Hæstiréttur íslands
Mál nr. 248/2003
Lykilorð
- Skuldaskil
- Aðild
- Verklaun
|
|
Fimmtudaginn 15. janúar 2004. |
|
Nr. 248/2003. |
Sveinn Reynir Eyjólfsson og Auður Sigríður Eydal (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Árna Eðvaldssyni (Valgeir Kristinsson hrl.) |
Skuldaskil. Aðild. Verklaun.
Á krafði S og A um greiðslu samkvæmt munnlegum verksamningi. S og A kröfðust sýknu með vísan til þess að þau hefðu ekki verið eiginlegir viðsemjendur Á, heldur H ehf. Sönnunarbyrði fyrir því að Á hafi vitað eða mátt vita að H ehf. væri viðsemjandi hans var lögð á S og A, sem stóðu að samningsgerðinni. Sú sönnun hafði ekki tekist. Var því lagt til grundvallar að S og A hafi látið Á vinna verkið í þeirra nafni og báru þau samkvæmt því óskipta ábyrgð á greiðslu fyrir unnið verk. Engin haldbær gögn sýndu að krafa Á væri ósanngjörn og var hún tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. apríl 2003. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 28. maí 2003 og áfrýjuðu þau á ný 25. júní sama árs með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er krafist að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandinn Auður bar fyrir dómi að hún hafi séð teikningar að húsi fyrir Hekluminjasafn að Leirubakka og fylgst með gerð þeirra, þar sem hún var tilgreind sem verkkaupi ásamt áfrýjandanum Sveini. Þá er ekki ágreiningur um að hún var viðstödd fund málsaðila í byrjun desember 2001, þegar fyrst var rætt við stefnda um að hann tæki að sér að hefja verk við síðari áfanga byggingarinnar. Einnig er fram komið að hún kom oft á byggingarstað og fylgdist með framvindu fyrri hluta verksins, þar sem stefndi var byggingarstjóri, áður en hann tók að sér halda því áfram. Þegar metið er réttmæti fjárkröfu stefnda ber að hafa hliðsjón af þeirri meginreglu kröfuréttar sem nú kemur fram í lokamálslið 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Sveinn Reynir Eyjólfsson og Auður Sigríður Eydal, greiði óskipt stefnda, Árna Eðvaldssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. febrúar 2003.
Ár 2003, mánudaginn 10. febrúar, er dómþing Héraðsdóms Reykjaness háð í dómhúsinu í Hafnarfirði og upp kveðinn dómur í málinu nr. E-2526/2002: Árni Eðvaldsson gegn Sveini Reyni Eyjólfssyni og Auði Sigríði Eydal.
Málið var höfðað 2. ágúst 2002 og dómtekið 31. janúar 2003. Stefnandi er Árni Eðvaldsson, til heimilis að Spóaási 7, Hafnarfirði. Stefndu eru Sveinn Reynir Eyjólfsson og Auður Sigríður Eydal, bæði til heimilis að Kvisthaga 12, Reykjavík.
Í málinu er deilt um uppgjör samkvæmt munnlegum verksamningi og hvort kröfum stefnanda sé réttilega beint að stefndu. Upphaflega var málið einnig höfðað á hendur einkahlutafélaginu Hilmi ehf., en kröfum stefnanda á hendur félaginu var vísað frá dómi 5. nóvember 2002 á grundvelli vanreifunar. Stefndu halda því fram í málinu að Hilmir ehf. hafi gert hinn umþrætta verksamning og beri félagið eitt ábyrgð á uppgjöri gagnvart stefnanda.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu Sveinn og Auður verði dæmd óskipt til greiðslu á krónum 3.357.891 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. febrúar 2002 til greiðsludags. Þá verði þau dæmd óskipt til greiðslu málskostnaðar.
Stefndu krefjast hvort um sig aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.
I.
Stefnandi var byggingarstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum hf. (ÍAV) við fyrri áfanga verkframkvæmda við svokallað Heklusetur að Leirubakka í Landssveit, en ÍAV tók að sér að byggja umrætt mannvirki fyrir einkahlutafélagið Hilmi ehf., sem er eigandi fasteignarinnar. Stefndi Sveinn var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins og stefnda Auður varamaður í stjórn þess. Þegar framkvæmdum var að ljúka í desember 2001 innti stefndi Sveinn stefnanda eftir því hvort hann væri reiðubúinn að hefja framkvæmdir sem sjálfstæður verktaki við seinni verkáfangann, en hann laut að innréttingum og öðrum frágangi innanhúss. Í framhaldi gerði stefnandi kostnaðaráætlun er nap tæpum 46.000.000 króna, sem hann lagði fyrir stefnda Svein og Hlédísi dóttur hans, en hún var annar tveggja arkitekta Hekluseturs og fylgdist með framkvæmdum á byggingarstað og samningsgerð við ÍAV og stefnanda. Aðila greinir á um hvort bindandi samningur hafi tekist um heildarverkið, svo sem stefnandi heldur fram, eða hvort það skilyrði hafi verið sett fyrir því að stefnandi lyki verkinu í heild að samningar tækjust ekki við ÍAV um seinni áfangann. Hvað sem því líður er ljóst að munnlegur verksamningur komst á í byrjun janúar 2002 um að stefnandi hæfi verkið og lá þar til grundvallar breytt kostnaðaráætlun að fjárhæð rúmar 43.000.000 króna. Óumdeilt er að stefnandi hóf verkið 9. janúar og gekk í framhaldi eftir því að gerður væri skriflegur samningur til staðfestingar á heildarframkvæmdum. Þar sem þeirri málaleitan var ekki sinnt að mati stefnanda hætti hann verkinu að svo stöddu um mánaðamót janúar-febrúar. Á fundi með stefnda Sveini 4. febrúar var stefnanda tilkynnt að samningar hefðu náðst við ÍAV um framhald og lok verksins. Að sögn stefnanda mun stefndi Sveinn hafa sagt honum að senda ÍAV reikning fyrir þegar unnu verki. Eftir viðræður við fyrirsvarsmenn ÍAV og Hlédísi dóttur stefndu útbjó stefnandi óformlegan reikning, sem hann stílaði á stefndu og sendi að eigin sögn með tölvupósti til stefnda Sveins. Af hálfu stefndu er því mótmælt að þau hafi fengið umrætt reikningsform í hendur, en stefndi Sveinn kveðst hafa séð slíkan reikning hjá Hlédísi og strax gert athugasemdir við fjárhæð hans. Hvað sem þessu líður er óumdeilt að stefnandi framvísaði aldrei lögformlegum reikningi á hendur stefndu eða öðrum vegna verkframkvæmdanna. Meðal málsskjala er hins vegar óformlegur og ódagsettur reikningur, gerður á hendur stefndu, að fjárhæð krónur 3.640.890. Stefndu voru krafin um þá fjárhæð með bréfi lögmanns stefnanda 25. febrúar, en því bréfi var svarað með bréfi lögmanns stefndu 19. mars. Þar var því hreyft að stefndu væru ekki verkkaupar og því ekki samningsaðilar gagnvart stefnanda heldur einkahlutafélagið Hilmir ehf. Jafnframt var honum bent á að stíla reikning sinn á félagið, sem myndi greiða kröfu hans með krónum 2.679.685, þ.e. að teknu tilliti til lækkunar á nánar tilteknum verkþáttum. Urðu út af þessu frekari bréfaskriftir, sem óþarft er að rekja samhengi máls vegna, en svo fór að stefnandi lækkaði kröfu sína niður í stefnufjárhæð máls þessa, krónur 3.357.891. Fram að málshöfðun gerði hann ekki tilraun til að innheimta kröfuna hjá Hilmi ehf. Óumdeilt er að ÍAV lauk hinum umþrætta verkáfanga og gerði Hilmi ehf. reikning fyrir verkið, sem studdur var skriflegum verksamningi milli félaganna tveggja.
II.
Stefnandi og stefndu gáfu aðilaskýrslur fyrir dómi, en auk þeirra báru vitni Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Bergmann Stefánsson, sem eru eigendur EON arkitekta og hönnuðir Hekluseturs, Vilhjálmur Þorláksson byggingaverkfræðingur, sem var eftirlitsmaður með verkframkvæmdum við setrið og þeir Vignir Jóhannsson myndlistamaður og Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur, sem unnið hafa fyrir eiganda setursins, Hilmi ehf. Sjónarmiðum aðila er að nokkru lýst í I. kafla hér að framan. Verður nú vikið að framburði þeirra og annarra skýrslugjafa fyrir dómi að svo miklu leyti, sem þýðingu getur haft fyrir málsúrslit.
Stefnandi, sem er húsasmíðameistari, sagði fyrir dómi að þegar stutt hefði verið til verkloka við fyrri áfanga Hekluseturs hefði hann verið reiðubúinn að bjóða sjálfur í seinni áfangann, enda hefðu samningaviðræður dregist milli verkkaupa og ÍAV um þann áfanga. Hann hefði því tekið málið í eigin hendur og rætt við stefndu Svein og Auði þegar þau hefðu komið á staðinn einhvern tíma í byrjun desember 2001. Í framhaldi hefði Hlédís dóttir þeirra komið á vettvang og haft með sér útboðsgögn, sem hún hefði útskýrt fyrir honum. Um hefði verið að ræða magntölur og teikningar frá arkitektastofu hennar og hefðu teikningarnar allar borið með sér að stefndu væru verkkaupar. Á þeim hefði staðið hið sama og á öllum teikningum, sem unnið hefði verið eftir við fyrri verkáfangann, þ.e. „Verkkaupi: Sveinn R. Eyjólfsson/Auður Eydal“. Hvorki þá né síðar hefðu stefndu eða Hlédís minnst einu orði á að Hilmir ehf. væri verkkaupi gagnvart stefnanda, þrátt fyrir marga samninga- og verkfundi, allt fram til þess er því hefði verið hreyft á fundi einhvern tíma í febrúar 2002. Fram að þeim tíma hefði stefnandi ekki vitað um tilvist umrædds félags. Kvaðst hann því hafa verið grunlaus um annað en að stefndu væru beinir samningsaðilar hans, enda hefði stefndi Sveinn beðið hann um að gera tilboð í verkið og ávallt komið fram sem verkkaupi og eiginkona hans, stefnda Auður, verið viðstödd einhver samtöl og fundi án þess að nefna umrætt félag á nafn. Stefnanda var fyrir dómi kynnt að í útboðslýsingu vegna fyrri verkáfangans komi skýrt fram í inngangskafla að verkkaupinn sé Hilmir ehf. Hann kvaðst aldrei hafa séð nefnda útboðslýsingu í heild fyrr en eftir málshöfðun, en á meðan hann hefði verið byggingarstjóri við fyrri áfangann hefði hann fengið í hendur einhverjar slitrur úr útboðslýsingunni, þar sem nafn verkkaupans hefði ekki komið fram.
Stefndi Sveinn gat þess fyrir dómi að Hilmir ehf. hefði keypt jörðina Leirubakka árið 1989 og annast alla uppbyggingu og rekstur á staðnum frá upphafi. Framkvæmdum við Heklusetur hefði verið skipt í tvo verkáfanga og hefði stefnanda verið falið að hefja framkvæmdir við seinni áfangann til að brúa bilið í einhverjar vikur þar til samningar næðust við ÍAV um þann áfanga. Næðust þeir samningar hins vegar ekki hefði stefnanda staðið til boða að taka við verkinu í heild. Sökum þessa hefði ekki komið til álita að gera formlegan verksamning við hann fyrr en á þetta reyndi. Stefndi kvaðst aldrei hafa ábyrgst persónulega að hann myndi greiða stefnanda fyrir vinnu sína, sem reiknast hefði átt samkvæmt tímagjaldi, en hefði sagt að hann myndi sjá til þess að stefnandi fengi greitt fyrir vinnuna. Þau orð hefði hann látið falla sem framkvæmdastjóri Hilmis ehf., án þess að nefna félagið sérstaklega í því sambandi, enda hefði aldrei hvarflað að honum að stefnandi vissi ekki fyrir hvern hann væri að vinna. Aðspurður sagði stefndi ekki óeðlilegt að nafn hans og meðstefndu væri ritað á verkteikningar frá EON arkitektum og þau tilgreind þar sem verkkaupar, enda væru þau fyrirsvarsmenn Hilmis ehf., sem hefði greitt fyrir gerð teikninganna.
Stefnda Auður kvaðst fyrir dómi aldrei hafa komið að neinum samningaviðræðum við stefnanda og ekki hafa átt sérstök samskipti við hann þótt hún hefði í einhver skipti verið stödd við Heklusetur þegar hann hefði átt orðastað við meðstefnda. Hún kvaðst líta á umræddar verkteikningar sem vinnuplögg, sem hún hefði lítið skoðað og ekki greitt fyrir persónulega.
Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Bergmann Stefánsson báru fyrir dómi að þau hefðu tekið virkan þátt í hönnun Hekluseturs, fylgst með verkframkvæmdum og setið verkfundi og auk þess komið að samningaviðræðum við ÍAV og síðar stefnanda. Stefndu Sveinn og Auður hefðu verið fyrstu tengiliðir þeirra við verkhönnunina og þess vegna hefðu nöfn þeirra, venju samkvæmt, verið skráð sem verkkaupar á allar teikningar. Allir reikningar fyrir þjónustu EON arkitekta hefðu hins vegar stílaðir á Hilmi ehf. og greiddir af félaginu, sem verið hefði hinn raunverulegi verkkaupi. Hlédís kvaðst aldrei hafa látið þess sérstaklega getið í viðræðum sínum við stefnanda að Hilmir ehf. væri verkkaupi, enda hefði ekki hvarflað að henni að stefnandi vissi það ekki.
Vilhjálmur Þorláksson bar fyrir dómi að hann hefði annast burðarþolskönnun vegna Hekluseturs, séð um gerð útboðsgagna og verið eftirlitsmaður verkkaupa, Hilmis ehf., á byggingarstað. Hann kvaðst hafa setið verkfundi með stefnanda og yfirmönnum hans hjá ÍAV og hefðu arkitektarnir Hlédís og Gunnar oft verið viðstaddir. Fundargerðir hefðu verið haldnar og þær sendar ÍAV, arkitektunum og stefnda Sveini. Vilhjálmur kvaðst ekki vita til þess að stefnandi hefði haft aðgang að útboðslýsingu þeirri, sem gerð hefði verið vegna fyrri verkáfangans.
Vignir Jóhannsson bar fyrir dómi að hann hefði unnið sem hönnuður við uppsetningu sýningar í Heklusetri. Hugmyndin að sýningunni hefði komið frá Ara Trausta Guðmundssyni jarðeðlisfræðingi, en í framhaldi hefðu arkitektar setursins haft samband í júlí-ágúst 2001 og undirbúningsvinna farið af stað. Vignir kvað ekki hafa komið sérstaklega til tals á fyrstu samráðsfundum hver verkkaupinn væri að sýningunni, en arkitektarnir hefðu tekið fram að þeir væru það ekki. Hann hefði á síðari stigum rætt við stefnda Svein vegna málsins og hefði Sveinn einhverju sinni sagt honum að senda reikning fyrir þjónustu sína til Hilmis ehf., sem væri verkkaupi. Vignir staðfesti fyrir dómi framlagðan reikning á hendur félaginu, sem lýtur að greiðslu fyrir hönnun og listræna ráðgjöf vegna Hekluseturs á tímabilinu frá 11. apríl til 4. júní 2002. Hann kvað þetta líklega vera eina reikninginn, sem hann hefði gert vegna þjónustu sinnar.
Ari Trausti Guðmundsson bar fyrir dómi að hann hefði komið að hönnun safnahúss og ráðgjöf við Heklusetur. Fyrstu samskipti hans hefðu verið við stefndu Svein og Auði og því hefði hann gert ráð fyrir að hann væri að vinna fyrir þau. Ekkert hefði verið minnst á nafn Hilmis ehf. í þessu sambandi. Hann hefði því stílað reikninga frá sér á Heklusetur eða Hekluhof „c/o Sveinn R. Eyjólfsson“, en greiðslur hefðu síðan borist frá Hilmi ehf.
III.
Stefnandi reisir kröfugerð sína á því að hann hafi tekið að sér að vinna tiltekið verk við Heklusetur og ekki fengið greitt fyrir það. Verkið hafi hann unnið að beiðni stefndu Sveins og Auðar og er á því byggt að þau séu viðsemjendur hans, en ekki einkahlutafélagið Hilmir ehf. Stefndu hafi frá upphafi komið fram gagnvart honum sem viðsemjendur og hafi hann því mátt ætla að þau væru einkaeigendur Hekluseturs og jarðarinnar Leirubakka, enda hafi allar teikningar af setrinu, sem stefndu hafi kynnt honum og hann unnið verkið eftir, verið rækilega merktar stefndu sem verkkaupum. Teikningarnar hafi og verið hannaðar af dóttur stefndu, Hlédísi Sveinsdóttur arkitekt og hafi hún ítrekað komið fram gagnvart honum, sem stjórnandi verksins fyrir hönd verkkaupa. Ekkert þeirra hafi gert tilraun til að leiðrétta ætlaðan misskilning þrátt fyrir mikil samskipti og samvinnu um margra mánaða skeið og þau aldrei minnst einu orði á að Hilmir ehf. væri eigandi setursins og verkkaupi í málinu. Stefndu verði að bera hallann af þessu, en umrædd mótbára hafi fyrst verið höfð uppi í bréfi lögmanns þeirra frá 19. mars 2002. Fram að þeim tíma hafi stefnandi ekki haft hugmynd um tilvist félagsins. Stefnandi bendir á í þessu sambandi að það hafi verið algjör forsenda fyrir verksamningsgerð af hans hálfu að stefndu væru viðsemjendur hans persónulega.
Í ljósi framanritaðs telur stefnandi að honum hafi verið rétt að beina reikningi sínum fyrir unnið verk til stefndu persónulega og beri þeim að greiða umkrafða fjárhæð, enda sé krafan sundurliðuð og byggð á kostnaðaráætlun, sem stefndu hafi verið kynnt og þau gert ýmsar athugasemdir við. Í framhaldi hafi hann gert nýja og lægri kostnaðaráætlun, sem ekki hafi verið mótmælt fyrr en í bréfi lögmanns þeirra 19. mars 2002. Verði því að telja að bindandi samkomulag hafi tekist um einstaka kostnaðarliði verksins. Stefnandi hafi engu að síður tekið tillit til síðbúðinna athugasemda stefndu og lækkað kröfuna úr krónum 3.640.890 í krónur 3.357.891, sem sé stefnufjárhæð í málinu. Þar sem stefndu hafi ekki sýnt fram á að fjárhæð kröfunnar sé röng eða hún bersýnilega ósanngjörn beri að taka hana að fullu til greina.
Stefnandi byggir enn fremur á því að stefndu séu stjórnarmenn í Hilmi ehf. og beri ábyrgð og skyldur samkvæmt því. Þeim hafi því borið að tryggja gagnvart stefnanda að verkteikningar væru réttilega merktar raunverulegum verkkaupa. Jafnframt verði þau að bera sönnunarbyrði fyrir því að nöfn þeirra hafi verið sett á allar teikningar án vitundar og vilja þeirra, en stefnandi telur slíkt afar ótrúverðugt. Þá verði að líta til skyldna þeirra sem stjórnenda félagsins til að kynna sér jafn stórar framkvæmdir og um hafi verið að ræða, ekki síst í ljósi þess hve náin tengsl hafi verið milli stefndu og félagsins.
Loks byggir stefnandi á því að stefndi Sveinn hafi margoft lýst því yfir að hann myndi sjá um uppgjör við stefnanda og liggi meðal annars fyrir ábyrgðaryfirlýsing í bréfi lögmanns hans frá 19. mars 2002, sem sé skuldbindandi fyrir stefnda.
Um lagarök er í stefnu vísað til „þeirra meginreglna sem gilda á sviði samninga- og kröfuréttar innan sem utan samninga.“
IV.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að dómkröfum stefnanda sé ranglega að þeim beint. Einkahlutafélagið Hilmir ehf. sé réttur aðili að málinu og hafi félagið ítrekað viðurkennt greiðsluskyldu sína gagnvart stefnanda. Stefndu beri fráleitt persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins, þó svo að stefndi sé þar stjórnarmaður og stefnda Auður í varastjórn. Telja stefndu að stefnandi hafi vitað eða mátt vita þegar hann tók að sér umrætt verk að það yrði unnið í þágu sama verkkaupa og hann hefði áður þjónustað sem byggingarstjóri fyrir ÍAV á sama verkstað. Hafi stefnandi viljað áskilja sér persónulega ábyrgð einhvers á verkinu hafi honum mátt vera ljóst að til slíkrar ábyrgðar myndi aðeins stofnast með beinni yfirlýsingu viðkomandi aðila. Er því mótmælt að stefndu hafi í orði eða verki tekið á sig persónulega ábyrgð á greiðslum fyrir verk stefnanda. Nafngreining fyrirsvarsmanna Hilmis ehf. á teikningum eða öðrum gögnum, sem unnin hafi verið af arkitektum, geti þar ekki skipt neinu máli, enda geti arkitektar ekki lagt persónulega fjárhagsábyrgð á hluthafa í einkahlutafélögum, sem þeir vinni fyrir. Benda stefndu hér á að í áritun arkitektanna felist ekki annað en tilgreining á þeim einstaklingum, sem verið hafi í fyrirsvari fyrir viðkomandi verkkaupa og hafi sú tilgreining ekki átt að gefa til kynna hver myndi verða verkkaupi í lögfræðilegum skilningi þess orðs.
Stefnda Auður mótmælir því sérstaklega og telur fráleitt að það geti leitt til persónulegrar ábyrgðar hennar á skuld Hilmis ehf. við stefnanda að hún hafi verið varastjórnarmaður í félaginu. Málsútlistun stefnanda um þetta atriði og um skyldur varastjórnarmanna í félagi eins og Hilmi ehf. sé gjörsamlega út í bláinn og hafi hvorki stoð í lögum né dómaframkvæmd.
Með framangreind atriði í huga telja stefndu hvort um sig að sýkna beri þau í málinu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Komist dómur hins vegar að því að stefndu beri persónulega ábyrgð á greiðslum fyrir umrætt verk krefjast þau þess hvort um sig að stefnukrafan verði lækkuð, en rétt fjárhæð hennar sé krónur 2.679.685, svo sem rökstutt hafi verið í bréfi lögmanns þeirra frá 19. mars 2002. Þá mótmæla stefndu vaxtakröfu stefnanda, sem virðist miða við dagsetningu innheimtubréfs lögmanns hans, en dómkrafan geti aldrei borið dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi mánuði eftir að formleg krafa hafi verið gerð um greiðslu hennar.
V.
Ágreiningur í málinu lýtur annars vegar að því hvort stefndu séu hinir eiginlegu viðsemjendur stefnanda um það verk, sem hann vann við seinni áfanga Hekluseturs í janúar 2002 og beri því persónulega ábyrgð sem verkkaupar á greiðslum fyrir verkið, en ekki einkahlutafélagið Hilmir ehf., sem er skráður eigandi fasteignarinnar. Ræðst aðild í málinu af úrlausn þessa atriðis. Hins vegar er deilt um greiðslu fyrir verkið, en líta verður svo á að stefndu hafi samþykkt fyrir sitt leyti að rétt fjárhæð kröfu stefnanda sé krónur 2.679.685. Nemur því tölulegur ágreiningur í málinu krónum 678.206.
Við úrlausn fyrrnefnds atriðis ber að líta til þess að stefndi Sveinn bauð stefnanda að hefja framkvæmdir við seinni verkáfangann í kjölfar þess að stefnandi hafði unnið sem byggingarstjóri hjá ÍAV við fyrri áfangann. Í því starfi bar stefnandi meðal annars ábyrgð á því að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti. Óumdeilt er í málinu að allir uppdrættir sem stefnandi vann með, fyrst sem byggingarstjóri og síðar sem sjálfstæður verktaki, báru með sér að verkkaupar væru stefndu Sveinn og Auður. Stefndi Sveinn kom fram sem viðsemjandi gagnvart stefnanda og naut þar aðstoðar Hlédísar dóttur sinnar, sem var annar tveggja hönnuða Hekluseturs og bar ábyrgð á gerð allra uppdrátta. Hvorugt þeirra taldi ástæðu til að upplýsa stefnanda fyrirfram að Hilmir ehf. væri viðsemjandi hans og verkkaupi í málinu. Þótt fallist sé á með stefndu að tilgreining hönnuða á uppdrætti á því hver sé verkkaupi geti ein sér ekki fellt ábyrgð á viðkomandi verður að hafa í huga að stefndi Sveinn var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Hilmis ehf. Bar honum í ljósi stöðu sinnar að upplýsa stefnanda sérstaklega um það að uppdrættir væru ranglega merktir honum og meðstefndu Auði sem verkkaupum og að félagið væri hinn eiginlegi verkkaupi og viðsemjandi gagnvart stefnanda. Stefnandi hafði á greindum tíma verið starfsmaður ÍAV í um það bil 20 ár og hafði samkvæmt framansögðu litla eða enga ástæðu til að ætla annað en að stefndi Sveinn kæmi fram í eigin nafni og meðstefndu. Sem fyrr segir tókst munnlegur samningur um verkið, ólíkt því sem verið hafði um fyrri áfangann milli ÍAV og Hilmis ehf. Í útboðslýsingu fyrir þann áfanga kemur fram á einum stað, í upphafi útboðslýsingar, grein 0.1.1, að Hilmir ehf. sé verkkaupi. Stefnandi fullyrðir að hann hafi í starfi sínu sem byggingarstjóri aldrei fengið í hendur nefnda útboðslýsingu, heldur aðeins séð einhverjar slitrur úr henni eftir því sem verkið vannst. Fær sú staðhæfing stoð í vitnisburði Vilhjálms Þorlákssonar byggingaverkfræðings, sem var eftirlitsmaður verkkaupa á byggingarstað, en Vilhjálmur bar fyrir dómi að hann vissi ekki til þess að stefnandi hefði haft aðgang að útboðslýsingunni. Þegar framangreind atriði eru virt og litið er til vitnisburðar Vignis Jóhannssonar fyrir dómi um að stefndi Sveinn hafi ekki upplýst hann um hver væri verkkaupi gagnvart honum fyrr en komið var að reikningsgerð fyrir þjónustu vitnisins, sem og vættis Ara Trausta Guðmundssonar, sem bar fyrir dómi að hann hefði talið stefndu Svein og Auði vera viðsemjendur sína og hefði stílað reikning fyrir sína þjónustu á stefnda Svein, telur dómurinn óhikað að leggja verði á stefndu Svein og Auði sönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi vitað eða mátt vita að Hilmir ehf. væri viðsemjandi hans. Sú sönnun hefur ekki tekist. Ber því að leggja til grundvallar í málinu að stefndu hafi látið stefnanda vinna hið umþrætta verk í þeirra nafni og bera þau samkvæmt því óskipta ábyrgð á greiðslu fyrir unnið verk.
Kemur þá næst til álita hvort verða eigi við stefnukröfu óbreyttri eða hvort réttmætt sé að lækka fjárhæð hennar til samræmis við varakröfu stefndu. Ber í því sambandi að taka mið af meginreglu 5. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem hér gildir, en samkvæmt henni ber kaupanda, þegar ekki hefur verið fastákveðið hæð kaupverðs, að greiða það verð sem seljandi heimtar, ef ekki verður að telja það ósanngjarnt. Hvílir sönnunarbyrði fyrir því að svo sé á stefndu. Í greinargerðum þeirra hvors um sig var áskilinn réttur til að dómkveðja sérfróða matsmenn til að meta rétta fjárhæð unnins verks. Þessa úrræðis var ekki neytt og liggja því engin haldbær gögn fyrir um að krafa stefnanda sé ósanngjörn. Gegn mótmælum stefnanda við varakröfunni ber því að dæma stefndu óskipt til að greiða honum krónur 3.357.891. Skal sú fjárhæð bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, að liðnum einum mánuði frá dagsetningu innheimtubréfs lögmanns stefnanda, þ.e. frá 25. mars 2002 til greiðsludags.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum er ljóst að stefndu hafa tapað málinu að öllu leyti í skilningi 130. gr. og ber því til samræmis að dæma þau óskipt til greiðslu málskostnaðar. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls þykir sá kostnaður hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Dómurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Sveinn Reynir Eyjólfsson og Auður Sigríður Eydal, greiði stefnanda, Árna Eðvaldssyni, óskipt krónur 3.357.891 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2002 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 300.000 krónur í málskostnað.