Hæstiréttur íslands

Mál nr. 434/2001


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Miskabætur
  • Þjáningarbætur
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. maí 2002.

Nr. 434/2001.

Áburðarverksmiðjan hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Sigurjóni Eysteinssyni

(Gylfi Thorlacius hrl.)

og gagnsök

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka. Miskabætur. Þjáningabætur. Skaðabætur. Sakarskipting. Gjafsókn.

 

S, verkstjóri hjá Á hf., hlaut veruleg meiðsl þegar stigi, sem hann stóð í, rann undan honum. Talið var að yfirmanni S, sem falið hafði honum að vinna verkið, hefði mátt vera fullljóst að stórfelld hætta fylgdi verktilhögun S. Vegna vanrækslu um að stuðla að því að S beitti verklagi, sem tryggt gæti öryggi hans, þótti Á hf. bera skaðabótaábyrgð á tjóni S. Með hliðsjón af menntun S og reynslu hans, var talið að honum hefði ekki síður átt að vera ljóst hversu háskalegri aðferð hann beitti. Að öllu virtu þótti hæfilegt að S bæri helming tjónsins sjálfur. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk Á hf. dómkvadda tvo lækna til að hnekkja niðurstöðu örorkunefndar um varanlegan miska og varanlega örorku S. Reyndist niðurstaða matsmanna hærri en örorkunefndar og breytti S kröfu sinni til samræmis við hana. Að gengnum héraðsdómi, sem reistur var á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna, innti V hf., vátryggingafélag Á hf., af hendi til S greiðslu úr slysatryggingu launþega á grundvelli hennar. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti Á hf. því yfir að hann gerði engan greinarmun á sér og V hf. í þessum efnum. Að virtum þessum gerðum Á hf. var ekki annað tækt en að leggja matsgerð dómkvaddra matsmanna til grundvallar dómi. Kröfu Á hf. um að leggja bæri lægri niðurstöðu örorkunefndar til grundvallar var samkvæmt þessu hafnað. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. nóvember 2001. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 14. janúar 2002. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 13.106.446 krónur, ásamt 2% ársvöxtum frá 10. september 1997 til 6. apríl 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.775.569 krónum. Til vara krefst hann þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða 7.553.918 krónur með vöxtum eins og að framan greinir. Þá krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem gagnáfrýjanda hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi á málið rætur að rekja til slyss, sem gagnáfrýjandi varð fyrir að morgni 10. september 1997 við vinnu sína hjá aðaláfrýjanda, þar sem hann var verkstjóri við byggingaviðhald. Var aðdragandinn að slysi gagnáfrýjanda sá að yfirmaður viðhalds hjá aðaláfrýjanda, sem er tæknifræðingur að mennt og gagnáfrýjandi heyrði undir, hafði falið honum að þétta bogalagað bárujárnsklætt þak á nokkuð hárri skemmu á athafnasvæði aðaláfrýjanda í Gufunesi. Neðan við þetta þak endilangt var lágreist útbygging með sléttu og nánast láréttu dúklögðu þaki. Gagnáfrýjandi hagaði verki sínu þannig að hann reisti stiga upp frá þessu slétta þaki og skorðaði efri hluta hans af í lágbáru á því bogalagaða. Var stiginn úr áli og 5,35 m að lengd. Til að styðja við stigann að neðanverðu setti gagnáfrýjandi framan við kjálka hans gangstéttarhellu, sem var um 9 kg að þyngd. Mun gagnáfrýjandi hafa unnið á þennan hátt að verkinu um nokkurra daga skeið með vitund áðurnefnds yfirmanns síns, sem kvaðst fyrir héraðsdómi hafa spurt gagnáfrýjanda að því hvort hann teldi þessa vinnuaðstöðu fullnægjandi og hann svarað því játandi. Sagðist yfirmaðurinn þá ekki hafa gert athugasemdir við það. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af gagnáfrýjanda 19. desember 1997, sagðist hann hafa farið á þennan hátt upp á bogalagaða þakið í 30 til 40 skipti til að sinna verkinu. Að morgni 10. september sama árs hafi hann unnið efst í stiganum og verið á leið niður eftir honum þegar stiginn hafi farið að renna undan gagnáfrýjanda, þar sem hann hafi staðið á hlið í stiganum í um 3,5 til 4 m hæð. Kvaðst gagnáfrýjandi hafa þá snúist þannig að hann hafi verið með bakið að stiganum og fallið með honum niður á neðra þakið. Hlaut gagnáfrýjandi veruleg meiðsl af þessu, þar á meðal brot í hryggjarlið, svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi.

Fyrir liggur í málinu að aðaláfrýjandi hafi keypt ábyrgðartryggingu, sem tekur til tjóns starfsmanna hans vegna vinnuslysa, hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., þar sem hann hefur jafnframt slysatryggt launþega. Vátryggingafélagið og gagnáfrýjandi leituðu með sameiginlegri beiðni 9. nóvember 1998 eftir mati tveggja nafngreindra lækna á líkamstjóni hans vegna fyrrnefnds slyss. Í álitsgerð læknanna 1. desember sama árs var komist að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjandi hafi að fullu verið óvinnufær frá slysdegi til 1. júní 1998, en að hálfu frá þeim degi til 13. september sama árs. Að því er varðar þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 töldu læknarnir gagnáfrýjanda hafa verið rúmliggjandi í tvær vikur eftir slysið, en eftir það batnandi með fótaferð allt til 13. september 1998. Varanlegan miska gagnáfrýjanda og varanlega örorku mátu þeir 20%. Gagnáfrýjandi vildi ekki hlíta þessu mati á varanlegum miska og varanlegri örorku og leitaði því 9. nóvember 1999 álits örorkunefndar. Í álitsgerð hennar 22. febrúar 2000 var varanlegur miski gagnáfrýjanda metinn 25%, en varanleg örorka 40%.

Með bréfi 6. mars 2000 krafði gagnáfrýjandi Vátryggingafélag Íslands hf. um bætur vegna slyssins, samtals 9.757.976 krónur. Lagði hann þar til grundvallar álit örorkunefndar að því er varðar varanlegan miska og varanlega örorku, en krafa um þjáningabætur var þar reist á áðurnefndri álitsgerð tveggja lækna. Krafa var ekki gerð um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, enda hafði gagnáfrýjandi þegið laun í veikindaforföllum frá aðaláfrýjanda frá slysdegi og fram í júní 1998, þegar gagnáfrýjandi hóf aftur störf hjá aðaláfrýjanda, en þeim varð hann að hætta vegna afleiðinga slyssins í ágúst 1999. Vátryggingafélagið, sem hafði 16. desember 1998 greitt gagnáfrýjanda 630.420 krónur ásamt vöxtum úr slysatryggingu launþega, hafnaði skaðabótaskyldu og höfðaði þá gagnáfrýjandi mál þetta 28. júní 2000.

Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk aðaláfrýjandi dómkvadda tvo lækna til að meta varanlegan miska og varanlega örorku gagnáfrýjanda af völdum slyssins. Í matsgerð 30. mars 2001 komust læknarnir að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski gagnáfrýjanda væri 40%, en varanleg örorka 60%. Vegna þessarar niðurstöðu höfðaði gagnáfrýjandi framhaldssök í málinu til hækkunar á bótakröfu sinni og var hún þingfest 26. apríl 2001. Með hinum áfrýjaða dómi var aðaláfrýjandi talinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni gagnáfrýjanda vegna slyssins, en þó þannig að sá síðarnefndi var látinn bera þriðjung tjónsins vegna eigin sakar. Bætur voru ákveðnar á grundvelli niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um varanlegan miska og varanlega örorku gagnáfrýjanda, en þjáningabætur ákveðnar til samræmis við fyrrnefnt álit tveggja lækna frá 1. desember 1998.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms en fyrir áfrýjun hans greiddi Vátryggingafélag Íslands hf. gagnáfrýjanda 1. nóvember 2001 sem viðbót úr slysatryggingu launþega 1.145.149 krónur. Var þessi greiðsla miðuð við að læknisfræðileg örorka gagnáfrýjanda, sem félagið taldi vera þá sömu og varanlegur miski hans, væri 40% eins og dómkvaddir menn höfðu áður komist að niðurstöðu um í fyrrnefndri matsgerð. Fyrir Hæstarétti krefst aðaláfrýjandi sem áður segir sýknu af kröfu gagnáfrýjanda. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi byggt á því til vara að sök verði skipt á annan veg en í hinum áfrýjaða dómi og þá þannig að gagnáfrýjandi verði látinn bera stærri hluta tjóns síns en þar var komist að niðurstöðu um. Jafnframt hefur aðaláfrýjandi í því sambandi borið fyrir sig að leggja eigi niðurstöðu örorkunefndar til grundvallar við ákvörðun varanlegrar örorku gagnáfrýjanda, en vegna framangreindrar greiðslu Vátryggingafélags Íslands hf. verði aðaláfrýjandi að una við niðurstöðu dómkvaddra manna um varanlegan miska. Auk þessa krefst aðaláfrýjandi þess að neytt verði ákvæðis lokamálsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga til að skerða fjárhæð þjáningabóta handa gagnáfrýjanda, en að öðru leyti er ekki deilt um útreikning skaðabótakröfu hans.

Fyrir Hæstarétti krefst gagnáfrýjandi sem áður segir aðallega greiðslu skaðabóta að fjárhæð 13.106.446 krónur. Krafan er sú sama og hann gerði fyrir héraðsdómi og reist á því að skaðabótaábyrgð á tjóni hans verði með öllu lögð á aðaláfrýjanda. Varakrafa gagnáfrýjanda um greiðslu á 7.553.918 krónum tekur mið af því að hann verði látinn bera þriðjung tjóns síns sjálfur, svo sem komist var að niðurstöðu um í héraðsdómi. Er fjárhæðin fengin með því að frá heildartjóni, 13.106.446 krónum, dregur gagnáfrýjandi áðurnefndar greiðslur úr slysatryggingu launþega, 630.420 krónur og 1.145.149 krónur, en 2/3 hlutar mismunarins nema fjárhæð varakröfunnar.

II.

Þegar gagnáfrýjandi varð fyrir framangreindu slysi var hann 47 ára að aldri. Samkvæmt gögnum málsins er hann húsasmiður að mennt og hefur haft réttindi sem meistari í þeirri iðngrein frá 1975. Hann hafði unnið hjá aðaláfrýjanda frá árinu 1984 og gegndi á slysdegi starfi verkstjóra við byggingaviðhald. Í því starfi mun gagnáfrýjandi að öðru jöfnu ekki hafa haft mannaforráð, heldur sinnt viðhaldsverkefnum einn, en þegar aðrir voru fengnir til slíkra starfa munu þeir hafa unnið undir hans stjórn. Í þessu starfi heyrði gagnáfrýjandi sem fyrr segir undir yfirmann viðhalds hjá aðaláfrýjanda. Sá yfirmaður kvaðst fyrir héraðsdómi hafa getað leiðbeint gagnáfrýjanda í starfi ef hann sæi ástæðu til og oft hafi þeir rætt saman um hvernig standa ætti að viðgerðum. Sagði hann að gagnáfrýjandi „gekk ekki sjálfala“, en hitt væri annað mál að gagnáfrýjandi væri trésmíðameistari og hafi unnið „utan að þessum byggingum meira og minna“, þannig að hann hafi ekki skipt sér af því „í einu og öllu“ hvernig gagnáfrýjandi hafi staðið að verkum sínum.

Fyrir héraðsdómi skýrði gagnáfrýjandi frá því að umræddur yfirmaður hafi falið honum að hefja viðgerðir á áðurgreindu þaki úr stiga, en rætt hafi verið um að beita öðrum búnaði, sem yfirmaðurinn hafi átt að útbúa, þegar komið væri að því að gera við efri hluta þaksins. Framburður yfirmanns gagnáfrýjanda um þetta efni fyrir dómi var óákveðinn. Verður því að leggja framangreinda frásögn gagnáfrýjanda til grundvallar. Eins og áður er getið sagði yfirmaður gagnáfrýjanda fyrir dómi að hann hafi séð hvernig gagnáfrýjandi beitti stiga við verkið, en ekki gert athugasemdir, þar sem sá síðastnefndi hafi talið útbúnaðinn viðunandi. Yfirmanni gagnáfrýjanda mátti þó vera fullljóst að stórfelld hætta fylgdi því að nota aðeins gangstéttarhellu sem fyrirstöðu við kjálka stigans, sem í notkun var. Samkvæmt fyrrgreindri frásögn yfirmannsins fyrir dómi var hann í stöðu til að leiðbeina gagnáfrýjanda og skipta sér af verkum hans. Vegna vanrækslu þessa yfirmanns um að stuðla að því að gagnáfrýjandi beitti verklagi, sem tryggt gæti öryggi hans, verður aðaláfrýjandi að bera skaðabótaábyrgð á tjóni gagnáfrýjanda. Gagnáfrýjandi hafði á hinn bóginn þá menntun og reynslu að honum átti ekki síður að vera ljóst hversu háskalegri aðferð hann beitti í verki sínu. Verður hann því óhjákvæmilega að bera hluta tjóns síns sjálfur. Að öllu virtu er hæfilegt að hann beri helming tjónsins.

III.

Eins og áður greinir fékk aðaláfrýjandi dómkvadda matsmenn undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi til að hnekkja niðurstöðu örorkunefndar um varanlegan miska og varanlega örorku gagnáfrýjanda. Í verki lét aðaláfrýjandi með þessu í ljós að hann teldi niðurstöðu örorkunefndar ranga og þörf á að fá hana leiðrétta með áliti dómkvaddra sérfræðinga. Að gengnum héraðsdómi, sem reistur var á niðurstöðu þessara matsmanna, innti Vátryggingafélag Íslands hf. sem fyrr segir af hendi til gagnáfrýjanda greiðslu úr slysatryggingu launþega á grundvelli hennar. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti aðaláfrýjandi því yfir að hann gerði engan greinarmun á sér og Vátryggingafélagi Íslands hf. í þessum efnum. Að virtum þessum gerðum aðaláfrýjanda er ekki annað tækt en að leggja matsgerð hinna dómkvöddu manna til grundvallar dómi.

Aðaláfrýjandi reisir sem áður segir andmæli gegn kröfu gagnáfrýjanda um þjáningabætur á því að skerða eigi fjárhæð þeirra með stoð í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga. Aðaláfrýjandi hefur ekki fært fram nein haldbær rök fyrir því að sérstök ástæða sé til að beita heimild þessa ákvæðis, sbr. dóm Hæstaréttar 14. júní 2001 í máli nr. 32/2001. Hann hefur ekki mótmælt lengd þess tímabils, sem gagnáfrýjandi krefst þjáningabóta fyrir, og verður ekki við því hreyft, svo sem gert var með dómi réttarins 28. september 2000 í máli nr. 179/2000. Þessu til samræmis verður fallist á þá fjárhæð, sem gagnáfrýjandi krefst í þjáningabætur.

Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að tjón gagnáfrýjanda vegna slyssins nemi samtals 13.106.446 krónum. Af þeirri fjárhæð hefur hann þegar fengið úr slysatryggingu launþega samtals 1.775.569 krónur, sem koma til frádráttar, og er þannig óbætt tjón hans 11.330.877 krónur. Af því verður gagnáfrýjandi að bera helming sjálfur, en aðaláfrýjandi verður dæmdur til bæta honum það að öðru leyti með 5.665.439 krónum með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt gögnum málsins hefur gagnáfrýjandi orðið að leggja meðal annars út samtals 302.000 krónur í kostnað vegna álitsgerðar og matsgerðar á miska sínum og örorku. Að teknu tilliti til þess verður niðurstaða héraðsdóms um málskostnað staðfest, en um málskostnað fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Áburðarverksmiðjan hf., greiði gagnáfrýjanda, Sigurjóni Eysteinssyni, 5.665.439 krónur með 2% ársvöxtum frá 10. september 1997 til 6. apríl 2000 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Aðaláfrýjandi greiði í ríkissjóð 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2001.

 I

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 17. september sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Sigurjóni Eysteinssyni, Strýtuseli 10, Reykjavík, á hendur Áburðarverksmiðjunni hf., Gufunesi, Reykjavík, og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 13.106.446 krónur, ásamt 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993,  frá 10. september 1997 til 6. apríl 2000, eða 688.586 krónur, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frárdegnum 630.420 krónum.  Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. vaxtalaga, í fyrsta sinn 6. apríl 2001.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati dómsins.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og gerir hann engar kröfur á hendur stefnanda.

II

Stefnandi, sem er húsasmíðameistari að mennt, vann hjá stefnda frá árinu 1984, m.a. við viðhald á fasteignum í eigu stefnda.  Hinn 10. september 1997, er stefnandi var við vinnu sína við að þétta og menja þak á hráefnisgeymslu stefnda, féll hann úr stiga, sem hann notaði við starf sitt.  Afleiðingar slyssins voru þær, að stefnandi hryggbrotnaði.

Hráefnisgeymslan er braggalaga og tengd við slétt þak viðbyggingar.  Hafði stefnandi reist álstiga upp að braggalaga þakinu og skorðað hann ofan í lágbáru braggaþaksins, en að neðan með gangstéttarhellu á þaki viðbyggingarinnar, sem lagt var einangrunardúk.  Stefnandi kvaðst hafa verið á leið niður stigann þegar stiginn hafi runnið af stað.  Hafi stefnandi fallið með stiganum ofan á þak viðbyggingarinnar.  Stefnandi hafi lent á stiganum með bakið í rimla hans.  Stefnandi kvaðst hafa farið þess á leit við yfirmann sinn að viðgerð á þakinu yrði framkvæmd úr körfubíl eða krana.  Hafi yfirmaðurinn talið  það allt of dýrar tilfæringar við verkið og beðið stefnanda um að hefja viðgerðir á þakinu og nota til þess stiga, síðar myndi hann koma fyrir einhverskonar útbúnaði til að halda verkinu áfram.

Rúnar Arason, véltæknifræðingur, og yfirmaður viðhalds hjá stefnda, bar að hann hafi beðið stefnanda að þétta þak hráefnisgeymslunnar, sem hafi lekið.     Stefnandi hafi verið svokallaður dagvinnuverkstjóri og heyrt undir hann, en ekki haft menn í fastri vinnu undir sinni stjórn.  Hafi hann falið stefnanda verkefni og hafi þeir rætt um framkvæmd verksins.  Oft hafði áður verið gert við þakið, en þá hafi verið staðið öðruvísi að verki.  Hann kvaðst ekki muna eftir því, að stefnandi hafi farið fram á að krani eða körfubíll yrði notaður við viðgerðina, eða hvort komið hafi til tals milli hans og stefnanda að setja upp einhvern útbúnað til þess að framkvæma verkið.  Þegar stefnandi hafi unnið í nokkra daga hafi hann farið upp á þakið til hans og spurt hvort stefnandi teldi þetta fullnægjandi.  Stefnandi hafi talið svo vera og þar með hafi hann ekki gert frekari athugasemdir og ekki talið sig þurfa að leiðbeina stefnanda um hvernig verkið væri framkvæmt.  Hann kvaðst hins vegar hafa  getað leiðbeint stefnanda ef hann hefði séð ástæðu til.  Stefnandi hafi verið að vinna mjög neðarlega á þakinu og hafi hann ekki séð ástæðu til þess að gera athugasemd við útbúnaðinn.  Hann kvaðst ekki muna eftir því hvort rætt hafi verið um það áður en viðgerð hófst hvernig standa ætti að verkinu.  Hins vegar taldi hann augljóst að ekki hafi verið unnt að vinna við viðgerðir ofarlega á þakinu með þeim hætti sem gert hafi verið.  Þá hafi menn þurft að vera með fasta stiga og öryggislínur á sér, en ekki hafi verið ástæða til þess er stefnandi var að vinna svo neðarlega á þakinu.

Stefnandi hefur verið meira og minna óvinnufær frá slysinu.  Eftir slysið reyndi hann að vinna létta vinnu og vera í hálfu starfi hjá stefnda.  Hann hætti störfum hjá stefnda 31. desember 1999, að læknisráði og hefur ekki unnið síðan.

Örorka stefnanda var metin  af læknunum Atla Þór Ólasyni og Ragnari Jónssyni.  Er matsgerð þeirra dagsett 1. desember 1998.  Niðurstaða þeirra var sú, að tímabundið atvinnutjón stefnanda væri 100% frá 10. september 1997 til 1. júní 1998, en 50% frá þeim degi til 13. september 1998.  Varanleg örorka og varanlegur miski var metinn 20%.  Þá töldu þeir að stefnandi ætti rétt til þjáningabóta vegna rúmlegu í tvær vikur, en síðan án rúmlegu þann tíms sem tímabundið atvinnutjón var metið.

Örorkunefnd skilaði áliti um örorku stefnanda hinn 22. febrúar 2000.  Samkvæmt áliti hennar var varanlegur miski stefnanda vegna slyssins 25% og varanleg örorka hans 40%.  Í niðurstöðu ályktunarinnar segir svo: „Þann 10. september 1997 féll tjónþoli við vinnu sína niður stiga.  Stiginn féll til jarðar á undan honum og kom tjónþoli niður þannig að hann skall með bakið á rimlana.  Hann var þegar fluttur til skoðunar á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og reyndist hafa mölbrotinn 12. brjósthryggjarbol og liðbogar voru báðir í sundur.  Brotið var þegar metið óstöðugt og gekkst tjónþoli undir spengingaraðgerð á bili 11. brjósthryggjarliðar og 1. lendarliðar (Th XI-L.I.)

Tjónþoli var óvinnufær eftir slysið þar til hann reyndi fyrir sér í hálfu starfi í júní 1998.  Hann fór síðan í frí og um haustið gerði hann tilraun í hálfu starfi, naut skilnings á vinnustað og komst hjá öllum erfiðari störfum, sem hann réð ekki við.  Hann segir allan þennan tíma hafa verið erfiðan, kvöld og helgar hafi hann verið rúmliggjandi að mestu vegna óþæginda eftir vinnu og hafa þurft talsvert á verkjalyfjum að halda.

Vorið 1999 var tjónþoli sex vikur til endurhæfingar á Reykjalundi og segir að sér hafi þar verið ráðlagt að reyna að fá sér léttari vinnu.  Tjónþoli hefur ekki fundið neina slíka og gerir sér ekki fulla grein fyrir, hvar hann ætti að bera niður, veit ekki til hvers han treystir sér.  Hann hefur ekki unnið síðan.

Þrátt fyrir endurhæfingu, sjúkraþjálfun, sprautumeðferð, verkja- og bólgueyðandi lyf hafa óþægindi tjónþola orðið viðloðandi og hann kveðst stöðugt hafa verki í bakinu, sem leiði niður í vinstri fót, hann segist aldrei vera verkjalaus og ekki sofa heila nótt vegna þessa.  Hann á erfitt með að finna stellingar í rúmi og getur ekki hreyft sig nema með sérstökum hætti vegna óþæginda.  Hann á erfitt með að fara inn og út úr bíl, segir kraft minni í vinstri ganglim og hann gefi sig stundum á göngu.  Hann getur ekki lyft vinstri fæti, þegar hann liggur út af, finnur til dofa í tá og tábergi vinstri fótar.  Verkir og óþægindi í baki valda því að hann á erfitt með allar hreyfingar, er stirður og getur ekki bograð eða beygt sig, getur ekki lyft neinu þungu.  Auk þess hafði tjónþoli lengi óþægindi í vinstri öxl, sem versnuðu verulega eftir slysið en hann segir þau hafa lagast nokkuð.

Við skoðun voru hreyfingar í hrygg verulega skertar og virtust sársaukafullar.  Álagsverkir voru við fjöðrun í brjóst- og mjóhrygg, kraftur og taugaboð eitthvað minni í vinstri ganglim, dofi í fæti.

Tjónþoli hefur lent í varanlegum skaða við slysið 10. septmber 1997, er hann hlaut óstöðugt mölbrot á neðsta brjósthryggjarlið.  Þrátt fyrir skurðaðgerð, sjúkraþjálfun og aðra meðferð hafa óþægindi hans orðið viðvarandi og nokkuð ljóst, að hann verður ekki til fyrri starfa né heldur annarra líkamlegra átaka í framtíðinni.

Örorkunefnd telur að eftir 1. júlí 1999 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleiðingum vinnuslyssins 10. september 1997.  Að öllum gögnum virtum telur nefndin varanlegan miska hans vegna afleiðinga slyssins hæfilega metinn 25%- tuttugu og fimm af hundraði-.

Tjónþoli var á slysdegi 47 ára gamall.  Örorkunefnd telur ljóst að afleiðingar slyssins dragi verulega úr getu hans til að starfa sem húsasmiður í framtíðinni við störf sem teljast líkamlega erfið.  Nefndin telur þó að tjónþoli ætti að geta nýtt menntun sína við léttari vinnu, en úthald hans til vinnu er þó verulega skert vegna afleiðinga slyssins.  Varanleg örorka tjónþola vegna afleiðinga slyssins er samkvæmt þessu metin 40%- fjörtíu af hundraði-.”

  Með bréfi dagsetttu 6. mars 2000 krafði stefnandi réttargæslustefnda, sem vátryggjanda stefnda, um bætur vegna tjónsins.  Réttargæslustefndi hafnaði kröfunni með bréfi dagsettu 10. maí 2000.

Eftir að málið var höfðað óskaði stefndi eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta varanlegan  miska og varanlega örorku stefnanda.   Til starfans voru dómkvaddir læknarnir, Stefán Carlsson og Brynjólfur Jónsson.  Komust þeir að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka stefnanda væri hæfilega metin 60% og varanlegur miski 40%.  Í niðurstöðu þeirra, sem dagsett er 30. mars 2001, segir svo: „Það er álit matsmanna að einkenni þau sem Sigurjón hefur frá baki og valda honum óvinnufærni megi rekja til umrædds slyss og sú skerðing á starfsorku sem Sigurjón hefur orðið fyrir er veruleg og hefur verið óbreytt í langan tíma.

Matsmenn telja ólíklegt að Sigurjón geti haslað sér völl á frjálsum vinnumarkaði í framtíðinni og einnig afar ólíklegt að hann geti náð sér að því marki að hann geti stundað fyrra starf sitt eða sambærileg störf.  Með hliðsjón af öllum atvikum telja matsmenn að Sigurjón hafi fyrir slysið verið búinn að marka sér starfsvettvang til framtíðar.  Samkvæmt því telja matsmenn rétt mat á starfsorkuskerðingu hans að leggja til grundvallar starfsferil hans í þessu eða sambærilegu starfi.  Sigurjón hafði lengi verið í sama starfinu, auk þess að stunda margháttaða aukavinnu og tómstundastörf sem reynt hafa á líkamann.  Hann hefur þurft að leggja það nánast alveg á hilluna vegna mikilla líkamlegra einkenna.  Þótt Sigurjón hafi byrjað í tölvunámi er alveg ófyrirséð hvaða tekjuöflun eða hvaða vinnu hann gæti fengið í framhaldi af því og lítil reynsla komin á hvort hann geti yfirleitt leyst þau verkefni sem krefjast þess að hann sitji lengi í sömu stöðu við tölvuskjá við vinnu og matsmenn telja ólíklegt að hann geti haslað sér völl á því sviði sér til tekjuöflunar.

Þá telja matsmenn að miðað við aldur Sigurjóns sé ólíklegt að hann geti í framtíðinni stundað vinnu sem reynir að einhverju marki á bakið og við teljum minnkað vinnuþrek hans slíkt að það rýri mjög möguleika hans á að sinna jafnvel léttu starfi.  Líklegt er að þessi starfsorkuskerðing muni frekar aukast með aldrinum.

Það verður að öllu virtu ekki hjá því komist að telja að þessi líkamlega skerðing sem hlotist hefur af umræddum bakmeiðslum rýri að mestu starfsmöguleika Sigurjóns í framtíðinni.

Við teljum tímabundna örorku Sigurjóns vera 100% frá slysinu til 1. júní 1998.  Hann gat síðan stundað léttari hluta vinnunnar um tíma en varð að nýju alveg óvinnufær 11. ágúst 1999.”

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að aðbúnaður á vinnustað og eftirlit yfirmanna hafi verið áfátt.  Stefnandi hafi unnið verkið í samráði við yfirmann sinn, sem sé tækinifræðingur og sérfróður um það hvernig standa hafi átt að umræddum viðgerðum, og hafi hann samþykkt hvernig að verkinu var staðið.  Ekki hafi verið talið unnt að útvega stefnanda fullnægjandi tæki til að vinna verkið og hafi honum því verið nauðugur einn kostur að vinna það á framangreindan hátt. 

Stefndi beri áhættuna af því, að starfsmönnum sé falið að vinna verk með ófullnægjandi tækjabúnaði.

Þá hafi yfirmönnum stefnanda borið skylda til að gera athugasemdir við vinnutilhögun ef hún hafi talist ógætileg og vafasöm.  Stefndi hafi og ekki gefið stefnanda kost á að sækja námskeið á vegum Vinnueftirlits ríkisins, um aðbúnað og öryggismál á vinnustað.

Um lagarök vísar stefnandi til ólögfestra meginreglna skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á tjóni sem starfsmaður verði fyrir við vinnu sína í þágu vinnuveitanda.

Stefnandi krefur stefnda um bætur á grundvelli matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna.  Við útreikning bótafjárhæðar hafi verið miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í september 1997, sem verið hafi 180,60 stig og vísitölu marsmánaðar 2000, 194.90 stig.

Stefnandi hefur sundurliðað kröfu sína með eftirfarandi hætti í stefnu:

Þjáningabætur 3. gr. vegna rúmlegu 60 dagar

 

(2 vikur v. aðgerðar + 6 vikur v. endurhæfingar)

kr.      90.000

Þjáningab. 3. gr. án rúmlegu 598 dagar

kr.     487.370

Varanlegur miski skv. 4. gr.

kr. 1.868.400

Varanleg örorka skv. 5. og 6. gr.

kr.14.027.205

Frádráttur skv. 9. gr., 24%

kr.(3.366.529) 

Samtals

kr.13.106.446

Vextir skv. 2. gr. frá 10.09.97 – 06.04.00

kr.      688.586

Alls                                                                             Samtals

kr.13.795.032

 

 

Til frádráttar komi greiðsla úr slysatryggingu launþega

kr.      630.420 

 

Stefndi kveðst byggja kröfu sína um þjáningabætur á 3. gr. skaðabótalaga, en í álitsgerð örorkunefndar komi fram að stefnandi hafi eftir 1. júlí 1999 ekki getað vænst frekari bata vegna afleiðinga slyssins.  Útreikningur kröfunnar byggist á framreiknaðri fjárhæð 3. gr., kr. 1.500 x 60 = 90.000 krónur og 815 kr. x 598 = 487.370 krónur.

Kröfu um varanlegan miska byggir stefnandi á 4. gr. skaðabótalaga og miði við 40% miska samkvæmt matsgerð.  Útreikningur miðist við framreiknaða fjárhæð samkvæmt 4. gr. eða 4.671.000 krónur og 40% = 1.868.400 krónur.

Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku byggi stefnandi á 5. gr. og 6. gr. skaðabótalaga.  Bótafjárhæð vegna varanlegrar örorku stefnanda sé reiknuð út miðað við tekjur hans 12 mánuði fyrir slysið, eða 2.043.713 krónur, að viðbættu 6% álagi vegna framlags í lífeyrissjóð, samtals 2.166.336 krónur, en að teknu tilliti til vísitöluhækkunar, 2.337.868 krónur og sé við þá tölu miðað.  Bætur fyrir 60% varanlega örorku reiknist því 2.337.868 krónur x 10 x 60% = 14.027.205 krónur.  

Um útreikning fjárhæðar skaðabóta vísar stefnandi til 2., 3., 4., 5., 9. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Kröfu um vexti byggir stefnandi á lögum nr. 25/1987, einkum III. kafla laganna, með síðari breytingum.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.

IV

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að slysið hafi ekki stafað af neinum þeim ástæðum sem stefndi beri að lögum ábyrgð á.  Slysið hafi annað hvort orðið vegna óvarkárni stefnanda eða óhappatilviljunar.  Á hvorugu tilvikinu beri stefndi ábyrgð.  Stefnandi hafi starfað sjálfstætt að viðhaldi fasteigna hjá stefnda og hafi sjálfur borið ábyrgð á að útbúa vinnuaðstöðu sína  svo örugg væri.  Hafi honum borið að búa svo um, að álstiginn sem hann hafi unnið úr skrikaði ekki til.   Eftir á séð sé ljóst, að gangstéttarhellan, sem hann skorðaði stigann með dugði ekki til þess, enda ekki til þess ætluð.  Stiginn hafi hentað til verksins, ef aðgæslu hefði verið gætt og neðri endi hans skorðaður tryggilega.  Beri að hafa í huga að verkið hafi í sjálfu sér verið einfalt svo og sá búnaður sem notaður hafi verið og þurft hafi til þess að skorða stigann.

Stefndi heldur því fram að við mat á örorku stefnanda beri að leggja til grundvallar framlagða matsgerð þeirra lækna, sem málsaðilar hafi kvatt til starfans. Stefndi gerir athugasemdir við kröfu stefnanda um bætur fyrir þjáningar samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga.  Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. fyrrgreindrar greinar sé heimilt að víkja frá fjárhæðum þeim sem greini í 1. málslið greinarinnar, nemi bætur meira en 200.000 krónum.  Samkvæmt lögskýringagögnum sé ljóst að þetta heimildarákvæði sé eingöngu ætlað til þess að veita dómara svigrúm til að lækka þjáningabætur, ef veikindatímabil sé mjög langt.  Hérlendis njóti ekki við dómafordæma Hæstaréttar um beitingu ákvæðisins og verði því tjónagreiðendur að leita annað eftir viðmiðunum um hvernig með skuli fara.  Samkvæmt danskri dómaframkvæmd virðist miðað við að hámarksbætur fyrir þjáningar séu um það bil tvöföld fjárhæðin í 3. málslið, það sé nú um 450.000 krónur.  Krafa stefnanda sé að fjárhæð 577.730 krónur og sé því til nokkurra muna of há, miðað við fyrrgreind mörk.

Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda eins og hún er sett fram og dráttarvaxtakröfu frá fyrri tíma en dómsuppsögu.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

V

Eins og áður greinir varð stefnandi fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda og  hryggbrotnaði. 

Samkvæmt áðurgreindum framburði stefnanda og Rúnars Arasonar, yfirmanns viðhalds hjá stefnda, fól Rúnar stefnanda að gera við þak hráefnisgeymslu stefnda.  Stefnandi hefur haldið því fram, að hann hafi viljað vinna verkið úr krana eða körfubíl, en að yfirmaður hans hafi talið of kostnaðarsamt að viðhafa aðrar tilfæringar við verkið, en gert hafi verið.  Fyrrgreindur yfirmaður stefnanda kvaðst aðspurður ekki muna eftir því að stefnandi hefði óskað eftir krana eða körfubíl til verksins eða hvað hafi verið rætt þeirra á milli um það hvernig staðið skyldi að viðgerðinni.  Hann kvaðst hafa litið á aðstæður er stefnandi hafi verið búinn að vera við vinnu sína í einhvern tíma.  Hafi hann þá spurt stefnanda hvort hann teldi aðstæður fullnægjandi.  Stefnandi hafi talið svo vera og hafi hann því ekki séð ástæðu til að gera athugasemdir við útbúnaðinn, enda hafi stefnandi verið að vinna mjög neðarlega í þakinu.  Hins vegar taldi hann augljóst að ekki hefði verið unnt að standa að viðgerð ofar í þakinu með fyrrgreindum hætti.

Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins af slysinu eru ekki gerðar athugasemdir við útbúnað stigans eða vinnuaðstöðu.  Hins vegar er ljóst að umrætt slys má rekja til þess að sá búnaður sem notaður var til þess að skorða stigann reyndist ekki nægilega traustur á pappalögðu steinþakinu, þannig að stiginn rann til og í því felst meginorsök slyssins.  Yfirmaður hjá stefnda taldi ekkert athugavert við útbúnað þennan og sá ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við vinnutilhögun og öryggisbúnað við verkið.  Stefndi bar ábyrgð á því að vinnuaðstaða stefnanda, sem starfsmanns stefnda, væri fullnægjandi og öryggis stefnanda væri gætt.    Bar því yfirmanni stefnanda, sem hafði yfirumsjón með verkinu að sjá til þess að svo væri og gera athugasemdir við vinnutilhögun væri hún ótrygg.  Hins vegar ber að líta til þess að stefnandi er lærður trésmiður og átti að búa yfir nægilegri verkkunnáttu til að gera sér grein fyrir hvernig útbúa átti trygga vinnuaðstöðu, en ekki liggur fyrir að stefnandi hafi með skýrum hætti gert athugasemdir við vinnutilhögunina.  Ber því að leggja hluta ábyrgðar á stefnanda.  Þykir rétt að skipta sök þannig að stefnandi beri 1/3  tjóns síns sjálfur en stefndi 2/3. 

Við útreikning bóta ber að leggja til grundvallar matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, sem er vel rökstudd og hefur ekki verið hnekkt. 

Ekki er ágreiningur um útreikning bótakröfu.  Þá verður krafa um bætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga tekin til greina, eins og hún er sett fram, en stefndi hefur ekki sýnt fram á að rök séu til þess að beita heimild 2. málsliðar 1. mgr. 3. gr. laganna, og lækka bætur, með þeim hætti sem hann fullyrðir að venja sé til í danskri dómaframkvæmd.

Með vísan til framaritaðs ber því stefnda að bæta stefnanda 2/3 af útreiknuðu tjóni hans, eða 9.196.688 krónur að frádreginni greiðslu úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 630.420 krónur, samtals 8.566.268 krónur, með ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 10. september 1997 til 30. mars 2001, sem er dagsetning matsgerðar, og grundvöllur endanlegrar fjárkröfu stefnanda, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Áburðarverksmiðjan hf., greiði stefnanda, Sigurjóni Eysteinssyni,  8.566.268 krónur með ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 10. september 1997 til 30. mars 2001,  en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 900.000 krónur í málskostnað.