Hæstiréttur íslands
Mál nr. 392/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Föstudaginn 1. október 1999. |
|
Nr. 392/1999. |
X (Hjördís Halldórsdóttir hdl.) gegn Félagsþjónustunni í Reykjavík (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdómara um að hafna kröfu X um að fellt yrði úr gildi samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þess að hún yrði vistuð gegn vilja sínum á sjúkrahúsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 1999, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 16. sama mánaðar um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Auk þess krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hjördísar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hjördísar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 75.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 1999.
Ár 1999, mánudaginn 27. september, var á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. L-32/1999 uppkveðinn svofelldur úrskurður:
Fyrir er tekið: Lögræðismálið nr. L-32/1999. Krafa X þess efnis að felld verði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytis um nauðungarvistun hennar.
Mál þetta sem þingfest var 24. september sl. var tekið til úrskurðar í dag.
Sóknaraðili er X [...]
Varnaraðili er Félagsþjónustan í Reykjavík, Síðumúla 39, Reykjavík.
Með beiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 17. september sl. krafðist sóknaraðili þess að felld yrði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 16. september sl. um að vista hana á sjúkrahúsi. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 16. september sl. um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Ákvörðun um nauðungarvistun sóknaraðila er reist á vottorði Ernis Snorrasonar geðlæknis. Kemur þar fram að sóknaraðili hafi átt við hegðunarvandkvæði að stríða samfara ofsókarhugmyndum. Þar segir m.a. svo: „Sl. tvö ár hafa ranghugmyndir X farið versnandi og í kjölfarið hegðunarvandkvæði og árásargirni. Við seinustu skoðun 2. september 1999 hafi hún verið verulega agiteruð og neitar enn viðeigandi meðferð. Nýflutt í íbúð á nýjum stað kvartar um hávaða og einkennileg hljóð, sem hún telur beint gegn sér. Eins telur hún nágranna ofsækja sig með hinum ýmsu klókindum sbr. trufla hitarennsli inn í íbúðina. Við þessa skoðun er X með ofsóknarhugmyndir án nokkurs sjúkdóms innsæis og hótar málsókn ýmsum opinberum aðilum. Hugartengsl losaraleg og blandar ólíkum hlutum saman. Engu að síður áttuð á stað og stund og fer með lesna lagatexta af þó nokkrum skilningi. Í þessu samhengi má tala um elabor eða psychosu af paranoid gerð. Í þessu ástandi er grunnt á árásargirni og veruleg hætta á því að hún verði sér og öðrum til skaða.” Í niðurstöðu kemur fram að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjú.kdómi, sjúkdómsgreining varanleg hugvilluröskun F22, Dx. Personality disorder F60.0. Þá segir að telja verði að sjúklingur eigi rétt á viðeigandi meðferð vegna alvarlegs sjúkdómsástands síns, sbr. að sjúkdómsinnsæi sjúklings sé ekki til staðar. Verulega aukin hætta sé á því að sjúklingur verði sér og öðrum til skaða í þessu sjúkdómsástandi. Er það mat læknisins að brýn nauðsyn sé á því að sóknaraðili verði lögð inn á geðdeild til viðeigandi meðferðar.
Að tilhlutan dómsins var leitað eftir áliti héraðslæknisins í Reykjavík um sóknaraðila. Í vottorði hans dags. 22. september sl. segir svo: „Ég hef átt samskipti við X undanfarin þrjú ár í embætti mínu sem héraðslæknir. Allan þann tíma hefur hún sýnt sterk og viðvarandi einkenni um ofsóknarhugmyndir. Einkenni hennar hafa orðið meira og meira áberandi síðustu mánuði. Ég er sammála að nauðsynlegt hafi verið að nauðungarvista hana til þess að hún geti undirgengist nauðsynlega meðferð vegna sjúkdómseinkenna sinna.”
Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að lögregla þurfti að hafa afskipti af sóknaraðila vegna ónæðis af hennar völdum á skrifstofu heilbrigðisráðuneytis og landlæknis hinn 13. september sl.
Nauðungarvistun sú sem hér er til umfjöllunar er byggð á læknisvottorði Ernis Snorrasonar geðlæknis samkvæmt heimild í 3. mgr. sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna er það skilyrði nauðungarvistunar á sjúkrahúsi að sá sem vistaður er sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Sama gildir ef maður á við alvarlega áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana-og fíkniefna. Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laganna er það og skilyrði að nauðungarvistun sé óhjákvæmileg að mati læknis.
Ernir Snorrason, geðlæknir hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt. Hann kvaðst hafa átt viðtal við sóknaraðila 14. september sl. og hafi ástand hennar þá verið óbreytt frá skoðun sem fram fór 2. september sl. Hann kvað sóknaraðila vera haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Hann gat þess að viss hegðan sóknaraðila hafi farið versnandi og hún hefði ekkert innsæi í sjúkdóm sinn og innlögn gegn vilja hennar til læknismeðferðar væri nauðsynleg.
Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til gagna sem liggja fyrir í máli þessu verður að telja að sýnt hafi verið fram á að verulegar líkur séu á því að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi eða að ástand hennar sé svo að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Er það og mat Ernis Snorrasonar geðlæknis sem og héraðslæknisins í Reykjavík að nauðungarvistun sóknaraðila sé óhjákvæmileg. Ber því að staðfesta ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 16. ágúst 1999 um að sóknaraðili, X , skuli vistast á sjúkrahúsi.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun talsmanns sóknaraðila, Hjördísar Halldórsdóttur hdl. 75.000 krónur, úr ríkissjóði. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 16. september 1999, um að sóknaraðili, X [...] skuli vistast á sjúkrahúsi.
Þóknun til skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hjördísar Halldórsdóttur hdl. 75.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.