Hæstiréttur íslands
Mál nr. 659/2006
Lykilorð
- Skuldamál
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 18. október 2007. |
|
Nr. 659/2006. |
Hellisvellir ehf. (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) gegn Arkitektum Ólöfu og Joni ehf. (Andri Árnason hrl.) |
Skuldamál. Málsástæður.
A ehf. krafði H ehf. um greiðslu reiknings fyrir arkitektavinnu. H ehf. taldi að ekki hefði komist á samningur milli þeirra um vinnuna er leiddi til greiðsluskyldu. Til vara krafðist hann lækkunar á stefnufjárhæð. Fyrir lá að vinnan var unnin í tveimur áföngum, fyrst árið 2002 og síðan árið 2003. Talið var að A ehf. hefði mátt vænta greiðslu fyrir vinnuframlag sitt eftir að fyrirsvarsmaður H ehf. leitaði til stofunnar í seinna skiptið nema um annað hefði verið samið. Félagið var ekki talið hafa sýnt fram á að samningur hafi komist á milli aðila þess efnis eða að undirbúningsvinna, sem unnin hafði verið árið 2002, hafi átt að vera undanskilin ef framhald yrði á verkefninu. Þá voru málsástæður H ehf. fyrir Hæstarétti til stuðnings lækkun kröfunnar taldar of seint fram komnar. Því var fallist á kröfu A ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. október 2006 en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 13. desember 2006. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann málinu öðru sinni 21. desember 2006. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi, sem er einkahlutafélag, mun hafa verið stofnaður haustið 2001 af Þorsteini Jónssyni og Íslenskum aðalverktökum hf. Samkvæmt greinargerð áfrýjanda í héraði var markmið félagsins að reisa frístundabyggð á Hellnum í samræmi við hugmyndir Þorsteins Jónssonar og kom hann fram fyrir hönd áfrýjanda við fjármögnun og framkvæmd verkefnisins. Þorsteinn mun hafa leitað til Jon Nordsteien, annars eigenda stefndu, í september 2001 og gert honum grein fyrir hugmyndum sínum. Frá upphafi hafa báðir eigendur hins stefnda félags, Jon Nordsteien og Ólöf Flygering, unnið við verkefnið án athugasemda af hálfu áfrýjanda. Í febrúar 2002 fóru þau að beiðni Þorsteins að Hellnum þar sem landið, gömul fjárhús og hlaða voru skoðuð og sátu einnig fund um nýtt aðalskipulag á svæðinu. Í lok sama mánaðar féllust þau á að vinna drög að tillögu um menningarmiðstöð og hótel þar sem gömlu húsin væru nýtt. Eru skissur sem þau gerðu dagsettar í mars 2002 og birtast þær í bæklingi sem Þorsteinn gerði til að kynna verkefnið og ber heitið „Viðskiptahugmynd á Hellnum undir Jökli“. Var ljóst að framhald málsins væri undir því komið að honum tækist að fjármagna verkefnið.
Í febrúar 2003 mun Þorsteinn hafa haft aftur samband við stefndu með ósk um frekari teikningar. Kom fram að viðræður stæðu yfir við norska fjárfesta og Náttúruvernd ríkisins, síðar Umhverfisstofnun, um samvinnu. Í framhaldi kom sendinefnd frá Noregi, farin var skoðunarferð að Hellnum og fundað um verkefnið, auk þess sem verktaki gerði kostnaðaráætlun. Þorsteinn Jónsson og hinir erlendu fjárfestar undirrituðu viljayfirlýsingu 31. mars 2003 um verkefnið en ekki var gengið frá samningum. Í byrjun apríl 2003 fóru stefndu fram á greiðslu eða tryggingu fyrir greiðslu. Þau héldu áfram að vinna að verkefninu til 10. apríl 2003, en þá lögðu þau hönnunarvinnu niður þar sem ekki var orðið við kröfu þeirra um að fá greitt inn á verkið og neituðu að afhenda skissur og teikningar. Þorsteinn stofnaði annað félag, Menningarmiðstöðina Hellnum ehf., með norskum aðila, en samþykktir þess eru dagsettar 9. apríl 2003. Í september 2003 var opnuð gestamóttaka að Hellnum og reyndist önnur arkitektastofa hafa hannað hana.
II.
Áfrýjandi byggir á því að ekki hafi komist á samningur milli aðila sem leiði til greiðsluskyldu hans. Um frumkvöðlaverkefni hafi verið að ræða. Hafi stefndi fallist á að taka þátt í athugun og hugmyndavinnu án endurgjalds, en með hugsanlega vinnu við hönnun að markmiði, þegar og ef til framkvæmda kæmi. Eiginleg hönnunarvinna hafi ekki getað hafist fyrr en eftir 27. júlí 2005 þegar aðalskipulag svæðisins var samþykkt. Stefndi hafi horfið frá verkefninu áður en til þess kom og hafi ekki afhent áfrýjanda afrakstur þeirrar vinnu sem komin var. Hafi hann þannig fyrirgert rétti sínum til hinnar eiginlegu hönnunarvinnu. Þær skissur sem áfrýjandi hafi notað í kynningarbækling sinn hafi verið byggðar á hugmyndum Þorsteins Jónssonar og birtar með samþykki stefnda. Heldur áfrýjandi því fram að í raun hafi verið um tvö verkefni að ræða, frístundabyggð, sem áfrýjandi hafi verið stofnaður um, og menningarmiðstöð sem einkahlutafélagið Menningarmiðstöðin Hellnum hafi unnið áfram við. Samskipti hans við stefnda hafi tekið til fyrrnefnda verkefnisins, en hið síðara hafi ekki verið á verksviði áfrýjanda.
Varakröfu sína um lækkun reikningsfjárhæðar stefnda byggir áfrýjandi á því að stór hluti þeirra vinnustunda sem krafist sé greiðslu fyrir hafi verið vegna skemmti- og kynnisferðar og veislu í boði áfrýjanda og komi hugmyndavinnu vegna verkefnisins ekki við. Sérstaklega er því andmælt að báðir eigendur stefnda telji að fullu þann tíma sem í þetta fór til vinnu á útseldu kaupi arkitekta. Þá er mótmælt þeim vinnustundum sem skráðar séu vegna menningarmiðstöðvar, þar sem stefnda hafi frá upphafi mátt vera ljóst „að þær hugleiðingar áttu ekki undir það verkefni sem áfrýjandi undirbjó“ og geti áfrýjandi ekki átt aðild að meintum kröfum sem því tengjast.
III.
Stefndi kveður Þorstein Jónsson hafa fengið sig til að vinna að hugmyndum um deiliskipulag og uppbyggingu frístundabyggðar og menningarmiðstöðvar að Hellnum. Upphafleg vinna á árinu 2002 „hafi byggst á þeirri venju á umræddu sviði, að um öflun verkefnis væri að ræða, sem ekki hefði verið ætlunin að krefja um greiðslu fyrir sérstaklega, ef ekkert framhald yrði á verkefninu.“ Haft hafi verið samband við stefnda á ný í ársbyrjun 2003 og hann beðinn um frekara vinnuframlag. Þar með hafi nefndar forsendur frá árinu áður ekki lengur átt við. Stefndi mótmælir því að honum hafi frá upphafi verið ljóst að forsenda þess að hann yrði ráðinn til verksins væri að fjárfestar myndu fást og að þeir myndu samþykkja stefnda sem arkitekt að því. Munnlegur samningur hafi komist á. Áfrýjandi hafi nýtt sér vinnu sem hafi verið unnin í samræmi við það og notfært sér að vísa til eigenda stefnda sem arkitekta við verkefnið. Samkvæmt þessu beri áfrýjanda að greiða fyrir vinnu stefnda.
Stefndi kveður áfrýjanda tefla fram nýjum málsástæðum fyrir Hæstarétti. Mótmælir hann þeim sem of seint fram komnum og haldlausum. Í héraði hafi ekki komið fram mótmæli við einstaka þætti í reikningi stefnda. Stefndi kveður tímaskráningu eðlilega og tímar vegna funda og kynnisferða hafi verið hluti af störfum hans í þágu áfrýjanda. Þá hafi áfrýjandi ekki byggt á þeim málsástæðum sem lúti að meintri aðild Menningarmiðstöðvarinnar Hellnum ehf. Upplýsingar úr hlutafélagaskrá um þetta einkahlutafélag hafi verið lagðar fram við upphaf aðalmeðferðar í héraði, en bókuð hafi verið mótmæli stefnda við framlagningunni.
IV.
Það var sameiginlegur skilningur aðila að vinna sú sem stefndi innti af hendi á árinu 2002 væri liður í tilraun til að hrinda hugmynd Þorsteins Jónssonar um uppbyggingu á Hellnum í framkvæmd. Þegar stefndi var aftur beðin um að koma að verkefninu ári síðar með því að taka þátt í kynningu fyrir hugsanlegum fjárfestum og útfæra nánar þær hugmyndir sem þegar voru uppi, mátti hann líta svo á verkefnið væri komið á annað stig. Viljayfirlýsing sú sem Þorsteinn og hinir erlendu aðilar undirrituðu átti samkvæmt efni sínu að vera undanfari samnings um byggingu menningarmiðstöðvar á Hellnum. Stefndi var ekki aðili að yfirlýsingunni en í 1. lið hennar segir: „Jan Nordsteinen (svo) og Ólöf Flygenring ganga eftir því sem unnt er frá fullunnum byggingarteikningum að MENNINGARMIÐSTÖÐ, þar sem lögð skal sérstök áhersla á fyrsta byggingaráfanga. Arkitektarnir tveir skulu taka mið af viðunandi verði með tilliti til íslensks markaðsverðs.“ Samkvæmt öðrum liðum viljayfirlýsingarinnar er arkitektunum ætlað að taka þátt í að „senda inn byggingarumsóknir til sveitarfélagsins í Snæfellsbæ án óeðlilegra tafa“ og í að gera „viðskiptaáætlun og einnig rekstraráætlun, fjárfestingaráætlun og fjármögnunaráætlun.“ Frá 26. febrúar til 13. apríl 2003 nemur skráð vinna stefnda 97.5 klukkustundum, en á árinu 2002 eru 35 tímar skráðir. Mátti stefndi líta svo á að verkefnið væri með þessu komið af kynningarstigi og vænta greiðslu fyrir vinnuframlag sitt við það nema öðru vísi væri um samið. Áfrýjandi hefur ekki sannað að vinna stefnda hafi átt að vera án endurgjalds og að undirbúningsvinnan sem innt var af hendi árið 2002 hafi átt að vera undanskilin ef framhald yrði á verkefninu.
Varakrafa áfrýjanda er annars vegar á því byggð að hann beri ekki ábyrgð á þeim þætti verksins sem lúti að vinnu vegna menningarmiðstöðvar. Hins vegar byggir hann hana á því að hinn umkrafði reikningur sé of hár af ástæðum sem fyrr greinir. Í héraði var varakrafa áfrýjanda einungis byggð á því að ekki bæri að greiða fyrir annað en útlagðan kostnað. Síðari málsástæður áfrýjanda sem að þessu lúta teljast of seint fram komnar og koma því ekki til álita.
Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
V.
Ekki verður hjá því komist að finna að því hvernig héraðsdómur er saminn. Ekki eru gerð skýr skil á milli málsatvikalýsingar dómsins sjálfs og tilvísana til fullyrðinga aðila og í dóminum er að finna villur af ýmsu tagi. Í niðurstöðukafla er fjallað um kröfu á hendur varastefnda á undan kröfu á hendur aðalstefnda. Á skortir að gætt sé ákvæða 3. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um að dómar skuli vera stuttir og glöggir.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hellisvellir ehf., greiði stefnda, Arkitektum Ólöfu og Joni ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. júlí 2006.
Mál þetta var dómtekið 8. júní sl.að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Arkitektar Ólöf og Jón ehf., kt. 452297-2759, Mjóuhlíð 4, Reykjavík, en stefndu eru Hellisvellir ehf., kt. 520901-2480, Haukanesi 15, Garðabæ og Þorsteinn Jónsson, kt. 060653-5699, sama stað.
Umboðsmaður stefnanda er Vilhjálmur Bergs hdl., en umboðsmaður stefndu er Einar Sigurjónsson hdl.
I. Dómkröfur.
1. Stefnandi krefst þess, að stefndu verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð 1.101.267 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. júlí 2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.
2. Stefndi gerir aðallega þá kröfu, að þeir verði sýknaðir af kröfu stefnanda, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að mati réttarins úr hendi stefnanda og að virðisaukaskattur leggist ofan á málflutningsþóknunina.
II. Málavextir.
Í febrúar árið 2002 leitaði stefndi Þorsteinn Jónsson til stefnanda vegna hugmynda hans um að reisa frístundabyggð og menningarmiðstöð í landi Brekkulækjar á Hellunesi á Snæfellsnesi. Stefnandi var í framhaldi af þessu falið að gera uppkast, hanna og teikna upp hugmyndir að uppbyggingu á svæðinu og munu arkitektar stefnanda hafa farið ásamt stefnda Þorsteini að Hellnum í því sambandi. Haustið 2002 stofnaði svo stefndi Þorsteinn og Íslenskir aðalverktakar hf. félagið Hellisvellir ehf. í þeim tilgangi að reisa frístundabyggð á landinu eftir hugmyndum stefnda um vistvæna byggð í gömlum byggingarstíl, sem helst skyldi líkjast gömlu "katalóg” húsunum. Stefnandi kvað stefnda Þorstein hafa haft samband við hann á ný og falið honum að vinna enn frekar með hugmyndir að uppbyggingu á svæðinu, skipulagi o.fl. og jafnframt upplýst, að framkvæmdir myndu hefjast innan tíðar.
Í febrúar, mars og apríl það ár hafði stefnandi unnið að hugmynda- og hönnunarvinnu vegna uppbyggingar á svæðinu og hafði m.a. verið í sambandi við starfsmenn sveitarfélagsins, verkfræðinga og aðra aðila m.a. smiði á vegum stefndu vegna þessa. Þessar hugmyndir, teikningar og skissur hafi svo verið notaðar til kynningar á hugmyndinni með fjárfestum, sveitarstjórnarmönnum og opinberum aðilum. Stefnandi tók fram, að það hafi ekki síst verið vinnu stefnanda að þakka að samningar náðust við opinbera aðila, svo sem umhverfisstofnun og sveitarstjórnar-menn og svo fjárfesta um að gera hugmyndina að veruleika.
Fram kemur hjá stefnda að Íslenskir aðalverktakar hf. hafi ekki haft áhuga á að eiga og reka mannvirki á Hellnum, en sýnt áhuga á að byggja og selja og út frá þeim hugmyndum hafi verið lagt af stað með verkefnið og hafði stefndi Þorsteinn í samráði við Jón Nordsteien arkitekta lagt til við stefnda Hellnavelli ehf., að Jón yrði fenginn til verksins, um teikningar ofl., en þó hafi aldrei orðið nein niðustaða um að setja verkefnið í gang og því ekki um neina ráðningu að ræða við Jón. Stefndi kannaðist við að hafa kynnt hugmyndir sínar um frístundabyggð fyrir Jón Nordsteien á heimili sínu og fengið hann til að koma á staðinn og sækja kynningarfundi um nýtt aðalskipulag svæðisins, en stefndi kvaðst ekki hafa óskað eftir neinni vinnu af hendi Jóns varðandi deiliskipulag hins væntanlega svæðis og var stefnda ekki kunnugt um, að Jón hafi gert að því nokkrar tillögur.
Þegar ljóst hafi orðið að Íslenskir aðalverktakar hf. ætluðu ekki að koma að uppbyggingu á Hellnum, kvaðst stefndi hafa leitað til noskra aðila um þátttöku í verkefninu og kynnt það fyrir tveimur norskum aðilum og jafnframt lagt til að samið yrði við Jón Nordsteien um arkitektavinnu. Hópur byggingaraðila frá Kvindehéraði í Noregi undir forystu Aksels Klosters, bæjarstjóra, sýndi áhuga á að taka þátt í verkefninu og var boðið í kynningarferð til að skoða svæðið og ræða við sveitarstjórnarmenn og var Nordsteien boðið að taka þátt í þessari för og hafi svo stefndi og Jón verið sitt í hvoru lagi í viðræðum við þessa norsku aðila, en ekkert orðið úr samningum.
Verkefnið hafi samt verið kynnt áfram í Noregi og í mars 2003 hafi komið nýr hópur áhugasamra Norðmanna til landsins og hafi þá orðið niðurstaða að þeir keyptu hlut Í.A.V. í verkefninu og stendur einn þessara aðila að verkefninu í dag. Norskir arkitektar höfðu þá frá upphafi verið þátttakendur í verkefninu, en stefndi kvaðst hafa óskað þess strax, að Jon kæmi að verkefninu sem samstarfsaðili.
Undirbúningstími stefnda að verkefninu hefur tekið um fimm ár, en 27. júlí 2005 skrifaði umhverfisráðherra undir nýtt aðalskipulag að Hellnum og var þá mögulegt að hefjast handa og setja verkefnið af stað. Ákveðið var að nota teikningar frá norsku arkitektastofunni, en fá svo íslenska arkitekta til að gera deiliskipulag fyrir næstu áfanga og að teikna einstaka byggingar eftir því sem þörfin kallaði á. Í ársbyrjun 2005 hafði lögmaður stefnanda sent stefnda kröfu um greiðslu vegna vinnu stefnanda að verkefninu. Stefndi Þorsteinn hafði þá haft samband við stefnanda og tjáði honum, að kröfur hans væru með öllu óraunhæfar og úr öllu samhengi við veruleikann, að hann ynni hörðum höndum að því að fá Jón Nordsteien samþykktan að verkefninu. Stefnandi hafði þá haldið að sér höndum með innheimtuna. Í nóvember 2005 hafði norski byggingaraðilinn komið til Íslands og hafi verið reiðubúinn að hitta Jón og leita samninga við hann um aðkomu hans að verkefninu þar sem nýjir fjárfestar væru komnir að og hugmyndir hefðu breyst að einhverju leyti frá því sem upphaflega var stefnt að. Stefnandi hafði hins vegar hafnað viðræðum við stefnda Þorstein um frekari verkefni, fyrr en gengið væri frá þeim reikningi sem málið er höfðað út af.
III. Málsástæður og lagarök.
1. Krafa stefnanda er byggð á einum reikningi vegna arkitektaþjónustu fyrir stefndu og er hann gefinn út 15. júní 2004 með gjalddaga 20. júlí 2004 og er að fjárhæð 1.101.267 krónur.
Byggt er á því að stefndi beri greiðsluskyldu gagnvart stefnanda á umræddum reikningi. Þjónustan hafi verið unnin í þágu stefnda skv. óskum varastefnda, fyrirsvarsmanni stefnda. Umrædd þjónusta hafi verið í tímavinnu og er reikningur unninn upp úr tímaskýrslum stefnanda.
Upphæð reikningsins beri ekki annað með sér en að vera sanngjörn og eðlileg m.v. þá vinnu sem innt hafi verið af hendi fyrir stefnda. Stefndi hafi ekki gert neinar athugasemdir við vinnu stefnanda og ekki sé annað vitað en að hann hafi verið ánægður með þá þjónustu sem stefnandi hafi innt af hendi. Stefnda hafi verið sent innheimtu- og áminngarbréf vegna málsins og hafi stefndi ekki mótmælt reikningi.
Umrætt verk hafi verið unnið í þágu stefnda skv. beiðni varastefndu í málinu, eins og áður sagði. Stefnandi hafi talið sig vera að vinna verkið fyrir stefnda, enda hafi varastefndi komið fram sem fyrirsvarsmaður þess félags og hafði stefnandi ekki ástæðu til að ætla annað en að hann hefði fulla heimild til þess að skuldbinda stefnda á þennan hátt. Verði á einhvern hátt talið að aðalstefndi sé ekki skuldbundinn til greiðslu reikningsins vegna þess að varastefndi hafi ekki haft umboð til þess að skuldbinda hann á þennan hátt, sé á því byggt að varastefndi hljóti að vera skuldbundinn sjálfur til greiðslu hans. Á þeim grundvelli sé varastefnda stefnt til vara í málinu.
Stefnandi vísar til almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Vísað til laga um þjónustukaup nr. 42/2000, einkum 28. gr. Vísað sé til II. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 1. og 2. mgr. 10. gr. laganna. Þá sé vísað til 2. mgr., sbr. 1. mgr., 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Kröfu um dráttarvexti styðji stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, einkum 5. gr. og 6. gr.
Kröfu um málflutningsþóknun styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr.
2. Sýknukrafa stefndu byggist á verulegum athugasemdum sem hann gerir við stefnukröfurnar hann telur rangar. Stefnanda hafi mátt sem arkitekt vera ljóst að ekki hafði verið gerður við hann samningur auk þess sem ekki var búið að fjármagna verkið. Stefndi Þorsteinn hafi einungis verið hluthafi í Hellisvöllum ehf. og komið fram fyrir þeirra hönd.
Stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu að stefnanda Jóni Nordsteien hafi verið falið "að gera uppkast, hanna og teikna upp hugmyndir að uppbyggingu á svæðinu". Þetta sé alrangt. Slík beiðni hafi aldrei komið frá stefnda og því síður að samið væri um slíkt. Á þessum tíma hafi allt verið ljóst um aðkomu fjárfesta að verkefninu. Stefnda hafi verið ljóst á þessum tímapunkti að áður en til samninga við Jón kæmi yrði baklandið að vera tryggt með fjárfesti að verkinu, því að Jón hafði látið orð falla um að áður en hægt yrði að byrja að teikna deiliskipulagið þyrfti hann a.m.k. 500-600 klukkustundir til að hugsa "konseptið". Það hafi því verið viðvörunarbjöllur sem höfðu klingt í ársbyrjun 2002.
Jafnframt sé mótmælt þeirri fullyrðingu í stefnu að í febrúar 2003 hafi Jóni verið "falið að vinna enn frekar með hugmyndir að uppbyggingu á svæðinu, skipulag o.fl.". Á þessum tímapunkti hafði stefndi búið til stórt líkan að fyrirhugaðri Menningarmiðstöð til að kynna fyrir Umhverfisstofnun með það í huga að þeir gerðust leigjendur í húsnæðinu með gestastofu. Þetta líkan og teikningar stefnda hafi verið notaðar til að kynna framtíðarhugmynd um starfsemi Menningarmiðstöðvar á Hellnum. Á þessu stigi fullyrðir stefndi að Jón Nordsteien hafi boðist til að gera sína frumtillögu að Menningarmiðstöð "á eigin ábyrgð". Þessa hugmynd kynnti hann síðar fyrir stefnda og byggingarverktakanum Jóni Líndal. Rétt sé að leggja áherslu á það hér að á þessu stigi sagðist Jón Nordsteien ekki vilja afhenda þessar teikningar til sýningar nema að gerður væri við sig samningur um að hann yrði ráðinn sem arkitekt fyrirhugaðs húss.
Það hafi verið ótímabært og því hafi stefndu aldrei getað notað þessar teikningar, þó að þeir hefðu viljað. Það sé því alfarið rangt að teikningar hans hafi verið notaðar í samningaviðræðum við Umhverfisstofnun eða við fjárfesta.
Fyrir rúmu ári hafi Jón Nordsteien verið boðaður til fundar við hina norsku aðila á Hótel Sögu, þar sem honum hafi verið kynntar teikningar norskrar arkitektastofu. Jóni hafi verið kynnt að leitað yrði til hans um samstarf þegar verkefnið gæti hafist hér á landi, því hugmyndir væru um að fara ekki eftir þeim teikningum norsku arkitektastofunnar sem honum hafi verið sýndar, heldur að fara eftir fyrstu hugmyndum stefnda um "norsk katalóghús", og að stefndi teldi hann hæfan til þess verks. Þetta hafi allt gengið eftir og honum verið tilkynnt þetta skömmu eftir að aðalskipulagið hafði verið samþykkt.
Stefnandi hafi frá upphafi viðræðna við stefnda vitað að ekki yrði hægt að ráða hann til starfa í sambandi við verkefnið á Hellnum, nema að fjárfestar fengjust til verksins og að þeir myndu vilja hann sem arkitekt að því. Hann hafi þá verið tilbúinn að vera með ef það tækifæri byðist og að verkefnið yrði sett í gang. Þó svo að arkitektastofan sé rekin af þeim hjónum, hafi viðræður um hugsanlega ráðningu þó eingöngu verið við hann.
Að framansögðu megi ljóst vera að stefndi mótmæli alfarið málatilbúnaði stefnanda. Stefndi hafi kynnt verkefni sitt og hugmyndir fyrir stefnanda í því augnamiði að fá hann til samstarfs, ef fjárfestar kæmu að verkefninu. Viðræður hafi þó aldrei náð það langt að til samninga kæmi um arkitektavinnu, hvorki að teikningu Menningarmiðstöðvar né að deiliskipulagi Þorpsins undir Jökli.
Stefnandi hafi komið að verkinu í þeirri von að hann yrði ráðinn til verksins sem svo varð ekki. Ekki hafi verið notaðar tillögur frá honum. Ekki hafi komist á samningur milli stefnda Hellisvalla ehf., hvað þá síður milli stefnda Þorsteins og stefnanda enda ekki upplýst í málinu annað en að félagið Hellisvellir ehf. hafi verið stofnað í kringum það verkefni sem um ræðir og sé samningsaðili gagnvart öðrum sem að verkinu komi.
Reikningur á dómskjali nr. 2, sé gerður á hendur stefnda Hellisvöllum ehf. en ekki stefnda Þorsteini því verði vandséð hvernig dæma á hann til greiðslu reiknings sem ekki sé gerður á hann, ber því að sýkna hann vegna aðildarskorts eða vísa fjárkröfum á hendur honum frá dómi ex officio.
Sú krafa sé gerð að stefnandi viti við hvern hann taldi sig vera að semja og sé kröfugerð að þessu leyti svo ónákvæm að leiða eigi til sýknu.
Stefndi Þorsteinn sé höfundur að þeirri hugmynd sem stuðst hafi verið við uppbyggingu á Hellnum og njóti því höfundarréttar að þeirri hugmynd.
Stefndi Þorsteinn sé einn af hluthöfum í Hellisvöllum ehf., hafi komið að þessu máli sem fyrirsvarsmaður félagsins og á hann verði ekki felld persónuleg ábyrgð í máli þessu, enda reikningur ekki gerður á hann sbr. hér að framan. Enginn samningur sé til um í hverju verk stefnanda skuli fólgið. Það sé ekki næg málsástæða að aðrir arkitektar komi að verki þegar upplýst sé í málinu að stefnandi skyldi koma að verkinu síðar ef samningar næðust.
Varakrafa stefnda Hellisvalla sé á því byggð, að ef ekki verði fallist á sýknukröfu stefnanda beri ekki greiðslur fyrir annað en útlagðan kostnað ef sýnt er fram á hann.
Stuðst sé við meginreglur kröfu og samningaréttar samningal. nr. 7/1936 og lög um kröfurétt nr. 50/2000 auk höfundarréttar og um virðisaukaskatt.
Málskostnaðarkrafa stefnda byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 130. gr., en krafa um virðisaukaskatt af málflutningaþóknun byggi á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnanda.
IV. Sönnunarfærsla.
Í málinu gáfu aðilaskýrslur fyrirsvarsmaður stefnanda Jón Ívar Nordsteien, kt. 180756-2139, Mjóuhlíð 4, Reykjavík og Ólöf Flygenring, kt. 100955-4669, Mjóuhlíð 4, Reykjavík og fyrir stefnda Hellisvelli ehf., gaf aðilaskýrslu Þorsteinn Jónsson, kt. 060653-5699, Haukanesi 15, Garðabæ.
Vitni báru í málinu Stefán Benediktsson, kt. 201041-3769, Miklubraut 62, Reykjavík, Jón Pétur Líndal, kt. 060364-4949, Birkimóa 8, Borgarnesi og Geir Olaf Rusten, kt. 180554-6987, 5451 Valen, Noregi.
Þá var lögð fram svohljóðandi yfirlýsing frá Hildigunni Haraldsdóttur, kt. 080654-4219, arkitekt, sem ekki var sérstaklega mótmælt, en þar vottar hún eftirfarandi, en hún er dags. 5. júní 2006.
"1. Þann 6.2.2002 var haldin kynning á drögum aðalskipulags Snæfellsbæjar fyrir Hellnar og Arnarstapa, sem ég er höfundur að. Á þessum fundi voru sveitarstjórnarmenn, þjóðgarðsvörður o.fl. Á fundinum voru einnig Þorsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Hellisvalla ehf., en hann hafði uppi hugmyndir um uppbyggingu frístundabyggðar og menningarmiðstöðvar á Hellnum. Í fylgd hans var Jón Nordsteien arkitekt, og kynnti Þorsteinn hann sem sinn arkitekt vegna fyrirhugaðrar byggðar og kom fram að hann myndi sjá um gerð deiliskipulags á svæðinu. Ég nefndi við Þorstein að mér litist vel á val hans á arkitekt og óskaði Jóni til hamingju með verkið.
2. Jón Nordsteien var nokkrum sinnum í sambandi við mig eftir kynninguna og bað um aðalskipulagsgögn vegna vinnu sinnar. Hann fékk gögn frá mér, enda taldi ég ljóst að hann væri að vinna fyrir Þorstein Jónsson að hugmyndavinnu og deiliskipulaga á svæðinu."
Í skýrslu sinni hér fyrir dómi rekur Jón Ívar Nordsteien atvik í málinu með svipuðum hætti og kemur fram í greinargerð hans og Ólafar Flygenring merkt dómskjal nr. 8.
Fyrirsvarsmaður stefnanda Jón Ívar Nordsteien, kvað Þorstein Jónsson hafa haft samband við hann haustið 2001 og hann farið á fund hans að hans frumkvæði. Hann hafi viljað fá þau, þ.e.a.s. Jón og konu hans Ólöfu til samstarfs um hugmyndir sínar frístundaþorps og uppbyggingu menningarmiðstöðvar að Hellnum. Orsök þesss að hann leitaði samstarfs við hann eða við þau taldi hann vera að þau hafi verið með eða unnið að aðalskipulagi og deiluskipulagi og teiknað hús í margvíslegum stíl á Eyrarbakka.
Hugmyndir hans hafi verið að byggja upp einskonar þorp á Hellnum í gömlum stíl, en þau hafi mikið unnið að endurbyggingu gamalla húsa og hann var á þessum tíma að vinna að verkefni fyrir norska sendiráðið og húsfriðunarnefnd um gerð bókar um norsk hús á Íslandi. Þá kvað hann það hafa skipt máli að hann var norskur og Þorsteinn var á þessum tíma í viðræðum við norska fjárfesta um þetta verkefni og hafi ekki þótt verra að hann var norskur. Í febrúar 2002 hafði Þorsteinn samband aftur og vildi hann fá þau með að Hellnum í sambandi við kynningu á aðalskipulagi á Snæfellsnesi, sem Hildigunnur Haraldsdóttir var að vinna að og var hugmyndin kynnt á Arnarstapa. Þau fóru með í þessa ferð, skoðuðu þessa kynningu og skoðuðu í leiðinni þetta svæði sem hann eða fyrirtækið Hellisvellir ehf. áttu og einnig húsin undir fyrirhugaða menningarmiðstöð. Þetta hafi svo endað með því að þau samþykktu að beiðni og fyrirsögn Þorsteins að vinna að einskonar hugmyndatillögu um menningarmiðstöð og hótel og deiluskipulag í kringum það á Hellnum. Hún kvað það algengt meðal arkitekta, bæði í sambandi við arkitektasamkeppni og annað að lögð væru fram einhver gögn eða hugmyndir í sambandi við verkefni í von um að fá vinnu við þau. Á þessum tíma samþykktu þau að leggja takmarkaða vinnu svokallaða heimildarvinnu í sambandi við gestamóttöku og hótel. Það hafi verið fundað um þetta á þeirri forsendi hvað væri hægt að gera með þessi gömlu fjárhús, sem hugmyndin var þá að endurbyggja sem menningarmiðstöð og var unnin tillaga af hálfu stefnanda frá byrjun mars. Frumdrög eða fyrstu mugmyndauppdrættir sem voru bæði símsend til Þorstein og einnig fékk hann þau afhent. Hann setti þessar teikningar í hugmyndabækling sinn fljótlega á eftir. Á þessu tímabili hafi ekki verið farið fram á greiðslu fyrir þessa vinnu, enda hafi legið kortunum að þetta var vinna sem þau lögðu fram til að kynna verkefnið, til að finna verktaka til að sýna og til að sanna hvað í þeim bjó í von um að fá verkið. Þau hafi farið bara dælt á þetta. En meira var ekki gert á árinu 2002, en þau hafi verið í sambandi við Þorstein og hann var að tala við norska fjárfesta. Svo hafi Þorsteinn haft aftur samband við þau í janúar eða í byrjun febrúar 2003 og sagt þeim að nýir fjárfestar væru sennilega komnir að verkefninu. Á þessum tíma hafi verið barátta á milli Arnarstapa og Hellna um að fá gestastofu fyrir þjóðgarðinn og var menningarmiðstöðin þá inni í myndinni og varð svo úr að hún var gestastofa fyrir þjóðgarðinn sunnan við Snæfellsjökul. Var og samkeppni um aðra það er á Hellissandi. Þetta hafi því litið nokkuð vel út fyrir þau. Hann leit svo á að framlag þeirra á undan, það er tillaga hafi borið árangur. Þorsteinn hafi notað þetta til að selja sínar hugmyndir, bæði gagnvart Náttúruvernd ríkisins, hugsanlegum fjárfestum og öðru. Hann hafi notað þetta í þróun sinni á verkefninu. Málin hefðu komist áfram með skissutillögum frá þeim og nú væri verkefnið að komast í gang. Snemma í febrúar fóru þau á fund þar sem módel sem Þorsteinn hafði gert um hvernig hann hugsaði sér þessa menningarmiðstöð og gestamóttöku fyrir þjóðgarðinn. Þá vildi hann að þau færu að vinna með þetta módel með það að markmiði að gera deiliskipulag fyrir það litla svæði sem menningarmiðstöðin og gestamóttakan átti að vera á og svo að koma þessu í gegnum bygginganefnd og gera vinnuteikningar, þannig að þessi bygging gæti komist upp fyrir 17. júní. Hann kvaðst hafa spurt hvað þau fengju út úr þessu. Þau vissu að á þessum tíma voru ekki komnir fjárfestar og það hafi komist á samningur við Náttúruvernd ríkisins. Þetta var á viðkvæmu stigi og hann þurfti hins vegar á þessum teikningum og hönnun að halda, til að geta selt þetta verkefni og til þess að geta fengið fjárfesta og samning við Náttúruvernd ríkisins. Hann kvaðst hafa tekið viss áhættu í þessu sambandi, en legið hafi fyrir, að ef eitthvað yrði úr þessu að þá myndu þau fá vinnu við verkefnið. Það hafi verið þeirra munnlegi samningur. Hann kvað það kannski hafa verið asnalegt að fara út í svona mikla vinnu án þess að hafa skriflegan samning, en þetta var gert. Svo hafi verið sífelldar umræður fram og til baka svo mánuðum skipti um að það mynda kom einhver sendinefnd frá Noregi. Fyrst hafi komið Roth Grimsted, sem hann taldi hafa verið varasaman, en svo hafi komið annar hópur, frá Kvinnshéraðs Kommone til greina og hafi þá Geir Rusten verið fyrir þeim hóp. Í millitíðinni höfðu þau beðið Þorstein að fá einhverskonar rýmisáætlun í sambandi við viðræðurnar við Náttúruvernd ríkisins eða Umhverfisstofu ríkisins, þ.e. þá stærð á húsnæði sem Umhverfisstofnun ríkisins taldi sig þurfa í gestamóttöku á Hellnum, sem var nauðsynlegt til að geta teiknað húsið. Svo var haft samband við Stefán Benediktsson hjá Náttúruvernd ríkisins og þau fóru á fund við hann með Þorsteini Jónssyni að hans frumkvæði og fyrir milligöngu hans. Hjá Náttúruvernd ríkisins var rætt um þessa rýmisáætlun og voru þau komin á þennan fund sem arkitektar að verkefninu, með hugsanlegum verkkaupa eða leigutaka að húsnæðinu og var fundurinn í mars. Enginn hönnunarvinna var þá komin í gang, mest voru þetta umræður um rýmisstærðir og forsendur. Ljós var að ekki voru komnir peningar í verkið. Þau hafi verið taugastrekkt, þar sem að til stóð að byggja húsið á þremur mánuðum. Í lok mars kom svo norska sendinefndin og það undirbúið af þeim og Þorsteini og voru þauí stöðugu sambandi við Þorstein vegna þess, í marsmánuði. Meðal annars var fundað um þátttöku og hlutverk þeirra í þessari ferð. Hann hafi beðið þau að taka þátt í þessum fundum og ferðum með sendinefndinni. Það hafi bæði verið gert til þess að hnýta tengsl og koma á samböndum við þessa Norðmenn og einnig voru verktakar með í för, sem hugsanlega áttu að vinna þetta verkefni og var mjög mikilvægt ef þetta átti að gerast á svona stuttum tíma að geta náð sambandi við þetta fólk. Í sendinefndinni voru Geir Rusten og með honum tæknimaður frá hans fyrirtæki, kona hans sem var eigandi fyrirtækisins og svo Axel Kroster, sveitarstjóri í sveitarfélagi Kvinnshéraðs sem þau komu frá og einnig kom hann með vegna yfirlýsingar sem gefin hafði verið um norrænt samstarf í sambandi við verkefnið, en hugsanlegt var að styrkur fengist út úr einhverjum byggingarþróunarsjóði í Noregi, sem hann var í tengslum við. Þau hafi tekið þátt í þessari skoðunarferð út að Hellnum með þessum norsku aðilum í lok mars. Þá var skoðað bæði svæðið undir fyrirhugaðan golfvöll og frístundabyggð og þó sérstaklega skoðuð fjárhúsin sem átti að endurbyggja sem menningarmiðstöð og gestamóttöku og var markmiðið með þeirri skoðun hvort norsku fjárfestarnir og verktakarnir myndu kaupa sig inn í verkefnið og hvort það var praktískt að endurbyggja þessi gömlu hús og hvernig það yrði gert og hvort þau væru nothæf til þess. Meðal annars hafði Geir Rusten með honum tekið þátt í að mæla húsið upp og höfðu farið fram einhverjar úttektir í sambandi við það. Morguninn áður hafði verið fundur hjá Náttúruvernd ríkisins með Stefáni Benediktssyni og þeim Jóni og Ólöfu, Þorsteini og norsku sendinefndinni og fleirum. Þar voru þau kynnt sem arkitektar verkefnisins af hálfu Þorsteins. Svo voru skoðuð hús á Árbæjarsafni og voru hugmyndir um að frístundaþorpið liti út eins og torfbæir eða torfbæjarborg. Svo var farið að Hellnum þar sem boðið var til kvöldverðar hjá Gulla Bergmann og frú með sveitarstjórnarmönnum frá Snæfellsbæ, m.a. Kristjáni Jóassyni sveitarsstjóra og tóku þau þátt í þessum umræðum og var Jon túlkur milli Norðmanna og Íslendinga. Voru þau í ferðinni að frumkvæði og beiðni Þorsteins Jónssonar. Daginn eftir þetta var haldið lokahóf heima hjá Þorsteini með sendinefndinni og þar var undirrituð viljayfirlýsing sem Axel Kloster sveitarstjóri átti frumkvæði að og var mest fögur orð um norræna samvinnu. Þar hafi þau verið orðuð sem arkitektar verkefnisins. Þegar þessar ferð var lokið og það leit út yfir að þessi norsku verktakar eða fjárfestar vildu taka þátt í verkefninu, lagði Þorsteinn hart að þeim að byrja að hanna þetta með það að markmiði að fá byggingarleyfisumsókn og farið yrði að byggja og náttúrlega til þess að sýna að þetta var raunverulegt verkefni og til að sýna teikingar til að komast enn nær því markmiði að ná samningi við Umhverfisstofu um leigu sem hann hafði náð í maí einhverntíma. Þau voru þá farin í gang með undirbúningsvinnu og frumdrög um að endurbyggja fjárhúsin sem menningarmiðstöð. Það var farið með verkfræðingi og Jóni Líndal verktaka út að Hellnum til að skoða húsin nánar með tilliti til þess hvað væri hægt að endurnota af gömlu efni. Svo var farið að teikna og voru miklar umræður um rýmisáætlun, þar sem ekki lá enn fyrir undirritað það sem þau voru búin að fá frá Umhverfisstofu. Svo hafi komið í ljós að það náðust ekki samningar milli norsku fjárfestanna og Þorsteins Jónssonar. Þá hafði Geir Rusten samband við þau til að fá út hvað Þorsteinn væri að meina. Þorsteinn var ekki ánægður með milligöngu þeirra og ásakaði þau um að tala illa um sig. Það var alveg ljóst á þessum tíma að eitthvað var í gangi. Í byrjun apríl voru þau komin vel í gang með hönnunarvinnuna og voru með þetta uppi á borði, en þá kom eitthvað babb í bátinn. Þorsteinn vildi fá teikningar en vildi ekki borga þeim eða veita þeim bankaábyrgð vegna vinnunnar, né vildi hann gera við þau samning. Hann vildi ekki borga né skrifa undir samning en bar við að þetta væri alveg að koma og vísaði til bankaferða. Þá myndi hann skrifa undir og lagði því hart að þeim að vinna á meðan og vildi fá teikningar. Jon neitaði að afhenda teikningar, enda ekki um fullgerðar teikningar að ræða heldur frumdrög. Um 10. apríl komst það á hreint að þau hættu að vinna ef þau fengju ekki greiðslu. Þau voru líka í sambandi við aðilana í Noregi sem náðst saman með þeim og Þorsteini en hann hafi alltaf verið að breyta kröfunum og var ljóst að Geir Rusten vildi heldur ekki taka ábyrgð á vinnu stefnanda. Eftir 10. apríl unnu þau því ekki lengur við verkefnið en höfðu þó af og til samband við Þorstein og einnig hafði Jón Líndal samband við þau og var að tala um að forsendur væru breyttar og frestur hefði verið lengdur til að reisa menningarmiðstöð. Um miðjan maí hafði Þorsteinn svo hringt í þau og var þá búið að undirrita samning við Umhverfisstofu um að leigja húsnæðið fyrir gestastofu og jafnframt talaði hann um að nýir fjárfestar væru að koma að verkinu en vildi ekki segja hverjir það væru. Hann var því búinn að ná því markmiði að fá Umhverfisstofu inn í þetta og töldu þau að vinna þeirra þetta vor hafi verið hluti í því að gefa verkinu trúverðugleika og gera það sannfærandi til að fá náð hjá Umhverfisstofu og hinum nýju norsku fjárfestum. Þorsteinn hafði svo enn haft samband við hann í júlí þetta sumar og spurt hvort þau hefðu áhuga á að vinna saman með norskum arkitektum, sem voru á vegum hinna nýju fjárfesta. Þau voru jákvæð gagnvart því, en heyrðu svo ekkert meir fyrr en þau lásu í Morgunblaðinu í september að gestastofa hefði verið opnuð að Hellnum. Hann lét þau því ekki einu sinni vita að aðrir arkitektar hafi komið í verkið, teiknað það og húsið svo verið byggt samkvæmt því. Þau hafi þó samt verið í þeirri trú að Þorsteinn myndi borga þeim fyrir þeirra vinnu. Þau hafi verið 200-300 verkefni á 15 árum, en aldrei lent í þessu áður, utan þess að lenda í stappi við tvo menn um greiðslu. Haustið 2003 voru þau á fundi með þessum nýju norsku fjárfestum, sem voru meðeigendur Þorsteins að verkefninu, vegna þess að þau vildu fá borgað og af því að þau vildu fá sinn hluta af kökunni, sem þeim hafi verið lofað að þau myndu fá. Það var fyrirhuguð mikil uppbygging og áttu þau að fá vinnu við það. Það talaði við Thor Öregaard sem var og meðeigandi og hann hafi lofað þessu haustið 2003 og svo aftur vorið 2004. Þau höfðu þá hugsað sér að bíða og sjá hvort eitthvað gerðist þetta sumar. Það heyrðist ekki neitt, né gerðist neitt og hafi þetta endað með því að þau gáfust upp og sendu stefnda reikning í júlí 2004. Hann kvað Hellisvelli ehf, hafa verið nefnt í sambandi við verkefnið. Hann sagði að í apríl er hann hætti vinnu fyrir stefndu, hafi hann verið kominn með rýmisáætlun og verið að vinna í málinu og verið með frumdrög í vinnslu og jafnvel verið kominn yfir í forteikningar, með það að markmiði að fá byggingarleyfisumsóknir. Eftir útsendingu reikninga hafi þeim ekki verið mótmælt af Þorsteini, en öllum umræðum eftir það verið beint að lögmanni stefnanda. Hann kvað Þorstein hafa svikið loforðið við sig og sett verkefnið í hendur annarra, en jafnframt notfært sér þeirra vinnu. Þau hafi hugsanlega getað gert kröfu um að fá borgað fyrir þá vinnu sem þau misstu af. En ef þau eigi að vinna áfram fyrir Þorstein verði að koma til uppgjörs fyrir það sem búið er að vinna. Hann sagði að er hann hafi komið að verkinu, hafi verið búin að vera mikil hugmyndavinna í gangi af hálfu Þorsteins og ekki sé óalgengt af hálfu arkitekta að þeir leggi fram einhverja skissu vinnu til þess að sýna hvað í arkitektinum búi og til að ná í verkefnið og hafi farið 35 tímar í það af þeirra hálfu í von um að fá vinnu við verkefnið. Þegar haft var samband við þau næsta vor og þau fá vinnuna, þá jafnframt gengu þau út frá því að hugmyndin hafi verið keypt sem þau hafi sett fram með skissunum. Hann kvað hafa farið 32 tíma í það sem mætti kalla kynningu á verkefninu þarna um vorið, það er að undirbúa og fara með norsku sendinefndinni í ferðina að Hellnum þar sem hann var og túlkur og hann ekki litið á þetta sem skemmtiferð. Hann kvað ekki hafa verið talað um samninga eða launakostnað í sambandi við þessa vinnu, en það hafi verið eðlilegt að þau hafi fengið að vita kjör sín, þetta hafi allt verið á óljósum grunni fyrst. Hann kvaðst aldrei hafa gert samninga við verkkaupa í sambandi við arkitektateikningar. Stundum hafi verið beðið um kostnaðaráætlun en þá hafi verið búið að skilgreina verkið fyrirfram. Hann vinni yfirleitt þannig þannig að maður byrji á því að átta sig á því hvað á að gera og á hvaða tíma og fer svo í einhverjar viðræður um hvernig eigi að borga þetta og hvað það eigi að kosta.
Ólöf Flygenring er kona Jons Nordsteien og er arkitekt og eigandi stefnanda. Hún staðfesti framburð Jons. Hún sagði að Þorsteinn hefði haft samband við Jon um að taka þetta verkefni að sér og hann hafi viljað fá hana með sér í þetta verkefni, en hann hafi rekið það. Þau hafi rætt verkið og hún teiknað og gert skissur af grunnmyndum og skipulagi að menningarmiðstöðinni og það hafi farið fram umræður um deiliskipulög og hann gert ráð fyrir greiðslu fyrir þetta. Í byrjun hefðu þau lagt inn hugmyndavinnu. Hún kvaðst hafa talið sig vera að vinna fyrir Hellisvelli ehf. eða Þorstein Jónsson. Hún hafi oft hitt Þorstein Jónsson og fleiri og hafi hann samþykkt að þau væru að vinna í þessu verkefni og Þorsteinn hafi beðið um þessi verk. Hún kvað ekki hafa verið gerðan skirflegan samning né drög að honum og hún ekki vanist því að þess hafi þurft í sambandi við fyrri störf. Hún kvað þetta hafa verið eðlileg undirbúningsverk, það er að segja fyrstu skissur séu undirbúningur og ef ekkert meira hefði orðið úr verkinu, hefðu þau látið undirbúningskostnað hjá þeim 35 tíma falla niður, en af verkinu verði komi undirbúningskostnaður inn í gjaldtöku fyrir verkið.
Þorsteinn Jónsson sjálfur og sem fyrirsvarsmaður stefnda, hefur skýrt svo frá atvikum. Hann segir að í ársbyrjun 2001 hafi orðið samkomulag á milli hans og Guðlaugs Bergmanns heitins á Hellnum, um að hann Þorsteinn beitti sér fyrir því að kaupa land úr jörðinni Brekkubæ, sem hann var eigandi að ásamt þrettán örðum. En hann var þá búinn að þróa ákveðnar hugmyndir um að byggja þar upp frístundabyggð, hús í gömlum stíl og var búinn að draga fram punkta frá því sem hann taldi geta orðið skemmtilegt í íslensku frístundalífi, að draga punkta frá Flatey á Breiðafirði, frá Stykkishólmi, frá Eyrarbakka og ýmsum stöðum þar sem gömul norsk catalog hús höfðu verið byggð og stóðu enn og verið búið í kringum þetta eitthvað verkefni. Hann útbjó hugmyndaramma í kringum þetta og gerði skissuhugmynd sem komi fram í gula bæklingnum, sem lagður hefur verið fram í málinu. Það hafi þróast og sé sá bæklingur orðinn þykkt plagg í dag. Þarna um sumarið var gerður samningur um að hann keypti þetta land ef hann fengi fjárfesta að verkefninu. Í september 2001 gerði hann samkomulag við Stefán Friðfinnsson forstjóra Íslenskra aðalverktaka, en hann hafi spurt hann um hvort hann hefði áhuga á því að koma að svona verkefni og eftir umhugsun í einn dag ákvað hann að þeir kæmu með að því að reyna að þróa þetta verkefni. Þá hafi þetta svæði verið skipulagt sem sveitabýli og þurfti að gera af þessu aðalskipulag, en til hafi staðið að breyta aðalskipulaginu á staðnum og lögðu þeir í apríl í ákveðna þróunarvinnu í því sambandi og Stefán hafi verið með kynningu á þessu innan síns fyrirtækis og Þorsteinn hafi kynnt sínar hugmyndir. Þegar ljóst var að Íslenskir aðalverktakar ætluðu að koma að þessu þá hugaði það að því að finna einhvern arkitekt hér heima sem gæti komið að því að þróa þetta verkefni og hann hringdi í Jon Nordsteien, sem hann taldi geta verið hugsanlegur kandidat í þetta verkefni. Hann kynnti það svo á fundi með Íslenskum aðalverktökum hvort þeir gætu sætt sig við að hann yrði arkitekt að verkefninu og þeir verið tilbúnir að skoða það, ef menn sæju fram á að af þessu gæti orðið. Þetta var þá á hugmyndastigi, það er aðalskipulagið og í raun hafi ekkert verið hægt að aðhafast í verkinu fyrr en í júlí 2005. Þetta var hinsvegar að gerast haustið 2001 og í ársbyrjun 2002. Hellisvellir ehf. hafi átt land í Brekkubæjarlandi sem var hugsað fyrir þessa byggð, frístundabyggð. Hann óskaði eftir því við Íslenska aðalverktaka að þeir kæmu með honum að öðru verkefni, það er að breyta útihúsum að Laugabrekku, annarri jörð og önnur eign, jörð í eigu Sigurjóns Sighvatssonar, og þar yrði byggð upp menningarmiðstöð, sem hýsti nokkurskonar sögusafn og starfsemi tengd því og þjóðgarðinum. Þeir höfðu ekki áhuga á að byggja annað en hús til að selja. Þegar liðið var eitt og hálft ár frá samningnum milli hans og Stefáns, var gert samkomulag við Stefán að það mætti kaupa þá út úr áætluninni, ef annar aðili fengist í verkáætlunina. Íslenskir aðalverktakar höfðu þá önnur stærri og brýnni verkefni, sem að þeir ætluðu að einbeita sér að. Þarna hafði hann verið búinn að vera í sambandi við Jon Nordsteien og reyna að selja hann inn í verkefnið og fá Íslenska aðalverktaka til að koma því á, en það ekki gengið svo langt að þeim þætti tímabært að fá hann til fundar í því sambandi. Það hafi svo haft samband við hann norskur maður sem hafi sýnt því áhuga að flytja hingað norsk kataloghús og var með ákveðinn sjóð í Noregi sem hugsanlega gæti komið að fjárfestingu þessa innflutnings. Hann ræddi við þennan Norðmann, en fljótlega kom í ljós að hann hafði ekki fjárhagslega burði til að gera þetta. Hann hafði þessu næst samband við Axel Kloster bæjarstjóra í Kvinnhéraði og alþingismann, sem hafi gert ýmsa góða hluti. Hann hafi sagst vera með fjármagn og vilja koma að svona verkefni og með því að byggja kataloghús myndi hann koma á vinnu í gegnum tréiðnað í Kvinnhéraði og flytja hingað einingahús til að byggja upp þetta frístundaþorp og selja húsin hér. Hann hafði áhuga á að koma hingað og þegar það stóð til sagðist hann hafa ákveðinn verktaka með sér, sem hann vildi að yrði raunverulegur þátttakandi í verkefnininu og fjárfestir hér heima. Þetta hafi verið maður að nafni Geir Rusten og hafði Axel Kloster ákveðið að bjóða honum hingað á kostnða héraðsins, konu hans og starfsmanni, það er að þau kæmu hingað og kynntu sér þetta verkefni, með það fyrir augum að byggja hér hús og selja. Hannkvaðst hafa kynnt það fyrir þeim þegar þau komu hingað að hann hefði áhuga fyrir því, að ef af þessu yrði þá myndi hann reyna að selja það inn í pakkanum, að þau kæmu að uppbyggingu menningarmiðstöðvarinnar, en það þrengra um það, því að hugmyndir Axels Klosters, sem ætlaði að útvega fjármagn í þetta, gekk út á að selja tilbúin og tilsniðin hús. Þegar þarna var komið sögu sá hann möguleika á að koma draumi sínum á framfæri, því að hugsanlega væru þarna norskir fjárfestar, sem gátu gert það sem Íslenskir aðalverktakar voru ekki alveg tilbúnir að gera. Hann setti sig í samband við Jon Nordsteien aftur og spurði hann hvort hann væri tilbúinn í að undirbúa og taka þátt í að taka á móti þessus fólki með honum, ef það yrði til þess að samkomulag næðist við Axel Kloster, en það hafi einungis staðið til að gera samning við Axel. Þegar þeir komu til landsins hafi Axel hagað því svo til að samkomulag sem gert var að kvöldi dags eftir skoðunarferðina, yrði gert í nafni Geirs Rustens. Hann kvaðst hafa beðið Jon Nordsteien að koma að þessu verki með sér og reyndi áfram að selja hann inn í verkefnið, en hann hafi óskað þess að þá myndi kona hans Ólöf Flygenring, taka þátt í þessu og það hafi verið sett inn í samkomulagið við Geir Rusten að þau kæmu að þessu sem arkitektar, ef af verkefninu yrði. Í gegnum allt þetta ferli hafi hann verið að reyna að selja Jon að verkefninu, ef hann gæti fundið aðila til að framkvæma þetta. Það varð svo ljóst að þarna ná þeir ekki saman hvernig sem orð Geirs Rusten verði túlkuð um að hann hafi þótt ótrúverðugur. Hann kvaðst hafa haft það á tilfinnningunni að þarna væru að gerast ákveðnir hlutir á bak við hann sem Jon Nordsteien hafi komið að. Á þessu stigi hafi verið komin ákveðinn trúnaðarbrestur milli þeirra. Um fund Jóns Líndals með Joni Nordsteien og Ólfu Flygenring á vinnustað þeirra, sem fram komi í framburði Jons Nordsteien, sagði hann að hann hafi verið að reyna að átta sig á því hvernig standa ætti að menningarmiðstöðinni sem Jón Líndal var þá búinn að gera honum tilboð í að byggja út frá teikningum sem hann hafði sjálfur gert. Þeir hafi mætt á þennan fund til að skoða ákveðnar teikningar sem Jon Norsteien hafði teiknað og þær verið skoðaðar í ljósi þess að Jon Nordsteien hafi sagt við hann að hann væri tilbúinn að gera teikningar af menningarmiðstöð á eigin kostnað,ef hann fengi verkefnið, eða ef af því yrði. Þeir, hann og Jón Líndal hafi svo mætt til fundar og þá hafi Jon Nordsteien sagt að þessar teikningar fengi Þorsteinn ekki nema gengið yrði til samninga. Þær hafi verið í mjög miklu ósamræmi við þær hugmyndir sem hann, Þorsteinn, hafi kynnt fyrir Joni Nordsteien og strax séð að þessar hugmyndir myndi hann ekki geta kynnt frekar og hafði hann þó ekki fundið neina aðra arkitekta til að koma að verkefninu á þessari stundu og hafi hann ætlað að kynna Jon Nordsteien áfram sem hugsanlegan arkitekt að verkefninu, ef af því yrði. Það hafi ekki orðið af samningum við Geir Rusten og þessi heimsókn hafi endað sögulega með blaðamáli út af fjárhagsstöðu mannanna, þegar þeir komu aftur til Noregs. Engu að síður hafði þessi umsókn frá Axel Kloster verið komin inn í norska kerfið og einum til tveimur vikum eða mánuðum síðar hafði haft samband við hann Thor Öregaard og óskað eftir að fá að koma að verkefninu, hann hafi verið arkitekt og var með hugsanlega fjárfesta með sér. Þeir hafi svo komið í lok mars þetta ár og upp úr því kaupa Thor Öregaard og Jarn Vageníus Íslenska aðalverktaka út úr verkefninu. Á síðasta degi samkomulagsins milli Þorsteins og Íslenskra aðalverktaka og gerast þar með 66,3% hluthafar að Hellisvöllum ehf. og stýrðu þar með framkvæmdum mála. Hann kvaðst hafa komið með tillögu um að Jon Nordsteien kæmi að verkefninu og fengið þá í einni af Íslands heimsóknum sínum að hitta Jón Nordsteien í skamma stund á Hótel Sögu. Og 29. júlí 2005, hafði svo ráðherra undirritað aðalskipulag fyrir svæðið, þannig að þarna mátti byggja frístundabyggð. Hann kvaðst áfram hafa sett fram óskir um það að ef af þessu gæti orðið, að það yrði haft samband við Jon Nordsteien, en þegar þeir hafi svo komið til landsins til að ræða við hann, hafi hann hafnað frekari umræðu um þetta, enda þá búinn að leggja fram reikning um verkið. Það var þá og búið að koma fram að þessir aðilar voru búnir að leika sér að hugmyndum um hvernig þeir sæju þetta fyrir sér enda orðnir aðal og meirihluta eigendur að verkefninu. Þeir komu ekkert að menningarmiðstöðinni sem hann hafði stofnað í apríl fyrr en löngu seinna og Íslenskir aðalverktakar hafa aldrei komið að því fyrirtæki. Í grófum dráttum sé sýn hans á þetta sú að það var aldrei gengið að samningi við eða gerð samningsdrög við stefnanda. Fyrst hafi þeir rætt um greiðslu af hálfu Jóns Nordsteien þegar hann hafi komið með tillögu sína sem hann bauðst til að gera á sinn kostnað og hafi hann þá rætt um að það yrði að koma innborgun áður en hann ynni frekar að verkefninu. Hann hafi þá talað um að það færu að minnsta kosti 600 klst. í vinnu að slíku verkefni eins og Hellisvellir ehf. ætlaði að fara í og hafði Þorsteinn ekki talið sig hafa umboð til að semja um slíkt. Hann hafi bara verið að reyna að koma honum á framfæri við stjórn Hellisvalla ehf. Hann kvað reikning stefnanda hafa fyrst komið frá lögmanni hans. Hann kvað Jón Nordsteien einu sinni hafa hringt í hann og verið þungt í hamsi og spurt hvenær hann ætlaði að borga og hann þá bent honum á að aðilarnir sem væru á leið til landsins og hann myndi reyna að koma þeim saman. Hann kannaðist ekki við að hafa óskað eftir þjónustu Jóns Nordsteien og Ólafar Flygenring þannig að hann hafi ráðið þau til verks og hann kannaðist ekki við að hafa óskað eftir vinnuframlagi þeirra, heldur að þau myndu koma að kynningu á þessu verkefni við þessa norsku fjárfesta þ.á.m.Geir Rusten. Þau hafi unnið heilmikið í verkefninu en ekki beint að ósk hans. Hans hugmynd hafi verið að fá hann Jon Nordsteien til verksins ef hann gæti selt hugmyndir sínar til þeirra sem réðu verkefninu, Íslenskum aðalverktökum. Hann kvað tillögur Jons Nordsteien eingöngu hafa miðast við menningarmiðstöðina. Hann kvaðst hafa selt hugmyndina um þessa frístundabyggð og menningarmiðstöð með eigin teikningum þó að teikningar frá Joni Nordsteien og Ólöfu Flygenring hafi og komið til. Hann kvaðst hafa verið að reyna að selja norðmönnum hugmyndina og þá.m.a. notast við bæklinginn. Hann hélt því fram að tilboð það sem Jón Líndal hafi gert í byggingu menningarmiðstöðarinnar hafi verið byggt eingöngu á hans teikningum en var þó bent á að tilboð Jóns frá 10. febrúar 2003 væri skv. teikningum Jons Nordsteien og Jón Líndal hafi borið um það fyrir dómi. Aðspurður hvers vegna ekki hefði verið gert upp við Jon Nordsteien eftir að nýjir fjárfestar komu að verkefninu sagði hann að meirihluta hluthafa í Hellisvöllum ehf. hafi komið með hugmyndir sem kynntar hafi verið fyrir Joni Nordsteien á Hótel Sögu. Þorsteinn tók fram að hann hafi verið á móti hugmyndum þeirra og viljað að byggð yrðu hús í gömlum stíl og óskað eftir því að verkefnið yrði þróað í þá átt og samið yrði við Jon Nordsteien í framhaldi af því. Hann kvað verkinu síðan hafaverið snúið að húsum í gömlum stíl og kannaðist hann við að hafa óskað eftir samstarfi við Jon Nordsteien í nóvember 2005 þrátt fyrir að það hafi þá verið komin krafa á hendur honum frá Jóni en hann hafi þurft á íslenskum arkitekt að halda vegna verkefnisins.
Vitnið Stefán Benediktsson kvaðst vera sérfræðingur í skipulagi og rekstri þjóðgarða hjá Umhverfisstofu. Það sagði að þegar Hellnamál hafi komið upp eða hugmyndir um að byggja þar gestastofu á Hellnum hafi þegar verið byrjað að hugsa til eða hugleiða byggingu á gestastofu sem reiknað var þá frekar með að yrði á Hellissandi þar sem þjóðgarðsvörðurinn var búsettur. Þetta hafi samt þótt kjörið tækifæri þegar það bauðst möguleiki á að komast í húsnæði að Hellnum. Aðspurt um samskipti þessi við Jon Nordsteien og Þorstein Jónsson sagði það að þau hefðu aðallega verið við Þorstein. Hann hafi komið með hugmyndina og allar samningaviðræður stofnunarinnar hafi farið fram við hann. Það hafi verið búið að gera forsögn að gestastofu, skriflega lýsingu á því hvað þurfti að vera þar. Það kvaðst hafa hitt Jon með Þorsteini að minnsta kosti einu sinni þó það myndi ekki atburðarásina nákvæmlega eftir þrjú ár. Það mundi það eitt að Þorsteinn hafi þurft þessa lýsingu til að gera sér grein fyrir hvað í þessari byggingu fælist. Það mundi ekki hvort það hafi þá séð einhverjar skissur eða hugmyndir. Það sagði að í huga þess hafa Jon Nordsteien verið á vegum Þorsteins og það fengið það á tilfinninguna að Jon væri milligöngumaður vegna norsku fjárfestanna sem ætluðu að koma að verkinu. Það kvað erfitt að halda því fram að Jon hafi átt þátt í því að samningar náðust við Umhverfisstofnun þegar gengið var frá samningum. Þá hafi fylgt honum afar einfalt riss af húsaskipan þarna á Hellnum til að skilgreina hvað væri Umhverfisstofunarinnar en hafði ekkert með teikningar af húsinu að gera. Það taldi fundina með Joni Nordsteien og Þorsteini ekki hafa afgerandi áhrif. Það hafi bara verið fjallað um þarfagreiningu. Það kvað samning hafa verið gerðan á miðju sumri 2002 um leigu á gestastofu fyrir Umhverfisstofnun. Á fundinum með norsku fjárfestunum hafi hjónin Jon Nordsteiein og Ólöf Flygenring verið með en þar hafi Jon ekki verið kynntur, það hafi ekki þurft. Hann hafi þekkt Jon og gert ráð fyrir því að Jon væri arkitekt Þorsteins. Vitninu var ókunnugt um samninga á milli aðila í málinu.
Vitnið Jón Pétur Líndal var spurt um aðkomu sína að málinu. Það kvað þá hafa tekið tal saman, þad og Þorstein en Þorsteinn hafi verið með plan um að byggja á Hellnum. Það hafi svo haft samband við hann síðar og gert tilboð í verkið. Því hafi svo verið boðið í samkvæmi með Þorsteini, Joni, norskum fjárfestum og fleirum og hafi þetta þróast í það að það eða fyrirtæki þess tók að sér að vinna að byggingunni sem verktaki. Um samskipti sín við Jon Nordsteien sagði það að um vorið 2003 hafi það hitt Jon í samkvæmi hjá Þorsteini og hann þá verið kynntur sem hönnuður að þeirri framkvæmd sem átti að fara fram á Hellnum. Svo hafi það hitt hann nokkrum sinnum, einu sinni eða tvisvar á vinnustað hans og þá skoðað gögn og þeir velt fyrir sér útfærslu í sambandi við þetta verkefni. Þá hittust þeir í sambandi við þetta verkefni ásamt Þorsteini og fleiri aðilum út á Hellnum þar sem verið var að skoða þessi gömlu hús sem átti að taka og endurbyggja eða breyta og svo hafi verið einhver símtöl og fleira í sambandi við þetta. Það kvaðst hafa séð nokkrar skissur heima hjá Joni Nordsteien, ekki fullkomnar teikningar heldur einhverjar vinnuteikningar sem búið var að gera. Svo hafi þeir verið að velta fyrir sér hugmyndum að endurbótum. Það kvað tilboð í verkið hafi verið gert út frá ákveðnum hugmyndum og rissi um stærðir og grófar grunnteikningar en samt ekkert verið merkt á þær. Því var sýnt dómskjal nr. 10 og kvaðst það hafa séð þær teikningar meðal annarra. Það sagði að í samkvæminu hafi Jon verið kynntur fyrir því sem maður sem ætti að hanna verkið og á meðan það átti samskipti við hann var hann í huga þess sá aðili. Það kvaðst hafa verið dagpart á Hellnum með Joni. Það hafi upphaflega gert eitt tilboð en síðan hafi verið gerð fleiri tilboð og tilboðsgerðin farið fram í febrúar, apríl og maí. Það kvaðst ekki vita um samninga milli aðila málsins. Það mundi til þess að einhvern tíma hafi verið rætt um greiðslu til Jons Nordsteien og Ólafar Flygenring heima hjá Þorsteini en mundi það ekki frekar.
Vitnið Geir Olav Rusten var spurt um aðkomu sína að verkefninu að Hellnum. Hann sagði að því hefði verið boðið af hreppstjóra hreppsins í Kvinnhéraði og þegar þeir hafi komið til Íslands hafi Þorsteinn tekið á móti þeim og kynnt fyrir því mennina sem voru í verkefninu, þ.á.m arkitektinn. Um samskipti þess við Jon Nordstein sagði það að hann hafi kynnt áætlunina um verkefnið og verið með teikningar og það séð þær teikningar sem hann gerði. Það kvaðst hafa talið að Jon væri að vinna fyrir Þorstein Jónsson, hann væri fyrir hann og kynnti áætlunina og vann með þeim allan tímann. Hann kvaðst sjálfur hafa verið verkefnisstjóri á verk upp á 40-50 milljónir norskra króna og kvaðst ekki hafa verið í vafa um að Jon Nordsteien var arkitekt verkefnisins. Það kvaðst hafa ætlað að kom að verkefninu með byggingafyrirtæki sitt í Noregi og tilgangurinn hafi verið að byggja sumarhús og flytja út. Það hafi verið sérstakt verkefni að byggja fjós eða hesthús sem menningarmiðstöð. Hans tilgangur hafi ekki verið að vera fjárfestir heldur verktaki. Það kvað tilganginn með viljayfirlýsingarinnar á dómskjali nr. 11 hafa verið þann að þeir hafi ætlað að vera verktakar að verkefninu en að það hafi verið ýmsar hliðar á málinu og hann hafi ekki skrifað undir áframhaldandi samning af því að Þorsteinn hafi verið kynntur sem ótrúverðugur peningamaður á Íslandi. Það var ekki með teikningar á eigin vegum af húsunum heldur hafi allar teikningarnar komið frá Joni Nordsteien og skilningur þeirra Norðmanna var að hann ætti að koma með allar teikningar, en sumarhúsin áttu að vera dæmi um byggingalist á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku og það skilið það þannig að þess vegna væri norskur arkitekt í dæminu. Hann sagði allar teikningar sem það hafði séð hafi verið lagðar fram af Joni Nordsteien og einnig hafi konan hans verið með honum og af hverju hafi hann átt að vera þarna ef ekki þess vegna. Aðspurt um hvort gerður hafi verið samningur á grundvelli viljayfirlýsingarinnar við stefnanda gat vitnið ekki svarað því neitt nákvæmlega. Þarna hafi þurft að ræða um mörg smáatriði. Kvaðst það ekki muna þetta vegna þess að langt væri um liðið. Það kvað skilning þess hafi verið að arkitektarnir hefðu kynnt alla áætlunina og ynnu með Þorsteini Jónssyni. Það kvað áætlun þeirra Norðmanna hafi verið að byggja þetta frístundaþorp og menningarmiðstöð.
V. Niðurstöður.
Stefndi Þorsteinn Jónsson var og er enn framkvæmdastjóri stefnda Hellisvalla ehf. með prókúruumboð fyrir félagið. Stefnanda var ljóst að stefndi Þorsteinn var á vegum Hellisvalla ehf. og beindi reikningum sínum til félagsins. Með því að Þorsteinn kemur þannig fram f.h. stefnda Hellisvalla ehf. í samskiptum sínum við stefnanda þykja ekki vera skilyrði til að gera hann persónulega ábyrgan vegna viðskipta þeirra og þegar talað er um stefnda hér á eftir er átt við Hellisvelli ehf. Sem framkvæmdastjóri stefnda með prókuruumboð verður að telja að Þorsteinn Jónsson hafi haft vald til að binda félagið vegna teikningar eða hönnunarvinnu stefnanda vegna kynningar á verkefninu, enda fram komið að hann hafði um það samráð við meirihluta stjórnar félagsins.
Í málinu er óumdeilt að stefndi fól stefnanda að vinna þær teikningar og hönnunarvinnu sem hann hefur krafist greiðslu fyrir en því er haldið fram af stefnda að það hafi verið með þeim fyrirvara um greiðslu, að stefnda tækist að selja stefnanda með um teikningar og hönnun að félagsmiðstöð og frístundabyggð að Hellnum til væntanlegra fjárfesta og verktaka.. Af hálfu stefnanda er því mótmælt að teiknivinna þessi og hönnun hafi verið háð þessum fyrirvara, heldur hafi af hans hálfu verið gerðar skissur með þeim hugmyndum hans um félagsmiðstöðina og unhverfi hennar og þetta verið gert í trausti þess að ef þær yrðu samþykktar eða leiddu til þess að ákveðið yrði að fara út í framkvæmdir þá fengi stefnandi vinnu við að fylgja þeim eftir með nauðsynlegum teikningum og hönnun sem myndi bera þennan frumkostnað. Svo sem fram kom hjá Joni Nordsteien er það algengt meðal arkitekta í sambandi við arkitektasamkeppni o.fl., að arkitektar komi með einhver gögn, hugmyndir eða tillögur í sambandi við ákveðin verkefni í von um að fá vinnuna við teiknun o.fl. Stefnandi lagði því í takmarkaða hugmyndavinnu í sambandi við menningarmiðstöð, gestamóttöku og hótel að Hellnum og fékk stefndi þessa uppdrætti og þeir voru notaðir í kynningarbæklingi hans ,,Viðskiptahugmynd á Hellnum undir Jökli" dómskjali nr. 10.
Af hálfu stefnanda var litið svo á að þetta væri áhættuvinna, þannig ef þessar hugmyndatillögur yrðu ekki samþykktar og ef ekki kæmi til þess að farið yrði út í framkvæmdir við verkefnið, myndi hann missa af greiðslunni fyrir þessi framlög. Í málinu þykir mega fallast á að þessi framgangsmáti muni nokkuð vera tíðkaður. Hins vegar verður það að teljast nokkuð óvenjulegt og ósennilegt að frekari vinna sé innt af hendi við teikningar og hönnun án greiðslu, nema sérstaklega sé samið um það. Það verður því að leggja á stefnda að sanna að samið hafi verið um greiðslu fyrir verkið með þeim hætti er hann heldur fram og þykir sú sönnun ekki hafa tekist.
Þegar litið er á málið í heild, verður ekki séð að uppbygging menningarmiðstöðvarinnar hafi endilega þurft að tengjast uppbyggingu frístundabyggðarinnar að öðru leyti, þó að hún sé hugsuð sem viss kjarni í byggðinni. Þannig eru önnur tímamörk í sambandi við uppbyggingu félagsmiðstöðvarinnar á Hellnum heldur en við frínstundabyggðina að öðru leyti, enda fram komið að samkeppni er um að fá gestamóttökuna á vegum þjóðgarðsins milli byggðarlaga á Snæfellsnesi, en stefnt var að samningi við Umhverfisstofu um að hún leigði aðstöðu fyrir gestamóttöku í menningarmiðstöðinni. Þá er fram komið að fyrirsvarsmaður stefnda er í byrjun árs 2002 að afla tilboða í endurbyggingu fjárhúsanna fyrir menningarmiðstöð á Hellnum og ekkert fram komið um að sú tilboðsgerð hafi verið háð því að áður tækist að fá fjárfesta að frístundabyggðinni með norsku kataloghúsin þó að stefndi vilja tengja þá sem kæmu að smíði ,,kataloghúsanna” þátttöku í uppbyggingu menningarmiðstöðvarinnar.
Þetta virðast því hafa verið tvö verkefni og er stefnandi á árinu 2003 fenginn til að leggja vinnu við teikningar og kynningu án þess að fá greiðslu fyrir vinnuna jafnóðum gegn loforði um að hann fengi hönnunarvinnu við menningarmiðstöðina, deiliskipulagsgerð fyrir frístundabyggð, hönnun á húsunum o.fl. sem gæti verið vinna til margra ára.
Ljóst er af vætti vitnanna Geirs Rustens og Jóns Líndal, að Jon Nordsteien er ætlað að vera arkitekt að félagsmiðstöðinni og hótelbyggingunni og Geir Rusten taldi hann verð arkitekt að frístundabyggðinni í heild. Sú frásögn fyrirsvarsmanns stefnda, að hann hafi ætlað að selja sérstaklega stefnanda að hönnunarvinnu við frístundabyggð jafnframt því að hann fengi fjárfesta til verksins, en ella ætli stefnandi að bera kostnað sinn sjálfur við teikniivinnu og annað, sem hann hafði innt af hendi fyrir stefnda, þykir afar ólíkleg.
Þegar allt er virt, sem fram er komið í málinu þykir mega byggja á því að stefnandi hafi verið ráðinn til verksins um að teikna menningarmiðstöðina, hótel og deiliskipulag í því sambandi að Hellnum.
Þá þykir og mega byggja á því að hann hafi haft vilyrði frá fyrirsvarsmanni stefnda um að hann kæmi að hönnunarvinnu í sambandi við frístundabyggðina. Skissu- eða hugmyndatillögur stefnanda, sem birtar voru í kynningarbæklingu stefnda með nafni stefnanda hafi ásamt skissum og kynningarstarfi fyrirsvarsmanns stefnda komið því til leiðar að norskir fjárfestar vildu koma að verkefninu og er fallist á það með stefnanda að er fyrirsvarsmaður stefnda hafði samband við hann um ári eftir að frumtillögunar voru gerðar og bað um frekari teikningar þá mátti stefnandi reikna með því að frumtillögurnar hefðu verið samþykktar og að hann ætti að halda áfram teiknivinnu og hönnunarvinnu út frá þeim sem hann og gerði. Hugmyndatillögur stefnanda sem fóru merktar honum í kynningarbæklinginn, og annað kynningarstarf hans og fyrirsvarsmann stefnda leiddu til þess að viljayfirlýsing var gefin út af Geir Rusten, sem verktaka um að standa að byggingu menningarmiðstöðvarinnar og frístundarbyggðarinnar og svo skyldi koma til samningaviðræðna við Geir og fjárfestana um framkvæmd verksins. Þó að slitnað hafi upp úr þeim viðræðum hafði þessi undirbúningur leitt til þess að kynningarbæklingurinn og önnur gögn varðandi menningarmiðstöðina og frístundabyggðina hafði komust inn í norska lána og styrkja- kerfið með umsókn Axels Klosters um styrk eða lán úr byggingarsjóði í Noregi, sem hafði það svo í för með sér að aðrir aðilar sýndu verkefninu áhuga og við þá samdist um byggingu frístundaþorpsins. Það er því mat réttarins að hugmyndatillögur og kynningarstarf stefnanda hafi skilað árangri og kostnað og laun vegna vinnuframlags hans eigi hann rétt á að fá greidd.
Þó að talið verði að af hálfu stefnda hafi verið lofað að stefnandi myndi fá vinnuna við að teikna og hanna allt í sambandi við menningarmiðstöðina og frístundabyggðina, þá var ekki samið um þetta með formlegum hætti og verður að ætla að í loforðinu hafi falist áskilnaður um að það semdist síðar um verð en stefnandi hafi á grundvelli loforðsins eða ádráttarins frestað að krefja um greiðslu fyrir vinnuframlag sitt þar til línur færu að skýrast um það hvort að verktakar og fjárfestar fengjust að verkefninu.
Eftir að slitnaði upp úr samningsviðræðunum við Geir Rusten og norsku fjár-festana hafði stefnandi viljað frá greiðslu eða tryggingu um greiðslu fyrir þá vinnu sem þá hafði verið innt af hendi og samning sem tryggði honum vinnu við teiknun og hönnun fyrirhugaðs verkefnis ef hann ætti að koma að því.
Samkvæmt því sem fram er komið hjá fyrirsvarsmanni stefnda og ekki er mótmælt af stefnanda hafði hann áætlað að 600 stundir færu í teiknivinnu og hönnun í sambandi við verkefnið. Fyrirsvarsmaður stefndas kvaðst ekki hafa getað ákveðið eða samþykkt þetta án samþykktar stjórnar stefnda. Þetta hefur því legið fyrir er nýjir aðilar Thor Ödegaard og Jarn Wagernius koma að verkinu en leiðir ekki til samninga við stefnanda en þeir hitta stefnanda haustið 2003 og þeir kaupa svo meirihluta hlutafjár í stefnda eða allavega Wagernius og liggur ekkert fyrir um hvort það hafi verið rætt í stjórn félagsins eða ályktað um það hvort stefnandi ætti að koma að verkefninu um frekari hönnun, þrátt fyrir umræðu við stefnanda þar um haustið 2003, en önnur arkitektastofa, Arkitektastofan Link í Bergen, var fengin til að ljúka hönnunarvinnunni og því brást það að fyrirsvarsmaður stefnda gæti staðið við óformlegt loforð við stefnanda. Það er mat réttarins að sú hönnunarvinna sem stefnandi hafi þá lagt af mörkum í þágu verkefnisins eigi hann rétt á að fá greitt, en hún var í þágu stefnda og mátti þeim norsku aðilum sem komu endanlega að verkefninu, þeim Ödegaard og Wagernius vera það ljóst að stefndi var í skuld við stefnanda vegna undangenginnar hönnunarvinnu og er Wagernius eignast meirihluta stefnda er þessi skuld til staðar.
Í málinu hefur ekki verið sýnt fram á að reikningur stefnanda sé ósanngjarn en vinnuframlag stefnanda kemur nokkuð skýrt fram í greinargerð hans merkt dskj. nr. 8 og tímaskýrslu og þykir að þessu virtu mega taka kröfu stefnanda að fullu til greina.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 320.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.
DÓMSORÐ
Stefndi, Hellisvellir ehf., greiði stefnanda, Arkitektum Ólöfu og Joni ehf., 1.101.267 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 29. júlí 2004 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 320.000 krónur í málskostnað.