Hæstiréttur íslands
Mál nr. 540/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
|
|
Miðvikudaginn 24. október 2007. |
|
Nr. 540/2007. |
Valdimar Gíslason ehf. (Jón G. Briem hrl.) gegn Páli Þ. Pálssyni (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Kærumál. Lögbann.
V krafðist þess að felld yrði úr gildi sú ákvörðun sýslumanns að hafna kröfu V um að lagt yrði lögbann við því að P starfaði áfram hjá Q ehf. V byggði kröfu sína á ráðningarsamningi aðila, einkum grein 4.1. sem lagði bann við því að P yrði eigandi eða óvirkur þátttakandi í fyrirtæki sem starfaði í samkeppni við V meðan hann gegndi starfi hjá V. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, segir að því hafi ekki verið haldið fram í málinu að P, sem hóf störf hjá Q ehf. 1. ágúst 2007, væri eigandi eða óvirkur þátttakandi í félaginu. Þá verði að líta svo á að í bréfi V til P 11. júlí 2007 hafi falist fyrirvaralaus riftun á ráðningarsamningi aðila og að í síðasta lagi þá hafi P orðið laus undan starfsskyldum sínum við V og öðrum skyldum sem voru bundnar við ráðningarsamninginn. Var kröfu V því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 7. september 2007 um að synja um lögbann samkvæmt beiðni sóknaraðila við nánar tilgreindri háttsemi varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að leggja lögbann gegn tryggingu, sem hann meti nægilega, við því að varnaraðili starfi fram til 31. október 2007 hjá Quatro ehf., komi fram fyrir hönd þess félags, kynni það eða sinni öðrum verkefnum í þágu þess eða hafi samband við viðskiptamenn sóknaraðila og starfsmenn þeirra til að veita þeim þjónustu eða selja rekstrarvörur, hvort sem er gegn gjaldi eða án þess, sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Valdimar Gíslason ehf., greiði varnaraðila, Páli Þ. Pálssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2007.
Mál þetta var þingfest 21. september 2007 og tekið til úrskurðar 2. október sl.
Sóknaraðili er Valdimar Gíslason ehf. kt. 430179-0059, Austurhrauni 7, Garðabæ.
Varnaraðili er Páll Þ. Pálsson kt. 271049-2189, Klapparbergi 21, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík dags. 7. september 2007, í lögbannsmálinu nr. 27-0018-0005: Valdimar Gíslason ehf. gegn Páli Þ. Pálssyni, að hafna kröfu sóknaraðila um að leggja lögbann við þar greindum athöfnum varnaraðila og lagt verði fyrir sýslumann, gegn tryggingu sem hann metur nægilega, að leggja lögbann við því að gerðarþoli starfi áfram hjá Quatro ehf, Tjarnargötu 2, Keflavík, komi fram fyrir hönd þess, kynni það eða sinni öðrum verkefnum í þess þágu. Lögbannið taki einnig til þess að gerðarþoli hafi á sama tíma samband við viðskiptamenn gerðarbeiðanda og birgja, þar með talið starfsmenn þessara aðila, í því skyni að veita þeim þjónustu eða selja þeim vöru á sviði rekstrarvara, svo sem umbúða og tkja og íblöndunarefna, hvort sem er gegn gjaldi eða án þess, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki. Lögbannið standi til og með 30. október 2007.
Þá er þess krafist að í tengslum við lögbannið verði sýslumanni gert að ákveða að varnaraðili sendi, öllum þeim sem hafa móttekið bréf dags. 1.8. 2007, bréf þar sem tilkynnt sé að lagt hafi verið lögbann við því að hann starfi hjá Quatro ehf. til 30. október n.k. að sölu þeirra vara og þjónustu sem í bréfinu greinir, þ.e. véla, umbúða og íblöndunarefna. Í tilvikum þar sem bréf verða send erlendum aðilum þá verði þau á ensku í þýðingu löggilts skjalaþýðanda.
Ennfremur er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I
Sóknaraðili er fyrirtæki sem selur umbúðir og rekstrarvörur til fyrirtækja í matvælaiðnaði. Með ráðningarsamningi sem gerður var í nóvember 2006 var varnaraðili ráðinn aðstoðarframkvæmdarstjóri sóknaraðila. Varnaraðili sagði upp starfi sínu hjá sóknaraðila 30. apríl 2007. Samkvæmt ráðningarsamningnum var uppsagnarfrestur 6 mánuðir. Sóknaraðili heldur því fram að óskað hafi verið vinnuframlagi varnaraðila á uppsagnarfresti. Varnaraðili kveður það ekki vera rétt. Hið rétta sé að honum hafi verið gert að yfirgefa starfsstöð sína í upphafi maí og hann sviptur öllum tólum og tækjum til að geta sinnt starfi sínu. Sóknaraðili kveður varnaraðila hins vegar hafa gengt starfi sínu til 29. júní, þó að hann hafi að mestu verið í fríi frá 7. maí til 29. júní, en þá hafi varnaraðili lýst því yfir að hann væri alfarið hættur störfum.
Í bréfi lögmanns sóknaraðila til varnaraðila dagsettu 11. júlí 2007 er varnaraðili sakaður um brot á ráðningarsamningi aðila með því að reyna að komast yfir viðskiptasambönd sóknaraðila og er þess krafist að varnaraðili láti þá þegar af hinu ólögmæta athæfi. Þá er hafður uppi áskilnaður um skaðabætur. Er varnaraðila jafnframt tilkynnt að launagreiðslur til hans verði stöðvaðar þá þegar.
Í bréfi lögmanns varnaraðila dags. 17. júlí 2007 kemur fram að varnaraðili telji að frá þeim tíma er hann var sviptur möguleikanum á því að inna starf sitt af hendi hafi hann ekki gegnt lengur starfi hjá sóknaraðila. Varnaraðili hafi í hyggju að ráða sig til Quatro ehf., sem sé í samkeppni við varnaraðila, en verði hvorki eigandi né óvirkur þátttakandi í starfsemi félagsins.
Varnaraðili hóf störf hjá Quatro ehf., samkeppnisaðila sóknaraðila, í lok júlí 2007.
Sóknaraðili krafðist þess þann 27. ágúst 2007 að sýslumaður legði lögbann við því að varnaraðili starfi áfram hjá Quatro ehf. og tilteknum athöfnum hans í tengslum við starfann. Þess var krafist að lögbannið standi til 31. október 2007. Þá var þess krafist að varnaraðila yrði gert að senda tilteknum aðilum bréf um að lögbann hafi verið lagt við störfum hans hjá Quatro ehf.
Sýslumaður hafnaði kröfunni um lögbann þann 7. september sl.
II
Sóknaraðili byggir á því að á uppsagnarfresti sé varnaraðili bundinn við þau ákvæði ráðningarsamnings sem við eiga svo sem 4.1., 5.1., og 7.2. Á gildistíma ráðningarsamningsins til 30. október 2007 beri varnaraðili trúnaðarskyldu við sóknaraðila, sbr. Hrd. 605/2006 þar sem því sé slegið föstu að slík trúnaðarskylda gildi almennt í lögskiptum starfsmanns og vinnuveitanda meðan ráðningarsamningur er í gildi þó að ekki sé þar sérstaklega kveðið á um hana. Það að hefja störf á uppsagnarfrestinum hjá aðila sem er í samkeppni við sóknaraðila sé brot á trúnaðarskyldunni.
Þá byggir sóknaraðili á því að starfsmaður sem neitar að vinna starf sitt eigi ekki rétt á launum. Réttur starfsmanns til launa og skylda hans til að inna af hendi vinnu sína sé órjúfanlega tengd. Varnaraðili hafi byrjað á að vanefna sinn hluta ráðningarsamningsins og sem svar við því hafi launagreiðslur verið stöðvaðar.
Sóknaraðili byggir einnig á því að önnur áður tilvitnuð ákvæði ráðningarsamningsins séu í gildi til loka uppsagnarfrestsins eftir því sem við geti átt, svo og trúnaðarskyldan sem staðfest sé í ofangreindum dómi Hæstaréttar. Önnur niðurstaða sé órökrétt því annars hagnist varnaraðili á að brjóta gegn ráðningarsamningnum, það er hann stytti tímann sem trúnaðarskyldan varir, sem og önnur ákvæði ráðningarsamningsins sem hér skipta máli.
Sóknaraðili byggir á að skaðabætur geti ekki verndað hagsmuni hans nægilega. Ljóst sé að það kunni að taka langan tíma og reynast erfitt að sanna tölulega það tjón sem af athöfnum varnaraðila hlýst, nema þá helst með upplýsingum frá varnaraðila sjálfum sem ekki sé líklegt að verði auðfengnar. Þá sé heldur ekki auðvelt almennt séð að sannreyna tölulega tjón í máli sem þessu. Honum sé því sú eina leið fær að krefjast lögbanns til að takamarka með því sem mest það tjón sem varnaraðili veldur honum með athöfnum sínum. Uppfyllt séu öll skilyrði 1. mgr. 24. greinar laga 31/1990.
Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að tilkynna án tafar öllum þeim, sem fengu bréfið á skj. nr. 6 í lögbannsmálinu, um lögbannið. Það verði gert á þann hátt að sama bréf verði sent aftur og með því fylgi bréf undirritað af varnaraðila með þessum texta: "Vegna meðfylgjandi bréfs dags. 1.8. 2007, er mér skylt samkvæmt úrskurði sýslumannsins í Reykjavík, að upplýsa yður um, að samkvæmt sama úrskurði hefur verið lagt lögbann við því að ég starfi fyrir Quatro ehf. til og með 30. október n.k.
Virðingarfyllst, Páll Þ. Pálsson. "
Byggir sóknaraðili á að með þessu móti sé nokkuð tryggt að lögbannið hafi þau áhrif sem því sé ætlað og að varnaraðili hlíti lögbanninu. Krafa um að varnaraðili sendi bréf með upplýsingum um lögbann, ef til kemur, styðst við 1. mgr. 25. greinar laga 31/1990.
III
Varnaraðili byggir á að starf hans fyrir Quatro sé ekki brot á starfssamningi hans og sóknaraðila þar sem honum hafi verið heimilt um leið og hann var sviptur möguleikanum á að gegna starfa sínum að ráða sig til samkeppnisaðila, sbr. orðalag ráðningarsamningsins. Þá hafi honum í öllu falli verið það heimilt eftir að launagreiðslur til hans voru felldar niður án löglegra ástæðna. Vinnuveitandi eigi rétt til þess að starfsmaður vinni á uppsagnarfresti, allt eins og starfsmaður á rétt til launa á uppsagnarfresti, hvort sem starfskrafta hans er óskað eða ekki. Einkennilegt sé að sóknaraðili hafi ekki brugðist við, hafi atvik verið með þeim hætti að varnaraðili hafi einhliða neitað að vinna í uppsagnarfresti eins og sóknaraðili heldur fram.
Varnaraðili byggir á orðalagi ráðningarsamnings síns, sem er svohljóðandi: ,,PP er óheimilt, svo lengi sem hann gegnir starfi hjá félaginu, án skriflegs samþykkis frá stjórn í hverju einstöku tilfelli, að vera eigandi eða óvirkur þátttakandi í öðru fyrirtæki, sem starfar í beinni samkeppni við félagið ". Varnaraðili sé hvorki eigandi né óvirkur þátttakandi í öðru fyrirtæki sem starfar í beinni samkeppni við sóknaraðila. Frá og með enduðum júlí sl., eftir að sóknaraðili hætti að greiða varnaraðila laun og rifti þannig ráðningarsamningnum án löglegrar ástæðu, hafi varnaraðili verið starfsmaður samkeppnisaðila, en orðalag ráðningarsamningsins nái ekki til þess tilviks. Ákvæði um bann starfsmanna við samkeppni séu hindrun á atvinnufrelsi og þó þau gildi að íslenskum rétti, verði orðalag þeirra að vera skýrt og þurfi það túlkunar við, sé beitt þröngri túlkun.
Þá byggir varnaraðili á því að frá og með þeim degi, sem launagreiðslur til hans voru felldar niður hafi hann ekki borið neinar skyldur gagnvart sóknaraðila. Um sambærilegt atvik hafi verið dæmt í Hæstaréttarmálinu nr. 255/2005: Iceland Seafood International ehf. gegn Kristjáni Jóhannessyni. Í dóminum hafi verið synjað um staðfestingu lögbanns, sem lagt var á af sýslumanninum í Reykjavík, þar sem starfsmaðurinn hafði verið tekinn af launaskrá, áður en hann hóf störf hjá samkeppnisaðila. Byggir varnaraðili á að ráðningarsamningur sé ekki í gildi eftir að vinnuveitandi hefur lýst því yfir að meginefni hans, launagreiðslan, verði ekki efnd án löglegra ástæðna. Varnaraðili hafi fengið tilkynningu í bréfi dagssettu hinn 11. júlí þess efnis að launagreiðslur til hans hefðu verið stöðvaðar „nú þegar". Eigi síðar en við það tímamark, sem honum barst bréfið var honum heimilt að ráða sig til vinnu hjá samkeppnisaðila sóknaraðila. Launatímabil varnaraðila var frá 20. til 20. hvers mánaðar. Varnaraðili fékk engin laun greidd hinn 20. júlí sl., hvorki fram til 11. júlí né eftir það tímamark. Varnaraðili hefur því ekki fengið greidd laun frá sóknaraðila nema fram til 20. júní sl.
Varnaraðili byggir á að krafa sóknaraðila um að sýslumanni verði gert að ákveða að varnaraðili sendi bréf, með nánar tilgreindu efni, eigi ekki að ná fram að ganga þar sem að hún nái langt út fyrir þær athafnaskyldur sem hægt sé að leggja á einstakling í lögbannsmáli skv. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 31/1990. Bréfið hafi enga sjálfstæða þýðingu til að tryggja að lögbannið haldi. Lögbann gildi frá þeim tíma, sem það er sett á, en ekki afturvirkt. Þá sé það skilyrði samkvæmt 1. mgr. 25. gr. að fylgiathöfn sé nauðsynleg til þess að tryggja að einstaklingur hlíti lögbanni. Hættan á að einstaklingur brjóti lögbannið, ef athöfnin á sér ekki stað, þurfi að vera yfirvofandi. Yfirvofandi hætta hafi í þessu efni verið túlkuð þannig að það sé ekki nægjanlegt að einstaklingur hafi möguleika að framkvæma athöfn, heldur verður að vera bein hætta á að hann geri það. Sóknaraðili þurfi að rökstyðja ásetning varnaraðila til að brjóta lögbannið, verði kröfur sóknaraðila teknar til greina. Sóknaraðili hafi alla sönnunarbyrði um þetta atriði.
IV
Með bréfi dagsettu 30. apríl 2007 sagði varnaraðili upp störfum hjá sóknaraðila. Uppsagnarfrestur er 6 mánuðir samkvæmt ráðningarsamningi aðila eða til 30. október 2007. Aðila greinir á um hvort sóknaraðili hafi krafist þess að varnaraðili gegndi störfum fyrir sóknaraðila í uppsagnarfresti og hvenær varnaraðili lét af störfum fyrir sóknaraðila. Með bréfi sóknaraðila dags. 11. júlí 2007 er varnaraðili ásakaður um brot gegn ráðningarsamningnum og honum tilkynnt að launagreiðslur til hans verði stöðvaðar þá þegar. Varnaraðili hafnar því alfarið að þær ávirðingar sem í bréfinu koma fram eigi við rök að styðjast. Þann 1. ágúst 2007 hóf varnaraðili störf fyrir Quatro ehf. sem óumdeilt er að er í samkeppnisaðili sóknaraðila.
Sóknaraðili reisir kröfur sínar á að ráðningarsamningur aðila sé í gildi til loka uppsagnarfrests 30. október 2007. Byggir sóknaraðili einkum á greinum 4.1., 5.1 og 7.2. í ráðningarsamningnum.
Í grein 4.1. er ákvæði sem leggur bann við því að varnaraðili sé, án samþykkis frá stjórn, eigandi eða óvirkur þáttakandi í fyrirtæki sem starfar í samkeppni við sóknaraðila meðan hann gegnir starfi hjá sóknaraðila.
Því hefur ekki verið haldið fram í máli þessu að varnaraðili, sem fyrir liggur að hóf störf 1. ágúst 2007 hjá samkeppnisaðilanum Quatro ehf., sé eigandi eða óvirkur þáttakandi í félaginu. Þá er bannið sem ákvæðið kveður á um er samkvæmt skýru orðalagi þess, sem leggja verður til grundvallar, bundið við þann tíma sem varnaraðili gegnir starfi hjá varnaraðila. Eins og að framan er rakið greinir aðila á um hvenær varnaraðili lét af störfum hjá sóknaraðila. Í bréfi sóknaraðila dags 11. júlí 2007 er því m.a. haldið fram að varnaraðili hafi komið á starfsstöð sóknaraðila þann 29. júní 2007 og lýst því yfir við starfsmann að hann væri alfarið hættur störfum fyrir sóknaraðila. Þá eru í bréfinu hafðar uppi ýmsar ávirðingar á hendur varnaraðila um brot á samningi aðila og honum tilkynnt um að launagreiðslur verði stöðvaðar þá þegar. Varnaraðila gafst þannig ekkert svigrúm til andmæla áður en launagreiðslur voru stöðvaðar til hans. Samkvæmt því, og í ljósi þeirri ávirðinga sem uppi eru hafðar á hendur varnaraðila í bréfinu og yfirlýsingarinnar um niðurfellingu launagreiðslna, þykir verða að líta svo á að í bréfinu felist fyrirvaralaus riftun á ráðningarsamningi aðila. Verður því við það að miða að í síðasta lagi þá hafi varnaraðili orðið laus undan starfsskyldum sínum við sóknaraðila og þeim skyldum öðrum sem bundnar voru við gildistíma ráðningarsamningsins.
Sóknaraðili byggir einnig á grein 5.1. í ráðningarsamningi aðila sem kveður á um þagnarskyldu og trúnað um upplýsingar sem varða verslunar- og/eða viðskiptaleyndarmál og grein 7.2. þar sem kveðið er á um að þrátt fyrir uppsögn eða lok samningsins, af hálfu hvors aðila sem er og af hvaða orsökum sem er, haldist trúnaðarskyldan óbreytt.
Ekki verður talið að það eitt og sér að varnaraðili réð sig til samkeppnisaðila eftir að ráðningarsamningnum var rift, og hann þannig fallinn úr gildi, feli í sér brot á trúnaðarskyldu hans við varnaraðila. En því er því ekki haldið fram að varnaraðili hafi með einhverjum öðrum hætti brotið gegn trúnaðarskyldu sinni.
Samkvæmt þessu verður ekki talið að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991 sé fullnægt fyrir lögbannskröfu sóknaraðila og verður því kröfum hans í máli þessu hafnað.
Eftir niðurstöðu málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila 120.000 krónur í málskostnað.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfum sóknaraðila, Valdimars Gíslasonar ehf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Páli Þ. Pálssyni, 120.000 krónur í málskostnað.