Hæstiréttur íslands

Mál nr. 383/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. júlí 2007.

Nr. 383/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. c. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júlí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. ágúst 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júlí 2007.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, kt. [...], verði á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til mánudagsins 13. ágúst 2007, kl. 16:00.

Krafan er reist á ákvæðum c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Fyrir dóminum mótmælti kærði kröfu lögreglustjórans um gæsluvarðhald.    

Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að þann 6. júlí sl. hafi X að kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verið úrskurðaður af héraðsdómi Reykjaness til að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 í dag á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þessi úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 362/2007 frá 10. júlí sl.

Með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 345/2007 frá 2. júlí sl. hafi úrskurður héraðsdóms Reykjaness verið felldur úr gildi, en með þeim úrskurði var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. Liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Kærði hafi þá sætt síbrotagæslu frá 30. janúar.

Þann 12. júlí sl. hafi kærði verið dæmdur í 30 mánaða óskilorðsbundið fangelsi við héraðsdóm Reykjaness, fyrir ýmis auðgunar- og fjármunabrot, auk fíkniefna- og umferðarlagabrota sem framin hafi verið á tveggja mánaða tímabili, frá 30. nóvember 2006 til 30. janúar 2007.

Kærði hafi verið látinn laus þann 2. júlí sl. Á þeim stutta tíma sem hann hafi gengið laus eða þar til hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 6. júlí  hafi hann gerst sekur um 3 brot, þ.á.m. þjófnað, tilraun til innbrots og lyfjaakstur. Hann hafi neitað sök í þessum brotum. Kærði sé í fíkniefnaneyslu og mun hafa fjármagnað neyslu sína með auðgunarbrotum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú lokið rannsókn þessara mála og gefið út ákæru á hendur X þar sem hann sé ákærður fyrir 2 auðgunarbrot, þjófnað og tilraun til þjófnaðar, og brot á umferðarlögum, lyfjaakstur og akstur án gilds ökuskírteinis. Ákæran hafi verið send héraðsdómi Reykjaness í dag.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu telji yfirgnæfandi líkur á með vísan til hegðunar ákærða þessa daga sem hann hafi verið laus og í ljósi nýfallins dóms héraðsdóms, að hann muni halda brotastarfseminni áfram gangi hann laus. Því sé talið mikilvægt að orðið verði við kröfu embættisins. Kærði hafi nú hafið nýja brotahrinu og stöðva verði þennan afbrotaferil, því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gangi í máli hans.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

                Ljóst þykir að hann hafi hafið afbrot strax eftir að hann var laus úr síbrotagæslu 2. júlí síðastliðinn. Verður því að telja allar líkur á því að hann haldi áfram brotastarfsemi meðan máli hans er ólokið verði hann látinn laus. Þann 12. júlí síðastliðinn var hann dæmdur í 30 mánaða óskilorðsbundið fangelsi, fyrir ýmis auðgunar- og fjármunabrot, auk fíkniefna- og umferðarlagabrota. Sá dómur var birtur kærða í dag og lýsti því hann yfir að hann taki sér áfrýjunarfrest. Með vísan til þessa og þess sem fram kemur í kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er því fallist á kröfu hans eins og hún er fram sett að öðru leyti og kærða gert að sæta síbrotagæslu á grundvelli c. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991. 

                Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

          Ákærði, X, sæti gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til mánudagsins 13. ágúst 2007, kl. 16:00.