Hæstiréttur íslands

Mál nr. 294/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samlagsaðild
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 6

 

Þriðjudaginn 6. september 2005.

Nr. 294/2005.

Hrefna Kristmundsdóttir

Júlíus Jón Þorsteinsson og

Elí Sigursteinn Þorsteinsson

(Atli Gíslason hrl.)

gegn

Ríkisútvarpinu og

(Kristján Þorbergsson hrl.)

þrotabúi Brautarholts 8 ehf.

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Samlagsaðild. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

H, J og E höfðuðu mál til greiðslu miskabóta úr hendi R og B. Vísuðu þau til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um heimild til aðilasamlags. Fallist var á að skilyrði aðilasamlags væru fyrir hendi í málinu til sóknar og varnar. H, J og E gáfu hins vegar þær skýringar á kröfugerð sinni fyrir dómi að um væri að ræða sameiginlega kröfu þeirra þriggja á hendur R og B. Talið var að til að neyta fyrrgreindrar heimildar til aðilasamlags hefði þeim H, J og E verið nauðsyn að gera hvert fyrir sig sérstaka kröfu og þar sem það hefði ekki verið gert væri krafa þeirra ódómtæk og var málinu vísað frá dómi af sjálfsdáðum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2005 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þau krefjast jafnframt kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði krefja sóknaraðilar í málinu varnaraðila um greiðslu miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna. Vísa hin fyrrnefndu til heimildar í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 til að höfða málið í sameiningu og til að sækja báða varnaraðila til greiðslu bóta í einu dómsmáli. Er fallist á að skilyrði séu uppfyllt samkvæmt nefndri lagagrein fyrir samlagsaðild til sóknar og varnar. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi báru varnaraðilar ekki fyrir sig heimildarbrest til aðilasamlags, en frávísun máls af þeirri ástæðu kemur því aðeins til álita að þess sé krafist. Þeir kröfðust heldur ekki frávísunar málsins af öðrum ástæðum, en héraðsdómari vísaði því allt að einu frá dómi af sjálfsdáðum.

Af skýringum sóknaraðila á kröfugerð verður helst ráðið að sjálfstæðri kröfu sé beint að hvorum varnaraðila um sig til greiðslu á 1.500.000 krónum. Skýringar sóknaraðila á kröfugerð þess efnis að bæturnar verði greiddar þeim óskipt fá hins vegar ekki staðist. Með því að nýta sér heimild til að viðhafa aðilasamlag bar hverjum sóknaraðila um sig að gera sjálfstæða kröfu á hendur varnaraðilum, sem höfðu litið svo á að þannig bæri að skilja kröfugerðina allt þar til skýringar sóknaraðila komu fram. Í kæru til Hæstaréttar hafa sóknarðilar ekki leitast við að leiðrétta þann annmarka, sem samkvæmt þessu er á kröfugerð þeirra, heldur þvert á móti ítrekað kröfu um að mega skipta sín á milli miskabótum, sem þeim yrðu dæmdar í einu lagi. Í þessu horfi er kröfugerð sóknaraðila ódómtæk. Verður samkvæmt því ekki komist hjá að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði. Gjafsókn sóknaraðila er bundin við rekstur málsins í héraði og kemur ekki til álita í kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Hrefna Kristmundsdóttir, Júlíus Jón Þorsteinsson og Elí Sigursteinn Þorsteinsson, greiði óskipt varnaraðilum, Ríkisútvarpinu og þrotabúi Brautarholts 8 ehf., hvorum um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2005.

I

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 19. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hrefnu Kristmundsdóttur, [kt.], Skaftahlíð 26, Reykjavík, Júlíusi Jóni Þorsteinssyni, [kt.], Engihjalla 1, Kópavogi, og Elí Sigursteini Þorsteinssyni, [kt.], Sléttahrauni 32, Hafnarfirði, með stefnu birtri 26. maí og 2. júní 2004 á hendur Ríkisútvarpinu-sjónvarpi, [kt.], Efstaleiti 1, Reykjavík, og  Brautarholti 8 ehf., [kt.], Laugavegi 182, Reykjavík.  Undir rekstri málsins var Brautarholt 8 ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og tók þrotabúið við málsvörninni.

        Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnendum miskabætur að fjárhæð kr. 3.000.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af þeirri fjárhæð frá þingfestingardegi stefnu þessarar til greiðsludags.  Til vara gerir stefnandi kröfu um aðra lægri fjárhæð að álitum að mati dómsins.  Þá er krafizt málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

        Dómkröfur stefnda, Ríkisútvarpsins, eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og stefnendum verði gert, in solidum, að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.  Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum stefnenda og að málskostnaður falli niður.

        Dómkröfur stefnda, Brautarholts 8 ehf., eru þær, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnenda, og að stefnendur verði in solidum dæmdir til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir að þann 10. marz 2002 sýndi Ríkisútvarpið – sjónvarp þátt á dagskrá sjónvarpsins út þáttaröðinni  “Sönn íslensk sakamál”.  Í þeim þætti var fjallað um morð á Þorsteini Guðnasyni, eiginmanni stefnandans Hrefnu og föður stefnendanna Júlíusar Jóns og Elís Sigursteins.  Morðið var framið þann 25. apríl 1990.  Fyrir sýningu þáttarins hafði eiginkonu hins látna, Hrefnu Kristmundsdóttur, verið sent bréf, dags. 1. október 1998, undirritað af Sigursteini Mássyni, þar sem henni var kynnt, að hafin væri vinna við gerð þáttarins.  Jafnframt hafði bréfritari áður haft samband símleiðis við Hrefnu, þar sem hann óskaði eftir viðtali við hana vegna  morðsins og gerð þáttarins, sem hún hafði hafnað.  Þann 6. október 1998 sendi lögmaður Hrefnu bréf til Sigursteins Mássonar, þar sem lagst er gegn þessum fyrirætlunum vegna þess sársauka, sem atburðurinn hafi valdið fjölskyldu hins myrta og enn fremur var bent á, að gerð slíks þáttar teljist brot gegn friðhelgi einkalífs eftirlifandi ekkju og fjölskyldunnar allrar.

        Stefnendur leituðu einnig eftir áliti Persónuverndar og er niðurstaða Persónuverndar dags. 8. marz 2002.  Segir þar m.a., að almennar heimildir stofnunarinnar til að stöðva vinnslu upplýsinga séu afmarkaðar í 40. gr. laga um persónuvernd.  Hins vegar sé í lögunum sérregla um það, þegar persónuupplýsingar séu einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, og í 2. ml. 5. gr. laganna sé að finna ákvæði um, að slík vinnsla lúti aðeins ákvæðum 4. gr., 1. og 4. tl. 7. gr., 11.-13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna.  Það var álit Persónuverndar, að um væri að ræða slíka vinnslu, er greinir í 2. ml. 5. gr. laganna.  Slík vinnsla lúti ekki ákvæði 40. gr. laganna um heimild til að stöðva vinnslu upplýsinga, og af þeirri ástæðu teldi stjórn Persónuverndar ekki efni til, að stofnunin gæti fjallað um ósk stefnenda.

        Í kjölfar sýningar þáttarins sendi lögmaður stefnenda lögmanni Ríkissjónvarpsins bréf, dags. 11. marz 2002, þar sem átalin er sú afstaða Ríkissjónvarpsins að verða ekki við beiðni stefnenda um frestun á sýningu þáttarins og því jafnframt haldið fram, að með sýningunni hafi verið framin ólögmæt meingerð gegn ekkju og börnum hins myrta og áskilinn er réttur stefnenda, m.a. til skaðabóta. 

        Sama dag var þess farið á leit bréflega við Persónuvernd, að stofnunin tæki málið  til skoðunar á nýjan leik og tæki afstöðu til þess, hvort brotin hefðu verið ákvæði II. kafla laga nr. 77/2000 um meðferð og vinnslu þeirra persónuupplýsinga, sem þátturinn fjallaði um, sbr. einkum 7. gr.  Jafnframt var óskað eftir, að tekin yrði afstaða til þess, hvort frekari birting þáttarins væri heimiluð. 

        Niðurstaða Persónuverndar lá fyrir þann 16. september 2002 á þá leið, að ekki verði fullyrt, að brotið hafi verið gegn ákvæðum 1. og 4. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, þótt efnistök við gerð þáttarins kunni að orka tvímælis, einkum þegar litið sé til tilfinninga aðstandenda hins látna.

        Þann 26. september 2002 ritaði lögmaður stefnenda bréf til stefndu þar sem því er lýst að stefnendur “.. hafi orðið fyrir miklu áfalli vegna sýningar þáttarins þann 10. marz 2002 og ekki síður vegna fyrirvaralausra auglýsinga fyrir sýningu hans...”  Þá er gerð krafa um greiðslu skaðabóta vegna sýningar þáttarins að fjárhæð kr. 4.000.000, einkum vegna miska og annars tjóns.  Í bréfi Ríkisútvarpsins – sjónvarps er kröfu stefnenda um greiðslu skaðabóta hafnað. 

III

Málsástæður stefnenda

Stefnendur kveðast byggja kröfur sínar á ákvæðum 71. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en með gerð og sýningu sjónvarpsþáttarins hafi stefndu brotið með ólögmætum hætti gegn rétti stefnenda til friðhelgi einkalífs, sem verndaður sé í framantöldum lagaákvæðum.  Jafnframt byggi stefnendur kröfu sína á lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.  Í sjónvarpsþættinum hafi, með einkar ógeðfelldum hætti, verið leikið í smáatriðum, hvernig Þorsteinn Guðnason, eiginmaður og faðir stefnenda, hafi verið myrtur að morgni hins 25. apríl 1990.  Morðið hafi verið sýnt oftar en einu sinni í þættinum, og hafi sýningin haft afar særandi áhrif á fjölskyldu hins látna.  Jafnvel hafi verið skáldaður hluti atburða, eins og komi fram í bréfi stefnda til Persónuverndar.  Leikstjóri myndarinnar sýni hluta atburðarrásarinnar gerast á tvo mismunandi vegu og vísi stefndi til “..skáldaleyfis til að segja söguna eins og hún kemur honum fyrir sjónir...”  Jafnframt haldi stefndi því fram í bréfi sínu til Persónuverndar, að þátturinn fjalli ekki um fórnarlambið, heldur morðingjana.  Fórnarlambið sé hér í aukahlutverki og fókus myndarinnar sé allur á ódæðismönnunum, ...eiturlyfjaætur í leit að peningum fyrir næsta skammti og hikuðu ekki við að myrða, á hrottafenginn hátt, saklausan mann sem varð fyrir þeim nánast af tilviljun...”

        Heiti sjónvarpsþáttarins, “Sönn íslensk sakamál” – Stóragerðismálið, vísi til þess, að um sé að ræða frásögn af þessu sakamáli.  Sjónvarpsþátturinn sé settur þannig upp, að verið sé að segja frá raunverulegum atburðum í málinu.  Það er ekkert, sem komi fram í sjónvarpsmyndinni, sem gefi til kynna, að um skáldskap sé að ræða af hálfu framleiðanda myndarinnar. 

        Gagnstætt frelsi framleiðanda sjónvarpsmyndarinnar til að skálda hluta myndarinnar og nýta sér efni úr dómi Hæstaréttar um morðið á Þorsteini Guðnasyni standi réttur stefnenda til friðhelgi einkalífs, sem varinn sé af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, en samkvæmt 3. mgr. sömu greinar verði sá réttur því aðeins takmarkaður með lögum, að brýna nauðsyn beri til þess.  Það hafi verið ásetningur stefndu, framleiðanda sjónvarpsmyndarinnar, að taka ekkert tillit til óska fjölskyldu hins myrta, stefnenda, við gerð myndarinnar.  Þeir hinir sömu, hafi nýtt sér frásögn af morði Þorsteins Guðnasonar með blóðugum hætti til að segja sögu eiturlyfjafíkla og hafi margsýnt morðið með einkar ógeðfelldum hætti og hafi ekkert tillit tekið til fjölskyldu hins myrta við gerð myndarinnar.  Þá sé á það að benda, að vinnsla upplýsinga úr lýsingum morðsins á Þorsteini Guðnasyni í dómi Hæstaréttar hafi ekki verið í samræmi við tilgang sjónvarpsþáttarins, sem hafi verið að segja sögu eiturlyfjafíklanna, sem frömdu morðið.  Vinnsla þessara upplýsinga hafi því ekki verið viðeigandi og langt umfram það, sem nauðsynlegt hafi verið, miðað við tilgang sjónvarpsþáttarins.  Réttur stefnenda til friðhelgi einkalífs gangi framar heimild stefndu til að framleiða þann sjónvarpsþátt, sem hér sé til umræðu.  Slík vinnsla sé í heild ólögmæt meingerð gagnvart stefnendum í skilningi 26. gr. skaðabótalaga og samrýmanlegt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að dæma stefndu til greiðslu miskabóta af þessum sökum.

        Með gerð og sýningu ofangreindrar sjónvarpsmyndar hafi stefndu farið langt umfram leyfileg mörk tjáningarfrelsis og brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnenda, sem feli í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði og persónu þeirra.  Á grundvelli þess byggi stefnendur kröfu sína um greiðslu miskabóta úr hendi stefndu á 26. gr.  skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. einnig 26. gr. laga nr. 53/2000  um útvarp og 43. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

        Í upphafi máls þessa hafi það verið ætlun stefnenda að standa öll saman að málshöfðun, þ.e. eftirlifandi eiginkona Þorsteins Guðnasonar, Hrefna Kristmundsdóttir, og synir þeirra þrír, þeir Júlíus Jón, Elí Sigursteinn og Kristmundur.  Það hafi síðan verið ákvörðun þeirra Hrefnu, Júlíusar Jóns og Elís Sigursteins, að Kristmundur gæti ekki staðið að málsókn þessari, þar sem hann eigi við mikla erfiðleika að stríða; eigi ekki fastan samastað og sé í afar litlu sambandi við fjölskyldu sína.  Erfiðleika Kristmundar reki fjölskyldan til afleiðinga morðsins á föður hans og alls, sem því fylgdi, þ.m.t. sjónvarpsþáttarins.

        Um aðild og bótaábyrgð hinna stefndu sé vísað til 26. gr. laga um útvarp nr. 53/2000.  Í lok myndar þeirrar, sem hér um ræði, sé “Hugsjón” sögð vera framleiðandi, en fyrirtæki undir því nafni sé hvergi skráð.  Því hafi verið óskað eftir upplýsingum Ríkisútvarpsins – sjónvarps um það, hver framleiðandi myndarinnar væri, og hafi þá verið gefin upp kennitala framleiðandans, en samkvæmt hlutafélagaskrá heiti félagið í dag “Brautarholt 8 ehf.,” og sé því fyrirtæki því stefnt.

        Á grundvelli ofangreinds telji stefnendur, að stefndu hafi, með ólögmætum hætti, brotið gegn hinni almennu reglu um friðhelgi einkalífs stefnenda og hafi, með vísan til alls framangreinds, bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnendum.  Stefnendur geri kröfu um greiðslu miskabóta úr hendi stefndu, að fjárhæð kr. 3.000.000.  Þá kröfu sína rökstyðji stefnendur með því, að gerð og sýning sjónvarpsþáttarins hafi haft veruleg áhrif á fjölskylduna, þar sem morð eiginmanns og föður hafi verið margsýnt í smáatriðum og menn að tilefnislausu velt sér upp úr morðinu sjálfu með einkar ógeðfelldum, ýktum og blóðugum hætti.  Fjölskylda hins myrta hafi átt um sárt að binda frá atburðinum, og þau hafi verið illilega minnt á atburðinn með sýningu myndarinnar og þar jafnvel dregin upp mynd, sem hafi í alla staði verið langt umfram minningu fjölskyldunnar af lýsingu atburðarins.

        Kröfur um dráttarvexti, styðji stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum.  Krafan um málskostnað styðjist við XXl. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála.  Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum númer 50/1988.  Stefnandi (sic) sé ekki virðis­aukaskattskyldur, og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.  Varðandi varnarþing vísist til 42. gr. laga númer 91/1991 sbr. 33. gr. s.l.

Málsástæður stefnda, Ríkisútvarpsins-sjónvarps

Stefndi, Ríkisútvarpið-sjónvarp byggir á því, að honum beri, samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2000 um Ríkisútvarpið, að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum, sem efst séu á baugi hverju sinni, eða almenning varði.  Þessu fylgi stefndi eftir í starfsemi sinni með því að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.

        Því sé mótmælt, að stefndu hafi farið langt umfram leyfileg mörk tjáningarfrelsis og á því byggt, að sjónvarpsþáttur sá, sem sýndur hafi verið í Sjónvarpinu, sé mikilvægt framlag til opinberrar umræðu um eiturlyfjaneyzlu og skaðlegar afleiðingar hennar fyrir eiturlyfjanotendur sjálfa og aðra borgara landsins.  Byggi stefndi á, að atburður sá, sem hafi verið tilefni gerðar sjónvarpsþáttarins, sé skráður í opinbert dómasafn Hæstaréttar og séu upplýsingar um atvikið og þá, sem þar hafi komið að, opinberar og aðgengilegar öllum.  Þó sjónvarp, sem miðill, sé áhrifaríkari leið til að greina frá atburði en dómasafn æðsta dómstóls landsins, feli það ekki í sér takmörkun á tjáningarfrelsi, ef ákveðið sé að nota tækni eða aðferð, sem sé áhrifaríkari til að koma boðskap, frétt eða mikilsverðu málefni á framfæri við almenning.  Óumdeilt sé, að sjónvarp sé sá miðill, sem nái til flestra landsmanna og því eðlilegt, að hann verði fyrir valinu til að fjalla um það mikilvæga málefni, sem þátturinn taki á.

        Stefndi byggi á því, að réttur stefndu til að segja frá framangreindum atburði, framleiða og birta þáttinn, sé lögvarinn af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.  Réttur þessi til tjáningarfrelsis sé einnig varinn af 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Setja megi tjáningarfrelsi vissar skorður, sem skuli gert með stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.  Stefndi byggi á því, að engin slík skilyrði séu fyrir hendi í málinu.  Hafi stefnendur ekki sýnt fram á, að lagaskilyrði séu til staðar, er réttlæti takmörkun á tjáningarfrelsi stefndu, eða að stefnendur eigi réttindi, er gangi framar tjáningarfrelsi stefndu.

        Stefndi byggi á því, að við ákvörðun á mörkum friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis verði að líta til lýðræðishefða, sem eigi að tryggja, að fram getið farið þjóðfélagsleg umræða, en stefndi telji, að horfa beri til þessa við úrlausn um mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla.  Í nútímasamfélagi sé sjónvarpið sá miðill, sem nái til flestra einstaklinga.  Í framangreindum sjónvarpsþætti sé fjallað um alvarlegt, þjóðfélagslegt vandamál, sem ali af sér afbrot, stórfellt heilbrigðisvandamál, aukin útgjöld samfélagsins vegna löggæzlu, dómgæzlu og heilbrigðismála og síðast, en ekki sízt, þeirrar bráðu hættu, sem almennum borgurum geti verið búin af eiturlyfjum og eiturlyfjaneytendum, sem í fíkn sinni geti átt það til að umgangast eignir og líf almennra borgara af fullkomnu virðingarleysi.  Stefndi byggir á því, að í lýðræðislegu þjóðfélagi hvíli sú grundvallarskylda á fjölmiðlum, líkt og stefndi sé, að miðla upplýsingum og skoðanaskiptum um þjóðfélagsmál, stjórnmál og önnur mál, sem varði almenning og almannahagsmuni.  Í þeirri kvöð og skyldu felist, að skýra verði allar undantekningar á tjáningarfrelsi til að hrinda af stað eða taka þátt í umræðu þröngt.

        Stefnendur byggi á þeirri málsástæðu, að stefndu hafi, með því að sýna oftar en einu sinni, hvernig Þorsteini Guðnasyni var banað, haft afar særandi áhrif á stefnendur.  Hafi stefndu með því brotið með ólögmætum hætti gegn rétti stefnenda til friðhelgi einkalífs sem verndaður sé af stjórnarskrá og lögum nr. 77/2000.

        Stefndi byggir á því, að samkvæmt meginreglum íslenzks réttar falli persónuleg réttindi manns niður við andlát hans nema að því leyti, sem lög leiði til annars.  Réttur afkomenda eða aðstandenda látins manns til að höfða mál vegna umfjöllunar um látinn mann, sé háður því lagaskilyrði, að í þeirri umfjöllun felist ólögmæt meingerð í garð hins látna manns.

        Stefndi byggir á því, að með sýningu þáttarins hafi hvorki stefnendum né hinum látna verið unnin ólögmæt meingerð eða stefndu farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis í þeirri frásögn.  Frásögn um þann atburð, sem hafi átt sér stað og byggð sé á opinberum gögnum, verði ekki sögð, nema gerð sé grein fyrir aðkomu hins látna.  Í dómi Hæstaréttar komi fram, að frásögnum þeirra, sem stóðu að manndrápinu, hafi ekki borið saman, og hafi þáttagerðarmenn því valið að greina frá þeim mismunandi frásögnum með sviðsetningu.  Skýrt sé tekið fram í þættinum, að sá hluti myndarinnar, sem leikinn sé, sé ekki heimild um atburði, heldur túlkun leikstjórans á atburðum.

        Þá byggi stefndi á því, að í sjónvarpsþættinum sé hvorki fjallað um stefnendur, né sé í honum að finna ólögmæta meingerð gegn friðhelgi þeirra eða einkalífi.  Af þeim sökum geti þeir sjálfir, eins og málatilbúnaði þeirra sé háttað, ekki átt neina lögvarða hagsmuni í málinu.  Krafa um, að unnin hafi verið ólögmæt meingerð gegn þeim sjálfum, verði að byggja á þeirri forsendu, að í þættinum hafi verið fjallað um þá persónulega.

        Þá byggi stefndi á því, að stefnendur hafi verið varaðir tímanlega við sýningu þáttarins og beðnir um að leiða sýningu hans hjá sér.  Þeir hafi hins vegar kosið, að því er bezt verður séð, að eigin vilja að horfa á sjónvarpsþáttinn með hinum meintu afleiðingum.

        Þá byggir stefndi á því, að lagaskilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki fyrir hendi.  Stefndi haldi því fram, að í efni þáttarins felist hvorki ólögmæt meingerð gegn Þorsteini Guðnasyni né gegn stefnendum, sem ekki sé fjallað um í þættinum.  Þá felist í skilyrði 26. gr. um ólögmæta meingerð, að um saknæma hegðun sé að ræða, en stefndi telji, að hvorki gáleysi eða ásetningur sé fólginn í því að greina frá atburðum í samræmi við opinber gögn innan þeirra marka, sem tjáningarfrelsi stjórnarskrárinnar heimili.

        Þá byggi stefndi á því, að ákvæði laga nr. 77/2000 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga eigi ekki við í máli þessu og vísi stefndi í því sambandi til álits og niðurstöðu Persónuverndar á dskj. 8 og 14.

        Verði ekki fallizt á kröfu stefndu um sýknu, sé þess krafizt til vara, að dómkrafa stefndu verði lækkuð verulega.  Fjárhæð kröfunnar, en stefndi líti svo á, að í kröfugerð stefnenda felist, að gerð sé krafa um greiðslu á kr. 1.000.000 til hvers þeirra, sé órökstudd með öllu og engir útreikningar eða sönnunargögn liggi henni að baki.

        Þá byggi stefndi á því, að hið meinta tjón stefnenda sé með öllu ósannað, enda hafi stefnendur ekki lagt fram nein gögn um, hvert hið meinta tjón þeirra sé eða hvers eðlis það sé.  Þá hafi stefnendur ekki sýnt fram á, að orsakasamhengi sé milli hins meinta tjóns þeirra og sýningar þáttarins.

Málsástæður stefnda, þrotabús Brautarholts 8 ehf.

Stefndi kveðst skilja stefnukröfuna svo, að þess sé krafizt, að hver hinna þriggja stefnenda fái tildæmda eina milljón króna í miskabætur, enda verði krafan aðeins höfð uppi vegna hvers stefnanda fyrir sig, en ekki vegna þeirra sameiginlega.

        Stefndi bendir á, að málatilbúnaður stefnenda lúti eingöngu að bótum fyrir meinta, ólögmæta meingerð gegn friðhelgi einkalífs þeirra sjálfra.  Málatilbúnaðurinn lúti ekki að því, að stefndu hafi með einhverjum hætti raskað æru eða minningu Þorsteins heitins Guðnasonar eða brotið gegn lögvörðum hagsmunum, sem honum tengist, enda hafi það ekki verið gert.

        Krafa stefnda um sýknu sé á því reist, að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til að dæma stefnendum miskabætur í máli þessu.  Af þeim lagaákvæðum, sem stefnendur styðji kröfur sínar við, geti aðeins 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 átt við um miskabætur fyrir ófjárhagslegt tjón.  Til þess að miskabætur verði dæmdar samkvæmt því ákvæði þurfi sá, sem ábyrgð beri á meintri, ólögmætri meingerð gegn friði, að hafa sýnt af sér ásetning eða stórkostlegt gáleysi til þess að valda meingerðinni.  Það hafi stefndi ekki gert.  Hvað sem öðru líði, sé einnig ljóst, að gerð sjónvarpsþáttarins, efnistök hans og sýning, geti ekki talizt beinast gegn friðhelgi einkalífs stefnenda.  Einu hagsmunirnir, sem þátturinn eða sýning hans gætu talizt beinast gegn, varði hinn látna, en í því sambandi sé ítrekað, að stefndi telji sig á engan hátt hafa brotið gegn neinum slíkum hagsmunum.

        Sjónvarpsþáttur stefnda um "Stóragerðismálið" sé byggður á opinberum gögnum, sem aðgengileg séu öllum.  Stuðzt sé við dóm Hæstaréttar Íslands úr dómasafni 1991, bls. 1199.  Í öllum meginatriðum hafi stefndi stuðzt við frásagnir af atburðinum, eins og þær komi fram í dóminum.  Í þeim tilvikum, þar sem málsatvik hafi verið óupplýst eða þokukennd, hafi stefndi óhjákvæmilega þurft að velta upp kringumstæðum, sem kunni að hafa átt sér stað.  Engin vitni hafi verið að árásinni, og árásarmennirnir tveir hafi bent hvor á annan um ábyrgð og athafnir í málinu.  Hæstiréttur hafi ekki treyst sér til að skera úr um, hvor frásögnin væri rétt, og hafi stefndi því tekið þann kost að sýna báðar atburðarásir.  Áhorfandanum sé svo látið eftir að meta trúverðugleika þeirra.

        Ljóst sé, að við gerð heimildarmyndar af þessu tagi sé ekki annað unnt en að geta í eyður í atburðarrás.  Þess vegna hafi verið tekið fram í lok þáttarins, að leikin atriði hans væru ekki heimildir um atburðinn.  Þættinum hafi verið ætlað að draga upp mynd af hörðum heimi fíkniefnaneyzlu, þar sem neytendur þeirra geti gerzt sekir um verstu glæpi til að fjármagna neyzlu sína.  Með engum hætti hafi minning Þorsteins Guðnasonar verið flekkuð, heldur hafi honum þvert á móti verið lýst sem umhyggjusömum fjölskylduföður, sem verði fórnarlamb hrottafenginnar árásar. 

        Þá styðjist sýknukrafa stefnda einnig við þá meginreglu skaðabótaréttar, að tjónþola beri skylda til að takmarka tjón sitt eða koma í veg fyrir það, sé hann í aðstöðu til þess.  Stefnendur byggi mál sitt að meginstefnu á því, að sýning þáttarins hafi valdið þeim sársauka og þjáningu, einkum að því er virðist vegna þess, hvernig það ofbeldi, sem í málinu var, hefði verið sviðsett.  Stefndi bendi á, að stefnendur hafi getað látið sýningu þáttarins fram hjá sér fara og raunar hafi þeim verið sérstaklega bent á að gera það, þar sem atriði í þættinum gætu valdið þeim sársauka. Hvað sem öðru líði, sé ljóst, að friðhelgi einkalífs stefnenda hafi ekki verið raskað vegna þáttarins öðruvísi en að þau hafi horft á hann.  Sú almenna staðreynd, að þátturinn hafi verið framleiddur og sýndur í sjónvarpi, geti aldrei talizt til neins konar meingerðar gegn friðhelgi einkalífs stefnenda.

        Hinn stjórnarskrárvarði réttur til friðhelgi einkalífs, sem stefnendur byggi á í málinu, sé persónubundinn réttur.  Sjónvarpsþáttur stefndu, sem sýndur hafi verið 12 árum eftir að umræddir atburðir urðu, verði ekki talinn fela í sér meingerð gegn persónulegri friðhelgi einkalífs stefnenda.  Þær persónuupplýsingar, sem fram hafi komið í þættinum, hafi varðað þriðja mann, sem látinn hafi verið, þegar þátturinn var gerður.  Af þeim upplýsingum verði ekki með neinum hætti ráðið í einkalíf eða aðra persónuhagsmuni stefnenda.  Þótt eftir atvikum megi fallast á, að það geti valdið aðstandendum hins látna tilfinningalegum sársauka að sjá umrædda atburði sviðsetta, feli það ekki í sér ólögmæta meingerð gegn friðhelgi einkalífs þeirra.

        Vegna tilvísana stefnenda til ákvæða laga nr. 77/2000 um vernd persónuupplýsinga bendi stefndi á, að dómkrafa þeirra verði ekki studd við ákvæði 43. gr. laganna, þar sem það ákvæði skyldi ábyrgðaraðila einungis til að bæta fjárhagslegt tjón vegna vinnslu, sem sé andstæð ákvæðum laganna.  Þá sé því, hvað sem öðru líði, mótmælt, að gerð og sýning þáttarins hafi brotið gegn ákvæðum laganna.  Að sínu leyti vísi stefndi til umsagna Persónuverndar um það efni, sbr. dskj. nr. 8 og 16, að því leyti sem þær fái samrýmzt málatilbúnaði stefnda.

        Loks byggi sýknukrafa stefnda á því, að hann hafi, með vísan til 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, rétt til að fjalla um þá atburði, sem átt hafi sér stað í Stóragerði í Reykjavík þann 25. apríl 1990.  Tjáningarfrelsið, sem tilvitnað stjórnarskrár­ákvæði verndi, sé á meðal mikilvægustu mann­réttinda og sé grundvöllur að allri þjóðfélags- og lýðræðisumræðu.  Allar takmarkanir á því sæti þröngri túlkun.  Framleiðsla heimildarmynda af því tagi, sem mál þetta fjalli um, sé form tjáningar og verndarandlag ákvæðisins.  Ákvæðinu sé ekki sízt ætlað að vernda fréttaflutning og umfjöllun um þjóðfélagslega meinsemd, sem sé fíkniefnaneysla og glæpir, sem henni fylgi.  Mál það, sem þáttur stefnda fjalli um, hafi vakið athygli um allt íslenzka þjóðfélagið, ekki sízt vegna þeirrar grimmdar, sem árásarmennirnir hafi sýnt. 

        Verði ekki fallizt á sýknukröfu stefnda, felist í henni krafa um lækkun dómkröfu stefnenda.  Byggi stefndi þar á öllum sömu málsástæðum og að framan séu raktar.  Fjárhæð stefnukröfunnar sé ekki rökstudd sérstaklega í stefnu og sé ekki í neinu samræmi við dómvenju um miskabætur hér á landi.

        Dómkröfur stefnda séu reistar á þeim lagastoðum, sem gerð hafi verið grein fyrir hér að framan.  Krafa um málskostnað sé studd við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr.  Mótmælt sé dráttarvaxtakröfu stefnenda.  Verði stefndi dæmdur til greiðslu miskabóta, sé þess krafizt, að sú fjárhæð beri fyrst vexti frá dómsuppsögudegi.

IV

Forsendur og niðurstaða

        Stefnendur í máli þessu er þrír.  Dómkrafa stefnenda er óskipt fjárkrafa.  Stefndu lýsa því í greinargerðum sínum, að þeir skilji kröfugerð stefnenda þannig, að í henni felist krafa um greiðslu á kr. 1.000.000 til hvers stefnanda um sig.  Lögmaður stefnanda var inntur eftir því við aðalmeðferð, hvort þetta væri réttur skilningur stefndu.  Svaraði lögmaðurinn því til, að svo væri ekki; dómkrafan væri sett fram óskipt, en ekki beri að skilja hana svo, að greiðsla skuli renna solidarískt til stefnenda.  Þá beri ekki að skilja hana svo, að gerð sé krafa um solidaríska ábyrgð stefndu.

        Krafa stefnenda er miskabótakrafa, sett fram óskipt af hálfu stefnenda, án þess að nokkur tilraun sé gerð til að rökstyðja meintan miska hvers og eins.  Eins og krafan er úr garði gerð er hún ódómtæk, og verður ekki hjá því komizt að vísa málinu frá dómi ex officio.  Í ljósi þessarar niðurstöðu ber að dæma stefnendur in solidum til að greiða hvorum stefndu kr. 100.000 í málskostnað.

        Gjafsóknarkostnaður stefnenda, kr. 200.000, greiðist úr ríkissjóði.

        Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

        Málinu er vísað frá dómi ex officio.

        Stefnendur, Hrefna Kristmundsdóttir, Júlíus Jón Þorsteinsson og Elí Sigursteinn Þorsteinsson, greiði in solidum hvorum stefnda, Ríkisútvarpinu-sjónvarpi og þrotabúi Brautarholts 8 ehf. kr. 100.000 í málskostnað.

        Gjafsóknarkostnaður stefnenda, kr. 200.000, greiðist úr ríkissjóði.