Hæstiréttur íslands

Mál nr. 181/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Málskostnaður


Föstudaginn 19. apríl 2013.

Nr. 181/2013.

M

(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.)

gegn

K

(Jón Egilsson hrl.)

Kærumál. Börn. Málskostnaður.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem mál K á hendur M var fellt niður en málskostnaður milli þeirra ekki dæmdur. K hafði höfðað mál gegn M og krafist forsjár barna þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki væru skilyrði til að víkja frá 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var K því gert að greiða M málskostnað í héraði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttur settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2013, þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður, en málskostnaður milli þeirra ekki dæmdur. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili höfðaði mál gegn sóknaraðila með stefnu 12. júní 2012 og krafðist þess að henni yrði einni dæmd forsjá tveggja barna þeirra en frá árinu 2010 hefur forsjá barnanna verið sameiginleg og lögheimili þeirra hjá sóknaraðila. Í þinghaldi 22. febrúar 2013 lýsti varnaraðili yfir að hún felldi málið niður. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnandi greiða málskostnað ef mál er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Gögn málsins bera hvorki með sér að verulegur ágreiningur hafi verið um fyrirkomulag umgengni varnaraðila við börnin né að breytingar hafi orðið þar á undir rekstri málsins. Þá var það niðurstaða sálfræðings, sem mat foreldrahæfni málsaðila, að bæði sýndu þau ágæta foreldrahæfni. Eru því ekki skilyrði til að víkja frá framangreindri reglu 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Verður varnaraðili því dæmd til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði, eins og í dómsorði greinir.

Hvorugur aðila hefur krafist kærumálskostnaðar og verður hann því ekki dæmdur.

Dómsorð:

Varnaraðili, K, greiði sóknaraðila, M, 400.000 krónur í málskostnað í héraði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2013.

Mál þetta var höfðað fyrir dómþinginu með stefnu birtri 12. júní 2012.  Málið var tekið til úrskurðar um málskostnaðarkröfu aðila hinn 22. febrúar sl.

Stefnandi er K, [...].

Stefndi er M, [...].

Dómkröfur stefnanda voru þær, að henni yrði með dómi dæmd forsjá barna aðila, A, kt. [...] og B, kt. [...].  Þess var jafnframt krafist að umgengni yrði skipað með dómi.  Að auki var þess krafist að stefndi yrði dæmdur til mánaðarlegrar greiðslu einfalds meðlags með börnunum til fullnaðs átján ára aldurs þeirra frá dómsuppsögudegi.  Stefnandi krafðist og málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda voru þær, að kröfum stefnanda yrði hafnað og stefnda yrði falin forsjá barna hans og stefnanda, A, kt. [...] og B, kt. [...] til 18 ára aldurs þeirra.  Þá krafðist stefndi þess að stefnandi yrði dæmd til að greiða einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppsögudegi til 18 ára aldurs þeirra og að ákveðið yrði með dómi um inntak umgengnisréttar barnanna og þess foreldris sem ekki fengi forsjá.  Jafnframt krafðist stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Í þinghaldi hinn 22. febrúar sl. krafðist stefnandi niðurfellingar málsins og krafði stefnda um málskostnað.  Stefndi féllst á niðurfellinguna en krafðist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

Mál þetta höfðaði stefnandi til þess að fá sér dæmda forsjá barna málsaðila, A og B.  Forsjá barnanna var sameiginlega hjá málsaðilum samkvæmt samningi þeirra frá árinu 2010 og lögheimili þeirra verið hjá stefnda.  Frá því að aðilar slitu samvistum árið 2002 hafa aðilar farið sameiginlega með forsjá barnanna, en lögheimili þeirra hefur ýmist verið hjá stefnanda eða stefnda.

Af hálfu stefnanda eru færð þau rök fyrir kröfu um málskostnað, að málshöfðun þessi hafi verið nauðsynleg, þar sem starfsfólk skóla hefði lýst yfir áhyggjum af börnunum vegna lélegrar skólasóknar.  Stefnandi hafi og verið tilbúin til að sætta ágreining aðila um leið og matsgerð hafi legið fyrir. 

Af hálfu stefnda eru þau rök færð fram, að hann hafi talið nauðsynlegt að grípa til varna í málinu, en málshöfðunin hafi verið af tilefnislausu.

Eins og að framan greinir óskaði stefnandi eftir að málið yrði fellt niður og féllst stefndi á það.  Samkvæmt því munu málsaðilar áfram fara sameiginlega með forsjá barnanna og er samkomulag um umgengni.

Samkvæmt 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er málið fellt niður.

Þrátt fyrir niðurstöðu málsins þykir, með hliðsjón af atvikum málsins sem og með vísan til röksemda aðila fyrir málskostnaðarkröfu, rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Dómsmálaráðherra veitti stefndu gjafsókn 21. maí 2012 og var gjafsóknin takmörkuð við 400.000 krónur.  Með gjafsóknarleyfi, dagsettu 22. febrúar 2013, var fyrra gjafsóknarleyfi fellt úr gildi, en stefnanda veitt gjafsókn við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Gjafsóknin er takmörkuð við réttargjöld, þóknun lögmanns og kostnað vegna undirmatsgerðar.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar af þóknun lögmanns hennar, Auðar Jónsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.

Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið  til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Málið er fellt niður.

Málskostnaður fellur niður í máli þessu. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, K, greiðist úr ríkissjóði, þar af þóknun lögmanns hennar, Auðar Jónsdóttur hdl., 600.000 krónur.