59, var á þeim tíma óskað eftir aðstoð lögreglu að skemmtistaðnum Thorvaldsen bar við Austurvöll í Reykjavík vegna líkamsárásar á dyravörð. Í frumskýrslu kemur fram að lögreglumenn hafi þegar farið á vettvang. Fram kemur að er lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi dyraverðir staðarins verið í átökum við tvo menn. Hafi mennirnir verið yfirbugaðir. Hafi þeir verið settir í handjárn en þeir hafi báðir verið mjög æstir og ölvaðir. Handtökutími er skráður kl. 05.17. Mennir tveir, Egill Jónsson ákærði í máli þessu, og B hafi strax verið settir inn í lögreglubifreið. Er mennirnir hafi verið færðir inn í bifreiðina hafi dyravörður komið að lögreglumönnum og óskað eftir því að sjúkrabifreið yrði kölluð til enda væri einn dyravarðanna sár eftir B. Er tekið fram að dyravörðurinn hafi bætt því við að ákærði hafi ekkert komið að árásinni en reynt að frelsa B úr tökum dyravarða. Af þeim ástæðum hafi hann einnig verið tekinn. Fram kemur að ekki hafi gefist tími til að ræða frekar við dyravörðinn þar sem þurft hafi að færa ákærða og B á lögreglustöð í flýti þar sem þeir hafi verið æstir og órólegir. Hafi lögreglumenn kallað til lögreglumanna sem staðsettir hafi verið á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss og óskað eftir því að þeir myndu afla upplýsinga um dyravörðinn og atvik málsins þegar dyravörðurinn kæmi á slysadeild. Hafi lögreglumenn á slysadeild ætlað að láta þá lögreglumenn er rituðu frumskýrslu málsins vita um þessi atriði. Hafi ákærði og B verið fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Þeir hafi báðir verið orðnir rólegir er þangað kom. Hafi verið ákveðið að ákærða yrði sleppt þar sem dyraverðir hafi ekki verið með neinar kröfur gagnvart honum. Ákveðið hafi verið að B skyldi vistaður í fangageymslu þar sem hann hafi ráðist á dyravörðinn og enn hafi átt eftir að fá upplýsingar frá slysadeild um líðan dyravarðarins.   

Í frumskýrslu kemur fram að þegar líða hafi tekið á nóttina hafi lögreglumenn farið að lengja eftir upplýsingum frá lögreglumönnum á slysadeild, en þá hafi legið fyrir staðfestar upplýsingar um að maður hafi verið fluttur slasaður vegna líkamsárásar frá Thorvaldsen bar á slysadeild. Hafi verið haft samband við lögreglumann á slysa­deild sem eftir upplýsingum frá deildinni hafi staðfest að enginn dyravörður hafi komið á slysadeild. Hins vegar hafi verið komið með danskan hermann í sjúkrabifreið en hann hafi verið skorinn illa á höfði í nágrenni við Thorvaldsen bar. Í ljósi þessara upplýsinga hafi lögreglumenn farið aftur að Thorvaldsen bar til að ræða málið nánar við dyraverði. Þá hafi verið búið að loka skemmtistaðnum og engan þar að sjá. Þess í stað hafi verið rætt við dyravörð á skemmtistaðnum Nasa við Austurvöll. Hafi við­komandi dyravörður tjáð lögreglu að hann hafi ekkert komið að málinu en hann hafi heyrt frá dyravörðum af Thorvaldsen bar, eftir að lögregla hafi verið farin á brott, að ákærði hafi kastað glasi í höfuð danska hermannsins með þeim afleiðingum að her­maðurinn hafi skorist illa á höfði. Hafi dyraverðir þá tekið ákærða og B reynt að frelsa hann. Í ljósi þess að um mikinn misskilning var að ræða hafi upplýsingar verið sendar til varðstjóra á lögreglustöð. Um hæl hafi borist þær upplýsingar að ákærði væri staddur í afgreiðslu lögreglustöðvarinnar og væri að kasta af sér vatni innandyra. Kemur fram að ákærði hafi þá verið handtekinn og færður í fangaklefa. Handtökutími ákærða var þá skráður kl. 07.05.

C lögreglumaður hefur ritað lögregluskýrslu vegna málsins en í skýrslunni kemur fram að C hafi verið á vakt á bráða- og  slysamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss þegar komið hafi verið með danskan sjóliða að nafni A á deildina en A hafi orðið fyrir líkams­árás. Ekki hafi verið hægt að ræða við A við komu á deildina þar sem læknar hafi þurft að gera að sárum hans. Eftir að það hafi verið búið hafi C fengið þær upplýsingar frá lækni að A hafi verið skorinn á höfði fyrir framan vinstra eyra en slagæð hafi skorist í sundur. Hafi A misst mikið blóð af völdum áverka sinna. Hafi C rætt lítillega við A eftir aðgerð en hann hafi verið mjög vankaður af völdum blóðmissis. Hafi A tjáð lögreglumanninum að hann hafi verið fyrir utan skemmtistaðinn Thorvaldsen bar að fá sér að reykja. Ekki hafi hann verið að ræða við neinn. Skyndilega hafi glasi verið kastað í höfuð A.

Á meðal rannsóknargagna málsins er læknisvottorð er Jón Örvar Kristinsson sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur ritað 20. febrúar 2008 vegna komu A á deildina aðfaranótt þriðjudagsins 1. janúar 2008. Í vottorðinu er m.a. tekið fram að við komu hafi A verið dálítið fölur. Rétt framan við vinstra eyra hafi verið L-laga skurður um 2 cm að heildarlengd og þar greinilega ,,púlserandi arteriu-blæðing.“ Hafi mikið blóð verið í umbúðum. Sömuleiðis hafi verið skurður á eyranu sjálfu sem blætt hafi nokkuð úr. Hafi greinilega verið um að ræða ,,arteriu-blæðingu“ sem blætt hafi verulega úr. Deildarlæknir á skurð­deild hafi saumað sárið með 5 sporum. Skurði á eyra hafi verið lokað með 2 sporum. Í niðurlagi vottorðsins er tekið fram að um alvarlega slagæðablæðingu hafi verið að ræða. 

Fimmtudaginn 3. janúar 2008 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Lýsti hann atvikum á þann veg að hann hafi umrætt sinn staðið fyrir utan skemmtistaðinn Thorvaldsen bar og verið þar að reykja. Hafi A séð mann koma út með tvö glös í höndum. Hafi A tekið eftir því skömmu áður að sami maður hafi reynt að fara út af staðnum með tvö glös en dyraverðir stöðvað för hans. Maðurinn hafi gengið beint upp að A og án þess að segja nokkuð hafi hann slegið A með öðru glasinu og höggið komið í andlit A. Hafi A ekki áttað sig á hvað væri að gerast og haldið utan um andlit sitt. Örskömmu síðar hafi hann séð fullt af fólki sem legið hafi ofan á manninum sem slegið hafi A. Einhverjir hafi komið til A og beðið hann um að bíða inni í eldhúsi á skemmtistaðnum þar til sjúkrabifreið kæmi á vettvang. Hafi síðan verið farið með A í sjúkrabifreið á slysadeild. Hafi blætt mikið úr sárinu og A heyrt á slysadeild að hann hafi misst um lítra af blóði. A kvað atburði hafa gerst það hratt að hann treysti sér ekki til að lýsa árásarmanninum. Skipsfélagar A hafi verið inni á staðnum þegar atvikið hafi átt sér stað.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu eftir vist í fangageymslu. Eftir að hafa verið kynnt að hann væri undir grun um að hafa hent glasi í andlit A kvað ákærði að um misskilning væri að ræða. Kvaðst ákærði hafa verið fyrir utan skemmti­staðinn Nasa ásamt félaga sínum B þegar hann hafi skyndilega verið tekinn af dyraverði og settur í tök. Skömmu síðar hafi lögregla komið að og ákærði verið handtekinn. Hafi dyraverðirnir enga skýringu gefið á því af hverju ákærði hafi verið tekinn. Kvaðst ákærði ekki hafa komið nærri árás á danskan sjóliða. Kvaðst ákærði hafa verið talsvert ölvaður þessa nótt. Hann hafi hins vegar verið alveg meðvitaður um gjörðir sínar.

Við aðalmeðferð málsins greindi ákærði þannig frá atvikum að umrætt gamlárskvöld hafi ákærði verið heima hjá sér til kl. 01.00 eftir miðnættið. Þá hafi ákærði farið í samkvæmi hjá vini sínum þar sem gamlir skólafélagar hafi hist. Hafi allur hópurinn síðan farið á skemmtistaðinn Nasa og verið kominn þangað á milli kl. 2 og 3 um nóttina. Ákærði hafi skemmt sér þar inni um nóttina. Kvaðst ákærði hafa stíað í sundur átökum inni á staðnum og dyraverðir komið að. Hafi þeir talið að ákærði ætti í útistöðum við einhvern og haldið ákærða í tökum. Ákærða hafi verið sleppt og hann ákveðið að fara út að reykja í framhaldinu. Er ákærði hafi verið kominn út hafi dyraverðir af skemmtistaðnum Nasa komið að ákærða og þeir hent honum í jörðina. Hafi það verið beint fyrir framan Nasa. Hafi þeir tjáð honum að verið væri að taka hann vegna slagsmálanna inni á Nasa. Eftir að dyraverðir hafi verið komnir með ákærða í tök hafi félagi hans B komið þar að eftir að ákærði hafi sagt stúlku sem hafi verið nærri að hafa samband við B og láta hann vita af málinu. Skömmu síðar hafi lögregla komið á staðinn og flutt ákærða og B á lögreglustöð. Á lögreglustöð hafi ákærða verið sleppt en B haldið áfram þar sem hann hafi verið grunaður um árás á dyravörð. Hafi ákærði verið handtekinn aftur vegna háttsemi í anddyri lögreglu­stöðvarinnar. Hafi honum verið sleppt næsta dag. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þessa nótt en muna atvik engu að síður. Ákærði kvaðst ekki hafa farið á skemmtistaðinn Thorvaldsen bar þessa nótt. Kvaðst ákærði alfarið saklaus af þeim verknaði er hann væri ákærður fyrir.

Við aðalmeðferð málsins greindi A þannig frá atvikum málsins að hann hafi verið að skemmta sér í bænum þessa nótt ásamt félögum sínum af dönsku varðskipi. Er komið hafi verið undir lokun hafi hann farið einn út að reykja. Þar sem hann hafi staðið fyrir utan skemmtistaðinn Thorvaldsen bar Austurvallarmegin hafi hann séð mann koma og ganga á móti sér. Viðkomandi hafi verið með eitt eða tvö glös í hendi. Skyndilega hafi A fengið glas í höfuðið frá manninum. Myndi hann lítið eftir atvikum eftir það en myndi þó eftir að hafa séð árásarmanninn tekinn af fólki á staðnum. Hafi A verið beint aftur inn á staðinn á meðan beðið hafi verið eftir sjúkrabifreið til að flytja hann á slysadeild. A kvaðst ekki hafa átt í deilum við neinn á staðnum þessa nótt og ekki árásarmanninn. A kvaðst muna eftir því að dyraverðir af Thorvaldsen bar hafi fyrr um nóttina meinað árásarmanninum að fara út af staðnum með glös í hendi. Er A hafi verið úti hafi engir dyraverðir verið til að stöðva manninn. Ekki kvaðst A vita hvað klukkan hafi verið er atburðurinn hafi átt sér stað. Að því er áverka varðar hafi A fengið högg á vinstra eyra og hafi æð skorist í sundur. Mikið hafi blætt og hafi A svimað mikið. Hafi hann ekki verið alveg með sjálfum sér á eftir. Útilokað væri að einhver hafi kastað glasi í stein við hlið A og glerbrot hafi farið í höfuð hans. Hafi hann greinilega séð viðkomandi mann ganga að sér og lemja sig með glasinu. Ekki kvaðst A muna eftir því að hafa sagt lögreglumanni á slysadeild að einhver hafi kastað glasi í höfuð sitt. A kvaðst enn finna til sláttar í örinu við ákveðnar aðstæður. Hafi hann látið lækni líta á sárið. Hafi læknirinn ekki getað sagt hvort líkur væru á að slátturinn myndi hverfa með tíma. Púlsinn í sárinu væri pirrandi. Kvaðst A blikka vinstra auga meira eftir atvikið.  

Tekin var skýrsla af B eftir dvöl í fangageymslu. Kvaðst B hafa verið inni á skemmtistaðnum Nasa og frétt frá D vinkonu sinni að ákærða væri haldið af dyravörðum fyrir utan staðinn mitt á milli Nasa og Thorvaldsen bar. Hafi B ætlað að kanna málið og spurt hvað væri um að vera. Hafi B jafnframt ýtt við einum dyravarðanna. Hafi þeir þá ráðist á B og tekið hann tökum. Skömmu síðar hafi lögregla komið að og handtekið B og ákærða. Kvaðst B ekkert vita hvað hafi gerst þar á undan. Hafi D ekki nefnt neina ástæðu fyrir því að ákærða væri haldið af dyravörðum. Við aðalmeðferð málsins greindi B frá atvikum með sambærilegum hætti. Hafi hann verið að skemmta sér ásamt ákærða og öðrum vinum sínum inni á Nasa þessa nótt. Hafi B á einhverjum tíma misst af ákærða og frétt skömmu síðar að hann hafi lent í einhverjum stympingum. Hafi B farið út að reykja er sími hans hafi hringt. Hafi vinkona hans D tjáð honum að dyraverðir væru með ákærða í tökum fyrir utan. Þá hafi klukkan verið um 4 um nóttina. B kvaðst sjálfur ekki hafa séð þær stympingar sem ákærði hafi lent í inni á Nasa. B kvaðst telja að talsverður tími hafi liðið frá því lögreglumenn hafi handtekið ákærða og B og flutt þá inn í lögreglubifreiðina þar til farið hafi verið á lögreglustöð. Gæti hafa liðið um klukkustund frá handtöku þar til komið hafi verið með þá á stöðina. Kvaðst B viss um að klukkan hafi verið 04.00 er ákærði hafi verið tekinn því B hafi litið á síma sinn þegar hann hafi hringt og þá hafi klukka á símanum sýnt tímann.

E  kvaðst hafa starfað sem dyravörður á skemmtistaðnum Thorvaldsen bar aðfaranótt 1. janúar 2008. Hafi dyraverðir staðarins verið fyrir utan staðinn að ganga frá en búið hafi verið að loka staðnum. Hafi E veitt athygli manni sem staðið hafi rétt fyrir utan dyr Thorvaldsen bar og verið að reykja. Um hafi verið að ræða danskan sjóliða. Hafi E síðan séð mann strunsa út af Thorvaldsen bar með stórt bjórglas í hendi. Án fyrirvara hafi hann lamið glasinu af fullum krafti í andlit sjó­liðans þar sem sjóliðinn hafi staðið og verið að reykja. Glasið hafi mölbrotnað. Tekið hafi nokkrar sekúndur fyrir dyraverðina að átta sig á hvað hafi gerst en síðan hafi F og G dyraverðir stokkið á árásarmanninn en E náð í fjórða dyravörðinn. Hafi E því næst aðstoðað við að yfirbuga árásarmanninn, sem hafi verið erfiður viðureignar. Vinur árásarmannsins hafi komið frá skemmtistaðnum Nasa og hafi hann náð að rífa F ofan af árásarmanninum. Hafi vinur árásar­mannsins gert sig líklegan til að lemja dyraverði en í því hafi lögregla komið að. Hafi dyraverðir náð að halda árásarmanninum þar til lögregla hafi komið á vettvang og þeir fyrst tekið vin árásarmannsins og síðan árásarmanninn. E kvað bæði F og G dyraverði hafa orðið vitni að árásinni. E kvaðst hafa rætt við danska sjóliðann fyrr um nóttina. Er sjóliðinn hafi orðið fyrir árásinni hafi hann staðið nærri brunahana við horn hússins gegnt útidyrum Thorvaldsen bar. Átök dyravarða við árásar­manninn og vin hans hafi verið mitt á milli skemmtistaðanna Thorvaldsen bar og Nasa. Þetta atvik hafi verið alvarlegustu átökin þessa nótt á staðnum. Ekki minnti E að lögregla hafi komið út af öðru tilviki á staðinn þessa nótt. Kvaðst E þess fullviss að réttur maður hafi verið handtekinn þessa nótt. E kvaðst hafa hringt nokkrum sinnum á lögreglu um nóttina því gerður hafi verið aðsúgur að dyravörðum þar sem þeir hafi verið með árásarmanninn í tökum. Hafi honum fundist lögregla lengi á staðinn en E hafi óttast hópslagsmál. Það gæti verið ástæða þess að lögregla hafi í upphafi staðið í þeirri trú að um hafi verið að ræða árás á dyravörð. Árásarmaðurinn hafi aug­ljós­lega verið undir áhrifum áfengis og örugglega haldið á bjórglasi.

G kvaðst hafa starfað sem dyravörður á skemmtistaðnum Thorvaldsen bar umrædda nótt. Hafi hann ásamt F dyraverði verið að ganga frá fyrir utan því verið var að loka staðnum. Hafi G tekið eftir manni sem hafi verið að reykja fyrir utan staðinn. Hafi viðkomandi staðið ekki langt frá stórum steini fyrir utan staðinn í um 7 til 8 metra fjarlægð frá G. Hafi G heyrt er hurð skemmtistaðarins hafi opnast og G þá litið upp. Hafi hann séð mann koma út af staðnum og fyrirvaralaust lemja hálfs lítra bjórglasi í andlit þess manns sem hafi verið að reykja. Sá hafi verið í hópi danskra sjóliða. Við þann mann hafi G verið búinn að ræða örstutt áður þessa nótt. Bjórglasið hafi splundrast við höggið. Árásarmaðurinn hafi gengið áfram eins og ekkert hafi gerst. Hafi G stokkið strax á árásarmanninn og náð að snúa hann niður. F dyravörður hafi þá komið að og aðstoðað G en síðan hafi E dyravörður komið að. Hafi verið farið með hinn slasaða inn í eldhús þar sem hlúð hafi verið að honum. Árásarmaðurinn hafi barist mikið um og hrópað á dyraverði. Hafi E dyravörður verið á staðnum og G beðið um að hringt yrði á lögreglu og sjúkrabifreið. Einhverjar stúlkur hafi komið að sem hafi virst þekkja árásarmanninn, en maðurinn hafi hrópað á þær að hringja í ,,liðið“. Hafi þær tekið upp síma og hringt. Hafi G þá ítrekað að hringt yrði umsvifalaust á lög­reglu. Einhver hafi reynt að rífa G á fætur. Í sama mund hafi lögreglu borið að garði og tekið mann sem hafi sennilega verið sá sem hafi verið að reyna að rífa G ofan af árásarmanninum. Kvaðst G telja að E og F dyraverðir hafi séð atburðarásina en þeir hafi einnig verið á staðnum. Um hafi verið að ræða eina tilvikið þessa nótt þar sem þurft hafi á lögreglu að halda á staðnum. Hafi ekki verið ráðist á neinn dyravörð þessa nótt. Lögregla hafi stoppað stutt á staðnum og G ekkert rætt við lögreglumennina. G kvað útilokað að glasi hafi verið hent sem hafi splundrast og glerbrot farið í höfuð sjóliðans.

F kvaðst hafa starfað sem dyravörður á Thorvaldsen bar umrædda nótt. Hafi hann ásamt dyravörðunum E og G verið að ganga frá fyrir utan staðinn við lokun. Danskur maður hafi staðið fyrir utan staðinn og verið að reykja. Hafi F heyrt hvernig hurð skemmtistaðarins hafi verið opnuð harkalega þannig að hún hafi skollið í vegg. Út hafi komið maður með tvö hálfs lítra bjórglös í hendi. Daninn hafi verið laminn í andlitið með bjórglasi með þeim afleið­ingum að bjórglasið hafi splundrast í tætlur. F hafi ekki séð sjálft höggið en einungis hafi einn árásarmaður komið til greina þar sem sá hafi verið einn á staðnum. Atvikið hafi átt sér stað rétt við brunahana við hús gegnt inngangi á Thorvaldsen bar. Blóð hafi fossað úr andliti Danans. Árásarmaðurinn hafi gengið rólega í burtu eins og ekkert hafi í skorist og þá verið með bjórglas í vinstri hendi. F og annar dyra­vörður hafi stokkið á árásarmanninn og náð honum strax í jörðina. Árásarmaðurinn hafi streist á móti og hótað dyravörðum öllu illu. Hafi dyraverðir verið með manninn í tökum í 20 til 25 mínútur áður en lögregla hafi komið til aðstoðar. Skömmu áður en það hafi verið hafi félagi árásarmannsins komið að og rifið í einn dyravarða. Hafi viðkomandi einnig gert sig líklegan til að kýla F. Þeir dyrverðir er hafi verið með F þessa nótt og orðið vitni að atburðum hafi verið E og G. F kvaðst ekki muna eftir því að lögregla hafi komið á staðinn þessa nótt út af öðru útkalli.   

Fyrir dóminn komu H, I, J, K, L, M, N, O og P. Vitni þessi báru nokkuð á sama veg um atvik og verður því gerð grein fyrir framburðum þeirra í einu lagi. Báru þau öll að þau hafi verið í samkvæmi eftir miðnættið heima hjá L en þangað hafi hópurinn komið eftir kl. 01.00 um nóttina. Hópurinn samanstæði af sameiginlegum útskriftarárgangi úr skóla. Allir í hópnum hafi verið búnir að panta miða á lokaðan dansleik á skemmtistaðnum Nasa við Austurvöll. Þangað hafi hópurinn síðan haldið síðar um nóttina. Voru vitnin ekki öll viss um nákvæma tímasetningu í því sambandi en voru flest á því að það hafi verið á milli kl. 02.00 og 03.00 um nóttina. I kvað ákærða hafa lent í vandræðum inni á staðnum og dyraverðir haft afskipti af honum þar inni. Þau mál hafi verið leyst. Er I hafi farið út af staðnum til að reykja um kl. 04.00 hafi ákærði verið í tökum dyravarða fyrir utan staðinn. Kvaðst I telja að dyraverðir af skemmtistaðnum Nasa hafi verið með ákærða í tökum. Einhverjir af þeim hafi í það minnsta verið búnir að hafa afskipti af ákærða fyrr um nóttina inni á Nasa. I kvað engan úr hópnum hafa farið að skemmta sér á Thorvaldsen bar þessa nótt. H kvaðst hafa frétt af afskiptum dyravarða af ákærða og farið út. Þar hafi hann séð ákærða í tökum. Þá hafi klukkan sennilega verið um 03.00 þó svo H væri ekki viss um tímann. B hafi þá einnig verið í tökum dyravarða. Hafi H frétt af því að vandræðin hafi byrjað inni á Nasa þar sem O félagi þeirra hafi lent í einhverjum vandræðum sem hafi leitt til afskipta dyravarða. Hafi ákærði komið að því máli. Dyraverðir hafi verið með ákærða í tökum beint fyrir utan skemmtistaðinn Nasa. J kvaðst ekki hafa séð nein átök inni á Nasa og ekki hafa séð ákærða yfirgefa staðinn. Félagarnir hafi orðið viðskila eftir að inn á Nasa kom og J séð ákærða síðast um kl. 03.00 um nóttina. K kvaðst hafa frétt af stympingum inni á Nasa sem hann sjálfur hafi ekki séð. Hafi hann verið á staðnum til kl. 06.00 til 07.00 er hann hafi yfirgefið staðinn við lokun. Ákærða hafi K síðast séð rétt eftir að hópurinn hafi komið á staðinn. K kvaðst ekki hafa farið á Thorvaldsen bar um nóttina. L kvaðst hafa orðið var við stympingar og hafa séð ákærða hent inn í lögreglubifreið. Þá hafi klukkan verið á milli kl. 03.00 og 04.00 um nóttina. L kvaðst einungis hafa heyrt af stympingum inni á Nasa en ekki séð þær sjálfur. Ákærða hafi L síðast séð inni á dansgólfi Nasa um kl. 03.00 til 04.00. M kvaðst hafa séð ryskingar inni á Nasa. Hafi ákærði reynt að skilja viðkomandi í sundur og dyraverðir talið hann eiga sök á átökum. Hafi átt að henda ákærða út af staðnum í misgripum. M hafi ekki séð neitt af því sem gerst hafi fyrir utan staðinn. N kvaðst engin átök hafa séð inni á Nasa. Hafi hann séð ákærða inni á staðnum um nóttina. Hafi hann frétt næsta dag að ákærði hafi verið handtekinn. Ákærða hafi N síðast séð inni á staðnum um kl. 03.00 um nóttina. O kvaðst hafa lent í ryskingum inni á Nasa um nóttina. Hafi ákærði komið að og stöðvað átökin. Hinum aðilanum í átökunum hafi verið vísað út af staðnum. Hafi dyraverðir um tíma talið að um væri að ræða almenn slagsmál en tekist hafi að leiðrétta það. Með því hafi verið forðað að ákærða yrði hent út líka. Ekki hafi O orðið var við það sem síðar hafi gerst. Kvaðst hann ekki viss um hvað klukkan hafi verið er hann hafi síðast séð ákærða inni á staðnum. P kvaðst hafa séð átök þau er O hafi lent í og ákærði haft afskipti af. Hafi dyraverðir komið að og ákærði horfið skömmu síðar. Hafi þessi atvik verið á milli kl. 03.00 og 04.00 um nóttina.  

D kvaðst hafa verið á skemmtistaðnum Nasa þessa nótt. Á staðinn hafi hún komið um kl. 02.00 um nóttina og verið til kl. 04.00. Er hún hafi farið út hafi hún séð dyraverði ofan á ákærða. Hafi hún að beiðni ákærða hringt í B og sagt honum frá því að dyraverðir væru með ákærða í tökum. Hafi hún rekist á ákærða um hálfri klukkustundu áður en hún hafi séð dyraverði halda ákærða. Þá hafi ákærði verið með B. 

Q  kvaðst hafa farið á Nasa þessa nótt og verið komin þangað um kl. 04.00. Hafi hún ekki verið undir áhrifum áfengis og verið að aka bifreið. Hafi hún hitt ákærða á Nasa um nóttina fljótlega eftir að hún hafi komið inn. Hafi hún síðar frétt að ákærði og B hafi lent í átökum um nóttina. Hafi hún farið heim til sín á milli kl. 06.00 og 06.30 um nóttina, en átök ákærða hafi átt að hafa átt sér stað um klukkustundu áður en hún hafi farið heim. 

R kvaðst hafa ekið bifreið þessa nótt. Hafi hún farið á skemmtistaðinn Nasa um kl. 01.00 til 01.30. Hafi hún hitt ákærða þar inni. Hafi ákærði þá verið rólegur og yfirvegaður. Hafi hún ekki séð nein átök fyrir utan staðinn.

Lögreglumennirnir S, C, T og U staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. S kvaðst hafa ritað frumskýrslu lögreglu vegna málsins. Óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu þessa nótt vegna óðra manna er væru í tökum dyra­varða. Er lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi tveir menn verið í tökum dyravarða. Hafi þeir verið fluttir inn í lögreglubifreið en þeir hafi báðir verið æstir. Hafi þeir í framhaldi verið fluttir á lögreglustöð. Erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar á vett­vangi vegna erfiðra aðstæðna á vettvangi sökum æsings en rætt hafi verið um árás á dyraverði og að sjúkrabifreið þyrfti á staðinn. Eftir að á lögreglustöð kom hafi annar mannanna verið settur í fangaklefa en hinum sleppt. Síðar um nóttina hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða alvarlega árás á sjóliða og að röngum manni hafi verið sleppt. Í tilkynningu hafi komið skýrt fram að kallað væri eftir lögreglu að skemmtistaðnum Thorvaldsen bar. Hafi lögregla litið svo á að þeir dyraverðir er afskipti hafi haft af mönnunum kæmu þaðan. Ekki hafi S séð brotaþola í málinu. Hafi lögregla kallað til sjúkrabifreið en verið farnir af staðnum er sjúkrabifreiðina hafi borið að garði. Ekki hafi verið sinnt öðru útkalli að skemmtistaðnum þessa nótt. T kvað lögreglu hafa reynt að vinna hratt þessa nótt þar sem mikil truflun hafi verið á vettvangi. Hafi lögregla reynt að komast sem fyrst á brott. Sennilega hafi komið upplýsingar á vettvangi um að ráðist hafi verið á dyravörð en síðar um nóttina hafi komið í ljós að á slysadeild væri sjóliði sem tengdist málinu. T hafi ekki séð neinn slasaðan á staðnum. C kvaðst hafa verið á slysadeild um nóttina. Hafi lögreglumenn haft samband við hana og beðið hana um að taka á móti dyraverði sem væri á leið á deildina. Enginn dyravörður hafi komið á deildina og C fengið þær upplýsingar að einungis danskur sjóliði hafi komið þangað frá Thorvaldsen bar. Hafi C rætt við vin brotaþola sem mætt hafi með manninum. Sá hafi tjáð henni að brotaþoli hafi orðið fyrir líkamsárás á skemmtistaðnum. Hafi hún rætt við brotaþola sem hafi verið mjög dasaður sökum blóðmissis. Hafi hún fært í lögregluskýrslu það sem brotaþoli hafi tjáð henni á staðnum.

Niðurstaða:  

Ákærða er gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa aðfara­nótt þriðjudagsins 1. janúar 2008 fyrir utan skemmtistaðinn Thorvaldsen bar, Austur­stræti 8, Reykjavík, slegið A í höfuðið með glerglasi. Afleiðingar hátt­seminnar voru þær samkvæmt ákæru að A hlaut 2 cm L-laga skurð framan við vinstra eyra og alvarlega slagæðablæðingu auk minni skurðar á vinstra eyra.

Ákærði neitar sök. Hann kveðst hafa verið að skemmta sér á skemmtistaðnum Nasa þessa nótt og ekki komið inn á skemmtistaðinn Thorvaldsen bar. Inni á Nasa hafi dyraverðir haft afskipti af ákærða þar sem þeir hafi talið hann efna til ófriðar. Hafi um tíma átt að vísa ákærða á dyr. Hafi ákærði farið út af skemmtistaðnum og dyraverðir staðarins þá ráðist á ákærða og fellt í jörðina. Í framhaldi af því hafi lögregla komið á staðinn og fært ákærða og félaga hans B á lögreglustöð. Um misskilning sé því að ræða varðandi þátt hans í áverkum hins danska sjóliða.

Fyrir dóminn komu fjölmörg vitni. Stærstur hluti þeirra voru fyrrverandi skóla­félagar ákærða er voru að skemmta sér með ákærða á Nasa þessa nótt. Hafa félagar ákærða borið að ákærði hafi komið með þeim á Nasa á milli klukkan 02.00 og 03.00 um nóttina. Flestir þeirra hafa borið um að hafa séð til ferða ákærða inni á staðnum síðar um nóttina og sumir þeirra urðu vitni að samskiptum ákærða við dyraverði inni á staðnum. Ekkert þessara vitna hefur á hinn bóginn óyggjandi getað borið um að hafa orðið vitni að því er ákærði fór út af staðnum síðar um nóttina og var tekinn af dyra­vörðum fyrir utan staðinn.

Þrír dyraverðir af skemmtistaðnum Thorvaldsen bar bera á hinn bóginn um að þeir hafi allir orðið vitni að því er maður kom út af Thorvaldsen bar í þann mund er staðnum hafi verið lokað. Á sama tíma hafi danskur sjóliði verið að reykja fyrir utan stað­inn Austurvallarmegin. Hafi maðurinn gengið rakleitt að sjóliðanum og án nokk­urra orða slegið hann í höfuðið með hálfs lítra bjórglasi sem splundrast hafi við höggið. Árásarmaðurinn hafi í kjölfarið gengið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Fullyrða tveir dyravarðanna að þeir hafi séð höggið sjálft, en um er að ræða dyraverðina E og G. Dyravörðurinn F kvaðst ekki hafa séð höggið sjálft en að­draganda þess og síðan afleiðingarnar. Hafi engum öðrum verið til að dreifa sem hafi getað valdið áverkanum. Er innbyrðis samræmi í framburðum dyravarðanna um að dyravörðurinn G hafi í kjölfar árásarinnar stokkið á árásarmanninn, fellt hann í jörðina og haldið honum þar. Dyravörðurinn F hafi komið G strax til aðstoðar á meðan dyravörðurinn E hafi náð í hjálp áður en hann hafi að­stoðað G og F við að halda árásarmanninum í jörðinni. Þá ber þessum dyra­vörðum saman um að stúlka hafi komið þar að sem miðað við framburð vitna var D vinkona ákærða. Hafi ákærði hrópað á hana að hringja í vini sína og láta þá vita af því að honum væri haldið af dyravörðum. D hefur staðfest að hafa í framhaldinu hringt í B sem hefur viðurkennt að hafa komið og reynt að leysa ákærða úr tökum dyravarða. Dyraverðirnir hafa sömuleiðis staðfest að félagi ákærða hafi reynt að leysa ákærða úr tökum dyravarða. Loks hafa lögreglumenn þeir sem komu á vettvang staðfest að hafa handtekið ákærða og B þar sem þeir hafi verið í tökum dyravarða á stétt fyrir utan skemmtistaðina Thorvaldsen bar og Nasa.

Í málinu nýtur einnig framburðar hins danska sjóliða A. Hefur hann lýst því hvernig hann hafi verið að reykja fyrir utan Thorvaldsen bar er gestur af staðnum hafi gengið að honum og án nokkurra orða slegið hann í höfuðið með bjórglasi sem hafi brotnað við höggið.

Þegar til eindregins framburðar þeirra dyravarða er komu að málinu er litið og vitni urðu að árásinni þykir dóminum hafið yfir allan vafa að þeir hafi verið með réttan árásarmann í tökum er lögreglu bar að garði. Ákveðins misskilnings virðist hafa gætt í frumskýrslu lögreglu um tilefni útkallsins þessa nótt. Er fram komin sennileg skýring á honum en lögreglumenn hafa upplýst að þeir hafi ekki getað stoppað nema stutt á staðnum þar sem mikill órói hafi verið í ákærða og B og þeir því orðið að drífa sig í burtu sem fyrst. Þá hefur dyravörðurinn E, sem kallaði eftir aðstoð lögreglu, lýst því að ítrekað hafi verið hringt í lögreglu þar sem hann hafi óttast að til hópslags­mála kæmi þar sem félagar ákærða myndu freista þess að leysa hann úr tökum dyra­varða. Af þeim ástæðum hafi getað orðið sá misskilningur að lögregla hafi talið að á dyravörð hafi verið ráðist. Þá liggur nægjanlega fyrir að mati dómsins með framburði C, sem var lögreglumaður á vakt á slysadeild, að danski sjóliðinn var sá eini sem fluttur var á slysadeild Landspítala háskjólasjúkrahúss þessa nótt frá þessum skemmtistað. Þegar til ofangreindra atriða er litið er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði var sá einstaklingur sem veittist að danska sjóliðanum A fyrir utan skemmtistaðinn Thorvaldsen bar nefnda nótt eins og ákæra lýsir og varð valdur að þeim áverkum sem þar er getið og lýst er í áverkavottorði. Með því hefur ákærði gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í júní 1988. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi er máli skiptir um ákvörðun refsingar í málinu. Með hliðsjón af dómvenju vegna viðlíka háttsemi og ákærði hefur verið sakfelldur fyrir er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Í ljósi aðdraganda árásarinnar þykir ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna nema að hluta til svo sem nánar greinir í dómsorði.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti að fjárhæð 187.480 krónur og ferðakostnað vitnis að fjárhæð 11.740 krónur. Þá greiði hann máls­varnar­laun skipaðs verjanda að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dröfn Kærnested fulltrúi ríkissak­sóknara.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Egill Jónsson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Frestað skal fullnustu 3ja mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðn­ingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 422.324 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns 223.104 krónur.