Hæstiréttur íslands
Mál nr. 57/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Miðvikudaginn 7. febrúar 2007. |
|
Nr. 57/2007. |
Garðar Björgvinsson(sjálfur) gegn Ingibjörgu S. Karlsdóttur og Svanhildi Karlsdóttur (enginn) |
Kærumál. Dómarar. Hæfi.
G krafðist þess að héraðsdómari, sem dæmdi í máli sem G hafði höfðað gegn I og S, viki sæti vegna tengsla hans við lögmann sem hafði komið að því sakarefni sem málið var sprottið af. Ekki var talið að óhlutdrægni dómarans yrði með réttu dregin í efa þótt hann þekkti umræddan lögmann og að í þeim efnum dygðu ekki þær röksemdir sem G tefldi fram. Þá var tekið fram að ekki væru gerðar jafn strangar kröfur að þessu leyti varðandi lögmann og þegar í hlut ætti málsaðili. Að þessu virtu var kröfu G hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 11. janúar 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Benedikt Bogason dómstjóri viki sæti í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir dómarann að víkja sæti í málinu.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 11. janúar 2007.
Mál þetta var höfðað 31. júlí og 1. ágúst 2006 og tekið til úrskurðar í dag. Stefnandi er Garðar Björgvinsson, Herjólfsgötu 18 í Hafnarfirði, en stefndu eru Ingibjörg S. Karlsdóttir, Kjartansgötu 11 í Borgarnesi, og Svanhildur Karlsdóttir, Sandbakka 3 á Höfn í Hornafirði.
Stefnandi hefur höfðað þetta mál á hendur stefndu til að fá viðurkennt með dómi að stefndu hafi ekki verið vottar að undirskrift stefnanda 20. mars 1995 undir kaupsamning hans og Sigfúsar Guðmundssonar um nýsmíði nr. 113 Viking 700, þar sem kaupverðið var tilgreint 6.830.000 krónur. Verði þessi krafa tekin til greina gerir stefnandi þá kröfu að stefndu verði gert að greiða stefnanda 30.000.000 króna í miskabætur auk dráttarvaxta frá þingfestingardegi málsins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
Af hálfu stefndu er þess krafist aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að þær verði sýknaðar af kröfum stefnanda.
I.
Mál þetta var síðast tekið fyrir á reglulegu dómþingi í Borgarnesi 5. desember sl. en þá lögðu stefndu fram greinargerð sína. Var málinu frestað til fyrirtöku 5. þessa mánaðar en fyrirhugað var að þá fram færi flutningur um frávísunarkröfu stefndu. Með bréfi stefnanda 4. sama mánaðar var þess farið á leit að málinu yrði frestað en auk þess gerði stefnandi þá kröfu að dómari málsins viki sæti í því. Fyrir þinghaldið barst síðan dóminum tilkynning um forföll stefnanda vegna veikinda og var þinghaldinu frestað utan réttar til dagsins í dag.
II.
Í þessum þætti málsins er tekin til úrlausnar sú krafa stefnanda að dómari málsins víki sæti. Sú krafa er reist á því að Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður, hafi verið lögmaður Sigfúsar Guðmundssonar, sem gert hafi þann kaupsamning við stefnanda, sem stefndu hafi vottað. Í raun sé nefndur hæstaréttarlögmaður höfuðpaur málsins, en stefnandi telur sig vita til að lögmaðurinn og dómari málsins séu góðvinir og hittist oft og reglulega. Telur stefnandi að tengsl dómara við lögmanninn séu slík að dómara beri að víkja sæti. Þá bendir stefnandi á að sá lögmaður sem nú fari með málið starfi á lögmannsstofu í eigu fyrrgreinda lögmannsins.
Af hálfu stefndu er kröfu um að dómari víki sæki andmælt.
III.
Samkvæmt g-lið 5. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallnar eru til þess að draga megi óhlutdrægni dómara með réttu í efa. Meðal þeirra aðstæðna sem valdið geta þessu eru tengsl dómara og lögmanns sem gætir hagsmuna aðila eða annarra sem gætu haft hagsmuna að gæta af máli.
Fyrir liggur að Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður, hefur í starfi sínu sem lögmaður komið að þeim málum sem sakarefni þessa máls er sprottið af. Hins vegar verður óhlutdrægni dómara ekki með réttu dregin í efa þótt dómari hafi lengi þekkt umræddan lögmann. Í þeim efnum duga ekki þær röksemdir sem stefnandi hefur teflt fram þótt fullyrðingar hans séu í sjálfu sér efnislega réttar. Þess verður einnig að gæta að ekki verða gerðar jafn strangar kröfur að þessu leyti varðandi lögmann og þegar í hlut á málsaðili. Samkvæmt þessu er kröfu stefnanda hrundið.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Dómari málsins víkur ekki sæti.