Hæstiréttur íslands

Mál nr. 322/2003


Lykilorð

  • Raforka
  • Skaðabótaábyrgð


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004.

Nr. 322/2003.

Trico ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Orkuveitu Reykjavíkur

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

 

Raforka. Skaðabótaábyrgð.

T notaði tölvustýrðar prjónavélar við framleiðslu sína og hafði átt í erfiðleikum með að láta vélarnar halda fullum afköstum. Fannst ekki skýring á þessu fyrr en grunur vaknaði vorið 2000 um að vandkvæðin kynnu að stafa af truflunum á spennu í rafmagni sem O seldi T. Voru gerðar mælingar á spennunni og kvörtun beint til O sem hófst handa við úrbætur og var þeim lokið haustið 2000. Minnkuðu vandkvæðin við þetta en hurfu þó ekki fyrr en T setti upp sérstakan búnað til jöfnunar spennu. T krafðist viðurkenningar á bótaskyldu O vegna tjóns sem félagið hefði orðið fyrir vegna truflana í framleiðslu sinni frá 1993 til 2001. Talið var að samkvæmt reglugerðum og tæknilegum tengiskilmálum sem giltu um afhendingu á rafmagni væri O undanþegið bótaábyrgð vegna stöðvunar á afhendingu eða truflana í tengslum við það. Einnig að þeir sem notuðu spennuviðkvæm tæki ættu á eigin kostnað að setja upp búnað til að jafna spennu. Var talið að ekki hefðu verið leidd í ljós veruleg frávik frá reglum og skilmálum um afhendingu orku  og því bæri O ekki skaðabótaábyrgð á tjóni T, enda hafði O gripið til ráðstafana til að hækka spennu á rafmagni til T þegar vísbendingar komu fram um að vandkvæði T stöfuðu af afhendingu raforkunnar. Var O sýknað af kröfu T.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. ágúst 2003. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi beri ábyrgð á því að afhending á raforku til hans allt frá árinu 1993 til og með 2001 hafi verið ófullnægjandi og beri stefndi því skaðabótaábyrgð á framleiðslutapi áfrýjanda, sem hlaust af því að ekki reyndist unnt að láta prjónavélar fyrirtækisins ná fullum afköstum. Þá gerir hann kröfu til málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Áfrýjandi sótti um heimtaug frá Rafveitu Akraness 15. febrúar 1985 og skuldbatt sig þá til að kaupa rafmagn af fyrirtækinu með þeim skilmálum sem fyrir þá rafveitu giltu. Skilmálar veitunnar ráða því lögskiptum aðila. Akranesveita tók síðar við skyldum Rafveitu Akraness en stefndi yfirtók rekstur Akranesveitu 1. janúar 2002. Áfrýjandi heldur því fram að vandkvæði hans vegna afhendingar á orku frá stefnda hafi fyrst komið upp eftir að hann fékk sér tölvustýrða prjónavél frá Japan 1993. Af gögnum málsins má ráða að það er fyrst sumarið 2000 eftir að enn nýjar prjónavélar voru teknar í notkun hjá áfrýjanda að rökstuddur grunur vaknaði um að orka til fyrirtækisins væri ekki viðhlítandi. Að gefnu tilefni frá áfrýjanda gerði Akranesveita á þessu úrbætur og lauk þeim strax sama haust. Þessar úrbætur virðast þó ekki hafa boðið upp á nægan stöðugleika orkunnar fyrir áfrýjanda. Setti hann í ársbyrjun 2002 upp búnað til að sía spennu inn á prjónavélar sínar og hefur síðan ekki borið á vandkvæðum í rekstri þeirra.

Í héraðsdómi er þeim skilmálum lýst sem giltu fyrir afhendingu rafmagns frá Akranesveitu. Þegar af þeim ástæðum sem um getur í 4. og 5. undirkafla IV. kafla héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Samkvæmt þessari niðurstöðu verður áfrýjandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Stefndi, Trico ehf., greiði áfrýjanda, Orkuveitu Reykjavíkur, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 23. maí 2003.

                Mál þetta var höfðað 29. október 2002 og dómtekið 30. apríl 2003. Stefnandi er Trico ehf., Kalmansvöllum 3 á Akranesi, en stefndi er Orkuveita Reykjavíkur, Suðurlandsbraut 34 í Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi beri ábyrgð á að afhending á raforku til stefnanda allt frá árinu 1993 til og með 2001 hafi verið ófullnægjandi og því beri stefndi skaðabótaábyrgð á framleiðslutapi, sem stefnandi varð fyrir sökum þess að ekki var hægt að keyra vélar í verksmiðju hans með fullum afköstum. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.

I.

                Stefnandi rekur verksmiðju á Akranesi og framleiðir sokka. Við framleiðsluna eru notaðar tölvustýrðar prjónavélar, sem allar eru af Nagata tegund og framleiddar í Japan. Hefur stefnandi sjálfur flutt vélar þessar til landsins frá Þýskalandi. Prjónavélarnar eru rafknúnar og fékk stefnandi raforku frá Rafveitu Akraness til ársloka 1995. Þá um áramótin tóku gildi skipulagsbreytingar á orkumálum á Akranesi, sbr. reglugerð fyrir Akranesveitu, nr. 665/1995. Var hluti af starfsemi Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar sameinuð starfsemi Rafveitu Akraness og nýtt orkufyrirtæki nefnt Akranesveita. Stefnandi fékk raforku frá Akranesveitu allt til 1. janúar 2002, en þá tók stefndi við réttindum og skyldum Akranesveitu. 

Þeir sem nú hafa rekstur stefnanda með höndum tóku við honum í ársbyrjun 1993. Þá um vorið kom ný prjónavél í verksmiðjuna og heldur stefnandi því fram að hún hafi ítrekað bilað og ekki verið unnt að keyra hana með fullum afköstum. Af þessu tilefni hafi verið haft samband við Rafveitu Akraness, en veitan hafi ekki talið neitt athugavert við afhendingu á orku frá sér. Að ráði starfsmanna rafveitunnar hafi hver prjónavél verið jarðtengd sérstaklega án þess þó að með því hafi verið ráðin nokkur bót á þessum vanda.

Stefnandi fékk aftur nýja prjónavél í verksmiðjuna í ársbyrjun 1998 og heldur hann því fram að sérfræðingum frá framleiðanda hafi ekki tekist að fá vélina til að starfa eðlilega. Af þessum sökum mun stefnandi hafa haft samband við Akranesveitu og mældi veitan spennu í spennustöð án þess að sú athugun leiddi í ljós að eitthvað væri athugavert við afhendingu á orku. Sumarið 2000 komu síðan þrjár nýjar vélar í verksmiðju stefnanda og tókst heldur ekki starfrækja þær eðlilega. Heldur stefnandi því fram að þá hafi sérfræðingur frá framleiðanda fullyrt að ekkert annað kæmi til greina en að spenna til vélanna væri ófullnægjandi. Í kjölfarið fékk síðan stefnandi Friðrik Alexandersson, rafmagnstæknifræðing hjá Rafteikningu hf., til að gera athugun á spennu í verksmiðjunni. Samhliða gerði Akranesveita breytingar hjá sér sem miðuðu að því að draga úr spennufalli í veitunni til verksmiðju stefnanda.

Í skýrslu Friðriks Alexanderssonar 28. desember 2000 segir að tólf prjónavélar séu í verksmiðju stefnanda. Þar af séu sjö vélar tölvustýrðar en erfiðlega hafi gengið að starfrækja þær. Fram kemur í skýrslunni að fyrstu mælingar á spennu hafi leitt í ljós að á mesta álagstíma að degi til hafi spenna iðulega farið niður fyrir 207 volt og jafnvel undir 200 volt. Í tæknilegum tengiskilmálum rafveitna segi hins vegar að afhendingarspenna eiga að vera 230 volt +/-10%, en megi vera 230 volt +6% eða -10% í eldri kerfum fram til ársins 2003. Mælingarnar fóru fram frá 5. október til 3. nóvember 2003 og um niðurstöður þeirra segir svo í skýrslunni:

„Staðfesting fékkst á lágri spennu á álagstímum. Á fyrri hluta mælitímans fór spennan lægst í um 203 V og var iðulega í um 205 V á dagvinnutíma á virkum dögum, sem er lægra en tæknilegir tengiskilmálar segja til um.

Rafveitan gerði ráðstafanir til að hækka spennuna og var þeim aðgerðum lokið aðfararnótt 23. október 2000. Við það hækkaði spennan að meðaltali um u.þ.b. 9% yfir dagvinnutímann og var yfirleitt hátt í 230 Volt. Aftur á móti var spennan í það hæsta að nóttu til. Augljóst er að sólahringssveifla spennunnar er í meira lagi, sem bendir til að spennufall í dreifikerfi rafveitunnar sé of mikið eða að spennustýring í kerfinu sé ekki nægjanleg.

Merki frá álagsstýrikerfi rafveitunnar mældist í sterkara lagi. Samkvæmt stöðlum má spenna merkisins vera að hámarki 5% af netspennu. Í nokkrum tilfellum mælist merki þetta um 19,2 V eða um 8,6% af netspennu. Þegar merki af þessari gerð er orðið þetta sterkt í veitukerfinu er litið á það sem truflun, sem getur valdið truflunum í búnaði.

....

Eftir að Rafveitan gerði sínar ráðstafanir sýna mælingar að merkið frá álagsstýrikerfinu er í efri mörkum og á stundum upp undir viðmiðunarmörk staðla.“

Í umræddri skýrslu Friðriks Alexanderssonar kemur einnig fram að vélar hafi verið keyrðar á fullum afköstum eftir að rafveitan greip til ráðstafanna til að hækka spennu. Í kjölfarið hafi verið nokkuð um bilanir á þeim tíma sem vænta megi sendinga á merki um veituna til tóntíðnistýringar frá svokölluðu álagsstýrikerfi, en með merki þessu er búnaði fjarstýrt, þar á meðal götuljósum. Þó hafi bilanatíðni verið mun minni en áður. Í skýrslunni er síðan að finna svohljóðandi samantekt:

„Mælingar sýna að styrkur merkisins frá álagsstýrikerfi rafveitunnar hefur minnkað á sama tíma og rafveitan gerði ráðstafanir til að hækka spennuna. Spennu hækkunin ásamt hlutfalls breytingu á styrk merkisins frá álagsstýringu eru einu breytingarnar sem merkjanlegar hafa verið frá því að mælingar hófust á spennugæðum við inntak í húsið.

Mælingar sýna að spennan var lægri en eðlilegt getur talist. Sé miðað við tæknilega tengiskilmála þá hefur spennan verið undir lágmarks kröfum skilmálanna. Eftir aðgerðir rafveitunnar virðast kröfur skilmálanna uppfylltar.

Fyrir spennubreytingu mældist hlutfallslegur styrkur merkis frá álgasstýrikerfi rafveitunnar meiri en uppgefin viðmiðunargildi í stöðlum gera ráð fyrir. Eftir breytingarnar er styrkur þessa merkis á mörkum að ná lágmarks kröfum staðlanna.

Umræddir staðlar eru almennt hafðir til viðmiðunar þegar framleiðendur stilla upp prófunum fyrir sinn búnað. Því er eðlilegt að þessir staðlar séu einnig teknir með við mat á gæðum afhendingarspennu í inntaksstað.

Með þær staðreyndir í huga, sem fram koma í þessari skýrslu, má með ákveðnum rökum líta svo á að um sé að ræða tvo samverkandi þætti sem valdið hafa umræddum rekstrartruflunum í vélunum;

- í fyrsta lagi að fæðispenna frá rafveitunni hafi verið of lág.

- í öðru lagi að merki frá álagsstýringu hafi verið of sterk.

.....“

Á tímabilinu 3. janúar til 13. febrúar 2001 mældi Friðrik Alexandersson spennu í verksmiðju stefnanda. Í skýrslu hans 23. febrúar sama ár kemur fram að spennan hafi verið mæld þar sem fram hafi komið truflanir í prjónavélum 2. janúar það ár. Í skýrslunni segir að 13. og 14. sama mánaðar hafi vinnsla gengið illa þegar vélar voru gangsettar. Þær hafi ítrekað stöðvast án þess að það yrði skýrt, en að lokum hafi verið gefist upp við að halda starfseminni áfram þessa daga. Mælingar umrædda daga hafi sýnt mikið af plúsum, sem hafi virst eiga upptök sín utan við mælistaðinn inni í verksmiðju stefnanda. Einnig kemur fram að 21. janúar 2001 hafi vélar verið gangsettar, en undir hádegi hafi farið að bera á truflunum, þær stöðvast ítrekað og að lokum vinnslu verið hætt. Mælingar þennan dag hafi sýnt mikil áhrif frá álagstýrikerfi rafveitunnar á þeim tíma sem vart var við bilanir í prjónavélum. Merkið hafi verið 15,97 volt eða 6,7%. Í niðurlagi skýrslunnar segir síðan svo:

„Allar þessar truflanir á spennu geta verið valdar að truflunum á viðkvæmum tölvustýrðum búnaði. .....

Á öðrum tímum hafa ekki komið fram neinir óeðlilegir atburðir.

Á tímabilinu mælist spennan nokkuð góð ... hæsta gildi mældist 250 V lægsta gildi 131 V og meðalgildið er um 237 V. Rétt er að taka fram að í sjálfur sér er ekkert við því að segja þó spanna falli í stuttan tíma eins og hér gerist. En það getur gerst ef bilun kemur upp einhvers staðar í rafkerfinu. Tíminn sem þetta spennufall stóð yfir var um 100 ms. .....

Sé litið á spennubreytingar yfir venjulegan vinnudag þá kemur í ljós að algegnt er að sjá mestu spennu um 242 V lægstu spennu um 222 V og meðalgildi um 232 V. Að nóttu til er algegnt að sjá spennu fara mest í um 245 V og meðalgildi sé um 240 V.“

Lögmaður stefnanda ritaði Akranesveitu bréf 3. janúar 2001, en þar eru raktar niðurstöður mælinga á spennu til verksmiðjunnar. Einnig er í bréfinu óskað eftir viðræðum við rafveituna um viðunandi lausn málsins, en stefnandi sætti sig ekki við annað en að honum verði bætt tjónið. Þessu erindi svaraði bæjarstjórinn á Akranesi með bréfi 16. sama mánaðar. Þar er bótaskyldu hafnað, en vísað um efnisatriði til greinargerðar Helga Andréssonar, eftirlitsmanns með raflögnum veitunnar. Í þeirri greinargerð kemur meðal annars fram að mælingar Friðriks Alexanderssonar hafi verið gerðar við greinitöflu stefnanda en ekki aðaltöflu hússins. Mælingarnar séu ekki dregnar í efa, en þær sanni aftur á móti ekki að sömu niðurstöður hefðu komið fram á afhendingarstað orku við aðaltöflu. Þá er bent á að ástæður spennuóróa geti verið tæki hjá stefnanda sjálfum eða öðrum notendum raforku í húsinu.

Í tilefni af svarbréfi bæjarstjórans á Akranesi 16. janúar 2001 mældi Friðrik Alexandersson spennu á afhendingarstað raforku til stefnanda og fór sú mæling fram á tímabilinu 17. mars til 18. apríl 2001. Í skýrslu Friðriks 21. apríl sama ár kemur fram að á þessu tímabili hafi ekki komið upp vandamál við rekstur prjónavéla, sem rekja megi til truflana frá rafkerfi. Einnig segir að engin munur sé á þessum mælingum borið saman við fyrri mælingar. Af því verði dregin sú ályktun að engu skipti hvort mæling sé gerð við greinitöflu stefnanda eða þar sem orkan er afhent við aðaltöflu hússins. Því næst segir svo í skýrslunni:

„Ef við skoðum þessi gildi úr frá staðalspennu kemur eftirfarandi í ljós:

-  lægsta gildi er um 4,5% og hæsta gildi um 9,5% frá staðalgildi (230V) sem er innan marka.

Ef við hins vegar skoðum spennubreytingar þá má sjá eftirfarandi:

-  milli hæsta og lægsta gildis ... er um 27,3 V sem er um 11,5 af meðalgildi tímabilsins.

-  milli hæsta og lægsta gildis ... er um 31,81 V sem er um 13,8% af meðalgildi tímabilsins.

Þetta segir að spennan er að sveiflast um 12-14% á sólahring, sem verður að teljast fremur mikið án þess að það eigi að hafa áhrif á rekstur þess búnaðar sem hér um ræðir meðan vélar Trico eru ekki keyrðar að næturlagi.

Full ástæða er til að ítreka truflanir sem mælast frá álagsstýrikerfi rafveitunnar (rippel control). Á þessu tímabili hafa komið fram mælingar þar sem þetta merki er allt of hátt miðað við alþjóðastaðla. Þau tilfelli sem þessar mælingar hafa komið fram eru á kvöld og nætur tímum eða á þeim tímum sem vélbúnaður Trico hefur ekki verið í notkun.

.....“

Í skýrslu Friðriks Alexanderssonar 17. júlí 2001 er gerð frekari grein fyrir mælingum á spennu, en þar segir meðal annars svo:

„Í umrædda greinatöflu koma tveir kvíslstrengir. Annar er fyrir gufuketil og pressu að gildleika 10 mm² en hinn er fyrir aðra notkun í fyrirtækinu og er einnig um 10 mm² að gildleika. Mælistaður er í þeim hluta greinatöflunnar sem er fyrir aðra notkun, þ.e. fæddur með þeirri kvísl sem síðar var nefnd hér að framan.

Álagið var mælt og niðurstaðan var sú að álag yfir dagvinnutíma er að jafnaði um 24A/fasa, sem gefur u.þ.b. 0,3% í spennufall (0,72V), mesta álag mældist um 33A/fasa, sem gefur u.þ.b. 0,4% spennufall (1,0V).

Munur á mælingum í greinatöflu Trico annars vegar og í afhendingarstað Akranesveitu hins vegar er því 0,4% eða minni. Mæling Rafteikningar teljast því verða fullkomin sönnun spennugæða hjá Trico ehf. “

Einnig kemur fram í umræddri skýrslu Friðriks að niðurstaða skoðana og mælinga hafi verið sú að innan húss hjá stefnanda séu ekki tæki eða búnaður, sem valdi truflunum. Farið hafi fram rannsókn á hlutfalli ólínulegs álags og sé það hverfandi.

Í ársbyrjun 2002 setti stefnandi upp tækjabúnað til að sía spennu frá rafveitu til prjónavéla í verksmiðjunni. Í kjölfarið mældi Friðrik Alexandersson spennu frá tækjabúnaði þessum. Í skýrslu hans 2. september 2002 kemur fram að frá því að þessi búnaður var tekinn í notkun hafi verið unnt að keyra vélar verksmiðjunnar á fullum afköstum án nokkurra bilana. Mælingar sýni að spenna frá búnaðinum sé mjög stöðug og óháð breytingum á spennu frá rafveitunni. Einnig komi búnaðurinn í veg fyrir truflanir frá álagsstýrikerfi rafveitunnar.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni á árunum 1993 til 2001 sökum þess að orka frá Rafveitu Akraness og síðar Akranesveitu hafi verið ófullnægjandi. Stefnandi hefur lagt fram yfirlit yfir framleiðslu sína á þessum árum, en þar kemur fram að framleiðslan hafi verið 210.000 sokkapör á árinu 1992. Afkastageta verksmiðjunnar hafi síðan stöðugt minnkað og verið rúm 70.000 pör á árinu 2000. Þetta hafi valdið því að stefnandi gat ekki staðið við framleiðslusamninga og tapað viðskiptum þótt hann hafi fengið erlend fyrirtæki til að framleiða fyrir sig í þeirri viðleitni að standa við gerða samninga.

II.

                Í málinu krefst stefnandi viðurkenningar á því að stefndi beri ábyrgð á tjóni, sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að hann gat ekki keyrt vélar í verksmiðju sinni með fullum afköstum á árunum 1993-2001 sökum þess að afhending á rafmagni til stefnanda hafi ekki verið viðhlítandi og þar með ekki í samræmi við reglur og skilmála þar að lútandi.

                Stefnandi vísar til þess að samkvæmt grein 2 í tæknilegum tengiskilmálum fyrir rafmagnsveitur hafi málgildi spennu rafveitna í enda heimtaugar á þessu tímabili átt að vera 230 volt +6% eða -10%, sbr. auglýsing nr. 681/2001, og áður auglýsing nr. 129/1997 og nr. 132/1991. Eins og þessir tengiskilmálar beri með sér hafi Akranesveita og áður Rafveita Akraness samþykkt þá sem sjálfstæða viðauka við gildandi reglugerð fyrir veituna á hverjum tíma og þar með gengist undir að afhenda rafmagn með tilgreindri spennu.

                Stefnandi heldur því fram að mælingar Friðriks Alexanderssonar hjá Rafteikningu hf. frá hausti 2000 allt þar til í apríl 2001 leiði í ljós að afhending á raforku til stefnanda hafi verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við skilmála þar sem spenna hafi verið of lág. Jafnframt hafi mælingar þessar staðfest að merki frá álagstýrikerfi rafveitunnar, sem sent hafi verið út í nokkur skipti á hverjum sólarhring, hafi verið of sterkt þannig að það hafi getað valdið truflunum í búnaði sem gangi fyrir rafmagni. Þegar af þessum ástæðum verði stefndi að bera ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir.

                Stefnandi bendir á að hér á landi séu ekki í gildi staðlar, sem mæli fyrir um notkun rafveitna á álagsstýrikerfi. Allt að einu hafi stefnandi ekki mátt búast við öðru en að rafveitan tæki mið af alþjóðlegum stöðlum í þeim efnum. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi í öllu falli borið að gera notendum aðvart um að merki til álagstýringar væri sent um veituna og að það gæti haft áhrif á rafbúnað. Það hafi hvorki verið gert né heldur hafi verið tilkynnt að orka fullnægði ekki gildandi reglum eða skilmálum.

                Stefnandi heldur því fram að ófullnægjandi afhending á orku hafi valdið því að stýribúnaður í prjónavélum stefnanda hafi truflast með þeim afleiðingum að vélrænir hlutar prjónavélanna brotnuðu. Um sé að ræða vélar framleiddar í Japan, sem fullnægi öllum kröfum til að vera notaðar í Evrópu. Vélarnar séu með svokallaðri CE-merkingu, sbr. reglugerð um rafsegulsviðssamhæfi, nr. 146/1994, og notaðar víða í Evrópu.

                Stefnandi tekur fram að allt frá árinu 1993 hafi verið leitað að orsökum þess að ekki hafi verið unnt að keyra tölvustýrðar prjónavélar verksmiðjunnar með fullum afköstum. Engar skýringar hafi fundist á þessu fyrr en árið 2000 þegar staðfest var með mælingum að orka rafveitunnar var ekki viðhlítandi. Allt frá árinu 1993 hafi verið gripið til ýmissa ráðstafanna til að reyna að bæta úr þessum vandkvæðum en án árangurs þar til settur hafi verið upp búnaður í ársbyrjun 2002 til að sía spennu.

                Stefnandi telur engu breyta hvort mæling á raforku hafi farið fram í greinatöflu stefnanda eða á formlegum afhendingarstað orkunnar og vísar í því efni til rökstudds álits Friðriks Alexanderssonar hjá Rafteikningu hf. Einnig hafi komið fram af hálfu Akranesveitu í bréfi 16. janúar 2001 að mælingar Friðriks væru ekki dregnar í efa, auk þess sem hann hafi verið í stöðugu sambandi við Helga Andrésson, starfsmann Akranesveitu, meðan á mælingum stóð og hafi þeir borið saman bækur sínar.

                Stefnandi heldur því fram að ekki stoði fyrir stefnda að bera fyrir sig a-lið 19. gr. reglugerðar um Akranesveitu, nr. 976/2000, sbr. samhljóða ákvæði í a-lið 22. gr. eldri reglugerðar nr. 665/1995. Þar sé tekið fram að stöðvun á rekstri eða truflanir vegna bilunar eða takmörkunar á raforkuvinnslu hafi ekki í för með sér bótaskyldu, en koma skuli á reglulegum rekstri aftur eins fljótt og auðið er. Einnig sé tekið fram að Akranesveita beri ekki ábyrgð á spennubreytingum undir slíkum kringumstæðum né afleiðingum af þeim. Eins og komi fram skýrt og greinilega í þessu ákvæði eigi það við þegar bilun verði, enda fyrirsögn greinarinnar „rekstartruflanir“. Ákvæðið eigi því ekki við um það viðvarandi ástand sem stefnandi telur að hafi verið fyrir hendi við afhendingu raforku. Með því að bera fyrir sig þetta ákvæði hafi stefndi í raun verið að lýsa því yfir að stöðug bilun hafi verið hjá veitunni án þess að gripið hafi verið til neinna aðgerða fyrr en stefnandi hafði ítrekað kvartað yfir ástandinu. 

                Einnig heldur stefnandi því fram að stefndi geti ekki borið fyrir sig grein 6.3 í tæknilegum skilmálum fyrir rafmagnsveitur, en þar komi fram að notandi skuli sjálfur gera viðeigandi ráðstafanir þar sem hætta sé á truflunum á rekstri spennuviðkvæmra tækja. Af því tilefni tekur stefnandi fram að ekki sé um að ræða sérstaklega viðkvæmar vélar. Þessar vélar séu fluttar til Evrópu og fullnægi öllum kröfum, sem gerðar séu til slíkra tækja. Ef spenna á rafmangi til vélanna sé í samræmi við reglur gangi þær hnökralaust. Á því leiki hins vegar ekki vafi að hvorki þessar vélar né aðrar svipaðar þoli að spenna til þeirra sé viðvarandi mun lægri en skilmálar geri ráð fyrir. Telur stefnandi að grein 6.3 í tæknilegum skilmálum eigi við þegar hætta sé á einstökum truflunum vegna bilunar eða takmörkunar á raforkuvinnslu en ekki vegna viðvarandi ástands, eins og hér hafi verið um að ræða.

                Stefnandi fullyrðir að hann hafi ítrekað rætt við starfsmenn rafveitunnar um erfiðlega gengi að keyra vélar með fullum afköstum án þess að athygli hans hafi verið vakin á því að truflanir mætti rekja til þess að spenna hafi verið of lág eða vegna merkis frá álagsstýrikerfi. Stefnandi hafi því ekki haft neitt tilefni til að ætla að eitthvað væri í ólagi hjá veitunni. Á hinn bóginn hafi fyrirsvarsmönnum rafveitunnar verið ljóst að merki frá álagsstýrikerfi gæti valdið truflunum, auk þess sem þeir hafi greint stefnanda frá því að unnt væri að koma upp búnaði til að koma í veg fyrir þetta. Rafveitan hafi hins vegar ekki gripið til þess úrræðis vegna kostnaðar og tæknimála. Af þessum ástæðum stoði ekki fyrir stefnda að bera fyrir sig grein 6.9.3 í gildandi tæknilegum tengiskilmálum (áður grein 6.10.3 í eldri skilmálum), þar sem fram komi að notandi sjálfur skuli koma í veg fyrir með viðeigandi búnaði að neyslutæki verði fyrir truflunum af völdum tóntíðnistýringar frá rafveitu. Þá geti stefndi ekki með mjög einhliða og almennum ákvæðum nánast undanþegið sig ábyrgð þegar orka frá honum reynist ófullnægjandi.

                Stefnandi reisir kröfu sína einnig á almennu skaðabótareglunni. Engum málum sé blandið að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna þess að afhending orku hafi ekki verið viðhlítandi. Stefnandi hafi mátt treyst því að farið væri að skilmálum að þessu leyti og því hafi hann getað gengið úr frá því að viðurkenndar vélar skiluðu fullum afköstum. Á þessu beri stefndi ábyrgð og sé því skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda. 

                Loks byggir stefnandi kröfu sína á almennum reglum um skaðlega eiginleika söluvöru. Stefnandi hafi ekki fengið orku með þeim kostum eða í því horfi sem hún hafi átt að vera. Rafmagnið hafi því ekki uppfyllt áskilda kosti og þá eiginleika sem hann hafi mátt gera ráð fyrir. Stefndi og forverar hans hafi aldrei vakið athygli notenda á því að rafmagnið og spenna þess hafi ekki fullnægt skilmálum og því hafi notendur mátt ganga út frá því að afhending á rafmagni væri ekki þessum annmarka háð. Um lagarök til stuðnings þessu vísar stefnandi til reglna um skaðlega eiginleika söluvöru og til meginreglna kauparéttar.

III.

                Stefndi vísar til þess að stefnandi reisi málatilbúnað sinn á mælingum Friðriks Alexanderssonar hjá Rafteikningu hf., sem fóru fram á tímabilinu 5. október 2000 til 18. apríl 2001. Af niðurstöðum þessara mælinga dragi stefnandi þá ályktun að þær eigi við allt frá árinu 1993 til 2001. Ekki sé að finna neinn rökstuðning fyrir þessari ályktun og telur stefndi að mælingarnar leiði ekkert í ljós um afhendingu raforku á öðru tímabili en þær tóku til. Þá þykir stefnda með ólíkindum að leitað hafi verið að orsökum minnkandi framleiðslu og bilana í vélabúnaði í verksmiðju stefnanda allt frá árinu 1993 án þess að skýring hafi fundist.

                Stefndi vefengir að mælingar Friðriks Alexanderssonar geti talist óyggjandi sönnun um gæði raforkunnar þannig að þær verði lagðar að jöfnu við mælingar framkvæmdar af dómkvöddum matsmönnum. Bendir stefndi á að starfsmönnum rafveitunnar hafi ekki verið gefið færi á að fylgjast með mælingum, hvar og hvernig þær fóru fram og með hvaða búnaði. Í skýrslum Friðriks sé engin nánari grein gerð fyrir þessu, auk þess sem taka verði mælingunum með fyrirvara þar sem þær hafi verið gerðar að beiðni stefnanda og í hans þágu.

                Stefndi telur forsendur þess að fallist verði á kröfu stefnanda að hann sýni fram á hver hafi verið framleiðslugeta verksmiðjunnar hvert ár fyrir sig sem krafan taki til og hver framleiðslan hafi verið. Einnig verði stefnanda að sýna fram á að samdráttur í framleiðslu verði rakinn til raforkunnar en ekki einhverra annarra utanað komandi atvika. Þannig verði stefnandi að sanna að bótaskylt tjón hafi orðið þótt hann hafi að svo stöddu kosið að gera einvörðungu viðurkenningarkröfu og bíða með að leiða í ljós fjárhæð tjónsins. Þetta hafi stefnandi hins vegar ekki gert með þeim gögnum sem liggi til grundvallar málssókninni.

                Stefndi hafnar því að afhending á rafmagni til stefnanda hafi ekki verið í samræmi við reglur og skilmála og telur að sú fullyrðing stefnanda sé með öllu ósönnuð. Stefndi bendir jafnframt á að notandi sjálfur eigi að gera viðeigandi ráðstafanir til að hindra truflun á rekstri spennuviðkvæmra tækja, sbr. grein 6.3.1 í tæknilegum tengiskilmálum fyrir rafmagnsveitur. Þá beri notanda að grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir hugsanlegt tjón á neyslutækjum vegna spennubreytinga eða spennurofs, sbr. grein 6.3.2 í skilmálunum. Í þessu sambandi skipti einnig máli að ýmsar utanaðkomandi ástæður, sem ekki verði ráðið við, geti valdið breytingum á málspennu í veitukerfum rafveitna, svo sem veðurskilyrði. Auk þess geti aðrir notendur á sömu veitu valdið truflunum, bæði til hækkunar og lækkunar á spennu. Þetta eigi enn frekar við um lítil dreifikerfi eins og á Akranesi. Auk þess séu fleiri en einn notandi á þeirri heimtaug sem liggi að verksmiðju stefnanda. Telur stefndi að mælingar Friðriks Alexanderssonar útiloki ekki að truflun á spennu verði rakin til slíkra utanaðkomandi ástæðna.

                Stefndi bendir á að hvorki í reglugerðum né tæknilegum tengiskilmálum, sem rafveitan starfi eftir, sé að finna fyrirmæli um hver styrkur tóntíðnistýringar megi eða eigi að vera. Í því efni tekur stefndi fram að staðall Evrópsku rafstaðlasamtakanna (CENELEC) IEC 61000-2-2 hafi ekki verið tekinn upp sem hluti af afhendingarskilmálum rafveitna og sé því ekki skuldbindandi fyrir stefnda. Þar fyrir utan geri staðallinn ráð fyrir að álagstýrimerkið geti farið í allt að 9% af netspennu, sbr. grein 4.10.2 í 2. útgáfu staðalsins 2002-2003.

                Stefndi heldur því fram að merki til tóntíðnistýringar sé sent út með 7,8 volta styrk á tíðninni 1050 Hz og því sé hlutfall þess 3,39% miðað við 230 volta staðalspennu. Verði talið að merkið sé of sterkt þannig að það geti haft áhrif á vélbúnað stefnanda þá beri honum sjálfum að koma í veg fyrir truflanir með viðeigandi búnaði, sbr. grein 6.9.3 í tæknilegum skilmálum (áður grein 6.10.3 í eldri skilmálum). Þannig séu rafveitur undanþegnar ábyrgð á tjóni á búnaði, sem rekja megi til álagsstýrikerfi rafveitna. Þá bendir stefndi á að notandi sjálfur eigi að kynna sér ákvæði rafveitu áður en búnaður er ákveðinn ef rafveita notar tóntíðnistýringu með hærri tíni en 250 Hz, sbr. grein 6.9.1 í tæknilegum tengiskilmálum (áður grein 6.10.1 í eldri skilmálum).  

                Verði á annað borð talið að frávik hafi verið frá meðalspennu telur stefndi að þau hafi verið smávægileg og ekki meiri en stefnandi hafi mátt búast við. Þau frávik geti því ekki bakað stefnda bótaskyldu vegna afleidds tjóns stefnanda, enda sé stefndi undanþeginn bótaábyrgð með fyrrgreindum ákvæðum í tæknilegum tengiskilmálum fyrir rafmagnsveitum, auk þess sem slík undanþága eigi sér stoð í a-lið 19. gr. reglugerðar fyrir Akranesveitu, nr. 976/2000, sbr. hliðstætt ákvæði í a-lið 22. gr. eldri reglugerðar nr. 665/1995 og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 40/1948.

                Stefndi hafnar því að stefnandi geti krafist bóta á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og færir fyrir því sömu rök og hér hefur verið gerð grein fyrir. Stefnandi verði að sýna fram á að tjón hafi orðið og að það megi rekja til háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á. Jafnframt að tjónið sé sennileg afleiðing af háttseminni og orsakasamband þar á milli. Í því efni séu mælingar Friðriks Alexanderssonar ekki viðhlítandi, enda hafi þær einvörðungu beinst að gæðum rafmagns en ekki áhrifum þess á prjónavélar stefnanda. Þessu til viðbótar verði stefnandi að sanna sök, enda ekki fyrir hendi lagaheimild, sem leggi hlutlæga ábyrgð á stefnda.

                Þá vísar stefndi til þeirrar meginreglu skaðabótaréttar að tjónþola beri eftir fremsta megni að takmarka tjón sitt. Telur stefndi ótrúverðugt að stefnandi hafi árum saman án árangurs reynt að finna ástæður þess að vélar í verksmiðjunni skiluðu ekki fullum afköstum. Hann hafi því látið undir höfuð leggjast að grípa til viðeigandi ráðstafanna, en það hafi hann ekki gert fyrr en í ársbyrjun 2002 þegar tekin var í notkun búnaður til að sía spennu. Stefnandi sjálfur verði að bera hallann af þessu aðgerðarleysi, sem og því tómlæti sem hann hafi sýnt af sér. Þar fyrir utan hafi rafveitan lagt sitt af mörkum til að ráða bót á vanda stefnanda þegar eftir að hann vakti máls á því að afhending orku væri ekki fullnægjandi.

                Loks hafnar stefndi því að krafa stefnanda eigi sér stoð í ákvæðum laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, og eldri laga nr. 39/1922 um sama efni, enda taki lög um lausafjárkaup ekki til afhendingar á raforku. Þá nái lög um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991, ekki til atvinnustarfsemi, sbr. 2. gr. laganna.

IV.

1.

                Með málshöfðun þessari leitar stefnandi eftir viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir á árunum 1993 til 2001 sökum þess að afending á raforku til verksmiðju stefnanda hafi ekki verið viðhlítandi. Heldur stefnandi því fram að um sé að ræða afleitt tjón þar sem ekki hafi verið unnt að keyra vélar verksmiðjunnar með fullum afköstum. Að gengnum slíkum dómi hyggst stefnandi gera fjárkröfur á hendur stefnda, eftir atvikum með málshöfðun að undangengnu mati dómkvaddra matsmanna.

                Stefnandi fékk raforku frá Rafveitu Akraness til ársloka 1995, en þá sameinaðist rafveitan Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar í Akranesveitu. Frá þeim tíma fékk stefnandi orku frá Akranesveitu til 1. janúar 2002 þegar stefndi tók yfir réttindi og skyldur Akranesveitu. Stefndi á varnarþing í Reykjavík en hefur fallist á að mál þetta sé rekið á hendur sér hér fyrir dómi.

2.

                Á fyrri hluta þess tímabils sem krafa stefnanda tekur til var í gildi reglugerð fyrir Rafveitu Akraness, nr. 40/1948, sem sett var á grundvelli vatnalaga, nr. 15/1923, og raforkulaga, nr. 12/1946. Í 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar sagði að raforka væri seld sem ein- eða þrífasa riðstraumur, með 220 volta málspennu og 50 riðum á sekúndu. Þegar sérstakar ástæður mæltu með var rafveitustjóra heimilt að láta í té orku með annarri spennu og annarri straumtegund.

                Með auglýsingu nr. 132/1991 um viðauka við reglugerð nr. 40/1948 fyrir Rafveitu Akraness um tæknilega tengiskilmála fyrir rafmagnsveitur var staðfest að tengiskilmálar, sem staðfestir voru af iðnaðarráðuneytinu 25. september 1990 með reglugerð nr. 391/1990, giltu fyrir Rafveitu Akraness með tilgreindum breytingum á grein 2 í skilmálunum. Í grein 2.1 var tekið fram að lágspennudreifikerfi rafveitunnar væri að jafnaði rekið með 50 riða þrífasa riðstraum þannig að víða í eldri bæjarhlutum og víðast hvar í bænum og í öllum nýrri hverfum væru 220 volt á milli fasa í þriggja leiðara dreifikerfum, en stefnt væri að því að hækka spennuna í 230 volt eigi síðar en á árinu 1995. Þá var tekið fram í grein 2.2 að veituspenna skyldi að jafnaði vera +/-10% við heimtaugarúttak, en að lokinni fyrirhugaðri spennuhækkun og fram til ársins 2003 yrðu þessi spennufrávik + 6% og -10%.  

                Reglugerð nr. 40/1948 var leyst af hólmi með reglugerð fyrir Akranesveitu, nr. 665/1995. Í a-lið 21. gr. reglugerðarinnar sagði að Akranesveita seldi raforku á orkuveitusvæði sínu, þar sem veitukerfi næði til, með þeim skilmálum sem ákveðnir væru í reglugerðinni. Í b-lið 16. gr. sagði jafnframt að setja mætti í sérstakri reglugerð staðfestri af ráðherra sérákvæði um nánari ræknileg tengiskilyrði. Með auglýsingu nr. 129/1997 voru settir nýjir tæknilegir tengiskilmálar fyrir rafmagnsveitur og töldust þeir sjálfstæður viðauki við fyrrgreinda reglugerð fyrir Akranesveitu, nr. 665/1995. Í grein 2.1 í skilmálunum sagði að lágspennudreifikerfi rafveitna væru að jafnaði rekin með þrífasa riðstraumi samkvæmt samræmingarskjali (staðli) um málspennu í lágspennudreifikerfum, SAM HD 472 S1. Samkvæmt því skyldi málgildi spennu á afhendingarstað rafveitna í enda heimtaugar vera 230 volt á milli fasa í þriggja fasa þriggja leiðara kerfum. Einnig var tekið fram að spenna á afhendingarstað rafveitna skyldi vera á bilinu +6% -10% miðað við tilgreind málgildi, en eftir árið 2003 skyldu mörkin vera +/-10%.

                Með gildandi reglugerð fyrir Akranesveitu, nr. 976/2000, var eldri reglugerð nr. 665/1995 leyst að hólmi. Í henni eru hliðstæð ákvæði um tæknileg tengiskilyrði og skilmála í b-lið 16. gr. og a-lið 18. gr. Tæknilegir tengiskilmálar fyrir rafmagnsveitur voru einnig leystir af hólmi með nýjum skilmálum, sem birtir voru með auglýsingu nr. 681/2001. Ákvæði þeirra um spennu og straumtegund eru samhljóða ákvæðum eldri skilmála.

                Í grein 2.1 í tæknilegum tengiskilmálum er vísað til samræmingarskjals Evrópsku rafstaðlasamtakanna (CENELEC) SAM HD 472 S1. Í lið 3 í því skjali segir að málspenna skuli vera 230 volt milli fasa í þriggja leiðara þriggja fasa kerfum. Einnig er tekið fram að mælt sé með því við eðlilegar aðstæður að vikmörk spennu séu ekki meiri en +/-10%. Gert er ráð fyrir aðlögunartímabili til ársloka 2003 til að koma spennu í þetta horf, en fyrstu aðgerðir landa með 220/380 volta spennu áttu að vera að koma spennu í 230/400 volt +6% eða -10% fyrir árið 1995.

                Stefnandi reisir kröfu sína á mælingum Friðriks Alexanderssonar hjá Rafteikningu hf., sem fram fóru með hléum á tímabilinu 5. október 2000 til 18. apríl 2001. Stefndi hefur vefengt að mælingar þessar geti talist viðhlítandi sönnun um gæði raforku til verksmiðju stefnanda þannig að þær verði lagðar að jöfnu við mælingar dómkvaddra matsmanna. Í málinu hefur komið fram að Akranesveita, forveri stefnda, greip til aðgerða í tilefni af kvörtunum frá stefnanda og miðuðu þær að því að draga úr spennufalli til verksmiðjunnar. Þessum úrbótum rafveitunnar lauk 23. október 2000 og skiluðu þær hækkaðri spennu að meðaltali um 9% samkvæmt mælingum Friðriks. Þá kom fram í vitnisburði Magnúsar Oddssonar, fyrrverandi veitustjóra hjá Akranesveitu, að á árinu 1997 eða 1998 hefði sjálfvirkur búnaður til að stýra spennu í dreifikerfinu verið tekin úr sambandi vegna bilunar. Hefði spenna frá veitunni því verið háð stýringu raforku inn á kerfið frá Landsvirkjun. Magnús gat ekki fullyrt hve lengi þessi búnaður hefði verið aftengdur en taldi að hann hefði aftur verið tekin í notkun að liðnu ári. Með hliðsjón af þessu gat ekki þjónað neinum tilgangi fyrir stefnanda að afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna, enda hefði slíkt mat ekki getað leitt í ljós gæði raforku til verksmiðju stefnanda eftir að gripið hafði verið til þeirra ráðstafanna sem hér hafa verið raktar.

Þegar mælingar Friðriks Alexanderssonar eru virtar verður ekki hjá því litið að fram kom í bréfi bæjarstjóra Akraness 16. janúar 2001, sem fór með framkvæmdarstjórn veitunnar ásamt bæjarráði, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 976/2000, að niðurstöður mælinga væru ekki dregnar í efa. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við að mælingar fóru ekki fram á afhendingarstað orkunnar, en frekari mælingar voru síðan gerðar í tilefni af þeirri ábendingu. Þá verður einnig að leggja í einhverjum mæli á rafveituna sjálfa að geta með eigin eftirliti veitt nánari upplýsingar um gæði raforku á hverjum tíma en takmarkaðra gagna nýtur við í málinu um það frá stefnda og ná mælingar rafveitunnar ekki til allra þátta sem hugsanlega geta valdið truflun í kerfinu. Þegar sönnunarfærslan er metin í þessu ljósi ásamt því að vélar stefnanda hafa gengið hnökralaust frá því hann kom upp búnaði í ársbyrjun 2002 til að sía spennu þykir nægjanlega í ljós leitt að sveifla í spennu frá rafveitu hefur átt þátt í að valda truflun á vélabúnaði og vöruframleiðslu í verksmiðju stefnanda á því tímabili sem dómkrafa hans tekur til. Á hinn bóginn verður ekki nánar fullyrt um gæði raforkunnar á þessu níu ára tímabili og þar með að hve miklu leyti orkan á einstökum tímabilum fullnægði ekki þeim mörkum sem reglur og tæknilegir skilmálar mæla fyrir um og áður hefur verið gerð grein fyrir.    

3.

                Akranesveita og áður Rafveita Akraness notuðu svokallað álagsstýrikerfi, en með því er búnaði fjarstýrt með tóntíðnimerki, sem sent er um veituna. Fram hefur komið hjá stefnda að styrkur merkisins var 7,8 volt og tíðni þess 1050 Hz eða 3,39% miðað við 230 volta staðalspennu. Þekkt er að merki af þessu tagi getur magnast í dreifikerfinu þannig að það komi sterkara til notenda en nemur styrk þess við útsendingu.

                Hvorki í reglugerðum um veituna né í tæknilegum tengiskilmálum er að finna fyrirmæli um styrk merkis frá álagsstýrikerfi. Við mat á því hvað teljist eðlilegt í þeim efnum þykir rétt að hafa hliðsjón af alþjóðlegum stöðlum þótt þeir séu ekki beinlínis skuldbindandi fyrir stefnda og forvera hans.

                Samkvæmt staðli Evrópsku rafstaðalsamtakanna IEC 61000-2-2, grein 4.10.2, er gert ráð fyrir að styrkur merkisins sé 2-5% af netspennu eftir staðbundinni framkvæmd. Þegar staðall þessi var endurútgefinn 2002-2003 var bætt við ákvæði um að merkið gæti við ákveðnar aðstæður risið upp í 9% af netspennu. Staðlaráð Íslands hefur einnig gefið út staðal ÍST EN 50160:1999 um spennu raforku í almenningsveitum og er staðallinn alþjóðlegur. Í grein 2.13 í staðlinum kemur fram að þriggja sekúndu merki skuli í meira en 99% á sólahring vera minna eða sambærilegt við tiltekið graf eftir annars vegar útsendingartíðni merkisins og hins vegar hlutfallslegum styrk þess miðað við netspennu. Samkvæmt grafi þessu skal útsendingarstyrkur merkisins miðað við tíðni 1050 Hz vera um 5%.

                Samkvæmt fyrstu mælingum Friðriks Alexanderssonar reyndist merki frá álagsstýrikerfi Akranesveitu vera um 8,6% af netspennu. Í skýrslu Friðriks 28. desember 2000 kemur hins vegar fram að merkið hafi verið innan viðmiðunarmarka staðla eftir að rafveitan greip til ráðstafanna til að hækka spennu til verksmiðju stefnanda haustið 2000. Þá sýndu mælingar 21. janúar 2001 að styrkur merkis var 6,7% á þeim tíma sem bilanir urðu í prjónavélum stefnanda. Eftir að stefnandi setti upp búnað til að sía spennu í ársbyrjun 2002 hefur merki þetta ekki valdið vandkvæðum. Með hliðsjón af þessu er það álit dómsins að merki frá álagsstýrikerfi rafveitunnar hafi átt þátt í að trufla vélar í verksmiðju stefnanda.

4.

                Svo sem hér hefur verið rakið var í gildi hluta af því tímabili sem dómkrafa stefnanda tekur til reglugerð fyrir Rafveitu Akraness, nr. 40/1948. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar sagði að ekki hefði í för með sér neina skaðabótaskyldu á hendur rafveitu þótt stöðvun yrði á rekstri eða truflun vegna bilana eða takmarkana á raforkuvinnslunni, en koma skyldi á reglulegum rekstri aftur eins fljótt og auðið er. Einnig var tekið fram í 2. mgr. sömu greinar að rafveitan bæri ekki ábyrgð á spennubreytingum við slíkar aðstæður eða afleiðingum af þeim. Hliðstætt ákvæði var í a-lið 22. gr. reglugerðar fyrir Akranesveitu, nr. 665/1995, og samhljóða ákvæði er í gildandi reglugerð nr. 976/2000.

                Með auglýsingu nr. 391/1990 voru settir tæknilegir tengiskilmálar fyrir rafmagnsveitur og giltu þeir fyrir Rafveitu Akraness, svo sem nánar var kveðið á um í auglýsingu nr. 132/1992. Í grein 6.3 í skilmálunum var mælt fyrir um rekstur spennuviðkvæmra tækja. Þar sagði í grein 6.3.1 að notandi sjálfur skyldi með viðeigandi ráðstöfunum tryggja truflunarlausan rekstur spennuviðkvæmra tækja. Í grein 6.3.2 sagði síðan að notandi sjálfur skyldi gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón, sem gæti orðið vegna spennubreytinga eða spennurofs á einum eða fleiri fösum. Sambærileg ákvæði var að finna í sömu greinum í tæknilegum tengiskilmálum samkvæmt auglýsingu nr. 129/1997 og samhljóða ákvæði eru í gildandi skilmálum, sbr. auglýsing nr. 681/2001.

                Í grein 6.10 í tæknilegum tengiskilmálum samkvæmt auglýsingu nr. 391/1990 var nánar kveðið á um tóntíðnistýringu. Samkvæmt grein 6.10.1 bar að gera neysluveitu þannig að hún truflaði ekki rekstur tóntíðnistýringar rafveitunnar, en ella var notanda veitunnar skylt að búa hana tóntíðnisperrum og bera sjálfur af því allan kostnað. Ef tóntíðnistýring rafveitunnar var rekin með hærri tíðni en 250 Hz var notanda skylt að kynna sér ákvæði rafveitunnar áður en búnaður var ákveðinn. Í grein 6.10.3 sagði síðan að neyslutæki, til dæmis hljómflutningstæki, ljósdeyfar, sjónvarpstæki, tölvur o.fl., sem yrðu fyrir truflun að völdum tóntíðnistýringar rafveitunnar, skyldu varin gegn þeim með viðeigandi búnaði, sem notandi bæri sjálfur kostnað af. Efnislega sambærileg ákvæði voru í sömu greinum tæknilegra tengiskilmála samkvæmt auglýsingu nr. 129/1997 og samhljóða ákvæði eru í greinum 6.9.1 og 6.9.3. í gildandi skilmálum samkvæmt auglýsingu nr. 681/2001.

                Samkvæmt þeim ákvæðum í reglugerðum og tæknilegum tengiskilmálum sem hér hafa verið rakin er stefndi og forverar hans undanþegnir skaðabótaábyrgð vegna tjóns, sem rekja mátti til truflana við afhendingu raforku til notenda. Þess í stað er beinlínis mælt fyrir um að notendur eins og stefnandi, sem leggur stund á iðnframleiðslu með spennuviðkvæmum tækjum, verði sjálfir að grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir tjón af þessum sökum. Eiga ákvæði þessi sér viðhlítandi stoð í 27. gr. orkulaga, nr. 58/1967, sbr. lög 53/1985, þar sem segir að héraðsrafmagnsveitur, sem hafi einkarétt til sölu raforku á ákveðnu veitusvæði, skuli semja reglugerð, sem ráðherra staðfestir, þar sem meðal annars skuli kveðið á um skilmála fyrir orkusölunni. Að þessu virtu og þegar litið er til þess að ekki hafa verið í ljós leidd veruleg frávik frá reglum og skilmálum um afhendingu orku verður ekki fallist á það með stefnanda að stefndi beri bótaábyrgð á framleiðslutjóni stefnanda. Í þeim efnum verður einnig að líta til þess Akranesveita greip til ráðstafana til að hækka spennu til verksmiðju stefnanda þegar fram komu eindregnar vísbendingar um að vandkvæði við framleiðslu stefnanda mætti rekja til afhendingar á raforku til verksmiðjunnar. Kom meðal annars fram í aðilaskýrslu Viðars Magnússonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, að fyrst um sumarið 2000, eftir að nýjar vélar voru teknar í notkun, hefði legið fyrir rökstuddur grunur um að orka til verksmiðjunnar væri ekki viðhlítandi en úrbótum Akranesveitu lauk þá um haustið.   

5.

                Hér hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að bótaskylda verði ekki reist á þeim reglum og skilmálum sem gilda um afhendingu raforku til verksmiðju stefnanda. Verður talið að þær reglur gangi framar almennum ákvæðum laga um lausafjárkaup, nr. 39/1922, sem í gildi voru á þeim tíma, sem dómkrafa stefnanda tekur til. Sama verður talið eiga við um ákvæði laga um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991. Verður bótaskylda því ekki byggð á þeim lagagrundvelli.

                Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.        

                Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

                Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Jóni Otta Sigurðssyni, tæknifræðingi, og Ólafi Sigurðssyni, rafmagnstæknifræðingi.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur, er sýkn af kröfum stefnanda, Trico ehf.

                Málskostnaður fellur niður.