Hæstiréttur íslands

Mál nr. 470/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skilorð
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 5. júní 2014.

Nr. 470/2013.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.

Borgar Þór Einarsson hdl.)

(Guðrún Björg Birgisdóttir hrl.

Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. réttargæslumenn)

Kynferðisbrot. Börn. Skilorð. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni gagnvart frænku sinni, A, með því að hafa, er stúlkan var 12 til 14 ára, annars vegar ítrekað káfað á lærum, kynfærum og brjóstum hennar utan klæða og klipið í brjóst hennar utan klæða og hins vegar í eitt skipti myndað hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Var X einnig sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum ljósmyndir og myndskeið sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Loks var X sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni gagnvart systur sinni, D, með því að hafa á tilteknu tímabili eigi sjaldnar en tvisvar í viku káfað á kynfærum og brjóstum hennar innan og utan klæða. Á hinn bóginn var ekki talin komin fram fullnægjandi sönnun um að X hefði í eitt skipti látið A snerta kynfæri sín utan klæða eða að hann hefði haft við hana önnur kynferðismök með því að beita hana ólögmætri nauðung og nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni og var hann því sýknaður af þeim ákæruatriðum. Var háttsemi X talin varða við 2. mgr. 202. gr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en vegna ungs aldurs hans er brotin voru framin og þess dráttar sem orðið hafði á málinu þótti rétt að fresta fullnustu 5 mánaða af refsingunni skilorðsbundið í 3 ár. Þá var X gert að greiða A og D, hvorri um sig, 600.000 krónur í miskabætur auk þess sem honum var gert að sæta upptöku á myndefni og tölvum.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og einkaréttarkröfum vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann þess að refsing verði milduð, kröfu um upptöku hafnað og hann sýknaður af einkaréttarkröfum eða þær lækkaðar.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

D krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2009 til 20. nóvember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða vegna ákæruatriða samkvæmt 1. og 3. lið í I. kafla ákæru 19. júní 2012 og samkvæmt II. kafla hennar. Þá verður á sama hátt staðfest niðurstaða héraðsdóms um ákæru 13. desember 2012.

Þótt ekki verði vefengt mat héraðsdóms á trúverðugleika framburðar brotaþolans A verður ekki fram hjá því litið að hún og ákærði, sem eindregið hefur neitað sakargiftum, eru ein til frásagnar um þau atvik sem greinir í 2. og 4. lið I. kafla ákæru 19. júní 2012 og ekki eru fram komin önnur fullnægjandi gögn um það sem þá átti sér stað. Af þeim sökum og samkvæmt 108. gr., sbr. 1. mgr. 109. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði sýknaður af þessum ákæruatriðum.  

Ákærði hefur samkvæmt framansögðu unnið sér til refsingar fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram koma í héraðsdómi verður refsingin bundin skilorði eins og greinir í dómsorði.

Niðurstaða héraðsdóms um upptöku verður staðfest með vísan til forsendna hans.

Þegar litið er til þess að ákærði hefur verið sýknaður af sumum ákæruatriða og að teknu tilliti til gagna um miska A verður ákærði dæmdur til að greiða henni 600.000 krónur í skaðabætur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Þá verður ákvæði héraðsdóms um skaðabætur sömu fjárhæðar til handa A staðfest, en með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Ekki verður séð að óskað hafi verið eftir úrskurði dómara um fjárhæð þá sem dómkvaddur matsmaður krafðist fyrir störf sín, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008, og hefur ákærði verið sakfelldur fyrir þá háttsemi sem matið laut að. Með þessari athugasemd og með vísan til c. liðar 1. mgr. 216. gr., sbr. 1. mgr. 218. gr., laga nr. 88/2008 verður niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða helming af áfrýjunarkostnaði, þar með talið málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu 5 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.

Ákærði greiði D 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2009 til 20. nóvember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins sem alls nemur 1.075.355 krónum, en þar eru með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur og þóknun til réttargæslumanna brotaþola, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur og Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur, hæstaréttarlögmanna, 188.250 krónur til hvorrar um sig. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2013.

                Mál þetta, sem dómtekið var 1. mars 2013, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 19. júní 2012 á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot:

I.

                Hegningarlagabrot gagnvart A, kennitala [...], á tímabilinu frá september 2007 til október 2009, þegar stúlkan var 12-14 ára, á þáverandi heimili hans á [...], [...], og á heimili A að [...], [...], sem hér greinir:

  1. Kynferðislega áreitni, með því að hafa ítrekað káfað á lærum, kynfærum og brjóstum A innan og utan klæða, klipið í brjóst A utan klæða og í eitt skipti farið inn undir föt A og skrifað nafnið sitt á brjóst hennar.
  2. Kynferðislega áreitni, með því að hafa í eitt skipti látið A snerta kynfæri sín utan klæða.

                Teljast brot þessi varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Kynferðislega áreitni, ólögmæta nauðung og hótun, með því að hafa í eitt skipti myndað A á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en ákærði hélt stúlkunni niðri, lyfti bol hennar yfir brjóst, tók ljósmyndir af brjóstunum og hótaði að birta ljósmyndirnar á internetinu.

                Telst brot þetta varða við 2. mgr. 202. gr. og 225. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga, en til vara 209. gr. sömu laga.

  1. Kynferðisbrot, með því að hafa haft önnur kynferðismök við A með því að beita hana ólögmætri nauðung og nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni, en ákærði stakk ítrekað fingri sínum inn í kynfæri hennar og í eitt skipti í ágúst 2008 ýtti ákærði A niður og hélt henni á meðan hann klæddi hana úr buxunum og stakk fingri sínum inn í kynfæri hennar, hreyfði fingurinn og lét ekki af háttseminni þótt hún bæði hann um að hætta.

                Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

II.

                Kynferðisbrot, með því að hafa um nokkurt skeið fram til mánudagsins 1. nóvember 2010, á heimili sínu að [...], [...], haft í vörslum sínum í tveimur tölvum, 71 ljósmynd og 6 myndskeið sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. En myndirnar og myndskeiðin fundust við leit lögreglu sama dag.

                Telst þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er jafnframt krafist að framangreint myndefni og þær tölvur (munir nr. 330896 og 330898), sem lögregla lagði hald á, verði gerðar upptækar samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a.  laga nr. 19/1940.

Af hálfu B, kt. [...], og C, kt. [...], vegna ólögráða dóttur þeirra, A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 1.200.000 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 12. október 2010 til þess dags er mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu.

                Hinn 30. janúar 2013 var mál nr. S-1018/2012, sem var höfðað á hendur ákærða með ákæru útgefinni 13. desember 2012, sameinað þessu máli, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar er ákærða gefin að sök  kynferðisleg áreitni gagnvart systur sinni D, kennitala [...], á tímabilinu frá september 2007 til september 2010, þegar stúlkan var 9-12 ára, á þáverandi heimili þeirra á [...], [...], með því að hafa eigi sjaldnar en tvisvar í viku, káfað á kynfærum og brjóstum D innan og utan klæða.

                Þessi brot eru talin varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Af hálfu E, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hans, D, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 600.000 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 31. desember 2009 þar til mánuður er liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan, en dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga. Þá er krafist greiðslu þóknunar vegna réttargæslu.

                Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af báðum ákærum. Einnig er þess krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi, ella verði ákærði sýknaður af þeim eða bótakröfur lækkaðar. Jafnframt mótmælir ákærði upptökukröfu. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður, þar á meðal þóknun verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.

                Ákærði gerir eftirfarandi varakröfur vegna ákæru 19. júní 2012: Verði sakfellt fyrir sakargiftir í 1. og 2. tölulið I. kafla ákæru er gerð krafa um að horft verði til 2. málsl. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að refsing verði látin niður falla, ellegar að vægasta refsing verði ákveðin og hún verði skilorðsbundin. Verði sakfellt fyrir 3. tölulið I. kafla ákæru er gerð krafa um að verknaðurinn verði heimfærður undir 234. gr. almennra hegningarlaga og að ákærunni verði vísað frá en til þrautavara að háttsemin verði heimfærð undir 209. gr. almennra hegningarlaga og að refsing verði látin niður falla, ellegar að vægasta refsing verði ákveðin og hún verði skilorðsbundin en til þrautaþrautavara að horft verði til 2. málsl. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og að refsing verði látin niður falla ellegar að vægasta refsing verði ákveðin og hún höfð í skilorðsbundnu formi. Verði sakfellt fyrir sakargiftir í 4. tölulið I. kafla ákæru er gerð krafa um að horft verði til 2. málsl. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og að refsing verði látin niður falla ellegar að vægasta lögleyfða refsing verði ákveðin og hún verði skilorðsbundin. Verði sakfellt fyrir sakargiftir í II. kafla ákæru er gerð krafa um að refsing verði látin niður falla ellegar að refsing verði ákveðin í formi sekta.

Ákæra 19. júní 2012. Meint brot gegn A og vörslur barnakláms.

I.

                Í bréfi barnaverndarnefndar [...], dags. 22. september 2010, til lögreglu, segir að grunur væri um að A hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Í júlí 2008 hefði A farið að fá miklar magakvalir en sérfræðingar hefðu ekki fundið neitt að henni. Haustið 2009 hafi hún byrjað að fá heiftarleg kvíðaköst og í viðtali hjá skólasálfræðingi hafi komið fram að E, eiginmaður móðursystur hennar, sem er faðir ákærða, væri að slá í rass hennar og klípa í lærin þegar hún væri í heimsókn á heimili þeirra. Sálfræðingur hefði ráðlagt fjölskyldu A að hætta samskiptum við fjölskyldu ákærða og þau hafi gert það. Þá hafi orðið breyting á A og henni greinilega liðið betur. A hafi byrjað í [...]skóla í ágúst 2010 en hún hafi ekki viljað mæta aftur eftir fyrsta daginn. Hún hafi fundið fyrir miklu óöryggi og farið að líða aftur mjög illa. Sálfræðingur [...]skóla hefði rætt við hana og hún hafi þá greint frá því að ákærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í tvö til þrjú ár, en hann hefði káfað á brjóstum og kynfærum hennar innanklæða. Henni liði mjög illa, hún væri með sjálfsvígs­hugleiðingar og hún hafi verið í meðferð á BUGL.

                A gaf skýrslu hjá lögreglu 19. október 2010 þar sem hún greindi frá því að hún og ákærði hefðu orðið náin frændsystkini eftir að hún flutti í [...], en hann hafi búið í [...]. Hún kvaðst halda að ákærði hafi byrjað að misnota hana þegar hún hafi verið tólf ára, en þá hafi hann farið að halda henni niðri og gera ýmsa hluti. Hann hefði lyft upp bol hennar, tekið myndir af henni og hótað að setja þær á netið. Þá hafi hann farið í klof hennar og sett puttann inn. Einnig sagði hún að ákærði og faðir hans hefðu sífellt verið með kynferðislegt tal. Hún og ákærði hefðu haft sama áhuga á hljómsveitinni Jonas Brothers og þau hefðu oft hist til að horfa á hljómsveitina á netinu. Ákærði hefði sótt hana í [...]. Þegar þau hafi verið á netinu hafi ákærði oft farið að skoða myndir af stelpum á netinu. Eitt sinn hafi hann staðið upp, haldið henni niðri, hent henni í rúmið og meitt hana þar til hún gafst upp, en þá hafi hann lyft upp bolnum og tekið myndir á gsm-síma. Þetta hefði gerst í 8-10 skipti og hætt á árinu 2009. Hún kvaðst hafa haldið þessu út af fyrir sig vegna þess að það yrði sprenging í fjölskyldunni ef hún myndi segja frá þessu. Einnig sagði hún að ákærði hefði oft klipið í brjóstin á D, sem væri systir hans. Þá sagði A að ákærði hefði sagt að hún skyldi ekki segja neinum frá því sem hann gerði við hana og hann hefði gefið henni stórt plakat en hótað því að taka það aftur ef hún segði frá. Síðan hafi hann hótað því að taka plakatið ef hún myndi ekki gera ýmislegt. Eitt sinn hefðu þau verið í herbergi ákærða og hann hefði sest við hlið hennar og sett hönd hennar á pung hans, en hún hafi ekki viljað það. Ákærði hefði sett hönd hennar í klof hans og hún hafi fundið fyrir pung hans. Jafnframt skýrði hún frá því að ákærði hafi talað mikið um að þau ættu að vera saman, eignast börn og flytja til [...] og hann hafi verið afbrýðisamur þegar hún hafi eignast kærasta. Þá hafi ákærði sagt henni frá klámi sem hann skoðaði á netinu, m.a. barnaklámi. Enn fremur greindi hún frá atviki þar sem ákærði hefði stungið fingri sínum í leggöng hennar. Þetta hefði gerst heima hjá ákærða, en þau hafi ætlað að hittast til að horfa á „live-chat“ með Jonas Brothers. Líklega hafi þetta verið í ágúst 2008, eftir að plata með Jonas Brothers hafi komið út. Hún hafi verið í herbergi ákærða, sest á rúmið og lesið tímarit. Hann hefði þá komið að henni, ýtt henni niður og haldið henni niðri. Hann hefði meitt hana og klipið og farið með höndina niður. Hún hefði reynt að berjast á móti, öskrað á hann og sagt honum að hætta, en hann hafi engu svarað og haldið fastar. Hún kvaðst hafa verið klædd í gallabuxur. Hann hefði leyst buxurnar frá og farið með höndina inn undir og farið með fingurinn í leggöng hennar og hreyft hann. Þegar hann hefði hætt hafi hún rokið út úr herberginu og farið inn til systur hans. Hún sagði að ákærði hefði oft læst herberginu sínu og verið með lykilinn, þannig að hún kæmist ekki undan. Fáein tilvik hefðu gerst á heimili hennar, en alvarlegri tilvikin hefðu verið á heimili hans í [...]. Um líðan sína sagði hún að henni hafi liðið hræðilega vegna brota ákærða og hún vildi helst ekki lifa út af þessu og þetta hefði haft áhrif á skólagöngu hennar, en hún gæti ekki verið í fjölda. Hún sagði að ákærði hefði síðast brotið gegn henni í kaffiboði í tilefni af 17 ára afmæli ákærða, alla vega ekkert eftir nóvember 2009. Þá hafi hann tekið í brjóst hennar og tekið myndir. Nánar um það hvenær ákærði hafi byrjað að brjóta gegn henni sagði hún að það hafi líklega verið á árinu 2007, þegar hún hafi verið tólf ára.

                Hinn 28. september 2011 var tekin skýrsla af D fyrir dómi, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, vegna meintra brota ákærða gegn A. D greindi frá því að hún hefði séð ákærða taka myndir af brjóstum A, en það hafi annaðhvort verið afmæli í gangi eða þær hafi ætlað að gista saman. Þetta hefði verið í fyrra eða hitteðfyrra, ekki seinna en í febrúar 2010, en það gæti verið að hún væri að rugla árum saman. Þær tvær, ákærði og frændi þeirra F hefðu verið inni í herbergi ákærða og ákærði hafi talað kynferðislega við A, sagt hvað hún væri með sexí brjóst o.þ.h. Ákærði hefði beðið F um að halda A, ýtt henni og sest ofan á hana, en hún hafi legið í gólfinu. A hafi verið í kjól með engum hlýrum og hann hefði tekið niður kjólinn og tekið þrjár eða fjórar myndir á síma. F hefði ekki gert neitt. Einnig sagði D að þau hefðu séð ákærða eyða myndunum um hálftíma síðar. Enn fremur greindi D frá því að hún hefði oft séð ákærða káfa á A, á lærunum og brjóstunum, utanklæða.  

                Tekin var aftur skýrsla af D fyrir dómi hinn 6. desember 2012, sbr. a-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, vegna meintra brota ákærða gegn henni, sbr. ákæru 13. desember 2012. Þá var hún einnig spurð hvort hún hefði orðið vitni að því að ákærði hefði gert eitthvað við frænku þeirra, A, og skýrði hún þá frá atviki í herbergi ákærða, þegar það hafi verið afmæli eða þau hafi ætlað að gista saman. Ákærði hafi verið að sýna nýja iPhoninn sinn. Hann hefði látið A leggjast á gólfið og þau hafi eitthvað verið að slást. Hann hefði haldið henni þannig að hún hafi ekki náð að hreyfa hendur sínar og svo hefði hann tekið í bolinn hjá henni og tekið þrjár eða fjórar myndir af brjóstunum á henni. Þá sagði D að ákærði hefði oft strokið þeim um lærin og gripið í brjóst þeirra og stundum farið niður í klofið, utanklæða.

                Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 9. nóvember 2010. Í skýrslunni segir að þegar hann var beðinn um að tjá sig um sakarefnið hafi hann sagt að þetta hefði „eiginlega ekki átt sér stað“. Ákærði sagði að hann og A hefðu verið bestu vinir en svo hefði komið upp einhver rígur innan fjölskyldunnar, milli móður ákærða og móður A, en hann vissi ekki hvers vegna. Ákærði sagði að hann og A hefðu stundum verið í gamnislag og hann hefði þá kannski komið óvart við brjóst hennar eða tekið utan um hana. Aðspurður kannaðist ákærði við að hafa beðið A um að vera kærasta sín, en það hefði verið sagt í gríni. Hann hefði sagt þetta þegar strákur hefði gert grín að sér og sagt að hann væri hommi. Ákærði var spurður hvort hann hefði verið á rúntinum með A, kærasta hennar og frænda þeirra F og lagt hönd á læri A og sagði ákærði að það væri rétt, en þau hafi verið að leika sér að slá hvort annað. Enn fremur var ákærði spurður hvort hann hefði tekið myndir af A sem gætu talist kynferðislegar og sagði hann að það gæti verið, einu sinni, bara í djóki, og annað brjóst A hefði sést á myndinni. Nánar um atvik sagði ákærði að hann hafi verið að fíflast inni í herbergi með A og F. Ákærði hafi verið eitthvað að fíflast og annað brjóst A sést. Ákærði kvaðst hafa haldið utan um A, sem hafi verið í hlýrabol, og F hafi tekið myndina. Þetta hafi verið í janúar eða febrúar 2010, eða nóvember eða desember 2009. Ákærði kvaðst hafa eytt myndinni. Þegar ákærði var spurður hvort hann hefði hótað A að hann myndi setja kynferðislegar myndir af henni á netið svaraði ákærði játandi, en það hafi bara verið í djóki. Ákærði neitaði því að hafa komið við kynfæri A eða sett fingur í leggöng hennar. Spurður hvort hann hefði klipið í brjóst A kvaðst hann örugglega hafa gert það þegar þau hafi verið í gamnislag. Einnig var ákærði spurður hvort hann hefði tekið í hönd A og sett hana á getnaðarlim sinn, en hann neitaði því. Ákærði bætti við að oftast væri ekki kynæsingur í honum gagnvart A, hún væri nú bara frænka hans. Þá sagði ákærði að það væri rétt að hann hefði sagt við A að þau ættu að flytja saman til [...] og eignast börn saman, en það hafi bara verið sagt í djóki. Þetta hafi verið á árinu 2008 eða 2009. Ákærði var þá spurður hvort honum þætti ekki skrýtið að segja svona við unga frænku sína og sagði ákærði þá að hún hafi ekkert verið það ung á þessum tíma. Hún skildi alveg hvað þetta væri og svona. Þau hefðu alveg talað saman um kynlíf. Ákærða var kynntur framburður A hjá lögreglu um að hann hefði í tölvu sinni m.a. barnaklám og sagði ákærði að það hafi alveg verið myndir inni í tölvu hans sem væru vafasamar en það væri ekki af því hann vildi sjá þær, heldur hafi það verið vegna þess að hann hefði verið að gera við tölvur annarra og tekið afrit af þeim. Það gæti vel verið að það væri barnaklám í tölvu hans en það væri þá frá öðrum komið. Ákærði kvaðst hafa rætt klám við A en ef hún hafi ekki viljað heyra slíkt þá hafi hann ekki gert það þó að hann hafi alveg ýtt aðeins undir það, þá hafi það ekki verið neitt alvarlegt. Spurður hvenær hann hafi talað um klám við A sagði hann að það hefði verið á árinu 2008 eða 2009.

                Ákærða var kynnt að A hefði greint frá því að hann hefði beitt systur sína, D, kynferðislegu ofbeldi, m.a. hafi hann káfað á brjóstum systur sinnar og sagt að hann þyrfti að bera brjóst stúlknanna saman. Ákærði sagði að þetta væri alveg satt en í öllum þeim tilvikum hafi þetta allt verið í djóki. Ákærði kvaðst halda að þetta hafi verið í lok árs 2009 eða byrjun árs 2010. Jafnframt var ákærða kynnt að A hefði greint frá því að ákærði væri mjög upptekinn af því að þau ættu að stofna fjölskyldu saman og hann hafi sagt þetta við móður hennar. Ákærði svaraði því til að líklega hafi þetta verið sagt í djóki, í tengslum við grein á Vísi.is um að fólk í fjórða ættlið hefði gengið í hjónaband. 

II.

                Fyrir liggur vottorð G, uppeldis- og afbrotafræðings, dags. 10. júlí 2012, vegna 19 viðtala við A á tímabilinu 29. nóvember 2010 til 8. júní 2012. Í niðurstöðu vottorðsins segir að A hafi átt við mikla andlega erfiðleika að stríða. Líðan hennar hafi verið mjög slæm allan þann tíma sem hún hafi verið í meðferðarviðtölum og BUGL hafi í þrígang komið að málefnum stúlkunnar. Hún hafi ekki náð þeim bata sem ætla mætti miðað við fjölda viðtala og hún hafi byrjað og hætt á lyfjum. Hún hafi náð ákveðnum árangri fram til sumars 2011 en þá hafi hún hrapað niður í mikla vanlíðan og það sem hefði áunnist með meðferðinni hafi hrunið til grunna. Ábyrgðarkennd hennar væri mjög mikil og hún tæki nærri sér hversu miklir brestir hefðu komið í fjölskylduna eftir að hún sagði frá meintu broti. Hún telji að það sé sér að kenna og hún hafi miklar áhyggjur af afa sínum og ömmu, sem geri það að verkum að hún eigi erfitt með að slaka á í daglegu lífi. Þá hafi biðin eftir niðurstöðu í málinu aukið á kvíða hennar og hún eigi erfitt með hugsanir í tengslum við aðalmeðferð í málinu. Að lokum segir í vottorðinu að mikilvægt sé að hún mæti áfram í viðtöl þar til líðan hennar verði betri. Þá þurfi hún að vera á lyfjum til að nýta sér meðferðina.

III.

                Að kröfu ákærða var dómkvaddur matsmaður, H, til að svara eftirfarandi spurningum vegna II. kafla ákærunnar, um vörslur barnakláms:

  1. Er á tölvunni vírusvarnarforrit eða annar sambærilegur hugbúnaður, sem hreinsar af tölvunni trójuhesta, njósnabúnað eða önnur forrit sem kunna að veita utanaðkomandi óheimilan aðgang að tölvunni?
  2. Í gögnum um skrárnar, sem ákæruvaldið hefur lagt fram í málinu, segir að „Last Accessed“ og „File Created“ (sbr. annar og þriðji dálkur frá vinstri í töflu á bls. 7-11 í gögnum ákæruvaldsins) beri ávallt upp á sama tímapunkti. Getur matsmaður lagt mat á hvort umræddar skrár hafi nokkurn tímann verið opnaðar í tölvunni?
  3. Getur matsmaður lagt mat á hvenær umræddar skrár komu fyrst inn í tölvuna?
  4. Getur matsmaður lagt mat á hvernig umræddar skrár komu fyrst inn í tölvuna?
  5. Getur matsmaður séð hvort notað hafi verið forritið „Torrent“ við að sækja skrárnar?
  6. Getur matsmaður lagt mat á hvort hugsanlegt sé, að umræddar skrár hafi vistast í tölvunni, án þess að eigandi hennar hafi sjálfur sótt þær, t.d. með því að utanaðkomandi aðilar hafi getað sett myndir, sem ákært er fyrir, á tölvuna án þess að eigandi hennar hafi samþykkt eða vitað af?
  7. Er mögulegt, þegar sóttar eru skrár með forritinu Torrent, að þær myndir sem ákært er fyrir hafi slæðst með öðrum gögnum sem notandi sótti án þess að hann vissi af?
  8. Eru einhver merki um að það sem spurt er um í g-lið hafi gerst á þeim tölvubúnaði sem til skoðunar er?
  9. Getur matsmaður lagt mat á hvort mögulegt sé, að umræddar skrár hafi vistast í tölvunni, fyrir þær sakir að vírus hafi verið í tölvunni? Eru einhver merki um það?

                Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 648/2012, vegna ágreinings um dómkvaðningu matsmanns, var mælt fyrir um að matsmaður ætti að svara þeim spurningum er í matsbeiðni greinir án þess að semja skriflega matsgerð, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008. Þess í stað skyldi matsmaður að lokinni rannsókn sinni mæta fyrir dóm áður en aðalmeðferð málsins færi fram og gefa þar skýrslu um niðurstöðu matsins.

                Matsmaður, H, gaf skýrslu fyrir dómi 14. desember 2010. Hann kvaðst hafa skoðað tvær tölvur sem lögregla lagði hald á hjá ákærða, fartölvu og stærri tölvu (turntölvu). Um a-lið matsbeiðninnar sagði matsmaður að fartölvan hefði verið með tvenns konar stýrikerfum og það hafi verið flóknara að skoða hana. Annað stýrikerfið í henni hafi verið læst og ekki hægt að skoða það. Á hinu stýrikerfinu hafi ekki verið vírusvarnarhugbúnaður og á þeim hluta hafi verið ný uppsetning og í raun enginn hugbúnaður, bara stýrikerfið Windows. Hefðbundnar stillingar hafi verið í tölvunni eins og eldveggir, sem verji tölvu fyrir utanaðkomandi aðgangi, upp að vissu marki. Á stærri tölvunni hafi verið vírusvarnarhugbúnaður og vírusvörnin hafi verið vel uppfærð og hún stillt þannig að hún færi í gang vikulega og hreinsaði tölvuna af vírusum. 

                Um það álitaefni sem greinir í b-lið, hvort skrár í tölvum ákærða, sem innihéldu barnaklám, hefðu einhvern tímann verið opnaðar sagði matsmaður að tímastimpill í Windows-stýrikerfinu, þar sem fram kemur „Last Accessed“ og „File Created“ hafi verið óvirkur. Matsmaður kvaðst hafa farið yfir lista af skrám sem fundust á báðum tölvum ákærða og þar hafi verið skrár sem fundust á báðum tölvunum. Allt í allt hafi 10 skrár fundist á turntölvu og hörðum diski sem var tengdur inni í henni. Á þeim diski hafi fundist 59 ljósmyndir og 4 myndbönd, en þar af hafi verið 10 ljósmyndir sem fundust líka á fartölvunni. Þessar 10 ljósmyndir hefðu fundist í stýrikerfi sem hafi verið búið að eyða út. Fartölvan hafi því greinilega verið sett upp nokkrum sinnum og þessar myndir hefðu verið í gamalli útgáfu af Windows. Matsmaður kvaðst hafa séð merki um það í fartölvunni að tvær skrár hefðu verið opnaðar, með tveimur myndböndum sem hefðu tímastimpil. Önnur skráin hafi heitið „Laura anal.mpg“ og hún hafi verið búin til 4.9.2010 kl. 21:30:43, síðast opnuð á sama tíma en önnur dagsetning væri á „síðast breytt“. Þessa skrá hafi líka verið að finna á tveimur stöðum, með mismunandi dagsetningum. Það gefi til kynna að skráin hafi verið flutt á milli svæða innan tölvunnar. Matsmaður kvaðst einnig hafa fundið vísbendingar um að annað myndband hefði verið flutt á milli skráarsvæða innan sömu tölvu með heitinu „Dau kleuterkutje.mpg“. Þegar hann hefði svo skoðað framangreindar 10 ljósmyndir, sem hefðu fundist í báðum tölvunum, hefði komið í ljós að þær voru með mismunandi dagsetningum. Þannig hafi verið vísbendingar um að skrár hefðu verið opnaðar og í turntölvunni hafi verið tiltekin ljósmynd sem hafi verið opnuð með internet explorer, en ekki væri hægt að segja til um nákvæma tímasetningu heldur tímabil sem væri frá 20.10. til 1.11. 2010. Það sama ætti við um aðra tilgreinda ljósmynd. Myndbönd í turntölvunni hefðu verið opnuð með hugbúnaðinum Windows Media Player, en ekki væri hægt að segja til um tíma. Þetta myndband hefði heitið „Laura-anal.mpg“. Það sama ætti við um skrá með heitið „boy fucks girl kiddie“ en það hefði verið opnað tvisvar sinnum. Matsmaður kvaðst því geta fullyrt að þessar skrár hefðu verið opnaðar. Aðspurður sagði hann að flutning á skrám milli tölva ákærða hafi þurft að gera handvirkt. Tæknilega séð væri hægt að búa til forrit til að gera það ekki, en afar ólíklegt væri að það ætti við hér, sérstaklega í ljósi þess að skrár hafi verið á tveimur stöðum í sömu tölvunni og tímastimplar á skránum í tölvunum hafi verið mismunandi.

                Ekki væri hægt að segja til um það hvenær eða hvernig umræddar skrár hefðu fyrst komið inn í tölvurnar, sbr. spurningar í c- og d-lið, að undanskilinni einni skrá sem hafi verið sótt af heimasíðunni 4chan.org, en það væri síða sem væri notuð til að deila ljósmyndum og myndefni. Matsmaður kvaðst hafa prófað heimasíðuna og sett ljósmynd á hana og það væri hægt að gera það nafnlaust. Myndin hafi heitið „risk“ en þegar henni hafi verið hlaðið á síðuna hafi nafn hennar breyst í talnarunu, eins og myndir í máli þessu. Inni á fartölvunni hefði hann fundið staðfestingu á því að skrá með tilteknu númeri hefði verið opnuð af þessari heimasíðu, en ekki væri hægt að segja hvenær.

                Um spurningu í e-lið sagði matsmaður að ekki væri hægt að sjá neinar vísbendingar um að forritið Torrent hefði verið notað til að sækja umræddar skrár.

                Hvað varðar f-lið sagði matsmaður að fræðilega séð væri mögulegt að vista skrárnar í tölvunni, án þess að eigandinn hefði sjálfur sótt þær, með því að koma fyrir troju-hesti eða hugbúnaði sem fjarstýri tölvunni. Matsmaður taldi þetta hins vegar afar ólíklegt og langsótt. Spurður hvernig væri hægt að sjá í tölvum hvort slíkum búnaði hafi verið komið fyrir sagði hann að það væri erfitt að finna slíkt og það þyrfti mjög sérhæfðan aðila til þess. Hann kvaðst vinna við það að gera einmitt þetta, en hann hefði unnið við að setja inn hugbúnað í tölvur til að kanna varnir viðskiptavina. Það væri flókið að fela hugbúnað sem þennan vel og þegar slíkt gerist væri um mjög háþróaðar og hnitmiðaðar árásir að ræða og þær væru mjög sjaldgæfar. Hann teldi því afar ólíklegt og langsótt að slík árás hafi verið gerð á tölvur ákærða.   

                Þá sagði matsmaður að svarið við spurningu í g-lið væri það sama og vegna e-liðar, þ.e. ekki væru vísbendingar um að umræddar skrár hefðu slæðst með gögnum sem sótt hafi verið með Torrent. Svarið við h-lið væri því einnig neitandi.  

                Um i-lið sagði matsmaður að fundist hefðu merki um 12 vírussmitaðar skrár í tölvunni en það segi ekki til um það hvort tölvan sjálf hafi verið smituð og ekki hefðu fundist vísbendingar um það.     

IV.

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

                Ákærði neitaði öllum sakargiftum samkvæmt ákæru 19. júní 2012.

                Ákærði tjáði sig um atvik í 3. tölulið I. kafla ákærunnar og sagði að þau hafi verið að fíflast og F hafi verið með síma ákærða og tekið myndir. Ákærði kvaðst hafa flogið á hausinn og þurft að grípa í eitthvað og hann hafi gripið í A og þá hafi náðst mynd af hluta af öðru brjósti hennar, þegar F var að taka myndir. Myndin hafi verið óskýr og ekki hægt að sjá hvað væri á henni. Þá sagði ákærði að öllum myndunum hefði verið eytt. Spurður hvort hann hefði hótað því að setja mynd af A á internetið sagði ákærði: „Ég sagði bara svona þú veist á maður að setja þetta á internetið eða.“ A hafi sagt honum að láta ekki svona og flissað. Ákærði hafi svo sagt að hann hafi verið að grínast og eytt myndunum. Ákærði neitaði því að hafa haldið A niðri. Ákærði hélt að þetta hefði gerst í febrúar 2010.

                Ákærði greindi frá því að hann hefði fengið bílpróf þegar hann varð 17 ára, þ.e. í [...] 2009, og hann hafi keypt sér bifreið rétt áður, Hondu, sem hafi verið rauð að lit. Hann hefði átt þá bifreið fram til júní 2010, en þá hafi hann eignast bláan VW Golf. Ákærði sagði að það hefði einu sinni komið fyrir að hann hafi keyrt A heim, annars hefði hann ekkert keyrt hana eða sótt á heimili hennar í [...]. Hann neitaði því að hafa oft verið á rúntinum með A. Ákærði var spurður út í bílferð sem vitni hafa lýst þar sem ákærði hafi sett hönd sína á læri A og sagði ákærði að hann og F hefðu verið á leið í [...] og A vantað far. Atvik í bifreiðinni hefðu verið þau að A hefði slegið í læri ákærða og hann hefði slegið til baka. Það hefði ekki verið neitt meira en það.

                Ákærði neitaði því að hafa horft oft á „live chat“ með hljómsveitinni Jonas Brothers ásamt A nema einu sinni, í ágúst 2008, og faðir ákærða hafi verið viðstaddur í herberginu allan tímann. Einnig sagði ákærði að hann hefði ekki haft lykil að herbergi sínu. Jafnframt greindi ákærði frá því að upp hefði komið deila milli fjölskyldu hans og fjölskyldu A og sálfræðingur hefði sagt að þau ættu að hætta að vera í sambandi. Ákærði hefði eftir það hitt A miklu sjaldnar, í bænum eða hjá ömmu og afa þeirra. Þá greindi ákærði frá því að hann hefði hitt A á [...] sumarið 2010. Hún hefði kallað á hann og faðmað hann. Þau hefðu spjallað aðeins saman og svo haldið í sitt hvora áttina. Einnig sagði ákærði að hann hafi byrjað í september 2010 að vinna eftir hádegi og hann hefði eiginlega aldrei hitt D í hádeginu heima. Ákærði kvaðst ýmist hafa verið sofandi eða farinn þegar hún kom heim í hádeginu.

                Ákærði var m.a. spurður um framburð sinn hjá lögreglu 9. nóvember 2010, um að hann hefði komið við brjóst A þegar þau hafi verið í gamnislag, og sagði ákærði að það hafi ekki verið á kynferðislegan hátt. Borinn var undir hann framburður hans um að það gæti verið að hann hafi einu sinni tekið mynd af A sem gæti talist kynferðisleg, hann hafi verið að fíflast, haldið utan um A og annað brjóst hennar sést. Ákærði sagði að þetta hafi verið það sem hann hefði lýst fyrir dóminum. Ákærða var þá bent á að hann hefði sagt að hann hefði dottið og gripið í A og sagði ákærði að þegar hann hafi dottið hafi hann tekið utan um hana og hún dottið niður með honum. Spurður hvort hann hefði oft klipið í A svaraði ákærði játandi og sagði að hún hefði klipið hann. Hann neitaði því að hafa klipið í brjóst hennar. Ákærða var þá kynntur framburður hans hjá lögreglu um að hann hefði sagt hjá lögreglu að hann hefði örugglega klipið í brjóst hennar þegar þau hafi verið í gamnislag og sagði ákærði þá að þegar manneskjur væru að klípa hvor aðra viti maður ekki hvar maður klípi og hann hefði aldrei gert það á kynferðislegan hátt. Spurður hvort hann hafi einhvern tímann borið saman brjóst D systur sinnar og A sagði ákærði að hann hefði einu sinni nefnt það vegna þess að A hafi verið með lítil brjóst. Ákærða var bent á að hjá lögreglu sagði hann að í „öllum þessum tilvikum“ hafi þetta verið í djóki og sagði ákærði að hann myndi ekki eftir nema einu skipti. Inntur eftir því hvort hann hefði haft á orði að hann vildi eiga í ástarsambandi við A sagði ákærði að hann hefði heyrt frétt um að frændsystkini hefðu gift sig og hann hefði eitt sinn eftir bíó í djóki spurt móður A hvað hún myndi segja ef hann og A myndu byrja saman og stofna fjölskyldu og móðir hennar hafi sagt að hún gæti ekkert gert í því og ekkert væri að því. Ákærði sagði að þetta hefði verið eina skiptið sem hann hafi sagt eitthvað svona og hann neitaði því að hafa sagt nokkuð þessu líkt við A. A hafi hins vegar verið viðstödd þegar hann sagði þetta við móður hennar.        

                Brotaþoli A sagði að ákærði hefði káfað á sér og látið hana snerta hann. Brotaþoli var spurð hvar ákærði hefði snert hana og svaraði hún að hann hefði snert hana á brjóstum og píku. Í flestum tilvikum hefði þetta gerst á heimili ákærða. Brotaþoli sagði að ákærði hefði byrjað að brjóta á sér 2006 eða 2007 og hann hafi hætt því á árinu sem hún hafi orðið fjórtán ára. Brotaþoli var spurð hvort ákærði hefði skrifað á hana og sagði vitnið að hann hefði klipið hana, teiknað á hana og látið hana gera ýmislegt við hann, eins og að fara inn á kynfæri hans. Brotaþoli kvaðst ekki muna eftir því að hann hefði skrifað á brjóst hennar. Brotaþola var þá kynntur framburður F um þetta og kvaðst vitnið ekki muna eftir þessu. Ákærði hefði aðallega skrifað á hendur hennar. Brotaþoli sagði að eitt sinn hefði ákærði beðið F um að halda höndum hennar þannig að hún næði ekki að streitast á móti og ákærði hafi tekið frá bol hennar, þannig að það hafi sést í brjóst hennar, og tekið mynd. Ákærði hafi sagt að hann ætlaði að setja mynd á netið en hún hefði ekki tekið því alvarlega og ekki haft áhyggjur af því. Innt eftir því hvort ákærði hefði haldið brotaþola niðri sagði hún að hann hefði alltaf gert það. Brotaþoli greindi frá því að ákærði hefði tvisvar sett fingur í leggöng hennar. Hann hefði setið ofan á henni þannig að hún hafi ekki getað hreyft sig og farið inn fyrir buxur hennar og sett fingur í leggöngin. Brotaþoli kvaðst alltaf hafa beðið ákærða um að hætta. Spurð hversu oft ákærði hefði káfað á henni kvaðst hún að hafa verið mikið inni á heimili ákærða og þetta hafi að meðaltali verið þrisvar eða fjórum sinnum í viku. Ákærði hefði aðeins í eitt skipti tekið mynd af brjóstum hennar. Um atvik í bíl ákærða sagði brotaþoli að hann hefði tekið utan um læri hennar, innanvert, en hún hafi setið frammi í hjá honum. Hún kvaðst hafa tekið hönd hans frá. Fram kom hjá brotaþola að þetta hefði gerst í fyrsta bílnum sem ákærði átti, sem var rauður með hvítum röndum. Um ástæðu þess að brotaþoli sagði ekki strax frá brotum ákærða kvaðst hún ekki hafa haft kjark til þess og vegna þess að það myndi sundra fjölskyldunni. Þá skýrði brotaþoli frá því að hún hefði verið ung og ákærði hefði sagt að ef hún segði frá þá myndi hann taka af henni plakat sem hún hafi þráð og hann hafi látið hana fá. Brotaþoli kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hefði talað um að hann ætti barnaklám.

                Brotaþoli var spurð af verjanda hvernig hún hafi komist til og frá heimili ákærða, þar sem hún hafi búið í [...] og hann í [...], og sagði hún að eftir að ákærði fékk bílpróf hafi hann sótt hana en fram að því hafi móðir hennar keyrt hana og einnig hafi verið hægt að taka rútu. Brotaþoli var einnig spurð af hverju hún hafi verið mikið á heimili ákærða þrátt fyrir meint brot ákærða og sagði hún að hann hefði verið besti vinur hennar eftir að hún flutti í [...] og hann hafi í fyrstu verið góður við hana. Brotaþoli var beðin um að lýsa atviki þegar hún hitti ákærða á [...] og sagði hún að þau hefðu heilsast en svo hafi hún labbað í burtu og amma hans og afi hafi verið nálæg. Einnig var brotaþoli spurð af hverju hún hafi ekki sagt frá meintum brotum ákærða á sama tíma og hún kvartaði undan föður ákærða og kvaðst hún ekki hafa haft kjark til að segja frá brotum ákærða og hún hefði á sínum tíma, vegna ungs aldurs, í raun ekki borið skynbragð á að faðir ákærða hefði brotið gegn henni. 

                Um líðan sína sagði brotaþoli að sér hefði liðið hræðilega. Fjölskyldan væri sundruð og brotaþoli væri búin að reyna sjálfsmorð þrisvar sinnum og hefði verið í meðferð á BUGL. Hún gæti ekki sofið og ekki stundað skóla og ætti ekkert félagslíf.

                Vitnið B, móðir brotaþola A, kvaðst hafa fengið símtal frá fyrrverandi kærasta A, I, í september eða október 2010. I hefði sagt vitninu að A hefði verið misnotuð af ákærða og vitnið hefði þá lagt fram kæru á hendur ákærða. Vitnið sagði að A hefði ekki sagt sér mikið um það hvað hefði gerst, en hún hafi ekki treyst sér til að tala um það við vitnið. A hefði nefnt að ákærði hefði klipið í brjóst hennar og þuklað hana um læri og rass. Einnig hefði hún nefnt að hafa séð barnaklám í tölvu ákærða. Fram kom að A og I hefðu byrjað saman í mars eða apríl 2010.

                Um líðan A sagði vitnið að mikil breyting hefði orðið á henni. Í kringum nóvember 2009 hafi skólinn farið að dala hjá henni og hún fengið kvíðaköst og verið sett á lyf. Á þessum tíma hafi ekki verið vitað að ákærði hefði brotið gegn henni. Jafnframt sagði vitnið að A væri búin að vera mjög langt niðri alveg frá því að þetta komst upp og hún hafi verið á BUGL og í meðferð hjá Barnahúsi. Þá hafi hún talað um sjálfsvíg.    

                Spurt um fjölskyldudeilur sagði vitnið að þær tengdust ekki ákærða, heldur föður ákærða, en hann hafi átt það til að ganga fulllangt gagnvart kvenfólki. Hann hafi t.d. togað aftan í brjóstahaldara, potað og viðhaft óviðurkvæmileg orð. Vitnið kvaðst hafa hætt að hafa samskipti við fjölskyldu ákærða í nóvember 2009, en börnin hefðu hins vegar haldið áfram að hittast. 

                Vitnið [...] F [...], kallaður F, greindi frá því að hafa verið eitt sinn inni í herbergi ákærða þegar hann hafi verið að káfa á A og sagt að hún væri kærasta sín. Ákærði hefði káfað á brjóstum hennar og ætlað að girða niður  bol hennar og taka myndir af henni. Spurt hvort ákærði hefði náð að taka mynd kvaðst vitnið halda að honum hefði ekki tekist það, en hann hefði smellt af. Um það hvort ákærði hefði haldið A niðri sagði vitnið að hún hefði streist á móti en það hafi ekki beint þurft að halda henni niðri. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða taka niður bol hennar en vitnið hefði ekki séð hvort brjóst hennar hafi sést þar sem hún hafi snúið baki í vitnið. Jafnframt sagði vitnið að sér hefði fundist þetta atvik ógeðslegt. Vitninu var kynntur framburður ákærða fyrir dómi um að hann hefði dottið, gripið utan um A og þá hafi vitnið tekið mynd og sagði vitnið að þessi framburður væri fráleitur.  Jafnframt sagði vitnið að enginn hafi fengið að snerta símann hans, sem hafi verið nýr iPhone. Vitnið var spurt hvort ákærði hefði hótað að setja mynd af A á internetið og sagði vitnið að hún hefði sagt sér það, en ákærði hefði ekki sagt það fyrir framan vitnið. Vitnið sagði að þetta atvik hefði átt sér stað á árinu 2009 eða 2010.

                Þá greindi vitnið frá atviki heima hjá ákærða þar sem ákærði hafi verið að árita brjóst A og tekið bol hennar aðeins niður. A hefði streist aðeins á móti en svo gefist upp þar sem ákærði hafi ekki hætt. Vitnið kvaðst halda að þetta hafi verið á árinu 2010 eða 2009.  

                Enn fremur greindi vitnið frá atviki sem hefði gerst í bíl. Ákærði hafi setið frammi í og A aftur í og ákærði hefði teygt sig aftur og strokið læri hennar upp og niður. Aðspurður sagði vitnið að það hafi verið gert á kynferðislegan hátt og A hefði alltaf ýtt hendi ákærða frá. Vitnið hélt að atvik þetta hefði gerst á árinu 2010 og umræddur bíll hafi verið blár VW Golf.

                Fram kom hjá vitninu að það hefði verið í miklum samskiptum við ákærða á árunum 2009 og 2010 og vitnið hefði gist hjá honum um tvisvar í mánuði.  

                Vitnið I, fyrrverandi kærasti A, sagði að A hefði greint sér frá því að ákærði hefði tekið myndir af henni, sem hafi verið geymdar í tölvu hans, en hann hefði tekið upp bol hennar og tekið mynd af brjóstum hennar. Einnig hefði hún talað um að ákærði hefði káfað á brjóstum og kynfærum hennar. Vitnið greindi frá atviki í bíl, bláum VW Golf, þar sem ákærði hefði strokið læri A þegar þau hafi verið á rúntinum og hann hafi spurt hvort þetta væri ekki í lagi. Á þeim tíma hafi A ekki verið búin að segja vitninu að hann hefði brotið gegn henni. Vitnið var spurt hvort því hefði fundist háttsemi ákærða hafa verið kynferðisleg og sagði vitnið að hann hafi vitað að ákærði væri frændi hennar en eftir á séð hafi þetta verið kynferðislegt. Fram kom að í bílnum hafi verið ákærði og A, sem hefðu setið frammi í, og vitnið og F sem hefðu setið aftur í. Vitnið kvaðst hafa verið með A í eitt og hálft ár en það gæti ekki sagt hvenær þau hefðu byrjað saman og hvenær þau hefðu hætt saman.

                Vitnið E, faðir ákærða, var spurt hvort það kannaðist við að ákærði hefði horft á „live chat“ hjá hljómsveitinni Jonas Brothers og kvaðst vitnið hafa verið viðstatt slíkt í herbergi ákærða í tvö skipti og ekkert óeðlilegt hefði gerst.

                Vitnið G, forstöðumaður Barnahúss og uppeldis- og afbrotafræðingur, greindi frá því að hafa hitt A í 22 viðtölum. Þegar vitnið hefði fyrst hitt A hafi hún verið með gríðarlegan kvíða og þunglyndi. Hún hafi verið nýkomin af BUGL og farið aftur þangað fljótlega þar sem vitnið hefði merkt að vanlíðan hennar hafi verið gríðarleg. Þá hafi A verið með sjálfsásakanir og skömmustukennd í mjög miklum mæli, en það væri einkennandi fyrir þolendur kynferðisbrota. Jafnframt sagði vitnið að A tengi líðan sína við að ákærði hafi brotið gegn henni. Fram kom hjá vitninu að farið hafi verið yfir áfallasögu A, en hún hafi misst bróður sinn þegar hún var fimm ára gömul og hún hafi gengið í gegnum ákveðna sorg vegna þess. Þá sagði vitnið að það skipti miklu máli að ákærði hafi verið eini vinur A, þau hafi átt saman áhugamál og hún hafi litið upp til hans. Samband þeirra hafi svo þróast í ofbeldi sem hafi orðið grófara og grófara. A hafi upplifað niðurlægingu og skömm, sérstaklega þegar ákærði hafi girt niður bol hennar fyrir framan F, frænda þeirra. Fram kom hjá vitninu að ungir þolendur geti frosið í aðstæðum sem þessum og þeir geti ekki bjargað sér. Einnig sagði vitnið að það væri þekkt meðal þolenda kynferðisbrota að þeir leiti í áfengi vegna þess að það deyfi og BUGL hafi ekki viljað meðhöndla hana með lyfjum vegna þess að hún hafi drukkið áfengi. Í janúar 2012 hafi hún svo byrjað að taka lyf. Jafnframt sagði vitnið að kvíði hefði aukist hjá A fyrir aðalmeðferð í málinu. Þá sagði vitnið að erfitt væri að segja til um framtíðarhorfur A. Spurt um áhrif framkomu föður ákærða gagnvart A, eins og að toga í brjóstahaldara hennar og viðhafa klámfengið orðalag, sagði vitnið að það hafi meira verið óþægindatilfinning sem hún hafi haft vegna þess. 

                Vitnið J amma ákærða, greindi frá því að hafa verið á [...] og A hefði kallað á ákærða og spurt hvort hann ætlaði ekki að heilsa henni. Svo hefði A faðmað ákærða og vitnið. 

                Vitnið K rannsóknarlögreglumaður sagði að rannsókn á tölvum ákærða hefði leitt í ljós að mappa með heitinu „[...]“, sem innihélt barnaklám, kynni að hafa verið afrituð beint af diski sem stýrikerfið var á og að þessi gögn væru frá ákærða. Einhverjar möppur hefðu ekki haft beina skírskotun til ákærða en þær hefðu ekki heldur haft skírskotun í neinn annan. Vitnið taldi skýringu ákærða, um að efnið hafi komist í tölvur ákærða þegar hann hafi verið að gera við annarra manna tölvur, vera nánast útilokaða.

V.

                Af hálfu ákærða var lögð fram skrifleg greinargerð vegna umræddrar ákæru, frá 19. júní 2012, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem hann neitar sök.       

                Í greinargerðinni er því haldið fram að 1. töluliður í I. kafla og framsetning hans sé um margt óskýr og óljós, en engir afmarkaðir atburðir eða nánari tímasetningar liggi fyrir, að undanskilinni almennri afmörkun tímabilsins september 2007 til október 2009. Hvað staðsetningu varðar sé eingöngu vísað til þess að brotin hafi átt sér stað á heimilum ákærða annars vegar og A hins vegar. Þetta sé verulegur annmarki sem geri ákærða erfiðara um vik að verjast ákærunni. Þá segir ákærði að í framburði A komi fram sú almenna lýsing að þau hafi oft hist og hann hafi náð í hana, en þetta gangi ekki upp því ákærði hafi ekki orðið 17 ára fyrr en [...] 2009. Eina tilvikið sem sé sérstaklega afmarkað í umræddum tölulið sé það að ákærði eigi að hafa farið í eitt skipti undir föt A og skrifað nafn sitt á brjóst hennar. Ákærði hafni þessu alfarið og hvergi sé minnst á þetta tilvik í framburði A sjálfrar, heldur virðist það eingöngu byggjast á frásögn vitnisins F. 

                Annað tilvik sem getið sé um í gögnum málsins, en ekki sérstaklega í ákærunni, sé að ákærði eigi að hafa strokið læri A í bílferð sem þau tvö, ásamt F og I, þáverandi kærasta A, fóru í. Frásögnum vitna beri ekki saman, hvorki um sætaröð í bílnum, aðdraganda málsins eða með hvaða hætti ákærði hafi strokið A um lærið. Ákærði lýsi því sjálfur að þessi hópur hafi farið í bílferð og þau hafi verið að leika sér að slá hvort annað. Ekkert kynferðislegt hafi átt sér stað.

                Þá segir ákærði til stuðnings sýknukröfu sinni að A hafi vanið komur sínar á heimili ákærða og sótt í félagsskap hans á því tímabili sem greinir í ákæru. Hvergi hafi komið fram af hennar hálfu að henni þættu samskipti sín við ákærða óþægileg, hvað þá að hann væri að áreita hana með skipulögðum hætti. Sú ásökun hafi fyrst komið fram haustið 2010, eða um ári eftir að umræddir atburðir áttu að hafa verið afstaðnir. Engu að síður hafi ákærði hitt A í millitíðinni á [...] á [...] sumarið 2010 og hún komið til hans og virst afar ánægð og glöð að sjá hann.

                Til stuðnings varakröfu sinni segir ákærði að hann hafi verið 14-15 ára þegar umrædd  atburðarás hafi farið af stað og 17 ára þegar henni hafi lokið en A hafi verið 12-14 ára. Ekki muni miklu á þeim aldri og því sé rétt að heimfæra háttsemi ákærða undir 2. málsl. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og láta refsingu niður falla. 

                Um 2. tölul. I. kafla ákæru segir ákærði að í þeim lið komi ekki fram hvenær þetta tiltekna tilvik eigi að hafa átt sér stað. Í vitnisburði A sé ekki heldur að finna neina nánari afmörkun á tímasetningu en hún lýsi því að þetta eigi að hafa gerst inni í herbergi ákærða. Ákærði neiti alfarið sök. Þá segir ákærði að misræmi sé á milli þess sem fram komi í þessum lið og framburði A, en samkvæmt lýsingu hennar hafi ákærði sett hönd hennar inn á klof sitt og utan um punginn en í ákæru segi að hann hafi látið hana snerta sig utan klæða. Ekki beri hér alveg saman um hvort snertingin eigi að hafa orðið innan eða utan klæða.

                Til stuðnings varakröfu sinni vísar ákærði til þess sem áður segir um 2. málsl. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. 

                Hvað varðar 3. tölul. I. kafla ákæru bendir ákærið á að honum sé gefið að sök að hafa „í eitt skipti“ myndað A á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Afar erfitt sé að lesa út úr gögnum málsins um hvaða tilvik sé að ræða. Í framburði A, eins og hann komi fram í endursögn lögreglu, sé ákærða gefið að sök að hafa ítrekað tekið myndir af A og hótað því að birta þær á internetinu. A tilgreini þó ekki sérstaklega ákveðið tilvik en þegar hún hafi verið spurð um það í lok skýrslutökunnar hvort vitni hefðu verið af einhverjum atburðum nefni hún að D og F gætu hafa séð eitthvað af þessu. Að öðru leyti komi ekki fram frekari lýsing af hálfu A. Ekkert frekar komi fram um þetta tiltekna tilvik af hálfu A og athygli sé vakin á því að hún nefni ekki af sjálfsdáðum að ákærði hafi tekið mynd af henni. Þá segir ákærði að í skýrslutöku í Barnahúsi af D minnist hún hvergi á að ákærði hafi hótað því að setja myndirnar á netið og F segi ekki hvort ákærði hafi náð að taka mynd af brjóstum A í þetta skiptið. Ekkert komi fram hjá F um að ákærði hafi hótað að birta myndir af A á internetinu. Ákærði kveðst einu sinni hafa tekið mynd af A þar sem aðeins hafi sést í annað brjóst hennar en það hafi ekki verið með vilja gert og hann hafi eytt myndinni.

                Því er hafnað að umrædd háttsemi teljist áreitni í skilningi 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Kynferðisleg áreitni sé skilgreind í 199. gr. sömu laga og ákærði telur að ærslum milli frændsystkina, þar sem ákærði tók mynd þar sem aðeins sést í brjóst A og myndinni eytt strax í kjölfarið, sé ekki unnt að jafna til slíkrar áreitni, eins og hún sé skilgreind í hegningarlögunum. Ákærði hafnar því sérstaklega að hafa beitt A nauðung, sbr. 225. gr. almennra hegningarlaga, eða hótað henni, sbr. 233. gr. sömu laga, enda liggi fyrir að myndinni hafi verið eytt strax í kjölfarið. Varakröfu ákæruvaldsins um heimfærslu undir 209. gr. almennra hegningarlaga er alfarið hafnað.

                Um varakröfu ákærða segir að afleiðingar brotsins hafi í reynd ekki verið neinar og óumdeilt  sé að myndinni hafi verið eytt strax í kjölfarið. Ef háttsemin teljist sönnuð sé eðlilegra að heimfæra brotið undir 234. gr. almennra hegningarlaga, en ákæruliðnum ætti þá að vísa frá dómi, sbr. 3. tölul. 242. gr. sömu laga. Þá sé ástæða til að skoða hvort brotið sé fyrnt, verði það heimfært undir eitthvert þessara ákvæða, sbr. 1. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði gerir athugasemd við orðalag í fyrri hluta 4. tölul. I. kafla ákæru, þar sem ákærða sé gefið að sök að hafa „ítrekað“ stungið fingri sínum inn í kynfæri hennar. Engar tímasetningar eða staðsetningar séu tilgreindar þessu til stuðnings en í síðari hluta töluliðsins sé tilgreind tímasetning, þ.e. í ágúst 2008. Í vitnisburði sínum lýsi A því að þetta tiltekna skipti hafi hún og ákærði ætlað að horfa saman á svokallað „live-chat“ með hljómsveitinni Jonas Brothers heima hjá ákærða. Þetta kvöld hafi foreldrar ákærða verið heima við, sem og systir hans, og ólíklegt hljóti að teljast að öskur úr herbergi ákærða hefðu ekki vakið athygli þeirra. Framburður A sé því ótrúverðugur hvað þetta varðar. Í endursögn lögreglu komi svo fram að A hafi sagt að ákærði hafi farið aftur með fingur sinn inn í leggöng hennar eftir þetta atvik. Orðalag ákæruliðsins, um að ákærði hafi ítrekað gert þetta, sé því ekki í samræmi við þetta.

                Um varakröfu ákærða er vísað til þess sem áður segir um 2. málsl. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

                Að lokum segir ákærði um II. kafla ákæru að hann hafi verið mjög virkur á niðurhalssíðum á borð við Torrent en þangað geti notendur sótt ýmiss konar gögn. Hafi barnaklám verið á tölvu ákærða sé skýringin sú að slíkt efni hafi fylgt með í einhverjum af þeim gagnapökkum sem ákærði sótti og var undir öðru nafni. Oft sé um að ræða mikið magn af gögnum og ómögulegt að átta sig á því hvað sé verið að sækja. Enn fremur kunni að leynast vírusar í slíkum pökkum. Þá segir ákærði að í september 2010 hafi sá harði diskur sem ákærði notaði mest hrunið, en hann hafi náð að bjarga einhverju af því efni sem þar var og fært það yfir á aðra diska sem hann átti. Síðar hafi hann keypt nýja tölvu og fært gögnin inn á hana. Við þetta hafi ákærði að miklu leyti misst yfirsýn yfir hvar gögnin á tölvunni voru.

IV.

Niðurstaða vegna 1. tölul. I. kafla ákæru. 

                Ákærði neitar sök. A hefur lýst því að hún og ákærði hafi verið náin frændsystkini. Hún kveðst ekki viss um það hvenær ákærði hafi byrjað að brjóta á henni, hvort það hefði verið á árinu 2006, þegar hún var 11 ára, eða á árinu 2007, en hann hafi hætt þegar hún var 14 ára. Í ákæru er upphafstími brota miðaður við sakhæfisaldur ákærða, þ.e. 15 ára aldur í [...] 2007. A kveður að brot ákærða hafi aðallega átt sér stað á heimili hans en einnig á heimili hennar. Hún greindi frá því fyrir dómi að ákærði hafi káfað á henni, á brjóstum og kynfærum, og þetta hafi gerst að meðaltali þrisvar eða fjórum sinnum í viku. Ekki kom skýrt fram hjá A fyrir dómi hvort ákærði hefði káfað á henni innanklæða og framburður hennar hjá lögreglu um þetta er ekki skýr hvað þetta varðar. Hún hefur hins vegar greint frá því að ákærði hafi tvisvar sett fingur í leggöng, sbr. 4. tölul. I. káfla ákæru, en fjallað verður um þann ákærulið síðar. Ákærða er einnig gefið að sök að hafa farið inn undir föt A og skrifað nafn sitt á brjóst hennar. Fyrir dómi sagði hún að ákærði hefði oft skrifað á hana en hún kannaðist ekki við að hann hefði gert það á brjóst hennar og vitnið F benti fremur á bringu en brjóst þegar hann greindi frá þessu. Verður ákærði því sýknaður hvað þetta varðar.

                Af hálfu ákærða er því haldið fram að það geri framburð A ótrúverðugan að tímasetningar hjá henni séu á reiki og standist ekki, s.s. með hliðsjón af því hvenær ákærði fékk bílpróf. Að mati dómsins verður í þessu sambandi að líta til þess að A var ung að aldri og hún hefur lýst endurteknum brotum. Er því ekki óeðlilegt að tímasetningar eða fjöldi skipta séu á reiki. Þá hefur komið fram að móðir hennar hafi stundum keyrt hana heim til ákærða og hún hafi getað tekið rútu. Það getur því staðist að brot hafi átt sér stað á heimili ákærða fyrir september 2009, þ.e. áður en ákærði fékk bílpróf. Jafnframt byggir ákærði á því að framburður hennar um að hann hafi stundum læst herbergi sínu fáist ekki staðist. Foreldrum ákærða ber ekki saman um það hvort lykill hafi verið til að herbergi ákærða. Móðir ákærða sagði fyrir dómi að allir lyklar hefðu verið týndir en faðir hans sagði að hann hefði kannað hvort það stæðist að ákærði hefði haft lykil og leitað að þeim og lyklar hefðu verið til. Þannig er ekki hægt að útiloka að ákærði hafi haft lykil. Dómurinn telur ekki hafa mikla þýðingu í málinu hvort ákærði hafi haft lykil eða ekki. Einnig er því haldið fram af hálfu ákærða að frásögn A um brot hans komi ekki heim og saman við það að hún hafi sótt mikið í ákærða og verið tíður gestur á heimili hans og að vel hafi farið með á þeim þegar þau hafi hist á [...] sumarið 2010. Um þetta er það að segja að ákærði sagði sjálfur hjá lögreglu að hann og A hefðu verið bestu vinir, auk þess sem þau eru frændsystkini. Að þessu virtu og með hliðsjón af ungum aldri A hafa tilfinningar hennar í garð ákærða án efa verið mjög flóknar og hún ekki haft burði til að koma í veg fyrir brot ákærða. Þá hefur hún gefið trúverðugar skýringar á því af hverju hún greindi ekki strax frá háttsemi hans. 

                Hjá lögreglu kannaðist ákærði við að hafa komið við brjóst A og klipið í þau en það hafi verið óvart, þegar þau hafi verið í gamnislag. Fyrir dómi neitaði hann hins vegar að hafa klipið í brjóst hennar. Þá kannaðist hann við það hjá lögreglu að hafa spurt A hvort hún vildi vera kærasta hans og hann viðurkenndi einnig að hafa sagt við hana að þau ættu að flytja saman til [...] og eignast börn saman, en þetta hefði verið sagt í gríni. Ákærði dró úr þessu fyrir dómi og sagði að hann hefði aldrei sagt neitt þessu líkt við A sjálfa, heldur hefði hann eitt sinn spurt móður hennar hvað hún myndi segja ef þau myndu byrja saman. Þetta hafi hann sagt vegna fréttar um að frændsystkini hefðu gift sig. Jafnframt sagði ákærði að móðirin hafi sagt að það væri ekkert að því en það kemur ekki heim og saman við vitnisburð móðurinnar. Er allt þetta til þess fallið að gera framburð ákærða ótrúverðugan.

                Þá hefur ákærði sjálfur greint frá afbrigðilegri kynhegðun gagnvart A frænku sinni. Fyrir dómi viðurkenndi hann að hafa eitt sinn í gríni borið saman brjóst A og D systur sinnar en hjá lögreglu talaði hann um að í „öllum þessum tilvikum“ hafi þetta verið grín. Þá greindi hann frá því hjá lögreglu að hann hefði talað við A um kynlíf og rætt um klám við hana, en ef hún hafi ekki viljað heyra slíkt hafi hann ekki gert það þótt hann hafi alveg ýtt aðeins undir það. Einnig sagði ákærði hjá lögreglu að oftast væri ekki kynæsingur í honum gagnvart A. Enn fremur hafa vitnin F og I lýst óeðlilegri hegðun ákærða gagnvart A eitt sinn í bílferð. Vitnunum ber ekki alveg saman um í hvaða bíl þetta var og hver sætaskipan var, en það er ekki aðalatriðið heldur það að þeim ber saman um að ákærði hafi lagt höndina á læri hennar. Þótt ekki sé ákært sérstaklega fyrir þetta tiltekna atvik styður það framburð A um að hann hafi káfað á henni. Vitnisburður D, systur ákærða, styður jafnframt framburð A um að ákærði hafi káfað á henni, en hún kveðst oft hafa séð ákærða gera það. Að mati dómsins er engin ástæða til að ætla að framburður A og D sé uppspuni og að þær hafi komið sér saman um að bera ákærða röngum sökum og í raun hefur það verið þeim báðum þungbært að greina frá brotum ákærða. 

                Enn fremur styður vottorð og vitnisburður G, uppeldis- og afbrotafræðings, frásögn A, en fram hefur komið að vanlíðan A sé mjög mikil og einkenni hennar væru dæmigerð fyrir þolendur kynferðisbrota. Er ekkert komið fram í málinu sem getur útskýrt þessa miklu vanlíðan A annað en það að hún hafi sætt þeirri misnotkun sem hún hefur lýst.

                Þegar litið er til alls framangreinds, ótrúverðugs framburðar ákærða, trúverðugs framburðar A, sem fær stoð í framburði vitna og vottorði G, er sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. tölul. I. kafla ákærunnar, að því gættu sem áður segir um að ákærði hafi ekki skrifað á brjóst A og að ósannað er að hann hafi káfað á henni innanklæða. Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Niðurstaða vegna 2. tölul. I. kafla ákæru. 

                Ákærði neitar því að hafa í eitt skipti látið A snerta kynfæri sín utanklæða og segir að þessi ákæruliður sé í ósamræmi við framburð A, en samkvæmt lýsingu hennar hafi þetta átt að vera innanklæða. A lýsti þessu atviki hjá lögreglu þannig að ákærði hefði sett hönd hennar niður og hún hafi fundið fyrir pungi hans. Þannig er hægt að skilja þetta á hvorn veginn sem er, innanklæða eða utanklæða. Að þessu virtu og þar sem háttsemin eins og henni er lýst í ákæru er ívilnandi fyrir ákærða getur þetta ekki leitt til frávísunar eða sýknu.

                Þegar litið er til þess sem áður segir, um misræmi í framburði ákærða hvað varðar samskipti hans við A, afbrigðilega kynhegðun hans gagnvart henni, framburð vitna þar um og þá andlegu erfiðleika sem hún hefur átt við að stríða, er sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í 2. tölul. I. kafla ákæru. Verknaður ákærða er réttilega heimfærður til refsiákvæða í ákæru.

Niðurstaða vegna 3. tölul. I. kafla ákæru.

                Ákærði neitar sök. Þegar ákærði var spurður hjá lögreglu hvort hann hefði tekið kynferðislegar myndir af A kannaðist hann við eitt skipti, en það hefði sést í brjóst hennar. Hann lýsti atvikum nánar þannig að um fíflagang hafi verið að ræða og hann hafi haldið utan um A, sem hafi verið í hlýrabol, og F hafi tekið myndina. Ákærði greindi frá atvikum með öðrum hætti fyrir dómi, en hann kvaðst hafa dottið, gripið í A og þá hafi náðst mynd af hluta af öðru brjósti hennar, en F hafi tekið myndina. Að mati dómsins er þessi framburður ákærða með miklum ólíkindum og hann samrýmist ekki vitnisburði F og D, systur ákærða. Að öllu þessu virtu er sannað að ákærði hafi í eitt skipti myndað A á kynferðislegan og klámfenginn hátt, eins og honum er gefið að sök í ákæru, og varðar verknaður hans við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að mati dómsins er framburður vitna um það hvort og hvernig ákærði hafi haldið A ekki nægilega skýr til að telja sannað að ákærði hafi beitt hana nauðung, sbr. 225. gr. sömu laga. Ákærði kannaðist við það fyrir dómi að hafa haft á orði að setja mynd af A á internetið en hann hefði strax eytt myndunum. Um þetta sagði A fyrir dómi að hún hafi ekki tekið ummæli ákærða alvarlega og þau hefðu ekki valdið henni áhyggjum. Vitnið F kvaðst ekki hafa heyrt ákærða hóta þessu og D hefur ekki borið um það. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sýknaður af hótun samkvæmt 233. gr. almennra hegningarlaga. 

Niðurstaða vegna 4. tölul. I. kafla ákæru.

                Ákærði neitar sök. Fyrir dómi sagði A að ákærði hefði tvisvar sett fingur í leggöng hennar, en ekki ítrekað eins og honum er gefið að sök í ákæru. Hún hefur borið um það að hann hafi setið ofan á henni þannig að hún hafi ekki getað hreyft sig og svo hafi hann farið með höndina inn fyrir buxur hennar og sett fingur í leggöng hennar. Hún hafi beðið hann um að hætta en hann hafi ekki gert það. A telur að eitt af þessum tveimur skiptum hafi gerst á heimili ákærða í ágúst 2008, en þau hafi hist til að horfa á „live-chat“ með Jonas Brothers. Vitnið E kvaðst fyrir dómi muna eftir tveimur tilvikum þar sem hann hafi verið viðstaddur í herbergi ákærða þar sem þau hafi horft á slíkt „live-chat“ og hann hefði ekki orðið var við neitt athugavert. Um sönnunargildi þessa framburðar verður að hafa í huga að vitnið er faðir ákærða og hann kvaðst hafa verið viðstaddur nokkuð stutta stund í herberginu. 

                Eins og áður hefur verið rakið er margt í framburði ákærða um samskipti hans við A sem gerir hann ótrúverðugan. Dómurinn telur framburð A hins vegar trúverðugan. Þá hefur ákærði sjálfur greint frá ýmissi afbrigðilegri hegðun gagnvart A og framburður vitna styður það að ákærði hafi sýnt henni kynferðislegan áhuga. Enn fremur hefur A átt við mikla andlegu erfiðleika að stríða sem ekki verða skýrðir öðruvísi en með því að ákærði hafi brotið gegn henni með þeim hætti sem hún hefur greint frá. Að öllu þessu virtu verður frásögn A hér lögð til grundvallar og ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í 4. tölul. I. kafla ákæru, að því gættu sem áður segir um að ekki hafi verið um ítrekuð brot að ræða heldur tvö skipti. Verknaður ákærða er réttilega heimfærður til refsiákvæða í ákæru.

Niðurstaða í II. kafla ákæru.

                Lögregla haldlagði tölvur ákærða og fundust í þeim 71 ljósmynd og 6 myndskeið sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Ákærði ber því við að þessar myndir hafi borist óvart í tölvu hans í gegnum Torrent-síður, með vírusum eða þegar hann hafi fært gögn úr tölvu annarra þegar hann hafi verið að gera við tölvur þeirra. Jafnframt heldur hann því fram að skrár í tölvunni, sem innihéldu barnaklám, hafi ekki verið opnaðar.            

                Samkvæmt rannsókn lögreglu var myndefni sem innihélt barnaklám þannig staðsett í tölvum ákærða að hann hefur átt það. Framburður dómkvadds matsmanns staðfestir þetta og kom m.a. fram hjá honum að skrár hefðu verið fluttar handvirkt á milli tölva hans og innan tiltekinnar tölvu. Einnig staðfesti matsmaðurinn að skrár sem innihéldu barnaklám hefðu verið opnaðar í tölvunni. Þá verður samkvæmt framburði matsmanns að telja útilokað að umrætt myndefni hafi borist í tölvu ákærða með því að komið hafi verið fyrir í tölvum ákærða troju-hesti eða hugbúnaði sem hafi fjarstýrt tölvum hans. Þá kom ekkert fram við skoðun matsmanns sem gefur ástæðu til að ætla að myndefnið hafi borist með tölvuvírusum. Með vísan til alls framangreinds er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í II. kafla ákæru. Brot ákærða er rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákæra 13. desember 2012. Meint brot gegn D.

I.

                Með bréfi Félagsþjónustu [...], dags. 8. júní 2011, var þess óskað að hafin yrði lögreglurannsókn á því hvort bróðir D, ákærði í máli þessu, hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Í bréfinu segir að D hafi hinn 6. júní 2011 greint frænku sinni, A, frá meintu broti en hann „hafi farið upp á sig og farið alla leið“. Það hafi verið forsjáraðili A sem hafi haft samband við starfsmann [...]. Forsjáraðilinn hafi ekki haft nákvæmar upplýsingar um hvenær þetta hefði gerst, en nefnt desember 2010. Einnig hafi komið fram að ákærði hefði verið kærður fyrir kynferðislega áreitni gegn A. Þá kemur fram í bréfi félagsþjónustunnar að móðir D hafi verið boðuð í viðtal 7. júní 2011 ásamt stúlkunni og að stúlkan hefði verið neyðarvistuð, sbr. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, vegna þess að ákærði bjó á heimilinu.

                Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 7. júní 2011 og neitaði hann því að hafa brotið gegn systur sinni, D. Spurður hvernig samskiptum þeirra væri háttað sagði ákærði að þau væru bestu vinir og hún hefði oft spurt hann um kynlíf, s.s. hvernig það væri að stunda kynlíf. Hann hefði ekki stundað kynlíf og því hafi hann ekki getað svarað henni, en sagt það sem hann vissi og sagt henni frá því sem hann hefði séð á internetinu. Ákærði sagði að það væri langt síðan hún hafi byrjað að spyrja hann út í kynlíf, eða um tvö ár, þ.e. frá því hún hafi verið 11 ára. Ákærði kvaðst vita að hún hefði stundað kynlíf, það hefði verið í febrúar eða mars 2011 sem hún hefði gert það, en hann viti ekki með hverjum. Spurður hvort hann hefði þuklað á systur sinni sagði ákærði að það hefði ekki verið viljandi, en örugglega þegar þau hafi verið að leika sér  og slást. Þá hafi eitthvað gerst. Þá sagði ákærði að þau hefðu oft klipið hvort annað þegar þau hafi verið í gamnislag, án þess að hann hafi fattað alveg hvar hann væri að klípa. Spurður hvort hann hefði komið við brjóst hennar eða kynfæri sagði ákærði að það hafi ekki verið viljandi hvað varðar brjóstin. Það hafi örugglega gerst þegar þau hafi verið að leika sér en hann ekki vitað það. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa komið við kynfæri hennar. Þá neitaði hann því að hafa haft samræði við hana.

                Hinn 21. júní 2011 var tekin skýrsla af D fyrir dómi, sbr. a-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, en þá var hún þrettán ára. Hún sagði að ákærði hefði misnotað hana og það hefði staðið yfir í langan tíma, eða í eitt og hálft eða tvö ár. Ákærði hefði káfað á henni, kysst hana og viljað putta hana og á endanum hafi hann stundað kynlíf með henni. Beðin um að lýsa því hvenær þetta hefði byrjað sagði hún að ákærði hefði káfað á henni og hann hefði gert það líka við frænku hennar, A. Hún kvaðst lítið muna eftir fyrsta skiptinu og hún hafi verið um 11 ára þegar þetta hafi byrjað. Spurð hvernig ákærði hefði káfað á henni sagði hún að hann hefði strokið henni um lærin og upp að brjóstunum og síðan hefði hann alltaf farið lengra og lengra. Ákærði hefði sagt að þetta væri þeirra á milli og enginn mætti komast að þessu. Hún kvaðst hafa verið hrædd og svo hafi þetta alltaf gengið lengra og lengra og hann hefði farið að kyssa hana. Innt eftir því hvað þetta hefði gerst oft sagði hún að það gæti verið að þetta hafi verið fjórum sinnum í viku. Jafnframt sagði hún að ákærði hafi farið að vinna seinni partinn og hún hafi komið heim í hádegismat og þá hafi hann brotið gegn henni. Hann hafi einnig gert það inni í herberginu hans, þegar foreldrar þeirra voru heima. Þá sagði hún að ákærði hefði hótað henni, s.s. með því að hann myndi ekki setja vinsæl lög inn á iPodinn hennar nema hún myndi totta hann. Beðin um að lýsa síðasta skiptinu sem ákærði hefði brotið gegn henni sagði hún að það hafi verið í febrúar eða mars, í hádeginu eða þegar hún hafi verið í eyðu í skólanum. Hún hafi verið inni á klósettinu að tannbursta sig þegar hann hafi skipað henni að leggjast á gólfið og fara úr fötunum og hann hafi byrjað að putta hana. Síðan hefði hann viljað stunda kynlíf en hún hafi ekki viljað það. Hann hefði girt niður um sig og beðið hana um að totta sig en hún hafi sagt nei. Hann hafi síðan tekið smokk upp úr vasanum, sett hann á sig og reynt að stinga getnaðarlimnum inn. Þetta hefði gerst allt að fjórum sinnum og hann hefði alltaf notað smokk. Spurð hvort honum hefði tekist að stinga honum inn sagði hún: „Já, stundum eða svona já.“ Það hefði gerst „tvisvar eitthvað svoleiðis“. Það hefði tekist í þetta skipti inni á baðherberginu, sem hafi verið síðasta skiptið sem ákærði hafi brotið gegn henni. Hitt skiptið sem ákærði hefði haft samræði við hana hafi verið um kvöld inni í herberginu hans, eftir að hann hafi sótt hana til ömmu þeirra og afa, og hann hafi verið búinn að kaupa sleipiefni sem hann hafi notað. Það skipti hafi verið í desember [2010], vegna þess að hún tengi það við að þau hafi verið búin að kaupa jólagjafir. Hún kvaðst hafa greint A frænku sinni frá því að ákærði hefði misnotað hana, en A væri besta vinkona hennar. Þá greindi D frá því að ákærði hafi einnig brotið gegn A, en hann hefði gengið lengra með sig. Það hefði hins vegar staðið yfir í styttri tíma hjá henni en A. Nánar um það sagði hún að ákærði hefði oft tekið myndir af brjóstum A. Einnig greindi D frá því að upp hafi komið fjölskylduerjur, milli móður sinnar og móður A, en þær væru systur, og að fjölskyldur þeirra hefðu ekki talað saman í u.þ.b. eitt ár. Enn fremur kom fram að ákærði væri fluttur af heimilinu, til ömmu og afa þeirra, en D liði samt ekki vel heima hjá sér, vegna minninganna um brot ákærða, og hún gæti ekki heimsótt ömmu sína og afa eins oft og áður.  

                Ákærði var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 24. júní 2011 og borinn undir hann framburður D, en hann neitaði sök sem fyrr. Hinn 20. október 2011 var ákærða kynnt bótakrafa D og hafnaði hann bótakröfunni.

                Hinn 6. desember 2012 var aftur tekin skýrsla af D fyrir dómi, sbr. a-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008. Hún sagði að þetta hefði byrjað mjög saklaust þegar hún hafi verið níu eða tíu ára, með því að ákærði hefði strokið á henni lærin þegar þau hafi verið ein inni í herbergi. Svo hafi hann farið að strjúka brjóst hennar og gert það innanklæða. Hann hafi alltaf sagt að þetta væri litla leyndarmálið þeirra. Þegar hún hafi verið orðin 11 ára hafi ákærði farið að kyssa hana og svo hafi hann farið að putta hana og láta hana runka sér og totta sig. Hún kvaðst hafa reynt að komast undan því en hann hafi sagt að ef hún myndi ekki gera þetta myndi hann ekki gera eitthvað fyrir hana, s.s. að setja lög inn á iPodinn hennar. Spurð hvenær ákærði hafi byrjað að putta hana kvaðst hún ekki muna það nákvæmlega en sagði að það hefði gerst þegar hún hafi komið heim í hádegismat. Þá hafi ákærði almennt verið nývaknaður þar sem hann hafi unnið eftir hádegi. Hún hafi væntanlega verið að enda sjötta bekk eða byrja í sjöunda bekk. Innt eftir því hversu oft þetta hefði gerst svaraði hún fjórum eða fimm sinnum í viku, stundum sjaldnar og stundum oftar. Seinasta skiptið sem ákærði hafi brotið gegn henni hafi verið í apríl eða maí 2011, skömmu áður en hún hafi greint frá brotum ákærða, en það hafi verið í júní það ár. Þá sagði hún að brot ákærða hefðu átt sér stað í bíl sem hann átti, bláum að lit, inni í herberginu hans og inni á klósetti og foreldrar þeirra hefðu stundum verið heima. Hún skýrði sérstaklega frá atviki í desember 2010. Ákærði hefði sótt hana heim til ömmu og afa þeirra. Þau hefðu farið heim til sín þar sem hann hefði sagt henni að leggjast í rúm hennar og sagt henni að fara úr öllum fötunum. Ákærði hefði klætt sig úr fötunum, lagst í rúmið og strokið henni. Hana hefði langað til að öskra og hún hafi verið hrædd. Svo hefði hann byrjað að putta hana og hún átt að totta hann og hún hafi gert það. Hann hefði svo lagst ofan á hana og haft samræði við hana. Jafnframt sagði hún að hann hefði reynt að hafa samræði við hana í tvö önnur skipti.

                D kvaðst hafa skýrt A frænku sinni frá brotum ákærða gegn sér sumarið 2010. Hún hefði hringt í A og spurt um mál hennar vegna brota ákærða gegn A og þá hefði hún „misst allt út úr sér“. Móðir A hefði svo tilkynnt barnaverndarnefnd þetta. D kvaðst hafa viljað segja frá því að ákærði hefði brotið gegn sér þegar hún hafi frétt af máli A en ekki haft kjark til þess og ákærði hafi enn verið að brjóta á sér. A hafi sagt frá brotum ákærða í byrjun september.

                Teknar voru hjá lögreglu skýrslur af A, E, föður ákærða og D, L, móður ákærða og D, D, móður A, og vinkonum , M og N. Verður vísað til vitnisburðar þeirra hjá lögreglu síðar, eftir því sem ástæða er til.

II.

                Í málinu liggja fyrir ýmis gögn um líðan D. Í bréfi göngudeildar BUGL, dags. 5. júlí 2012, kemur fram að hún hafi verið á legudeild BUGL frá 15. nóvember 2011 til 14. desember 2011. Hún hafi verið greind með streituröskun eftir áfall, alvarlega geðlægðarlotu án geðrofseinkenna og vandamál tengd meintri kynferðis­misnotkun. Hún hafi verið lögð inn brátt vegna þunglyndiseinkenna og sjálfsvígs­hugsana. Einnig hafi hún um tíma verið í meðferð hjá O sálfræðingi í Barnahúsi. D hafi verið sett á lyf og niðurstöður spurningalista hefðu bent til meiri þunglyndis­einkenna en gengur og gerist meðal jafnaldra hennar. Auk þess hafi líkamleg kvíðaeinkenni verið yfir mörkum. Þá hafi hún átt í erfiðleikum með svefn, fengið martraðir og forðast aðstæður sem minntu hana á það sem hefði gerst og hún hafi farið í fóstur vegna þess að henni hafi fundist erfitt að vera heima vegna óþægilegra minninga. Hún hafi svarað meðferð vel og áfallastreitu- og þunglyndiseinkenni hefðu látið undan, en það væri ljóst að hún þyrfti áframhaldandi stuðning, m.a. í samskiptum við hitt kynið. Einnig kemur fram í bréfinu að unnið hafi verið með fjölskylduna í viðtölum.

                Í bréfi P, skólastjóra Grunnskólans í [...], dags. 31. ágúst 2012, segir að breytingar hafi orðið á D eftir sumarið 2010. Hún hafi verið ögrandi og truflandi. Þá hafi hún ekki viljað fara í íþróttir og sund. Hún hafi sótt eftir að vera í litlum hópum sem voru í sérkennslu/námsveri og tekið sig á eftir áramót 2011. Um vor 2011 hafi hún hins vegar verið farin að umgangast aðra vini sem hafi reykt, sýnt óæskilega hegðun, hugað illa að náminu og mætt illa í skólann. Haustið 2011, eftir sumarfrí, hafi hún sýnt verulega hegðunarbreytingu, verið alveg komin í nýjan vinahóp og greinilega liðið mjög illa.

                Þá liggur fyrir vottorð O sálfræðings, dags. 27. september 2012, þar sem fram kemur að D hafi farið í 12 viðtöl hjá sálfræðingnum á tímabilinu 29. júní til 21. nóvember 2011. Í samantekt sálfræðingsins segir að D hafi tjáð sig greiðlega um vandamál sín og mikla vanlíðan. Hún hafi verið með kvíða og fengið kvíðaköst á vissum stöðum á heimilinu sem hafi minnt hana á meint kynferðisofbeldi, eins og t.d. á baðherberginu. Hún upplifi miklar skapsveiflur og hafi verið viðkvæm, grátgjörn og döpur. Henni hafi verið tíðrætt um að hún skammaðist sín og að hún hefði „leyft“ meintu kynferðisofbeldi að gerast, en slíkt væri algengt meðal þolenda kynferðisofbeldis. Á heimilinu og í skólanum hafi farið að bera á hegðunarvanda, hún hafi verið erfið í samskiptum og námsleg staða hennar hafi farið versnandi. Þá hafi hún átt við svefnerfiðleika að stríða og haft sállíkamleg streitueinkenni, eins og maga- og höfuðverk. Þá segir í vottorði sálfræðingsins að gróf kynferðisleg hegðun sem D hafi sýnt í samskiptum við eldri stráka/menn á spjallrásum á netinu sé algeng meðal þolenda kynferðisofbeldis. Slíka hegðun sé ekki aðeins möguleg afleiðing þess að vera þolandi kynferðisofbeldis heldur verði þolendur útsettari en ella fyrir því að slíkt endurtaki sig. Niðurstöður sjálfsmatskvarða væru í ágætis samræmi við upplifun D sjálfrar á líðan sinni, sem hún tengi sjálf við meint kynferðisbrot ákærða. Sjálfsmat hennar væri langt undir meðaltali og hún hafi lítið sjálfstraust. Þá mælist hún með mikinn kvíða og þunglyndi. Hins vegar hafi ekki verið nógu gott samræmi milli niðurstaðna í þeim listum sem hafi verið notaðir og því bæri að túlka niðurstöðurnar með fyrirvara. Að lokum segir sálfræðingurinn að viðtölin hafi því miður ekki nýst D sem skyldi, en erfiðlega hafi gengið að fá hana til samstarfs og hún hafi ekki verið viljug til að láta reyna á þær aðferðir sem henni hafi verið kenndar í meðferðinni. Þegar síðasta viðtalið við sálfræðinginn hafi átt sér stað í nóvember 2011 hafi D verið á BUGL og til staðið að hún færi í fóstur út á land.

III.

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.

                Ákærði neitaði þeirri háttsemi sem lýst er í ákærunni og hann kvaðst ekki hafa hugmynd um það af hverju D systir hans bæri hann þeim sökum sem hún gerir í þeim skýrslum sem fyrir liggja í málinu. Ákærði sagði að þau hefðu aldrei verið bestu vinir, en hann skilji ekki af hverju hún segi þetta. Þá kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um af hverju A hafi borið um að hann hafi brotið gegn D, en hann gruni að það sé vegna deilna milli fjölskyldna þeirra. Ákærði sagði að hann hefði aldrei fengið að vita um hvað deilurnar snerust og hann héldi að þær hefðu ekkert með hann að gera. 

                Vitnið A greindi frá því að ákærði hefði klipið í brjóst D og farið inn á föt hennar og káfað á henni, fyrir framan vitnið. Jafnframt kvaðst vitnið hafa séð ákærða fara inn á buxur hennar. Þetta hefði gerst í flest skipti sem vitnið var á heimili þeirra, sem hafi verið þrisvar eða fjórum sinnum í viku. Spurt um tímasetningar sagði vitnið að þetta hefði verið um svipað leyti og ákærði hafi brotið gegn vitninu, sbr. ákæru 19. júní 2012, en þetta hafi byrjað eitthvað seinna gegn D, kannski ári síðar, eða um áramót 2007/2008. D hefði hringt grátandi í vitnið [í júní 2011] og sagt að ákærði hefði nauðgað henni í desember. Vitnið hefði svo sagt móður sinni frá þessu og hún hafi hringt í barnaverndarnefnd.

                Vitnið B skýrði frá því að seinni hluta maí 2011 hefði A sagt sér frá því að D hafi verið misnotuð, en D hefði sagt A að ákærði hefði riðið henni. Vitnið kvaðst hafa hringt í barnaverndarnefnd og tilkynnt málið.

                Vitnið E, faðir ákærða og D, kvaðst ekki hafa tekið eftir neinu óvenjulegu í samskiptum ákærða og D. Jafnframt sagði vitnið að D væri sár vegna þess að vitnið hefði ekki tekið eftir neinu og passað upp á hana. Þá hafi hún sagt að hún hafi viljað vera með öðrum strákum því hún hafi viljað gleyma ákærða. Einnig sagði vitnið að D hefði farið í fóstur en hún væri komin aftur heim. Það hefði gengið vel eftir að hún kom heim þar til komið hafi að dómsmálinu en þá hafi rifjast upp minningar og hún væri nú á BUGL. Aðspurt sagði vitnið að hurðir hefðu ekki verið læstar á heimilinu, nema á klósettinu. Vitnið sagði jafnframt að það hefði verið spurt um þetta hjá lögreglu og vitnið hefði í framhaldi af því athugað hvar lyklarnir væru og þeir væru allir til og ákærði hafi ekki verið með lykil að herbergi sínu. Aðspurt sagði vitnið að það vissi ekki til þess að nein illindi hefðu verið á milli ákærða og D.

                Vitnið L, móðir ákærða og D, sagði að það hefði ekki tekið eftir neinu athugaverðu í samskiptum ákærða og D á árunum 2007 til 2010. Jafnframt kom fram hjá vitninu að það hefðu ekki verið nein illindi á milli þeirra. Spurt um lykla á heimilinu sagði vitnið að engar hurðir hafi verið læstar nema á baðherberginu og lyklar væru týndir.

                Vitnið Q félagsráðgjafi lýsti því að borist hefði tilkynning 7. júní 2011 um meint brot ákærða gegn D og hvernig könnun máls hafi farið fram, en ekki er ástæða til að rekja framburð vitnisins sérstaklega.

                Vitnið R, sérfræðilæknir á BUGL, staðfesti fyrirliggjandi bréf, dags. 5. júlí 2012, sem áður hefur verið rakið. Vitnið sagði að D hafi verið búin að vera í meðferð í Barnahúsi áður en hún kom á BUGL í nóvember 2011. Þegar hún hafi komið á BUGL hafi hún verið með sjálfsvígshugsanir og um bráðainnlögn á BUGL hafi verið að ræða. Hún hafi verið greind með alvarlegt þunglyndi og áfallastreituröskun. Hún hafi átt við svefnvandamál að stríða, fengið martraðir og verið með forðunarhegðun, þ.e. fundist óþægilegt að vera á stað sem minnti á meint brot. Fram kom hjá vitninu að D hefði tengt vanlíðan sína við meint brot ákærða og hún hefði farið í fóstur þegar hún var útskrifuð.

                Vitnið P skólastjóri greindi frá breytingum sem hefðu orðið á D á árinu 2010 og 2011, eins og lýst er í bréfi vitnisins 31. ágúst 2012. Spurt hvort ekkert sérstakt hefði komið upp hjá D á árinu 2009 sagði vitnið að hún hafi verið byrjuð að fá kvíða og hún hafi verið farin að sækja íþróttir minna en ekki jafn illa og á árinu 2010 og hún hafi verið farin að sýna breytta hegðun, en ekki jafn ýkta og á árinu 2010. Vitnið sagði að í skólanum væri mælst til þess upp að fjórða bekk að nemendur kæmu með nesti að heiman og væru í skólanum í hádeginu. Í fimmta og sjötta bekk gætu foreldrar sett fram óskir við kennara en annars væri miðað við að þau væru í skólanum í hádeginu. Í sjöunda bekk og upp úr væri hins vegar hætt að fylgjast með því hvort þau færu heim í hádeginu. Fram kom að D byggi í næstu götu við skólann.

                Vitnið O sálfræðingur sagði að það hefði verið ljóst í byrjun í viðtölum sem vitnið átti við D að henni hafi alls ekki liðið vel og verið mjög kvíðin og þung í skapi. Hún hefði haft öll einkenni sem megi sjá hjá þolendum kynferðisbrota, en hún hafi verið með andlega vanlíðan og líkamlega verki og hegðunarerfiðleika. Einnig hafi hún verið með sjálfsásakanir og skömm. Þá sagði vitnið að D hafi verið ung þegar meint brot ákærða áttu sér stað og svo virðist sem einhver mörk í kynferðislegum samskiptum hafi riðlast til hjá henni. D hefði fundist erfitt að vera heima hjá sér og það hefði verið mótþrói í henni, en þar hafi margt minnt hana á það sem hefði gerst. Henni hefði fundist vera komið fram við sig eins og hún væri sek um eitthvað, t.d. hefðu foreldrar hennar tekið af henni tölvuna og símann. Einnig hafi hún verið ósátt við útivistarreglur og að fá ekki að hitta A, frænku sína og bestu vinkonu, sem væri sú eina sem henni fyndist skilja sig. Viðtölin hefðu gengið vel í byrjun en líðan D hefði farið versnandi og henni hefði liðið hörmulega. Hún hafi ekki getað sofið eða hugsað um það sem hefði gerst. Hún hafi verið send á BUGL og svo hafi hún farið í fóstur. Í vottorði vitnisins kemur m.a. fram að D hafi ekki þolað hugsanir og minningar um það sem hefði gerst en að hún gæti ekki losnað við þær og hún hafi sagt í viðtali við vitnið að hún hafi verið með S vegna þess að hún hafi viljað breiða yfir gjörðir bróður síns og hafa minningar um kynlífsreynslu með öðrum. Um þetta sagði vitnið að það hefði verið mjög skýrt hjá D hvernig hún útskýrði þetta, að hún hafi viljað breiða yfir málið með því að stunda kynlíf með einhverjum öðrum. Spurt hvort það gæti verið að kynferðislegt samneyti við S hafi valdið D vanlíðan sagði vitnið að hún hafi sjálft tengt vanlíðan sína við meint brot ákærða.         

                Vitnið M, vinkona D, skýrði frá því að D hefði sagt sér og N að hún hefði verið misnotuð af bróður sínum, þ.e. ákærða, í um þrjú ár, nokkrum sinnum í viku, oftast þegar foreldrar hennar hafi ekki verið heima. Vitnið hélt að D hefði sagt sér frá þessu í byrjun 8. bekkjar.

                Vitnið N, vinkona D, sagði að D hefði sagt sér að bróðir hennar hafi látið hana gera eitthvað kynferðislegt gegn því að hann myndi lána D eitthvað sem hana hafi langað í. Vitnið staðfesti það sem það sagði hjá lögreglu um hversu oft ákærði hefði brotið á D, þ.e. um fjórum sinnum í viku og það hefði staðið yfir í tvö ár. Vitnið hélt að D hefði sagt sér frá þessu í 8. eða 9. bekk.

IV.

                Ákærða er gefin að sök kynferðisleg áreitni gagnvart D systur sinni, á tímabilinu frá september 2007 til september 2010, á heimili þeirra, þegar hún var 9-12 ára, með því að hafa eigi sjaldnar en tvisvar í viku káfað á kynfærum og brjóstum hennar, innan og utan klæða. D hefur borið hann alvarlegri sökum, en ekki er ákært fyrir það.

                Tímasetningar í máli þessu eru nokkuð á reiki. Í fyrri skýrslu D fyrir dómi, sem hún gaf 21. júní 2011, greindi hún frá því að ákærði hefði brotið gegn henni í eitt og hálft eða tvö ár, frá því hún var 11 ára, þ.e. árið 2009. Í seinni skýrslu D, hinn 6. desember 2012, sagði hún hins vegar að þetta hefði byrjað þegar hún hafi verið níu eða tíu ára (árið 2007 eða 2008) með því að ákærði hefði strokið á henni lærin. Hann hafi svo byrjað að strjúka brjóst hennar og ganga lengra þegar hún hafi verið ellefu ára. Upphafstími brota í ákæru fær því ekki staðist, heldur verður að miða við að brot ákærða hafi byrjað í fyrsta lagi um vorið 2009.  Erfitt er að átta sig á því af hverju lok tímabilsins í ákæru er tilgreint september 2010, í ljósi þess að D lýsti því í fyrri skýrslu sinni að ákærði hefði brotið á henni fram í febrúar eða mars 2011 og í seinni skýrslu sinni sagði hún að ákærði hefði hætt að brjóta gegn henni í apríl eða maí 2011. Fram kom fram hjá D að þegar ákærði hafi farið að ganga lengra í brotum sínum hafi þau átt sér stað þegar hún var í hádegishléi í skólanum, en það hefur þá líklega verið þegar hún byrjaði í sjöunda bekk, haustið 2010. Í ljósi þess að D var ung að árum og hún hefur lýst endurteknum og margvíslegum brotum er ekki óeðlilegt að tímasetningar hjá henni séu ekki nákvæmar og stendur það ekki í vegi fyrir sakfellingu ákærða, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  

                Ákærði hefur alfarið neitað sök og lítið tjáð sig um þessa ákæru. Hjá lögreglu sagði hann að hann og D væru bestu vinir en fyrir dómi dró hann úr þessu þegar hann var spurður af hverju hún ætti að bera hann röngum sökum og sagði að þau hefðu aldrei verið bestu vinir. Þá sagði ákærði hjá lögreglu að hann hefði komið óvart við brjóst D í gamnislag og hann hafi oft rætt við hana um kynlíf, frá því hún var ellefu ára gömul. Er þetta til þess fallið að gera framburð ákærða tortryggilegan.

                Vitnisburður A styður frásögn D, en hún hefur lýst því bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að hún hafi oft orðið vitni að því að ákærði hafi káfað á D, á brjóstum og klofi, innan og utan klæða. Sem fyrr er ekki ástæða til að ætla að framburður A og D sé uppspuni og að þær hafi komið sér saman um að bera ákærða röngum sökum. Þá hafa foreldrar D og ákærða borið um það fyrir dómi að engin illindi hafi verið á milli þeirra sem geta útskýrt af hverju hún ætti að bera hann röngum sökum. Fyrir liggur að D fór að sýna einkenni um kvíða á árinu 2008 og að vanlíðan hennar hafi ágerst. Ljóst er að andleg vanlíðan hennar er afar mikil og það hefur verið henni afar þungbært að greina frá brotum ákærða og það haft miklar afleiðingar fyrir hana. Af hálfu ákærða hefur verið gefið í skyn að andlegt ástand hennar sé að rekja til þess að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti á tímabilinu frá nóvember 2010 til 22. apríl 2011, þegar hún hafi verið 12 til 13 ára gömul, en piltur sem var sjö árum eldri en hún hafði þrisvar samræði og önnur kynferðismök við hana. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness vegna þess máls, nr. [...], kom fram hjá sálfræðingi, sem bar vitni í málinu, að D hefði ekki lýst vanlíðan vegna atburða í því máli og að áfallastreitueinkenni hennar væri að rekja til annarra kynferðisbrota, þ.e. af hálfu ákærða. Einnig kom fram að D hefði sýnt af sér áhættuhegðun í kynlífi og búið væri að skekkja hugmyndaheim hennar. Að mati dómsins verður andleg áþján D því ekki skýrð með þeim brotum sem fjallað var um í framangreindum dómi, heldur þykir hann fremur styðja það að rót hinnar miklu vanlíðanar hennar séu brot ákærða.

                Með vísan til alls framangreinds er sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í umræddri ákæru, að því gættu sem áður segir um tímabil brotanna. Brot ákærða er rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Refsing, upptaka, skaðabætur og sakarkostnaður.

                Ákærði er fæddur í [...] 1992. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að hann hefur gerst sekur um kynferðisbrot, annars vegar gegn systur sinni og hins vegar gegn A en þau eru frændsystkini. Þær voru ungar að aldri og hafa brot hans haft miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir þær. Einnig ber að líta til þess, hvað varðar vörslur á barnaklámi, að um var að ræða mjög gróft myndefni. Þegar litið er til málsatvika og aldurs ákærða og brotaþola þykir ekki ástæða til að lækka refsingu ákærða eða láta hana niður falla með hliðsjón af 2. málsl. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til refsilækkunar ber hins vegar að líta til þess að ákærði var ungur að aldri er hann framdi brot sín. Að öllu þessu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Þegar litið er til ungs aldurs ákærða er hann framdi brot sín og dráttar við rannsókn málsins og útgáfu ákæru þykir rétt að fresta fullnustu tólf mánaða þeirrar refsingar og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  

                Að kröfu ákæruvaldsins og með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal ákærði sæta upptöku á myndefni og tölvum (munum nr. 330896 og 330898), sem lögregla lagði hald á.

                Af hálfu brotaþola A er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur auk vaxta. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ljóst er að ákærði hefur með háttsemi þeirri sem hann er sakfelldur fyrir valdið brotaþola miska. Þykja bætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Dráttarvextir skulu reiknast frá 30. september 2012 þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

                Af hálfu brotaþola D er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur auk vaxta. Ljóst er að ákærði hefur með háttsemi þeirri sem hann er sakfelldur fyrir valdið brotaþola miska. Að þessu virtu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 600.000 krónur í miskabætur.  Dráttarvextir skulu reiknast frá 20. nóvember 2011 þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða hjá lögreglu, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

                Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er um að ræða kostnað vegna endurrita af skýrslutöku af brotaþolum, samtals 39.900 krónur, en hann verður ekki lagður á ákærða, sbr. 216. gr. laga nr. 88/2008. Ákærða ber hins vegar að greiða kostnað vegna vottorðs frá Barnahúsi, 30.000 krónur, og reikning frá HSS, 5.000 krónur. Kostnaður vegna starfa matsmanns, sem var dómkvaddur að kröfu ákærða, nemur 3.210.019 krónum. Af hálfu ákærða er farið fram á að kostnaður þessi verði a.m.k. að hluta felldur á ríkissjóð þar sem rannsókn lögreglu á tölvum ákærða hafi verið ófullnægjandi. Dómurinn fellst ekki á það að rannsókn lögreglu hafi verið ábótavant og leit dómurinn ekki svo á þótt fallist hafi verið á kröfu ákærða um dómkvaðningu. Verður ákærða því gert að greiða kostnaðinn við störf matsmanns. Þóknun verjanda þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 953.800 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknun réttargæslumanns D er ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 439.250 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknun réttargæslumanns A er ákveðin 350.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Sandra Baldvinsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir og Sveinn Sigurkarlsson.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði, en fresta skal fullnustu tólf mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Þá skal ákærði sæta upptöku á myndefni og tölvum, munum nr. 330896 og 330898, sem lögregla lagði hald á.

                Ákærði greiði A 800.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. október 2010 til 30. september 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði D 600.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2009 til 30. september 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði 4.988.069 krónur í sakarkostnað, þar með talin 953.800 króna þóknun skipaðs verjanda hans, Árna Helgasonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur króna þóknun réttargæslumanns brotaþola A, Valgerðar Valdimarsdóttur héraðsdómslögmanns, og þóknun réttargæslumanns brotaþola D, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 439.250 krónur.