Hæstiréttur íslands

Mál nr. 846/2014


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Áminning
  • Tómlæti
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


                                     

Fimmtudaginn 1. október 2015.

Nr. 846/2014.

Hallgrímur Ólafsson

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Seðlabanka Íslands

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Opinberir starfsmenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Áminning. Tómlæti. Skaðabætur. Sératkvæði.

H krafðist bóta úr hendi S vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Í mars 2012 óskaði S eftir því við H, sem fruminnherja, að hann gerði grein fyrir tengslum sínum við S ehf., félag sem hann átti 30% hlut í og var í fyrirsvari fyrir. H varð við því og gerði meðal annars grein fyrir verðbréfaviðskiptum sem félagið hefði stundað á árunum 2007 og 2008, á sama tíma og hann var starfsmaður S, auk málaferla sem félagið stóð að og voru í burðarliðnum. Viðbrögð S við þessu voru þau að skipa H að segja sig úr stjórn félagsins, sem gekk eftir. Taldi Hæstiréttur, meðal annars með hliðsjón af þýðingu reglna um verkanir tómlætis í vinnurétti, að ekki yrði á það fallist með S að bankinn hefði einu og hálfu ári síðar, í október 2013, getað gripið til frekari úrræða vegna þeirra brota sem H upplýsti um í mars 2012. Talið var að H hefði brotið 14. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með því að S ehf. hefði átt gjaldeyrisviðskipti og að hann hefði brotið 20. gr. sömu laga með því að upplýsa ekki nægilega um fyrirsvar sitt fyrir félagið. Brot þessi, sem felld yrðu undir 21. gr. laganna, veittu S á hinn bóginn ekki rétt til að segja H upp störfum á grundvelli 43. gr. þeirra án undangenginnar áminningar, sbr. 44. gr. laganna. Var því fallist á með H að uppsögnin hefði verið ólögmæt. Við mat á fjárhæð skaðabóta var talið að taka þyrfti tillit til þess að starfsöryggi H hjá S sætti takmörkunum, eins og starfsöryggi annarra hjá íslenska ríkinu eða stofnunum þess, sbr. 44. gr. framangreindra laga, og að H hefði brotið af sér í starfi, þótt brotin hefðu ekki verið svo alvarleg að réttlætt hefði fyrirvaralausa uppsögn. Bæri hann því sjálfur nokkra ábyrgð á tjóni sínu. Með hliðsjón af framangreindu var S dæmt til að greiða H skaðabætur sem metnar voru að álitum 3.000.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 19.682.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. janúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Með ótímabundnum ráðningarsamningi 1. desember 2000 hóf áfrýjandi, sem er viðskiptafræðingur og löggiltur verðbréfamiðlari, störf hjá stefnda. Starfsvið hans var á alþjóðasviði bankans og var því lýst svo í ráðningarsamningnum að það væri verðbréfamiðlun og ,,önnur tilfallandi störf“. Um starfskjör, réttindi og skyldur hans skyldi samkvæmt samningnum fara eftir „kjarasamningi, ákvæðum laga og reglum fyrir starfsmenn Seðlabankans.“ Þá var tiltekið að skuldbinding ,,um ástundun, þagnarskyldu o.fl.“ fylgdi á sérstöku blaði sem ætti að undirrita. Loks sagði: ,,Brot í starfi varðar áminningu eða brottvikningu ef um ítrekuð brot eða veruleg er að ræða.“

Við ráðninguna gerði áfrýjandi Ólafi Ísleifssyni, sem var næsti yfirmaður hans og annaðist ráðninguna, grein fyrir því að hann væri einn eigenda einkahlutafélagsins Skólabrúar. Félagið mun hafa verið stofnað 1991 um veitingarekstur, en við ráðningu áfrýjanda mun starfsemi þess einungis hafa falist í framleigu og umsjón fasteignarinnar að Pósthússtræti 17 í Reykjavík. Mun áfrýjandi við ráðninguna hafa sinnt ólaunuðum störfum sem framkvæmdastjóri félagsins, en síðarnefnda starfið var lagt niður hjá því í lok árs 2009 og tók áfrýjandi þá við stjórnarformennsku í félaginu. Veitti Ólafur Ísleifsson honum munnlega heimild til þess að sinna þeim störfum í þágu félagsins sem hann gegndi við ráðninguna.

Á árinu 2002 mun Skólabrú ehf. hafa keypt helming áðurnefndrar fasteignar, en selt hlutinn aftur í júlí 2007 með umtalsverðum hagnaði. Eftir það hóf félagið viðskipti með framvirka samninga og verðbréf.

Haustið 2006 sameinuðust peningamálasvið og alþjóðasvið stefnda og mun áfrýjandi þá hafa fengið það verkefni að skrá gengi og vexti, fylgjast með mörkuðum og hafa símasamband við svokallaða viðskiptavaka. Í kjölfar falls íslensku bankanna í október 2008 mun hann hafa starfað við að svara fyrirspurnum sem bárust símleiðis um gengi og skyld atriði, en nokkrum mánuðum síðar verið færður í starf er laut að lánamálum ríkisins og sinnt þar daglegri fyrirgreiðslu í formi verðbréfalána til miðlara með ríkisskuldabréf. Áfrýjandi var 8. desember 2011 skráður fruminnherji samkvæmt 128. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

II

Í desember 2011 höfðaði Skólabrú ehf. mál á hendur fjármálafyrirtækinu Virðingu hf. og krafðist skaðabóta að fjárhæð 7.311.232 krónur. Var krafan reist á því að Virðing hf. hefði ekki staðið rétt að samningum um stofnun á VS-reikningi í nafni Skólabrúar ehf. hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. Hafi Virðing hf. brotið gegn skilmálum sínum um markaðsviðskipti, lögum nr. 108/2007 og reglugerð nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja í tengslum við kaup á hlutabréfum í þremur tilgreindum félögum.

Þá var ágreiningi Skólabrúar ehf. og Landsbanka Íslands hf. um kröfu félagsins við slit bankans skotið til héraðsdóms í febrúar 2012, en þar krafðist félagið að viðurkennd yrði búskrafa þess samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 35.453,36 evrur. Krafan átti rót að rekja til afleiðusamnings sem Skólabrú ehf. gerði við Landsbanka Íslands hf. 21. ágúst 2008 um kaup á 500 hlutum í félaginu Atlantic Petroleum P/F á fyrirfram ákveðnu verði og samkomulags sem Skólabrú ehf. hélt fram að komist hefði á um uppgjör samningsins. Skólabrú ehf. hafði sett bankanum að handveði innstæðu á tilgreindum bankareikningi til tryggingar öllum skuldum sínum við bankann, sem leysti í nóvember 2008 til sín veðið vegna vanskila félagsins.

III

Hinn 21. mars 2012 sendi aðallögfræðingur stefnda, sem jafnframt var regluvörður bankans, tölvubréf til áfrýjanda þar sem sagði að á lista yfir fruminnherja í stefnda væri einkahlutafélagið Skólabrú skráð sem fjárhagslega tengt áfrýjanda, sem væri þar stjórnarformaður. Vakin var athygli á reglum stefnda nr. 9.2.14 um heimild starfsmanna stefnda til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja frá 18. júní 2001 og þess farið á leit að áfrýjandi gerði bankastjóra og regluverði „grein fyrir félaginu.“ Degi síðar sendi áfrýjandi regluverðinum tölvubréf þar sem fram kom að hann ætti 30% í félaginu. Vísaði hann til áðurnefndrar heimildar Ólafs Ísleifssonar um að hann mætti sitja í stjórn þess, enda hefði það ekki verið með eiginlegan rekstur og seta í stjórn þess og önnur störf ólaunuð. Þá kvaðst áfrýjandi ekki hafa þekkt þær reglur sem vísað væri til og óskaði eftir fundi með regluverði og bankastjóra til að gera frekari grein fyrir félaginu. Jafnframt falaðist hann eftir heimild til áframhaldandi stjórnarsetu, ella myndi hann segja sig úr stjórninni. Sama dag óskaði regluvörður eftir að áfrýjandi gerði frekari grein fyrir félaginu. Í tölvubréfi daginn eftir lýsti hann nánar starfsemi félagsins frá stofnun 1991 allt til þess að fasteign þess var seld í júlí 2007, en félagið hefði þá farið „út í fjárfestingar eftir söluna, meðal annars á verðbréfamarkaði.“ Áfrýjandi kvað eignarhlut sinn í félaginu hafa verið 30% frá árinu 2003. Nefndi hann að frá 15. apríl 2003 hefði annar eigandi félagsins, Sigtryggur Eyþórsson, tekið við af honum sem stjórnarformaður og sinnt því til ársloka 2009 er áfrýjandi hafi aftur tekið við. Hafi Sigtryggur séð um kaup og sölu verðbréfa og samskipti við miðlara, en þó verið „í sambandi við [áfrýjanda] utan vinnutíma vegna stöðu og fjármögnunar.“ Loks sagði: „Skólabrú ehf. hefur tapað miklu af eigum sínum frá sölunni 2007 ekki síst eftir ósköpin í hruninu. Skólabrú ehf. stendur í deilum við Slitastjórn Landsbankans og Verðbréfafyrirtækið Virðingu. Hefur verið höfðað mál við Slitastjórnina og er líklegt að bæði deilumálin fari fyrir dómstóla. Ég mun koma til þín ársreikningi Skólabrúar ehf. eftir helgina, sem skýrir frekar fjárhagsstöðu félagsins.“ 

Þá sendi áfrýjandi tölvubréf til bankastjóra stefnda 2. apríl 2012 þar sem hann ítrekaði annars vegar að hann hefði ekki haft vitneskju um framangreindar reglur stefnda fyrr en regluvörður hans hafi sent sér þær, en hins vegar ósk sína um heimild til áframhaldandi setu í stjórn félagsins. Kvaðst hann hafa gert regluverðinum grein fyrir félaginu og aðkomu sinni að því, en þar komi fram að „enginn raunverulegur rekstur hefur verið í félaginu frá 1992, aðeins sýslan með eignir og skuldir.“

Að fengnu minnisblaði regluvarðar sendi bankastjóri stefnda áfrýjanda bréf 16. apríl 2012. Í bréfinu rakti bankastjórinn meðal annars upplýsingar, sem veittar höfðu verið um Skólabrú ehf. og starfsemi þess. Síðan sagði: ,,Þó svo félagið hafi nú um mundir litla fjármuni umleikis til fjárfestinga, þá verður að teljast mjög óheppilegt að starfsmaður Seðlabankans sé stjórnarformaður í félagi með slíkt markmið ekki síst í ljósi þess að sá hinn sami er fruminnherji í bankanum auk þess sem 1. gr. áður nefndra reglna Seðlabankans leggur bann við setu starfsmanna í fyrirtækjum sem starfa fyrst og fremst á sviði verðbréfaviðskipta. Í ljósi þess sem nú hefur verið rakið er beiðni þinni um leyfi til setu í stjórn Skólabrúar ehf. hafnað og þess óskað að þú segir þig úr stjórninni við fyrsta tækifæri.“  

Til samræmis við bréf seðlabankastjóra sendi Skólabrú ehf. 17. apríl 2012 tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um breytta stjórn í félaginu, jafnframt því sem stefnda var tilkynnt um þetta.

IV

Hinn 20. desember 2012 gekk úrskurður héraðsdóms í framangreindu máli Skólabrúar ehf. gegn Landsbanka Íslands hf., sem staðfestur var í Hæstarétti 14. febrúar 2013, sbr. mál nr. 30/2013. Þar var fallist á skyldu Skólabrúar ehf. til að greiða 20.752.812 krónur með tilgreindum dráttarvöxtum, allt að frádreginni greiðslu að fjárhæð 24.692.920 krónur. Þá var kveðinn upp héraðsdómur í máli Skólabrúar ehf. gegn Virðingu hf. 10. júní 2013. Í dóminum voru rakin samskipti félaganna, meðal annars sagði að áfrýjandi hefði verið tengiliður Skólabrúar ehf. við Virðingu hf. og haft upplýsingar um viðskipti þau sem um ræddi frá upphafi. Eftir áðurnefndum Sigtryggi Eyþórssyni var haft að hann hefði ekkert aðhafst í málefnum Skólabrúar ehf. án fyrirmæla frá áfrýjanda. Var Virðing hf. sýknuð af kröfu Skólabrúar ehf. í málinu og dóminum ekki áfrýjað.

Hinn 28. júní 2013 afhentu seðlabankastjóri og aðallögfræðingur bankans áfrýjanda bréf undir yfirskriftinni: „Ótímabundið leyfi frá störfum í Seðlabanka Íslands frá og með 28. júní 2013.“ Í upphafi bréfsins var vísað til síðastgreinds héraðsdóms og að þar hafi komið fram upplýsingar um aðkomu áfrýjanda ,,að verðbréfa-, gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum Skólabrúar ehf. á árunum 2007 og 2008, sem framkvæmdastjóri Skólabrúar ehf., og jafnframt verandi starfsmaður Seðlabanka Íslands á sama tíma.“ Þá var vísað til 5. gr. reglna stefnda nr. 831/2002 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna þar sem skýrt væri tekið fram að starfsmönnum stefnda væri óheimilt að eiga sjálfir viðskipti fyrir sig eða aðra eða hvetja til viðskipta með verðbréf og gjaldeyri byggju þeir yfir eða hefðu aðgang að trúnaðarupplýsingum sem líklegar væru til að hafa áhrif á markaðsverðið. Loks sagði: „Í tilefni af upplýsingum sem fram koma í dóminum er þess hér með óskað að þú takir þér ótímabundið leyfi frá störfum frá og með 28. júní 2013, á meðan athugað verður hvort þú hafir gerst brotlegur í starfi þínu við lög og starfsreglur Seðlabankans.“  

Áfrýjandi sendi stefnda 29. júní 2013 greinargerð um störf sín fyrir Skólabrú ehf. þar sem í upphafi var minnt á að hann hafi upplýst Ólaf Ísleifsson um eignarhald sitt í félaginu og störf í þess þágu. Þá gat áfrýjandi þess einnig í bréfinu að í september 2007 hafi staðið til að félagið tæki þátt í kaupum á fasteign í Póllandi með öðrum íslenskum fjárfestum og því keypt evrur að andvirði 20.000.000 krónur sem lagðar hafi verið inn á gjaldeyrisreikning. Á hinn bóginn hafi áformin runnið út í sandinn og evrurnar seldar aftur, en þó aðeins „að takmörkuðum hluta.“ Kvaðst áfrýjandi aldrei hafa haft aðgang að trúnaðarupplýsingum, sem hann hefði getað nýtt sér við verðbréfa- eða gjaldeyrisviðskipti, og telja að yfirmönnum sínum hafi verið kunnugt um þessi viðskipti, sem hann hefði talið samrýmast reglum stefnda. Veitti áfrýjandi jafnframt stefnda heimild til að leita allra upplýsinga hjá sér, Skólabrú ehf. og mótaðilum í viðskiptum um verðbréfa-, gjaldeyris- og afleiðuviðskipti. Þá gerði áfrýjandi stefnda 20. júlí 2013 enn frekari grein fyrir störfum sínum hjá Skólabrú ehf. og samskiptum sínum við Virðingu hf. og Landsbanka Íslands hf. vegna málefna félagsins.

Stefndi sendi áfrýjanda bréf 8. október 2013 með yfirskriftinni: „Niðurstaða rannsóknar og mögulegt næsta skref.“ Í lok bréfsins sagði að áfrýjandi hefði brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum sínum í starfi þannig að til álita kæmi að honum yrði sagt upp störfum „með vísan til þeirrar heimildar sem leiðir af 43. gr. laga nr. 70/1996 [um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins], ráðningarsamningi ... 1. desember 2000 og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara.“ Um brot áfrýjanda var einkum vísað til þess að hann hefði aldrei fengið formlegt leyfi hjá yfirmönnum sínum til að koma að starfsemi Skólabrúar ehf., hvorki sem stjórnarmaður né framkvæmdastjóri. Í því fælist brot gegn 20. gr. laga nr. 70/1996 sem og reglum stefnda nr. 9.2.14 og þannig skaðað trúverðugleika stefnda. Þá hefði aðkoma áfrýjanda að málefnum Skólabrúar ehf. falið í sér alvarlegt brot gegn 14. gr. laga nr. 70/1996 um að starfsmanni beri að forðast nokkuð það sem varpað geti rýrð á starf eða starfsgrein sem hann vinni við. Var áfrýjanda gefinn kostur á að koma að andmælum áður en uppsögn yrði ráðin.

Áfrýjandi veitti andmæli með bréfi lögmanns síns 16. október 2013 þar sem hann ítrekaði fyrri andsvör og gerði athugasemdir við hversu óljóst væri um markaðar forsendur fyrir málsmeðferð stefnda með tilliti til laga nr. 70/1996.

Með bréfi 23. október 2013 sagði stefndi áfrýjanda upp störfum. Var í upphafi vísað til fyrra bréfs stefnda 8. sama mánaðar og þess að hann hefði ekki haft vitneskju um munnlega heimild Ólafs Ísleifssonar, frá honum sjálfum, til handa áfrýjanda sem hafi auk þess verið veitt á þeirri forsendu að Skólabrú ehf. hefði aðeins með höndum eignaumsjón og útleigu fasteignar. Þá hafi orðið grundvallarbreyting á rekstri félagsins á árinu 2007 er það seldi hlut í fasteign sinni og fór í umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum. Þá sagði: „Við þær aðstæður varð sjálfstætt og ærið tilefni af yðar hálfu, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 ... og reglur nr. 9.2.14 ... og grunnrök þeirra ákvæða, til að leita eftir heimild bankans til að koma að þessari starfsemi. Slíkri beiðni hefði umsvifalaust verið synjað af hálfu bankans líkt og varð raunin þegar þér seint og síðar meir, 2. apríl 2012, óskuðuð eftir slíkri heimild að undangenginni ábendingu til yðar þar að lútandi í tölvupósti aðallögfræðings bankans til yðar 21. mars 2012. Aðallögfræðingur bankans komst að þessari aðkomu yðar við vinnslu á fruminnherjalista bankans til Fjármálaeftirlitsins vegna aukinna krafna þess á þeim tíma. Þá er nefnt í bréfi lögmanns yðar að sú stjórnsýsla að segja yður nú upp störfum standist ekki reglur starfsmannaréttar og stjórnsýsluréttar að því virðist af þeirri ástæðu að það var ekki gert samhliða framangreindri synjun bankans á því að heimila yður aðkomu að Skólabrú ehf. Hér verður að hafa tvennt í huga. Annars vegar tilurð þess að bankinn áttaði sig á aðkomu yðar að rekstri Skólabrúar ehf. en tildrög þess eru rakin hér að framan. Það voruð því ekki þér sem komuð þessum upplýsingum til bankans að fyrra bragði. Í öðru lagi er ljóst að sú staðreynd að ekki var gripið til uppsagnar strax getur ekki valdið því að bankinn hafi að lögum misst uppsagnarrétt við það. Við bætist í því sambandi að mun ítarlegri upplýsingar um alla aðkomu yðar að Skólabrú ehf., viðskipti félagsins, umfang þeirra og samskipti við Virðingu hf. og Landsbanka Íslands hf. komu fram í dómum sem féllu á þessu ári, annars vegar Hæstaréttar 14. febrúar 2013, og hins vegar héraðsdóms 10. júní 2013.“ Hefði stefndi vald til þess að reisa uppsögn sína á þeim lagagrundvelli sem vísað hafi verið til í bréfinu 8. október 2013. Jafnframt var vísað til þess að í andmælabréfi áfrýjanda 16. október sama ár hefði ekki verið vikið að 14. gr. laga nr. 70/1996 og því bæri að líta svo á að ávirðingum samkvæmt þeirri grein væri ómótmælt. Loks sagði: „Með vísan til framangreinds, sem og bréfs bankans 8. október sl., er það mat bankans að þér hafið brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum yðar í starfi. Það er því niðurstaða bankans að segja yður upp störfum á grundvelli þeirrar heimildar sem leiðir af 43. gr. laga nr. 70/1996, ráðningarsamningi yðar, dags. 1. desember 2000, og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara.“ Voru áfrýjanda jafnframt greidd laun út uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi, en ekki óskað eftir vinnuframlagi hans á uppsagnarfrestinum.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 17. mars 2014 og er málsástæðum og lagarökum málsaðila lýst í hinum áfrýjaða dómi.

V

Svo sem fram er komið óskaði aðallögfræðingur stefnda eftir því við áfrýjanda, þegar unnið var að gerð nýs lista um fruminnherja í bankanum í mars 2012, að hann gerði grein fyrir tengslum sínum við Skólabrú ehf. Áfrýjandi lýsti þeim tengslum og starfsemi félagsins. Hann gat þess einnig að frá 2007, eftir að félagið seldi fasteign sem það átti hlut í með umtalsverðum hagnaði, hefðu verkefni þess breyst og þá hefði það farið út í fjárfestingar, meðal annars á verðbréfamarkaði. Hann gerði einnig grein fyrir því að mest af fjármunum félagsins hefði tapast og að félagið ræki eitt mál fyrir dómstólum vegna ágreinings um fjárfestingar og líklegt væri að til annars slíks yrði stofnað. Að framan er einnig gerð grein fyrir því að bankastjóri stefnda hafi með bréfi 16. apríl 2012 hafnað beiðni áfrýjanda um leyfi til að sitja í stjórn félagsins og gert kröfu til þess að hann segði sig úr stjórninni hið fyrsta. Í því bréfi kom fram að bankastjóranum væri kunnugt um framangreind atvik er vörðuðu félagið.

Stefndi reisir rétt sinn til að segja áfrýjanda upp störfum á því að eftir að endanlegir dómar gengu í þeim tveimur dómsmálum, sem Skólabrú ehf. var aðili að, í febrúar og júní 2013 hefðu komið fram upplýsingar sem verulega þýðingu hefðu haft. Stefndi bendir í því sambandi á að fram hafi komið í fyrsta lagi að félagið hafi stundað gjaldeyrisviðskipti, í öðru lagi að félagið hafi gert framvirkan samning um kaup á hlutafé og í þriðja lagi að áfrýjandi hafi í raun verið í fyrirsvari fyrir félagið í viðskiptum þess, en ekki Sigtryggur Eyþórsson eins og áfrýjandi hefði upplýst bankann um. Auk þess taldi stefndi að hann hefði ekki fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig ætluð brot áfrýjanda í starfi, sem honum var kunnugt um í mars og apríl 2012, þótt hann hafi hvorki áminnt hann þá né sagt upp ráðningarsamningi við hann.

Stefndi telur að áfrýjandi hafi brotið 20. gr. laga nr. 70/1996 með því að upplýsa ekki um tengsl sín við Skólabrú ehf. og störf sín í þágu þess. Hann hafi einnig brotið gegn reglum nr. 9.2.14, sem áður er getið, með framangreindum störfum. Jafnframt hafi hann brotið 14. gr. síðastnefndra laga með háttsemi sinni. Sér hafi því verið heimilt samkvæmt 43. gr. laganna að segja áfrýjanda upp störfum.

Þegar eftir því var óskað í mars 2012 að áfrýjandi gerði grein fyrir tengslum sínum við Skólabrú ehf. varð hann við því, auk þess sem hann gerði grein fyrir breytingum á starfsemi félagsins sem urðu á árinu 2007 og áföllum sem það hafði orðið fyrir, auk málaferla sem voru hafin og að hluta í burðarliðnum. Viðbrögð stefnda við þessu urðu þau að skipa áfrýjanda að segja sig úr stjórn félagsins, sem gekk eftir. Meðal annars með hliðsjón af þýðingu reglna um verkanir tómlætis í vinnurétti verður ekki á það fallist með stefnda að hann hafi einu og hálfu ári síðar, í október 2013, getað gripið til frekari úrræða vegna þeirra brota, sem áfrýjandi upplýsti um í mars 2012.

Stefndi hefur borið fyrir sig að uppsögnin hafi jafnframt verið reist á þremur atriðum, sem falið hafi í sér brot áfrýjanda á starfsskyldum sínum og hann hafi fyrst fengið vitneskju um á miðju ári 2013. Í fyrsta lagi gjaldeyrisviðskipti áfrýjanda fyrir hönd Skólabrúar ehf. Í málinu er upplýst að þau fólust í kaupum á evrum að jafnvirði 20.000.000 krónur á árinu 2007 þegar til stóð að félagið tæki þátt í fasteignakaupum í Póllandi. Fyrir liggur að af þeim kaupum varð ekki og að félagið hagnaðist verulega á því að eiga þennan erlenda gjaldeyri. Þá liggur fyrir að félagið fékk erlendan gjaldeyri vegna sölu á hlutafé og var hann lagður inn á reikning þess. Í öðru lagi bendir stefndi á að komið hafi í ljós að Skólabrú ehf. hafi gert framvirkan samning um kaup á hlutafé og er upplýst að um var að ræða einn slíkan samning um kaup á hlutafé í erlendu félagi. Í þriðja lagi hafi komið í ljós að áfrýjandi hafi í raun verið í fyrirsvari fyrir Skólabrú ehf. í þeim viðskiptum sem félagið stundaði frá árinu 2007.

Fallist er á með stefnda að framangreind gjaldeyrisviðskipti og fyrirsvar áfrýjanda fyrir Skólabrú ehf. hafi verið nýjar upplýsingar, sem honum hafi ekki mátt vera að fullu kunnar á árinu 2012, og að þessi atriði hafi falið í sér brot áfrýjanda á starfsskyldum hans. Er fallist á að hann hafi brotið 14. gr. laga nr. 70/1996 með því að eiga þau gjaldeyrisviðskipti sem áður greinir og brotið 20. gr. sömu laga með því að upplýsa ekki nægilega um fyrirsvar sitt fyrir félagið. Brot þessi, sem felld verða undir 21. gr. laganna, veittu stefnda ekki rétt til þess að segja áfrýjanda upp störfum á grundvelli 43. gr. þeirra án undangenginnar áminningar, sbr. 44. gr. þeirra. Verður því fallist á með áfrýjanda að uppsögnin hafi verið ólögmæt og hann eigi af þeim sökum rétt til skaðabóta úr hendi stefnda.

Fjárhæð skaðabótakröfunnar reisir áfrýjandi annars vegar á niðurstöðu tryggingafræðings um núvirði þeirra launagreiðslna, miðað við mars 2014, sem áfrýjandi hefði haft hjá stefnda ef hann hefði haldið áfram störfum þar út starfsævina eins og hann hefði mátt búast við ef til uppsagnarinnar hefði ekki komið. Útreikningurinn er miðaður við 2% ársvexti, en til lækkunar koma þekktar upplýsingar um lífs- og örorkulíkur miðað við aldur áfrýjanda. Frá þeirri fjárhæð dregur áfrýjandi niðurstöðu dómkvadds manns um þau laun og atvinnuleysisbætur, sem líklegt er að áfrýjandi fengi það sem eftir er starfsævi hans. Bendir áfrýjandi á að útreikningur þessi sé reistur á sambærilegum forsendum og útreikningur á bótum fyrir varanlega örorku. Þótt fallast megi á að slíkur útreikningur geti haft þýðingu við mat á fjárhæð skaðabóta í máli þessu verður að taka tillit til þess að starfsöryggi áfrýjanda hjá stefnda sætir takmörkunum, eins og starfsöryggi annarra hjá íslenska ríkinu eða stofnunum þess. Er sérstaklega tekið fram í 44. gr. laga nr. 70/1996 að heimilt sé, án áminningar, að segja starfsmanni upp ef uppsögn á rætur að rekja til annarra ástæðna en greindar eru í 21. gr. laganna, svo sem þeirrar að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Jafnframt verður að taka tillit til þess við ákvörðun skaðabóta að áfrýjandi braut af sér í starfi, eins og getið hefur verið, þótt brotin hafi ekki verið svo alvarleg að réttlætt hafi fyrirvaralausa uppsögn. Ber hann því sjálfur nokkra ábyrgð á tjóni sínu. Með hliðsjón af þessum atriðum verða áfrýjanda dæmdar skaðabætur að álitum eins og í dómsorði greinir. Dráttarvextir verða dæmdir frá 4. janúar 2015, en þá var liðinn mánuður frá því að áfrýjandi lagði fram nýja kröfugerð reista á þeim gögnum, sem hann aflaði undir meðferð málsins og vísað hefur verið til, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Með hliðsjón af úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti og er við ákvörðun á fjárhæð hans tekið tillit til kostnaðar af matsgerð og annars útlagðs kostnaðar.

Dómsorð:

Stefndi, Seðlabanki Íslands, greiði áfrýjanda, Hallgrími Ólafssyni, 3.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2015 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

I

Ég er samþykkur því sem fram kemur í köflum I-IV í atkvæði meirihlutans, en mál þetta snýst einkum um hvort stefndi hafi mátt segja áfrýjanda upp störfum án þess að honum hafi áður verið veitt áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

II

Stefndi er opinber stofnun og um hann gilda sérstakar reglur, meðal annars um þátttöku starfsmanna í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr., sbr. p. lið 28. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, sbr. áður 2. mgr. 25. gr., sbr. m. lið 28. gr. laganna, ber stefnda að setja reglur um þátttöku starfsmanna í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Í samræmi við það var í ráðningarsamningi áfrýjanda tekið fram að um starfskjör hans, réttindi og skyldur skyldi fara eftir „kjarasamningi, ákvæðum laga og reglum fyrir starfsmenn Seðlabankans.“ Var jafnframt tiltekið að „skuldbinding um ástundun, þagnarskyldu o.fl.“ fylgdi á sérstöku blaði sem skyldi undirrita. Loks sagði: „Brot í starfi varðar áminningu eða brottvikningu ef um ítrekuð brot eða veruleg er að ræða.“

Við ráðningu áfrýjanda voru í gildi reglur stefnda frá 23. júní 1993 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna, en síðar tóku við hliðstæðar reglur með sama heiti nr. 831/2002 frá 28. nóvember 2002, sem birtar voru í Stjórnartíðindum. Samkvæmt 3. gr. reglnanna taka þær til skráðra verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipta. Sem dæmi um trúnaðarupplýsingar samkvæmt reglunum, sbr. 4. gr., eru nefnd vitneskja um vaxtabreytingar, breytingar á gengi gjaldmiðla, málefni einstakra fjármálastofnana, aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum og tölfræðilegar upplýsingar um einstaklinga eða lögaðila. Þá segir í 5. gr.: „Eins og að framan greinir er starfsmönnum Seðlabanka Íslands óheimilt að eiga sjálfir viðskipti fyrir sig eða aðra eða hvetja til viðskipta með verðbréf og gjaldeyri búi þeir yfir eða hafi aðgang að trúnaðarupplýsingum sem líklegar eru til þess að hafa áhrif á markaðsverð þeirra. Bann þetta þýðir að starfsmenn Seðlabankans mega ekki kaupa, selja eða hvetja til kaupa eða sölu verðbréfa eða gjaldeyris, hvort sem er fyrir eigin reikning eða þriðja manns (t.d. fjölskyldu eða vina), þegar hlutaðeigandi starfsmenn búa yfir trúnaðarupplýsingum.“ Samkvæmt 10. gr. reglnanna skal tilkynna bankastjórn stefnda, nú seðlabankastjóra, um brot á reglunum sem geti, eftir eðli og umfangi brots, beitt án fyrirvara ákvæðum í kjarasamningi starfsmanna um fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi áður en brot sé kært til hlutaðeigandi yfirvalda. Loks er skírskotað til þess að tilraun og hlutdeild til brota á reglunum væru refsiverðar eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

Til viðbótar framangreindu tóku gildi 18. júní 2001 sambærilegar innri reglur stefnda nr. 9.2.14 um heimild starfsmanna stefnda til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Voru þær einnig settar samkvæmt 25. gr., sbr. m. lið þágildandi 28. gr. laga nr. 36/2001, staðfestar af bankaráði stefnda 14. júní 2001 og munu þær hafa verið birtar á vefsíðu stefnda og í svokallaðri regluhandbók frá október það ár. Í 1. gr. þeirra segir: „Bankastjórnin veitir starfsmönnum ekki í neinum tilvikum leyfi til þess að taka sæti í stjórn eða varastjórn fyrirtækja eða stofnana, sem starfa fyrst og fremst á sviði fjármálastarfsemi, verðbréfaviðskipta, verðbréfasjóða, eignarleigustarfsemi eða fyrirtækja sem hafa að markmiði starfsemi sem jafna má til slíkrar fjármálastarfsemi, nema slíkt sé boðið í lögum eða reglugerð settri skv. þeim.“ Þá segir í 2. gr. að „í öðrum tilvikum en greinir í 1. gr. skulu starfsmenn fyrirfram leita leyfis bankastjórnar til setu í stjórn eða varastjórn fyrirtækis.“ Einnig segir í 4. gr. að án leyfis bankastjórnar megi starfsmenn stefnda hvorki starfrækja atvinnurekstur né vera umboðsmenn annarra gagnvart stefnda.

III

Af því sem rakið er í atkvæði meirihlutans verður ráðið að grundvallarbreyting varð á rekstri Skólabrúar ehf. á árinu 2007 er félagið hóf umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem með framvirkum samningum um kaup á hlutabréfum. Var aðkoma áfrýjanda að málefnum Skólabrúar ehf. frá þeim tíma í brýnni andstöðu við þau lög og reglur sem giltu um starfsemi stefnda. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi vitað um fyrrgreindar reglur stefnda og að hann hafi ekki viljað að þessi starfsemi sín yrði kunnug stefnda, eins og má álykta meðal annars af endurriti símtals áfrýjanda við fyrirsvarsmann Virðingar hf. 31. janúar 2008. Voru því svör áfrýjanda til stefnda 23. mars og 2. apríl 2012 um ókunnugleika sinn í þessum efnum sannanlega fyrirsláttur sem og tilvísun hans til heimildar frá fyrrum yfirmanni sínum.

Samkvæmt gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi fyrst komist á snoðir um starfsemi Skólabrúar ehf. eftir að regluvörður stefnda ritaði áfrýjanda, sem fruminnherja, bréf 21. mars 2012 með fyrirspurn um félagið og tengsl hans við það. Voru svör áfrýjanda 23. mars og 2. apríl 2012 við þessari fyrirspurn fjarri því fullnægjandi. Þannig skýrði hann ekki frá gjaldeyriskaupum félagsins sem skiluðu því um 9.900.000 krónum í hagnað. Þá skýrði hann ekki frá því að félagið hafði gert framvirkan samning við Landsbanka Íslands hf. vegna kaupa á hlutum í Atlantic Petroleum P/F á fyrirfram ákveðnu verði í dönskum krónum. Einnig gerði áfrýjandi meira en rétt var úr þætti Sigtryggs Eyþórssonar við rekstur Skólabrúar ehf. en mun minna úr sínum þætti í starfsemi félagsins sem hann var í raun í fyrirsvari fyrir. Auk framanritaðs tiltók áfrýjandi í bréfi sínu 2. apríl 2012 að „engin raunverulegur rekstur hefur verið í félaginu frá 1992, aðeins sýslan með eignir og skuldir.“ Var það í samræmi við þessa fullyrðingu að áfrýjandi vísaði til framangreindrar 2. gr. reglna stefnda nr. 9.2.14, með ósk um heimild til áframhaldandi setu í stjórn Skólabrúar ehf.

Fallast má á að stefnda hefði á þessum tíma borið að hefja markvissa rannsókn á málefnum áfrýjanda í stað þess að bíða eftir niðurstöðu í dómsmálunum tveimur sem rakin eru í kafla II í atkvæði meirihlutans. Á hinn bóginn er ég ekki sammála meirihluta dómenda um að stefndi hafi með þessu sýnt af sér slíkt tómlæti að honum hafi ekki verið unnt án áminningar að beita þeim vanefndaúrræðum sem hann síðar beitti. Er þá einkum litið til þess að háttsemi áfrýjanda átti sér stað nokkrum árum áður, auk þess sem tafir á afgreiðslu stjórnsýslumáls valda að öllu jöfnu ekki ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Þá fól bréf bankastjóra stefnda 16. apríl 2012 eftir efni sínu einungis í sér neikvætt svar við beiðni áfrýjanda um setu í stjórn Skólabrúar ehf. Að þessu gættu verður fallist á forsendur héraðsdóms um að miða verði við að áfrýjandi hafi ekki með hliðsjón af atvikum öllum mátt gera ráð fyrir því að hann héldi starfi sínu hjá stefnda, eða telja framangreint svarbréf stefnda 16. apríl 2012 við erindi sínu vera endanlega niðurstöðu í lögboðinni athugun á brotum sínum.

Við þá rannsókn er hófst 28. júní 2013 gaf áfrýjandi áfram rangar upplýsingar, meðal annars í bréfi degi síðar, um að hann hefði aldrei haft aðgang að trúnaðarupplýsingum hjá stefnda sem hann hefði getað nýtt í verðbréfa-, gjaldeyris-, og afleiðuviðskiptum Skólabrúar ehf. Er þetta ekki í samræmi við lýsingar yfirmanna hans, sem raktar eru í héraðsdómi. Einnig skýrði áfrýjandi rangt frá um gjaldeyriskaup Skólabrúar ehf. um framvirka samninga félagsins og um þátt sinn í rekstri þess, sem var verulegur.  

Þegar litið er til atvika máls og hinna sérstöku laga og reglna er gilda um starfsemi stefnda, sem áfrýjandi gekkst undir í ráðningarsamningi sínum og vísað var til við meðferð málefna hans, verður ekki dregið í efa það mat stefnda að honum hafi borið að segja áfrýjanda upp störfum eigi síðar en þegar fyrir lágu með óyggjandi hætti upplýsingar um umfang og eðli brota áfrýjanda. Verður því eins og hér háttar til ekki talið að ákvæði laga nr. 70/1996 leiði til þess að stefndi hefði ekki mátt ganga lengra en að áminna áfrýjanda að lokinni rannsókn á málefnum hans. Tel ég að staðfesta eigi hinn áfrýjaða dóm með þessum athugasemdum en með vísan til forsendna hans að öðru leyti. Eftir þessum úrslitum tel ég einnig rétt að áfrýjanda verði gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2014.

        Mál þetta, sem dómtekið var 4. desember 2014, var höfðað með stefnu útgefinni 4. mars 2014 af Hallgrími Ólafssyni, Digranesheiði 28, 200 Kópavogi, á hendur Seðlabanka Íslands Kalkofnsvegi 1, 150 Reykjavík.

I.

        Stefnandi gerir þær dómkröfur:

  1. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 19.682.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. janúar 2014 til greiðsludags.
  2. Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað auk álags er nemi virðisaukaskatti, að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalmeðferð máls þessa, ef til hennar kemur.

        Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórkostlega.

        Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati réttarins.

        Í upphaflegri kröfugerð var stefnufjárhæð stefnanda 47.605.000 kr., en við upphaf aðalmeðferðar lýsti lögmaður stefnanda yfir lækkun stefnufjárhæðar í þá fjárhæð sem kemur fram hér að framan.

II.

Málsatvik

        Málavextir eru þeir að stefnandi hóf störf hjá Seðlabanka Íslands 1. desember 2000 í Alþjóða- og markaðsdeild bankans. Forstöðumaður deildarinnar, Ólafur Ísleifs­son, annaðist ráðningu stefnanda og gerði stefnandi honum grein fyrir því að hann gegndi starfi framkvæmdastjóra Skólabrúar ehf., eignar­halds­félags, væri stjórnarformaður félagsins, sem aðeins ætti fasteign og um væri að ræða eignaumsjón og útleigu. Stjórnarsetan og framkvæmdastjórastarfið væru ólaunuð og unnin utan vinnutíma í Seðlabankanum. Ólafur Ísleifsson gaf stefnanda í kjölfar ráðningar munnlegt leyfi til þess að koma að starfsemi félagsins.

        Haustið 2006 sameinuðust peningamálasvið og alþjóðasvið stefnda. Á þeim tíma hafði stefnandi ásamt öðrum starfsmönnum sviðsins með höndum það verkefni að skrá gengi og vexti, fylgjast með mörkuðum og hafa símasamband við svokallaða viðskiptavaka.

        Á árinu 2007 seldi Skólabrú ehf. fasteign sína í Pósthússtræti og notaði félagið söluandvirðið til þess að fara út í fjárfestingar, meðal annars á verðbréfamarkaði, með gjaldeyri og framvirka samninga um kaup á hlutabréfum. Stefnandi var þá framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og eigandi 30% hlutafjár í félaginu.

        Í október 2008 starfaði stefnandi við að svara fyrirspurnum sem bárust símleiðis og var nokkrum mánuðum síðar færður í starf er varðaði lánamál ríkisins. Þar sinnti stefnandi daglegri fyrirgreiðslu í formi verðbréfalána til aðalmiðlara með ríkisskuldabréf.

        Hinn 21. mars 2012 vakti Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur stefnda, athygli stefnanda á reglum stefnda nr. 9.2.14 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Hafði þá aðallögfræðingurinn komist að aðkomu stefnanda að félaginu Skólabrú ehf. en það gerðist við vinnslu hennar á fruminnherjalista bankans í kjölfar tilkynninga stefnda og staðfestingar og útfyllingar stefnanda er að því laut í desember 2011. Í tilkynningu stefnanda kom fram að Skólabrú ehf. væri fjárhagslega tengd honum og að hann væri stjórnarformaður félagsins. Stefnandi var síðan beðinn um að gera bankastjóra og regluverði grein fyrir félaginu og starfsemi þess. Stefnandi sendi aðallögfræðingi bankans tölvupóst 22. mars 2012 og gerði grein fyrir samskiptum við Ólaf Ísleifsson vegna málsins við ráðningu sína árið 2000. Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um 2. gr. reglu 9.2.14 fyrr en þá. Sama dag óskaði aðallögfræðingur bankans eftir því að stefnandi gerði frekari grein fyrir félaginu. Þar kom fram að Skólabrú ehf. hefði eftir sölu fasteignar félagsins að Pósthússtræti 17 farið út í fjárfestingar, m.a. á verðbréfamarkaði. Þá kom fram að félagið ætti í deilum við Slitastjórn Landsbankans og Verðbréfafyrirtækið Virðingu. Mál hafi verið höfðað gegn slitastjórninni og líklegt væri að bæði málin færu fyrir dómstóla.

        Í kjölfarið sótti stefnandi um leyfi til seðlabankastjóra til setu í stjórn félagsins þann 2. apríl 2012. Þeirri málaleitan hafnaði seðlabankastjóri með bréfi 16. apríl 2012 og lagði fyrir stefnanda að segja sig úr stjórn félagsins sem stefndi síðan gerði daginn eftir.

        Dómar gengu í tveimur dómsmálum Skólabrúar ehf., annars vegar gegn LBI hf. 14. febrúar 2013 og hins vegar gegn Virðingu ehf. 10. júní sama ár, sem báðir voru birtir opinberlega. Urðu dómar þessir tilefni þess að stefnandi var kallaður á fund seðlabankastjóra þann 28. júní 2013 og honum afhent bréf undirritað af seðlabankastjóra og regluverði bankans.

        Í bréfinu kemur fram að þann 10. júní 20013 hafi gengið dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu E-198/2012: Skólabrú ehf. gegn Virðingu hf. og dómurinn birtur á vefsíðu héraðsdómsins þann 26. júní sl. Í dóminum komi fram upplýsingar um aðkomu stefnanda að verðbréfa-, gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum Skólabrúar á árunum 2007 og 2008, sem framkvæmdastjóri Skólabrúar ehf. og jafnframt starfsmaður Seðlabanka Íslands á sama tíma. Vísað var síðan til 5. gr. reglna stefnda nr. 831/2002 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna. Þess var óskað af hálfu stefnda að stefnandi tæki sér tímabundið leyfi frá störfum á launum frá 28. júní 2013 á meðan athugað væri hvort stefnandi hefði gerst brotlegur í starfi við lög og starfsreglur stefnda. Síðan fór í gang rannsókn af hálfu stefnda á málinu og var m.a. aflað gagna frá utanaðkomandi aðilum sem stefnandi hafði veitt heimild til að afla gagna frá.

         Stefndi ritaði stefnanda bréf þann 8. október 2013 sem afhent var á fundi þann 10. október 2013 þar sem rökstutt var að ekki fengist betur séð en að stefnandi hefði brotið gróflega gegn 14. og 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem og gegn reglum Seðlabankans nr. 9.2.14 frá 18. júní 2011 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, sem settar voru með stoð í 2. mgr. 25. gr., sbr. 28. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Í bréfinu var tekið fram að til álita kæmi af hálfu stefnda að segja stefnanda upp störfum með vísan til þeirrar heimildar sem leiðir af 43. gr. laga nr. 70/1996, ráðningarsamningi stefnanda við stefnda, dags. 1. desember 2000, og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara. Stefnanda var síðan gefið færi á að gæta andmælaréttar síns áður en ákvörðun yrði tekin um uppsögn stefnanda. Var þess óskað að stefnandi sendi stefnda sjónarmið sín innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Hið ótímabundna leyfi stefnanda stóð allt til þess að honum var sagt upp störfum með bréfi bankastjóra 23. október 2013.

        Hinn 16. október 2013 færði lögmaður stefnanda fram andmæli fyrir hans hönd. Með bréfi stefnda 23. október 2013 var rökstudd afstaða tekin til andmælanna og þeim vísað á bug. Í sama bréfi var tilkynnt sú ákvörðun stefnda að segja stefnanda upp störfum. Í bréfi stefnda kemur fram að það sé mat stefnda að stefnandi hafi brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum í starfi sínu hjá stefnda og það væri niðurstaða stefnda að segja stefnanda upp störfum á grundvelli 43. gr. laga nr. 70/1999. Tekið var fram að stefnandi ætti sex mánaða uppsagnarfrest og myndu laun verða gerð upp miðað við 1. nóvember 2013 auk áunnins en ótekins orlofs sem og annarra kjarasamningsbundinna greiðslna. Þá var tekið fram að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á uppsagnarfresti.

        Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf dags. 19. desember 2013 þar sem því var

haldið fram að uppsögnin hefði verið ólögmæt að formi og efni. Var krafist skaða- og miskabóta úr hendi stefnda. Með bréfi stefnda til lögmanns stefnanda 9. janúar 2014 var öllum kröfum stefnanda hafnað. Í kjölfarið var mál þetta síðan höfðað af hálfu stefnanda.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

        Dómkrafa stefnanda felur í sér bætur sem nemi launum og öðrum réttindum þeim tengdum til 1. febrúar 2022. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. starfsmannalaga mátti hann því treysta á að hann héldi starfi sínu fram að næstu mánaðamótum eftir að hann næði 70 ára aldri en stefnandi verður 70 ára 7. janúar 2022.

        Kröfugerðin er við það miðuð að stefnanda beri bætur sem nemi eingreiðsluverðmæti launa til 1. febrúar 2022, en sú fjárhæð er núvirt og afvöxtuð skv. útreikningi Bjarna Guðmunds­son­ar tryggingarstærðfræðings, en í þeim útreikningi sé að auki gert ráð fyrir bótum vegna tapaðra framlaga til lífeyrissjóða. Þá sé í útreikningnum gert ráð fyrir dánarlíkum. Niðurstaða Bjarna Guðmundssonar sé að eingreiðsluverðmæti launa til 1. febrúar 2022 sé 47.605.000 kr.

        Til frádráttar þessari fjárhæð kemur fjárhæð launa skv. mati dómkvadds matsmanna, Friðriks Más Baldurssonar prófessors, á fjárhæð launa eins og matsbeiðandi muni geta aflað sér frá atvinnurekendum og bætur frá opinberum aðilum sem ætlað er að bæta launamissi frá 1. maí 2014 til 7. janúar 2022, núvirt miðað við 1. febrúar 2014, 27.923.000 kr. Mismunur þessara niðurstaðna er stefnufjárhæðin 19.682.000 kr.

         Loks er krafist miskabóta vegna framgöngu stefnda í garð stefnanda sem hann telur fela í sér ólögmæta meingerð gegn æru sinni og persónu. Fjárhæð miskabótakröfu styðst við dómafordæmi. Krafist er vaxta frá þeim degi er liðinn var einn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um bætur vegna uppsagnarinnar.

Dómkrafa stefnanda sundurliðast nánar svona:

         Laun                                                         kr.                           41.408.000-

         Framlög til lífeyrissjóða                        kr.                             3.197.000-

         Miskabætur                                             kr.                             3.000.000-

         Samtals                                                    kr.                           47.605.000-

        Stefnandi telur að brottrekstur hans sé ólögmætur og að með framgöngu sinni hafi stefndi brotið gegn stjórnsýslulögum og starfsmannalögum ásamt ýmsum ólögfestum reglum stjórn­sýslu­réttar. Stefnandi hafi sem starfsmaður stefnda án vafa notið stöðu almenns starfsmanns samkvæmt ákvæðum starfsmannalaga. Hann hafi því notið réttinda og borið skyldur í samræmi við I. hluta laga nr. 70/1996. Í lögunum sé kveðið á um það í 21. gr. að ef atvinnurekandi telur að starfs­maður hafi „sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofn­unar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.“ Í 44. gr. starfsmannalaga sé svo kveðið á eftirfarandi: „Skylt er að veita starfs­manni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfs­mönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar.“ Enginn vafi sé á því að af hálfu stefnda sé uppsögn stefnanda á því byggð að hann hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart atvinnu­rekanda sínum. Um þetta nægi að vísa til framsetningar stefnda í uppsagnarbréfi til stefnanda. Þegar svona standi á að mati atvinnurekanda beri að fella málsmeðferð í þann farveg sem áðurnefnd 44. gr. starfsmannalaga geri ráð fyrir. Þessa skyldu hafi stefndi hundsað. Málsmeðferðin sé því ólögmæt og standist ekki ákvæði starfsmannalaga. Fyrir liggi að auki að stefnandi hafði ekki áður hlotið áminningu þannig að þá grundvallarforsendu uppsagnar skorti.

        Þá byggir stefnandi á því að brottrekstur hans úr starfi frá stefnda sé ólögmætur með því að ekki hafi verið gætt reglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að stefnandi skyldi njóta andmælaréttar. Stefnandi telur að af ferli málsins og efni þeirra bréfa sem hér skipta máli, þ.e. bréfs stefnda frá 8. október 2013, andmælabréfsins og svo bréfs stefnda frá 23. október 2013, uppsagnarbréfsins, sé augljóst að andmælabréfið sé eingöngu sett fram til að láta líta svo út sem verið sé að gæta andmælaréttar. Bersýnilegt sé að þá þegar hefur verið afráðið að segja stefnanda upp störfum. Kjarni andmælaréttar stjórnsýslulaga sé rétturinn til að koma á framfæri athugasemdum á því stigi máls að stjórnvald geti í ljósi athugasemdanna tekið ákvörðun sína. And­mælaréttur sé ekki ætlaður til þess að stjórnvald geti þóst bera undir þann sem ákvörðun beinist að, það sem þegar hefur verið afráðið. Hitt sé svo enn verra að stefnandi átti þess aldrei kost að gæta andmælaréttar vegna þess að stefndi hafi í raun aldrei skilgreint nákvæmlega í hverju hin meintu trúnaðarbrot stefnanda eigi að vera fólgin. Ef manni borið á brýn að hafa gerst brotlegur við reglur eða, eins og í þessu tilviki, brotið af sér í starfi, verði að gera þá kröfu að hann njóti raunverulegs andmælaréttar og að stjórnvaldið skilgreini skýrlega í hverju brotið sé fólgið. Þá nægi ekki að vísa til almennra sjónarmiða um hugsan­lega óheppilega hagsmunaárekstra eða dylgja um meint trúnaðarbrot. Stjórnvaldið verði að kveða upp úr um það skýrt og skilmerkilega í hverju brotið sé fólgið. Að öðrum kosti sé andmælarétturinn gagnslaus og einungis veittur í orði en ekki á borði.

        Stefnandi byggir heimild sína til þess að segja stefnanda upp störfum á þeirri lögfestu stjórnunarheimild forstöðumanns í 43. gr. stml. að geta sagt starfsmanni upp störfum skv. heimild í ráðningarsamningi. Þessi réttur forstöðumanns (opinbers atvinnurekanda), sem feli í sér meðferð opinbers valds, sæti hins vegar mikilvægum takmörkunum skv. 44. gr. stml. svo og reglum stjórnsýslulaga og almennum reglum stjórnsýsluréttar. Dómaframkvæmd sé afdráttarlaus um þennan skilning sem og álit umboðsmanns Alþingis. Af þessu leiði m.a. að ef grundvöllur uppsagnar er brot starfsmanns á starfsskyldum hans eða að háttsemi hans er ósamrýmanleg starfi hans verði honum ekki sagt upp störfum nema að undangenginni áminningu, skv. 21. gr. stml. Fyrir liggur að stefnandi hafi ekki hlotið áminningu vegna starfa sinna fyrir stefnda. Uppsögn eða öllu heldur riftun stefnda á ráðningu stefnanda hafi því þegar af þessari ástæðu verið ólögmæt einsog ítrekað hefur verið staðfest í dómum Hæstaréttar.

        Stefnandi byggir á því að skilyrði þess að slíta ráðningarsamningi stefnanda með þeim hætti sem stefndi kaus hafi ekki verið til staðar. Skilmálum þeim sem þurfa að vera til staðar til þess að ljúka starfssambandi á grundvelli starfsmannalaga var ekki fullnægt. Í álitum umboðsmanns hefur ítrekað verið bent á að 21. gr. stml. geymi svo almenna tilvísun til einstakra brota að frekar eigi að fella tilvik undir greinina en ekki. Stefndi hafi því ekki sýnt fram á að uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda hafi byggst á lögmætum grundvelli.

        Á því er byggt af hálfu stefnanda að hann hafi í engu brotið gegn starfsskyldum sínum vegna starfa í þágu Skólabrúar ehf. Það er að mati stefnanda rangt að hann hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna yfirboðurum sínum um þessi aukastörf. Það liggi fyrir að stefnandi hafði feng­ið leyfi frá Ólafi Ísleifssyni til þess að gegna starfi framkvæmdarstjóra hjá félaginu. Síðar tilkomið mat stefnda að þau störf hafi verið ósamrýmanleg aðalstarfi hans og í andstöðu við 20. gr. stml. og reglur bankans geti ekki talist brott­rekstrarsök. Markmið 20. gr. stml. sé m.a. að koma í veg fyrir að upp komi hagsmuna­árekstrar í aðalstarfi vegna aukastarfs svo sem að koma í veg fyrir misnotkun á opinberu starfi, t.d. með því að upplýsingar séu hagnýttar á ólögmætan hátt og að aukastörf hafi að öðru leyti í för með sér brot á starfsskyldum starfsmanns. Engin þau tíðindi hafi orðið í rekstri Skóla­brú­ar ehf. frá því að stefnandi hóf störf hjá stefnda þar til gerð var athugasemd við aukastarf þetta í þágu Skólabrúar ehf. Sú athugasemd, sem hafi komið fram á útmánuðum 2012, hafi leitt til þess að stefndi hafnaði á þessum grundvelli ósk stefnanda um að sinna störfum í þágu félagsins 16. apríl 2012. Þá hafði stefnandi sinnt störfum í þágu Skólabrúar ehf. í aukastarfi um nær tólf ára skeið að fengnu leyfi Ólafs Ísleifssonar í öndverðu. Stefnandi verði ekki dreginn til ábyrgðar fyrir það ef misfarist hefur af hálfu stefnda að halda því leyfi til haga og upplýs­ing­um um starf stefnanda. Af ákvæðum 23. gr. þágildandi upplýsingalaga nr. 50/1996, leiddi að stefnda bar að sjá til þess að þessar upplýsingar væru skráðar, enda um að ræða ákvörðun um réttindi og skyldur stefnanda, sbr. 2. mgr. l. gr. stjórnsýslulaga. Gat stefnandi þannig ekki gert ráð fyrir öðru en að stefnda ætti að vera fullkunnugt um aukastörf hans og síst grundvallar það brott­rekstrarsök stefnanda hafi sú skráning farið úrskeiðis hjá stefnda.

        Ákvörðun stefnda um að taka framangreint mál upp að nýju í júnílok 2013, eða 14 mánuðum síðar, er því illskiljanleg þar sem engin skilyrði stóðu til þess. Ljóst sé að stefnandi gat ekki reiknað með öðru en að stefnda hefði verið kunnugt um starfsemi Skólabrúar ehf. í apríl 2012, sem m.a. fólst í verðbréfaviðskiptum og enn fremur um fyrirhuguð málaferli félagsins, eins og ráða megi af minnisblaði aðallögfræðings stefnda til seðlabankastjóra 10. apríl 2012 og ákvörðun stefnda um að banna stefnanda að sinna nefndu aukastarfi. Þau viðbrögð stefnda að rifta ráðningu stefnanda voru þannig ekki á nokkurn hátt í samræmi við rannsóknarskyldu hans og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Auk þess hafi hún brotið gegn afdráttarlausum fyrirmælum 1. mgr. 44. gr. starfsmannalaga sem áður greinir. Jafnframt er á því byggt að ákvörðun stefnda um að rifta ráðningu stefnanda hafi byggst á sama grundvelli og stefndi byggði á er hann bannaði stefnanda að sinna umræddu aukastarfi í apríl 2012. Engar málefnalegar ástæður hafa verið færðar fyrir því að stefndi hafi ákveðið að endurmeta algerlega á ný þýðingu nefndra aukastarfa fyrir störf stefnanda í þágu stefnda. Viðbrögð stefnda voru því ekki fyrirsjáanleg og stefnandi hafði ekki ástæðu til að búast við því að ráðningarsamningi hans yrði slitið 14 mánuðum síðar.

        Stefnandi var frá því að hann hóf störf hjá stefnda framkvæmdastjóri Skólabrúar ehf. til 28. desember 2009 er starf framkvæmdastjóra var lagt niður og hann tók við sem stjórnarformaður félagsins. Stefnandi sagði sig úr stjórn 16. apríl 2012 samkvæmt kröfu seðlabankastjóra. Í byrjun var Skólabrú ehf. skuldsett félag og eignir þess bundnar í lausafjármunum og starfandi veitingastað sem var í útleigu. Síðar eignaðist félagið hálfa fasteign. Um mitt ár 2007 hafi eignir Skólabrúar ehf. verið seldar fyrir reiðufé. Það reiðufé var notað til fjárfestinga á verðbréfamarkaði. Stjórnarformaður, Sigtryggur Eyþórsson, hafi séð um samskipti við verðbréfamiðlara enda vanur slíku og skilgreindur sem fagfjárfestir. Stefnandi sá um bókhald og hélt utan um stöðu eigna. Náin samvinna hafi verið milli aðila um fjárfestingar. Ekki verði séð að eðli félagsins hafi í neinu breyst á miðju ári 2007 og fráleitt að halda því fram að það hafi orðið að verðbréfafyrirtæki. Stefnandi hafi að auki sem starfsmaður Seðlabanka engan aðgang haft að markaðsupplýsingum umfram almenning, hvað þá að hann byggi yfir innherjaupplýsingum.

        Stefnandi byggir á því að rannsóknarregla stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórn­sýslu­laga, hafi verið brotin af stefnda við umfjöllun um málefni stefnanda. Stefnandi hafi margoft á fyrri stigum gert grein fyrir því að hann hafi, er hann var ráðinn til starfa hjá stefnanda í árslok 2000, látið vita af aðkomu sinni að Skólabrú ehf. Augljóst sé af uppsagnarbréfinu frá 23. október að af hálfu stefnda hafi enn engin rannsókn farið fram um þetta atriði. Vísun uppsagnarbréfsins til þess að stefndi fái fyrst með andmælabréfi stefnanda frá 16. október vitneskju frá Ólafi Ísleifssyni um samskipti þeirra við upphaf ráðningar sé fjarstæðukennd auk þess sem það sé ekki á ábyrgð stefnanda eins og áður var rakið. Annað tveggja hafi brugðist hjá stefnda; rétt varsla upplýsinga eða skyldan til að sinna rannsókn málsins en sú skylda hvíli á stefnda en ekki á stefnanda.

        Með synjunarbréfi bankastjóra frá 16. apríl 2012 vegna óskar stefnanda um formlegt leyfi til að koma að starfsemi Skólabrúar ehf. og kröfu bankans um afsögn stefnanda úr stjórn félagsins sem hann varð strax við, hafi því máli verið endanlega lokið. Stefndi geti ekki síðar tekið það mál upp að nýju og talið það geta haft áhrif á stöðu stefnanda. Til að svo mætti vera yrðu að hafa komið fram nýjar og afgerandi upplýsingar um brot eða óráðvendni af hálfu stefnanda. Engin slík atvik hafi verið tilgreind eða nefnd af hálfu stefnda.

        Með bréfi stefnda til stefnanda 23. október 2012 hafi honum verið sagt upp störfum á grundvelli þess sem nefnt sé gróf brot gegn trúnaðarskyldum í starfi. Af hálfu stefnda sé með uppsögn­inni ekki aðeins brotið gegn áðurnefndum reglum stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu stjórnvalds og andmælarétt heldur sé einnig freklega brotið gegn málsmeðferðarreglum starfsmannalaga. Þrátt fyrir að málið varði uppsögn vegna meintra brota í starfi sé málið ekki lagt í þann farveg sem lögin geri ráð fyrir heldur byggt á einfaldri uppsagnarheimild með uppsagnarfresti. Með þessu brjóti stefndi gegn starfsmannalögum og leitist við að komast undan því að fella mál í viðeigandi farveg í þeim tilgangi að svipta starfsmann sinn rétti til að njóta þeirrar málsmeðferðar sem lögin geri ráð fyrir. Með þessu hafi stjórnendur bankans misfarið með opinbert vald sem þeim hafi verið treyst fyrir.

        Varðandi lagarök vísar stefndi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til starfs­manna­laga nr. 70/1996 og til almennra reglna stjórnsýslu- og starfsmannaréttar. Um greið­slu­skyldu stefnda vísast til meginreglna skaðabótaréttar og vinnuréttar um réttar efndir ótíma­bundinna ráðning­ar­samn­inga. Um miskabætur vísast til 26. gr. laga nr. 50/1993. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjast við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa er byggð á 130. gr. laga um með¬ferð einkamála í héraði. Krafa um virðisaukaskatt á málflutnings­þókn­un styðst við lög nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnda

        Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að uppsögn stefnanda hafi í einu og öllu, að formi og efni, verið lögum samkvæmt og að stefndi hafi í engu brotið gegn „stjórnsýslulögum og starfsmannalögum og ýmsum ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar“ líkt og stefnandi haldi fram.

        Stefndi hafnar því að fara hafi þurft með mál stefnanda eftir farvegi 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á þann veg að áminna hafi þurft stefnanda áður en honum var sagt upp. Í fyrsta lagi hafi sú leið ekki verið tæk þar sem hin brotlega háttsemi stefnanda var fyrir löngu um garð gengin þegar stefnda varð um hana kunnugt og því hafi sú leið að áminna og gefa starfsmanninum „færi á að bæta ráð sitt“, eins og lagaákvæðið áskilur, engan veginn átt við í tilviki stefnanda. Í öðru lagi sé rétt að hafa í huga í þessu sambandi að stefndi sé opinber stofnun sérstaks eðlis og starfi m.a. á sviðum einkaréttar þar sem gæta verði sérstaklega að trúnaði. Vegna þessa eigi það einstaklega illa við að starfsmönnum sé gefinn kostur á „að bæta ráð sitt“ þegar undir eru þær trúnaðarskyldur sem á þeim hvíla. Í þriðja lagi hafi sjálfstæða heimild til uppsagnar í tilviki stefnanda, og í ljósi atvika og grófra brota stefnanda, leitt af 43. gr. laga nr. 70/1996, ráðningarsamningi, dags. 1. desember 2000, og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara. Þegar á þeim grundvelli hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum líkt og gert hafi verið að gættum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

        Þá sé því haldið fram af hálfu stefnanda að brotinn hafi verið andmælaréttur á honum í aðdraganda uppsagnarinnar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessu hafnar stefndi alfarið enda hafi stefnanda verið veittur skýr andmælaréttur með bréfi stefnda til stefnanda 8. október 2013 sem stefnandi hafi nýtt sér, sbr. bréf lögmanns hans 16. október 2013. Þá vísar stefndi á bug staðhæfingum stefnanda um að andmælabréfið hafi eingöngu verið sett fram til að „láta virðast“ sem gætt hafi verið andmælaréttar, að búið hafi verið að ákveða niðurstöðuna fyrir fram, eða að stefndi hafi „þóst“ vera að bera undir stefnanda það sem þegar hefði verið afráðið. Eins og bréf stefnda beri með sér sé þar rakið skýrlega hvað stefnanda sé borið á brýn og jafnframt tekið fram að „til álita“ komi að segja stefnanda upp störfum. Staðhæfingum um að stefndi hafi ekki skilgreint nákvæmlega í bréfinu 8. október 2013 í hverju hin meintu trúnaðarbrot fólust sé enn fremur hafnað enda séu þau atriði skilmerkilega tilgreind í bréfinu og vísað til viðeigandi réttarheimilda.

        Þá sé á því byggt af hálfu stefnanda í stefnu að hann hafi í engu brotið gegn starfsskyldum sínum vegna starfa í þágu Skólabrúar ehf. Þessu hafnar stefndi og telur að stefnandi hafi gerst brotlegur í starfi, eins og rakið hafi verið í uppsagnarbréfi hans. Þau brot hafi falist í því að hafa ekki, þegar grundvallarbreyting varð á starfsemi Skólabrúar ehf. á árinu 2007 við sölu fasteignar félagsins, sótt um leyfi til að koma að þeirri starfsemi félagsins sem það hafði þá með höndum. Á þeim tíma hafi félagið, eins og gögn málsins beri með sér, farið út í umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum, sem hafi verið algerlega ósamþýðanleg störfum stefnanda fyrir stefnda. Við þær aðstæður hafi hvílt á stefnanda sjálfstæð skylda, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og reglur nr. 9.2.14 frá 18. júní 2001 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, og grunnrök þeirra ákvæða, til að leita eftir heimild stefnda til að koma að þessari starfsemi. Slíkri beiðni hefði umsvifalaust verið synjað af hálfu stefnda líkt og varð raunin þegar stefnandi seint og síðar meir, 2. apríl 2012, hafi óskað eftir slíkri heimild að undangenginni ábendingu til stefnanda þar að lútandi í tölvupósti aðallögfræðings stefnda til stefnanda 21. mars 2012. Hafa verði í huga í þessu sambandi að ef talið verði að Ólafur Ísleifsson hafi árið 2000 veitt stefnanda leyfi til aðkomu að starfsemi Skólabúar ehf. þá hafi það leyfi, af tölvupósti að dæma, aðeins verið veitt á þeim forsendum að Skólabrú ehf. hefði einvörðungu með höndum eignaumsjón og útleigu, ekki annað, og alls ekki umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum

        Í reglum nr. 9.2.14 segi í 1. lið að bankastjórn megi ekki í neinum tilvikum veita starfsmönnum leyfi til að taka sæti í stjórn eða varastjórn fyrirtækja eða stofnana, sem starfa fyrst og fremst á sviði fjármálastarfsemi, verðbréfaviðskipta, verðbréfasjóða, eignarleigustarfsemi eða fyrirtækja sem hafa að markmiði starfsemi sem jafna má til slíkrar fjármála­starfsemi, nema slíkt sé boðið í lögum eða reglugerð settri samkvæmt þeim. Þá segir í 2. lið að í öðrum tilvikum en greini í 1. lið skuli starfsmenn fyrir fram leita leyfis bankastjórnar til setu í stjórn eða varastjórn fyrirtækis. Loks segi í 4. lið að starfsmenn megi ekki án leyfis bankastjórnar starfrækja atvinnurekstur, en fyrir liggi af ársreikningum Skólabrúar ehf. að stefnandi átti og eigi enn 30% hlutafjár í Skólabrú ehf. Reglur þessar hafi, eins og áður segir, verið settar með stoð í 2. mgr. 25. gr., sbr. 28. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Þá leiði af 20. gr. laga nr. 70/1996 að ríkisstarfsmanni er óheimilt að hafa með höndum aukastörf sem ósamrýmanleg eru störfum ríkisstarfsmannsins. Átti það við um aðkomu stefnanda að rekstri Skólabrúar ehf. á árinu 2007 og síðar.

       Ljóst sé að stefnandi hafi með grófum hætti brotið gegn þessum reglum og grunnviðmiðum þeim er bjuggu þeim að baki en verndarhagsmunir þessara reglna séu mikilvægir og liður í því að skapa traust á stefnda sem seðlabanka og forða því að upp komi hætta á hagsmunaárekstrum, misnotkun trúnaðarupplýsinga o.s.frv. 

        Stefndi byggir á því að aðkoma stefnanda að starfsemi Skólabrúar ehf. og þau viðskipti sem það félag hafði með höndum feli í sér alvarlegt brot gegn 14. gr. laga nr. 70/1996 þar sem m.a. er mælt fyrir um að ríkisstarfsmaður skuli forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem varpað geti rýrð á það starf eða starfsgrein sem hann vinnur við. Þannig hafi aðkoma stefnanda að þeirri starfsemi sem að framan greinir engan veginn farið saman við starf stefnanda hjá stefnda. Ljóst sé enn fremur af gögnum málsins, t.d. símtali við Friðjón Þórðarson starfsmann Virðingar ehf. 31. janúar 2008, að þetta hafi stefnandi verið fullkomlega meðvitaður um.

        Þá sé því haldið fram í stefnu að það hafi ekki verið í samræmi við lög að taka mál stefnanda til nánari skoðunar 14 mánuðum eftir að stefndi neitaði að heimila stefnanda aðkomu að Skólabrú ehf. Stefndi hafnar þessu og telur að sú staðreynd að ekki var gripið til uppsagnar strax í apríl 2012 geti ekki valdið því að stefndi hafi að lögum misst uppsagnarrétt við það á síðari stigum. Við bætist að stefnandi hafi aldrei upplýst stefnda um grundvallarbreytingar á umfangi og eðli umsvifa Skólabúar ehf., eins og áður er rakið, þrátt fyrir að tilefni væri til, heldur hafi stefndi komist að þessu með öðrum hætti. Þá sé ljóst að mun ítarlegri upplýsingar um alla aðkomu stefnanda að Skólabrú ehf., viðskipti félagsins, umfang þeirra og samskipti við Virðingu hf. og Landsbanka Íslands hf. hafi komið fram í dómum sem féllu á árinu 2013; annars vegar dómi Hæstaréttar Íslands þann 14. febrúar 2013, og hins vegar í dómi héraðsdóms þann 10. júní 2013, en þeir dómar hafi verið birtir opinberlega. Að gengnum þeim dómum hafi verið gripið til þess ráðs af hálfu stefnda, sem honum hafi verið fullkomlega heimilt, að rannsaka nánar aðkomu stefnanda að starfsemi Skólabrúar ehf. og starfsemina sjálfa sem hafi lokið með þeirri niðurstöðu að stefnanda var sagt upp störfum 23. október 2013.

        Loks sé því haldið fram af hálfu stefnanda að mál hans hafi ekki verið rannsakað nægjanlega með tilliti til 10. gr. stjórnsýslulaga. Þessu vísar stefndi alfarið á bug. Málið hafi verið ítarlega rannsakað eins og framlögð gögn með greinargerð stefnda, sem séu afsprengi rannsóknar stefnda, staðfesti.

        Stefndi byggir á því að uppsögn stefnanda hafi í einu og öllu verið lögmæt að formi og efni til. Þegar af þeirri ástæðu verði að sýkna stefnda af bótakröfum stefnanda.

        Þá er því sjálfstætt hafnað, hvað sem framangreindu líði, að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni af völdum uppsagnarinnar. Enn fremur er því vísað á bug að framganga stefnda hafi falið í sér ólögmæta meingerð í garð stefnanda, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, svo að skilyrði til greiðslu miskabóta séu fyrir hendi. Beri því af þessum ástæðum einnig að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

      Stefndi krefst þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórkostlega. Ljóst sé að fjárhæð kröfu stefnanda vegna meints fjártjóns af völdum uppsagnarinnar sé fráleit og ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd. Verður meðal annars að horfa til þess að samkvæmt ráðningarsamningi aðila hafi gagnkvæmur uppsagnarfrestur verið þrír mánuðir en stefnandi hafi fengið laun í sex mánuði frá uppsögn. Þann tíma hafi hann enn fremur getað nýtt til að afla sér annarrar atvinnu enda hafi stefndi afþakkað vinnuframlag frá stefnanda á uppsagnarfresti. Með því hefði tjón hans ekkert orðið eða a.m.k. stórkostlega minna, en samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar hafi stefnanda borið að gera allt sem í hans valdi stóð til að takmarka tjón sitt. Ekkert bendir til annars en að stefnandi hafi getað og geti fengið vinnu við hæfi en hann sé menntaður viðskiptafræðingur frá HÍ, hann hafi útskrifast 1977, lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og búi á höfuðborgarsvæðinu. Þá verður við ákvörðun bóta að taka tillit til atvinnuleysisbóta sem stefnandi eigi rétt á fái hann ekki vinnu.

        Þá vísar stefndi til þess að í dómaframkvæmd við aðstæður sem þessar hafi bætur verið metnar að álitum og þá stórkostlega miklu lægri og miðað við margfalt skemmri tíma en kröfugerð stefnanda geri ráð fyrir. Hafi þá í mesta lagi verið greiddar bætur sem nema nokkurra mánaða launum umfram uppsagnarfrest. Útreikningi Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings, sem stefnandi hefur lagt fram, er mótmælt, og forsendum hans, bæði hvað varðar laun og framlög til lífeyrissjóða, sem og sönnunargildi hans í málinu, en útreiknings þessa var aflað einhliða af hálfu stefnanda án aðkomu stefnda.

        Þá er miskabótakröfu andmælt bæði á þeim grundvelli að engin lagaskilyrði séu til hennar sem og að fjárhæð hennar fái með engu móti staðist. Verði í versta falli að lækka hana stórkostlega. 

        Þá er dráttarvaxtakröfu mótmælt, sem og upphafstíma hennar. Engin þau gögn liggi fyrir í málinu sem nægi til að taka afstöðu til talnalegra þátta kröfugerðar stefnanda. Að minnsta kosti hafi sá útreikningur sem stefnandi byggir kröfugerð sína á ekki legið fyrir fyrr en 14. mars 2014. Dráttarvextir geti að mati stefnda aldrei fallið á kröfu stefnanda, ef einhver telst, á fyrri tíma en frá dómsuppsögudegi.

         Loks er málskostnaðarkröfu stefnanda andmælt.   

         Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Niðurstaða

        Stefnandi byggir á því að brottrekstur hans úr starfi hjá stefnda þann 23. október 2013 hafi verið ólögmætur og stefndi hafi við meðferð málsins brotið gegn stjórnsýslulögum, starfsmannalögum og ýmsum ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar. Stefndi byggir á því að uppsögn stefnanda hafi í einu og öllu verið lögmæt að formi og efni til, stefnandi hafi brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum sínum í starfi og þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af bótakröfum stefnanda.

        Stefnandi gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Jafnframt gáfu vitnaskýrslu starfsmenn stefnda og dómkvaddur matsmaður staðfesti matsgerð sína. Vikið verður að framburði vitna eftir því sem máli kann að skipta varðandi sönnunarfærslu í málinu.

        Óumdeilt er að um starfs- og ráðningarkjör stefnanda skyldi fara að lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í ráðningarsamningi stefnanda er tekið fram að um launa- og starfskjör svo og réttindi og skyldur fari eftir kjarasamningi og ákvæðum laga og reglna fyrir starfsmenn Seðlabanka Íslands. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skal starfsmaður áður en hann hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar skýra því stjórnvaldi, er veitti starfið, frá því. Innan tveggja vikna skal starfsmanni skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg starfi hans og honum bannað að hafa hana með höndum.

        Þá segir í 14. gr. sömu laga að starfsmanni sé skylt að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna og hann skuli forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem sé honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað geti rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.

        Í reglum Seðlabanka Íslands nr. 9.2.14 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, sem settar voru með hliðsjón af ákvæðum 25. gr., sbr. m-lið 28. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, segir í lið 1 að bankastjórnin veiti starfsmönnum ekki í neinum tilvikum leyfi til þess að taka sæti í stjórn eða varastjórn fyrirtækja eða stofnana, sem starfi fyrst og fremst á sviði fjármálastarfsemi, verðbréfaviðskipta, verðbréfasjóða, eignarleigustarfsemi eða fyrirtækja sem hafi að markmiði starfsemi sem jafna megi til slíkrar fjármálastarfsemi, nema slíkt sé boðið í lögum eða reglugerð settri skv. þeim. Í 2. lið segir að í öðrum tilvikum en greinir í 1. lið skuli starfsmenn fyrir fram leita leyfis bankastjórnar til setu í stjórn eða varastjórn fyrirtækis. Loks segir í 4. lið að starfsmenn Seðlabanka Íslands megi ekki, án leyfis bankastjórnar, starfrækja atvinnurekstur né vera umboðsmenn annarra gagnvart bankanum.

        Í reglum Seðlabanka Íslands nr. 831/2002 um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna eru ítarleg ákvæði og er tilgangur reglnanna að tryggja að meðferð trúnaðarupplýsinga í Seðlabanka Íslands sé í samræmi við lög og reglur sem gildi á verðbréfamarkaði og ákvæði 1. og 2. mgr. 35. gr. laga um bankann nr. 36/2001.

        Í 4. gr. reglnanna er getið helstu trúnaðarupplýsinga sem geti legið fyrir í Seðlabankanum, þ.e. vitneskja um vaxtabreytingar, vitneskja um breytingar á gengi gjaldmiðla, vitneskja um málefni einstakra fjármálastofnana og vitneskja um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum.

        Í 5. gr. reglnanna segir síðan að starfsmönnum bankans sé óheimilt að eiga sjálfir viðskipti fyrir sig eða aðra eða hvetja til viðskipta með verðbréf og gjaldeyri búi þeir yfir eða hafi aðgang að trúnaðarupplýsingum sem líklegar séu til þess að hafa áhrif á markaðsverð þeirra. Síðan segir að bann þetta þýði að starfsmenn Seðlabankans megi ekki kaupa, selja eða hvetja til kaupa eða sölu verðbréfa eða gjaldeyris, hvort sem er fyrir eigin reikning eða þriðja manns (t.d. fjölskyldu eða vina), þegar hlutaðeigandi starfsmenn búi yfir trúnaðarupplýsingum.

        Stefnandi byggir á því að hann hafi sem starfsmaður stefnda engan aðgang haft að markaðsupplýsingum umfram almenning, hvað þá að hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum. Þá hafi hann, þegar hann hóf störf í Alþjóða- og markaðsdeild stefnda í október 2000, gert forstöðumanni deildarinnar grein fyrir því að hann gegndi starfi framkvæmdastjóra Skólabrúar ehf. og væri stjórnarformaður. Hann hafi gert Ólafi grein fyrir starfsemi Skólabrúar ehf. sem væri eignaumsjón og útleiga fasteignar í eigu félagsins. Ólafur Ísleifsson gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð og staðfesti að stefnandi hefði greint sér frá því að stefnandi ætti í félaginu og það hafi starfsmenn á alþjóðasviði vitað. Ólafur kvað stefnanda ekki hafa óskað formlega eftir leyfi til að sinna þessum störfum samhliða starfi sínu hjá stefnda, ef svo hefði verið, þá hefði hann borið það undir lögfræðinga stefnda. Ef sér hefði verið kunnugt um að félagið væri í viðskiptum með fjármálagernina, gjaldeyri og verðbréf hefði hann ekki leyft það og borið það undir lögfræðinga bankans.

        Starfsmenn stefnda, sem unnu með stefnanda og gáfu vitnaskýrslur við aðalmeðferð, báru allir að stefnandi hefði haft aðgang að trúnaðarupplýsingum sem engan veginn hafi getað samrýmst því að hann væri jafnframt framkvæmdastjóri félags eins og Skólabrúar ehf., sem hafi verið í umfangsmiklum fjárfestingum með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum.

       Gerður Ísberg, aðstoðarframkvæmdastjóri á alþjóðamarkaðssviði Seðlabanka Íslands, lýsti í vitnaskýrslu sinni því að haustið 2006, þegar peningamálasvið og alþjóðasvið stefnda voru sameinuð, hafi stefnandi verið í því að skrá gengi og vexti og fylgjast með mörkuðum, hafa samband við viðskiptavaka og svo framvegis. Stefnandi hafi haft aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þau hafi haft og verið í samskiptum við viðskiptavaka. Deildin hafi verið í litlu rými og stefnandi hafi tekið þátt í innandeildarumræðu um gengi og gjaldeyrismarkað. Í október 2008 hafi stefnandi verið settur í sérverkefni og síðan í lánamálin, en hann hafi áfram verið í þessu opna rými og getað fylgst með umræðum. Þarna hafi verið á ferðinni miklar og viðkvæmar trúnaðarupplýsingar. Vitnið kvaðst hafa vitað að stefnandi ætti hluta í fasteign sem hafi verið í útleigu, en ekki hafa vitað um söluna á henni fyrr en dómur gekk í máli Skólabrúar ehf. gegn Virðingu hf. Í tölvupósti vitnisins, dags. 9. júlí 2013, til Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings stefnda, sem vitnið staðfesti fyrir dómi, kemur fram að Sigtryggur, sem starfað hafi með stefnanda í Skólabrú ehf. hafi hringt nánast daglega í stefnanda.

        Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar stefnda, lýsti í vitnaskýrslu sinni með sama hætti og Gerður aðgangi stefnanda að trúnaðarupplýsingum. Vitnið kvaðst hafa verið yfirmaður stefnanda 2007 – 2008. Verkefni peningamála- og alþjóðasviðs hafi verið að sjá um erlend bankaviðskipti ríkissjóðs við bankakerfið og hafa umsjón með gjaldeyrismarkaði og peningamarkaði. Stefnandi hafi gegnt mismunandi verkefnum í þessari vinnu sem hafi verið að skrá vexti, halda utan um gjaldeyrismarkað og hafa samband við viðskiptavaka, en þeir annist kaup- og sölutilboð á gjaldeyri og hafi einkarétt á viðskiptum með íslenskar krónur. Þarna hafi verið um miklar trúnaðarupplýsingar að ræða sem ekki væru veittar öðrum en starfsmönnum stefnda. Mikið upplýsingaflæði hafi verið á sviðinu og hafi stefnandi haft aðgang að öllum þessum upplýsingum. Vitnið kvaðst hafa vitað að stefnandi ætti hlut í fasteign í gegnum félag, en ekki hafa vitað af sölu fasteignarinnar fyrr en dómur í Virðingarmáli hafi gengið í héraðsdómi sumarið 2013 og birtur var opinberlega á vefsíðu dómstólsins. Þar hafi komið fram virk þátttaka stefnanda í virkum viðskiptum á gjaldeyris- og skuldabréfamarkaði og hann hafi því sent dóminn til lögfræðings bankans þar sem slæmt væri fyrir orðspor stefnda að upplýst væri um starfsmann bankans í sambandi við markaðsaðila.

        Björgvin Sighvatsson, hagfræðingur og forstöðumaður lánamála ríkisins, gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð. Vitnið kvað stefnanda hafa verið undirmann sinn frá árinu 2009. Stefnandi hafi haft aðgang að ýmsum trúnaðarupplýsingum og mörg viðkvæm mál verið í umferð. Vitnið kvað sér hafa verið kunnugt um einhver tengsl stefnanda við Skólabrú ehf., en hann hafi ekki vitað annað en að um væri að ræða eignaumsjón og útleigu á fasteign. Það hafi því komið sér sem næsta yfirmanni stefnanda í opna skjöldu þegar hann fékk að vita að félagið stundaði starfsemi með fjármálagerninga. Þá hafi stefnandi ekki sagt sér frá því að félagið stæði í málaferlum við tvö fjármálafyrirtæki og það væri mikill trúnaðarbrestur, vitnið yrði að geta treyst starfsmönnum sínum 100% og fordæmi stefnanda hafi ekki getað gengið upp. Meðal annars hafi Skólabrú ehf., í viðskiptum við Landsbankann í ágúst 2008, gert framvirkan hlutafjársamning um kaup í fyrirtækinu Atlantic petrolium, samningurinn hafi verið í dönskum krónum og sett hafi verið að handveði innistæða á evrugjaldeyrisreikningi. Á sama tíma hafi stefnandi verið að vinna á gjaldeyrisborði stefnda sem sé ótrúlegt. Því hafi stefnandi brotið gróflega trúnað gagnvart sér sem næsta yfirmanni sínum.

        Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur stefnda, gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð og kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um tengsl stefnanda við Skólabrú ehf. er hún vann að gerð lista yfir fruminnherja í mars 2012. Vitnið hafi með tölvupósti 21. mars 2012 bent stefnanda á reglur 9.2.14 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja. Í tölvupósti 23. mars 2012 hafi stefnandi gert grein fyrir aðkomu sinni að Skólabrú ehf. og starfsemi félagsins. Beiðni stefnanda um setu í stjórn Skólabrúar ehf. hafi síðan verði hafnað með bréfi bankastjóra 16. apríl sama ár og stefnandi sagt sig úr stjórninni daginn eftir. Þá hafi verið litið svo á að þessu máli hafi verið lokið án þess þó að stefnanda væri tilkynnt það. Í júní 2013 hafi í kjölfar héraðsdóms í máli Skólabrúar ehf. gegn Virðingu hf. komið í ljós að stefnandi hafi ekki, í tölvupósti frá 23. mars 2012, skýrt rétt frá starfsemi Skólabrúar ehf. og störfum sínum fyrir félagið samhliða starfi sínu hjá stefnda. Sér og samstarfsmönnum hafi verið brugðið og ekki dottið í hug að starfsmaður myndi haga sér með þessum hætti, trúnaðarbresturinn væri slíkur að ekki væri grundvöllur fyrir því að hann héldi áfram störfum hjá stefnda. Stefnandi hafi verið leystur frá störfum meðan rannsókn hafi farið fram. Rannsóknin hafi leitt í ljós að sagan hafi ekki verið sögð öll í mars 2012, viðskipti Skólabrúar ehf. hafi verið mun umfangsmeiri og trúnaðarbrestur væri svo alvarlegur að ekki væri hægt að fela stefnanda annað starf í bankanum. Ekki hefði verið hægt að beita áminningu vegna fimm ára gamals máls, það hefði ekki haft neina þýðingu. Ákveðnar reglur gildi um starfsmenn stefnda og vegna sérstöðu sinnar verði stefndi að gæta að orðspori sínu brjóti starfsmenn gegn þeim reglum.

        Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að grundvallarbreyting varð á starfsemi Skólabrúar ehf. er félagið seldi hlut sinn í fasteign félagsins árið 2007. Áður hafi starfsemin að mestu verið fólgin í eignaumsjón og útleigu húsnæðis og skv. framburði Ólafs Ísleifssonar, framkvæmdastjóra alþjóðasviðs, sem gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð, var það ástæðan fyrir því að hann gerði ekki athugasemd við tengsl stefnanda við félagið er stefnandi var ráðinn í desember árið 2000. Vitnið kvaðst hins vegar myndi hafa borið það undir lögfræðinga stefnda hefði sér verið kunnugt um að Skólabrú ehf. væri í viðskiptum með fjármálagerninga, gjaldeyri og verðbréf.

        Eftir sölu Skólabrúar ehf. á hlut sínum í fasteign fór félagið út í umfangsmiklar fjárfestingar með gjaldeyri, verðbréf og aðra fjármálagerninga, svo sem framvirka samninga um kaup á hlutabréfum. Viðskipti félagsins við Virðingu hf. og LBI hf., áður Landsbanka Íslands hf., svo og aðkoma stefnanda að þeim viðskiptum, eru rakin í dómum sem féllu ár árinu 2013, annars vegar dómi Hæstaréttar Íslands frá 14. febrúar 2013 nr. 30/2013, Skólabrú ehf. gegn LBI hf. og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2013 í málinu nr. 198/2012, Skólabrú ehf. gegn Virðingu hf.

        Í kjölfar þessara dóma og þess að upplýst var um aðkomu stefnanda að þeim viðskiptum sem þar voru rakin var af hálfu stefnda óskað eftir því að stefnandi tæki sér tímabundið leyfi frá störfum á launum frá 28. júní 2013 á meðan athugað væri hvort hann hefði gerst brotlegur í starfi við lög og starfsreglur stefnda.

        Við yfirferð á því sem fram kemur í fyrrgreindum héraðsdómi og skýringum stefnanda í tölvupósti til aðallögfræðings stefnda þann 23 mars 2012 liggur fyrir að stefnandi hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir starfsemi Skólabrúar ehf. og aðkomu sinni að viðskiptum félagsins í fyrrgreindum tölvupósti. Í rannsókn, sem fram fór af hálfu stefnda á starfsemi Skólabrúar ehf. og aðkomu stefnanda að starfseminni eftir að þessir dómar lágu fyrir, komu fram upplýsingar, m.a. í símtölum sem aflað var frá Virðingu hf. með samþykki stefnanda og rituð voru upp og lögð fram í málinu. Um er að ræða símtal stefnanda við Friðjón Þórðarson hjá Virðingu hf. þann 31.janúar 2008 og sömu aðila þann 4. apríl 2008. Ekki verður annað ráðið af símtali stefnanda 31. janúar 2008 en að hann hafi viljað að þessi viðskipti færu leynt. Þá kemur fram í símtali Sigtryggs R. Eyþórssonar frá Skólabrú ehf. og Friðjóns Þórðarson hjá Virðingu hf. að Sigtryggur skýrir frá spá stefnanda um breytingu á vöxtum sem hafi staðist.

        Stefnandi byggir á því að meðeigandi sinn í Skólabrú ehf., Sigtryggur Eyþórsson, stjórnarformaður félagsins, hafi séð um kaup og sölu verðbréfa og annast samskipti við miðlara. Í gögnum málsins verður ekki annað séð en að stefnandi hafi talsvert komið að þessum málum. Í tölvupósti vitnisins, Gerðar Ísberg, dags. 9. júlí 2013, til Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings stefnda, sem vitnið staðfesti fyrir dómi, kemur fram að Sigtryggur hafi hringt nánast daglega í stefnanda. Í greinargerð stefnanda kemur fram að stefnandi hafi séð um bókhald Skólabrúar ehf. og haldið utan um stöðu og eignir og að náin samvinna hafi verið milli aðila um fjárfestingar.

        Telja verður sannað með hliðsjón af vitnaskýrslum starfsmanna stefnda við aðalmeðferð, sem raktar hafa verið, og annarra gagna, að stefnandi hafi haft aðgang að margvíslegum trúnaðargögnum og upplýsingum í starfi sínu hjá stefnanda og að sá aðgangur hafi engan veginn verið samrýmanlegur aðkomu hans að rekstri Skólabrúar ehf. Í skýrslum þessara vitna er ítarlega gerð grein fyrir störfum þeim sem stefnandi sinnti og hvaða trúnaðarupplýsingar voru honum aðgengilegar. Með hliðsjón af þessu verður að telja að þegar grundvallarbreyting varð á starfsemi Skólabrúar ehf. við sölu fasteignarfélagsins á árinu 2007, hafi stefnandi gerst brotlegur í starfi sínu hjá stefnda með því að hafa ekki sótt um leyfi til þess að koma að þeirri starfsemi félagsins sem það hafði þá með höndum. Telja verður að starfsemi þessi hafi verið algerlega ósamþýðanleg störfum stefnda.

        Fram kemur í vitnaskýrslum starfsmanna stefnda að það hafi komið þeim í opna skjöldu þegar uppvíst varð um víðtæka fjármálastarfsemi Skólabrúar ehf. með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í júní 2013.

        Samkvæmt vitnaskýrslu Ólafs Ísleifssonar verður litið svo á að hann hafi heimilað aðkomu stefnanda að Skólabrú ehf. á þeim forsendum að félagið hefði aðeins með höndum eignaumsjón og útleigu. Stefnanda bar því á árinu 2007, þegar grundvallarbreytingar urðu á starfsemi Skólabrúar ehf., sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og reglur nr. 9.2.14 frá 18. júní 2001 um heimild starfsmanna Seðlabanka Íslands til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja, að leita eftir heimild stefnda til að koma að þessari starfsemi. Slíkri beiðni hefði umsvifalaust verið hafnað af hálfu stefnda þar sem í reglum nr. 9.2.14 er í 1. lið mælt fyrir um að bankastjórn megi ekki í neinum tilvikum veita starfsmönnum leyfi til að taka sæti í stjórn eða varastjórn fyrirtækja eða stofnana, sem starfa fyrst og fremst á sviði fjármálastarfsemi, verðbréfaviðskipta, verðbréfasjóða eða eignarleigustarfsemi eða fyrirtækja sem hafa að markmiði starfsemi sem jafna má til slíkrar fjármálastarfsemi, nema slíkt sé boðið í lögum eða reglugerð settri samkvæmt þeim. Það var síðan ekki fyrr en þann 2. apríl 2012 að stefnandi óskaði eftir slíkri heimild að undangenginni ábendingu til stefnanda þar að lútandi frá aðallögfræðingi stefnda til stefnanda 21. mars 2012.

        Aðkoma stefnanda að rekstri Skólabrúar ehf. var stefnanda óheimil, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 þar sem mælt er fyrir um að ríkisstarfsmanni sé óheimilt að hafa með höndum aukastörf sem eru ósamrýmanleg störfum ríkisstarfsmannsins.

        Telja verður með hliðsjón af því sem rakið hefur verið að stefnandi hafi með aðkomu að viðskiptum Skólabrúar ehf. brotið gróflega gegn trúnaðarskyldum sínum í starfi sínu hjá stefnda og þetta feli í sér alvarlegt brot gegn 14. gr. laga nr. 70/1996, en þar er mælt fyrir um að ríkisstarfsmaður skuli forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu sem utan sem varpað geti rýrð á það starf og starfsgrein sem hann vinnur við.

         Stefndi sagði stefnanda upp starfi hjá stefnda á grundvelli 43. gr. laga nr. 70/1996, ráðningarsamningi stefnda, dags. 1. desember 2000 og almennum grundvallarreglum vinnuréttar og opinbers starfsmannaréttar um stjórnunarrétt yfirboðara. Stefnandi byggir á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt, sér hafi ekki verið veitt áminning, sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar segir að skylt sé að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Stefndi hafnar því að fara hefði þurft með mál stefnanda eftir farvegi 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Telja verður þrátt fyrir ákvæði 44. gr. fyrrgreindra laga að áminning hafi ekki átt við þar sem hinni brotlegu háttsemi stefnanda hafði lokið um fimm árum áður en stefnda varð kunnugt um hana. Þannig átti sú leið að áminna starfsmanninn ekki við í tilviki stefnanda. Í því sambandi verður ekki hjá því komist að líta til þess að stefndi er sérstök opinber stofnum sem starfar m.a. á sviðum einkaréttar og vegna eðlis starfseminnar er mjög brýnt að fyllsta trúnaðar sé gætt og  trúverðugleiki stefnda sé varðveittur. Telja verður að sérstaða stefnda sé mikil vegna þeirra mikilvægu ákvarðana sem þar eru teknar, m.a. varðandi þróun gengismála og vaxtaákvarðanir. Fyrir liggur að stefnandi braut gróflega trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnda og yfirmönnum sínum. Fram kemur í vitnaskýrslu Björgvins Sighvatssonar, næsta yfirmanns stefnanda, að stefnandi hafi algjörlega brotið trúnað gagnvart Björgvini, hann hafi leynt aðkomu sinni að viðskiptum Skólabrúar ehf. og því að hann stæði í málaferlum við tvö fjármálafyrirtæki. Slíkt væri fordæmi sem væri óverjandi í starfi stefnanda.

       Þá kom fram í vitnaskýrslu aðallögfræðings stefnda, Sigríðar Logadóttur, að ekki hafi verið grundvöllur fyrir því að stefnandi héldi starfi sínu eftir svo alvarlegan trúnaðarbrest og ekki hefði komið til greina að setja stefnanda í annað starf hjá stefnda. Í því sambandi skiptir máli að fyrrgreindir dómar Héraðsdóms Reykavíkur og Hæstaréttar Íslands voru birtir opinberlega og það hefði augljóslega skaðað trúverðugleika stefnda að starfsmaður sem brotið hefði af þér með þessum hætti væri áfram í starfi hjá stefnda.

        Samkvæmt því sem rakið hefur verið og með hliðsjón af atvikum öllum og grófum trúnaðarbrotum stefnanda, 43. gr. laga nr. 70/1996 og ráðningarsamningi stefnanda frá 1. desember 2000, verður fallist á að stefnda hafi verið heimilt hafi að segja stefnanda upp án þess að honum væri veitt áminning.

        Stefnandi byggir einnig á því að uppsögn sín hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið gætt andmælaréttar, andmælabréf frá stefnda hafi eingöngu verið sett fram til að „láta virðast“ sem gætt hafi verið andmælaréttar. Þá hafi ekki verið tiltekið með skýrum hætti í hverju hin meintu trúnaðarbrot hafi falist. Ekki verður á þetta fallist. Í bréfi stefnda, dags. 8. október 2013, var stefnanda tilkynnt að til athugunar væri að segja honum upp störfum og honum gefinn kostur á að koma að andmælum. Í bréfi stefnda er með skýrum hætti gerð grein fyrir því í hverju hin ætluðu trúnaðarbrot felist og með bréfi, dags. 16. október 2013, til stefnda kom lögmaður stefnanda andmælum hans á framfæri.

        Stefnandi byggir á því að það hafi ekki verið í samræmi við lög að taka mál hans til skoðunar að nýju 14 mánuðum eftir að honum var synjað um heimild til setu í stjórn Skólabrúar ehf. þann 16. apríl 2013. Fram kemur í vitnaskýrslu Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings stefnda, að þá hafi verið litið svo á að málinu væri lokið þar sem stefnandi hafði sagt sig úr stjórn Skólabrúar ehf., félagið búið að tapa flestum eignum sínum og ekki hafi þá verið tilefni til að hefja frekari rannsókn. Stefnanda hafi aftur á móti ekki verið tilkynnt að málinu væri lokið. Allt önnur staða hafi hins vegar verið uppi þegar fyrrgreindur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir í júní 2013. Með hliðsjón af þessu verður ekki fallist á að óheimilt hafi verið að taka mál stefnanda að nýju til skoðunar á grundvelli hinna nýju upplýsinga um þau atriði er fram komu í fyrrgreindum héraðsdómi. Þá mátti stefnandi, með hliðsjón af atvikum öllum, ekki gera ráð fyrir því að hann héldi áfram starfi sínu hjá stefnda.

        Jafnframt er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að mál hans hafi ekki verið rannsakað nægilega með tilliti til 10. gr. stjórnsýslulaga. Ítarleg rannsókn fór fram á máli stefnanda eins og fram kemur í framlögðum gögnum áður en ákvörðun var tekin um uppsögn stefnda. Þá verður ekki talið að tilvísun stefnanda í 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, um að Ólafi Ísleifssyni hafi borið að skrá leyfi stefnanda til að hafa aðkomu að rekstri og stjórn Skólabrúar ehf., breyti einhverju í þessu sambandi.. Ekki var um formlegt samþykki að ræða skv. vitnisburði Ólafs Ísleifssonar, en vitnið kvað flestum á alþjóðasviði hafa verið kunnugt um aðkomu stefnanda að Skólabrú ehf. sem hafi þá falist í eignaumsjón og útleigu.

        Stefnandi gerir í máli þessu kröfu um miskabætur með vísan til 26. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að framganga stefnda við meðferð máls þessa hafi á einhvern hátt falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru eða persónu stefnanda og er kröfu stefnanda því hafnað sem órökstuddri.

        Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

        Rétt þykir með hliðsjón af atvikum að málskostnaður falli niður.

        Dóminn kveður upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari.

Dómsorð:

        Stefndi, Seðlabanki Íslands, er sýkn af kröfu stefnda, Hallgríms Ólafssonar.

        Málskostnaður fellur niður.