Hæstiréttur íslands
Mál nr. 63/2014
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 18. júní 2014. |
|
Nr. 63/2014.
|
K (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn M (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Börn. Forsjá. Umgegni. Gjafsókn.
K höfðaði mál gegn M og krafðist einkum forsjá yfir dóttur þeirra A. Í dómi Hæstaréttar kom fram að K og M væru bæði vel hæf til að fara með forsjá barns síns. Þótt deilur hefðu staðið milli K og M, sem sett hefðu mikið mark á samskipti þeirra, yrði ráðið af gögnum málsins að þau gætu sameiginlega í þágu barnsins tekið meiri háttar ákvarðanir er vörðuðu það og væru í stakk búin að vinna saman að velferð og þroska þess . Var því kveðið á um að K og M skyldu fara sameiginlega með forsjá A.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2014. Hún krefst þess að sér verði falin forsjá barns aðila, A, og að umgengni barnsins verði við stefnda ákveðin með dómi þannig að barnið verði í reglulegri umgengni hjá honum þrjá daga aðra hvora helgi frá fimmtudegi til sunnudags, auk umgengni í fjóra daga í jólaleyfi, en barnið verði ávallt hjá áfrýjanda á aðfangadag og dvelji annað hvort páskaleyfi hjá stefnda, svo og fjórar vikur í sumarleyfi hjá honum. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjanda tvöfalt meðlag með barninu til 18 ára aldurs eins og meðlag er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir í sameiningu taka allar meiri háttar ákvarðanir sem það varða. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf þess, svo sem hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi eru báðir málsaðilar vel hæfir til að fara með forsjá barns síns. Þótt deilur hafi staðið milli málsaðila, sem sett hafa mikið mark á samskipti þeirra, verður ráðið af gögnum málsins að þau geti sameiginlega í þágu barnsins tekið meiri háttar ákvarðanir er varða það og séu í stakk búin að vinna saman að velferð og þroska þess. Verður því ekki hnekkt mati héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að málsaðilar skuli sameiginlega fara með forsjá barnsins. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. janúar 2014.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 10. janúar sl., er höfðað með þingfestingu stefnu 26. júní 2013.
Stefnandi er K, [...].
Stefndi er M, [...].
Stefnandi krefst þess að henni verði með dómi falin óskipt forsjá barnsins A, [...], og að jafnframt verði með dómi ákveðin umgengni barnsins við stefnda.
Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda tvöfalt meðlag með barninu, eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingarstofnun ríkisins, til fullnaðs 18 ára aldurs þess.
Loks er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda í málinu og krefst þess að honum verði falin forsjá dóttur málsaðila, A, [...], og að stefnanda verði gert að greiða einfalt meðalmeðlag með barninu til fullnaðs átján ára aldurs þess.
Til vara er þess krafist að aðilar fari sameiginlega með forsjá barnsins, lögheimili þess verði hjá stefnda og að stefnanda verði gert að greiða einfalt meðalmeðlag með barninu frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs þess.
Þá er þess krafist að dómurinn ákveði inntak umgengnisréttar barnsins við það foreldranna sem ekki fari með forsjá þess.
Loks krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins og að við ákvörðun þóknunar lögmanns stefndu verði tillit tekið til 25,5% virðisaukaskatts af þóknun lögmanns.
Við þingfestingu málsins féll stefndi frá frávísunarkröfu sinni.
Við meðferð málsins féll stefnandi frá kröfu sinni um lögskilnað, en samkvæmt gögnum málsins var málsaðilum veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng 3. september 2013.
Við meðferð málsins féllu báðir málsaðilar frá kröfu sinni um bráðabirgðaforsjá.
II.
Málsaðilar hófu sambúð árið 2007. Þau gengu í hjúskap 6. júní 2009 og eignuðust dótturina A 11. október sama ár. Aðilar slitu samvistum í október 2012, og flutti stefndi þá af sameiginlegu heimili málsaðila, sem var að [...].
Stefnandi heldur því fram að á sambúðartíma málsaðila hafi stefndi beitt hana líkamlegu og andlegu ofbeldi og að frá árinu 2009 hafi verið um mörg alvarleg tilvik að ræða, m.a. á meðan stefnandi var barnshafandi. Þá hafi stefndi einnig ráðist á hana á meðan hún hélt á dóttur málsaðila í fanginu.
Snemma á árinu 2013 lagði stefnandi fram kæru á hendur stefnda vegna þriggja líkamsárása stefnda á árunum 2009, 2010 og 2011. Samkvæmt framlögðu bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 10. desember 2013 voru tvö málanna felld niður þar sem þau þóttu ekki líkleg til sakfellis, en eitt málanna var fellt niður þar sem það var talið vera fyrnt.
Stefndi kveður sambúð málsaðila oft og tíðum hafa verið erfiða og einkennst mjög af andlegu ofbeldi og stjórnsemi af hálfu stefnanda. Hafi hún reynt að útiloka stefnda frá samvistum við fjölskyldu hans með þeim afleiðingum að verulega hafi dregið úr samskiptum hans við fjölskylduna. Hafi stefnandi bannað stefnda að fara með barnið til móður sinnar þar sem henni hafi ekki líkað við hana, en litið alfarið fram hjá því að barnið þyrfti að þekkja ömmu sína og ætti rétt á því að rækta samband sitt við hana. Hafi fjölskyldulífið gengið alfarið út á langanir og hagsmuni stefnanda.
Stefnandi kveður stefnda hafa starfað erlendis að hluta til á meðan á hjúskap málsaðila stóð og heldur stefnandi því fram að málsaðilar hafi ekki dvalist saman á heimili nema tæpan helming hjúskapartímans. Dóttir málsaðila hafi allan þann tíma verið alfarið í umsjá stefnanda hvort sem stefndi dvaldi erlendis eða hér á landi. Því til viðbótar hafi samband aðila gengið erfiðlega og af þeim sökum hafi stefndi margsinnis flutt út af heimilinu, m.a. í kjölfar atvika er hann beitti stefnanda ofbeldi eða ofríki. Hafi stefnandi þannig að öllu verulegu leyti annast ein um dóttur aðila frá fæðingu og séð um allt sem snúið hafi að barninu ásamt því að annast heimilishald. Stefnandi kveðst hafa starfað heima við og því haft mikið svigrúm til að annast um dóttur aðila. Þá hafi stefnandi nánast að öllu leyti séð um umönnun dóttur aðila eftir að aðilar slitu sambandi sínu. Einnig hafi stefnandi sinnt tómstunda- og skólastarfi dótturinnar mun frekar en stefndi, auk þess sem hún hafi leitað eftir læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu fyrir hana eftir þörfum. Þá sé stefnandi í góðu samstarfi við starfsmenn leikskóla barnsins ásamt því að vera virkur meðlimur í foreldrafélagi leikskólans.
Stefndi heldur því fram að á sambúðartímanum hafi málsaðilar sinnt barninu sameiginlega. Hann kveður stefnanda lifa mjög óreglulegu lífi, enda hafi hún aldrei sinnt reglubundinni vinnu. Hún vinni oftast langt fram á kvöld og sofi fram eftir degi. Hafi það því komið í hlut stefnda að vakna með barninu á morgnana og fara með það á leikskóla eftir að barnið byrjaði þar. Eftir að stefndi hafi komið heim frá vinnu um kl. 18:00 hafi málsaðilar annast barnið í sameiningu og kveðst stefndi telja sig einnig á þeim tíma hafa sinnt barninu mikið, sem og heimilishaldi öllu. Regluleg matarinnkaup og matseld hafi verið alfarið á hans hendi, en hann kveðst hafa greitt utanaðkomandi aðila fyrir þrif á heimilinu. Stefndi hafi vissulega þurft að fara utan nokkrum sinnum vegna vinnu sinnar en kveðst mótmæla fullyrðingum í stefnu um hversu miklar þær fjarvistir hafi verið.
Stefnandi kveður málsaðila hafa frá samvistaslitum reynt að rækja umgengni stefnda og barnsins og hafi umgengnin í fyrstu farið fram á heimili barnsins til að því liði sem best. Það hafi þó ekki gengið þar sem stefnandi hafi upplifað heimsóknir stefnda á mjög neikvæðan hátt og á köflum sem andlegt ofbeldi, en stefndi hafi m.a. ítrekað reynt að ræða skilnað aðila og koma af stað deilum þeirra á milli meðan á umgengni stóð. Hafi umgengni því síðar farið fram hjá stefnda, fyrst á heimili móður hans og síðar á núverandi heimili stefnda.
Stefndi kveður stefnanda hafa gert allt sem í hennar valdi stóð til að koma í veg fyrir umgengni hans við barnið. Af framlögðum tölvupóstsamskiptum málsaðila megi sjá að stefnandi hafi sýnt mikla óbilgirni og í reynd engan áhuga haft á að ná samkomulagi um umgengni barnsins við stefnda. Ljóst sé að hún hafi leynt og ljóst viljað halda barninu frá stefnda.
Samkvæmt gögnum málsins fór stefnandi hinn 8. mars 2013 með barnið til Kaupmannahafnar án samþykkis stefnda og dvaldi þar í þrjá mánuði á meðan hún sótti [...]. Frá því í janúar 2013 höfðu málsaðilar reynt að ná samkomulagi um skilnað, fjárskipti og umgengni stefnda við barnið á meðan á dvölinni úti stæði og eftir að heim kæmi áður en stefnandi héldi af landi brott með barnið. Báru þær samningaviðræður ekki árangur. Í kjölfar þess að stefnandi fór með barnið til Kaupmannahafnar lagði stefndi fram kröfu um afhendingu barnsins frá Danmörku á grundvelli Haag-samningsins um afhendingu brottnuminna barna. Var málið rekið fyrir dómstólum Danmörku og með úrskurði Fógetaréttarins í Kaupmannahöfn 27. júní 2013 var málinu vísað frá dómi þar sem stefnandi hafði þegar farið með barnið aftur til Íslands, en stefnandi kom aftur til landsins með barnið 2. júní 2013 eins og upphaflega stóð til.
Stefndi naut umgengni við barnið í nokkur skipti áður en stefnandi fór utan í mars sl. og þá hitti stefndi barnið tvisvar á meðan á dvöl stefnanda og barnsins í Kaupmannahöfn stóð.
Málsaðilar hafa gert með sér þrjá tímabundna samninga um umgengni stefnda við barnið. Fyrsti samningurinn er frá 14. júní 2013 þar sem kveðið er á um dvöl barnsins hjá stefnda frá einum sólarhring og upp í viku í senn og gilti samningurinn út júlí 2013. Annar samningurinn er frá 9. ágúst 2013 og var til 22. október sama ár. Í samningnum er kveðið á um umgengni stefnda við barnið í þrjá til átta daga í senn. Þriðji og síðasti samningurinn er frá 9. desember 2013 og er þar kveðið á um umgengni barnsins við stefnda í tvo til þrjá sólarhringa í senn. Gildir sá samningur til 3. febrúar 2014.
Hinn 11. júní 2013 gengust málsaðilar undir sáttameðferð hjá sýslumanni skv. 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003, sem lauk án árangurs.
Með úrskurði 24. júní 2013 var kveðið á um að fram skyldu fara opinber skipti til fjárslita á milli málsaðila og lauk skiptum 20. september 2013.
Hinn 3. september 2013 var málsaðilum veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng af sýslumanninum í Reykjavík.
Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 3. janúar 2014, var stefnda veitt gjafsókn til að taka til varna í málinu og var þá jafnframt fellt úr gildi gjafsóknarleyfi til handa stefnda frá 2. júlí 2013, sem var takmarkað við 400.000 krónur. Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 28. ágúst 2013, var stefnanda veitt gjafsókn í málinu og er hún takmörkuð við 400.000 krónur.
Reyndar voru sættir með málsaðilum fyrir dómi með aðstoð B sálfræðings í þinghaldi 9. og 23. október 2013. Þær sáttaumleitanir báru ekki árangur.
Málsaðilar komu fyrir dóminn og gáfu aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni C sálfræðingur og dómkvaddur matsmaður.
III.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um óskipta forsjá á því að það sé barninu fyrir bestu að hún fari með forsjá þess. Stúlkan hafi notið hennar umönnunar óslitið frá fæðingu og sé því vön og háð stefnanda og auk þess tengdari henni en öðrum. Aðskilnaður við stefnanda yrði stúlkunni því þungbærari en við stefnda og hefði í för með sér mun meira rask fyrir hana en þörf væri á í tengslum við skilnað aðila. Þá hafi stúlkan að mestu notið umönnunar stefnanda frá samvistaslitum foreldra og líði vel hjá henni. Auk þessa sé stefndi síður hæfur til að annast barnið, m.a. vegna þess að hann eigi við alvarlega skapgerðarbresti að stríða og hafi á köflum beitt stefnanda líkamlegu ofbeldi, jafnan að barninu viðstöddu, og jafnvel þegar stefnandi hafi haldið á barninu. Þá hafi hann beitt alla heimilismeðlimi andlegu ofbeldi og ofríki. Þess megi geta að stefndi hafi alltaf verið allsgáður þegar hann beitti líkamlegu ofbeldi. Sé stefndi því á engan hátt fær um að annast um dóttur aðila með fullnægjandi hætti nema að takmörkuðu leyti, þ.e. þegar hann nýtur umgengni við hana. Kveðst stefnandi telja að slíkar samvistir stefnda og dótturinnar gætu hentað mjög vel þar sem þau væru hvorug vön því að vera langdvölum saman. Kveðst stefnandi telja sig hæfari til að fara með forsjá stúlkunnar og að mun minni röskun yrði á högum barnsins ef henni yrði falin forsjá hennar.
Stefnandi kveðst einnig byggja forsjárkröfu sína á því að stúlkan vilji frekar búa hjá stefnanda en stefnda. Stúlkan sé tengd stefnanda sterkum böndum og líði vel hjá henni og því væri óæskilegt að raska núverandi aðstæðum hennar með því að færa búsetu hennar til föður. Stefnandi kveðst vera búsett í eigin húsnæði, sem sé rúmgott og þar fari vel um þær mæðgur. Kveðst hún vera í góðri aðstöðu til að annast um dóttur sína með fullnægjandi hætti. Þá kveðst stefnandi ætla að búa áfram að [...], og kveðst telja að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að hún verði áfram búsett þar. Meiri óvissa sé um framtíðarbúsetu stefnda, enda hafi hann mikið starfað erlendis og gæti eins gert það í framtíðinni. Séu forsendur allar fyrir sameiginlegri forsjá mjög hæpnar í ljósi starfa stefnda erlendis langtímum saman. Stangist það á við hagsmuni barnsins að forsjáraðili þess dveljist langdvölum á fjarlægum slóðum erlendis, oft á stöðum þar sem fjarskipti og samskipti öll séu erfið. Stefndi gegni ekki föstu starfi nú, hvorki hérlendis né erlendis, og sé því ekkert sem bendi til annars en að hann muni áfram sem áður hafa lífsviðurværi sitt af störfum sem að miklu leyti fari fram á erlendri grundu.
Stefnandi kveður kröfu sína um óskipta forsjá einnig byggjast á því að málsaðilar geti ekki farið sameiginlega með forsjá barnsins vegna mikils ágreinings þeirra á milli. Af þeim sökum geti þau ekki verið samstiga um uppeldi barnsins, sem sé grundvallarforsenda fyrir sameiginlegri forsjá. Samskipti aðila sé það erfið að þau geti ekki rætt saman um atriði er varði dóttur þeirra eða annað, svo vel fari. Stefnandi kveður þennan samskiptavanda ekki síst skýrast af því ofbeldi sem stefndi hafi beitt stefnanda. Engar forsendur séu því til þess að láta hagsmuni barnsins ráðast af sameiginlegri forsjá. Ekki verði mögulegt að ná sáttum milli aðila um það eða annað sem barnið varði með hliðsjón af forsögu málsins og þeim brotum sem stefndi hafi framið gagnvart stefnanda.
Að lokum kveðst stefnandi krefjast þess að ákveðið verði með dómi hvernig hátta skuli umgengni barnsins við það foreldri, sem ekki fari með forsjá þess. Kveðst stefnandi vilja að barnið njóti reglulegrar umgengni við stefnda, eins og þarfir hennar og vilji standi til hverju sinni. Vegna ungs aldurs barnsins og þar sem stefnandi hafi aðallega annast hana hingað til vilji stefnandi að umgengnin verði til að byrja með tvær nætur aðra hverja helgi.
Stefnandi kveður kröfu sína um tvöfalt meðlag byggjast á framfærsluskyldu beggja foreldra við barnið og kveður fjárhæð kröfunnar taka mið af tekjum stefnda.
Hvað lagarök varði kveðst stefnandi byggja kröfur sínar um forsjá, meðlag og ákvörðun um umgengni á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003, einkum 2. mgr. 34. gr. Um málsmeðferðarreglur er vísað til 4. mgr. 36. gr. barnalaga. Að því er varðar kröfu um málflutningsþóknun vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Stefndi krefst þess að honum verði falin forsjá dóttur málsaðila, enda kveðst hann telja hagsmunum telpunnar best borgið í sinni umsjá, sbr. 34. gr. barnalaga 76/2003. Kveðst stefndi í því sambandi sérstaklega líta til þess alvarlega athæfis stefnanda að fara með barnið úr landi síðastliðið vor án samþykkis stefnda og líta þannig algerlega framhjá þörf barnsins til að hafa samskipti við föður sinn, sem hún sé mjög tengd. Hafi telpunni verið kippt út úr því umhverfi sem hún þekki, einmitt á þeim tíma í lífi telpunnar sem hún hafi haft mesta þörf fyrir stöðugleika, þ.e. þegar foreldrarnir voru að skilja og uppeldisumhverfið að raskast. Þá hafi málþroski telpunnar verið á viðkvæmu stigi á þessum tíma og hún að ná tökum á tungumálinu. Á þessum tíma hafi jafnframt átt sér stað mikil tengslamyndun við föðurfjölskylduna, sem telpan hafi í raun verið að kynnast. Þessi gríðarlega röskun á högum og stöðu barnsins hafi örugglega haft mikil áhrif á hana, sem eigi eftir að koma betur í ljós síðar. Hafi stefnandi sýnt barninu alvarlega vanvirðingu með þessu athæfi og sýnt alvarlegan dómgreindarbrest að mati stefnda. Kveðst stefndi telja sýnt að stefnanda sé ekki treystandi til að setja hagsmuni barnsins framar sínum eigin hagsmunum og löngunum, sem ekki fari alltaf saman, en það skerði verulega forsjárhæfni hennar.
Stefndi kveður varakröfu sína um sameiginlega forsjá og lögheimilisákvörðun byggjast á 34. gr. laga nr. 76/2003, sbr. 13. gr. laga nr. 61/2012 og 3. gr. laga nr. 144/2012. Stefnandi hafi með málatilbúnaði sínum ekki gert varakröfu um sameiginlega forsjá og þar með ekki um lögheimili barnsins sér til handa. Geti hún ekki komið þeirri kröfu að á síðari stigum máls, sbr. 41. gr. laga 76/2003 eins og að framan sé rakið. Hljóti því lögheimili barnsins að vera hjá stefnda verði það niðurstaða dómsins að forsjáin verði sameiginleg.
Stefndi kveðst telja það barninu fyrir bestu að eiga búsetu hjá sér, enda sé heildarsamband barns við foreldra sína best tryggt með því móti. Sé það eitt mikilvægasta atriðið sem líta beri til við ákvörðun forsjár barns. Barnið sé mjög tengt stefnda, enda hafi hann annast barnið að jöfnu við stefnanda. Sé mikilvægt, sérstaklega í ljósi ungs aldurs barnsins og tilburða stefnanda til að takmarka aðgengi barnsins að stefnda, að barnið búi hjá stefnda og tengsl þeirra verði enn frekar styrkt.
Stefndi kveður aðstæður sínar vera mjög góðar. Hann búi í eigin íbúð að [...] í Reykjavík, sem hafi verið í útleigu á meðan á sambúð málsaðila stóð. Stefndi hafi ávallt lagt áherslu á að lifa stöðugu og jákvæðu heimilislífi og kveðst hann hlakka til að búa barninu nýtt heimili án þess óstöðugleika sem ávallt hafi einkennt líf stefnanda. Hafi stefndi ávallt lagt mikla áherslu á reglu og stöðugleika við uppeldi barnsins, svo sem reglulega hátta- og matartíma, öfugt við það sem einkenni stefnanda og hennar lífsmynstur. Kveðst hann telja mikilvægt að barnið fari reglulega í leikskóla, mæti á sama tíma og sé sótt á ákveðnum tíma, þannig að lífsrytmi barnsins sé góður. Stefndi kveðst njóta stuðnings stórfjölskyldu sinnar og vina, en báðir foreldrar hans og systkini styðji hann í máli þessu og séu tilbúin að styðja hann við uppeldi barnsins.
Stefndi kveðst telja sig miklum mun hæfari til að hafa forsjá barnsins á hendi. Kveðst hann leggja mikla áherslu á að sættir verði reyndar til þrautar í málinu, enda telji hann hagsmuni barnsins felast meðal annars í því að foreldrar geti haft góða samvinnu um allt sem barnið varði. Kveðst hann vera tilbúinn til að leggja mikið á sig til að svo geti orðið, en kveðst í ljósi forsögu málsins draga í efa að sama gildi um stefnanda. Kveðst stefndi telja þá afstöðu sína, að vilja sátt til hagsbóta fyrir barnið, einmitt gera hann hæfari til að fara með forsjá eða lögheimili barnsins. Hann sé enda líklegri til að stuðla að góðri umgengni og þar með sterku heildarsambandi barns og foreldra. Stefndi kveður öll sömu sjónarmið eiga við um kröfu sína um forsjá og lögheimili.
Stefnandi kveður kröfu sína um meðlag byggjast á 4. mgr. 34. gr., sbr. 57. gr. laga 76/2003 en krafa um umgengnisákvörðun byggist á 4. mgr. 34. gr. sömu laga.
Fari svo að stefnanda verði falin forsjá eða lögheimili barnsins kveðst stefndi krefjast þess að umgengni verði ákveðin vikulega til skiptis hjá aðilum, skipting fari fram á föstudögum, og nánar verði kveðið á um hátíðar- og sumarleyfisumgengni í dómsorði. Kveðst stefndi áskilja sér rétt til að útfæra þann þátt málsins nánar á síðari stigum málsins, sérstaklega eftir að fyrir liggur sálfræðileg matsgerð sem stefnandi muni væntanlega afla í málinu.
Stefndi kveðst mótmæla sérstaklega kröfu stefnanda um tvöfalt meðlag úr hans hendi, enda sé ljóst að hvorki stefndi né stefnandi hafi tekjur til að greiða meira en sem nemi einföldu meðlagi miðað við þær forsendur sem gefnar séu af stjórnvöldum og sem beita skuli við ákvörðun um meðlag, sbr. 2. mgr. 57. gr. laga 76/2003.
Stefndi kveður kröfu sína um málskostnað byggða á XXI. kafla laga 91/1991, sérstaklega 130. gr., en krafa um virðisaukaskatt af þóknun byggist á lögum 50/1988 þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta 25,5% virðisaukaskatt af þóknun sinni.
Stefndi kveðst leggja ríka áherslu á að stefnanda verði gert að greiða honum allan málskostnað, enda hafi mál þetta verið höfðað algerlega að þarflausu og á algerlega röngum forsendum. Þannig hafi lögskilnaðar verið krafist án þess að lagaskilyrði væru til staðar.
V.
Í málinu hafa farið fram ítarlegar sáttaumleitanir þar sem stefndi hefur lýst sig tilbúinn til að ljúka málinu með sátt þannig að málsaðilar fari sameiginlega með forsjá barnsins, en lögheimili þess verði hjá stefnanda. Á þessu hefur stefnandi hins vegar ekki viljað ljá máls. Kveðst stefnandi ekki geta fallist á sameiginlega forsjá vegna djúpstæðs ágreinings á milli aðila og erfiðra samskipta. Heldur stefnandi því fram að stefndi hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi á sambúðartímanum og að frá árinu 2009 hafi verið um mörg alvarleg tilvik að ræða. Stefndi neitar þessu alfarið. Hann kveður sambúðina við stefnanda oft og tíðum hafa verið erfiða og einkennst af andlegu ofbeldi og stjórnsemi af hálfu stefnanda. Kveðst hann m.a. hafa einangrast frá vinum og fjölskyldu af þessum sökum. Hann kveður stimpingar hafa átt sér stað á milli málsaðila og viðurkennir að hafa í eitt skipti gengið of langt eða á árinu 2010. Hann segir að sér hafi liðið hræðilega á eftir og í kjölfarið leitað sér aðstoðar sálfræðings og sótt fundi hjá samtökum um kærleiksrík samskipti.
Stefnandi lagði fram kæru á hendur stefnda hjá lögreglu 13. febrúar 2013 vegna þriggja líkamsárása á árinu 2009, 2010 og 2011 eða tveimur til fjórum árum eftir að atvikin eiga að hafa átt sér stað. Samkvæmt gögnum málsins voru mál vegna atvika á árunum 2009 og 2011 felld niður þar sem þau þóttu ekki líkleg til sakfellis, en mál vegna atviksins á árinu 2010 var fellt niður þar sem brotið var talið fyrnt. Af gögnum málsins má sjá að á sama tíma og stefnandi lagði fram áðurnefnda kæru á hendur stefnda deildu málsaðilar hart um umgengni stefnda við barnið í tengslum við áform stefnanda um að fara utan með barnið og dvelja erlendis í þrjá mánuði.
Þegar áðurgreint atvik átti sér stað á árinu 2010 kveðst stefndi sér hafa fundist hann vera kominn út í horn af ýmsum ástæðum, m.a. vegna erfiðra samskipta við stefnanda. Þá hafi hann verið búinn að missa vinnuna og fjárhagur heimilisins verið í molum, en hann kveðst hafa borið meginábyrgð á því að afla heimilinu tekna. Honum hafi boðist vel launað verkefni erlendis, sem hann hafi ákveðið að taka að sér til að bjarga fjárhag heimilisins. Hafi þetta þýtt nokkurra mánaða fjarveru frá fjölskyldunni, en við það hafi stefnandi verið mjög ósátt. Viðurkenndi stefnandi í skýrslu sinni fyrir dóminum að hafa látið ljót orð falla í garð stefnda skömmu áður en stefndi missti stjórn á sér.
Eins og að framan greinir hafa komið fram ásakanir af hálfu beggja aðila um ofbeldi eða stjórnsemi af hálfu hins meðan á sambúðinni stóð. Aðilar eru ekki sammála um þau málsatvik og verða þau ekki sannreynd í þessu máli. Af framburði beggja aðila er hins vegar ljóst að mikil togstreita og samskiptaerfiðleikar voru á milli þeirra í lok árs 2010 þegar umrætt atvik átti sér stað. Engin gögn liggja fyrir um ætlaða ofbeldishegðun stefnda fyrir utan þetta eina atvik, sem hann hefur viðurkennt. Þá liggur fyrir að stefndi leitaði sér aðstoðar hjá fagfólki og vinum í kjölfarið og kveðst hafa unnið úr þessum vanda. Með hliðsjón af öllu framangreindu telur dómurinn ekki ástæðu til að ætla að hætta sé á því að stefndi muni beita stefnanda ofbeldi.
Að mati hins dómkvadda matsmanns, C sálfræðings, eru báðir málsaðilar hæfir til að fara með forsjá barnsins og þá telur matsmaður barnið í góðum og kærleiksríkum tengslum við báða foreldra sína. Fram hefur komið að barnið hefur búið á heimili móður sinnar frá fæðingu og er núna á öðrum vetri í leikskólanum [...]. Að mati hins dómkvadda matsmanns hefur barnið þörf fyrir tiltölulega mikinn stöðugleika og telur matsmaður að líklegra sé að stúlkan njóti sín ef hún býr að mestu leyti hjá öðru foreldri sínu en hefur umgengni við hitt. Í ljósi framangreinds þykir varhugavert að stúlkan flytji úr því umhverfi og þeim aðstæðum sem hún þekkir hjá móður sinni. Þykir því rétt að stúlkan búi að mestu leyti á heimili stefnanda, en hafi umgengni við stefnda. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki fallist á aðalkröfu stefnda um að hann fari með óskipta forsjá barnsins og að lögheimili þess verði hjá honum.
Eins og fram hefur komið voru málsaðilar í hjúskap við fæðingu barnsins, en slitu samvistum þegar barnið var þriggja ára gamalt. Þrátt fyrir nokkrar fjarvistir stefnda frá heimilinu vegna vinnu sinnar meðan á hjúskapnum stóð er ekki ástæða til að draga í efa fullyrðingar stefnda um að málsaðilar hafi sinnt barninu í sameiningu á meðan þau bjuggu saman, enda er barnið í góðum tengslum við báða foreldra sína.
Eins og áður greinir hafa farið fram ítarlegar sáttaumleitanir í málinu, m.a. við aðalmeðferð málsins. Fyrir dómi kom skýrt fram að stefnandi léði ekki máls á því að ljúka málinu með sátt og var óhagganleg í þeirri afstöðu sinni. Ummæli sem stefnandi lét falla við aðalmeðferðina lýstu neikvæðri afstöðu stefnanda til stefnda. Stefndi var hins vegar fús til samninga og var tilbúinn til að fallast á að lögheimili barnsins yrði hjá stefnanda og að hann nyti ríflegrar umgengni við barnið hálfsmánaðarlega. Af málsgögnum má og sjá að stefnandi hefur sýnt stefnda ákveðna óbilgirni í tengslum við kröfu stefnda um umgengni við barnið frá því að málsaðilar slitu samvistum og þar með ekki að fullu virt rétt barnsins til umgengni við stefnda og föðurfólk sitt. Þá má sjá af gögnum málsins að stefnanda hefur ekki auðnast að leggja deilu málsaðila vegna skilnaðar þeirra til hliðar í því skyni að ná samkomulagi við stefnda um hagsmuni og velferð barnsins. Á sama hátt þykir stefndi hafa gengið nokkuð hart fram í deilu málsaðila þegar hann höfðaði mál á hendur stefnanda til afhendingar á barninu á meðan stefnandi dvaldi í Kaupmannahöfn.
Með hliðsjón af framangreindu og málsatvikum öllum telur dómurinn ekki rétt að veita stefnanda óskipta forsjá barnsins. Telur dómurinn líklegt að slíkt leiði fremur til þess að valdabarátta og neikvæð afstaða málsaðila í garð hvors annars festist í sessi en ef forsjáin er sameiginleg. Báðir málsaðilar eru ágætum hæfileikum búnir og telur dómurinn eðlilegt að ætla að þegar kveðið hefur verið á um forsjá og fasta umgengni og ósætti vegna hjónaskilnaðarins hefur dvínað geti málsaðilar lagt deilur sínar til hliðar og unnið að betri samskiptum með velferð barnsins að leiðarljósi. Telur dómurinn mikilvægt að jafnræði ríki milli aðila til að skapa traust þeirra á milli og til að gefa báðum aðilum kost á að ráða málefnum barnsins til lykta í framtíðinni. Hér ber og að hafa í huga að hvort sem forsjáin er óskipt hjá stefnanda eða sameiginleg og lögheimili barnsins hjá stefnanda munu málsaðilar ekki komast hjá því að eiga samskipti vegna umgengni og almennrar umönnunar og velferðar barnsins. Dómurinn telur því mikilvægt að málsaðilar taki sem fyrst ábyrga ákvörðun um að skilja særindi vegna skilnaðar að baki sér og vinna af heilindum að jákvæðum samskiptum sín á milli til að stuðla sem best að velferð dóttur sinnar.
Báðir málsaðilar hafa stuðning frá fjölskyldu í nærumhverfi sínu, en fleiri eru þó til aðstoðar föður megin og hafa sumir úr fjölskyldu hans einnig veitt stefnanda stuðning.
Með vísan til alls framangreinds er það álit dómsins að hagsmuna barnsins sé best gætt með því að málsaðilar fari sameiginlega með forsjá þess og að lögheimili þess sé hjá stefnanda, en sú niðurstaða þykir rúmast innan kröfugerðar stefnanda.
Stefnandi hefur krafist þess að stefnda verði gert að greiða tvöfalt meðlag með barninu, eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins, til fullnaðs 18 ára aldurs barnsins. Af hálfu stefnda hefur þessari kröfu verið mótmælt.
Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. barnalaga nr. 76/2003 skal ákveða meðlag með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Í málinu hafa ekki verið lögð fram viðhlítandi gögn um þessi atriði og eru því ekki efni til að taka til greina kröfu stefnanda um tvöfalt meðlag úr hendi stefnda. Með vísan til 1. mgr. 53. gr., sbr. 3. mgr. 57. gr., barnalaga nr. 76/2003 er stefnda hins vegar gert að greiða einfalt meðlag með barninu frá dómsuppkvaðningu að telja til 18 ára aldurs barnsins.
Tengsl stefnda við telpuna eru sterk og gagnkvæm og er mikilvægt að viðhalda þessum tengslum, sem og tengslum barnsins við föðurfjölskyldu sína. Með vísan til niðurstöðu framlagðrar matsgerðar verður að telja að það sé í þágu hagsmuna barnsins að umgengni við föður sé rúm.
Með vísan til framangreinds telur dómurinn rétt að barnið dvelji hjá föður aðra hverja viku frá föstudegi til miðvikudags og að barnið verði sótt og því skilað í leikskóla eða skóla. Fyrirkomulag umgengni skal að öðru leyti vera eins og nánar greinir í dómsorði og skal upphaf reglulegrar umgengni frá dómsuppsögu miðast við föstudaginn 24. janúar nk.
Í ljósi málsúrslita þykir rétt að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af rekstri málsins.
Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 21. janúar 2013, var stefnanda veitt gjafsókn í málinu og var þá jafnframt fellt úr gildi gjafsóknarleyfi til handa stefnanda frá 28. ágúst 2013, sem var takmarkað við 400.000 krónur.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun talsmanns hennar, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.882.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 3. janúar 2014, var stefnda veitt gjafsókn til að taka til varna í málinu og var þá jafnframt fellt úr gildi gjafsóknarleyfi til handa stefnda frá 2. júlí 2013, sem var takmarkað við 400.000 krónur.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, þ.m.t. þóknun talsmanns hans, Valborgar Snævarr hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.543.650 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Dóminn kveða upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Helgi H. Viborg sálfræðingur.
Dómsorð:
Stefnandi, K, og stefndi, M, skulu fara sameiginlega með forsjá barnsins, A, [...], til 18 ára aldurs barnsins, en lögheimili þess skal vera hjá stefnanda.
Stefndi greiði einfalt meðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þess.
Barnið dvelji hjá föður aðra hverja helgi frá föstudegi til miðvikudags og skal barnið sótt og því skilað í leikskóla eða skóla.
Umgengni um jól og áramót skal vera með þeim hætti að barnið dvelji hjá foreldrum til skiptis, annars vegar frá 23. desember til 27. desember og hins vegar frá 27. desember til 2. janúar. Barnið dvelji hjá stefnanda frá 23. desember til 27. desember 2014, en hjá stefnda frá þeim degi til 2. janúar 2015 og síðan á víxl árið eftir.
Barnið dvelji til skiptis hjá foreldrum yfir páska frá miðvikudegi fyrir skírdag til annars dags páska. Barnið dvelji hjá móður um páska 2014, en hjá föður um páska 2015 og síðan á víxl árið eftir.
Barnið dvelji til skiptis hjá foreldrum í vetrarfríum í skóla. Dvelji barnið hjá föður í vetrarfríi að hausti, skal það dvelja hjá móður í vetrarfríi að vori og síðan á víxl árið eftir, í fyrsta skipti hjá föður í vetrarfríi að hausti 2015.
Ákvörðun um sumarleyfi barnsins með foreldrum skal liggja fyrir eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Að öðrum kosti og ef samkomulag næst ekki skal barnið dvelja til skiptis hjá hvoru foreldri um sig í fjórar vikur í senn, annars vegar frá 15. júní til 15. júlí og hins vegar frá 15. júlí til 15. ágúst og fellur regluleg umgengni niður á meðan. Sumarið 2014 skal barnið dvelja hjá móður fyrri hluta sumars, en hjá föður síðari hluta sumars og síðan á víxl árið eftir.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun talsmanns hennar, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., 1.882.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, þ.m.t. þóknun talsmanns hans, Valborgar Snævarr hrl., 1.543.650 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.