Hæstiréttur íslands
Mál nr. 95/2011
Lykilorð
- Líkamsárás
- Neyðarvörn
|
|
Fimmtudaginn 6. október 2011. |
|
Nr. 95/2011. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Friðriki Hrafni Pálssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Líkamsárás. Neyðarvörn.
F var ákærður fyrir líkamsárás á A sem talin var varða við 1. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Átök brutust út fyrir utan skemmtistað í B sem F var þátttakandi í og A hlaut af nokkra áverka. Fór F af vettvangi en síðar um kvöldið kom aftur til átaka milli F og A og var F gefið að sök að hafa slegið A tvívegis með krepptum hnefa í andlit. Var einungis sá hluti ákæru er sneri að síðari átökum þeirra til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Í Hæstarétti var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að í þessum átökum hafi F slegið A tvö hnefahögg í andlit og að sú háttsemi hans yrði felld undir 1. mgr. 217. gr. laganna. Ekki hafi verið í ljós leitt að háttsemi F hafi verið nauðsynleg til að verjast eða afstýra ólögmætri árás A þannig að F teldist hafa unnið verkið í neyðarvörn. Aðstaðan hefði á hinn bóginn verið með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 218. gr. b. laganna. Með hliðsjón af málsatvikum var F því ekki gerð refsing og var hann jafnframt sýknaður af bótakröfu A.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins og að kröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð og fjárhæð kröfunnar lækkuð.
Fyrir Hæstarétti hefur brotaþoli ekki gert kröfu um breytingu á ákvæði héraðsdóms um miskabætur honum til handa.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi brutust út átök milli nokkurra manna í mannmergð og troðningi fyrir utan skemmtistaðinn B-57 í Borgarnesi aðfaranótt 11. apríl 2009. Í þeim hlaut A áverka sem greindir eru í ákæru. Ákærði var þátttakandi í átökunum, en með hinum áfrýjaða dómi var hann sýknaður af því að hafa ráðist gegn A þar. Sú niðurstaða héraðsdóms er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, heldur einungis sá hluti ákæru þar sem ákærða er gefið að sök að hafa síðar þessa nótt ráðist á A fyrir utan myndbandaleigu í nágrenni skemmtistaðarins og slegið hann tvívegis með krepptum hnefa í andlit.
Fram er komið að í kjölfar atvika við skemmtistaðinn fór ákærði af vettvangi, en ráðið verður af framburði vitna, sem nægilega er rakinn í hinum áfrýjaða dómi, að A og fleiri menn hafi veitt honum eftirför. Kom síðan til átaka milli ákærða og A við umrædda myndbandaleigu og lýsti sá síðarnefndi því svo að þeir hafi „runnið saman“. Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um að í þeim átökum hafi ákærði slegið A tvö hnefahögg í andlit og að sú háttsemi hans verði felld undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki hefur verið í ljós leitt að þessi háttsemi ákærða hafi verið nauðsynleg til að verjast eða afstýra ólögmætri árás A þannig að ákærði teljist hafa unnið verkið í neyðarvörn líkt og hann heldur fram. Samkvæmt framansögðu var aðstaðan á hinn bóginn með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af málsatvikum verður ákærða því ekki gerð refsing í máli þessu.
Skýra verður kröfugerð ákærða hér fyrir dómi á þann veg að hann geri kröfu um sýknu af kröfu brotaþola um miskabætur, jafnvel þótt hann verði sakfelldur fyrir brotið sem honum er gefið að sök. Vegna þess að brotaþolinn átti sem fyrr greinir upptök að átökunum við myndbandaleiguna og ekki hefur verið í ljós leitt hvaða áverka hann hefur hlotið af völdum ákærða í þeim átökum verður hann sýknaður af bótakröfunni.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar eins og hann var ákveðinn í héraði. Rétt er hins vegar samkvæmt 1. mgr. 220. gr laganna að áfrýjunarkostnaður málsins verði felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærða, Friðriki Hrafni Pálssyni, verður ekki gerð refsing í máli þessu.
Ákærði er sýkn af kröfu A um miskabætur.
Ákærði greiði 142.675 krónur í sakarkostnað í héraði.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 7. desember 2010.
Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn í Borgarnesi með ákæru 28. september 2010 á hendur ákærða, Friðrik Hrafni Pálssyni, [...]. Málið var dómtekið 17. nóvember sama ár.
Í ákæruskjali er ákærða gefin að sök líkamsárás „með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 11. apríl 2009, staddur fyrir utan skemmtistaðinn B57 í Borgarnesi, ráðist á A , og fyrst slegið hann í höfuðið með grjóti, með þeim afleiðingum að A fékk snert af heilahristingi, 4 cm langan skurð á vinstra gagnauga svo djúpan að sást í höfuðkúpu í sárbotni, mar og bólgu neðan við vinstra auga, tennur og króna á tönn brotnuðu, gervitönn losnaði, bólgu í tannholdi og skurði á innanverðri eftir vör. Sauma þurfti sárið á gagnauga A með þremur sporum af djúpum saumi og setja síðan húðsaum þar ofan á. Síðan hafi Friðrik ráðist að nýju á A og slegið hann einu sinni með krepptum hnefa í andlitið. Síðan hafi Friðrik ráðist að nýju á A, sem þá var staddur utan við útibú Laugarnesvideo í Borgarnesi, og slegið hann tvívegis með krepptum hnefa í andlit.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í ákæru er tekin upp einkaréttarkrafa A, en hann krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.337.150 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 11. apríl 2009 til 28. maí 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar úr hendi ákærða.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins, en til vara að honum verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfa. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði lækkuð. Loks er gerð sú krafa að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.
I
Hinn 11. apríl 2009, kl. 2 um nóttina, barst lögreglunni í Borgarnesi tilkynning um átök fyrir utan skemmtistaðinn B57 við Borgarbraut þar í bæ. Lögregla fór þegar á vettvang og fékk þær upplýsingar að A hefði verið laminn í höfuðið en hann hafði verið færður til aðhlynningar á heilsugæslustöðina í Borgarnesi. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var fullyrt við lögreglu á vettvangi að ákærði hefði ráðist á A, en því neitaði hann og kvaðst sjálfur hafa orðið fyrir árás.
Í vottorði 8. maí 2009, sem ritað er af B, lækni, segir svo um áverka A:
„Við skoðun er hann í alblóðugri skyrtu. Á vinstra gagnauga er djúpur skurður um 4 cm að lengd. Það sést í höfuðkúpu í sárbotni, ekki sést brot. Einnig sést mar og bólga neðan við vinstra auga niður á kinn. Ekki eru eymsli við nefbeinið. Augnhreyfingar eru symmetriskar og ekki kemur fram tvísýni við prófun. Ekki eymsli við indirekt álag á höfuðkúpu. Við skoðun á andlitsbeinum koma fram eymsli yfir vinstra kinnbeini. Margo inferior á orbita þreifast heil.
Hann var saumaður með þremur sporum af djúpum saum og svo settur húðsaumur þar yfir.“
Einnig liggur fyrir ódagsett vottorð C, tannlæknis, en þar segir svo um þá áverka sem A hlaut:
„Hér með staðfestist að undirritaður tók á móti ofangreindum sjúklingi þann 20. apríl 2009 vegna skaða sem hann hafði orðið fyrir á tönnum og munnholi.
Við skoðun má sjá að tönn 21 er brotin og mobil, tönn 22 sem er implant og króna er brotin, tönn 32 er einnig brotin, þó minna en hinar tvær. Talsverð bólga í tannholdi við tennur sem sködduðust í efri góm.
Smávægilegir skurðir á innanverðri efri vör, stór skurður á enni sem hlúð var að á Heilsugæslunni í Borgarnesi.“
Ákærði leitaði sér einnig aðhlynningar á Landspítalanum daginn eftir atburði. Í vottorði D, sérfræðings á slysa- og bráðadeild, frá 6. nóvember 2009 segir að eymsli finnist í vinstri þumli, sem talinn er vera tognaður, auk þess sem ákærði hafi verið með snert af heilahristingi.
II
1.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 30. apríl 2009 greindi ákærði frá því að umrætt kvöld hefði hann verið að skemmta sér á veitingahúsinu B57. Á stigapalli fyrir utan skemmtistaðinn kvaðst ákærði hafa tekið eftir að unnusta vinar hans var að troðast undir mannfjöldanum, en við því hefði hann brugðist með að ýta nærstöddum frá til að ná stúlkunni undan þvögunni. Þetta hefði valdið reiði hjá gestum veitingahússins sem ráðist hefðu að ákærða, en frá stigapallinum hefðu átökin borist niður á jörðina. Þar hefðu margir ráðist að ákærða samtímis, þar á meðal strákur að nafni A. Ákærði kvaðst ítrekað hafa lent á jörðinni og til að verja sig hefði hann gripið lítinn stein, sem passaði vel í lófann, og notað til að slá frá sér. Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa slegið einu sinni frá sér með steininum og hefði höggið lent á fyrrgreindum A án þess þó að ákærði gerði sér grein fyrir hvar höggið lenti á A. Eftir þetta hefði linnt árásum frá þessum hópi en í kjölfarið hefðu aðrir komið og ráðist að ákærða og sparkað í hann þar sem hann lá á jörðinni. Einnig tók ákærði fram að í þeim átökum hefði tekið þátt strákur að nafni E og hefði hann beitt hamri gegn sér. Þessu hefði svo linnt þegar lögregla kom á vettvang, en í átökunum kvaðst ákærði hafa fengið rispur, bólgur og mar víða um líkamann.
2.
Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum á þann veg að vinkona hans, F, hefði traðkast undir mannfjölda og ákærði reynt að ná henni á fætur. Við þetta hefði skapast æsingur og taldi ákærði að nærstaddir hefðu talið hann með einhver læti. Þá hefði A komið ásamt félögum sínum og hefðu þeir ráðist á ákærða með höggum og spörkum. Tók ákærði fram að A hefði haft sig í frammi ekki síður en aðrir. Þessu hefði svo lyktað með því að ákærði hefði endað í jörðinni og slegið frá sér án þess að gera sér grein fyrir hvort einhver hefði orðið fyrir höggum frá honum. Aðspurður taldi ákærði þó hugsanlegt að hann hefði slegið A. Einnig sagði ákærði að hann hefði aldrei verið með grjót í hendi, en nánar aðspurður um frásögn hjá lögreglu sagðist ákærði hafa tekið möl í lófann. Eftir að þessum átökum lauk sagði ákærði að E ásamt fleirum hefði ráðist að sér við myndbandaleigu í nágrenninu. Þar hefði ákærði verið sparkaður niður, auk þess sem reynt hefði verið að beita hamri gegn honum. Að lokum hefði G, félagi ákærða, komið og skakkað leikinn, en þessu hefði endanlega lokið þegar lögregla kom á vettvang.
III
Vitnið A lýsti atvikum þannig fyrir dómi að troðningur hefði myndast á stigapalli fyrir framan skemmtistaðinn. Kvaðst A hafa orðið var við að einhver ýtti við sér til að aðstoða stúlku sem var liggjandi. A kvaðst þá hafa reynt að hjálpa þeim sem var að aðstoða stúlkuna en þá hefði ákærði komið og talið vitnið hafa hrint stúlkunni. A kvaðst hafa reynt að leiðrétta þetta gagnvart ákærða en honum hefði verið ýtt frá. Þessu næst sagðist A hafa fengið þungt högg á höfuðið þannig að fossblæddi. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þann sem sló en ákærði hefði staðið nærri. Um framhaldið sagði A að hann hefði ætlað með félögum sínum á myndbandaleigu í nágrenninu í því skyni að fá stúlku sem þar starfaði til að aka vitninu á heilsugæsluna. Á leiðinni þangað kvaðst A hafa hitt ákærða og hefðu þeir runnið saman. Nánar lýsti A þessu þannig að ákærð hefði slegið sig nokkur högg á munninn en vitnið tekið um ákærða til að verjast höggum hans. Þessu hefði síðan lokið með því að E hefði gengið á milli. Aðspurður sagði A að nafni sinn hefði ekki verið með hamar. Einnig kvaðst vitnið aldrei hafa slegið til ákærða. Um áverka sína sagði A að gerviframtönn hefði losnað og brotnað upp úr tönn í neðri góm. Einnig kvaðst vitnið hafa fengið djúpan skurð á enni.
Vitnið H bar fyrir dómi að mikið mannhaf hefði verið í stiganum fyrir utan skemmtistaðinn. Þar kvaðst vitnið hafa séð ákærða slá A í höfuðið þar sem A stóð á stigapallinum. Um viðbrögð sín sagði H að hann hefði gengið á milli og dregið A með sér inn, en A hefði farið strax út aftur og á eftir ákærða til að svara fyrir sig. Þegar hér var komið hefði einhver annar strákur, sem vitnið þekkti ekki, gengið í skrokk á ákærða, sem hefði verið búinn að rífa sig úr að ofan. Vitnið kvaðst að lokum hafa séð ákærða liggjandi á jörðinni við myndbandaleiguna skammt frá skemmtistaðnum. Aðspurður kvaðst H ekki hafa tekið eftir átökum þar á milli ákærða og A. Þessu hefðu svo lyktað með því að farið var með A á heilsugæslustöðina.
Vitnið I greindi frá því fyrir dómi að mikill troðningur hefði orðið í stiganum fyrir utan skemmtistaðinn en þar hefði stúlka verið að troðast undir. Við þetta hefði ákærði orðið æstur og einhver kýtingur verið með honum og A. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð átök milli þeirra en tók þó fram að mikill mannfjöldi hefði verið á pallinum. Um framhaldið sagði vitnið að ákærði hefði verið eltur að myndbandaleigunni í nágrenninu og þar hefði komið til átaka milli ákærða og A þar sem höggin gengu á milli þeirra. I kvaðst hafa séð þau átök í fjarlægð en þegar hann kom að og sótti ákærða hefði hann legið í götunni eftir að hafa verið sparkaður niður.
Vitnið G kom fyrir dóm og sagði að fyrir utan skemmtistaðinn hefði stúlka lent undir í troðningi. Þar á stigapallinum kvaðst G ekki hafa tekið eftir átökum en í kjölfarið hefði A farið á eftir ákærða og til einhverra átaka komið milli þeirra. Að lokum þegar ákærði var dreginn á brott sagði vitnið að hann hefði verið alblóðugur.
Vitnið J sagði fyrir dómi að ákærði og A hefðu verið að deila þar sem þeir stóðu á stigapallinum við skemmtistaðinn. Vitnið kvaðst hins vegar ekki muna eftir átökum þeirra á milli. Einnig sagði J að stúlka hefði dottið á stigapallinum og kvaðst vitnið hafa ýtt fólki frá til að aðstoða hana á fætur.
Vitnið F, sem féll í stiganum fyrir framan skemmtistaðinn, greindi frá því fyrir dómi að einhver átök hefðu brotist út í stiganum, en hún kvaðst ekkert hafa séð þar sem hún lá niðri. Vitnið kvaðst þó hafa tekið eftir að ákærði hljóp á brott, en einhverjir hefðu veitt honum eftirför og ráðist að honum.
Vitnið L, unnusta ákærða, bar fyrir dómi að brotist hefðu út átök í stiganum fyrir utan skemmtistaðinn vegna manns sem vísað var frá staðnum og í kjölfarið hefði verið ráðist að ákærða.
IV
Ákærða er í fyrsta lagi gefið að sök að hafa slegið A í höfuðið með grjóti fyrir utan skemmtistaðinn B57 í Borgarnesi með tilgreindum afleiðingum, í öðru lagi að hafa ráðist að nýju að A og slegið hann einu sinni með krepptum hnefa í andlitið og loks í þriðja lagi að hafa slegið hann tvívegis með krepptum hnefa í andlitið við útibú Laugarnesvideo í Borgarnesi.
Ákærði neitar sök og skýrði hann svo frá bæði fyrir dómi og hjá lögreglu að ráðist hefði verið á sig í stiganum fyrir utan skemmtistaðinn er hann kom F til aðstoðar þegar hún var að troðast undir í mannfjöldanum. Þaðan hefðu átökin borist niður á jörðina þar sem ákærði hefði átt í vök að verjast gagnvart þeim sem veittust að honum, þar með talið A.
Vitnið A bar fyrir dómi að hann hefði fengið þungt högg á höfuðið þar sem hann stóð á stigapallinum eftir að hafa aðstoðað F. Við þetta hefði fossblætt úr höfði A og var á honum að skilja að afleiðing höggsins hefði verið sá skurður sem hann hlaut á höfði. A kvaðst ekki hafa séð þann sem sló en ákærði hefði staðið nærri. Vitnið H greindi hins vegar frá því fyrir dómi að hann hefði séð ákærða slá A í höfuðið í umrætt sinn. Önnu vitni sem voru nærri og hafa gefið skýrslu fyrir dómi hafa ekki getað borið um að ákærði hafi í umrætt sinn slegið A. Að því gættu þykir ekki sannað eingöngu með vætti H að ákærði hafi slegið A í stiganum og verður hann sýknaður af þessu ákæruatriði.
Af framburði A og annarra vitna fyrir dómi verður ekki ráðið að orðið hafi frekari átök milli hans og ákærða fyrr en við myndbandaleigu í nágrenni skemmtistaðarins. Kemur því aðeins til skoðunar hvort ákærði hafi þegar þangað var komið gerst sekur um líkamsárás gagnvart A, en þar er ákærða gefið að sök að hafa slegið A tvívegis með krepptum hnefa í andlitið.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að hann hefði til að verja sig gripið lítinn stein, sem passaði vel í lófann, og notað til að slá frá sér. Kvaðst ákærði hafa slegið einu sinni frá sér með steininum og hefði höggið lent á A án þess þó að ákærði gerði sér grein fyrir hvar höggið lenti á honum. Fyrir dómi sagði ákærði hins vegar að hann hefði varist með því að slá frá sér eftir að hafa verið hafður undir. Taldi ákærði hugsanlegt að hann hefði slegið A án þess þó að gera sér grein fyrir. Þegar framburður ákærða fyrir dómi er virtur í ljósi frásagnar hjá lögreglu er skýrsla hans hér fyrir dómi því marki brennd að ákærði sé eftir mætti að gera sem minnst úr hlut sínum. Verður að hafa þetta í huga við mat á frásögn ákærða.
Vitnið A bar fyrir dómi að ákærði hefði slegið sig nokkur högg á munninn þegar þeir mættust aftur við myndbandaleiguna í nágrenni skemmtistaðarins. Þessi framburður A er studdur vætti vitnanna I og G, en þeir hafa greint frá því fyrir dómi að komið hafi til átaka milli ákærða og A við myndbandaleiguna. Þá koma þeir áverkar sem A hlaut heim og saman við lýsingu hans á atvikum fyrir dómi. Að öllu þessu virtu er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi ítrekað slegið A í andlitið eins og honum er gefið að sök. Í ákæru er ekki byggt á því að tilteknar afleiðingar hafi hlotist af þessari líkamsárás. Eins og saksókn er hagað verður háttsemin því felld undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Vitnin H, I og G hafa borið fyrir dómi að A hafi farið á eftir ákærða í kjölfar atburða við skemmtistaðinn. Þau viðbrögð hans voru að sínu leyti skiljanleg í ljósi þess að hann taldi ákærða hafa veitt sér áverka. Á hinn bóginn verður ekki vísað á bug þeirri skýringu ákærða að hann hafi talið sér ógnað og að komið hafi til átaka, en A bar fyrir dómi að þeir hefðu runnið saman. Þetta verður þó með engu móti virt þannig að viðbrögð ákærða gagnvart A hafi getað helgast af neyðarvörn, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga, svo sem hreyft var við vörn málsins og verður ákærði því sakfelldur fyrir brotið. Aftur á móti hefur þetta áhrif við ákvörðun viðurlaga, sbr. 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga.
Ákærði var rétt liðlega tvítugur þegar hann framdi brotið. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 2006 fimm sinnum gengist undir viðurlög hjá lögreglu vegna brota gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Einnig gekkst ákærði undir að greiða 70.000 króna sekt fyrir dómi 25. febrúar 2008 vegna brots gegn 106. gr. almennra hegningarlaga.
Að öllu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum.
V
Brotaþoli krefst skaðabóta að fjárhæð 1.337.150 krónur úr hendi ákærða, en krafan sundurliðast annars vegar í skaðabætur vegna sjúkrakostnaðar að fjárhæð 737.150 krónur og miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur. Til stuðnings kröfunni er vísað til 1. gr. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Krafa um sjúkrakostnað er að verulegu leyti reist á kostnaðaráætlun tannlæknis en reikningar vegna hluta fjárhæðarinnar voru fyrst lagðir fram við aðalmeðferð málsins. Þykir því óhjákvæmilegt að vísa þessum kröfulið frá dómi.
Með broti sínu hefur ákærði fellt á sig miskabótaábyrgð og verður sú krafa tekin til greina. Þykja þær bætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Jafnframt verður tekin til greina vaxtakrafa eins og hún er sett fram, en upphafsdagur dráttarvaxta er miðaður við það tímamark þegar mánuður var liðinn frá því krafan var kynnt ákærða. Enn fremur verður ákærða gert að greiða brotaþola málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í dómsorði.
Loks verður ákærða með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, gert að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ákæruvalds og málsvarnarlaun verjanda síns samkvæmt ákvörðun dómsins, en þau þykja hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærða gert að greiða ferðakostnað verjandans.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Friðrik Hrafn Pálsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningalaga með síðari breytingum.
Ákærði greiði A 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 11. apríl 2009 til 28. maí 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 180.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði 285.350 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar, hæstaréttarlögmanns, 200.800 krónur, og 16.650 krónur vegna ferðakostnaðar verjandans.