Hæstiréttur íslands

Mál nr. 504/2008


Lykilorð

  • Félagafrelsi
  • Eignarréttur
  • Stjórnarskrá
  • Kröfugerð
  • Sératkvæði


Mánudaginn 18. október 2010.

Nr. 504/2008.

Víkurver ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

(Hlynur Jónsson hdl.)

gegn

Gildi-lífeyrissjóði og

(Gestur Jónsson hrl.)

(Haukur Örn Birgisson hdl.)

Landssambandi smábátaeigenda

(Ástráður Haraldsson hrl.)

(Stefán A. Svensson hdl.)

Félagafrelsi. Eignarréttur. Stjórnarskrá. Kröfugerð. Sératkvæði.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins er framleiðendum sjávarafurða, öðrum en fiskkaupendum og þeim, sem taka við sjávarafurðum í umboðssölu, gert að greiða 8,4% af samanlögðu hráefnisverði afla, sem þeir taka við af nánar tilgreindum bátum, inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá G. Í 8. gr. laganna er síðan kveðið á um ráðstöfun þessa fjár í þremur töluliðum, og í hinum þriðja er kveðið á um að 6% fjárhæðarinnar renni til L. V var ekki félagsmaður í L, en gerði út smábáta og féll þar með undir fyrrgreinda greiðsluskyldu. Hann sætti sig ekki við þennan hluta gjaldtökunnar og höfðaði mál á hendur G og L þar sem hann taldi lagaákvæðið meðal annars fara í bága við ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar, þá einkum 72. gr. hennar og 2. mgr. 74. gr. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt  lögum nr. 24/1986 væri V ekki skyldaður til aðildar að L, en lögin legðu á hinn bóginn á hann skyldu til að greiða til L af afurðaverði sínu með sama hætti og félagsmönnum L væri gert. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar væri eignarrétturinn friðhelgur en með fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 24/1986 væru eignarréttindi V  skert til hagsbóta fyrir félag, sem hann vildi standa utan við. Aðstaða þessi leiddi til þess að skera yrði úr um hvort uppfyllt væru skilyrði síðari málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo að heimilt væri að skylda V með lögum til að greiða gegn vilja sínum til félags, sem hann ætti ekki aðild að. Fram kemur að greiðsluskylda V samkvæmt 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 væri lögð á hann samkvæmt lögum og því uppfyllt hið fyrsta þeirra skilyrða sem þyrfti að vera fyrir hendi samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Við úrlausn um það hvort skilyrði væru uppfyllt að öðru leyti yrði  að líta til þess hvort L hefði lögmæltu hlutverki að gegna, en ef svo væri þyrfti að skera úr um hvort greiðsluskylda annarra en félagsmanna hans væri nauðsynleg svo að hann gæti gegnt því hlutverki í þágu almannahagsmuna eða réttinda annarra. Fram kemur að í tilgreindum lögum væri kveðið á um tiltekin viðfangsefni L. Hlutverk V væri  þannig ekki markað í lögum, heldur væri einungis mælt þar fyrir um tiltekin verkefni í óverulegum mæli. Í málinu hefði engum haldbærum rökum verið stutt að skylda V til að inna af hendi fjárframlög til L væru nauðsynleg svo að L gæti rækt þau viðfangsefni, sem á hann væru lögð með lögum, eða hvernig almannahagsmunir eða réttindi annarra gætu legið að baki því að slík nauðsyn teldist vera fyrir hendi. Loks væri í áðurnefndum ákvæðum laga nr. 24/1986 ekkert kveðið á um með hvaða hætti því fé skyldi varið, sem þannig væri fært frá V  og afhent L. Í raun væri það fært hinum síðastnefnda til frjálsrar ráðstöfunar, en einnig að því leyti skorti á að sýnt væri fram á að skilyrði síðari málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar væru uppfyllt. Hvað varðaði þá málsvörn L að V gæti ekki sem lögaðili notið verndar þeirra ákvæða stjórnarskrárinnar sem um ræddi, segir í dómi Hæstaréttar að löngum hafi verið viðurkennt að lögaðilar njóti verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í 74. gr. væri   beinlínis fjallað um lögaðila og væru ekki efni til að fallast á að greinarmunur yrði gerður á lögþvinguðum greiðslum þeirra, sem standa utan félaga, eftir því hvort um væri að ræða lögaðila eða einstaklinga, sem kysu að stunda atvinnustarfsemi í eigin nafni. Hæstiréttur taldi því samkvæmt framansögðu að fallast yrði á með V að umrædd lög færu að því leyti í bága við 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og að honum væri óskylt að inna af hendi til stefnda L þau fjárframlög, sem kveðið væri á um í 3. tölulið 8. gr. laganna. Kröfugerð V í málinu væri á hinn bóginn verulega áfátt en af þeim sökum var talið að sýkna yrði G og L af öllum kröfum V í málinu og láta málskostnað falla niður á báðum dómsstigum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2008 að fengnu áfrýjunarleyfi 15. sama mánaðar. Dómkröfur hans eru að viðurkennt verði í fyrsta lagi að stefnda Gildi-lífeyrissjóði „sé óheimilt að veita viðtöku inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta hærri fjárhæð af fjármunum áfrýjanda en þarf til ráðstöfunar skv. 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins“, í öðru lagi að sama sé „óheimilt að inna af hendi greiðslur skv. 3. tl. 8. gr.“ laga nr. 24/1986 „til stefnda Landssambands smábátaeigenda, sem því kynni að berast af fjármunum áfrýjanda“ og í þriðja lagi að þeim sama „beri að endurgreiða áfrýjanda allt það fé hans sem kynni að berast inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta umfram það sem þarf til ráðstöfunar skv. 1. og 2. tl. 8. gr.“ laga nr. 24/1986. Áfrýjandi kveðst beina þessum kröfum aðallega að báðum stefndu, til vara að stefnda Gildi-lífeyrissjóði einum, en að því frágengnu að stefnda Landssambandi smábátaeigenda einum. Að auki krefst áfrýjandi þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 143.237 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 29. júlí 2004 til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins með áorðnum breytingum skulu framleiðendur sjávarafurða, aðrir fiskkaupendur og þeir, sem taka sjávarafurðir í umboðssölu, greiða 8,4% af samanlögðu hráefnisverði afla, sem þeir taka við af opnum bátum, þilfarsbátum undir 10 lestum og krókaaflamarksbátum inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Í 8. gr. laganna er í þremur töluliðum kveðið á um ráðstöfun þess fjár, sem safnast inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta samkvæmt 6. gr. Samkvæmt 1. tölulið greiðist 37,5% fjárins til Lífeyrissjóðs sjómanna, samkvæmt 2. tölulið er 56,5% þess varið til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu skipverja og af vátryggingu báts, en í 3. tölulið er mælt svo fyrir að 6% renni til stefnda Landssambands smábátaeigenda. Stefndi Gildi-lífeyrissjóður varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs sjómanna og Lífeyrissjóðsins Framsýnar 1. júní 2005. Við sameininguna tók stefndi meðal annars við skyldum Lífeyrissjóðs sjómanna samkvæmt lögum nr. 24/1986.

Í málatilbúnaði áfrýjanda kemur fram að hann gerir út smábáta, kaupendur aflans haldi eftir hluta af verði hans samkvæmt 6. gr. áðurnefndra laga og fénu sé síðan ráðstafað eftir reglum 8. gr. þeirra. Áfrýjandi sættir sig ekki við þann hluta gjaldtökunnar, sem ráðstafað er samkvæmt 3. tölulið 8. gr. til stefnda Landssambands smábátaeigenda og er ágreiningur málsaðila bundinn við þau 6% sem þar um ræðir.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2007 var málinu vísað í heild frá dómi vegna annmarka sem þóttu vera á kröfugerð áfrýjanda. Með dómi Hæstaréttar 23. ágúst 2007 í máli nr. 396/2007 var þessi úrskurður felldur úr gildi að því er varðar framangreindar kröfur, sem áfrýjandi gerir nú fyrir Hæstarétti.

II

Áfrýjandi kveðst ekki vera í stefnda Landssambandi smábátaeigenda eða félagi, sem eigi aðild að stefnda, og telur sig ekki þurfa að sæta því að greiða til félags, sem sé honum óviðkomandi. Í málatilbúnaði hans er haldið fram að áðurnefnd lög fari að þessu leyti í bága við ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og fái ekki staðist. Er þá einkum vísað til fyrri málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að engan megi skylda til aðildar að félagi. Lögbundinni skyldu til að greiða til félags, líkt og hér um ræðir, telur áfrýjandi að verði jafnað til lögþvingaðrar félagsaðildar. Greiðslur áfrýjanda til stefnda Landssambands smábátaeigenda séu í raun sams konar félagsgjald og þeir greiði, sem aðild eigi að stefnda, til að standa undir kostnaði af starfsemi hans. Skilyrði séu ekki uppfyllt til þess að síðari málsliður þessa ákvæðis stjórnarskrárinnar geti átt við um stefnda Landssamband smábátaeigenda. Þá fái lögin ekki heldur staðist gagnvart 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem mæli fyrir um friðhelgi eignarréttarins. Lögin kveði á um að fjármunir áfrýjanda séu teknir og afhentir öðrum endurgjaldslaust, en í því felist eignaupptaka í þágu félags, sem geti notað fé hans gegn hugsjónum og baráttumálum hans sjálfs. Áðurnefnd ákvæði laga nr. 24/1986 fái heldur ekki staðist í ljósi 73. gr. stjórnarskrárinnar, en það fari gegn tjáningarfrelsi að einstaklingur þurfi að þola aðild að félagi sem tjái þannig skoðanir og hugsjónir í hans nafni þótt með óbeinum hætti sé. Loks vísar áfrýjandi til 75. gr. stjórnarskrárinnar, en stefndi Landssamband smábátaeigenda vilji stýra því hvernig hann stundi atvinnu sína og hver aðgangur manna sé að auðlindum sjávar. Greiðsluskylda til slíks félags fari einkum í bága við 2. mgr. þessarar greinar stjórnarskrárinnar. Þá heldur áfrýjandi fram að með lögfestingu samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, einkum 10. gr. og 11. gr., með lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu hafi ákvæði 3. töluliðar 8. gr. laga nr. 24/1986 verið numin úr gildi, en líta beri svo á að „öll önnur lög, þótt þau gætu talist sérlög, hafi verið numin úr gildi að því leyti sem þau fóru gegn mannréttindasáttmálanum.“ Þá beri að skýra orðalag 3. töluliðar 8. gr. laga nr. 24/1986 svo að þar sé eingöngu kveðið á um greiðsluskyldu félagsmanna í Landssambandi smábátaeigenda til þess stefnda.

Stefndi Gildi-lífeyrissjóður krefst sýknu vegna aðildarskorts. Hann kveðst hafa haldið sig utan við allan ágreining um lögmæti þess fyrirkomulags á greiðslum samkvæmt lögum nr. 24/1986, sem um ræðir í málinu, en einungis hafa haft yfirumsjón með því. Greiðslum hafi verið miðlað í gegnum greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá tilteknum sparisjóði og hann þannig séð um framkvæmdina. Stefndi sé eingöngu milligöngumaður samkvæmt ákvörðun löggjafans, en hann hafi hvorki haldið eftir greiðslum frá áfrýjanda né notið góðs af þeim á nokkurn hátt. Að mati þessa stefnda hefði áfrýjanda verið rétt að beina kröfum sínum að meðstefnda eða íslenska ríkinu sem beri ábyrgð á lagasetningunni sem um ræðir.

Stefndi Landssamband smábátaeigenda mótmælir að áðurnefnd ákvæði laga nr. 24/1986 fái ekki samrýmst þeim greinum stjórnarskrárinnar sem áfrýjandi vísar til. Að því er varðar 74. gr. hennar byggir hann á því að ákvæði síðari málsliðar 2. mgr. hennar eigi hér við og að skilyrði til að kveða á um félagsskyldu séu uppfyllt. Þá sé hæpið að líta svo á að umrædd ákvæði laga nr. 24/1986 feli í sér skyldu til að greiða félagsgjald, heldur verði að telja greiðslurnar vera ígildi skatta, sem lagðir séu á tiltekna þjóðfélagshópa, og sköttunum síðan varið meðal annars til að vinna að hagsmunum þeirra, sem álögunum sæta. Þá bendir stefndi á að áfrýjandi sé lögpersóna en ekki einstaklingur og geti því ekki reist kröfur sínar á 72. til 75. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessum greinum hennar sé fjallað um borgaraleg réttindi, sem áskilin séu einstaklingum, en þó sé viðurkennt að á grundvelli slíkra einstaklingsréttinda geti félög, sem menn hafi með sér um hugsjónir sínar, notið þeirra réttinda sem hér um ræðir, svo sem félagafrelsis. Félög eins og áfrýjandi, sem rekin séu í fjárhagslegum tilgangi, séu ekki hugsjónafélög í þeim skilningi og ekki félög í merkingu 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Málatilbúnaður áfrýjanda hafi að geyma tilvísanir í það, sem kallað sé lífsskoðanir hans, og að baráttumál stefnda gangi gegn þeim. Samkvæmt samþykktum fyrir áfrýjanda sé tilgangur félagsins að reka útgerð, fiskverkun og skylda starfsemi, verktakastarfsemi, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Þetta séu þær einu svokölluðu hugsjónir eða lífsskoðanir sem áfrýjandi hafi, en félagið sé ekki stofnað til að vinna að málum sem varða lífsskoðanir eigenda þess.

III

Áður er fram komið að áfrýjandi telur að hin umdeildu ákvæði laga nr. 24/1986 hafi verið numin úr gildi með lögum nr. 62/1994, þar eð þau fari í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Þessi málsástæða er haldlaus með öllu. Hinu sama gegnir um þá röksemd að orðalag 3. töluliðar 8. gr. laga nr. 24/1986 beri að skýra á þann veg að greiðsluskylda til stefnda Landssambands smábátaeigenda takmarkist við þá sem eigi aðild að honum. Orðalagið er þvert á móti skýrt um að sú skylda taki til allra, sem falla undir 6. gr. laganna, óháð félagsaðild að stefnda. Óljós ráðagerð um greiðslur félagsmanna í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi er varð að lögum nr. 24/1986, fær engu breytt í þeim efnum.

Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar má engan skylda til aðildar að félagi, en í síðari málslið sömu greinar segir að með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Í lögum nr. 24/1986 felst ekki að áfrýjandi sé skyldaður til að vera í stefnda Landssambandi smábátaeigenda. Á hinn bóginn leggja lögin á hann skyldu til að greiða til þessa stefnda af afurðaverði sínu með sama hætti og félagsmönnum hans er gert. Eignarrétturinn er friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar, en með ákvæðum 6. gr. og 3. töluliðar 8. gr. laga nr. 24/1986 eru eignarréttindi áfrýjanda skert til hagsbóta fyrir félag, sem hann vill standa utan við. Þessi aðstaða leiðir til þess að skera verður úr um hvort skilyrði síðari málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar séu uppfyllt svo að heimilt teljist að skylda áfrýjanda með lögum til að greiða gegn vilja sínum til félags, sem hann á ekki aðild að. Í athugasemdum með 8. gr. frumvarps, sem varð að lögum nr. 24/1986, eru greiðslur samkvæmt henni nefndar starfsfé handa Landssambandi smábátaeigenda og er ómótmælt að stefndi kosti starfsemi sína með fé, sem fengið er með þessum hætti. Engin efni eru til að virða þessi framlög með öðrum hætti en sem félagsgjöld.

Sú skylda, sem um ræðir í málinu og lögð er á áfrýjanda, er samkvæmt lögum. Er því uppfyllt hið fyrsta þeirra skilyrða sem þurfa að vera fyrir hendi samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Við úrlausn um það hvort skilyrði séu uppfyllt að öðru leyti verður að líta til þess hvort stefndi Landssamband smábátaeigenda hafi lögmæltu hlutverki að gegna, en sé svo þarf að skera úr um hvort greiðsluskylda annarra en félagsmanna hans sé nauðsynleg svo að hann geti gegnt því hlutverki í þágu almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Í lögum nr. 24/1986 er ekki kveðið á um hlutverk stefnda Landssambands smábátaeigenda, en í öðrum lögum er að finna ákvæði um tiltekin viðfangsefni sem honum eru falin. Þar er um að ræða 2. mgr. 8. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, 6. gr. laga nr. 6/1996 um Siglingamálastofnun Íslands og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, en með þeim er stefnda falið að tilnefna mann í fyrsta lagi í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, í öðru lagi í siglingaráð og í þriðja lagi í stjórn Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Um önnur lögbundin verkefni þessa stefnda er ekki að ræða. Grundvöllur og hlutverk hans er þannig ekki markað í lögum, heldur er einungis mælt þar fyrir um tiltekin verkefni í óverulegum mæli. Í málinu hefur engum haldbærum rökum verið stutt að skylda áfrýjanda til að inna af hendi fjárframlög til stefnda sé nauðsynleg svo að stefndi geti rækt þau viðfangsefni, sem á hann eru lögð með lögum, eða hvernig almannahagsmunir eða réttindi annarra geti legið að baki því að slík nauðsyn teljist vera fyrir hendi. Loks er í áðurnefndum ákvæðum laga nr. 24/1986 ekkert kveðið á um með hvaða hætti því fé skuli varið, sem þannig er fært frá áfrýjanda og afhent stefnda Landssambandi smábátaeigenda. Í raun er það fært hinum síðastnefnda til frjálsrar ráðstöfunar, en einnig að því leyti skortir á að sýnt sé fram á að skilyrði síðari málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar séu uppfyllt.

Að framan var getið þeirrar málsvarnar stefnda Landssambands smábátaeigenda að áfrýjandi geti ekki sem lögaðili notið verndar þeirra ákvæða stjórnarskrárinnar, sem um ræðir. Varðandi það er til þess að líta að löngum hefur verið viðurkennt að lögaðilar njóta verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í 74. gr. er beinlínis fjallað um lögaðila og eru ekki efni til að fallast á að greinarmunur verði gerður á lögþvinguðum greiðslum þeirra, sem standa utan félaga, eftir því hvort um er að ræða lögaðila eða einstaklinga, sem kjósa að stunda atvinnustarfsemi í eigin nafni. Áfrýjanda er með 6. gr. og 8. gr. laga nr. 24/1986 sem áður segir gert að inna af hendi fé til stefnda Landssambands smábátaeigenda gegn vilja stjórnar þess fyrrnefnda. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður fallist á með áfrýjanda að umrædd lög fari að því leyti í bága við 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og að honum sé óskylt að inna af hendi til stefnda Landssambands smábátaeigenda þau fjárframlög, sem ræðir í 3. tölulið 8. gr. laganna.

IV

Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti gaf áfrýjandi þá skýringu á 1., 2. og 3. lið kröfugerðar sinnar að þeir vísi til framtíðar og sé með þeim leitast við að koma í veg fyrir að fé verði fært frá honum með þeim hætti, sem þar er nánar lýst. Skilja verður 1. og 2. lið kröfugerðarinnar svo að þar sé annars vegar leitað eftir viðurkenningu á því að stefnda Gildi-lífeyrissjóði sé óheimilt að veita viðtöku inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta fé áfrýjanda, sem ætlað sé stefnda Landssambandi smábátaeigenda, og hins vegar að óheimilt sé að greiða þeim síðastnefnda féð svo sem lög nr. 24/1986 mæli fyrir um. Í þessu felst sú þversögn að samkvæmt 2. lið kröfugerðar áfrýjanda ætti stefnda Gildi-lífeyrissjóði að vera óheimilt að ráðstafa fé, sem honum er óheimilt að veita viðtöku samkvæmt 1. lið hennar. Þessi háttur á kröfugerð þarfnast ekki frekari umfjöllunar við og verða stefndu sýknaðir af 1. og 2. lið í kröfu áfrýjanda.

Efni 3. kröfuliðar áfrýjanda er slíkt að það getur ekki snúið að öðrum en stefnda Gildi-lífeyrissjóði þótt áfrýjandi hafi kosið að beina kröfunni að báðum stefndu. Með henni er leitað viðurkenningar á skyldu stefnda Gildis-lífeyrissjóðs til að endurgreiða áfrýjanda fé, sem kynni að berast inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá þessum stefnda í framtíðinni og ætlað væri stefnda Landssambandi smábátaeigenda. Varðandi þetta skiptir máli að samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/1986 eru það framleiðendur sjávarafurða, aðrir fiskkaupendur og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu, sem greiða hluta af hráefnisverði áfrýjanda til stefnda Gildis-lífeyrissjóðs en ekki áfrýjandi sjálfur. Samkvæmt hljóðan kröfuliðarins er áfrýjanda þó ætlað að fá endurgreitt fé, sem hann hefur ekki innt af hendi til stefnda Gildis-lífeyrissjóðs. Eins og krafan er fram borin eru ekki skilyrði til að fallast á skyldu til að endurgreiða fé, sem þannig kann að verða greitt til stefnda Gildis-lífeyrissjóðs, en áfrýjanda hefði verið í lófa lagið að móta kröfu sína með þeim hætti að unnt væri að dæma um rétt hans við þær aðstæður, sem í kröfunni er lýst. Verða stefndu samkvæmt því sýknaðir af þessum lið í kröfugerð áfrýjanda.

Áfrýjandi krefst loks að honum verði greiddar 143.237 krónur með dráttarvöxtum, sem stefndi Landssamband smábátaeigenda hafi móttekið án þess að viðhlítandi lagaheimild lægi að baki þessari tilfærslu fjármuna. Þeirri kröfu beinir hann eins og hinum fyrri að báðum stefndu. Ekki er tölulegur ágreiningur í þessum þætti málsins. Varðandi þetta er þess fyrst að gæta að stefndi Gildi-lífeyrissjóður hefur ekki haldið eftir hjá sér neinu fé áfrýjanda, heldur flutt það áfram af greiðslumiðlunarreikningi smábáta til sparisjóðs, sem hefur meðal annars annast greiðslu til stefnda Landssambands smábátaeigenda. Um grundvöll kröfunnar gegn stefnda Gildi-lífeyrissjóði segir það eitt í málatilbúnaði áfrýjanda að hann hafi ekki mátt taka á móti fé þess síðastnefnda og ráðstafa því til meðstefnda, heldur hafi honum borið að skila því jafnharðan til áfrýjanda. Stefndi fór að lagafyrirmælum við móttöku og ráðstöfun fjárins og eru skilyrði á engan hátt uppfyllt til að fallast á greiðsluskyldu hans gagnvart áfrýjanda. Fjárkrafan á hendur stefnda Landssambandi smábátaeigenda er reist á því að hann hafi tekið við og ráðstafað fjármunum áfrýjanda „með óheimilum hætti“ í félagssjóði sína og hagnýtt sér þá. Heimild í settum lögum stóð til þess að stefndi tæki við fénu og ráðstafaði því og verður krafan ekki tekin til greina á þeim grunni að þessar gerðir hans hafi verið saknæmar eða ólögmætar. Áfrýjandi ber á hinn bóginn á engan hátt fyrir sig að stefnda Landssambandi smábátaeigenda sé skylt að greiða umrædda fjárhæð á grundvelli ólögfestra reglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Í málinu reynir því ekki á hvort skilyrði þeirra séu uppfyllt til að taka kröfuna til greina. Þessi stefndi verður því einnig sýknaður af greiðslukröfu áfrýjanda.

Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Að því virtu hvernig áfrýjandi hefur hagað kröfugerð sinni í málinu er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri þess á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins skal fé því, sem safnast á greiðslumiðlunarreikning smábáta samkvæmt 6. gr. laganna, skipta mánaðarlega og færa til tekna á bankareikninga í þeim hlutföllum að til lífeyrissjóða sjómanna fari 37,5%, sbr. 1. tölulið greinarinnar, en 56,5% til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu skipverja svo og af vátryggingu báts, sbr. 2. tölulið, og að lokum 6% til Landssambands smábátaeigenda, sbr. 3. tölulið. Er í málinu deilt um lögmæti fjárframlaga til stefnda Landssambands smábátaeigenda samkvæmt 3. tölulið greinarinnar. Áfrýjandi á og gerir út tvo smábáta og er gjaldskyldur samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/1986. Samkvæmt þeirri lagagrein er fyrirkomulag um innheimtu þeirra gjalda sem um ræðir með þeim hætti að framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu skulu greiða 8,4% af samanlögðu hráefnisverði afla áfrýjanda inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Stefndi Gildi-lífeyrissjóður annast þessa greiðslumiðlun eins og rakið er í héraðsdómi.

Dómkröfur áfrýjanda eru í fjórum liðum. Í fyrstu þremur eru gerðar viðurkenningarkröfur en í þeim fjórða krefst áfrýjandi greiðslu úr hendi beggja stefndu á því fé sem rann til stefnda Landssambands smábátaeigenda samkvæmt 3. tölulið 8. gr. laga nr. 24/1986 á tilgreindu tímabili. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2007 var máli þessu vísað frá dómi sökum ófullnægjandi kröfugerðar og vanreifunar. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar sem felldi dóm 23. ágúst 2007, sbr. mál nr. 396/2007, þess efnis að framangreindar kröfur áfrýjanda væru dómtækar.

Ég er sammála forsendum og niðurstöðum sem fram koma í III. kafla atkvæðis meirihluta dómenda um að lög nr. 24/1986 fari í bága við 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar þannig að áfrýjanda sé óskylt að inna af hendi til stefnda Landssambands smábátaeigenda þau fjárframlög sem um ræðir í 3. tölulið 8. gr. laganna. Ég fellst einnig á forsendur og niðurstöðu meirihlutans um að sýkna stefndu af viðurkenningarkröfum áfrýjanda. Þegar litið er til aðkomu stefnda Gildis-lífeyrissjóðs, sem ekki felst í öðru en að annast greiðslumiðlun á fé áfrýjanda samkvæmt lögum nr. 24/1986, tel ég einnig eins og meirihlutinn að sýkna beri þennan stefnda af fjárkröfu áfrýjanda.

Þrátt fyrir orðalag 6. gr. laga nr. 24/1986, um að framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu skuli greiða hluta af hráefnisverði áfrýjanda en ekki áfrýjandi sjálfur, er áfrýjandi eftir sem áður gjaldandi fjárins. Samkvæmt lögunum rann það fé sem áfrýjandi krefst endurgreiðslu á og um ræðir í 3. tölulið 8. gr. laganna til stefnda Landssambands smábátaeigenda og er með ákvæðum laganna málum þannig komið fyrir að áfrýjanda er gert að inna af hendi greiðslu samkvæmt ákvæðinu án þess að hafa möguleika á að koma í veg fyrir hana. Áfrýjandi krefst endurgreiðslu umrædds fjár á þeim grunni að um ólögmæta gjaldtöku hafi verið að ræða. Á það er fallist í þessum dómi. Ég tel ekki að áfrýjanda hafi verið nauðsynlegt að vísa sérstaklega til ólögfestra meginreglna kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár til stuðnings kröfu sinni. Hún er einfaldlega byggð á því að ólögmætt hafi verið að taka þennan hluta af aflaverðmætinu og afhenda stefnda Landssambandi smábátaeigenda. Þetta sé hans eign og stefnda beri að greiða honum féð á þeim grundvelli. Ekki er tölulegur ágreiningur um fjárhæð hennar. Tel ég samkvæmt framansögðu að dæma beri stefnda Landssamband smábátaeigenda til að greiða áfrýjanda þá fjárhæð sem hann krefst. Eftir þessum úrslitum tel ég einnig að Landssamband smábátaeigenda eigi að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en ég fellst á með meirihluta dómenda að málskostnaður milli áfrýjanda og stefnda Gildis-lífeyrissjóðs eigi að falla niður á báðum dómstigum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Víkurveri ehf., Vík, Fljótum, á hendur Gildi-lífeyrissjóði, Sætúni 1, Reykjavík, og Landssambandi smábátaeigenda, Hverfisgötu 105, Reykjavík, með stefnu birtri 24. og  26. október 2006.        

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:

1.        Þess er krafist að dæmt verði að stefnda Gildi-lífeyrissjóði sé óheimilt að veita viðtöku inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta hærri fjárhæð af fjármunum stefnanda en þarf til ráðstöfunar skv. 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

2.         Þess er krafist að stefnda Gildi-lífeyrissjóði verði dæmt óheimilt að inna af hendi greiðslur skv. 3. tl. 8. gr. sgs. til stefnda Landssambands smábátaeigenda, sem því kynni að berast af fjármunum stefnanda.

3.          Þess er krafist að viðurkennt verði að stefnda Gildi-lífeyrissjóði beri að endurgreiða stefnanda allt það fé hans sem kynni að berast inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta umfram það sem þarf til ráðstöfunar skv. 1. og 2. tl. 8. gr. sgs.

Ofangreindum kröfum er beint að báðum stefndu, til vara á hendur stefnda Gildi-lífeyrissjóði einum, og til þrautavara á hendur stefnda Landssambandi smábátaeigenda einu.

4.        Þess er krafist að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda kr. 143.237 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 skv. eftirfarandi:

Af kr.                     12.146    frá 29.7.2004      til greiðsludags.

Af kr.                    731      frá 30.8.2004              til greiðsludags.

Af kr.                 9.896      frá 29.9.2004              til greiðsludags.

Af kr.                    388      frá 28.10.2004            til greiðsludags.

Af kr.                 1.012      frá 29.11.2004            til greiðsludags.

Af kr.                 2.294      frá 29.12.2004            til greiðsludags.

Af kr.                 2.544      frá 28.1.2005              til greiðsludags.

Af kr.                    373      frá 31.3.2005              til greiðsludags.

Af kr.                    436      frá 29.4.2005              til greiðsludags.

Af kr.                      93      frá 31.5.2005              til greiðsludags.

Af kr.                    372      frá 29.6.2005              til greiðsludags.

Af kr.                    660      frá 28.7.2005              til greiðsludags.

Af kr.                        2      frá 30.8.2005              til greiðsludags.

Af kr.                 4.640      frá 29.9.2005              til greiðsludags.

Af kr.               13.431      frá 31.10.2005            til greiðsludags.

Af kr.               16.411      frá 29.12.2005            til greiðsludags.

Af kr.                 9.312      frá 31.1.2006              til greiðsludags.

Af kr.                 9.129      frá 30.3.2006              til greiðsludags.

Af kr.               16.695      frá 28.7.2006              til greiðsludags.

Af kr.               28.336      frá 30.8.2006              til greiðsludags.

Af kr.               14.336      frá 28.9.2006              til greiðsludags.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu. 

Dómkröfur stefnda Gildis-lífeyrissjóðs eru þessar:

Aðallega er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Til vara er krafist sýknu að hluta.

Í báðum tilvikum er krafist greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda Landssambands smábátaeigenda eru þessar: 

Þess er krafist að stefndi, Landssamband smábátaeigenda, verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Málsatvik

Með lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins samþykkti Alþingi breytingar á sjóðakerfi sjávarútvegsins sem fólu m.a. í sér þá skyldu fiskkaupenda að halda eftir við uppgjör 8,4% af aflaverðmæti smábáta og greiða inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Lífeyrissjóði sjómanna, sbr. 6. gr. laganna.  Samkvæmt 8. gr. laganna skal fé þessu skipt þannig að 37,5% renna til Lífeyrissjóðs sjómanna, (nú stefnda Gildis), 56,5% til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu og vátryggingar báts og 6% til stefnda Landssambands smábátaeigenda.

Stefndi Gildi-lífeyrissjóður varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs sjómanna og lífeyrissjóðsins Framsýnar 1. júní 2005. Við sameininguna tók stefndi Gildi við réttindum og skyldum hinna sameinuðu sjóða, þ.á m. skyldum Lífeyrissjóðs sjómanna samkvæmt lögum  nr. 24/1986. Greiðslum samkvæmt þeim lögum hefur verið miðlað í gegnum greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Sparisjóði vélstjóra. Stefndi Gildi hefur haft yfirumsjón með greiðslumiðluninni, en sparisjóðurinn séð um framkvæmdina.

Stefnandi hóf útgerð bátanna Hermanns Jónssonar EA-18, skrnr. 2117, og Petru EA-218, skrnr. 6545, hinn 30. júní 2004. Hóf hann útgerð Petru SK-18, skrnr. 2668 hinn 23. maí 2005.  Stefnandi er ekki í félagi Landssambands smábátaeigenda og er andvígur því að greiða félagsgjöld til félagsins. Þá telur stefnandi að ákvæði 3. töluliðar 8. gr. laga nr. 24/1986 um greiðslu félagsgjalda til stefnda Landssambands smábátaeigenda sé andstætt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, eins og málatilbúnaður stefnanda ber með sér.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi fellst ekki á það að skýra beri 3. tölulið 8. gr. laga nr. 24/1986 svo að allir skuli greiða félagsgjöld til stefnda Landssambands smábátaeigenda.  Þá túlkun megi draga í efa og sé aðallega byggt á því að skýra verði lögin þannig að þetta geti aðeins átt við um þá sem eru félagsmenn í stefnda Landssambandi smábátaeigenda en ekki aðra, a.m.k. ekki í andstöðu við vilja þeirra. 

Verði lögin skýrð í samræmi við framkvæmd sé á því byggt að þegar þau voru sett hafi þau farið gegn þágildandi 67. gr. stjórnarskrárinnar. Það ákvæði mælir fyrir um  friðhelgi eignarréttarins.  Þegar löggjafinn ákveði að taka fé annarra og afhenda það félagi sem þeir eigi ekki aðild að, sem það geti notað í baráttumál sín gegn baráttumálum og hugsjónum þeirra sem greiða, sé um óheimila eignaupptöku að ræða.  Lög sem yfir höfuð heimili að fjármunir eins séu teknir og afhentir öðrum endurgjaldslaust, fóru gegn ákvæðum þágildandi 67. gr. stjórnarskrár.  Ákvæðin fari nú gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar. 

Með lögfestingu 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með lögum nr. 62/1994, hafi ákvæði 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 verið numið úr gildi með yngri lögum að því gefnu að hún verði túlkuð í samræmi við venju.  Mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið ætlað að eyða öllum árekstrum íslenskra laga við mannréttindasáttmálann og beri að skýra hann í því ljósi og líta svo á að öll önnur lög, þótt þau gætu talist sérlög, hafi verið numin úr gildi að því leyti sem þau fóru gegn mannréttindasáttmálanum. Sömu réttaráhrif hafi lögfesting 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Í því sambandi sé vísað til þess sem á eftir komi um tengsl tjáningarfrelsis og félagafrelsis.

Við setningu laga nr. 97/1995 hafi tjáningarfrelsið verið fest með skýrum hætti í stjórnarskrá, sbr. 73. gr.  Það fari gegn tjáningarfrelsi að einstaklingur þurfi að þola aðild að félagi með þeim afleiðingum að það tjái skoðanir, sjónarmið og hugsjónir í hans nafni þótt með slíkum óbeinum hætti sé.  Sömuleiðis felist í ákvæðinu að enginn verði skyldaður til að inna greiðslur af hendi til þeirra sem boða hugsjónir, skoðanir, sannfæringu og hagsmuni, sem viðkomandi vilji ekki stuðla að.  Séu náin tengsl milli skoðanafrelsis og félagafrelsis.

 Við setningu laga nr. 97/1995 var núverandi ákvæði 74. gr. stjórnarskrár um félagafrelsi lögfest. Í 2. mgr. sé hið neikvæða félagafrelsi lögfest en í því felist að menn verði hvorki skyldaðir til aðildar að félögum né, að greiða til þeirra. Síðari málsliður ákvæðisins eigi augljóslega ekki við um stefnda Landssamband smábátaeigenda.  Stefndi Landssamband smábátaeigenda hafi með veikum mætti og lítilli sannfæringu haldið því fram að hann uppfylli skilyrði síðari málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár. Stefndi hafi hins vegar ekki getað bent á tiltekin atriði máli sínu til stuðnings. Þótt slíkt fyndist (sem sé nánast útilokað) innan um aðra starfsemi landssambandsins myndi það ekki hagga niðurstöðu málsins, sbr. Hrd. 1998:718.

Á því sé byggt að fyrirkomulag það sem leiði af venjubundinni túlkun 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 fari gegn ákvæði 75. gr. stjórnarskrár. Í þessu sambandi beri að líta til þess að stefnandi sé látinn greiða til félags sem vilji stýra því hvernig hann stundi atvinnu sína og með hvaða hætti.  Þetta félag vilji hafa áhrif á það hvernig aðgangur manna að auðlindum sé, þ.m.t. stefnanda.  Sérstaklega fari þetta gegn 2. mgr. um rétt manna til að semja um starfskjör sín og áunnin réttindi en það samningsumboð verði að lögum ekki tekið frá stefnanda og falið öðrum.  Skiptir ekki máli þótt stefndi Landssamband smábátaeigenda sé ekki hefðbundið stéttarfélag.  Ákvæði 2. mgr. 75. gr. stjskr. verði ekki skýrt svo þröngt að það taki bara til slíkra félaga. 

Aðallega sé á því byggt að túlka beri lög nr. 24/1986 á þann veg að ákvæði 3. tl. 8. gr. geti aðeins tekið til félagsmanna í stefnda Landssambandi smábátaeigenda.  Til vara sé byggt á því að lögin hafi í öndverðu farið gegn 67. gr. stjórnarskrárinnar (nú 72. gr.).  Til þrautavara sé byggt á því að með lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu hafi ákvæði 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 verið numið úr gildi.  Til þrautaþrautavara sé byggt á að ákvæðið fari gegn öðrum ákvæðum stjórnarskrár samkvæmt framansögðu og þær málsástæður, sem þar séu týndar til, geti allar staðið sjálfstætt, hver við hlið annarrar, enda samþýðanlegar. 

Um einstakar dómkröfur

Kröfuliður 1

Þeir fjármunir sem greiðslumiðlun móttaki séu fjármunir stefnanda.  Hann hafi einn heimild til að ráðstafa fjármunum sínum nema lög bjóði annað. Ráðstöfun samkvæmt 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 séu lögboðin en ekki samkvæmt 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986, þar sem þau ákvæði fari gegn æðri réttarheimildum og yngri eins og að framan sé rakið. Stefnandi eigi lögvarða hagsmuni að fá þessari kröfu framgengt því staðreyndin sé sú að stefndi Gildi-lífeyrissjóður sé að móttaka fjármuni þessa í eigu stefnanda í andstöðu við vilja hans, fjármuni sem stefnandi einn hafi ráðstöfunarrétt yfir.  Stefnandi hafi því lögvarða hagsmuni af að fá viðurkenningu á því að þetta sé óheimilt.  Að gengnum slíkum viðurkenningardómi myndi bæði stefndi Gildi skipast, svo og væntanlega þeir sem greiða af fjármunum stefnanda inn, á greiðslumiðlunarreikning hjá stefnda Gildi. 

Kröfuliður 2

Það sé staðreynd að stefndi Gildi ráðstafi fjármunum samkvæmt 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 til stefnda Landssambands smábátaeigenda. Það telji stefnandi löglaust og hafi lögvarða hagsmuni að fá viðurkenningu dómstóla á því.

Kröfuliður 3

Vegna ákvæða 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 berist stefnda Gildi greiðslur sem honum beri ekki að móttaka samkvæmt framansögðu.  Það sé staðreynd að stefndi Gildi skili þeim ekki til stefnanda.  Telji stefndi Gildi að lög bjóði annað.  Stefnandi eigi því lögvarða hagsmuni af að fá viðurkennt að stefndi Gildi verði við þessar aðstæður að ráðstafa þessum greiðslum til stefnanda enda eigi þær að vera honum til frjálsrar ráðstöfunar.

Kröfuliður 4

Stefndi Gildi-lífeyrissjóður hafi móttekið á neðangreindum dagsetningum neðangreindar fjárhæðir vegna bátanna Hermanns Jónssonar EA-18 (skipaskrárnr). 2117), Petru EA-218 (skipaskrárnr). 6545) og Petru SK-18 (skipaskrárnr. 2668).

Dags.

Skrnr. 2117

Skrnr. 6545

Skrnr. 2668

Samtals

29.7.2004

5.874

6.272

12.146

30.8.2004

731

731

29.9.2004

4.082

5.814

9.896

28.10.2004

388

388

29.11.2004

1.012

1.012

29.12.2004

2.294

2.294

28.1.2005

2.544

2.544

31.3.2005

373

373

29.4.2005

436

436

31.5.2005

93

93

29.6.2005

372

372

28.7.2005

660

660

30.8.2005

2

2

29.9.2005

4.640

4.640

31.10.2005

13.431

13.431

29.12.2005

16.411

16.411

31.1.2006

9.312

9.312

27.2.2006

30.3.2006

9.129

9.129

25.4.2006

28.7.2006

16.695

16.695

30.8.2006

28.336

28.336

28.9.2006

14.336

14.336

Samtals

17.811

12.474

112.952

143.237

 Að öðru leyti vísast til þess sem segir um þennan lið undir aðild. 

Aðild

Stefndi Gildi-lífeyrissjóður hafi verið stofnaður 1. júní 2005 við sameiningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna  Ekki ætti að vera ágreiningur um að stefndi Gildi hafi tekið við réttindum og skyldum Lífeyrissjóðs sjómanna í þessu máli. 

Kröfunum sé beint in solidum að stefndu, Gildi-lífeyrissjóði og Landssambandi smábátaeigenda.  Um annað en fjárkröfur sé ljóst að kröfunum verði að beina að stefnda Gildi enda sé verið að skipa hegðan hans með kröfugerðinni. Stefndi Landssamband smábátaeigenda kunni þó að teljast beinn þolandi dómsorðsins þar sem um sé að ræða félagsgjöld til þess félags.  Þyki því öruggast að stefna báðum aðilum til að þola dóminn.  Verði sú aðferð ekki talin réttarfarslega tæk sé kröfunni beint til vara á hendur stefnda Gildi einum en til þrautavara á hendur stefnda Landssambandi smábátaeigenda sem þó sé vafasamt að gæti orðið niðurstaðan.

Fjárkröfum sé in solidum beint á hendur báðum stefndu enda telji stefnandi að fjármuni þessa hafi stefndi Gildi ekki mátt móttaka og ráðstafa til stefnda Landssambands smábátaeigenda heldur borið að skila til stefnanda jafnóðum og þeir fjármunir hafi verið mótteknir.  Með hinni óheimilu ráðstöfun á vörslufé hafi stofnast krafa á hendur stefnda Gildi um rétt skil. 

Stefndi Landssamband smábátaeigenda hafi móttekið fjármuni stefnanda og ráðstafað þeim með óheimilum hætti í félagssjóði sína og hagnýtt sér þá.  Við það hafi stofnast krafa á hendur stefnda Landssambandi smábátaeigenda.  Þar sem um sömu fjármuni sé að ræða hljóti krafan að beinast in solidum á báða stefndu. 

Vísað sé til laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, einkum 8. gr. laganna. Vísað sé til laga nr. 64/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 10.-11. gr. og stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 72.-75. gr.  Einnig sé vísað til reglugerðar nr. 147/1998 um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, 2. og 8. gr. samþykktar nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess, 5. gr. Félagsmálasáttmála Evrópu, 8. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi nr. 10/1979 og 18.-19. gr. og 22. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi nr. 10/1979.

Vísað sé til 25. gr. eml. 

Um málskostnað vísast til XXI. kafla l. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. 

Málsástæður og lagarök stefnda Gildis-lífeyrissjóðs

Stefndi Gildi byggir á því að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. eml.

Kröfur stefnanda byggist á þeirri málsástæðu að ákvæði laga nr. 24/1986 standist ekki mannréttindaákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Þar virðist helst vera um að tefla svonefnt neikvætt félagafrelsi stefnanda, þ.e. frelsi hans til að standa utan og þurfa ekki að greiða félagsgjöld til Landssambands smábátaeigenda. Stefndi Gildi hafi hins vegar hvorki skert félagafrelsi stefnanda, né brotið á honum með neinum öðrum hætti.

Að mati stefnda Gildis væri stefnanda rétt að beina kröfum sínum að Landssambandi smábátaeigenda, þ.e. félaginu sem hann vilji ekki greiða til og/eða íslenska ríkinu, sem beri ábyrgð á lagasetningunni. Stefndi Gildi hafi ekki lögvarða hagsmuna að gæta af úrlausn dómstóla um það hvort stefnanda beri skylda til að greiða félagsgjöld til Landssambands smábátaeigenda eður ei. Hið sama eigi við um umsýslu Landssambandsins með iðgjaldagreiðslur. Því beri að sýkna stefnda Gildi af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts.

Sýknukrafa stefnda Gildis sé einnig á því reist að ákvæði um greiðslumiðlun lífeyrissjóðsins skv. 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 feli ekki í sér brot á réttindum stefnanda. Hins vegar geti ákvæði í lögum eða reglugerðum, um skyldu til greiðslu félagsgjalda, eftir atvikum farið gegn umræddum mannréttindaákvæðum. Greiðslumiðlun stefnda Gildis komi hins vegar félagafrelsi stefnanda ekki við. Þetta leiði til sýknu af kröfum stefnanda í 1.-4. tl. kröfugerðar.

Verði hins vegar talið að málsúrslit gagnvart Gildi ráðist af því  hvort ákvæði laga nr. 24/1986 og/eða reglugerða með stoð í lögunum standist ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála, þá byggir stefndi Gildi á sömu málsástæðum og lagarökum og meðstefndi, Landssamband smábátaeigenda, til viðbótar framangreindum röksemdum, og gerir að sínum.

Stefndi Gildi mótmælir því sérstaklega að um óheimila ráðstöfun á vörslufé hafi verið að ræða af hans hálfu. Samkvæmt gildandi rétti hafi stefnda Gildi verið skylt að hafa yfirumsjón með miðlun greiðslna stefnanda skv. 3. tl. 8. gr. til Landssambands smábátaeigenda, en ekki skila greiðslum til stefnanda aftur, eins og haldið sé fram í stefnu.

Framangreindu til viðbótar eru sýknuástæður vegna einstakra liða kröfugerðar stefnanda  eftirfarandi:

Kröfur í 1. og 3. tl. kröfugerðar séu ekki nægilega afmarkaðar. Ekki sé unnt að fallast á kröfur um að stefnda Gildi verði dæmt óheimilt að veita móttöku og beri að endurgreiða stefnanda allar greiðslur sem ekki séu inntar af hendi skv. 1.-2. tl. 8. gr. laganna inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta.

Stefndi telur einnig að sýkna beri hann af fjárkröfu stefnanda skv. 4. tl. kröfugerðar, þar sem engin skilyrði bótaábyrgðar séu fyrir hendi. Að auki sé óljóst á hverju bótaábyrgð stefnda Gildis sé reist. Lífeyrissjóðurinn hafi einungis haft yfirumsjón með greiðslumiðlun eins og honum hafi verið skylt skv. 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 og ekki bakað sér bótaábyrgð með nokkrum hætti.

Varakrafa um sýknu að hluta

Bótakrafa stefnanda í 4. tl. kröfugerðar virðist ofreiknuð. Hluti þeirra greiðslna sem tilgreindar séu virðast hafa verið inntar af hendi af öðrum aðila en stefnanda.  Beri að lækka bótakröfuna sem þeim greiðslum nemi, ef fallist verði á bótaábyrgð stefnda Gildis á annað borð.

Varakrafa sé einnig gerð til að tryggja að verði stefndi Gildi ekki sýknaður af öllum kröfum, þá beri a.m.k. að sýkna hann af einstökum kröfum á grundvelli þeirra sjónarmiða sem sett hafa verið fram hér að framan.

Stefndi Gildi telur að í öllum tilvikum beri að sýkna hann af kröfu um greiðslu málskostnaðar, óháð úrslitum málsins. Af orðalagi kröfugerðar um málskostnað í stefnu sé ekki hægt að ráða að henni sé beint að stefnda Gildi.  Þá athugast að stefndi Gildi hafi hingað til ekki látið til sín taka ágreining um lögmæti þess greiðslufyrirkomulags, sem deilt sé um í máli þessu.

Stefndi Gildi byggir á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæðum reglugerðar um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins nr. 147/1998.  Varðandi lagarök fyrir málskostnaðarkröfunni er vísað til 130. gr. l. nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda Landssambands smábátaeigenda

Stefndi Landssamband smábátaeigenda telur að sýkna beri landssambandið af kröfugerð stefnanda á eftirfarandi grundvelli:

1.            Almannahagsmunatilgangur

Í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár komi fram að engan megi skylda til aðildar að félagi. Síðan segir: Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt
lögmœltu  hlutverki  vegna  almannahagsmuna  eða  réttinda  annarra. Stefndi telji að það tilvik sem hér sé til úrlausnar sé dæmi um atvik eins og þau sem undantekningarákvæði 2. mgr. 74. stjórnarskrár taki til. Megintilgangur þess að skylda útvegsmenn til greiðslna þeirra sem stefnandi heimti að vera laus undan sé sá að tryggja lífeyrisrétt og vátryggingarvernd þeirra einstaklinga sem hafi lifibrauð sitt af útgerð smábáta. Almenn reynsla sýni að veruleg hætta sé á að misbrestur yrði á að þeirra hagsmuna yrði nægjanlega gætt ef einstaklingunum yrði sjálfum látið eftir að annast um kaup slíkra réttinda. Þá sé hlutverk stefnda í þessu kerfi það að annast um samninga, t.d. við tryggingafélög sem sé almennt til þess fallið t.d. að tryggja þeim sem stefndi gætir hagsmuna fyrir bestu tryggingavernd á lægsta mögulegu verði. Félagaskylda af þessum toga sé á sinn hátt ekkert ólík þeirri sem hvíli á öllum almenningi t.d. með vísan til laga um starfsemi lífeyrissjóða. Slík skylda sé fullkomlega lögmæt samkvæmt 74. gr. stjórnarskrár.

2.            Ekki félagsgjöld

Af málatilbúnaði stefnanda verði ráðið að hann haldi því fram, að með gjaldtöku þeirri sem gert sé ráð fyrir í ákvæðum 6. gr.og 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 sé brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár um félagafrelsi. Að mati stefnda verði að telja vafasamt að líta svo á að gjöld þau sem um ræðir séu félagsgjöld að stefnda eða öðrum þeim sjóðum, stofnunum og félögum sem þau renni til samkvæmt ákvæðum laga. Fremur verði að telja að um sé að ræða ígildi skatts sem lagður sé á tiltekinn þjóðfélagshóp, þ.e. framleiðendur sjávarafurða, og sköttunum sé síðan m.a. varið til að vinna að hagsmunum þeirra sem álögunum sæta. Hér sé enda um að ræða gjöld, sem lögð séu á samkvæmt einhliða ákvörðun ríkisvaldsins án þess að sérstakt endurgjald eigi fyrir að koma. Sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar, H.1999:4007

3.        Stefnandi sé ekki félag í skilningi 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Vernd 72. - 75. gr. stjórnarskrárinnar taki ekki til lögpersóna nema óbeinlínis

Stefndi telur að sú vísan til 72. - 75. gr. stjórnarskrár sem stefnandi virðist byggja málatilbúnað sinn á eigi ekki við í málinu. Nefnd ákvæði stjórnarskrárinnar fjalli um borgarleg réttindi sem áskilin séu einstaklingum. Viðurkennt sé að á grundvelli slíkra einstaklingsréttinda geti félög sem þeir hafi með sér um hugsjónir sínar notið þeirra réttinda sem hér um ræðir, t.d. félagafrelsis á grundvelli eða fyrir tilstuðlan réttar félagsmanna.  Félög sem rekin séu í fjárhagslegum tilgangi séu hins vegar ekki hugsjónafélög í þessum skilningi.  Þau séu ekki félög í skilningi 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta verði t.d. bert þegar skoðaður sé málatilbúnaður stefnanda sem að miklu leyti gangi út á að halda því fram að baráttumál stefnda séu andstæð lífsskoðunum stefnanda.  Hverjar eru „lífsskoðanir“ einkahlutafélags?  Ákvæði samþykkta tilgreini að tilgangur félagsins sé útgerð, fiskverkun og skyld starfsemi, verktakastarfsemi, rekstur fasteigna og lánastarfsemi.  Þetta séu þær einu „hugsjónir“ eða „lífsskoðanir“ sem stefnandi hafi.  Bersýnlega sé ekki hægt að leggja að jöfnu „lífsskoðanir“ félagsins við lífsskoðanir eigenda félagsins enda félagið ekki stofnað til að vinna að málum sem varði þær lífsskoðanir.  Dómur sem viðurkenni að stefnandi eigi að vera laus undan skyldu til að greiða félagsgjöld til stefnda á grundvelli lífsskoðana eigenda félagsins sé í besta falli afar sérkennilegur, t.d. þegar eigendaskipti verði að félaginu og eigendur þess hafa eftir atvikum einhverjar allt aðrar lífsskoðanir en núverandi eigendur.

Krafa um málskostnað sé studd við 130. gr. eml. nr. 91/1991.  Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988 en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir þeim skatti úr hendi stefnanda.

Niðurstaða

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 147/1998,  skulu framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur greiða 8,4% af samanlögðu hráefnisverði þess afla sem þeir taka við inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Lífeyrissjóði sjómanna.  Samkvæmt 8. gr. laganna skal fé því, sem þannig safnast, ráðstafað í tilteknum hlutföllum í þrenns konar tilgangi: Samkvæmt 1. tl. til greiðslu í Lífeyrissjóð sjómanna, samkvæmt 2. tl. til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu og vátryggingar báts, og samkvæmt 3. tl. skulu 6% renna til Landssambands smábátaeigenda, sbr. einnig 3. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 147/1998.

Dómkröfur stefnanda í málinu eru á hendur Gildi-lífeyrissjóði, sem hefur tekið við réttindum og skyldum Lífeyrissjóðs sjómanna samkvæmt lögum nr. 24/1986, og Landssambandi smábátaeigenda.

Samkvæmt kröfugerð í stefnu beinast dómkröfur stefnanda samkvæmt töluliðum 1-3 einungis að stefnda Gildi-lífeyrissjóði, en stefnandi tekur þó fram að þeim kröfum sé beint að báðum stefndu, til vara á hendur stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, einum, og til þrautavara á hendur stefnda, Landssambandi smábátaeigenda, einu.  Fjárkröfu samkvæmt tölulið 4 er beint að báðum stefndu in solidum.

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að dæmt verði að stefnda, Gildi-lífeyrissjóði, sé óheimilt að veita viðtöku inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta hærri fjárhæð af fjármunum stefnanda en þarf til ráðstöfunar samkvæmt 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986.  Kröfuliður þessi felur þannig í sér að stefnda sé óheimilt að veita viðtöku því fé, sem frá stefnanda stafar og ráðstafa skal til Landssambands smábátaeigenda samkvæmt 3 tl. 8. gr. laga nr. 24/1986.  Af hálfu stefnda Gildis-lífeyrissjóðs er tekið fram að þessum greiðslum til stefnda Landssambands smábátaeigenda hafi verið miðlað í gegnum greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Sparisjóði vélstjóra. Stefndi Gildi-lífeyrissjóður hafi ekki haldið eftir greiðslum frá stefnanda, heldur einungis haft yfirumsjón með greiðslumiðluninni, en sparisjóðurinn séð um framkvæmdina.

Stefnandi fellst ekki á það að skýra beri 3. tölulið 8. gr. laga nr. 24/1986 svo að allir skuli greiða félagsgjöld til stefnda Landssambands smábátaeigenda. Sú gjaldskylda geti aðeins átt við um félagsmenn landssambandsins. Þessi sjónarmið rökstyður stefnandi með vísan til ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 72.-75. gr.

Hvorki er fallist á þær málsástæður stefnanda að 3. töluliður 8. gr. laga nr. 24/1986 brjóti gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar (áður 67. gr.) né þær málsástæður hans að lögfesting 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, hafi fellt þau ákvæði laganna úr gildi.  Þá verður ekki séð að ákvæði 73. gr. stjórnarskrár, um tjáningarfrelsi, og ákvæði 75. gr. stjórnarskrár um atvinnufrelsi renni stoðum undir sjónarmið og kröfugerð stefnanda. Stjórnarskrárákvæði þessi eiga ekki við um þá gjaldtöku sem 3. töluliður 8. gr. laga nr. 24/1986 tekur til eðli sínu samkvæmt.  Er þessum málsástæðum stefnanda öllum hafnað.

Kröfur stefnanda byggjast einnig á þeirri málsástæðu að ákvæði 6. og 8. gr. laga nr. 24/1986 standist ekki ákvæði 2. mgr. 74. stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu að því er varðar greiðslur frá utanfélagsmönnum til stefnda Landssambands smábátaeigenda. Af málatilbúnaði stefnanda verður ráðið að sú tilhögun 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 um fjárframlag til Landssambands smábátaeigenda jafngildi því að verið sé að skylda stefnanda til aðildar að félagi í merkingu fyrri málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Er þar um að tefla svonefnt neikvætt félagafrelsi stefnanda, þ.e. frelsi hans til að standa utan félags og þurfa ekki að greiða félagsgjöld til Landssambands smábátaeigenda. Ekki er fallist á með stefnanda að ráðstöfun fjárframlags til Landssambands smábátaeigenda samkvæmt 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 feli í sér brot á ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem veita vernd gegn því að menn séu þvingaðir til aðildar að félagasamtökum gegn vilja sínum.  Því síður verður talið að sú tilhögun 6. gr. laga nr. 24/1986 um greiðslu fjárframlags inn á greiðslumiðlunarreikning feli sér brot á greindu ákvæði stjórnarskrárinnar. Málsástæðu stefnanda er að þessu lýtur er hafnað að því er báða stefndu varðar.  Ber því að sýkna báða stefndu af þessum kröfulið.

Stefnandi krefst þess í öðru lagi að stefnda Gildi-lífeyrissjóði verði dæmt óheimilt að inna af hendi greiðslur skv. 3. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986 til stefnda Landssambands smábátaeigenda, sem því kynni að berast af fjármunum stefnanda. Af greindri niðurstöðu um fyrsta tölulið kröfugerðar stefnanda leiðir að einnig ber að sýkna báða stefndu af þessum kröfulið.

Stefnandi krefst þess í þriðja lagi að viðurkennt verði að stefnda Gildi-lífeyrissjóði beri að endurgreiða stefnanda allt það fé hans sem kynni að berast inn á greiðslumiðlunarreikning smábáta umfram það sem þarf til ráðstöfunar skv. 1. og 2. tl. 8. gr. laga nr. 24/1986. Af greindri niðurstöðu um fyrsta tölulið kröfugerðar stefnanda leiðir að einnig ber að sýkna báða stefndu af þessum kröfulið.

Stefnandi krefst þess í fjórða lagi að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda 167.769 kr.  svo sem nánar er sundurliðað í stefnu. Af greindri niðurstöðu um fyrsta tölulið kröfugerðar stefnanda leiðir að einnig ber að sýkna báða stefndu af þessum kröfulið.

Samkvæmt framansögðu ber að sýkna báða stefndu af öllum öðrum kröfum stefnanda í málinu, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Gildi-lífeyrissjóður og Landssamband smábátaeigenda, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Víkurvers ehf., í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.