Hæstiréttur íslands
Mál nr. 170/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Varnarþing
- Samaðild
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 6.apríl 2006. |
|
Nr. 170/2006. |
Þorsteinn Hjaltested(Sigurbjörn Þorbergsson hdl.) gegn Þorsteini Sigmundssyni (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Varnarþing. Samaðild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Í málinu deildu ÞH og ÞS um gildi uppsagnar leigusamnings um lóð. Í upphaflegum samningi frá árinu 1931 var mælt fyrir um að mál vegna hans skyldi reka fyrir gestarétti Reykjavíkur. Talið var að samkvæmt lokamálsgrein 224. gr. laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði hafi gestaréttarmeðferð verið felld úr lögum en jafnframt mælt fyrir um að þar sem til slíkrar meðferðar væri vísað skyldi beita almennum reglum um meðferð einkamála. Þá var talið að í samningsákvæðinu hefði falist samkomulag aðila um að varnarþing skyldi vera í Reykjavík. Þá var ekki talið að vísa bæri málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þótt aðrir en ÞS kynnu að telja til eignarréttinda á hinni umdeildu leigulóð, enda var hinn umdeildi leigusamningur milli málsaðila og uppsögn hans var eingöngu beint að ÞS og ljóst að dómur í málinu væri eingöngu bindandi fyrir málsaðila þess. Var kröfu ÞS um frávísun málsins því hafnað og lagt fyrir héraðsdómara að taka það til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2006, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti með kæru 30. mars 2006, sem móttekin var í héraðsdómi 4. apríl sama ár. Hann krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur að öðru leyti en því að honum verði dæmdur málskostnaður í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir byggir sóknaraðili heimild sína til að stefna varnaraðila fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur á ákvæði í leigusamningi frá júlí 1931 þar sem kveðið er á um að mál vegna samningsins skuli reka fyrir gestarétti Reykjavíkur. Með lokamálsgrein 224. gr. laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði voru ákvæði um gestaréttarmeðferð numin úr lögum og mælt fyrir um að þar sem slík meðferð væri boðin eða heimiluð í lögum og þar sem til slíkrar meðferðar væri skírskotað eða fresta í sambandi við hana, giltu almennar reglur um málsmeðferð samkvæmt lögunum. Verður lagagrein þessi ekki skilin öðruvísi en að þar sem vísað er í samningi til gestaréttarmeðferðar skuli beita almennum reglum laga um meðferð einkamála í slíkum málum. Með fyrrgreindu samningsákvæði verður að telja að samið hafi verið um varnarþing í Reykjavík í samræmi við þágildandi sérreglur um málsmeðferð fyrir gestarétti. Eftir gildistöku fyrrgreindrar lagagreinar sæti slíkt mál ekki gestaréttarmeðferð heldur almennum reglum um meðferð einkamála. Eftir stendur að samið var um að varnarþing væri í Reykjavík. Var sóknaraðila því rétt að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Varnaraðili byggir kröfu sína um frávísun málsins einnig á því að þar sem eiginkonu hans, Guðrúnu Alisu Hansen, hafi ekki verið stefnt í málinu beri að vísa því frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þinglýsingarvottorði 28. júní 2005 er Guðrún Alisa Hansen þinglýstur eigandi Elliðahvamms ásamt varnaraðila. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvernig til eignarréttinda hennar var stofnað, en fyrir liggur að hennar er getið sem eiganda ásamt varnaraðila í veðbókarvottorði 19. nóvember 1986.
Í málinu deila aðilar um réttmæti uppsagnar leigusamnings frá júlí 1931 um tiltekna landspildu. Réttindi samkvæmt samningnum hafa samkvæmt gögnum málsins verið framseld varnaraðila og viðbætur við hann, sem nánar er lýst í hinum kærða úrskurði, eru undirritaðar af honum einum sem leigutaka, en Guðrúnar Alisu að engu getið. Beindi sóknaraðili uppsögn samningsins að varnaraðila einum. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður ekki talið að vísa beri því frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, þó aðrir en varnaraðili kunni að telja til eignarréttinda á hinni umdeildu leigulóð. Dómur í málinu mun enda eingöngu verða bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila málsins um þær kröfur sem dæmdar kunna að verða að efni til, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Þorsteinn Sigmundsson, greiði sóknaraðila, Þorsteini Hjaltested, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2006.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um framkomna frávísunarkröfu stefnda fimmtudaginn 23. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorsteini Hjaltested, [kt.], Vatnsenda, Kópavogi, með stefnu birtri 24. júní 2005 á hendur Þorsteini Sigmundssyni, [kt.], til heimilis að Elliðahvammi, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi, að uppsögn stefnanda, með tilkynningu dags. 27. febrúar, birt stefnda 28. febrúar 2004, á lóðaleigusamningi við stefnda frá 1931 með síðari breytingum, dags. 12. desember 1974 og 14. febrúar 1988, sé lögmæt. Þá er krafizt málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins. Til vara er þess krafizt, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að skaðlausu að mati dómsins.
II
Málavextir
Með samningi, dags. í júlí 1931, seldi Magnús Hjaltested Félagi íslenskra símamanna á leigu 10.000 m2 spildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda. Er fasteign þessi nefnd Elliðahvammur. Endurgjald skyldi vera 150 krónur á ári með gjalddaga 1. október ár hvert. Í samningnum var kveðið á um, að stæði leigutaki ekki skil á afgjaldinu á réttum gjalddaga, eða innan 15 daga frá honum, að ítrekaðri greiðslukröfu eiganda jarðarinnar, gæti eigandi hennar sagt samningnum upp, en ella væri hann óuppsegjanlegur. Félagið framseldi síðar leiguréttinn til Péturs V. Snædal sem aftur framseldi hann menntamálaráðuneytinu, sem framseldi hann stefnda, Þorsteini Sigmundssyni, þann 6. janúar 1966.
Faðir stefnanda, Magnús Hjaltested, þá eigandi að Vatnsenda, gerði við stefnda tvo viðauka við fyrri leigusamning. Fyrst 12. desember 1974, þar sem leigutaka var heimilað að vera með alifuglabú, stunda garðrækt og hafa heimilishesta og reisa til þess nauðsynleg mannvirki. Síðari viðaukinn var gerður 14. febrúar 1988, þar sem hið leigða landsvæði var stækkað í 20.000 m2. Þá var jafnframt ákveðið nýtt leigugjald fyrir allt landsvæðið sem skyldi samsvara andvirði 150 dagvinnustunda verkamanns samkvæmt hæsta taxta Dagsbrúnar, sem í gildi væri 1. apríl ár hvert, og skyldi leigan greiðast þann dag fyrir viðkomandi almanaksár. Þá var uppsagnarákvæði hins upprunalega samnings ítrekað.
Þann 21. desember 1999 andaðist Magnús Hjaltested og á grundvelli ákvæða í erfðaskrá hans, var jörðin færð yfir á nafn stefnanda
Með bréfi, dags. 8. marz 2002, krafði stefnandi stefnda um vangreidda leigu fyrir landið vegna áranna 1996 til 2000. Þann 13. marz 2003 höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda í máli þessu, þar sem hann krafði hann um leigu fyrir landið vegna áranna 1999 til 2002. Gekk dómur í málinu þann 2. desember 2003. Í forsendum dómsins kemur meðal annars fram, að stefndi hefði aldrei greitt leigu fyrir umrædda spildu og ekki verið krafinn um hana fyrr en í aðdraganda málshöfðunarinnar. Lagði héraðsdómari til grundvallar niðurstöðu sinni, að samningur, byggður á persónulegum ástæðum, hafi legið fyrir milli Magnúsar Hjaltested og stefnda um að sá síðarnefndi greiddi ekki leigu fyrir landið. Var það niðurstaða dómsins, að ekki skyldi greiða leigu fyrir landið fyrr en frá og með árinu 2000, og var stefndi í samræmi við það dæmdur til að greiða leigu vegna áranna 2000 til 2002. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2004, sótti stefndi um leyfi til áfrýjunar málsins, þar sem dæmd fjárhæð náði ekki áfrýjunarfjárhæð. Með bréfi, dags. 27. febrúar 2004 sagði stefnandi stefnda upp lóðaleigusamningnum vegna vangreiðslu stefnda á leigugjaldi frá árinu 1996, með vísan til samningsákvæðis þar að lútandi. Hæstiréttur synjaði stefnda um áfrýjunarleyfi hinn 17. marz 2004. Greiddi stefndi dómskuldina tveimur dögum síðar. Þann dag greiddi hann einnig innheimtuseðil vegna lóðaleigu fyrir árið 2003. Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 22. marz 2004, var áréttað sérstaklega, að stefnandi félli ekki frá rétti sínum til uppsagnar. Þetta var ítrekað í bréfi, dags. 3. maí 2004. Þann 30. desember 2004 geymslugreiddi stefndi lóðaleigu fyrir árið 2004, og tilkynnti lögmaður stefnda lögmanni stefnanda það þann 6. janúar 2005. Forsendum greiðslunnar var andmælt þann 12. janúar 2005. Þann 22. marz 2005 geymslugreiddi stefndi lóðaleigu fyrir árið 2005, sbr. tilkynningu þess efnis 31. marz 2005. Þann 1. apríl 2005 kom lögmaður stefanda á framfæri andmælum og ítrekaði fyrri sjónarmið varðandi uppsögn leigusamningsins. Ágreiningur aðila stendur um heimild stefnanda til að segja upp leigusamningnum.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst byggja uppsagnarheimild sína á uppsagnarákvæði upprunalega leigusamningsins frá árinu 1931, sem ítrekað hafi verið í samningsviðauka frá 14. febrúar 1988. Þar segi:
Standi leigutaki ekki í skilum með afgjaldið á réttum gjalddaga eða innan 15 daga frá honum að ítrekaðri greiðslukröfu eiganda jarðarinnar, getur eigandi sagt upp samningi þessum. Annars er hann óuppsegjanlegur af hendi eiganda jarðarinnar og er kvöð á jörðinni, þó seld sé öðrum.
Samkvæmt samningsviðaukanum frá árinu 1988 skuli leigan greidd 1. apríl fyrir yfirstandandi almanaksár. Sé ljóst, að sérhver vanefnd á afgjaldsskyldu umfram tímamörk, sem getið sé í samningnum, sé veruleg vanefnd og nægilegur grundvöllur uppsagnar.
Vanefnd stefnda varðandi leiguskuld.
Í maí 2001 hafi stefnandi beint áskorun til stefnda varðandi efndir. Hafi sú krafa verið ítrekuð með innheimtubréfi, dags. 8. marz 2002, og með áskorun um efndir og ábendingu um áhrif áframhaldandi vanefnda hinn 9. september 2003. Hafi greiðsluskylda stefnda í þessu máli vegna áranna 2000-2002 verið staðfest með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 2. desember 2003. Hinn 27. febrúar 2004 hafi stefnandi sagt upp samningnum vegna verulegra vanefnda stefnda, enda hafi ekkert verið greitt upp í leiguskuld fyrir árin 2000-2003. Stefndi hafi ekki greitt fyrr en 19. marz sama ár. Sú síðbúna greiðsla haggi ekki uppsagnarrétti stefnanda, enda hafi hann tilkynnt stefnda strax 22. marz, að hann hygðist halda sig við uppsagnarfrestinn, og hafi hann ítrekað þá afstöðu sína í bréfi, dags. 3. maí 2004 og aftur 12 janúar og 1. apríl 2005.
Vanefnd leiguskuldar 2003
Hvað varði leigugjald fyrir árið 2003 sérstakalega, þá hafi stefndi fengið, í apríl 2003, greiðsluseðil með gjalddaga 14. apríl sama ár. Hafi leigugjaldið vegna ársins 2003 ekki verið borið undir dómstóla. Þann 9. september 2003 hafi stefnda verið afhent greiðsluáskorun og honum bent á hugsanlega uppsögn, ef ekki yrði greitt. Hafi hann ekki orðið við því, og hafi stefnanda því verið heimil uppsögn samningsins þann 27. febrúar 2004, á grundvelli ofangreindra vanefnda og ákvæða samningsins í samræmi við meginreglur kröfuréttar. Greiðsla stefnda 19. marz 2004 haggi ekki uppsagnarheimild stefnanda, enda slík túlkun í ósamræmi við þröngt uppsagnarákvæði samningsins og meginreglur kröfuréttarins. Ákvæði samningsins um uppsögn sé skýrt. Hafa verði í huga, að réttur landeiganda sé takmarkaður við það tilvik, að greiðandi greiði ekki landskuld sína. Það sé ólíðandi, að skuldari geti með fyrirslætti komið í veg fyrir, að landeigandi fái beitt þeim vanefndaúrræðum, sem honum standi til boða.
Afstaða stefnanda gagnvart ábúðarlögum nr. 64/1976
Stefnandi hafni því alfarið, að ákvæði ábúðarlaga eigi við um samning aðila í máli þessu. Sé því hafnað, að Elliðahvammur teljist lögbýli í skilningi ábúðarlaga nr. 64/1976. Um sé að ræða jarðarspildu, sem leigð hafi verið úr landi Vatnsenda. Enda verði ekki séð, að Elliðahvammur hafi uppfyllt skilyrði 1. gr. jarðalaga til að teljast lögbýli.
Stefnandi byggi einnig á því, að heimild stefnda til Elliðahvamms sé byggð á lóðaleigusamningi, upphaflega við félag símamanna, sem hafi verið yfirtekinn af stefnda árið 1966, en ekki sérstöku byggingarbréfi í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1976. Vegna þess komi ákvæði ábúðarlaga ekki til álita, þegar landeigandi beri fyrir sig skýr ákvæði lóðaleigusamnings um uppsögn vegna vanskila á greiðslu lóðaleigu. Stefndi hafi yfirtekið skyldur samkvæmt leigusamningnum löngu áður en hann hafi fengið Elliðahvamm samþykktan sem smábýli í tengslum við lánafyrirgreiðslu til hans á árinu 1975.
Sé þeirri málsástæðu, að ákvæði ábúðarlaga eigi ekki við, hafnað, telji stefnandi engu að síður, að skilyrði ábúðarlaganna nr. 64/1976 fyrir uppsögn samningsins séu uppfyllt. Ábúð stefnda byggist þá á ótímabundnum samningi aðila, sem sé uppsegjanlegur samkvæmt efni sínu. Uppsagnarákvæði hins upprunalega samnings frá 1931 hafi verið áréttað í samningsviðauka frá 1988, eins og rakið sé hér að framan. Samkvæmt ákvæði 30. gr. laga nr. 64/1976 sé landeiganda heimil uppsögn ábúðar, sé um verulegar vanefndir leiguliða að ræða. Vanefndir leiguliða á ákvæðum samningsins hér séu verulegar, eins og áður sé rakið, og verður í því tilliti að líta til þess, að uppsagnarákvæði samningsins séu skýrlega orðuð, og heimild landeiganda til uppsagnar sé mjög þröng.
Stefnandi bendi einnig á, að stefndi hafi neitað að greiða leigu á þeirri forsendu, að hann hefði hefðað hið leigða land. Stefndi hafi þannig ásælzt 2 hektara af föðurarfleifð stefnanda án endurgjalds. Vanefndir stefnda á greiðslu leigugjaldsins séu því augljósar. Ákvæðið um úttektarmenn vísi til misnotkunar eða vanrækslu á landi. Ekki sé þörf á sérstakri úttekt á vanskilum stefnda, því hann hafi aldrei þrætt fyrir þau. Þvert á móti hafi hann stært sig af þeim og talið sig hafa hefðað hluta föðurarfleifðar stefnanda.
Stefnandi byggi á meginreglum kröfuréttarins um uppsögn viðvarandi samninga og sjónarmiðum um verulega vanefnd, svo og 30. gr. ábúðarlaga nr. 65/1976. Varnarþing styðjist við 3. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og leigusamning frá 1931. Krafa um málskostnað styðjist aðallega við 1. mgr. 130. gr. 1. nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda
Aðalkrafa stefnda er sú, að málinu verði vísað frá dómi og er sú krafa einungis hér til meðferðar.
Málsástæður stefnda í þessum þætti málsins eru þessar:
Á því sé byggt af hálfu stefnanda, að mál þetta sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt samkomulagi lögmanna og einnig með vísan til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Aldrei hafi verið samkomulag milli lögmanna þessa máls um varnarþing, þ.e. að þetta mál skuli reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, og því geti 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki átt við, hvað þetta mál varði.
Á hinn bóginn megi, samkvæmt 34. gr. laga nr. 91/1991, reka mál vegna fasteignar í þeirri þinghá, sem fasteignin sé í, þ.e. á fasteignarvarnarþingi. Um heimildarákvæði sé að ræða.
Aðilar þessa máls séu báðir búsettir í Kópavogi og beri því samkvæmt almennum varnarþingsreglum, sbr. 32. gr. laga nr. 91/1991, að reka mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjaness, en ekki fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, svo sem sóknaraðili hafi kosið að gera.
Í stefnu á dskj. nr. 1 segi um varnarþing: “Mál þetta skal höfða fyrir héraðsdómi Reykjavíkur skv. leigusamningi frá árinu 1931”.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum hinn 28. júlí 2005, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti Íslands með dómi í málinu nr. 365/2005, sbr. dskj. nr. 37, sé í málsástæðum stefnanda/sóknaraðila, m.a. kveðið á um, að “stefnandi kveðst höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til ákvæðis í upphaflegum samningi frá 1931.”
Í niðurstöðu hins kærða úrskurðar segi um þetta atriði:
“Þess ber að geta að fram kemur í niðurlagi samningsins frá 1931, að mál sem rísa kunni milli samningsaðila, skuli reka fyrir Gestarétti Reykjavíkur. Leyst verður úr því á síðari stigum málsins hver sé merking þessa hugtaks “Gestaréttur Reykjavíkur”.”
Ekki verði undan því vikizt, svo sem málsatvikum sé háttað í máli þessu, að huga nánar að þessu atriði við úrlausn þessa máls.
Gestaréttur Reykjavíkur sé ekki til samkvæmt gildandi réttarfarslöggjöf, og sé hvergi, eftir því sem bezt verði séð, í gildandi lögum að finna skilgreiningu á því, hvað Gestaréttur Reykjavíkur standi fyrir.
Í bók Einars Arnórssonar, Dómstólar og réttarfar, 1. hefti, útg. í Reykjavík árið 1911 (kostnaðarm. Jóh. Jóhannesson), sbr. dskj. nr. 41, sé m.a. kveðið á um, að það sé aðalreglan samkvæmt íslenzkri réttarfarslöggjöf, að öll einkamál séu flutt og dæmd eftir sömu reglum, nema sérstök heimild sé til annars. En sú heimild sé til um meðferð nokkurra ákveðinna mála, þ.m.t. Gestaréttarmál (bls. 7). Gestaréttarmeðferð mála hafi aðallega myndazt með venjunni, en muni þó hafa stoðir sínar í N.L. 1-22-19 og 4-8-1, enda helgi nokkur yngri lagaákvæði hana (bls. 45). Gestaréttarmeðferð verði eftir venju þeirri, sem hér á landi tíðkist, höfð í öllum einkamálum, er aðilar komi sér saman um hana eða sérstök lagaheimild sé til þess. Að öðrum kosti vísi dómstóllinn málinu frá (bls. 128-129). Þingbók Gestaréttar sé auka- og gestaréttarbók, þar sem í sé skráð það, sem gerist í auka- og gestaréttarmálum (bls. 134).
Í orðabók Menningarsjóðs, sbr. dskj. nr. 42, sé hugtakið Gestaréttur skýrt svo:
1.Réttarhöld þar sem annar aðili er utanhéraðsmaður eða útlendingur.
2.Dómstóll þar sem slík réttarhöld fara fram.
Með hliðsjón af framansögðu sé ljóst, að mál þetta verði ekki rekið fyrir Gestarétti Reykjavíkur. Ekki sé samkomulag um það milli málsaðila að reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Það verði ekki gert gegn vilja stefnda.
Á því sé byggt af hálfu stefnda, að þar sem málinu sé stefnt fyrir rangan dómstól, þ.e. varnarþingið sé ekki rétt í upphafi, skorti Héraðsdóm Reykjavíkur lögformlega heimild til þess að dæma í málinu, og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi.
Kröfu sína um frávísun málsins byggir stefndi jafnframt á því, að stefnanda hafi borið að stefna báðum þinglýstum eigendum Elliðahvamms, þ.e. varnaraðilanum, Þorsteini Sigmundssyni, og Guðrúnu Alísu Hansen, eiginkonu hans, sem sé þinglýstur eigandi lögbýlisins Elliðahvamms ásamt manni sínum og hafi verið þinglýstur eigandi þess, ásamt stefnda Þorsteini, um árabil, sbr. veðbókarvottorð frá árinu 1986, sbr. dskj. nr. 43.
Með því að stefnandi beini kröfum sínum að öðrum þinglýstum eiganda Elliðahvamms, sé hinum eigandanum fyrirmunað að gæta réttar síns.
Í þessu sambandi skuli áréttað, að í dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum hinn 9. desember 2004, í málinu nr. 477/2004: Þorsteinn Hjaltested gegn Guðrúnu Alísu Hansen og Þorsteini Sigmundssyni, sem staðfest hafi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 16. nóvember 2004 með vísan til forsendna, hafi verið staðfest, að borið hafi að synja um þinglýsingu yfirlýsingar sóknaraðila, (stefnanda í máli þessu) um uppsögn lóðaleigusamnings, sem stefna í máli þessu lúti fyrst og fremst að.
Vakin sé athygli á því, að ofangreint mál sé á milli málsaðila þessa máls og eiginkonu stefnda og þinglýsts eiganda Elliðahvamms og sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
IV
Forsendur og niðurstaða
Mál þetta er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til ákvæðis í leigusamningi milli Magnúsar Hjaltested, þáverandi eiganda jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, og Félags íslenzkra símamanna, gerðum í júlí 1931. Segir svo í samningnum, að “mál útaf samningi þessum skal rekið fyrir gestarétti Reykjavíkur.”
Almenna reglan er sú varðandi varnarþing, að mál er sótt á hendur aðila í þinghá, þar sem hann á skráð lögheimili eða fasta búsetu, sbr. 32. gr. eml. Samkvæmt 3. mgr. 42. gr. eml. er aðilum hins vegar heimilt að semja um meðferð máls í hverri þinghá sem er.
Gestaréttur Reykjavíkur er ekki lengur til. Gestarétturinn mun hafa átt stoð í Norsku lögum frá 1687, en einkum hafa byggzt á venju. Gestaréttarmeðferð var numin úr lögum með 224. gr. laga nr. 85/1936. Segir svo í greininni: “Gestaréttarmeðferð og einkalögreglumála er úr lögum numin. Þar sem slík meðferð er boðin eða heimiluð í lögum og þar sem til þessara meðferða er skírskotað eða fresta í sambandi við þær, gilda hinar almennu reglur um málsmeðferð og fresti eftir lögum þessum.”
Af þeim lögskýringargögnum, sem til eru um gestarétt, sýnist þar fyrst og fremst hafa verið átt við sérstaka málsmeðferð fyrir svonefndum gestarétti, sem laut einkum að því að ekki þurfti að leita sátta fyrir sáttanefnd í málum, sem komu fyrir gestarétt, heldur leitaði dómari málsins sjálfur sátta. Ákvæði um sáttanefnd hafa nú verið afnumin úr einkamálalögum.
Gegn andmælum stefnda, verður ekki fallizt á, að Héraðsdómur Reykjavíkur komi sjálfkrafa í staðinn fyrir gestarétt Reykjavíkur, þar sem ekki liggur fyrir óyggjandi samkomulag málsaðila þar um og verður sú niðurstaða ekki dregin af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um tilgang og verksvið gestaréttarins. Verður því að fallast á aðalkröfu stefnda í máli þessu og vísa því frá dómi.
Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Málinu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.