Hæstiréttur íslands
Mál nr. 438/2012
Lykilorð
- Skuldamál
- Laun
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2013. |
|
Nr. 438/2012.
|
Guðmundur Guðmundsson (Oddgeir Einarsson hrl.) gegn Skímu ehf. (Jóhannes Ásgeirsson hrl.) |
Skuldamál. Laun.
Aðilar deildu um það hvort G ætti ógreidd laun hjá S ehf. vegna vinnu sinnar á tilteknu tímabili. Hafði G verið í sambúð með stjórnarmanni og eiganda S ehf. og var hann jafnframt í framkvæmdastjórn S ehf. á því tímabili sem um ræddi auk þess sem hann fékk þá greiddar atvinnuleysisbætur. Hæstiréttur taldi að G hefði engin gögn lagt fram til stuðnings því að komist hefði á samningur milli aðila um frekari laun en honum hefðu verið greidd af hálfu S ehf. Hefði G borið að mótmæla án ástæðulausrar tafar ef hann hefði talið sig eiga rétt á frekari launagreiðslum úr hendi S ehf. í stað þess að taka fyrirvaralaust við launauppgjöri. Þá gat G ekki borið fyrir sig 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda þar sem hann hefði verið í framkvæmdastjórn S ehf. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu S ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2012. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.854.527 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. ágúst 2009 til 1. nóvember sama ár, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 1. september, 1. október og 1. nóvember 2009 hver að fjárhæð 55.085 krónur. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.040.112 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. ágúst 2009 til 1. nóvember sama ár, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum sömu innborgunum og í aðalkröfu greinir. Í báðum tilvikum krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Aðalkröfu sína reisir áfrýjandi á því að vegna bágrar lausafjárstöðu stefnda hafi aðilar gert með sér samkomulag um að áfrýjandi fengi greidd lágmarkslaun vegna vinnu í þágu stefnda í ágúst, september og október 2009, en þegar greiðsla fengist fyrir verk, sem stefndi hafði með höndum á því ári, og seldir hefðu verið tilteknir lausfjármunir hans fengi áfrýjandi greidda vinnu sína að fullu í samræmi við þau mánaðarlaun sem hann hafi áður haft hjá stefnda, 500.000 krónur, auk orlofs að fjárhæð 50.850 krónur.
Áfrýjandi hefur gert lítið úr aðkomu sinni að stofnun og rekstri stefnda þrátt fyrir að hann hafi sannanlega verið í sambúð með stjórnarmanni og eiganda stefnda um þriggja ára skeið, en sambúðinni lauk í nóvember 2009. Hann var jafnframt í framkvæmdastjórn stefnda samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá. Verður ráðið af gögnum málsins að hann hafi gegnt slíku hlutverki hjá stefnda á þeim tíma sem atvik máls þessa taka til. Í vottorði stefnda 3. mars 2009 á þar til gerðu eyðublaði samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sem áfrýjandi skilaði til Vinnumálastofnunar vegna umsóknar sinnar um atvinnuleysisbætur, kemur fram að hann hafi verið í fullu starfi hjá stefnda frá 1. nóvember 2007 til 31. desember 2008. Þá segir þar í svari við spurningu um ástæðu þess að áfrýjandi hafi látið af störfum hjá stefnda að um hafi verið að ræða „Uppsögn v/samdráttar.“ Áfrýjandi hefur ekki andmælt því að þau laun, er honum voru greidd af hálfu stefnda fyrir ágúst, september og október 2009, hafi verið þau hámarkslaun sem honum mátti greiða án þess að atvinnuleysisbætur, sem hann þáði eftir því sem fram er komið í málinu frá mars 2009 til loka þess árs, myndu skerðast. Þá er ágreiningslaust með aðilum að fjárhagsstaða stefnda var afar slæm á umræddum tíma.
Sönnunarbyrði um að samningur um frekari laun en áfrýjanda voru greidd af hálfu stefnda samkvæmt framansögðu hafi komist á milli aðila hvílir á áfrýjanda. Samningur þess efnis er eðli máls samkvæmt óvenjulegur þar sem áfrýjandi var á fyrrgreindum tíma í framkvæmdastjórn stefnda, auk þess sem hann þáði bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði og laun úr hendi stefnda fyrrgreinda mánuði, er námu þeirri hámarksfjárhæð sem greiða mátti honum án þess að bæturnar yrðu skertar.
Áfrýjandi hefur engin gögn lagt fram til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að samningur þess efnis, sem hann heldur fram, hafi komist á. Þá er þess að gæta að áfrýjanda bar við framangreindar aðstæður að mótmæla án ástæðulausrar tafar ef hann taldi sig eiga rétt á frekari launagreiðslum úr hendi stefnda en hann hafði þegar þegið, svo sem áður er rakið, í stað þess að taka fyrirvaralaust við áðurnefndu launauppgjöri. Er því ósannað að slíkur samningur hafi verið gerður. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á aðalkröfu hans.
Með því að áfrýjandi var í framkvæmdastjórn stefnda getur hann ekki borið fyrir sig 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og verður varakröfu hans hafnað þegar af þeirri ástæðu.
Af framansögðu leiðir að niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður staðfest, þar með talið málskostnaðarákvæði hans.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Guðmundur Guðmundsson, greiði stefnda, Skímu ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 29. febrúar sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Guðmundi Guðmundssyni, á hendur Skímu ehf., með stefnu áritaðri um birtingu 27. júní 2011.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.854.527 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 201.978 krónum frá 1. ágúst 2009, af k752.828 krónum frá 1. september 2009, af 1.303.678 krónum, af 1.854.528 krónum frá 1. nóvember 2009 til greiðsludag, allt að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 165.255 krónum, sem greiddar voru 1. september 2009 55.085 krónur, 1. október 2009 55.085 krónur og 1. nóvember 2009 55.085 krónur. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.040.112 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 89.533 krónum frá 1. ágúst 2009, af 335.559 krónum frá 1. september 2009, af 730.094 krónum frá 1. október 2009, og af 1040.112 krónum frá 1. nóvember 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð 165.255 krónur, sem greiddar voru 1. september 2009 55.085 krónur, 1. október 2009 55.085 krónur og 1. nóvember 2009 55.085 krónur.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað, að mati dómsins.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Stefnandi kveður málavexti vera þá, að hann hafi unnið við að keyra vörubifreið fyrir stefnda og sinnt ýmsum verkefnum fyrir félagið, utan þess. Stefndi hafi gert verksamning við Vélaleigu AÞ, um vinnu við verkframkvæmdir, en bifreiðin, sem félagið hafi haft til umráða á þeim tíma, [...], sé MAN vörubifreið, ætluð til malarflutninga. Helstu verkin sem stefnandi hafi unnið við hafi verið við byggingar Háskólans í Reykjavík, byggingu elliheimilis í Þingaseli, vinna fyrir Ístak hf. og Urð og grjót ehf. Samkvæmt útprentun af persónulegu aksturskorti stefnanda megi sjá að stefnandi hafi byrjað að nota bílinn 21. júlí 2009. Þessar skýrslur sýni án vafa að stefnandi hafi keyrt vörubifreiðina á þessum tíma. Hann hafi verið við vinnu virka daga og í einhverjum tilvikum um helgar. Samtals hafi hann unnið 82 klst. og 34 mínútur á bílnum í júlí, 189 klst. og 45 mínútur í ágúst, 265 klst. og 50 mín. í september og 222 klst. og 32 mín. í október. Þess beri þó að geta að raunverulegur vinnutími stefnanda hafi verið töluvert meiri en þessar tölur segi til um, enda hafi hann unnið við að gera bifreiðina klára fyrir vinnu, við viðhald hennar o.fl. Ekki sé þó gerð krafa um greiðslu launa fyrir þá vinnu. Eðlilegur vinnutími hjá starfsmanni fyrir einn mánuð í dagvinnu sé um 160 klst. og hafi stefnandi unnið fulla dagvinnu og rúmlega það í ágúst, september og október. Akstursskýrslum sé skilað inn til Ríkisskattsstjóra með reglubundnum hætti. Af dagbókinni megi sjá að hún samræmist útprentun af aksturskorti stefnanda. Af því megi álykta að stefnandi hafi unnið á umræddri bifreið og svo lengi sem fram komi á aksturskorti hans. Bifreiðinni hafi verið skilað til Avant hf. þar sem stefndi hafi ekki haft efni á að halda henni lengur. Reynt hafi verið að fá útskrift úr tölvu í bifreiðinni til þess að sýna fram á að aksturskort stefnanda hafi verið notað í umræddri bifreið á þeim tíma sem að framan greini.
Stefndi kveður að stefnandi og stjórnarmaður stefnda hafi verið í óvígðri sambúð frá því seinni hluta sumars árið 2006 og þar til stefnandi flutti af heimili stjórnarmanns stefnda í nóvember 2009. Um mitt árið 2007, var stefndi stofnaður af þáverandi sambýliskonu stefnanda og systur hennar. Hlutaféð hafi verið greitt af þeim systrum og hafi stefnandi þá tekið sæti í framkvæmdastjórn. Stefndi hafi verið stofnaður vegna atvinnuleysis stefnanda, sem var bifreiðastjóri. Stefndi hafi, fyrir áeggjan og að frumkvæði stefnanda, keypt flutningabifreið ásamt tengivagni. Til kaupanna hafi verið tekið myntkörfulán hjá Avant hf., sem tryggt hafi verið með veði í tækjunum auk sjálfskuldarábyrgðar stjórnarmanns stefnda og þáverandi sambýliskonu stefnanda, sem við gengisfall krónunnar sitji í skuldasúpu og glími við óviðráðanlegar skuldir. Stefnandi hafi eins og að hafi verið stefnt, atvinnu við akstur bifreiðarinnar og hafi hann verið á launaskrá hjá stefnda frá því að rekstur félagsins hafi hafist og þar til rekstri stefnda hafi verið sjálfhætt vegna verkefnaskorts. Í ársbyrjun árið 2009 hafi rekstur stefnda verið orðinn erfiður, hvort tveggja vegna erfiðrar skuldastöðu og vegna minnkandi umsvifa í verklegum framkvæmdum. Stefnandi, sem hafi séð um að afla verkefna og séð um rekstur stefnda, hafi ákveðið að sækja um atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2009. Þegar stefndi hafi síðan fengið smávægileg verkefni hafi stefnandi séð um þau og ákveðið sjálfur að þiggja ekki önnur laun en 50.000 krónur á mánuði. Meginatriði málsins sé það, að stefnandi hafi með háttsemi sinni steypt stefnda og forsvarsmanni hans í miklar fjárskuldbindingar, en að hans frumkvæði hafi verið keypt atvinnutæki með myntkörfuláni frá Avant hf. Samkvæmt útprentun úr bókhaldi stefnda hafi beint framlag forsvarsmanns stefnda til stefnda í árslok árið 2009 numið 5.209.713 krónum. Skuldastaðan hafi verið orðin mjög slæm og hafi stefndi enga möguleika átt á að ná sér á strik.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann eigi enn ógreidd laun frá stefnda vegna vinnu sinnar fyrir hann í ágúst, september og október 2009. Stefnandi og stefndi hafi gert með sér samkomulag vegna bágrar lausafjárstöðu stefnda að stefndi fengi lágmarkslaun vegna vinnu í ágúst, september og október 2009. Þegar greiðsla hefði fengist fyrir verk þau sem unnin hafi verið fyrir AÞ vélaleigu og aðra samningsaðila stefnda, auk þess sem lausafé í eigu stefnda yrði selt, þ.e. flutningskerra, skráningarnúmer [...] og hjólhýsi af gerðinni Hobby 560 UFE, skráningarnúmer [...], fengi stefnandi greitt fyrir vinnu sína að fullu og í samræmi við þau mánaðarlaun sem hann hafi frá upphafi haft hjá félaginu. Stefnandi byggir launakröfu sína á því að honum beri að fá greidd full mánaðarlaun í samræmi við þau laun sem hann hafi verið með hjá félaginu frá því að hann hafi hafið störf hjá því. Af framlögðum launaseðlum fyrir tímabilið júní til ágúst 2008 megi sjá, að stefnandi hafi verið með föst mánaðarlaun 500.000 krónur, auk orlofs 50.850 krónur. Telur stefnandi það vera fráleitt að hann hafi eingöngu átt að fá 50.000 krónur á mánuði fyrir alla þá vinnu sem hann hafi innt af hendi í þágu stefnda. Stefnandi hafi unnið myrkranna á milli fyrir stefnanda í júlí, ágúst, september og október, og telur hann að stefndi hafi ekki gert upp við hann, vegna launa á því tímabili sem stefnt sé fyrir.
Í stefnu skoraði stefnandi á stefnda að leggja fram upplýsingar sem sýni þær greiðslur sem félagið hafi fengið vegna vinnu stefnanda á tímabilinu frá júlí 2009 til október 2009. Sérstaklega sé vísað til verktakavinnu fyrir AÞ vélaleigu ehf. Þá skoraði stefnandi á stefnda að leggja fram upplýsingar um sölu flutningakerru með skráningarnúmerið [...], sem stefndi hafi selt, sem og hjólhýsi af gerðinni Hobby 560 UFE, skráningarnúmer [...].
Stefnandi kveðst ekki hafa unnið meira hjá stefnda eftir októbermánuð 2009. Gerð hafi verið tilraun til þess að fá stefnda til að greiða stefnanda þau laun sem hann hafi átt inni hjá félaginu með innheimtubréfi, dagsettu 3. maí 2010, sem hafi verið sent stefnda.
Innheimtubréfinu hafi verið svarað af hálfu lögmanns stefnda, með bréfi dagsettu, 10. maí 2010. Í því komi fram að um "mávægileg verkefni" hafi verið að ræða, auk þess sem vísað hafi verið til þess að stefnandi hafi verið á atvinnuleysisbótum á því tímabili sem krafist sé launa.
Stefnandi hefur sundurliðað kröfu sína með eftirgreindum hætti í stefnu:
Laun 21. júlí - 31. júlí (11/30 x 500.000 kr.) 183.333 kr.
Laun fyrir ágúst 500.000 kr.
Laun fyrir september 500.000 kr.
Laun fyrir október 500.000 kr.
Orlof ofan á laun (1.683.333 X 10,17%) 171.194 kr.
Samtals 1.854.527 kr.
Frá ofangreindri tölu dragist svo 165.255 krónur, sem séu laun sem stefnandi hafi nú þegar fengið greidd.
Varakröfu sína byggir stefndi á því að launakjör hans beri að ákveða samkvæmt kjarasamningum milli Starfsgreinasamband Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 17. febrúar 2008. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um launakjör og skyldutryggingu lífeyrisréttinda komi fram að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, skuli vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem samningurinn tali til og séu samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en almennir kjarasamningar ákveði ógildir. Af því megi sjá að ekki skipti máli þó að launamaður, eins og stefnandi, hafi ekki greitt í tiltekið stéttarfélag við vinnu sína. Samkvæmt lögum Starfsgreinasambandsins, gr. 2.01, sé eitt svið stéttarfélagsins flutninga- bygginga- og mannvirkjasvið sem taki m.a. til allra flutninga á landi. Stefnandi hafi unnið við malarflutninga og falli starfið án vafa undir gildissvið laga félagsins, en aðild að félaginu sé ekki bundin við tiltekið landsvæði. Bifreið sú sem stefnandi hafi ekið fyrir stefnda falli undir gildissvið gr. 16.1 í framangreindum kjarasamningi. Laun bifreiðastjóra samkvæmt kjarasamningnum geti annaðhvort fallið í launaflokk nr. 10, tækjastjórnandi 1, eða launaflokk 13, tækjastjórnanda 2. Skilgreining á hvaða störf falli undir tækjastjórnanda 2 sé eftirgreind: "Stjórnendur vinnuvéla með fyllstu réttindi, mikla starfsreynslu hjá viðkomandi fyrirtæki, við vinnu á stærstu tækjum og/eða hlutdeild í stjórnun. Stjórnendur dráttarbíla. Bifreiðastjórar sem annast fermingu og affermingu bifreiða, sem flytja sekkjavöru s.s. fóður, sement og áburð. Bifreiðastjórar með tengivagna sem annast fermingu og affermingu bifreiðar og tengivagns. Stjórnendur vörubifreiða yfir 10 tonnum. Bor- og hleðslumenn í jarðgöngum (borflokkur)."
Stefnandi telur að starfsréttindi hans og starf fyrir stefnda falli undir launaflokk nr. 13. Stefnandi sé bæði með fyllstu réttindi á vinnuvélar og bifreið sú sem hann hafi unnið á sé dráttarbifreið sem auk þess sé yfir 10 tonnum. Þá hafi stefnandi verið með mikla hlutdeild í stjórnun á þessum tíma, enda skráður framkvæmdastjóri á því tímabili sem hann hafi innt vinnu af hendi. Stefnandi hafi unnið lengur en 5 ár við akstur vörubifreiða og ætti því að fá greiddar 170.606 krónur í mánaðarlaun samkvæmt kjarasamningum. Vísað sé til launataflna sem gildi um umræddan kjarasamning frá 1. júlí 2009. Dagvinnukaup hans sé samkvæmt þeim launaflokki 984,28 krónur og yfirvinna 1.771,74 krónur. Verði ekki fallist á að laun stefnanda fylgi launaflokki nr. 13 krefst stefnandi þess til þrautavara, að laun hans verði ákveðin samkvæmt launaflokki nr. 10. Sú laun séu lægri en samkvæmt launaflokki 13, og því ekki nauðsynlegt að gera sérstaka þrautavarakröfu í kröfugerð málsins, þar sem sömu röksemdir og málsástæður eigi við um þá kröfu.
Stefnandi hefur sundurliðað varakröfu sína á eftirgreindan hátt í stefnu:
Laun 21. júlí - 31. júlí (82:34 X 984,28 kr.) 81.268 kr.
Laun fyrir ágúst (170.606 + 29:75 X 1771,74) 223.315 kr.
Laun fyrir september (170.606 + 105:50 X 1771,74) 358.115 kr.
Laun fyrir október (170.606 + 1771,74) 281.399 kr.
Orlof ofan á laun 10,17% 96.015 kr.
Samtals 1.040.112 kr.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna íslensks vinnuréttar um greiðslu launa. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 55/1980.
Kröfu um vexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir kröfu sína á því, að stefnandi hafi sjálfur séð um fjármál stefnda ásamt þáverandi sambýliskonu sinni, sem var stjórnarmaður stefnda. Stefnandi og stjórnarmaður stefnda hafi búið saman í óvígðri sambúð frá ágúst 2006 fram til nóvember 2009. Stefnandi hafi ákveðið sjálfur þá tilhögun sem verið hafi á launagreiðslum, en hann hafi verið í framkvæmdastjórn stefnda. Stefnandi hafi verið á launaskrá hjá stefnda frá því að rekstur félagsins hafi hafist og þar til rekstri stefnda hafi verið sjálfhætt vegna verkefnaskorts. Í ársbyrjun árið 2009 hafi rekstur stefnda verið orðinn erfiður, hvort tveggja vegna erfiðrar skuldastöðu sem og vegna minnkandi umsvifa í verklegum framkvæmdum. Stefnandi hafi sjálfur séð um að afla verkefna og sjá um rekstur stefnda. Hafi hann sjálfur ákveðið að sækja um atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2009. Til þess að fá atvinnuleysisbætur hafi starfslok þurft að vera með ákveðnum hætti. Stefnandi hafi haft öll ráð stefnda í hendi sér enda hafi hann stjórnað eina atvinnutæki stefnda. Að hans ráði hafi verið ákveðið að hann fengi greidd laun að fjárhæð 50.000 krónur mánuðina, september, október og nóvember 2009, enda hafi skuldastaða hans við stefnda verið mjög slæm. Launafjárhæðin hafi verið ákveðin með tilliti til þess að hún skerti ekki fullar bætur atvinnuleysistryggingasjóðs. Stefnandi hafi ákveðið að launin rynnu til greiðslu skulda sem hann hafi stofnað til við stefnda. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við launagreiðslur til sín og tekið áfram við greiðslu atvinnuleysisbóta, en stefnandi hafi sjálfur tilkynnt sig til Vinnumálastofnunar. Stefnandi hafi engar kröfur gert á hendur stefnda fyrr en í byrjun maí eða rúmum 6 mánuðum eftir að sambúð hans og forsvarsmanns stefnda hafi lokið. Telur stefndi, að hafi samningar verið með öðrum hætti en lýst hafi verið megi telja fullvíst að stefnandi hefði gert athugasemdir við launagreiðslur til sín, mánuðina september, október og nóvember. Stefnandi hafi tekið við launauppgjöri án fyrirvara eða athugasemda og eftir það hafi hann í engu hreyft því við stefnda að hann teldi sig vanhaldinn um laun fyrr en með bréfi, dagsettu 3. maí 2010. Af atvikum málsins verði ekki annað ráðið en að aðilar hafi vikið frá umsömdum launum í ársbyrjun 2009 og samið síðan um greiðslur til stefnanda í þrjá mánuði, en stefnandi hafi þá verið kominn í skuld við stefnda. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við framkvæmd á samningi hans við stefnda, og hafi hann því glatað rétti til að fá leiðréttingar síðar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 1991 bls. 70.
Varðandi málskostnaðarkröfu stefnanda vísar stefndi til þess, að engin krafa hafi borist frá stefnanda um vangreidd laun fyrr en við móttöku stefnu.
Um lagarök vísar stefndi til áhrifa tómlætis í vinnurétti og til samningalaga nr. 7/1936.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnandi eigi ógreidd laun hjá stefnda vegna vinnu sinnar frá því í ágúst 2009 og fram til nóvember sama ár.
Eins og að framan greinir voru stefnandi og stjórnarmaður stefnda í sambúð frá því á árinu 2006 og fram til nóvember 2009. Stefndi var stofnaður á árinu 2007 og keypti félagið þá vörubíl sem stefnandi ók. Stjórnarmaður stefnda gekkst í sjálfskuldarábyrgð vegna bifreiðakaupanna, en þau voru fjármögnuð með myntkörfuláni. Þá liggur fyrir í málinu að verkefnastaða fyrirtækisins var mjög slæm í byrjun árs 2009 og stefnandi þáði atvinnuleysisbætur frá því í mars 2009 og fram til ársins 2010, eða þann tíma sem hann krefur stefnda nú um greiðslu launa. Af því sem fram er komið í málinu er ljóst að stefndi var stofnaður á sambúðartíma aðila í því skyni að afla stefnanda tekna af bifreiðaakstri, og í kjölfar bankahrunsins 2008 var erfitt að fá verkefni fyrir bifreiðina, en af því sem fram kom við yfirheyrslur fyrir dómi, verður að telja að fyrir liggi að stefnandi hafi séð um að útvega verkefnin. Liggur fyrir að stefnandi skráði sig atvinnulausan þann tíma sem hann kveðst nú hafa verið í vinnu hjá stefnda og átt að fá greidd laun fyrir, 500.000 krónur á mánuði. Bendir þetta eindregið til þess að stefnandi hafi ekki talið sig eiga kröfu á hendur stefnda um frekari laun, en stefndi hefur þegar greitt honum. Við þessar aðstæður hefði því stefnandi átt að gera stefnda viðvart ef hann teldi sig eiga inni ógreidd laun. Það gerði hann ekki fyrr en sex mánuðum frá því að hann kveðst hafa hætt vinnu sinni fyrir stefnda, og sambúðarslitum við stjórnarmann stefnda lauk.
Þegar framangreint er virt verður því ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á að hann eigi ógreidd vinnulaun frá stefnda. Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Skíma ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Guðmundar Guðmundssonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.