Hæstiréttur íslands

Mál nr. 458/2012


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 7. febrúar 2013.

Nr. 458/2012.

Hampiðjan hf.

(Kristín Edwald hrl.)

gegn

Hallgrími Sigurðssyni

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

Vinnuslys. Skaðabætur.

H höfðaði mál gegn H hf. til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð félagsins vegna líkamstjóns sem hann hlaut við starfa sinn sem netagerðamaður á athafnasvæði Akraneshafnar. Atvik málsins gerðust er starfsmenn H hf., þ. á m. H, tóku á móti nót skips við bryggju til að leggja hana niður til viðgerðar. Nótin, sem var illa rifin, festist í nótablökk sem fest hafði verið í bílkrana bifreiðar í eigu B, sem auk kraftblakkar skipsins var notuð við verkið. Reynt var að toga netabunkann í gegnum blökkina sem losnaði skyndilega við það, féll á nótahaug á bryggjunni og síðan á H, sem slasaðist illa við það. Vísað var til þess að atvik gerðust laust eftir miðnætti við erfiðar aðstæður, í myrkri, rigningu og roki, auk þess sem lýsing á bryggjunni hefði verið lítil. Talið var að með því að beita því vinnulagi sem gert var umrætt sinn, við hinar erfiðu aðstæður, hafi starfsmenn H hf. verið lagðir í óþarfa hættu. Voru orsakir slyss H raktar til þessa og talið að við verkið hefði ekki verið fullnægt áskilnaði laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Var bótaábyrgð H hf. því viðurkennd.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að verða aðeins dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefnda 20. október 2008 og að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur er óraskaður.

Áfrýjandi, Hampiðjan hf., greiði stefnda, Hallgrími Sigurðssyni, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2012.

                Mál þetta, sem dómtekið var 2. mars sl., var þingfest 19. apríl 2011.

                Stefnandi er Hallgrímur Sigurðsson, Jörundarholti 103, Akranesi.

                Stefndu eru Hampiðjan hf., Skarfagörðum 4, Reykjavík, og Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., Dalbraut 6, Akranesi.

                Til réttargæslu er stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Kringlunni 5, Reykjavík og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi óskipt skaðabótaskylda stefndu Hampiðjunnar hf. og Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut í vinnuslysi hinn 20. október 2008 á athafnasvæði Akraneshafnar, Akranesi.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins úr hendi stefndu óskipt og að tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefndu.           

                Stefndi Hampiðjan hf. krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

                Stefndi krefst þess til vara að hann verði einungis dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefnanda hinn 20. október 2008 og að málskostnaður verði felldur niður.

                Dómkröfur stefnda, Bifreiðarstöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaðar úr hans hendi að mati dómsins,

                Til vara er þess krafist að sök verði skipt í málinu og málskostnaður felldur niður.

Málavextir

Stefnandi, sem er netagerðarmaður og starfsmaður stefnda Hampiðjunnar hf., varð fyrir vinnuslysi kl. 00:41 aðfararnótt 20. október 2008, þar sem hann var að vinna á athafnasvæði Akraneshafnar, Akranesi. Voru tildrög slyssins þau að verið var að taka í land til viðgerðar síldarnót úr nótaveiðiskipinu Birtingi NK-119 (1807).

Stefnandi var ásamt þremur öðrum starfsmönnum Hampiðjunnar hf.  að taka á móti nótinni á bryggjunni og leggja hana niður til viðgerða. Við verkið var notuð kraftblökk skipsins og nótablökk, sem fest var í bílkrana á bifreið í eigu stefnda, Bifreiðastöðvar Þórðar Þ Þórðarsonar ehf. Þar sem nótin var illa rifin festist stór netabunki í kraftblökk bifreiðarinnar, sem var í 12-14 metra hæð. Reynt var að tosa bunkann í gegnum blökkina en þá losnaði hann skyndilega úr blökkinni og féll niður á nótahauginn á bryggjunni og hentist síðan á stefnanda sem slasaðist illa. Brotnaði m.a hægri fótur, mjöðm og rifbein.

Strax eftir slysið var farið með stefnanda í sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnunina á Akranesi og þaðan á Landspítalann í Fossvogi, Reykjavík. Í framlagðri matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal kemur fram að við komu á slysa- og bráðadeild voru eymsli yfir brjóstkassa, kviður var spenntur, vinstri mjöðm var aflöguð þar sem grunur lék á liðhlaupi og grunur var um brot á hægri lærlegg og fótlegg. Tölvusneiðmynd af brjóstkassa leiddi í ljós brotin rifbein. Vinstri mjöðm var úr liði. Röntgenmynd af hægri fótlegg sýndi brot á þremur stöðum og röntgenmynd af hægri lærlegg sýndi þverbrot um miðjan lærlegg. Kveðst stefnandi hafa verið meira og minna undir læknishendi síðan slysið varð og ekki enn geta hafið störf að nýju.

Með bréfum, dags. 28. nóvember 2008, var bæði Sjóvá hf. og Tryggingastofnun ríkisins tilkynnt um aðild lögmanns stefnanda að slysamáli þessu.

Með bréfi, dags. 4. október 2010, fór lögmaður stefnanda þess á leit við réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., sem Hampiðjan hf. er tryggð hjá, að framkvæmt yrði svokallað hefðbundið tveggja lækna mat þar sem heilsu stefnanda teldist svo komið að hann væri kominn með svokallaðan stöðugleikatímapunkt.

                Með bréfi, dags. 13. október 2010, til Sjóvár-Almennra trygginga hf., óskaði  lögmaður stefnanda eftir því að stefndi viðurkenndi formlega bótaskyldu sína úr frjálsri ábyrgðartryggingu Hampiðjunnar hf., vinnuveitanda stefnanda.

                Með tölvubréfi, dags. 13. janúar 2011, var erindi þessu hafnað og því lýst yfir  að starfsmenn Hampiðjunnar hf. hefðu ekki sýnt af sér saknæma háttsemi. Af þeim ástæðum var greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu Hampiðjunnar hf. hafnað.

                Með tölvubréfi, dags. 28. janúar 2011, samþykkti Sjóvá-Almennar tryggingar hf., að fram færi sameiginlegt örorkumat tveggja lækna vegna stefnanda, án viðurkenningar á bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu Hampiðjunnar hf.

                Atli Þór Ólason læknir og Leifur N. Dungal mátu afleiðingar slyssins á heilsu stefnanda varðandi tímabundið tekjutap, þjáningabætur, varanlegan miska og varanlega örorku og varðandi stöðuleikatímapunt. Þar kemur m.a fram, að varanlegur miski stefnanda er metinn 30% og varanleg örorka 40%. Matsgerð þeirra er dags. 18. mars 2011.

                Dagana 25.-30. mars 2011 var lögmaður stefnanda í tölvusamskiptum við lögmann réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., varðandi málið og aðild félagsins að máli þessu vegna ábyrgðartryggingar Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf. hjá félaginu.

                Þar sem báðir réttargæslustefndu höfnuðu bótaábyrgð höfðaði stefnandi mál þetta. Stefnt er Hampiðjunni hf. og Bifreiðastöð Þórðar Þ Þórðarsonar ehf. og til réttargæslu Sjóvá- Almennum tryggingum hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf.

Málsástæður stefnanda og lagarök

                Óskipt krafa stefnanda á hendur stefndu byggist á því að þeir beri báðir ábyrgð og eigi sök á slysinu sem stefnandi varð fyrir á bryggjunni á Akranesi hinn 20. október 2008 þegar síldarnót féll á hann og slasaði. Verði slysið eingöngu rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna á vegum Hampiðjunnar hf., einkum verkstjórans en jafnframt stjórnanda bílkranans, sem var starfsmaður Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf. Þá megi einnig rekja slysið til ófullnægjandi lýsingar á bryggjunni, lélegrar vinnuaðstöðu, og þess hvernig yfirhöfðuð var staðið að verkstjórn og ekki síst hve bílblökkin var slitin. Allt gúmmí hafi verið farið úr henni og eingöngu bert blikkið eftir, sem gerði það að verkum að blökkin dró mjög illa nót í gegnum sig þar sem hún slúðraði við þungan drátt. Auk þess megi rekja orsakir slyssins til þess, að bílkrananum hafi verið sveiflað út og suður til að geta dregið nótina í land. Engir starfsmanna hafi verið látnir bera hjálm.

Stefnandi lýsir einstökum liðum þannig.

Sakaraðild Hampiðjunnar hf.

Lýsingu á bryggju ábótavant

Verkið við að taka nótina í land hafi hafist að kveldi 19. október 2008. Slysið hafi gerst kl. 00:41. Þá hafi verið myrkur, lýsing á bryggju eingöngu af þremur staurum á bryggjukanti, kranabíllinn með lítil sem engin ljós og ljósin á skipinu við bryggjuna, sem verið var að taka nótina úr, hafi bara lýst fram og aftur skipið. Bílblökkin hafi verið staðsett í ca 12-14 metra hæð í myrkrinu.

Verkstjórn og aðstæður á bryggjunni ófullnægjandi

Stefnandi kveðst hafa rætt við verkstjórann, Vernharð, áður en byrjað var að vinna, um það hvort ekki væri betra og öruggara að hífa nótina bara beint upp á bryggjuna. Hið rétta væri að láta starfsmennina ekki standa undir nótinni við verkið og greiða úr henni fram eftir bryggjunni jöfnum höndum, heldur greiða fyrst úr henni þegar búið væri að hífa hana alla í land og nota þá jafnvel tvo krana við það, enda nótin um 50 tonn að þyngd. Verkstjórinn hafi ekki fallist á að beita þessari aðferð við verkið heldur skyldi greiða strax úr nótinni á bryggjunni. Liggi fyrir að starfsmaður standi að sjálfsögðu ekki uppi í hárinu á yfirmanni sínum og verkstjórnanda varðandi það hvernig vinna skuli verk. Hafi verkstjóranum því mátt vera vel kunnugt um áhættuna sem fylgdi því að vinna verkið með þeim hætti sem gert var. Þá verði heldur ekki talið að stefnandi hafi borið sig gáleysislega að við verkið eða öðru vísi en mátti ætla af honum. Af þeim ástæðum verði ekki séð að stefnandi eigi að bera meðábyrgð á líkamstjóni sínu.

Ástæða þessarar ábendingar stefnanda hafi verið sú að hann taldi, vegna mikilla reynslu sinnar í þessum efnum og þar sem vitað var að síldarnótin var mikið rifinn, að það gæti verið varhugavert að láta menn standa undir nótinni í myrkrinu og greiða úr henni jafnóðum og búið væri að draga úr blökkinni. 

Ekki sé óvanalegt, eins og komi fram í skýrslum vitnanna að slysinu, sbr. framlagðar lögregluskýrslur, að nótapungar myndist þegar verið er að hífa nætur í land, en í flestum tilfellum sé þá verið að tala um netapunga sem greiði sjálfir úr sér þegar þeir fari niður úr kranablökkinni. Sé það ekkert í líkingu við það sem átt hafi sér stað í þessu tilfelli sem hér um ræði þar sem þessi tiltekna nót hafi verið haugrifin og illa raðað í skipið. Hafi legið ljóst fyrir áður en byrjað var á verkinu að nótin kæmi mjög skökk í land vegna teinaslitanna þar sem nótin hafði fest sig í botni á tveimur stöðum. Hefði nótin ekki verið svona mikið skemmd hefði netakúlan aldrei orðið svona stór og þétt í sér. Hafni stefnandi því alfarið að slysið megi rekja til óhappatilvika sem enginn hefði getað spornað við.

Þá undirstriki stefnandi það, og ítreki, að þar sem nótin var jafn hengilrifin og raun bar vitni, hefði legið beinast við að hífa hana alla fyrst upp á bryggju og flytja hana síðan inn í hús. Hefði verið auðveldara í alla staði að greiða úr nótinni innan dyra og gera við hana þar, þar sem lýsing og aðstaða var miklu betri, heldur en að gera við hana í hrúgu á bryggjunni, en viðgerð á henni hafi tekið heila viku. Í stað þess hafi stefnandi og aðrir starfsmenn Hampiðjunnar hf. þurft að standa undir nótinni og greiða úr henni og hafi því ekki alltaf getað verið að fylgjast með hvað var að gerast í myrkrinu í 12-14 metra hæð. Af þeim ástæðum hafi starfsmönnunum verið stefnt í óþarfa hættu, ef illa færi, eins og raunin varð á. Verkstjóranum hafi borið að forða starfsmönnunum frá því að þurfa að standa undir nótinni þegar verið var að reyna að tosa þennan stóra netabunka í gegnum blökkina. Sama megi segja um stjórnanda bílkranans.

Þá bendir stefnandi á það að sjálf bílblökkin, sem notuð var við hífinguna, hafi bæði verið haugslitin og hálfónýt þar sem allt gúmmí hafi verið farið af báðum kjömmum (hliðunum). Þessi blökk, sem Hampiðjan hf. hafi lagt til verksins, hafði verið tekin af skipi og fest á kranabómu vörubifreiðarinnar þótt hún væri orðin svo gömul að ekki hafi verið hægt að nota hana lengur um borð í skipi. Það að gúmmífóðringuna vanti leiði til þess að gripið og viðnámið sé ekki fyrir hendi með þeim afleiðingum að blökkin hafi dregið illa, og ekki neitt, hafi slúðrað, þar sem einungis bert blikkið hafi verið eftir. Segist stefnandi oft hafa verið búinn að benda verkstjóra Hampiðjunnar hf. á hið slæma ástand blakkarinnar. Að sögn stefnanda hafi blökkin verið gúmmífóðruð eftir slysið.

Um skyldur verkstjóra sé fjallað í 20.-23. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, en þar segi m.a að verkstjóri sé fulltrúi atvinnurekanda og beri ábyrgð á að aðbúnaður og öryggi sé fullnægjandi. Verkstjóri skuli einnig beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess svæðis, sem hann stjórnar, séu fullnægjandi. Verði hann var við atriði sem valdið geta hættu skuli hann tryggja að hættunni sé afstýrt.

Telur stefnandi, miðað við atvik, að á þeim sem stjórnaði verkinu, hafi hvílt sérstök skylda að haga því þannig að starfsmönnum á bryggjunni stafaði sem minnst hætta af, sérstaklega með tilliti til ábendingar stefnanda. Ekkert liggi fyrir um það að hann hafi gefið fyrirmæli við framkvæmd verksins um að sérstakrar varúðar skyldi gætt við að hífa nótina í land eða um það hvernig starfsmennirnir skyldu standa að verki. Verði að telja að vinnuaðstæður hafi verið óviðunandi og beinlínis hættulegar. Hafi því ekki verið gætt fyrirmæla 13. gr., 17. gr., 37. gr. og 42. gr., sbr. 46. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, um að tryggja að framkvæmd vinnu og aðstæður á vinnustað væru þannig að gætt væri fyllsta öryggis starfsmanna.

Stefnandi telur að af framangreindum ástæðum beri Hampiðjan hf., samkvæmt sakarreglu og húsbóndaábyrgð, ábyrgð á slysinu. Skuli á það bent að notkun bílkranans hafi verið liður í ákveðinni heildarframkvæmd verks sem hafi verið sérhæft og unnið á vegum Hampiðjunnar hf. og undir verkstjórn starfsmanns hennar. Verði varla séð að hægt sé að skilja kranavinnuna frá verkinu í heild sinni og líta á hana sem sjálfstæðan verkþátt, sem annar en Hampiðjan hf. í raun beri ábyrgð á. Af þeim ástæðum beri Hampiðjan hf. ein ábyrgð á líkamsskaða stefnanda.

Sakaraðild Bifreiðastöðvar Þórðar Þ Þórðarsonar ehf.

Verði aftur á móti talið að Hampiðjan hf. beri ekki alla ábyrgð, heldur einnig bifreiðarstjórinn, þá bendi stefnandi á eftirfarandi:

Stjórn bílkranans og nótablökkin.

Stefnandi telur að það geti á engan hátt hafa verið eðlilega að verki staðið hjá stjórnanda bílkranans að standa með fjarstýribúnað bílkranans hlémegin við bílinn meðan á verkinu stóð. Verkstjórinn hafi staðið við hlið hans og hafi því hvorugur séð þegar nótin kom niður á bryggjuna þar sem mennirnir voru að vinna undir henni og í kringum hana.

 Þá bendi stefnandi á að stjórnandi bílkranans hefði átt að gera sér fulla grein fyrir því að blökkin, sem hann sjálfur festi við bílkranann og notuð var síðan við hífinguna, hafi bæði verið haugslitin og hálfónýt þar sem allt gúmmí hafi verið farið af báðum kjömmum (hliðunum), sem leiði til þess að blökkin dragi ekki sem skyldi í gegnum sig. Til þess að bæta sér upp þennan skort á gripi við að draga nótina í gegn, hafi kranastjórinn gripið til þess ráðs að sveifla sjálfri kranabómunni fram og aftur og til hliðanna til að reynt að þjösna nótinni í gegn þegar þessi stóri netapungur myndaðist, sem síðan hafi valdið slysinu.

Með þessum vinnubrögðum hafi kranastjórinn notað aflið í krananum til að reyna að draga nótina í gegn, þegar stór nótapungur myndast, í stað þess að nota snúningskraft blakkarinnar, eins og eðlilegt hefði verið að gera og venja var til. Vegna þessa slits á kraftblökkinni hafi kranabómunni verið sveiflað fram og aftur, sem hafi gert það að verkum að þeir sem unnu á bryggjunni, þ.m.t stefnandi, gátu aldrei vitað hvar blökkin var hverju sinni upp í myrkrinu fyrir ofan þá. 

Stefnandi telur að á bílstjóranum, sem stjórnaði hífingum bílkranans, hafi hvílt sérstök skylda að haga verkinu þannig að starfsmönnum á bryggjunni stafaði sem minnst hætta stafaði af. Ekkert liggi fyrir um það að hann hafi gefið fyrirmæli við framkvæmd verksins um að sérstakrar varúðar skyldi gætt við hífingu nótarinnar í land eða um það hvernig starfsmennirnir skyldu standa að verki, enda hafi hann ekki fylgst með því hvar þeir stóðu. Verði að telja að vinnuaðstæður hafi verið óviðunandi og beinlínis hættulegar. Hafi því ekki verið gætt fyrirmæla 13 gr., 17. gr., 37. gr. og 42. gr., sbr. 46. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum um að tryggja að framkvæmd vinnu og aðstæður á vinnustað væru þannig að gætt væri fyllsta öryggis starfsmanna.

Þá telur stefnandi að bifreiðastjórinn hafi m.a brotið gegn gr. 3.1.3., 3.2.3. og gr. 3.2.5 reglugerðar nr. 367/2006 um notkun ökutækja.

                Með vísan til framanritaðs telur stefnandi tvímælalaust að slys stefnanda verði eingöngu rakið til ófullnægjandi verkstjórnar, ófullnægjandi lýsingar og vinnuaðstöðu og ónothæfs tækjabúnaðar sem stefndu beri óskipta skaðabótaábyrgð á. Hafnar stefnandi því með öllu að slysið verði rakið til óhappatilviks eða eigin gáleysis. Telur stefnandi einsýnt að slys hans megi að öllu rekja til atvika sem stefndu beri óskipta ábyrgð á.

                Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga, sakarreglunni og reglunni um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum og aðgæsluleysi þeirra sem undir hann heyra. Einnig er byggt á skaðabótalögum nr. 50/1993 með síðari breytingum og á sama hátt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Jafnframt er byggt á gr. 3.1.3., 3.23 og 3.2.5 í reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Um málskostnað vísast til XXI kafla laga um meðferð einkamála, einkum 1. m.gr. 130. gr. Um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls er vísað til 25. gr. laga nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda, Hampiðjunnar hf., og réttargæslustefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf.

Aðalkrafa.

                Stefndi byggir á því að slys stefnanda verið ekki rakið til aðstæðna né atvika sem hann beri skaðabótaábyrgð á lögum samkvæmt, heldur hafi verið um óhappatilvik að ræða. Stefnandi, sem beri sönnunarbyrði um orsök tjóns síns, hafi ekki sýnt fram á hið gagnstæða.

                Stefndi byggir á því að verklag hafi verið í samræmi við það sem almennt tíðkast í sambærilegum verkum og hvorki hafi verkstjórn né aðstöðu verið ábótavant. Ekki hafi verið um að ræða saknæma háttsemi af hálfu starfsmanna stefndu. Þá hafi á engan hátt verið brotið gegn lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Vinnueftirlitið hafi engar athugasemdir gert í skýrslu sinni og var álit þess að aðstæður hefðu verið góðar.

                Stefndi mótmæli því að lýsing á slysstað hafi á nokkurn hátt verið ófullnægjandi. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að afstýra hefði mátt slysinu þó svo að bjart hefði verið þar sem netabunkinn féll mjög skyndilega úr 12-14 metra hæð. Stefndi bendi á að ekki hafi verið gerðar neinar athugasemdir við lýsingu á slysstað af hálfu Vinnueftirlitsins.

                Stefndi mótmæli því enn fremur að verkstjórn, verklag eða aðstæður að öðru leyti á slysstað hafi verið með þeim hætti að um saknæma háttsemi stefnda eða starfsmanna hans hafi verið að ræða. 

                Verklag það sem beitt hafi verið í umrætt sinn hafi verið hefðbundið verkleg sem ávallt sé við haft í sambærilegum verkum. Engar sérstakar hættur séu fólgnar í því sem mögulegt hefði verið að varast með öðru verklagi. Sérstaklega sé þeirri fullyrðingu stefnanda mótmælt að öruggara hefði verið að hífa nótina beint upp á bryggjuna, eins og haldið sé fram í stefnu. Líkt og fram komi í lögregluskýrslu, dags. 10. nóvember 2008, þar sem rætt hafi verið við Vernharð Hafliðason verkstjóra, myndist svona nótapungar í hvert einasta skipti sem verið sé að hífa nætur frá borði. Sé það sökum þess að netið sé miklu lengra en teinarnir og sérstaklega ef nót er rifin. Einnig komi fram að mennirnir hafi verið búnir að sjá þennan nótapung áður en hann fór í gegnum blökkina. Í gögnum málsins komi fram að stefnandi telji sjálfur að engin vísbending hafi verið um að þeir sem unnu við að ná nótinni í land og gerðu við hana, hafi staðið óeðlilega að verki. Þá hafi mennirnir sem að verkinu unnu verið þaulvanir og þekkt vel til þeirra vinnubragða sem verkið þarfnaðist. Ljóst sé því að verklagi hafi á engan hátt verið ábótavant.

                Þá sé því mótmælt sem röngu að stefnandi hafi lagt annað verklag til við verkstjóra stefnda sem og að hann hafi gert athugasemdir við þá blökk sem stjórnandi kranans notaði á kranann í umrætt sinn.

                Ekki verði með nokkru móti séð að verkstjóri stefnda hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi í umrætt sinn eða að hvaða leyti verkstjórn hafi átt að vera ábótavant. Eins og áður sé komið fram voru þeir sem unnu að verkinu vanir menn sem þekktu verklagið og aðstæður mjög vel og hvað þyrfti að varast. Starfsmennirnir, þ.á m. stefnandi, hafi vitað að nótapungur væri á leiðinni í gegnum blökkina en enginn gerði eða gat gert sér grein fyrir að hann væri svona þéttur og þungur sem raun bar vitni. Eigi það jafnt við um verkstjóra stefnda, Vernharð, aðra starfsmenn stefnda og stjórnanda kranans, Ólaf, starfsmann meðstefnda. Telur stefndi að hvorki verkstjóri stefnda né stjórnandi kranans hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í umrætt sinn. Eðlilega hafi verið staðið að verkstjórn og á fullnægjandi hátt. Sama eigi við um stjórnun bílkranans. Vinnubrögð stjórnanda kranans hafi verið tilhlýðileg að öllu leyti. Sú aðferð sem hann notaði við verkið hafi verið eðlileg og nauðsynleg til þess að ná nótinni í gegnum blökkina.

                Því sé mótmælt að ástand blakkarinnar, sem notuð var til þess að hífa nótina, hafi haft einhver áhrif á tildrög slyssins sem og að hún hafi verið haugslitin og hálfónýt. Eðli málsins samkvæmt eyðist gúmmíið í hvert sinn sem blökkin er notuð. Orsök slyssins hafi hins vegar ekki verið sú að gúmmí á blökkinni hafi verið illa farið, en gúmmíið hafi ekki verið verr farið þarna en í önnur skipti sem nót er tekin úr skipi. Verði talið að blökkin hafi verið orsakavaldur að slysi stefnanda sé á því byggt að það sé alfarið á ábyrgð meðstefnda en blökkin sem notuð var á krana bifreiðar meðstefnda hafi ekki verið í eigu stefnda og hafi meðstefndi lagt hana til verksins.

                Í ljósi framangreinds liggi það fyrir að slysið verði ekki rakið til neinna atvika er stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Um óhappatilvik hafi verið að ræða þegar  nótapungurinn skall á nótahauginn og kastaðist á stefnanda.

                Verði hins vegar talið að um sé að ræða sök af hálfu Ólafs Þórðarsonar, stjórnanda krana bifreiðarinnar, sé á því byggt að Ólafur hafi verið starfsmaður meðstefnda og ekki undir verkstjórn stefnda. Beint samningssamband hafi verið á milli meðstefnda og útgerðar Birtings NK og hafi meðstefndi gert útgerðinni reikning vegna vinnunnar. Stjórnandi kranans hafi sjálfur tekið allar ákvarðanir varðandi stjórn á krananum og hvernig ætti að hreyfa til nótina. Stefndi hafi ekki haft verkstjórnarvald yfir honum eða þeim þætti verksins og verði talið að orsök tjóns stefnanda sé að rekja til vinnubragða stjórnanda kranans sé það alfarið á ábyrgð meðstefnda en ekki stefnda.

Varakrafa

                Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda sé varakrafa á því byggð að stefnandi verði að bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Stefnandi hafi verið þaulvanur og hann gjörþekkti aðstæður. Hann hafði unnið við sambærileg verk um langa hríð. Verði talið að ekki hafi verið um óhappatilvik að ræða og að unnt hefði verið að átta sig á því að hætta gæti falist í því að taka nótapunginn í gegnum blökkin með þessum hætti í umrætt sinn sé víst að stefnanda hafi mátt vera það ljóst og hafi honum því borið að sýna tilhlýðilega aðgæslu og gæta þess að standa fjær þeim stað sem nótapungurinn féll á. Um nánari rökstuðning fyrir varakröfu sé vísað til rökstuðnings fyrir aðalkröfu eftir því sem við á.

                Um lagarök vísar stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, sakarmat, orsakatengsl og sennilega afleiðingu sem og eigin sök tjónþola.  Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda, Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., og réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf.

Aðalkrafa

                Sýknukrafa Bifreiðastöðvarinnar byggist í fyrsta lagi á aðildarskorti.

                Bifreiðastöðin byggir á því að umrætt verk, að taka nótina í land, hafi verið unnið á vegum Hampiðjunnar og undir verkstjórn þess. Skipti engu máli í því sambandi þótt kraninn hafi verið fengin til verksins frá þriðja aðila heldur hafi notkun kranans við verkið verið órjúfanlegur þáttur þess sem verði á engan hátt skilinn frá verkinu þannig að hægt sé að aðgreina sök vegna þess sérstaklega. 

                Hampiðjan hf. beri þar með fulla ábyrgð á öllu verkinu og því hvernig það var innt af hendi og eigi það við um kranavinnuna sem og aðra vinnu því tengda. Kröfum vegna meintrar sakar við framkvæmd verksins verði því eingöngu beint að Hampiðjunni hf. enda ekkert það samband milli stefnanda og Bifreiðastöðvarinnar að stefnandi geti átt bótarétt á hendur félaginu vegna slyss sem hann varð fyrir við verkið.

                Stefnandi beini því kröfum sínum ranglega að Bifreiðastöðinni og beri að sýkna félagið á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Þá telur Bifreiðastöðin rétt að benda á að málið sé höfðað á hendur báðum stefndu til viðurkenningar á óskiptri skaðabótaskyldu þeirra gagnvart stefnanda. Ekki sé hins vegar gerð nánari grein fyrir því í málatilbúnaði í stefnu á hvaða grundvelli sé byggt um heimild til málshöfðunar á hendur þeim sameiginlega eða vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 eða annarra laga um slíka heimild. Kröfugerð stefnanda sé að þessu leyti óskýr í skilningi 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 sem kunni að leiða til frávísunar án kröfu.

                Sýknukrafa Bifreiðastöðvarinnar sé í öðru lagi byggð á því að hvorki félagið né nokkur á þess vegum eigi sök á slysi stefnanda. 

                Af málatilbúnaði stefnanda megi ráða að hann telji að slysið sé að rekja til sakar ökumanns kranabifreiðarinnar og sökin grundvallist á því hann hafi ekki staðið rétt að verki, verkstjórn hans hafi verið ábótavant auk þess sem vinnuaðstæður hafi verið óviðunandi.

                Þessum málatilbúnaði stefnanda sé alfarið mótmælt. Telur Bifreiðastöðin með öllu ósannað að félagið, eða einhver sem það ber ábyrgð á, hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með þessum hætti og valdið því að stefnandi slasaðist í umrætt sinn.

                Um skaðabótaábyrgð í málinu fari eftir almennum skaðabótareglum. Af þeirri reglu leiði að aðili verði ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni annars aðila nema það sé að rekja til sakar hans eða einhverra sem hann ber ábyrgð á. Sönnunarbyrðin um meinta sök Bifreiðastöðvarinnar hvíli því óskipt á stefnanda enda ekkert komið fram í málinu um að víkja beri frá meginreglunni og leggja sönnunarbyrðina að einhverju leyti á Bifreiðastöðina.

                Eins og áður komi fram virðist málatilbúnaður stefnanda á hendur Bifreiðastöðinni, hvað sök varðar, grundvallast á því að a) óeðlilega hafi verið að verki staðið af hálfu stjórnanda kranans, b) verkstjórn stjórnanda kranans hafi verið ábótavant og c) að vinnuaðstæður hafi verið óviðunandi. Öllu þessu sé alfarið hafnað af hálfu Bifreiðastöðvarinnar.

                Þegar hafi komið fram að umrætt verk var unnið fyrir og á vegum Hampiðjunnar hf. og undir verkstjórn þess félags. Bifreiðastöðin hafi ekkert komið að framkvæmd verksins og hafi ekkert haft með það að gera hvernig verktilhögun var eða verkstjórn. Kranamaðurinn hafi ekki haft verkstjórn á hendi á svæðinu né ráðið nokkru um verkframkvæmdir. Þvert á móti hafi hann, þótt hann væri starfsmaður Bifreiðastöðvarinnar á þessum tíma, alfarið verið undir verkstjórn og boðvaldi Hampiðjunnar hf. enda kranavinnan órjúfanlegur hluti heildarverksins. Bifreiðastöðin geti því á engan hátt borið ábyrgð á því ef slysið er að rekja til sakar með þeim hætti sem stefnandi haldi fram, hvorki að því er varðar vinnufyrirkomulag né verkstjórn.

                Eins og segi í skýrslu Vinnueftirlitsins hafi verið algengt að vinna verkið með þeim hætti sem gert var og er tekið fram að þegar nót er mikið rifin, eins og var í þetta sinn, sé hætta á að hún komi bunkuð um borð og þegar hún sé dregin í land komi bunki í gegnum kraftblakkirnar. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu Vinnueftirlitsins við aðstæður á slysstað eða umræddan krana sem var notaður við verkið. Þá hafi Vinnueftirlitið ekki talið ástæðu til að mæla fyrir um úrbætur á vinnustaðnum og hafi ekki gert athugasemdir við slysstaðinn. 

                Ljóst megi vera að umrætt verk hafi á allan hátt verið unnið á venjulegan og eðlilegan hátt. Þá sé ljóst að umrætt slys hafi á engan hátt verið að rekja til þess að ökutækið og/eða kraninn sem notaður var hafi verið á einhvern hátt vanbúinn til verksins, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að svo sé en sönnunarbyrðin um það sé öll hans.

                Tekið sé fram að kraftblökkin sem fest var við bílkranann og notuð við verkið hafi ekki verið í eigu eða á vegum Bifreiðastöðvarinnar heldur útveguð til verksins af Hampiðjunni hf. Ástand hennar geti því á engan hátt verið á ábyrgð Bifreiðastöðvarinnar.

                Því sé sérstaklega hafnað sem stefnandi haldi fram að sök Bifreiðastöðvarinnar verði byggð á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum 13., 17., 37. og 42. gr., sbr. 46. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, og reglugerð nr. 367/2006, gr. 3.1.3, 3.2.3 og gr. 3.2.5.

                Eins og þegar hafi komið fram hafi hvorki Bifreiðastöðin né einhver á vegum félagsins nein afskipti af vinnustaðnum eða verkframkvæmdum enda verkið að öllu leyti undir verkstjórn Hampiðjunnar hf. Af þeim sökum geti ekki komið til ábyrgðar Bifreiðastöðvarinnar vegna brota á tilvitnuðum lögum eða reglugerð. Þá liggi ekkert fyrir um að vinnuaðstæður og/eða vinnustaður hafi á einhvern hátt verið óviðunandi. Ekki hafi verið sýnt fram á að svæðið þar sem verkið var unnið hafi á einhvern hátt verið óforsvaranlegt og hættulegt. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að verkið sjálft hafi kallað á sérstakar öryggisráðstafanir eða aðbúnað, eða að starfsmenn hafi þurft sérstaka þjálfun, kennslu eða leiðbeiningar til að sinna því. Nægi að vísa til skýrslu Vinnueftirlitsins og lögregluskýrslu um það, samanber það sem að framan sé rakið. Það hafi því á engan hátt verið sýnt fram á að vinnustaðurinn hafi verið andstæður tilvitnuðum ákvæðum laganna.

                Þá megi benda á að þau ákvæði laganna sem stefnandi byggir á að brotið hafi verið gegn séu almenn ákvæði sem veiti ekki leiðbeiningu um sakarmat. Af efni þeirra sé ljóst að þetta eru almennar leiðbeiningarreglur um það hvernig vinnu skuli háttað og hvernig vinnustaðir eigi að vera en það dugi ekki að vísa almennt til þeirra varðandi meinta sök. Hafi stefnandi ekki fært sönnur á, eða sýnt fram á með beinum hætti, á hvern hátt brotið hafi verið gegn þessum almennu hátternis- og leiðbeiningarreglum af hálfu Bifreiðastöðvarinnar.

                Bifreiðastöðin mótmæli því einnig alfarið að brotið hafi verið gegn tilvitnuðum reglum reglugerðar nr. 367/2006. Rétt þyki að benda á að tilvísun stefnanda til ákvæða reglugerðarinnar sé ónákvæm og óljóst til hvaða viðauka með henni sé verið að vísa. Megi ætla að verið sé að vísa til Viðauka II þótt þess sé ekki getið í stefnu. Ekkert hafi komið fram í málinu um að reglur þessar hafi verið brotnar og vísist aftur til skýrslu Vinnueftirlitsins þar sem á engan hátt komi fram að eitthvað hafi verið athugavert við framkvæmd verksins. 

                Þó litið verði svo á að á einhvern hátt hafi verið brotið gegn framangreindum ákvæðum laganna og reglugerðarinnar þá verði ábyrgð á því aldrei lögð á Bifreiðastöðina. Umrætt verk hafi alfarið verið unnið á vegum Hampiðjunnar hf. sem hafi ákveðið stað og stund þess og hvernig það skyldi innt af hendi. Það hafi ekki verið í verkahring kranamannsins eða nokkurs annars á vegum Bifreiðastöðvarinnar að sjá til þess að vinnuaðstæður væru ekki varhugaverðar, framkvæmd verksins væri ekki óforsvaranleg eða vinnutæki sem notuð voru væru í lagi. Verði slysið rakið til sakar þá sé ljóst að öll sakarábyrgðin sé hjá Hampiðjunni hf. Á engan hátt geti Bifreiðastöðin borið ábyrgð gagnvart stefnanda á þessum atriðum.

                Sýknukrafa Bifreiðastöðvarinnar sé í þriðja lagi byggð á því að rekja megi slysið til eigin sakar stefnanda sjálfs og/eða óhappatilviljunar. Leiði það til þess að sýkna verði Bifreiðastöðina þar sem slysið hafi þar með ekki orðið vegna atvika sem hún beri bótaábyrgð á að lögum.

                Stefnandi sé lærður netagerðarmaður með mikla starfsreynslu á því sviði. Hann hafi verið að vinna verk sem hann var þaulvanur að vinna við. Fyrir liggi að algengt sé að netapungar, eins og sá sem féll á stefnanda, myndist við vinnu sem þessa og sé hér ekki um neitt afmarkað sérstakt tilvik að ræða. Þá liggi fyrir í lögregluskýrslum að slíkir netapungar höfðu mörgum sinnum myndast áður við verkið.

                Stefnanda hafi því mátt vera ljóst að slíkur netapungur gat myndast og fallið niður, eins og gerðist í þessu tilviki, og að því bæri að gæta að sér. Hafi verið hætta á ferðum hafi hún verið augljós vönum manni með þá menntun og reynslu sem stefnandi hafði. Í því sambandi megi benda á að stefnandi hafi ekki farið eftir þeim skyldum sem á honum hvíla samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980, hafi hann talið eitthvað athugavert við vinnuaðstæður og öryggi á vinnustað og verði hann sjálfur að bera áhættu og ábyrgð á því.

                Þá megi allt eins líta svo á að slysið sé eingöngu að rekja til óhappatilviljunar.  Eins og segi í skýrslu Vinnueftirlitsins hafi aðferð við verkið verið venjuleg og ekkert athugavert við búnaðinn. Af gögnum málsins sé ljóst að netapungar, eins og sá sem féll á stefnanda, höfðu myndast áður við verkið og komi meira að segja fram að slíkt myndist ávallt við vinnu sem þessa. Verði því ekki annað séð en umrætt atvik verði á engan hátt rakið til sakar heldur sé hér um að ræða óhappatilvik sem enginn beri ábyrgð á samkvæmt dómvenju.

Varakrafa

                Verði litið svo á að um sök sé að ræða sem Bifreiðastöðin sé talin bera ábyrgð á gagnvart stefnanda, sé þess krafist til vara að sök verði skipt vegna eigin sakar stefnanda sjálfs, meðsakar stefnda Hampiðjunnar hf. og bótaréttur einungis viðurkenndur að hluta í hlutfalli við þá skiptingu. Sé byggt á sömu sjónarmiðum og að framan eru rakin varðandi eigin sök og vísist til þeirra.

                Mál þetta sé viðurkenningarmál og fjalli því ekki um meint tjón stefnanda. Í málinu liggi fyrir matsgerð sem aflað var af stefnanda og réttargæslustefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Bifreiðastöðin áskilji sér rétt til að gera athugasemdir við niðurstöður matsgerðarinnar á síðari stigum, ef litið verður svo á að bótaábyrgð sé til staðar af hálfu Bifreiðastöðvarinnar enda hafi hvorki Bifreiðastöðin né réttargæslustefndi VÍS átt aðkomu að matsgerðinni.

                Vísað er til almennra reglna vátrygginga- og skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar, og meginreglna um sönnunarbyrði og eigin sök tjónþola, skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Niðurstaða

                Stefnandi er netagerðarmaður og var starfsmaður stefnda Hampiðjunnar hf. Hinn 20. október 2008 varð hann fyrir slysi við vinnu sína og fyrir líkamstjóni sem staðfest er með matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Leifs N. Dungal. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991til þess að stefnandi geti höfðað viðurkenningarmál þetta.

                Hinn umrædda dag var stefnandi, ásamt fleirum, að vinna á athafnasvæði Akraneshafnar, en þá var verið að taka í land til viðgerðar síldarnót úr nótaveiðiskipinu Birtingi NK-119 (1807). Fyrir liggur að slysið varð um kl. 00:41 aðfaranótt 20. október 2008. Fram hefur komið að aðstæður voru erfiðar; myrkur, rigning og rok og lýsing á bryggjunni lítil. Síldarnótin var hífð upp af þilfari skipsins með skipskrana í gegn um blökk hans yfir í blökk á krana vörubifreiðar á vegum stefnda, Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar. Krananum stjórnaði Ólafur Þórðarson, starfsmaður bifreiðastöðvarinnar. Var starfsmönnum stefnda, Hampiðjunnar hf., gert að standa við þar sem nótin kom niður úr krananum og greiða úr henni jafnóðum og taka út úr þar sem hún var rifin. Vernharður Hafliðason starfsmaður stefnda Hampiðjunnar hf. stjórnaði verkinu. Eins og lýst hefur verið myndaðist stór netabunki sem féll á stefnanda sem stóð í netahrúgunni sem myndast hafði undir krananum og olli honum líkamstjóni. Samkvæmt því sem fram hefur komið er ekki óalgengt að slíkir netabunkar myndist en oft greiðist úr þeim af sjálfu sér.

                Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði lýst þeirri skoðun sinni í umrætt sinn að hann teldi eðlilegast að hífa netið frjálst á bryggjuna og vinna síðan við að greiða úr því fram eftir bryggjunni. Taldi hann það eðlilegast miðað við fyrri reynslu sína. Kvað hann stundum lagaðar smárifur en þarna hafi þetta allt verið saman vafið. Umfang verksins hafi verið mun meira en þeir hafi átt að venjast því nótin hafi verið haugrifin. Stefnandi kvaðst hafa rætt þetta við Vernharð Hafliðason verkstjóra. Vernharður hafi ekki sinnt því og sent hann og annan mann undir kranann til að taka á móti nótinni. Hafi þeir átt að reyna að taka rifuna út úr. Lýsti hann því að erfitt hefði verið að fóta sig í netinu við vinnuna þar sem netahaugurinn hafi komið yfir þá. Þeir hafi ekkert getað fylgst með því hvað var að gerast í blökkinni fyrir ofan þá þar sem þeir hafi verið að reyna að taka rifuna út, sem sé full vinna, og hafi þeir því ekki getað fylgst með því hvar blökkin var. Hafi þeir bara séð glitta í hana. Þá hafi blökkin verið á fleygiferð yfir þeim. Blökkin hafi verið slitin. Gúmmíklæðning, sem eigi að vera í blökkinni, hafi verið slitin og bara blikkið eftir sem geri það að verkum að blökkin dregur ekki eins vel. Bar stefnandi að enginn hefði varað þá við því að netabunki væri á leiðinni. Stefnandi bar að þeir hefðu ekki verið með hjálma við verkið.

                Vernharður Hafliðason staðfesti fyrir dómi að hann hefði verið verkstjóri á svæðinu. Hann hefði stjórnað verkinu og ákveðið hvernig standa átti að því. Kvaðst hann ekki hafa veitt sérstaka leiðsögn við vinnuna enda um að ræða menn sem hefðu lengi unnið saman og því ekki þörf á leiðbeiningum. Þá hafi hann einnig hjálpað til við vinnuna. Hann kvað þá vinnuaðferð sem notuð var við verkið vera algenga og sé það sú aðferð sem hann noti. Hann kvað einnig hægt að hífa nótina í einn bing. Hann útilokaði ekki að stefnandi hefði komið að máli við sig til þess að ræða verklagið.

                Fram kom hjá Vernharði að gúmmí hefði vantað að hluta í blökkina sem notuð var og jafnframt að hún hefði lekið glussa, en verið nothæf. Blökkin eigi að vera klædd með gúmmíi og vinni hún betur þannig. Þegar járnið sé bert þá sóli hún meira, dragi ekki eins vel. Þess vegna þurfi sá sem stjórni krananum að veiða meira til sín, vera meira á ferðinni með kranann. Kvað hann blökkina hafa farið í klössun eftir slysið.

                Ólafur Þórðarson stjórnaði krananum í umrætt sinn. Hann bar fyrir dómi að hlutverk hans hafi verið að stýra krananum. Verkstjórinn hafi sagt honum til hvort hann ætti að spóla eða færa kranann. Kvaðst Ólafur hafa unnið samkvæmt fyrirmælum verkstjórans allan tímann. Hann bar að enginn hefði séð nótabunkann koma út um kranablökkina. Hann kvaðst hafa haft augun á bómunni en myrkrið hafi haft sitt að segja. Hann bar að eftir slysið hafi restinni af netinu bara verið spólað upp á bryggjuna og daginn eftir hafi nótin svo verið dregin til á bryggjunni.

                Ólafur kvað blökkina sem notuð var hafa verið þá einu sem tiltæk var. Nótin hafi verið mikið skemmd. Gúmmífóðrun blakkarinnar hafi verið farin að slitna en verið fullnothæf. Taldi hann að eðlilegast hefði verið að vinna þetta verk í björtu sem hefði verið mun auðveldara. Þá hefðu menn væntanlega séð nótabunkann koma í gegn.

                Ágúst Grétar Ingimarsson netagerðarmaður lýsti því fyrir dómi að stefnandi hefði viljað taka nótina alla í land áður en byrjað var að vinna í henni. Hann kvaðst hafa staðið við hliðina á stefnanda er slysið varð. Aðstæður hafi verið þannig að þeir hafi staðið í netahrúgunni og ekki getað hlaupið úr henni. Þeir hafi ekki getað fylgst með því hvar blökkin var.

                Hugi Árbjörnsson netagerðarmaður kvað hávaðarok hafa verið á svæðinu og kranabíllinn í gangi þannig að þeir hafi ekkert heyrt. Lýsing frá ljósum á bryggju hafi verið léleg. Kvað hann tvennt ólíkt að vinna í dagsbirtu eða myrkri. Hann kvað nótina hafa verið talsvert rifna. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við það þegar netabunkinn kom yfir blökkina. Hann lýsti því að þar sem hann hefði unnið áður hefði venjan verið að taka nótina alla á bryggjuna, síðan hefði bíllinn verið færður og nótin hífð til. Kvaðst hann aldrei hafa vanist því fyrr en hann fór að vinna hjá Hampiðjunni hf. að menn þyrftu að standa undir blökkunum við að rífa netið út. Kvaðst hann ekki hafa vanist því að vera með hjálm við vinnu sína en eftir slysið hafi þeir fengið hjálma.

                Eins og áður er rakið byggir stefnandi kröfur sínar á því að stefndu beri óskipta bótaábyrgð á slysi hans og byggir á því að slysið verði rakið til þess að verkstjórn og aðstæður á bryggjunni hafi verið ófullnægjandi. Er þessu mótmælt af hálfu stefndu.

                Samkvæmt 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum skal haga vinnu og framkvæma hana þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Samkvæmt 23. gr. sömu laga skal verkstjóri beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórnar, séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.

                Fyrir liggur að fulltrúi Vinnueftirlits ríkisins kom á vettvang skömmu eftir slysið. Samkvæmt skýrslu þess voru engar athugasemdir gerðar á slysstað og aðstæður taldar góðar.

                Þegar virtur er framburður þeirra sem skýrslu gáfu fyrir dómi þykir, þrátt fyrir umsögn Vinnueftirlitsins, sýnt fram á að aðstæður á bryggjunni á Akranesi hafi verið mjög erfiðar þegar slysið varð. Nótin sem var verið að taka í land var mjög rifin og því erfitt að greiða úr henni. Þá var myrkur, rok og rigning. Vitni eru sammála um að lýsing á bryggjunni hafi verið léleg. Hefur komið fram að menn áttu erfitt með að fylgjast með blökkinni í myrkrinu og heyrðu illa hver í öðrum vegna roksins og hávaða frá kranabifreiðinni. Enginn þeirra sem skýrslu gáfu fyrir dómi sá þegar netabunkinn fór í blökkina og var engum aðvörunum beint til stefnanda og Ágústs Grétars þar sem þeir stóðu undir blökkinni til þess að taka á móti nótinni. Þá er einnig fram komið að blökkin sem notuð var dró illa þar sem fóðring var slitin og gerði verkið því erfiðara.

                Fyrir liggur að Vernharður Hafliðason, netagerðarmeistari og starfsmaður stefnda Hampiðjunnar hf., var verkstjóri í umrætt sinn. Hann stjórnaði verkinu og ákvað að verkið skyldi unnið með þeim hætti sem gert var en sinnti ekki tilmælum stefnanda um að vinna verkið með þeim hætti að hífa nótina alla á bryggjuna og greiða svo úr henni á eftir þannig að netagerðarmennirnir þyrftu ekki að standa þar sem nótin kom niður úr blökkinni. Hefur ekki verið sýnt fram á annað en að alvanalegt sé einnig að beita því vinnulagi, sbr. framburð Huga Árbjörnssonar

                Telja verður að með því að beita því vinnulagi sem gert var í umrætt sinn, við þær erfiðu aðstæður sem áður er lýst, hafi starfsmenn stefnda, Hampiðjunnar hf., verið settir í óþarfa hættu og sé orsakar slyss stefnanda að rekja til þess. Var því ekki fullnægt ákvæði 23. gr. og 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, sem áður er getið.

                 Ekki hefur verið sýnt fram á annað en að stefnandi hafi hlýtt fyrirmælum verkstjórans og unnið sitt starf sitt eins og af honum var krafist og sýnt tilhlýðilega aðgæslu. Verður því ekki séð að hann eigi sjálfur sök á því sem gerðist.

                Ekki þykir sýnt fram á að Ólafur Þórðarson, starfsmaður stefnda, Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., hafi haft verkstjórnarvald á svæðinu eða að hann hafi getað haft áhrif á það hvaða verklag var valið. Hefur þá ekki verið sýnt fram á að stjórnun hans á krananum hafi verið orsakavaldur að slysi stefnanda.

                Þegar framanritað er virt þykir sýnt fram á að stefndi, Hampiðjan hf., beri bótaskylda ábyrgð á slysi því er stefnandi varð fyrir 20. október 2008 og ber að taka til greina kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu félagsins. Í ljósi þess sem áður er rakið ber hins vegar að sýkna stefnda, Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar, af kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu.

                Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda Hampiðjunni hf. að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 700.000. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli stefnanda og stefnda, Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar, falli niður.

                Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

                Viðurkennd er bótaskylda stefnda, Hampiðjunnar hf., á líkamstjóni stefnanda, Hallgríms Sigurðssonar, er hann hlaut í vinnuslysi hinn 20. október 2008 á athafnasvæði Akraneshafnar, Akranesi.

                Stefndi, Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar, skal vera sýkn af kröfum stefnanda.

                Stefndi, Hamiðjan hf., greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.

                Málskostnaður milli stefnanda og stefnda, Bifreiðastöðvar Þórðar Þ. Þórðarsonar, fellur niður.