Hæstiréttur íslands

Mál nr. 398/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Samkeppni
  • Ráðningarsamningur


Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. nóvember 2001.

Nr. 398/2001.

Global Refund á Íslandi hf.

Global Refund A/S  og

Global Refund AB

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Jónasi Hagan Guðmundssyni og

Refund á Íslandi ehf.

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Lögbann. Samkeppni. Ráðningarsamningur.

Sóknaraðilarnir G hf., G A/S og G AB, kröfðust þess að lagt yrði lögbann við nánar tilgreindum athöfnum J, fyrrverandi forstjóra G A/S og framkvæmdastjóra G hf., og fyrirtækis hans, R hf., sem J hafði stofnað eftir að honum var vikið úr starfi hjá G A/S. Fyrir lá að J hafði sjálfur íhugað að segja upp störfum sínum hjá sóknaraðilum og efna til samkeppnisrekstrar og leitað lögfræðiráðgjafar um réttarstöðu sína í því sambandi. Var ekki talið að J hefði með þessu brotið gegn trúnaðarskyldu við sóknaraðila, enda var ósannað að hann hefði gripið til ráðstafana til að hrinda þeim áformum í framkvæmd á meðan hann starfaði hjá sóknaraðilum. J var hins vegar talinn hafa rofið trúnað við þá með því að senda lögmanni sínum eintök af samningum við tíu stærstu viðskiptavini G hf., auk annarra gagna, í því skyni að metið yrði hvort umræddar verslanir gætu hætt viðskiptum við sóknaraðila og tekið í stað þess upp viðskipti við J og R hf. Fallist var á að þetta hefði gefið sóknaraðilum tilefni til fyrirvaralausrar riftunar á samningum aðila. Við uppsögnina varð virkt ákvæði í ráðningarsamningi J við G A/S um að J væri óheimilt að stunda samkeppnisrekstur í allri Skandinavíu. Þótti þessi orðnotkun óskýr og voru sóknaraðilar látnir bera hallann af óskýrleika samningsins að þessu leyti. Samkvæmt því var ekki talið að J hefði skuldbundið sig til að hefja ekki samkeppni við sóknaraðila hér á landi. Ekki var talið sannað að J og R hf. hefðu með starfsemi sinni brotið gegn 27. gr. laga nr. 8/1993 og yrði lögbann heldur ekki reist á brotum þeirra á öðrum ákvæðum laganna.  Aðgerðir J til að stofna til samkeppnisrekstrar eftir að sóknaraðilar slitu einhliða ráðningu hans þóttu eigi heldur hafa skapað skilyrði til að beita lögbanni gegn starfsemi hans á grundvelli almennra reglna um trúnaðarskyldu vinnuréttar. Lögbannskröfu sóknaraðila var samkvæmt þessu hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að lagt yrði fyrir sýslumanninn í Hafnarfirði að leggja lögbann við því í fyrsta lagi að varnaraðilinn Jónas reki eða starfi í tvö ár frá og með 30. júlí 2001 við eigið fyrirtæki eða fyrirtæki, sem er undir yfirráðum hans að hluta eða öllu leyti og er í samkeppni, beint eða óbeint, við starfsemi sóknaraðila á Íslandi eða að hann ráði sig til starfa eða hafi atvinnutengsl, beint eða óbeint, við viðskiptamenn sóknaraðila eða við aðra „viðskiptatengla“ þeirra. Þá var hafnað kröfu sóknaraðila um að í öðru lagi yrði lagt lögbann við því að varnaraðilar, í sameiningu eða hvor fyrir sig, afli sér eða reyni að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum sóknaraðila og að varnaraðilar hagnýti sér leyndarmál og vitneskju, sem varnaraðilinn Jónas aflaði sér í starfi sínu hjá sóknaraðilanum Global Refund á Íslandi hf. eða veiti öðrum án heimildar upplýsingar um slík atvinnuleyndarmál sóknaraðila eða gefi öðrum kost á að nýta sér vitneskju, sem varnaraðilinn Jónas aflaði sér í starfi hjá þeim. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og henni var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni þeirra og að varnaraðilum verði gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðilar dæmdir til greiðslu kærumálskostnaðar.

I.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi eru sóknaraðilar hluti af samstæðu fyrirtækja, sem starfa víða um heim. Felst starfsemi þeirra í að annast gegn þóknun milligöngu um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna af vörum, sem þeir flytja með sér úr landi. Sýnist starfsemi hvers sóknaraðila varða endurgreiðslu virðisaukaskatts af vörum, sem keyptar eru í heimalandi hans. Global Refund á Íslandi hf. var stofnað 2. apríl 1996 undir nafninu Europe Tax-free shopping á Íslandi hf., en nafni félagsins mun hafa verið breytt í núverandi horf á árinu 1998. Með ráðningarsamningi 20. maí 1996 var varnaraðilinn Jónas Hagan Guðmundsson ráðinn sölu- og rekstrarstjóri Europe Tax-free shopping á Íslandi hf. Var hann ráðinn forstjóri félagsins 1. júlí 1997. Með samningi 16. febrúar 1999 var Jónas ráðinn til stjórnunarstarfa hjá Global Refund Deutschland GmbH frá 1. þess mánaðar. Kveðst hann hafa gengt starfi sölustjóra hjá félaginu.

 Með samningi 29. desember 1999 var varnaraðilinn Jónas ráðinn forstjóri sóknaraðilans Global Refund A/S í Danmörku. Samningur þessi var tímabundinn til þriggja ára frá 1. janúar 2000 og skyldi honum ljúka án uppsagnar 31. desember 2002. Á ráðningartímanum var samningurinn uppsegjanlegur af beggja hálfu með sex mánaða fyrirvara. Í 1. mgr. 13. gr. samningsins var sérstakt samkeppnisákvæði, sem er tekið upp orðrétt í hinum kærða úrskurði. Efni þess er á þann veg að komi til slita ráðningarsambands aðila vegna uppsagnar af hálfu forstjórans eða vegna uppsagnar eða riftunar af hálfu félagsins, enda hafi forstjórinn gefið félaginu tilefni til slíks, skuli forstjóranum í tvö ár frá lokum uppsagnarfrests óheimilt, sjálfum eða með rekstri eigin fyrirtækis eða fyrirtækis undir hans yfirráðum að hluta eða öllu leyti, að annast rekstur eða aðra starfsemi í beinni eða óbeinni samkeppni við þá starfsemi, sem félagið rak þegar til uppsagnar kom. Þá sé honum óheimilt að ráða sig til starfa hjá viðskiptamönnum félagsins eða öðrum þeim, sem tengdust félaginu með viðskiptum, eða hafa önnur bein eða óbein viðskiptatengsl við slíka aðila. Í 2. mgr. 13. gr. samningsins eru framangreindum takmörkunum á heimild forstjórans til að stunda atvinnustarfsemi ákveðin landfræðileg mörk og sagt að þær gildi vegna sérstakra aðstæðna félagsins á tímabilinu í allri Skandinavíu ( „for hele Skandinavien“).

 Á stjórnarfundi í sóknaraðilans, Global Refund á Íslandi hf. 26. janúar 2000 var ákveðið að ráða varnaraðilann Jónas sem framkvæmdastjóra félagsins frá 1. apríl þess árs. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur um það starf. Gengdi varnaraðilinn starfinu samhliða forstjórastarfinu hjá Global Rerfund A/S í Danmörku og fékk ekki greitt sérstaklega fyrir það að öðru leyti en því að hann naut árangurstengdrar launauppbótar miðað við afkomu íslenska félagsins í samræmi við almennar reglur Global Refund fyrirtækjanna um kjör forstjóra þar að lútandi.

Seint í júlímánuði 2001 fannst á skrifstofu sóknaraðilans Global Refund á Íslandi hf. texti bréfs, sem varnaraðilinn Jónas hafði skrifað til nafngreinds lögmanns í Reykjavík. Lýsti varnaraðilinn því í bréfinu að hann hefði áform um að segja upp samningum sínum við sóknaraðila miðað við júlímánuð 2002 og stofna eigið félag til að hefja rekstur hér á landi í samkeppni við Global Refund. Var erindi hans við lögmanninn að biðja um álit hans á lagalegri stöðu sinni gagnvart sóknaraðilum ef þessum áformum yrði hrint í framkvæmd sem og stöðu helstu viðskiptavina Global Refund á Íslandi hf. til að hætta þeim viðskiptum og beina þeim þess í stað að slíku nýju félagi. Segir í bréfinu að meðfylgjandi því séu samningar Global Refund á Íslandi hf. við tíu stærstu viðskiptamenn þess sem og sérstakir „prentara“ samningar, sem allir séu samhljóða. Varnaraðilinn Jónas var af þessu tilefni kvaddur á fund í starfsstöð sóknaraðilans Global Refund A/S í Danmörku 30. júlí 2000. Kemur fram í fundargerð að varnaraðilanum hafi í fundarlok verið afhent bréf um riftun ráðningarsamninga hans við félögin tvö, sóknaraðilana Global Refund A/S í Danmörku og Global Refund á Íslandi hf. Er bréf dagsett 30. júlí 2000 frá sóknaraðilanum Global Refund A/S í Danmörku meðal gagna málsins, en riftunarbréf frá sóknaraðilanum Global Refund á Íslandi hf. hefur ekki verið lagt fram í málinu. Með bréfinu lýsti Global Refund A/S í Danmörku yfir riftun á ráðningarsamningi aðila og vék varnaraðilanum Jónasi samdægurs úr starfi sínu vegna trúnaðarbrots. Jafnframt var minnt á að varnaraðilanum væri samkvæmt 13. gr. samningsins óheimilt að stunda samkeppnisrekstur í Danmörku og öðrum hlutum Skandinavíu, en tekin skyldu af tvímæli um að samkeppnistakmörkunin næði einnig til Íslands.

Þegar eftir riftun samningsins hófst varnaraðilinn Jónas handa um að hrinda í framkvæmd áformun sínum um rekstur í samkeppni við sóknaraðila hér á landi. Var í því skyni stofnað einkahlutafélagið Refund á Íslandi. Er dagsetning samþykkta þess 7. ágúst 2001. Hefur félagið hafið rekstur og orðið vel ágengt við að ná til sín viðskiptavinum Global Refund á Íslandi hf. að mati sóknaraðila. Ekki er í ljós leitt að varnaraðilinn Jónas hafi hafið beinan undirbúning að samkeppnisrekstri áður en ráðningu hans var rift með því að hafa samband við viðskiptavini sóknaraðila eða á annan hátt.

II.

Sóknaraðilar reisa lögbannskröfu sína á þrem málsástæðum. Í fyrsta lagi er á því byggt að stofnun og starfsemi Refund á Íslandi ehf. sé brot á áðurnefndu samkeppnisákvæði í samningi varnaraðilans Jónasar og sóknaraðilans Global Refund A/S í Danmörku. Í öðru lagi telja þeir að með því að nýta í samkeppnisrekstri upplýsingar, sem sami varnaraðili hafði um viðskipti og starfsemi sóknaraðila, séu brotin ákvæði 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og í þriðja lagi að með samkeppnisrekstri hafi hann gerst brotlegur gagnvart þeim almennu reglum vinnuréttar, sem gildi um trúnaðarskyldur starfsmanns.

Ekki verður talið að varnaraðilinn Jónas hafi gefið sóknaraðilum tilefni til fyrirvaralausrar riftunar ráðningarsamninga aðila með því einu að leita með fyrrgreindu bréfi álits lögmanns á réttarstöðu sinni ef hann gerði alvöru úr þeim áformum sínum að segja ráðningarsamningunum upp ári síðar og hefja þá samkeppnisrekstur, enda er ekki í ljós leitt að hann hafi gert neinar ráðstafanir til að hrinda þeim áformun sínum í framkvæmd meðan hann starfaði í þágu sóknaraðila. Eftir slíku áliti gat hann leitað án þess að senda með bréfinu til lögmannsins eintök af samningum við tíu stærstu viðskiptamenn sóknaraðilans Global Refund á Íslandi hf. og svonefnda prentarasamninga, en í bréfi hans kemur beinlínis fram að þetta sé gert í því skyni að lögmaðurinn meti jafnframt hvort umræddar verslanir gætu hætt viðskiptum við sóknaraðila og tekið í stað þess upp viðskipti við varnaraðila. Verður að fallast á að með þessu hafi varnaraðilinn Jónas brotið trúnað við sóknaraðila og gefið þeim tilefni til fyrirvaralausrar riftunar á samningum aðila. Við það varð virkt ákvæði samningsins um samkeppnishömlur. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. hans skyldu samkeppnishömlurnar gilda í allri Skandinavíu eða „for hele Skandinavien.“ Samkvæmt niðurstöðu álitsgerðar Thomasar Bredsdorff prófessors við Kaupmannahafnarháskóla, sem sóknaraðilar öfluðu einhliða, getur orðið „Skandinavien“ í nútíma dönsku haft tvær merkingar, annars vegar þrengri merkingu og taki þá til Damnerkur, Noregs og Svíþjóðar og hins vegar víðari merkingu, er taki auk fyrrnefndra landa til Finnlands og Íslands. Telur hann tilhneigingu í Danmörku til að nota orðið „Norden“ þegar átt sé við stærra svæðið (Danmörku, Noreg, Svíþjóð, Finnland og Ísland) en „Skandinavien“ þegar átt sé við hið minna (Danmörku,  Noreg og Svíþjóð). Telur hann að þessi munur sé nú ríkjandi málvenja enda þótt víðari merking orðsins „Skandinavien“ sé ekki óalgeng. Í ljósritum úr flestum þeirra orðabóka, sem lögð hafa verið fram í málinu, er orðið „Skandinavien“ skýrt svo að með því sé átt við Danmörku, Noreg og Svíþjóð en sums staðar er hinnar víðari merkingar einnig getið, en þá sem sjaldgæfari merkingarkosts. Verða sóknaraðilar að bera hallann af óskýrleika samningsins að þessu leyti enda halda þeir fram skýringarkosti, sem ekki sýnist í samræmi við ríkjandi málvenju og ósannað er gegn andmælum varnaraðilans Jónasar að hann hafi í tengslum við samningsgerðina sérstsaklega samþykkt að samkeppnishömlurnar skyldu ná til Íslands. Þá verður heldur ekki talið að með því að ráða sig til forstjórastarfa hjá sóknaraðilanum Global Refund á Íslandi hf. hafi varnaraðilinn gengist undir sams konar samkeppnishömlur á Íslandi og um var samið að gilda skyldu í Skandinavíu í samningi hans við sóknaraðilann Global Refund A/S í Danmörku, enda eru engin gögn í málinu til stuðnings því að um slíkt hafi verið sérstaklega samið. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að varnaraðilinn Jónas Hagan Guðmundsson hafi með samningi skuldbundið sig til að hefja ekki samkeppni við sóknaraðila hér á landi.

Samkvæmt 27. gr. samkeppnislaga má sá, sem fengið hefur vitneskju um atvinnuleyndarmál í starfi sínu, ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Gildir bannið í þrjú ár frá því að samningi er slitið. Hugtakið atvinnuleyndarmál er ekki er skilgreint í lögunum. Í athugasemdum með frumvarpi til samkeppnislaga segir meðal annars að verslunar- og viðskiptaleyndarmál geti til dæmis verið fólgin í sérstöku sölu- eða innkaupaskipulagi, skrám yfir viðskiptavini, þekkingu á viðskiptavinum og ýmsum tölulegum upplýsingum. Almenn þekking og reynsla geti hins vegar ekki fallið undir að vera viðskiptaleyndarmál.

Við mat á því hvort um brot á 27. gr samkeppnislaga sé að ræða verður meðal annars að líta til þess hversu almenns eðlis viðkomandi upplýsingar eru, á hve margra vitorði þær eru og hversu auðvelt er fyrir utanaðkomandi mann að afla sér þeirra. Starfsemi sóknaraðila er í eðli sínu einföld og hliðstæð starfsemi er stunduð af aðildarfélögum Global Refund samstæðunnar og samkeppnisaðilum þeirra víða um heim. Upplýsingar um helstu viðskiptavini eru aðgengilegar meðal annars í bæklingum, sem sóknaraðilar hafa sjálfir gefið út. Ekki verður séð að varnaraðilinn Jónas hafi búið yfir vitneskju um reksturinn almennt umfram aðra starfsmenn sóknaraðilans Global Refund á Íslandi hf. og sóknaraðilar hafa ekki bent á neina sérstaka vitneskju hans um starfsemi sóknaraðilans, sem teljist til viðskiptaleyndarmála. Þegar litið er til alls þessa verður fallist á með héraðsdómara að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á að varnaraðilar hafi með starfsemi sinni brotið gegn tilvitnuðu ákvæði. Ekki verður lögbann heldur reist á brotum varnaraðila á öðrum ákvæðum samkeppnislaga.

Loks byggja sóknaraðilar lögbannskröfu sína á því að varnaraðilinn Jónas hafi með framferði sínu brotið gegn almennum trúnaðarskyldum vinnuréttar. Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verður það ekki talið brot á trúnaðarskyldu varnaraðilans við sóknararaðila að hann íhugaði að segja upp ráðningarsamningi þeirra og efna til samkeppnisrekstrar og leitaði lögfræðiráðgjafar um réttarstöðu sína í því sambandi. Þar var einnig komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri í ljós leitt að varnaraðilinn hafi gripið til ráðstafana til að hrinda þeim áformum í framkvæmd á meðan hann starfaði hjá sóknaraðilum. Verður ekki á það fallist að aðgerðir hans til að stofna til samkeppnisrekstrar eftir að sóknaraðilar slitu einhliða ráðningu hans hafi skapað skilyrði til að beita lögbanni gegn starfsemi hans á grundvelli almennra reglna um trúnaðarskyldu vinnuréttar. Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað.

Sóknaraðilar greiði varnaraðilum óskipt kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

         Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Global Refund á Íslandi hf., Global refund A/S og Global Refund AB, greiði óskipt varnaraðilum, Jónasi Hagan Guðmundssyni og Refund á Íslandi ehf., hvorum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2001.

Mál þetta, sem þingfest var 31. ágúst sl., var tekið til úrskurðar 14. f.m.

Sóknaraðilar eru Global Refund á Íslandi hf., kt. 430496-2129, Kaplahrauni 15, Hafnarfirði, Global Refund A/S, Danmörku og Global Refund AB, Svíþjóð.

Varnaraðilar eru Jónas Hagan Guðmundsson, kt. 051169-5309, og Refund á Íslandi ehf., kt. 500801-2120, Bæjarhrauni 8, Hafnarfirði.

Sóknaraðilar gera þær dómkröfur, að héraðsdómur leggi fyrir sýslumanninn í Hafnarfirði að verða við beiðni þeirra um að lögbann verði lagt við því að,

  1. Jónas Hagan Guðmundsson reki eða starfi í tvö ár frá og með 30. júlí 2001 við eigið fyrirtæki, eða fyrirtæki sem er undir yfirráðum hans að hluta eða öllu leyti og er í samkeppni, beint eða óbeint, við starfsemi sóknaraðila á Íslandi, eða að hann ráði sig til starfa, eða hafi atvinnutengsl, beint eða óbeint við viðskiptamenn sóknaraðila eða við aðra viðskiptatengla þeirra.
  2. Jónas Hagan Guðmundsson og eða Refund á Íslandi ehf. afli sér eða reyni að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum sóknaraðila og Jónas Hagan Guðmundsson og Refund á Íslandi ehf. hagnýti sér leyndarmál og vitneskju, sem Jónas Hagan Guðmundsson aflaði sér í starfi sínu hjá Global Refund á Íslandi hf. eða veiti öðrum án heimildar upplýsingar um slík atvinnuleyndarmál sóknaraðila eða gefi öðrum kost á að nýta sér vitneskju, sem Jónas Hagan Guðmundsson aflaði sér í starfi sínu hjá þeim.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins til hvers sóknaraðila um sig úr hendi varnaraðila.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að þeim verði hvorum um sig tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. 

I.

Fram kemur í greinargerð sóknaraðila að Global Refund á Íslandi hf. sé hluti af samstæðu fyrirtækja sem starfi víða um heim. Hafi félagið með höndum gegn tiltekinni þóknun endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna af vörum sem þeir kaupa á Íslandi og flytja með sér úr landi. Þetta eigi einnig við um sóknaraðilann Global Refund A/S sem starfi í Danmörku og sóknaraðilann Global Refund AB sem hafi þessa þjónustu með höndum í Svíþjóð. Hið sænska félag eigi 95% hlut í Global Refund á Íslandi hf. en 5% séu í eigu Kaupmannasamtaka Íslands og Samtaka verslunarinnar. Kveða sóknaraðilar að Global Refund A/S og Global Refund AB séu að meginhluta til í eigu hollenska eignarhaldsfélagsins Global Refund Holding BV. Eitt af félögunum í samstæðunni sé Global Refund Deutshland GmbH. Samstæðan hafi áður heitið Europe Tax-free shopping. 

Global Refund á Íslandi hf. mun hafi verið stofnað á árinu 1996 undir nafninu Europe Tax-free shopping hf., en á árinu 1998 var nafni félagsins breytt í núverandi horf í samræmi við breytingar á nafni samstæðunnar.  Kveða sóknaraðilar óumdeilt að undanfarin ár hafi Global Refund á Íslandi hf. verið leiðandi aðili á sínu starfssviði á Íslandi. Varnaraðili Jónas Hagan hafi verið starfsmaður félagsins frá stofnun þess og allt þar til hann hafi verið ráðinn til Global Refund Deutschland GmbH um áramótin 1998/1999. Upphaflega hafi hann verið titlaður sölu- og rekstrarstjóri en í reynd verið framkvæmdastjóri Global Refund hér á landi allt frá stofnun félagsins og þar til hann hóf störf í Þýskalandi. Eftir tæplega árs starf í Þýskalandi hafi hann síðan verið ráðinn framkvæmdastjóri sóknaraðila Global Refund A/S. Af því tilefni hafi verið gerður tímabundinn ráðningarsamningur þann 29. desember 1999 milli varnaraðila og Global Refund A/S.  Átti samningur þessi að renna út þann 31. desember 2002.  Halda sóknaraðilar því fram að rekja megi ástæðu þess, að um tímabundinn samning var að ræða, til skattalegra hagsmuna varnaraðila. Í ráðningarsamningnum var ákvæði sem bannaði varnaraðila að stofna til samkeppni við viðsemjanda sinn eða vinna hjá samkeppnisaðila hans í tvö ár frá starfslokum. Ákvæðið var landfræðilega afmarkað þannig að það átti að taka til allrar Skandinavíu (hele Skandinavien). Að sögn sóknaraðila átti ákvæðið upphaflega aðeins að taka til Danmerkur og Íslands og hafi varnaraðili fallist á það. Vegna ábendinga frá lögmanni sóknaraðila hafi verið ákveðið í samráði við varnaraðila að víkka ákvæðið út þannig að það tæki til allra Norðurlandanna. Varnaraðili fellst ekki á þessa lýsingu á tilurð og efnisinntaki samkeppnisákvæðisins og kveður ákvæðið aldrei hafa verið rætt við sig. Sér hafi verið fenginn tilbúinn samningur til undirritunar. Sömuleiðis hefur varnaraðili mótmælt þeirri fullyrðingu sóknaraðila að í þágu hagsmuna hans hafi verið ákveðið að umræddur ráðningarsamningur yrði tímabundinn.

HinnH 1. apríl 2000 tók varnaraðili Jónas við starfi framkvæmdastjóra Global Refund á Íslandi hf. Ákvörðun um þessa ráðningu mun formlega hafa verið tekin 26. janúar 2000, en á því er byggt af hálfu sóknaraðila að fyrir hafi legið um svipað leyti og varnaraðili var ráðinn til starfa hjá Global Refund A/S að áform sóknaraðila stæðu til þess að varnaraðili tæki við starfi framkvæmdastjóra Global Refund á Íslandi ehf. 1. apríl 2000. Frá og með þeim tíma gegndi varnaraðili starfi framkvæmdastjóra hjá Global Refund á Íslandi hf. samhliða starfi sínu sem framkvæmdastjóri Global Refund A/S. Ekki var gerður sérstakur ráðningarsamningur vegna starfa varnaraðila fyrir hið íslenska félag en samkomulag varð um að laun hans fyrir að gegna báðum þessum störfum yrðu þau sömu og hann þegar þáði fyrir störf í þágu sóknaraðila Global Refund A/S. 

Í lok júlí á þessu ári fannst á skrifstofu sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf.  bréf sem varnaraðili Jónas hafði ritað Gesti Jónssyni hæstaréttarlögmanni. Bréf þetta bar með sér að það hefði verið sent lögmanninum ásamt afritum af samningum sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf. við 10 stærstu viðskiptamenn félagsins. Í bréfi þessu spyrst varnaraðili fyrir um réttarstöðu sína tæki hann ákvörðun um að hrinda í framkvæmd þeim áformum sínum að láta af störfum hjá Global Refund á Íslandi og í Danmörku, stofna eigið félag um þennan rekstur og fara í samkeppni við sóknaraðila. Af hálfu sóknaraðila var strax brugðist við þessu með því að kalla varnaraðila á fund á skrifstofu sóknaraðila Global Refund A/S í Danmörku þann 30. júlí 2001. Á þeim fundi fékkst staðfesting á því að varnaraðili hefði komið umræddu bréfi á framfæri við framangreindan lögmann. Var honum af þeim sökum sagt upp störfum þann sama dag. Að undangenginni áskorun mun varnaraðili síðan hafa skilað á skrifstofu sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf. þeim samningum sem fylgt höfðu bréfi hans til lögmannsins.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að síðari hluta vikunnar 5. til 11. ágúst sl. hafi starfsmenn og stjórnendur Global Refund á Íslandi hf. orðið varir við að varnaraðili Jónas hafi farið á milli viðskiptavina félagsins og boðið fram samskonar þjónustu og sóknaraðilar veita. Einnig hafi hann heimsótt viðskiptabanka félagsins, Landsbanka Íslands hf., og annars vegar óskað eftir því að bankinn annaðist greiðsluumboð fyrir nýtt félag á starfssviði sóknaraðila og hins vegar að hann veitti lán fyrir stofnsetningu rekstrarfélags og starfsemi þess. Þann 7. ágúst hafi varnaraðili síðan stofnað einkahlutafélagið Refund á Íslandi. Þá halda sóknaraðilar því fram að starfsmenn varnaraðila Refund á Íslandi ehf., það er varnaraðili Jónas og Sigurður Veigar Bjarnason, hafi í síðasta mánuði farið á milli kaupmanna og fengið þá til að rjúfa samninga sína við sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf., en jafnframt látið þeim í té nauðsynleg gögn frá Refund á Íslandi ehf. til þess að endurgreiðsla á virðisaukaskatti til félagsins gæti farið fram. Þá hafi þeir fjarlægt búnað og gögn sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf. og skilað til félagsins.  Hafi þeir félagar haft verulegan árangur af sókn sinni og megi rekja hann til villandi upplýsinga sem veittar hefðu verið, meðal annars um það að varnaraðili Refund á Íslandi ehf. væri nýtt félag í tengslum við Global Refund samstæðuna en í eigu íslenskra en ekki erlendra aðila. Þá hafi varnaraðili Refund á Íslandi ehf. ekkert skeytt um skráð vörumerki Global Refund samstæðunnar og beinlínis stefnt að því að gögn Refund á Íslandi ehf. væru sem líkust gögnum sóknaraðila, en það væri til þess fallið að kaupmenn og ferðamenn rugluðust á þeim.  Varnaraðilar hafa hafnað því að þeir hafi veitt villandi upplýsingar við markaðssókn sína og einnig því að þeir hafi reynt að líkja eftir gögnum sóknaraðila eða að þeir hafi stefnt að því að skapa ruglingshættu eins og sóknaraðilar haldi fram.

Sóknaraðilar halda því jafnframt fram að í fyrrnefndu bréfi varnaraðila Jónasar til Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns hafi komið skýrt fram að hann hyggðist taka upp samkeppni við sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf. Varnaraðili hafi á þessum tíma enn verið starfsmaður sóknaraðila. Þá sé ljóst að í júlí 2001, ef ekki miklu fyrr, hafi varnaraðili Jónas ritað smásölum kynningarbréf þar sem hann hafi á vegum óstofnaðs félags lýst þessum áformum sínum að einhverju leyti. Varnaraðili Jónas hefur alfarið hafnað fullyrðingum sóknaraðila í þessa veru og kveðst hafa starfað af fullum heilindum fyrir sóknaraðila fram á síðasta dag og ekkert aðhafst til að hefja samkeppni við sóknaraðila fyrr en eftir að ráðningarsamningi hans var slitið með þeim hætti sem áður er lýst. Bréf hans til lögmannsins hafi verið ritað til að kanna réttarstöðu hans en hafi ekki falið í sér þá afdráttarlausu yfirlýsingu sem sóknaraðilar hafi lesið út úr því.

Í ljósi þeirrar aðstöðu sem uppi er í málinu að mati sóknaraðila samkvæmt framansögðu fóru þeir þess á leit við sýslumanninn í Hafnarfirði 17. ágúst sl. að lagt yrði lögbann við byrjuðum eða yfirvofandi athöfnum varnaraðila sem tilgreindar eru í kröfugerð þeirra í máli þessu. Sýslumaður hafnaði beiðninni þann 23. sama mánaðar. Var ákvörðun hans á því byggð að sóknaraðilar hefðu ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991 um kyrrsetningu og lögbann væru uppfyllt. Var það mat sýslumanns að sóknaraðilum hefði ekki tekist að sanna eða gera sennilegt að byrjaðar eða yfirvofandi aðgerðir varnaraðila brytu eða myndu brjóta gegn lögvörðum rétti og hagsmunum sóknaraðila. Þessari ákvörðun leitast sóknaraðilar nú við að fá hnekkt með úrskurði dómsins. 

II.

Til stuðnings lögbannskröfu vísa sóknaraðilar í fyrsta lagi til 1. mgr. 13. gr. ráðningarsamnings varnaraðila Jónasar við Global Refund A/S, en þar sé meðal annars kveðið á um að varnaraðila sé óheimilt í tvö ár frá lokum uppsagnarfrests að stunda samkeppni við vinnuveitanda. Málsgreinin hljóðar svo: „Såfremt ansættelsesforholdet ophører som følge af direktørens egen opsigelse eller som følge af selskabets opsigelse eller opphævelse í tilfælde, hvor direktøren har givet selskabet rimelig anledning til opsigelse eller ophævelse, er direktøren forpligtet til i 2 år regnet fra opsigelsesperiodens udløb ikke selv eller gennem et af ham helt eller delvis kontrolleret selskab at drive forretning eller anden virksomhed, som direkte eller indirekte måtte konkurrere med den af selskabet på opsigelsestidspunktet drevne virksomhed, eller tage ansættelse hos eller direkte eller indirekte at have erhvervsmæssig kontakt med selskabets kunder og andre forretningsmæssige forbindelser.” Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að ofangreind takmörkun samkvæmt 1. mgr. hennar taki, „som folge af selskabets særlige forhold”, til „hele Skandinavien“. Af ástæðum sem nú skulu raktar nánar telja sóknaraðilar að ákvæði þetta standi því í vegi að varnaraðila Jónasi sé heimilt að standa að starfsemi hér á landi á starfssviði sóknaraðila. Í fyrsta lagi halda sóknaraðilar því fram að þegar ráðningarsamningurinn var gerður hafi verið rætt um það á milli aðila að samkeppnis-ákvæði hans ætti að ná til Danmerkur og Íslands. Á þeim tíma hafi legið fyrir að varnaraðili myndi taka við starfi framkvæmdastjóra hjá Global Refund á Íslandi og gegna á sama tíma starfi framkvæmdastjóra hjá Global Refund í Danmörku. Af þessum sökum hafi beinlínis verið rætt um það að ofangreint samkeppnisákvæði tæki til þessara landa. Vegna ábendingar frá lögmanni sóknaraðila Global Refund A/S hafi ákvæðið hins vegar verið útvíkkað ennfrekar og það látið ná til allra Norðurlandanna, svo sem orðalag þess gefi til kynna. Allt þetta hafi varnaraðili fallist á. Óháð því hvaða skilning megi leggja í afmörkun samkeppnisákvæðsins samkvæmt orðalagi þess leiði framangreind atvik til þess að það taki til Íslands. Í öðru lagi líta sóknaraðilar svo á að ráðningarsamningurinn á milli varnaraðila og Global Refund A/S, sem undirritaður var 29. desember 1999, eigi efnislega við um samningssamband varnaraðila og Global Refund á Íslandi hf.  Tiltaka sóknaraðilar í þessu sambandi að á milli Global Refund á Íslandi hf. og varnaraðila hafi ekki verið gerður sérstakur ráðningarsamningur. Í gögnum málsins komi hins vegar skýrlega fram að efnislega hafi ráðningarsamningur varnaraðila og sóknaraðila Global Refund A/S einnig gilt um samningssamband varnaraðila og Global Refund á Íslandi hf. Þannig hafi varnaraðili skriflega gengist undir það að hann myndi „ekki gera kröfu um greiðslu launa fyrir störf sín í þágu Global Refund á Íslandi” og að þau teldust þannig innifalin í þeim launum sem hann þegar þáði vegna starfa fyrir sóknaraðilann Global Refund A/S, en að hann myndi fá launauppbót fyrir afkomu á Íslandi í samræmi við meginreglur fyrir framkvæmdastjóra innan Global Refund samstæðunnar. Í viðauka sem gerður hafi verið við margnefndan ráðningarsamning komi fram að ákvæði um launauppbót hafi náð til starfa varnaraðila á Íslandi og í Danmörku. Þá halda sóknaraðilar því fram í þessu sambandi og svo sem áður er rakið að vegna hagsmuna varnaraðila hafi þessi tilhögun verið viðhöfð við launagreiðslur til hans. Hafi þar komið til skattalegir hagsmunir sem sóknaraðilar gera grein fyrir í greinargerð sinni. Af framangreindu leiði að kjaraleg staða varnaraðila sem framkvæmdastjóra Global Refund á Íslandi hf. og efnisleg réttindi hans til launa fyrir það starf, þar með talinn réttur til launauppbótar, hafi algerlega byggst á samningi hans við Global Refund A/S. Samkvæmt því verði að álykta svo að sá samningur gildi um samband sóknaraðilans Global Refund á Íslandi hf. og varnaraðila að öllu því leyti sem af landfræðilegum eða starfslegum ástæðum geti átt við. Samkeppnisákvæði 13. gr. ráðningarsamningsins hafi því gilt í starfi varnaraðila fyrir sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf. og sé hann þannig bundinn af ákvæðinu og þeim takmörkunum sem í því felist. Gegn þeim takmörkunum hafi varnaraðili skýrlega brotið. Gegn þeim brotum eigi sóknaraðilar þau úrræði að fá lagt lögbann við þeirri starfsemi varnaraðila Jónasar, sem í bága fari við samkeppnisákvæðið. Í þriðja lagi og hvað sem öllu framangreindu líður halda sóknaraðilar því fram að í orðunum „hele Skandinavien” í ráðningarsamningi varnaraðila og Global Refund A/S felist að samkeppnisákvæði hans taki til Íslands. Hafa sóknaraðilar vísað þessu til stuðnings í tvær álitsgerðir sem þeir hafa lagt fram í málinu. Samkvæmt annarri þeirra, sem rituð er af Thomas Bredsdorff prófessor við Nordisk institut for filologi í Kaupmannahöfn, geti „Skandinavien” í dönsku máli merkt hið sama og „Norden”. Um þetta segir svo í álitsgerðinni: „Når De derfor spørger om ordet „Skandinavien” i dag kan oppfattes som et synonym for ordet „Norden”, er svaret ja, det kan det; men man kan ikke slutte omvendt at det skal det. Der kan på dansk være sammenfald mellem hvad de to ord dækker; men hyppigere bruges de i to forskellige betydninger, med „Norden” som det større, „Skandinavien” som det mindre af de to umråder. Er der tvivl, kan kun sammenhængen afgøre hvilken af de to betydninger der er gældende i en given tekst.” Sé víðtækari merking orðsins „Skandinavien” lögð til grundvallar, svo sem hér beri að gera í ljósi allra atvika og þess að orðið „hele” standi fyrir framan það, sé ljóst að með því sé þá átt við öll Norðurlönd. Sé sú niðurstaða í samræmi við þann tilgang samkeppnisákvæðins að í því felist hindrun á samkeppni frá varnaraðila, sem verið hafi framkvæmdastjóri Global Refund á Íslandi og í Danmörku, á því markaðssvæði sem hann starfaði á í þágu sóknaraðila. Leggja sóknaraðilar í þessu sambandi áherslu á það að samningurinn sé ritaður á dönsku og því eigi sá skilningur sem lagður verði í orðið „Skandinavien” samkvæmt dönsku máli að ráða því hvernig túlka beri samkeppnisákvæði hans að þessu leyti.

Sóknaraðilar byggja kröfu sína um lögbann í öðru lagi á því að varnaraðili Jónas hafi með athöfnum sínum brotið gegn trúnaðarskyldu sem á honum hafi hvílt gagnvart sóknaraðilum samkvæmt almennum reglum vinnuréttar, ráðningarsamningi og ákvæðum samkeppnislaga. Í vinnurétti séu gagnkvæmar tillitsskyldur samningsaðila óvenjulega ríkar. Þannig beri starfsmaður ríkar trúnaðarskyldur gagnvart vinnuveitanda sínum og viðurkennt sé að þær séu þeim mun ríkari sem starfsmaður gegni hærri stöðu hjá vinnuveitanda.  Eins og áður hafi verið rakið hafi varnaraðili Jónas gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá sóknaraðilunum Global Refund A/S og Global Refund á Íslandi hf. Hafi hann borið sem slíkur mjög ríka trúnaðarskyldur gagnvart þessum sóknaraðilum. Snar þáttur í slíkri trúnaðarskyldu sé að stunda ekki samkeppni við vinnuveitanda. Svo sem rakið hafi verið í málsatvikalýsingu hafi varnaraðili Jónas sent lögmanni bréf, þar sem hann hafi óskað lögfræðilegrar athugunar á því hver réttarstaða hans væri þegar hann hæfi samkeppnisrekstur gegn sóknaraðilum. Sóknaraðilar leggja áherslu á það í þessu sambandi að bréfi þessu hafi fylgt samningar sóknaraðilans Global Refund á Íslandi hf. við tíu stærstu aðildarfyrirtæki þess, sem og það sem nefnt er prentarasamningar.  Jafnframt halda sóknaraðilar því fram að varnaraðili Jónas hafi þegar í júlí, að minnsta kosti, og þar með þegar hann var starfsmaður sóknaraðila, hafist handa með áróður fyrir væntanlegu fyrirtæki sínu og gegn vinnuveitanda sínum. Þá er á því byggt af hálfu sóknaraðila að trúnaðarskyldum starfsmanns að vinnurétti ljúki ekki við lok ráðningarsamnings, nema að vinnuveitandi hafi ólöglega bundið endi á hann, en ljóst sé að slíkt sé ekki uppi á teningnum í máli þessu.  Í þeim tilvikum þegar bundinn er endir á vinnusamband vegna brota starfsmanns, svo sem hér hagi til, sé aðstaðan hins vegar sú að trúnaðarskylda starfsmanns gagnvart vinnuveitanda geti ekki talist falla niður við lok samningssambandsins. Ótvírætt hljóti að teljast, að varnaraðili geti ekki um leið og vinnusambandi ljúki nýtt sér þá þekkingu, sem hann hafi aflað sér í starfi hjá sóknaraðilum, til að vinna gegn hagsmunum þeirra.  Telja sóknaraðilar að í þessu sambandi sé nauðsynlegt að skoða í samhengi hvað varnaraðili hafi aðhafst eftir að honum var vikið úr starfi hjá sóknaraðilum af gildum ástæðum. Í fyrsta lagi sé til þess að líta að varnaraðili Jónas hafi stofnað félagið Refund á Íslandi ehf. Telja sóknaraðilar að nafngift þessi brjóti gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 42/1903, um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð, þar sem fram komi að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Telja sóknaraðilar það augljóst að framangreind nafngift hafi verið valin í þeim tilgangi að reyna að valda ruglingi á félaginu og sóknaraðilum. Varnaraðili hafi einnig látið útbúa gögn sem sóknaraðilar telja að brjóti gegn skráðum rétti þeirra til vörumerkis. Séu eyðublöð varnaraðila Refund á Íslandi ehf. eins og sams konar eyðublöð sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf., fyrir utan að orðunum Icelandic Refund hafi verið bætt við. Að auki telja sóknaraðilar ljóst að að framangreind háttsemi fái engan veginn samrýmst 25. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, en samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarkmerki eða því líkt sem sá hefur ekki rétt til er notar eða rekur atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að að leitt geti til til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti. Þessu til viðbótar halda sóknaraðilar því fram að varnaraðilar hafi haft samskipti við fjölmarga af viðskiptavinum sóknaraðila og fengið þá til að ganga til viðskipta við sig. Hafi varnaraðilar borið talsvert úr býtum og náð til sín umtalsverðum hluta af stærstu viðskiptavinum sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf.  Sóknaraðilar telji þessa markaðssetningu varnaraðilans Refund á Íslandi ehf. brjóta ólöglega gegn þeirri trúnaðarskyldu sem hvíli á varnaraðila Jónasi samkvæmt almennum reglum vinnuréttar. Sé í þessu sambandi einnig vert að geta þess að samkvæmt 4. gr. ráðningarsamnings varnaraðila sé hann bundinn þagnarskyldu um allt sem hann komist að í starfi sínu sem framkvæmdastjóri, nema um sé að ræða atriði sem eðli málsins samkvæmt skuli kunngerð þriðja manni. Gildi þagnarskylda þessi einnig eftir að varnaraðili láti af störfum. Telja sóknaraðilar augljóst að þegar varnaraðili Jónas hafi haft samband við viðskiptavini sóknaraðila hafi hann hagnýtt sér þá vitneskju sem hann hafði um samninga sóknaraðila við viðskiptamennina og þá sérstaklega um hvaða kjara þeir nytu og hvers kyns tölvu- og hugbúnað þyrfti að nota.  Einnig hafi varnaraðilar fengið starfsmann sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf., Sigurð Veigar Bjarnason, til liðs við félagið, en samkvæmt ákvæði í samningi Sigurðar við sóknaraðilann Global Refund á Íslandi hf. hafi honum verið bannað að starfa hjá félagi í samkeppni við Global Refund á Íslandi hf. í eitt ár frá starfslokum.  Sé almennt viðurkennt, að brot gegn trúnaðarskyldu séu þeim mun alvarlegri þegar fleiri en einn starfsmaður taki sig saman um að keppa gegn fyrri vinnuveitanda.

Þegar framanrakin háttsemi varnaraðila er skoðuð í samhengi telja sóknaraðilar að ljóst megi vera að um eindregin og gróf brot á trúnaðarskyldu varnaraðila sé að ræða. Í samræmi við það telji sóknaraðilar að skilyrði séu fyrir hendi að leggja lögbann við háttsemi varnaraðila á þessum grundvelli, enda hafi sóknaraðilar sannað að athafnir varnaraðila hafi brotið gegn lögvörðum rétti sóknaraðila. Þá séu trúnaðarskyldur framkvæmdastjóra félags enn ríkari en annarra starfsmanna. Rof slíkra starfsmanna á trúnaðarskyldum sé því aukin röksemd fyrir því að slík brot séu fullnægjandi grundvöllur lögbanns, jafnvel þótt engu samningsákvæði væri fyrir að fara, eins og þegar hafi verið rökstutt.

Í þriðja og síðasta lagi hafa sóknaraðilar til stuðnings lögbannskröfu sinni vísað til þeirra ákvæða samkeppnislaga nr. 8/1993 er leggi bann við því að gera nokkuð það er brjóti í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi, bann sem bæði starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn, stjórnendur, eigendur fyrirtækja og allir aðrir séu bundnir af. Ljóst sé að samkeppnislög eigi við í máli þessu en samkvæmt 2. gr. laganna taki þau til hvers konar atvinnustarfsemi, án tillits til þess hvort hún sé rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Í 27. gr. laganna sé kveðið á um trúnaðarskyldur tengdar atvinnustarfsemi. Felist þær skyldur m.a. í því að starfsmanni sé óheimilt að veita upplýsingar um eða hagnýta sér atvinnuleyndarmál tengd starfi sínu og gildi bannið í 3 ár frá starfslokum eða samningsslitum. Einnig sé óheimilt að nýta sér eða veita öðrum afnot án heimildar af uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða öðru þess háttar sem manni hafi starfs eða stöðu sinnar vegna verið trúað fyrir. Ennfremur sé óheimilt að færa sér framangreindar upplýsingar í nyt og taki bannið bæði til þeirra sem afli upplýsinganna og þeirra er fái þær frá þeim. Sóknaraðilar telja ljóst að varnaraðili Jónas búi yfir atvinnuleyndarmálum í skilningi 2. mgr. 27. gr. samkeppnislaga sem hann hafi fengið vitneskju um í starfi sínu hjá sóknaraðilum. Þessar upplýsingar hafi hann án heimildar sóknaraðila nýtt í eigin þágu og í þágu varnaraðila Refund á Íslandi ehf. Samkvæmt athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 8/1993 geti atvinnuleyndarmál til dæmis verið upplýsingar um sérstakt sölu- eða innkaupaskipulag, skrá yfir viðskiptavini, sérstök þekking á viðskiptavinum og fleira. Hafi varnaraðili Jónas nýtt sér slíkar upplýsingar um starfsemi sóknaraðila bæði áður en hann hætti þar störfum en þó sérstaklega eftir starfslok. Þá hafi varnaraðili Jónas búið yfir vitneskju um viðskiptakjör viðskiptamanna sóknaraðila og nýtt sér hana við markaðssókn sína í þágu varnaraðilans Refund á Íslandi ehf.  Telja sóknaraðilar þetta fela í sér óréttmæta viðskiptahætti í skilningi 1. gr. samkeppnislaga. Þá halda sóknaraðilar því einnig fram að varnaraðili kunni að hafa hagnýtt sér hugbúnað sem sóknaraðilar njóti höfundarréttar að og þannig brotið gegn 3. mgr. 27. gr. samkeppnislaga. Varnaraðili hafi t.d. látið gera skjöl Refund á Íslandi ehf. eftir skjölum sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf. og þá væntanlega til þess að nota mætti sama hugbúnað og þann er sóknaraðili notist við.

Sóknaraðilar mótmæla sérstaklega þeim skilningi varnaraðila að ekki geti verið um atvinnuleyndarmál að ræða þar sem um tiltölulega einföld viðskipti sé að ræða. Benda sóknaraðilar á það í þessu sambandi að samkvæmt athugasemdum er fylgdu frumvarpi til samkeppnislaga sé ákvæði 27. gr. reist á þörf fyrirtækja fyrir vernd upplýsinga sem snerta samkeppnisstöðu þeirra en þar sé ekki gert ráð fyrir því að máli geti skipt hversu flókin eða umfangsmikil starfsemin sé. 

Sóknaraðilar telja að þegar brot varnaraðila samkvæmt framangreindu eru metin verði að hafa í huga hvaða stöðu hann gegndi hjá sóknaraðila. Sem framkvæmdastjóri hafi hann haft vitneskju um alla starfsemi sóknaraðila og þá einkum viðskiptamenn og viðskiptakjör, svo og innra og ytra skipulag. Talið sé, eins og áður hafi verið rakið, að á stjórnendum hvíli ríkari trúnaðarskylda en á öðrum starfsmönnum enda beri þeir ríkari ábyrgð og njóti launakjara í samræmi við það. Telja sóknaraðilar og að háttsemi varnaraðila geti ekki talist góðir viðskiptahættir í skilningi 20. gr. samkeppnislaga. 

Í greinargerð sóknaraðila er sérstaklega vikið að þeirri vörn, sem sett var fram af hálfu varnaraðila við meðferð lögbannsmáls hjá sýslumanni, að með heimild í 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, beri að víkja til hliðar þeim samnings- eða lögbundnu hindrunum, sem teldust vera í vegi þess að varnaraðili Jónas gæti hafið sjálfstæða starfsemi hér á landi. Telja sóknaraðilar þessa staðhæfingu ekki eiga við rök að styðjast og ákvæði 37. gr. hafi ekki í för með sér að víkja beri til hliðar neinum samningsbundnum takmörkunum á atvinnufrelsi varnaraðila, sem hann hafi undirgengist. Þá er tekið fram að ákvæði þetta hafi enga þýðingu við mat á því hvort varnaraðili teljist hafa brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga og almennum reglum vinnuréttar og þær takmarkanir á atvinnufrelsi varnaraðili sem leiddar verði af framangreindum réttarheimildum verði aldrei takmarkaðar með stoð í tilvitnuðu ákvæði samningalaga. Að því er varðar þá landfræðilegu afmörkun sem samkeppnisákvæði ráðningarsamnings geri ráð fyrir halda sóknaraðilar því fram að ljóst megi vera að þeir hafi þörf fyrir vernd gegn samkeppni á Norðurlöndum eins og mælt sé fyrir um í 2. mgr. 13. gr. samningsins.  Sjáist það best á því að viðskiptavinir hafi sagt upp samningum við sóknaraðila Global Refund á Íslandi hf. og velta á Íslandi hafi dregist saman. Telji dómurinn af einhverjum orsökum að þessi afmörkun sé of víðtæk hljóti að vera ljóst að ákvæðið taki í öllu falli til Danmerkur og Íslands, þ.e. þeirra landa þar sem varnaraðili gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá Global Refund. Sóknaraðilar telji einnig ljóst að engar aðrar ástæður geti réttlætt það, að talið yrði að skuldbinding sú sem varnaraðili hafi tekið á sig með framangreindum ráðningarsamningi sé víðtækari en nauðsynlegt sé með tilliti til hagsmuna sóknaraðila. Benda þeir sérstaklega á að varnaraðili hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra og notið mjög góðra launakjara á starfstímanum, en ótvírætt sé að mun meira þurfi til að vikið sé til hliðar ákvæðum í samningum æðstu starfsmanna félaga en undirsáta. Varnaraðili sé einnig ungur og vel menntaður maður, sem eigi mjög auðvelt með að útvega sér vinnu. Þessu til stuðnings vísa sóknaraðilar til starfsferilsskrár varnaraðila, sem lögð hefur verið fram í málinu, auk viðamikillar starfsreynslu sem hann hafi öðlast í störfum fyrir sóknaraðila. Þá halda sóknaraðilar því fram að útilokað verði að telja að til greina komi að beita ákvæði 36. gr. samningalaga til að víkja til hliðar eða breyta þeim samningsákvæðum sem hér séu til athugunar. Þannig hafi fræðimenn talið að greinin geti einungis tekið til samkeppnisákvæða í alveg sérstökum tilfellum og ekki komi til álita að slíkt sé uppi á teningnum í þessu máli.  Að auki séu ekki færð nein sérstök rök fyrir því í andmælum við lögbannsbeiðni að ákvæðið geti átt við.

Sóknaraðilar telja ljóst samkvæmt framansögðu að skilyrði lögbanns séu fyrir hendi enda hafi þeir sýnt fram á að athafnir varnaraðila brjóti gegn lögvörðum rétti þeirra. Hafna þeir sérstaklega þeirri mótbáru varnaraðila að ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 24. gr. lögbannslaga geti átt við eins og atvikum sé háttað og breyti í því sambandi engu þótt sérstaklega sé samið um skaðabætur í 3. mgr. 13. gr. ráðningarsamnings vegna brota á samkeppnisákvæði. Sé í því sambandi rétt að líta til þess að í málum af þessu tagi sé iðulega vandkvæðum bundið að sanna umfang tjóns, enda hafi verið gerðar ríkar sönnunarkröfur þar um. Eins sé ekki ljóst hvort varnaraðilar geti reitt af hendi þær skaðabætur sem þeir yrðu dæmdir til að greiða kæmi til þess að sóknaraðilum tækist að sanna það tjón sem háttsemi varnaraðila hafi bakað þeim. Að mati sóknaraðila séu því ekki uppfyllt þau skilyrði síðastnefndrar lagagreinar, að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi nægilega hagsmuni gerðarbeiðenda. Eins telja sóknaraðilar að ákvæði 2. tölul. 3. mgr. 24. gr. lögbannslaga standi ekki í vegi fyrir því að umbeðið lögbann verði lagt á. Það ákvæði sé sambærilegt 37. gr. samningalaga, að því leyti að komast verði að þeirri niðurstöðu að hagsmunir varnaraðila séu svo stórfelldir að þeir þoki til hliðar hagsmunum sóknaraðila. Með vísan til þess sem að framan greinir um ákvæði 37. gr. samningalaga telji sóknaraðilar ljóst að þetta ákvæði lögbannslaga eigi ekki við í þessu máli.  Einnig sé lögð áhersla á það að enn strangari skilyrði séu sett til beitingar 2. tölul. 3. mgr. 24. gr. lögbannslaga, en nefnds ákvæðis samningalaga, þar sem krafa sé gerð um að „stórfelldur munur“ sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að fyrirbyggja hana. Telja sóknaraðilar að þetta skilyrði geti engan vegin talist uppfyllt í þessu máli.

III.

Til stuðnings kröfu sinni um að hafnað verði kröfu sóknaraðila um lögbann samkvæmt fyrri lið kröfugerðar þeirra vísa varnaraðilar í fyrsta lagi til þess að samkeppnisákvæðið í ráðningarsamningi varnaraðila Jónasar og sóknaraðila Global Refund A/S nái einungis til samkeppni við  hið danska félag. Það hafi enga starfsemi á Íslandi eftir því sem best sé vitað og því feli hafin eða fyrirhuguð starfsemi varnaraðilans Refund á Íslandi ehf. ekki í sér samkeppni við danska félagið.

Við munnlegan flutning málsins andmælti lögmaður varnaraðila því að hið umdeilda samkeppnisákvæði væri virkt gagnvart varnaraðila. Í 1. mgr. þess væri kveðið á um það að sé starfsmanni vikið úr starfi komi bann við samkeppni því aðeins til álita að sanngjörn ástæða sé fyrir brottrekstri starfsmanns (rimelig anledning til opsigelse eller ophævelse). Með því að þessu skilyrði sé ekki fullnægt hafi ákvæðið ekki gildi gagnvart varnaraðila. Í öðru lagi og hvað sem framangreindu líður telja varnaraðilar að samkeppnisákvæðið verði ekki skýrt á þann veg að það banni samkeppni við sóknaraðila hér á landi. Vísa varnaraðilar til þess að í 2. mgr. 13. gr. samningsins sé landfræðileg afmörkun ákvæðisins beinlínis orðuð.  Ákvæðið gildi um „Skandinavien“. Er andmælt þeirri kenningu sóknaraðila að orðið Skandinavía á dönsku eða í dönsku lagamáli nái til Íslands. Sérstaklega er því andmælt að þær álitsgerðir sem sóknaraðilar hafa lagt fram í málinu hafi þýðingu við úrlausn þess. Til Skandinavíu teljist eingöngu Noregur, Svíþjóð og Danmörk. Þessu til staðfestingar hafa varnaraðilar lagt fram ljósrit úr nokkrum orðabókum, dönsk-dönskum og dönsk-íslenskum, sem þeir telja að sýni að skilningur sóknaraðila sé að minnsta kosti ekki almennur ef ekki beinlínis rangur. Þá leggja varnaraðilar á það áherslu að sé uppi einhver vafi um afmörkun á efnislegu inntaki samkeppnisákvæðis þá beri að túlka það þröngt. Atvinnufrelsi sé varið af 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 13. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Öll samningsbundin frávik frá atvinnufrelsi beri að túlka þröngt. Þessu til viðbótar hafna varnaraðilar því að sá skilningur sem kunni að verða lagður í orðið „Skandinavien” á dönsku hafi þýðingu við úrlausn málsins. Varnaraðili sé íslenskur og við túlkun samningsins að þessu leyti beri að leggja til grundvallar þann skilning sem hann hafi mátt leggja í orðið. Hér á landi sé almennt litið svo á að Ísland tilheyri ekki Skandinavíu. Af þessu leiði út af fyrir sig að samkeppnisákvæðið nái ekki til starfa varnaraðila á Íslandi. Þá byggja varnaraðilar andmæli sín við lögbannskröfu ennfremur á því að í 3. mgr. 13. gr. ráðningarsamningsins sé beinlínis samið um hvernig með skuli fara brjóti varnaraðili Jónas gegn samkeppnisákvæðinu. Þar sé svo um samið að greitt skuli févíti og/eða skaðabætur vegna brots. Telja varnaraðilar, með vísan til 1. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu og lögbann, að lögbann verði ekki lagt við athöfn þegar réttarreglur um refsingar eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Að síðustu mótmæli varnaraðilar sem fráleitri þeirri túlkun sóknaraðila að uppbygging Global samsteypunnar, þ.e. að íslenska og danska félagið heyri undir sænska félagið, skipti einhverju máli í þessu samhengi. Umsamin samkeppnistakmörkun í Skandinavíu verði ekki færð yfir á Ísland af slíkri ástæðu.

Að því er varðar kröfu sóknaraðila um lögbann samkvæmt seinni tölulið kröfugerðar þeirra, en hún er svo sem áður er fram komið grundvölluð á 27. gr. samkeppnislaga, mótmæla varnaraðilar því að varnaraðilinn Jónas búi yfir atvinnuleyndarmálum sem réttlætt geti kröfu um lögbann. Starfsemi sóknaraðila felist í tiltölulega einföldum viðskiptum sem stunduð séu um allan heim. Starfsemin felist í því að kaupa með afföllum ávísanir sem erlendir ferðamenn fá fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts og síðan innlausn þeirra hjá íslenskum yfirvöldum.  Viðskiptamennirnir séu aðilar sem selja erlendum aðilum skattskyldan varning. Allur almenningur hafi aðgang að upplýsingum um hverjir þessir aðilar séu. Íslenski sóknaraðilinn dreifi til dæmis upplýsingariti (Shopping in Iceland) þar sem fram komi yfirlit yfir helstu viðskiptamenn fyrirtækisins. Upplýsingar um alla viðskiptamenn hins íslenska sóknaraðila megi síðan finna á netinu á heimasíðu randburg.com. Global Refund á Íslandi sé eini einkaaðilann sem stundi þessa starfsemi á Íslandi, en í öðrum löndum muni Global keðjan vera í samkeppni við önnur fyrirtæki. Lögbannskrafan sé sýnilega sett fram í því skyni að varna samkeppni og tryggja áframhaldandi einokun sóknaraðila á íslenskum markaði.

Varnaraðili Jónas tekur fram að sú vitneskja sem hann hafi um viðskiptakjör, sem sóknaraðili veiti viðskiptamönnum sínum, sé einnig á vitorði annarra starfsmanna hins íslenska sóknaraðila. Með öðrum orðum þá búi varnaraðili ekki yfir annarri vitneskju um starfsemi þess sóknaraðila en aðrir starfsmenn félagsins hafi.

Loks benda varnaraðilar á að samkvæmt 2. mgr. 26. gr. lögbannslaga beri sóknaraðilum að leggja fram gögn um þau atriði sem þeir byggi lögbannskröfu sína á. Engin gögn hafi verið lögð fram um röskun atvinnuleyndarmála eða annars þess sem tiltekið sé í 27. gr. samkeppnislaga. Af hálfu sóknaraðila sé í þessu sambandi byggt á fullyrðingum einum.

Varnaraðilar hafna því alfarið að í því hafi verið fólgið trúnaðarbrot af hálfu varnaraðila Jónasar gagnvart sóknaraðilum að hugleiða það að fara í samkeppnisrekstur við þá. Eins og fram komi í bréfi varnaraðila til Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns hafi ætlunin verið að slíkt gerðist að undangenginni uppsögn ráðningarsamnings og að fengnu mati lögmannsins á því að slík starfsemi fæli ekki í sér réttarbrot af hálfu varnaraðila. Bréfið hafi ekki falið annað og meira í sér.  Sóknaraðilar hafi andstætt þessu haldið því fram að með þessu hafi varnaraðili brugðist trúnaði og hafi honum verið vikið úr starfi án fyrirvara og launagreiðslur til hans felldar niður. Jafnframt hafi danski vinnuveitandinn neitað að gera upp áunnið orlof og bónusa. Þá hafi lífeyrissjóðsframlög ekki verið greidd. Telja varnaraðilar að við þessar aðstæður eigi með heimild í 36. og /eða 37. gr. samningalaga nr. 7/1936 að víkja til hliðar þeim samnings- eða lögbundnu hindrunum sem teldust standa því í vegi að varnaraðili Jónas gæti hafið sjálfstæða starfsemi. Ella sé sóknaraðilum gefinn einhliða réttur til þess að koma í veg fyrir að varnaraðili Jónas nýti starfskrafta sína, reynslu og þekkingu til þeirra starfa sem hann þekki best.

Loks vekja varnaraðilar athygli á því að það hafi verið einhliða ákvörðun hins danska sóknaraðila að fella úr gildi ráðningarsamning félagsins við varnaraðila Jónas vegna þess sem félagið taldi vera trúnaðarbrot. Hvað sem líði réttmæti þeirrar skoðunar sé óhjákvæmilegt að líta svo á að þar með hafi samkeppnisákvæðið einnig fallið úr gildi. Vísa varnaraðilar í því sambandi til dóms Hæstaréttar frá 31. maí 2000 í málinu nr. 29/2000.

IV.

Svo sem fram er komið er lagalegur grundvöllur lögbannskröfu sóknaraðila í meginatriðum þríþættur. Í fyrsta lagi styðst hún við ákvæði í ráðningarsamningi varnaraðila Jónasar og Global Refund A/S frá 29. desember 2000, en með því gekkst varnaraðili undir það að hefja ekki samkeppni við hið danska félag í 2 ár frá starfslokum hans hjá því. Samkvæmt ákvæðinu var samkeppnisbanni ætlað að ná til allrar Skandinavíu (hele Skandinavien). Ákvæðið fól eðli máls samkvæmt í sér takmörkun á atvinnufrelsi varnaraðila. Er fallist á það með varnaraðilum að rísi vafi um efnislegt inntak ákvæðis af þessu tagi beri að skýra það þröngt. Í máli þessu er í öllu falli umtalsverður vafi um það að mati dómsins að leggja megi þann skilning í samkeppnisákvæði ráðningarsamnings að í því felist bann við samkeppnisrekstri af hálfu varnaraðila hér á landi. Í samræmi við framangreint leiðir þessi aðstaða til þess að samkeppnisákvæðið verður ekki skýrt á þann veg í lögbannsmáli þessu að það taki til Íslands. Þá er ósönnuð sú staðhæfing sóknaraðila að varnaraðili hafi sérstaklega samþykkt það í tengslum við samningsgerðina að bann við samkeppni af hans hálfu á starfssviði sóknaraðila næði til Íslands. Loks þykja ekki vera efni til þess að líta svo á að varnaraðili hafi, þá er hann var ráðinn framkvæmdastjóri Global Refund á Íslandi, undirgengist víðtækari samkeppnishindrun en fólst í samningnum frá 29. desember 1999.  Verða sóknaraðilar að bera hallann af því  að ákvæði um samkeppnisbann í samningum þeirra við varnaraðila var ekki skýrlega orðað með þeim hætti að samkeppnisrekstur á Íslandi félli undir það. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið nær lögbannskrafa sóknaraðila ekki fram að ganga á grundvelli þess að varnaraðili Jónas hafi skuldbundið sig til að hefja ekki samkeppni við sóknaraðila hér á landi.

Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 er þeim sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan bannað án heimildar að veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Gildir bann þetta í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið. Í 3. mgr. sömu greinar er síðan mælt fyrir um það að þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hafi verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingu, uppskriftum, líkönum eða þess háttar sé óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 8/1993 segir meðal annars svo um þetta ákvæði að almenn þekking og reynsla starfsmanns geti ekki fallið undir það að vera atvinnuleyndarmál. Til þess að svo sé þurfi að liggja fyrir þekking sem sé sérstaklega bundin við viðkomandi rekstur og skipti máli fyrir starfsemina.  Þegar þetta er virt og sérstaklega litið til þess sem fyrir liggur um starfsemi sóknaraðila og eðli hennar verður ekki fallist á það með þeim að þeir hafi sannað eða gert sennilegt, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., að varnaraðilar muni með starfsemi sinni brjóta gegn tilvitnuðu ákvæði samkeppnislaga eða öðrum þeim ákvæðum laganna sem sóknaraðilar hafa vísað til í málinu til stuðnings lögbannskröfu sinni.

Sóknaraðilar byggja lögbannskröfu sína sérstaklega á því að varnaraðili Jónas hafi á meðan hann var starfsmaður Global Refund á Íslandi og í kjölfar starfsloka sinna hjá félaginu brotið með nánar tilgreindum hætti trúnaðarskyldur sem hann hafi borið gagnvart því. Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 er það skilyrði sett fyrir því að leggja megi lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings að hún brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda. Sóknaraðilar telja sig eiga lögvarinn rétt til þess að varnaraðilar stundi ekki samkeppni við þá. Hvað sem líður hugsanlegum brotum varnaraðila á trúnaðarskyldu gagnvart sóknaraðilum verður hins vegar ekki fallist á það að lög standi til þeirrar niðurstöðu að slík brot geti almennt séð veitt þeim slíkan rétt og þannig leitt til þess að varnaraðila sé óheimilt að stunda þá starfsemi sem hann hefur nú með höndum hér á landi í samkeppni við sóknaraðila og krafa þeirra samkvæmt fyrri lið lögbannskröfu tekur til. Getur ótvírætt samkeppnisákvæði eitt leitt til þeirrar niðurstöðu að lögbann verði lagt við þessari starfsemi varnaraðila, en svo sem fram er komið er það mat dómsins að varnaraðili Jónas hafi ekki gengist undir það að hefja ekki samkeppni við sóknaraðila hér á landi. Eftir sem áður standa sóknaraðilum önnur réttarúrræði opin vegna hugsanlegra brota varnaraðila á trúnaðarskyldum hans að vinnurétti. Lögbannskrafa sóknaraðila á þeim grunni sem hér um ræðir nær því þegar af framangreindri ástæðu ekki fram að ganga.

Samkvæmt því sem hér að framan greinir verður að hafna kröfu sóknaraðila um lögbann. Eftir þeim málsúrslitum verður sóknaraðilum óskipt gert að greiða varnaraðilum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 140.000 krónur til varnaraðila Refund á Íslandi ehf. og 175.000 krónur til varnaraðila Jónasar Hagan Guðmundssonar, en við ákvörðun málskostnaðar til hans er tekið tillit til kostnaðar sem varnaraðili þarf að bera vegna virðisaukaskatts af endurgjaldi fyrir lögmannsþjónustu samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hafnað er kröfu sóknaraðila um lögbann.   

Sóknaraðilar, Global Refund á Íslandi hf., Global Refund A/S og Global Refund AB, greiði óskipt varnaraðila, Jónasi Hagan Guðmundssyni, 175.000 krónur í málskostnað.

Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðila, Refund á Íslandi ehf., 140.000 krónur í málskostnað.